Hoppa yfir valmynd

mÁL NR. 103/2023-Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 103/2023

Föstudaginn 26. maí 2023

A

gegn

Barnaverndarþjónustu B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 20. febrúar 2023, kærði C, lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Umdæmisráðs barnaverndar í E frá 16. febrúar 2023 vegna umgengni sonar kæranda, D, við móðurforeldra.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er X ára gamall. Kærandi er faðir drengsins og fer með forsjá hans ásamt móður drengsins.

Drengurinn bjó hjá foreldrum sínum til X ára aldurs. Í kjölfar tilkynninga um heimilisofbeldi sem barnið varð vitni að og grunsemda um vímuefnaneyslu móður var hann vistaður utan heimilis hjá föðurbróður sínum frá júní 2019 til september 2020. Drengurinn flutti aftur til foreldra sinna eftir vistun en þau slitu samvistir vorið 2021. Móðir flutti þá með drenginn í annað sveitarfélag þar sem hún á dóttur og drengurinn fór þar í leikskóla. Drengurinn bjó einnig á heimili föðurbróður og föður. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanna barnaverndar tókst ekki að fá móður til samvinnu. Drengurinn var aftur vistaður utan heimilis hjá föðurbróður frá janúar 2022 til júní 2022. Í kjölfar vistunar hjá föðurbróður sínum var ákveðið að drengurinn skyldi vistaður á heimili föður til 31. mars 2023. 

Móðurforeldrar drengsins óskuðu eftir umgengni við drenginn í þrjá sólahringa í febrúar og aðra þrjá í marsmánuði 2023.

Mál drengsins vegna umgengni við móðurforeldra á tímabili vistunar var tekið fyrir á fundi meðferðarteymis Barnaverndarþjónustu B þann 27. janúar 2023 sem lagði til að beiðni móðurforeldra um umgengni við drenginn yrði samþykkt. Kærandi var ekki samþykkur að umgengni yrði með þessum hætti og var málið því tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Umdæmisráð ákveður að drengurinn, A, eigi umgengni við móðurforeldra sína í eitt skipti í febrúar og eitt skipti í mars, í þrjá sólahringa hvort skipti.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 20. febrúar 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. febrúar 2023, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarþjónustu B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarþjónustu B barst með bréfi, dags. 8. mars 2023, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2023 var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust með tölvupósti 3. apríl 2023 og voru þær sendar Barnaverndarþjónustu B til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. apríl 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi eða breytt miðað við tillögur kæranda í ljósi þess hvað telja verður best fyrir barnið.

Kærandi telur þrjá sólarhringa of langan dvalartíma drengsins í fyrsta sinn í umgengni, sérstaklega í ljósi þess að drengnum leið illa eftir síðustu umgengni við móðurforeldra sína, pissaði undir eftir það og sýndi ýmis merki vanlíðanar.

Kærandi kveðst vilja stuðla að því að viðhalda tengslum móðurforeldra og drengsins og sjái ekkert því til fyrirstöðu að drengurinn geti dvalið svo lengi hjá móðurforeldrum eftir að hafa verið þar að minnsta kosti í eitt skipti áður, en helst í tvö skipti.

Best væri ef umgengni gæti fyrst farið fram á höfuðborgarsvæðinu í einn dag og síðan gæti drengurinn farið norður í næsta skipti og þá gist eina nótt og því næst í tvær nætur í næsta skipti þar á eftir. Í sumar gæti hann verið þar jafnvel í viku ef vel gengur. Það sé alls ekki stefnan að hindra umgengni og tengsl, heldur sé kærandi að hugsa um að fara varlega í sakirnar því að drengurinn sé viðkvæmur og hafi sýnt vanlíðan eftir umgengni við móður og eftir síðustu umgengni fyrir norðan.

Kærandi miði tillögu um umgengni við hvað telja verði best fyrir barnið og vísar hann til skýrslu talsmanns.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að síðasta umgengni drengsins hafi ekki gengið vel og kæranda gruni að móðir drengsins sé á heimilinu og mögulega í virkri neyslu. Þá vísar kærandi til skýrslu talmanns þar sem fram komi að drengurinn vilji gera hlé á því að hitta móður sína en kærandi telji þessa umgengni vera dulbúna umgengni við móður. Þá telji kærandi að það sé orðum aukið hversu mikið drengurinn hafi umgengist móðurforeldra í gegnum tíðina.

Í athugasemdum lögmanns kæranda, dags. 31. mars 2023, við greinargerð Barnaverndarþjónustu B kemur fram að sú staða hafi komið upp í málinu að þegar drengurinn hafi átt að fara til móðurforeldra í umgengni hafi hann sagst alls ekki vilja fara til ömmu sinnar og afa og viljað vera heima. Lögmaðurinn bendir á að talsmanni drengsins sé velkomið að ræða við drenginn til að sannreyna þennan vilja drengsins. Þá sé það ekki rétt að kærandi sé mótfallinn umgengni drengsins við móðurforeldra. Hann hafi hins vegar áhyggjur af því að þetta geti reynst of langur tími fyrir drenginn í fyrstu umgengni og aðlögun væri því betri með styttri umgengni fyrst og umgengnin síðan lengd. Þetta sjónarmið kæranda hafi ítrekað komið fram á fundum með [Barnaverndarþjónustu B] og því sé ekki rétt greint frá skoðun kæranda í gögnum frá barnavernd og sé þess óskað að tekið sé tillit til þess við afgreiðslu málsins. Þetta hafi einnig verið áréttað á fundi umdæmisráðs.- Barnaverndarþjónustu B.

Hvort drengurinn vilji ekki fara aftur til móðurforeldra núna því að umgengni hafi verið of löng síðast sé ekki vitað en hann neiti alfarið að fara til þeirra núna og ekki sé hægt að neyða barnið til að fara. Vilja barnsins verði að virða.   

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarþjónustu B

Barnaverndarþjónusta B gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður um umgengni við móðurforeldra frá 16. febrúar 2023 verði staðfestur.

Fram kemur að um x ára aldur hafi drengurinn verið vistaður utan heimilis vegna fíknivanda foreldra sinna., Hann bjó þá hjá föðurbróður sínum fram í september 2020 en flutti síðan til foreldra sinna þar til þau skildu að skiptum vorið 2021. Eftir það bjó hann ýmist hjá móður eða hjá kæranda og föðurbróður sem þá héldu heimili saman. Aftur hafi hann verið vistaður hjá föðurbróður sínum frá janúar fram í júní 2022 og hefur eftir það verið vistaður tímabundið hjá föður sínum og stjúpu fram til loka mars 2023.

Móðurforeldrar drengsins séu bændur norður í landi og býr dóttir þeirra, móðir drengsins, hjá þeim með hléum. Umgengni drengsins við móður sína hefur verið ákveðin tvisvar í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti barnaverndar og sé umgengni skilyrt því að móðir skili hreinum fíkniefnaprufum fyrir hverja umgengni. Umgengni hafi iðulega fallið niður þar sem misbrestur hafi verið á því að móðir hafi skilað hreinum prufum eða að hún hafi ekki mætt í umgengni. Þegar þetta sé ritað hafi drengurinn ekki hitt móður sína frá því í desember síðastliðnum.

Móðurforeldrar hafi farið fram á að fá umgengni við drenginn í ágúst síðastliðið sumar og fór hann til þeirra í tvo sólarhringa og í kjölfarið fóru þau fram á að drengurinn kæmi til þeirra aftur og yrði hjá þeim í viku. Beiðni þeirra var til umfjöllunar á meðferðarfundi barnavemdar í ágúst 2022 og var niðurstaða fundarins sú að umgengni skyldi vara í þrjá sólarhringa í ágúst en vegna andstöðu föður og stjúpu hafi verið ákveðið að koma til móts við kröfur þeirra og stytta umgengni um einn sólarhring. Varð það úr að drengurinn fór til afa síns og ömmu eina helgi í ágústmánuði.

Kærandi og sambýliskona hans hafi verið mjög ósátt við að drengurinn færi í umgengni til afa síns og ömmu, vildu alls ekki að hann gisti hjá þeim og héldu því fram að amma drengsins hefði beitt böm sín ofbeldi. Það skal tekið fram að móðurforeldrarnir hafa lengi starfað sem fósturforeldrar og hefur heimili þeirra sætt úttekt frá Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV). Kvaðst kærandi vera tilbúinn til að leyfa umgengni með aðlögun, einn dag í senn tvisvar sinnum og síðan yfir helgi, ef vel gengi og í sumar gæti hann dvalið lengur hjá þeim. Kröfur kæranda séu nú með svipuðum hætti.

Beiðni móðurforeldra hafi verið lögð fyrir meðferðarfund barnaverndar á ný þann 27. janúar 2023 og þá verið samþykkt svohljóðandi bókun:

„...Meðferðarfundur leggur áherslu á rétt drengsins til að umgangast nána ættingja sína, og leggur til að umgengnissamningur verði gerður við móðurforeldra um umgengni einu sinni í mánuði í þrjá sólarhringa í senn yfir helgi. Málið verði lagt fyrir umdæmisráð barnaverndar til ákvörðunar ef ekki næst samkomulag. Umgengni við móður verði með sama hætti og áður.“

Drengnum hafi verið skipaður talsmaður áður en ákvörðun um umgengni var tekin sem skilaði skýrslu, dags. 15. janúar 2023. Í skýrslu talsmanns segir meðal annars:

„A var spurður um viðhorf hans til þess að fara til móðurforeldra í F. Í máli drengsins kom fram að hann hafi verið hjá þeim sl. sumar og hafi honum þótt gaman að vera hjá þeim í sveitinni og þau hafi verið góð við hann. Aðspurður sagðist A hafa gaman af því að vera hjá þeim en honum leiddist að fara til þeirra því það væri svo langt að fara. En hann gæti vel hugsað sér að vera hjá þeim í nokkra daga.“

Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni drengsins við móðurforeldra hafi málið verið lagt fyrir umdæmisráð barnaverndar sem kvað upp úrskurð í málinu.

Drengurinn A er í tímabundinni vistun hjá föður sínum og stjúpu vegna fíknivandamála móður. Hann hefur á stuttri ævi sinni margsinnis verið vistaður utan heimilis, bæði sameiginlegs heimilis foreldra á sínum tíma og síðar á heimili móður. Móðurforeldrar hans séu bændur í F og hafa iðulega tekið börn í fóstur á vegum barnaverndarnefnda. Drengurinn sé mjög tengdur afa sínum og ömmu og hafi umgengist þau reglulega frá fæðingu, eða allt þar til hann var vistaður hjá föður sínum í júní á síðasta ári. Ekki verður séð að nauðsynlegt sé að hann verði í aðlögun á heimili þar sem hann þekkir vel til og hefur oftsinnis dvalið á, eins og kærandi gerir kröfu um.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl) á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best, en í barnaverndarstarfí gildir almennt sú meginregla að hagsmunir

barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Það séu því hagsmunir drengsins sem ráða eiga mestu um niðurstöðu þessa máls. Þá þurfi að gæta þess við ákvörðun um umgengni að hún sé í samræmi við markmiðin með fóstri og verður meðal annars að líta til þess hve lengi fóstri er ætlað að vara. Drengurinn sé aðeins vistaður hjá föður sínum til 31. mars 2023 og taki úrskurður um umgengni mið af því. Engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort vistun verði áfram utan heimilis móður eða annars staðar. Kröfur kæranda um aðlögun að umgengni og hugsanlega umgengni í sumar eiga því ekki við.

Fyrir liggur að drengurinn hafi alla sína ævi haft náin tengsl við móðurforeldra sína og oft dvalið hjá þeim í sveitinni. Ekki verður séð að nein rök hnígi að því eða að það þjóni hagsmunum hans að takmarka umgengni hans við afa sinn og ömmu á meðan hann er í tímabundinni vistun hjá föður sínum. Hann fór í umgengni til móðurforeldra sinna í þrjá daga í febrúar eftir að úrskurður umdæmisráðs var kveðinn upp og gekk sú umgengni eins og best verður á kosið. Að sögn afa hans og ömmu óskaði drengurinn bæði eftir að fá að vera lengur og að koma fljótt aftur.

Með hliðsjón af ofanrituðu er það álit Barnaverndarþjónustu B að það séu skýrir hagsmunir drengsins að hann fái að njóta samvista við móðurforeldra sína.

IV.  Sjónarmið drengsins

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins, dags. 15. janúar 2023, sem meðal annars ræddi við drenginn um umgengni við móðurforeldra.

Um viðhorf drengsins til þess að fara til móðurforeldra kom fram í máli hans að hann hefði verið þeim síðastliðið sumar og hafi honum þótt gaman að vera hjá þeim í sveitinni og þau hafi verið góð við hann. Aðspurður sagðist drengurinn hafa gaman af því að vera hjá þeim en honum leiddist að fara til þeirra því að það væri svo langt að fara. En hann gæti vel hugsað sér að vera hjá þeim í nokkra daga.

V.  Niðurstaða

Drengurinn A. Kærandi er faðir drengsins.

Með hinum kærða úrskurði frá 16. febrúar 2023 var ákveðið að umgengni drengsins við móðurforeldra skyldi vera einu sinni í febrúar 2023 og eitt skipti í mars 2023, þrjá sólarhringa í hvert skipti.

Kærandi krefst þess hinn kærði úrskurður um umgengni verði felldur úr gildi eða breytt miðað við tillögur kæranda í ljósi þess hvað telja verði best fyrir barnið.

Varðandi kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin kveði á um breytta umgengni bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. bvl. á barn sem vistað er á heimili eða stofnun samkvæmt 79. gr. bvl. rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með vistun. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd leitast við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja, að teknu tilliti til þeirra reglna sem gilda á viðkomandi heimili eða stofnun. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við móðurforeldra sína á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við móðurforeldra sína. Í skýrslu talsmanns kemur fram að hann vilji heimsækja móðurforeldra og vera hjá þeim í nokkra daga. Önnur gögn málsins benda til þess að það sé drengnum til hagsbóta að eiga umgengni við móðurforeldra sína.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á þau framangreind sjónarmið Umdæmisráðs barnaverndar í E að það séu hagsmunir drengsins að hann fái að njóta samvista við móðurforeldra sína á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til vilja drengsins á þeim tíma er ákvörðun var tekin, tengsla hans við móðurforeldra og þeirrar stöðu sem drengurinn var í samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og lýst er hér að framan.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að umgengni drengsins við móðurforeldra hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 81. gr. bvl. þegar umgengni barns í vistun við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Umdæmisráðs barnaverndar í E er varðar umgengni drengsins við móðurforeldra sína.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Umdæmisráðs barnaverndar í E frá 16. febrúar 2023 varðandi umgengni A, við móðurforeldra, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum