Hoppa yfir valmynd

934/2020. Úrskurður frá 20. október 2020

Úrskurður

Hinn 20. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 934/2020 í máli ÚNU 20070007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 6. júlí 2020, kærði A afgreiðslu Barnaverndarstofu á beiðni hans um aðgang að gögnum.

Með erindi til Barnaverndarstofu, dags. 10. júní 2020, óskaði kærandi eftir því að fá afhent gögn sem til væru hjá stofnuninni varðandi hann og son hans. Erindi kæranda var svarað þann 30. júní 2020 og honum afhent afrit af tölvupóstsamskiptum stofnunarinnar við utanríkisráðuneytið, dags. 6.-10. janúar 2020, vegna máls kæranda og sonar hans, ásamt fundargerð vegna fundar Barnaverndarstofu og utanríkisráðuneytisins, dags. 7. janúar 2020, vegna málsins.

Í kæru segir að kærandi telji, miðað við orðalag í svarbréfi Barnaverndarstofu, að það séu einhver fleiri gögn sem hann hafi ekki enn fengið aðgang að. Því krefjist hann þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál athugi hvort að hann hafi örugglega fengið öll gögnin.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Barnaverndarstofu með bréfi, dags. 8. júlí 2020, og henni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Barnaverndarstofu, dags. 31. júlí 2020, segir að kæranda hafi verið afhent öll fyrirliggjandi gögn hjá stofnuninni sem varði mál hans og sonar hans, þ.e. tölvupóstsamskipti og fundargerð. Þannig sé ekki um að ræða synjun um aðgang að neinum gögnum. Hins vegar hafi í bréfi stofnunarinnar til kæranda verið upplýst um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Um sé að ræða staðlaðan texta sem hefði í þessu tilfelli verið óþarfur og stofnunin muni endurskoða verklag sitt að þessu leyti. Þá voru gögn málsins afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Barnaverndarstofu á beiðni kæranda um gögn sem varða hann sjálfan og son hans. Í svari Barnaverndarstofu við beiðni kæranda var kæranda bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en í umsögn stofnunarinnar vegna kærunnar kemur fram að þar hafi verið um mistök að ræða enda hafi í reynd ekki verið um að ræða synjun á beiðni um aðgang að gögnum.

Af 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er.

Í ljósi gagna málsins og skýringa Barnaverndarstofu hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að öll fyrirliggjandi gögn sem varða mál kæranda hjá Barnaverndarstofu hafi þegar verið afhent honum. Þannig er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 6. júlí 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira