Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 8. nóvember 2019
í máli nr. 26/2019:
Öryggismiðstöð Íslands hf.
gegn
Framkvæmdasýslu ríkisins og
Ríkiskaupum

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 11. október 2019 kærir Öryggismiðstöð Íslands hf. örútboð Ríkiskaupa f.h. Framkvæmdasýslu ríkisins (hér eftir vísað sameiginlega til sem varnaraðila) á búnaði fyrir hjúkrunarheimili á Sléttuvegi í Reykjavík, sem efnt var til á grundvelli rammasamnings nr. 20674. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi um stundarsakir innkaupaferli varnaraðila þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þess er einnig krafist að nefndin felli úr gildi ákvörðun kaupanda 11. október 2019 um að hafna tilboði kæranda í hinu kærða útboði. Jafnframt er gerð krafa um að kæruefnd láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva hið kærða útboð um stundarsakir.

Í ágúst 2019 stóðu varnaraðilar fyrir örútboði þar sem óskað var tilboða í búnað fyrir hjúkrunarheimili á Sléttuvegi í Reykjavík. Útboðið fór fram á grundvelli rammasamnings nr. 20674 um búnað fyrir hjúkrunarheimili. Í skilmálum rammasamningsins var gert ráð fyrir að bjóðendur gætu boðið vörur í fimm flokkum, meðal annars sjúkrarúm og fylgihluti, og skyldu innkaup einungis fara fram með örútboðum. Þá kom fram að vörur bjóðenda skyldu vera CE merktar og skyldu bjóðendur vera viðbúnir að staðfesta það. Í rammasamningsútboðinu var ekki farið fram á vottanir vara en áskilinn var réttur til að kalla eftir viðeigandi gögnum um boðnar vörur. Í hinu kærða örútboði var óskað tilboða í sjúkrarúm og fylgihluti í 11 liðum, meðal annars í rafknúin hjúkrunarrúm með hliðargrindum og dýnum, náttborð án hliðarborðs, gálga og framlengingu á rúmum og dýnum. Í skilmálum örútboðsins kom meðal annars fram að með tilboðum skyldu fylgja myndir af boðnum vörum ásamt tæknilegum upplýsingum sem skyldu vera á íslensku. Jafnframt var tekið fram að varnaraðilar áskildu sér rétt til að vísa tilboði frá sem ekki hefði umbeðnar upplýsingar um boðnar vörur. Einnig skyldu bjóðendur vísa á stað á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt væri að skoða þann búnað sem boðinn væri til þess að kaupandi gæti sannreynt tækniupplýsingar. Þá kom fram að verkkaupi myndi taka lægsta gilda tilboði í hvern lið útboðsins, en þó skyldu liðir vegna rafknúinna hjúkrunarrúma, náttborða, gálga og framlenginga á rúmi og dýnu metnir saman. Með örútboðsgögnum fylgdi kröfulýsing þar sem gerð var nánari grein fyrir kröfum til boðins búnaðar. Þar kom meðal annars fram að rúm skyldu hafa 225 kg lágmarksburðargetu og þola að minnsta kosti 190 kg manneskju. Þá skyldi „rafknúin hækkun/lækkun leguflatar“ vera „ca. 25-80 cm (+/- 5 cm) þ.e.a.s. lægsta staða þarf að vera 25 cm og hæsta ekki undir 80 cm.“ Af fyrirspurn varnaraðila til kæranda 25. september 2019 verður ráðið að varnaraðilar hafi talið að í þessari kröfu hafi falist að lægsta staða leguflatar rúms skyldi að lágmarki vera á bilinu 20-30 cm. Þá voru meðal annars gerðar þær kröfur til almennra dýna í hjúkrunarrúmum að með þeim skyldu fylgja klínískar staðfestingar um þrýstijafnandi eiginleika frá viðurkenndum vottunaraðila auk þess sem þær skyldu uppfylla ýmsa ISO staðla og vera CE merktar. Þá skyldi vera hægt að þvo áklæði þeirra á 95 gráðum. Þá var kveðið á um að náttborð án hliðarborðs skyldu vera 50x50x75 cm að stærð, með 5 cm fráviksmörkum.

Opnun tilboða fór fram 17. september 2019 og bárust tilboð frá sex bjóðendum í rafknúin hjúkrunarrúm, náttborð, gálga og framlengingar á rúmi og dýnu. Var tilboð kæranda lægst að fjárhæð. Þann 25. september 2019 óskuðu varnaraðilar eftir frekari upplýsingum frá kæranda sem vörðuðu mat á því hvort þær vörur sem hann bauð fullnægðu kröfum örútboðsins, og bárust svör kæranda daginn eftir. Með bréfi 1. október sama ár óskuðu varnaraðilar eftir að fá að skoða þau rúm og náttborð sem kærandi bauð og fór sú skoðun fram 9. október 2019. Með tölvupósti varnaraðila 10. október 2019 var kærandi upplýstur um að tilboði hans í örútboðinu hefði verið hafnað þar sem það uppfyllti ekki þær kröfur sem fram kæmu í kröfulýsingu útboðsins. Hvað varðar rúm, náttborð og framlengingar kom fram að ekki væri fallist á að heimilt væri að sérsmíða rúm og náttborð þar sem ekki væri hægt að koma við skoðun og sannreyna upplýsingar þessar vörur. Þá taldi varnaraðili að óháður og viðurkenndur prófunaraðili þyrfti að staðfesta að búnaður stæðist þær burðarkröfur sem gerðar væru. Hvað varðar dýnur og framlengingar var tekið fram að ekki væri fallist á skýringar um að staðlar sem vísað væru til ættu ekki við eða að prófanir af hálfu bjóðandans væru fullnægjandi.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að sá búnaður sem hann bauð hafi uppfyllt allar kröfur sem gerðar hafi verið í skilmálum rammasamningsins og örútboðsgögnum. Varnaraðilum hafi verið boðið að skoða boðinn búnað og það rúm sem þeir hafi skoðað hafi verið sama rúm og kærandi bauð að öðru leyti en því að það hefði ekki verið í sama lit og gerð hafi verið krafa um. Þá hafi ekki verið um eiginlega sérsmíði að ræða, auk þess sem skilmálar útboðsins hafi ekki girt fyrir að boðinn búnaður væri útfærður til samræmis við kröfulýsingu útboðs hverju sinni. Þá eigi krafa varnaraðila um að óháður og viðurkenndur prófunaraðili staðfesti að búnaður standist burðarkröfu örútboðsgagna ekki viðhlítandi stoð í gögnunum.

Varnaraðilar byggja að meginstefnu til á því að þær vörur sem kærandi bauð hafi ekki uppfyllt kröfur hins kærða útboðs. Hafi verið óljóst hvaða rafknúnu hjúkrunarrúm kærandi bauð og verði ekki séð að þau hafi fullnægt kröfum um burðargetu og um lágmarks hækkun og lækkun leguflatar. Þá hafi boðin náttborð ekki uppfyllt kröfur um stærð. Jafnframt hafi vörur kæranda ekki uppfyllt kröfur útboðsskilmála um CE merkingu, en aðeins liggi fyrir vottorð um að vörur kæranda, sem framleiddar voru á tímabilinu 2. janúar 2013 til 31. desember 2015, hafi slíka merkingu. Auk þess hafi ekki verið ljóst hvaða rúm kærandi hafi boðið í raun.

Niðurstaða

Í 4. mgr. 49. gr. laga nr. 120/2016 kemur fram að kveða skuli á um tæknilýsingar í útboðsgögnum með tilvísun til staðla eða annarra tæknilegra tilvísunarkerfa, með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar eða blöndu af þessu tvennu. Þá kemur fram í 6. mgr. sömu greinar að kaupandi skuli ekki vísa frá tilboðum á þeim grundvelli að þau séu í ósamræmi við tæknilýsingar sem vísa til staðla eða annarra tæknilegra tilvísunarkerfa, ef bjóðandi sýnir fram á, t.d. með tæknilegri lýsingu framleiðanda, að lausnir hans fullnægi með sambærilegum hætti þeim kröfum sem leitast er við að fullnægja með hlutaðeigandi tæknilýsingum. Í 7. mgr. sömu greinar kemur fram að kaupandi, sem sett hefur fram tæknilýsingar með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, skuli ekki vísa frá tilboðum sem eru í samræmi við staðla eða önnur tæknileg tilvísunarkerfi, ef bjóðandi sýnir fram að boðnar vörur fullnægi kröfum kaupanda um frammistöðu og hagnýtingu.

Í kröfulýsingu hins kærða örútboðs voru gerðar kröfur til burðarþols rúma, um lágmarks hækkun og lækkun leguflatar og um stærð náttborða, en kröfum þessum hefur áður verið lýst. Með tilboði kæranda fylgdi leiðbeiningabæklingur frá framleiðanda LEO rúma og verður að líta til þeirra upplýsinga sem þar var að finna við mat á því hvort tilboðið hafi uppfyllt skilyrði útboðsgagna. Þar kom fram að burðarþol vegna rúma af tegundinni LEO 260 og LEO 290 væri 230 kg og að þau þoldu allt að 190 kg manneskju, en það er í samræmi við kröfulýsingu vegna liðar 1.1 í örútboðsgögnum. Í sama bæklingi kom fram að lægsta staða rúma af tegundinni LEO 260 væri 260 mm og rúma af tegundinni LEO 290 væri 290 mm, en telja verður þetta uppfylla kröfu til lækkunar leguflatar eins og hún var sett fram með vikmörkum í lið 1.1. í kröfulýsingunni. Verður af þessu ráðið að báðar tegundir rúma hafi uppfyllt kröfurnar að þessu leyti. Þá fylgdi tilboði kæranda jafnframt teikning af náttborði sem sýndi stærðarmálin 50x50x75 cm, sbr. lið 1.4 í kröfulýsingu. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðilar hafi beint fyrirspurn til kæranda vegna framangreinds. Skilja verður svör kæranda á þá leið að hann hafi staðfest að boðin rúm, sem hann hefur nánar skýrt að séu af gerðinni LEO 260, og náttborð fullnægðu þeim kröfum sem gerðar voru í örútboðinu með vísan til þeirra gagna sem fylgdu tilboði hans. Þá hefur kærandi einnig lagt fram afrit af skýrslu frá 29. ágúst 2019 um prófun framleiðanda rúmanna á burðarþoli þeirra í samræmi við staðalinn PN EN 60601-2-52-2010. Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir nefndinni verður ekki séð að krafa greinar 6.2.2 í rammasamningi, sem varðar CE merkingu vöru, hafi með réttu getað leitt til höfnunar á tilboði kæranda, sbr .til hliðsjónar 6. og 7. mgr. 49. gr. laga um opinber innkaup. Það liggur fyrir að kærandi skoðaði búnað kæranda 9. október 2019, en aðila greinir á um hvort um hafi verið að ræða þann búnað sem tilboðið varðaði og hvort viðkomandi búnaður hafi fullnægt kröfum örútboðsgagna. Af hálfu varnaraðila hafa ekki verið lagðar fram myndir, fundagerð eða önnur gögn úr skoðun þessari sem skýra atvik nánar. Þá hafa varnaraðilar ekki rökstutt sérstaklega í greinargerð sinni að hvaða leyti dýnur, sem sbr. lið 1.2, hafi ekki uppfyllt kröfulýsingu.

Með hliðsjón af framangreindu verður að miða við, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að þær vörur sem um ræðir hafi fullnægt framangreindum kröfum örútboðsgagna. Hefur kærandi leitt verulegar líkur að því að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup þegar hann hafnaði tilboði kæranda í hinu kærða örútboði hinn 10. október 2019, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Er því fallist á þá kröfu kæranda að stöðva hið kærða örútboð um stundarsakir á meðan endanlega er leyst úr kæru.

Ákvörðunarorð:

Örútboð Ríkiskaupa f.h. Framkvæmdasýslu um kaup á búnaði fyrir hjúkrunarheimili á Sléttuvegi í Reykjavík, sem efnt var til á grundvelli rammasamnings nr. 20674, er stöðvað um stundarsakir.

Reykjavík, 5. nóvember 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Sandra BaldvinsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira