Hoppa yfir valmynd

Mal nr.31/2023

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 31/2023

Föstudaginn 26. maí 2023

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 6. janúar 2023, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 19. desember 2022 vegna umgengni hennar við D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er fimm ára gömul og er kærandi móðir hennar.

Málið varðar systurnar E X ára, G X ára, F X ára og D X ára. Kærandi er móðir stúlknanna. Stúlkurnar voru vistaðar utan heimilis í ágúst 2020 í kjölfar þess að þrjár elstu stúlkurnar greindu frá ofbeldi af hálfu föður. Með úrskurði 28. september 2020 var úrskurðað um vistun stúlknanna utan heimilis og þess krafist fyrir héraðsdómi að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis í 12 mánuði. Héraðsdómur B úrskurðaði um níu mánaða vistun utan heimilis og staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdóms. Mál stúlknanna var rannsakað hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum og fyrir liggur dómur Héraðsdóms B í málinu frá 7. janúar 2022. Þar fékk faðir stúlknanna 18 mánaða óskilorðsbundinn dóm og kærandi fékk sex mánaða skilorðsbundinn dóm. Þá var þeim gert að greiða dætrum sínum miskabætur. Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms varðandi sex mánaða skilorðsbundna refsingu kæranda, auk miskabóta, en dómur yfir föður var þyngdur í tveggja ára óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Foreldrar stúlknanna voru svipt forsjá þeirra með dómi Héraðsdóms B þann 13. maí 2022 og staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms þann 25. september 2022. Í kjölfar forsjársviptingar lagði Barnavernd B til að umgengni kæranda við stúlkurnar yrði tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn, á heimili kæranda, undir eftirliti og með aðstoð túlks. Kærandi féllst ekki á tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni D við móður sína A, verði tvisvar á ári, þrjár klukkustundir í senn, heima hjá móður og undir eftirliti. Umgengni skal fara fram fyrstu vikuna í júní og desember. Móðir hefur heimild til þess að hringja í stúlkuna daginn eftir afmælið hennar. Að öðru leyti er henni óheimilt að hafa samband við stúlkuna. Móðir má gefa afmælis- og jólagjafir og skal hún afhenda þær barnavernd B sem sér um að koma þeim til stúlkunnar.“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 16. janúar 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. febrúar 2023, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 16. mars 2023, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2023, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að umgengni verði aukin töluvert og fari fram hið minnsta einu sinni í mánuði og án eftirlits. Þá verði kæranda veitt heimild til að taka á móti skilaboðum og símtölum frá dætrum sínum og svara þeim.

Um atvik málsins er vísað til málsatvikalýsingar í hinum kærða úrskurði og greinargerðar starfsmanna barnaverndarnefndar. Málsatvikalýsingin sé víðamikil sem eðlilegt sé í samræmi við umfang málsins. Rétt sé því að draga fram eftirfarandi atriði sem kærandi byggir á sérstaklega:

· Aðstæður sem þær mæðgur bjuggu við og sé kveikjan að lögreglurannsókn og forsjársviptingu, séu ekki lengur fyrir hendi.

· Samstarf kæranda og starfsmanna barnaverndarnefndar hafi iðulega verið mjög gott.

· Síðasta umgengni sem átti sér stað í desember 2022 gekk mjög vel.

· Móðir sé eini ættingi stúlknanna á Íslandi, að undanskildum föður sem stúlkurnar hafi lokað á. Nauðsynlegt sé að stúlkurnar týni ekki uppruna sínum og menningu.

· Bæði G og F hafa lýst því að vilja hitta móður einu sinni í viku og nefna það   jafnframt að vilja búa hjá móður.

Að mati kæranda hefur hún ekki notið sannmælis í málinu. Ekki sé tekið tillit til þess að hún hafi sjálf verið þolandi heimilisofbeldis af hálfu fyrrum eiginmanns og föður stúlknanna og í þau skipti sem hún minnist á það, sé það látið líta þannig út eins og henni sé sama um það ofbeldi sem stúlkurnar urðu fyrir. Því fer fjarri en það sé nauðsynlegt samhengis vegna að líta til uppruna, menningar og áralangs ofbeldis í hennar garð þegar meta skuli getu hennar til að sporna við og verjast þessu ofbeldi á þeim tíma þegar þau bjuggu saman. Bæði hvað varðar hana sjálfa og stúlkurnar. Á þeim tíma sem stúlkurnar voru vistaðar utan heimilis, hafði kærandi ekki hugmynd um tilvist Kvennaathvarfsins eða að þess konar fjölskylduleyndarmál ættu erindi við yfirvöld. Hún hafði því engar forsendur til þess að koma sér og stúlkunum úr aðstæðunum.

Það forsjárhæfnimat sem lagt hafi verið til grundvallar forsjársviptingu, hafi verið gert á þeim tíma þegar kærandi var enn í samskiptum við fyrrum eiginmann sinn og áður en hún fékk sálfræðimeðferð til að styrkja sig og uppeldisaðferðir sínar. Það sé því ekki marktækt forsjárhæfnimat. Nú þegar hún sé búin að losa sig undan ofríki fyrrum eiginmanns síns og hyggst byggja upp betra samband við börnin sín, þá sé ekki á það hlustað og allt gert til að skerða umgengni stúlknanna við móður sína.

Lögmaður kveðst geta fullyrt að staða kæranda hafi batnað umtalsvert frá því í maí 2022 en þá lágu leiðir hennar og kæranda fyrst saman. Kærandi hafi sýnt augljós merki þess að hafa búið við ofbeldi um áraraðir og hafi í alla staði verið lítill bógur til þess að sjá um aðra en sjálfa sig. Með aðstoð sálfræðings og auknu sjálfstrausti sé kærandi vel í stakk búin til þess að veita dætrum sínum gott atlæti og ástúð. Kærandi hafi sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar í því skyni að fá dómi Landsréttar um forsjársviptingu breytt.

Í það minnsta sé hún hæf til þess að veita stúlkunum þetta í umgengni þegar hún fari fram og því nauðsynlegt að umgengnin verði ríkuleg.

Það sé rétt núna að stúlkurnar hafi áttað sig á þeirri breytingu sem hafi orðið á kæranda og sækjast þær í umgengni við hana. Sú elsta, E, hafi lýst því í samtali við talsmann að vilja ekki umgengni en kærandi telur að sú afstaða muni breytast.

Miðjubörnin tvö, G og F, segjast vilja búa alfarið hjá móður og gera í hið minnsta þær kröfur að hitta móður vikulega. Að sögn fósturforeldra koma þær glaðar úr umgengni.

Sú yngsta hafi alltaf sagst vilja hitta kæranda en einhverra hluta vegna gerir hún það ekki í skýrslu talsmanns í þetta skiptið. Síðasta umgengni gekk þó vel og virðist hún una hag sínum vel hjá kæranda. Það hafi þó verið kæranda mikið áfall í síðustu umgengni þegar hún uppgötvaði að D hafi ekki lengur skilning á H. Kærandi gæti haldið H stúlknanna við ef umgengni verður ekki skert með svo tilfinnanlegum hætti.

Það verði að taka fram að þessi fjölskylda sé af I uppruna og múslimatrúar. Stúlkurnar séu vistaðar hjá fjölskyldum af íslenskum uppruna og hefur ekki verið reynt að halda í I upprunann eða þær aðstoðaðar við að rækta trú sína. Kærandi sé lykillinn að því að halda í upprunann og mennta þær í trú og menningu I. Því sé nauðsynlegt að umgengni verði ríkuleg.


 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti úrskurð barnaverndarnefndar frá 19. desember 2022 um að umgengni kæranda við dóttur hennar D verði tvisvar á ári, þrjár klukkustundir í senn, heima hjá móður og undir eftirliti. Umgengni skal fara fram fyrstu vikuna í júní og desember. Kærandi hafi heimild til þess að hringja í stúlkuna daginn eftir afmælið hennar. Að öðru leyti sé kæranda óheimilt að hafa samband við stúlkuna. Kærandi má gefa henni afmælis- og jólagjafir og skal hún afhenda þær barnaverndarnefnd sem sér um að koma þeim til stúlkunnar.

Afskipti barnaverndarnefndar af málefnum dætra kæranda hófust þann 25. júní 2020 þegar tilkynning barst frá Í varðandi grun um líkamlegt ofbeldi föður gagnvart næstelstu dótturinni. Í tilkynningunni kom fram að stúlkan hafi í viðtali við þjálfara sinn greint frá því að þegar hún kæmi heim myndi pabbi hennar ábyggilega berja hana. Þegar hún hafi verið spurð nánar út í þetta tjáði hún þjálfaranum að pabbi sinn væri ofbeldisfullur og beitti öll börnin líkamlegu ofbeldi og systurnar hefðu allar fengið marbletti, bæði í andliti og á öðrum stöðum líkamans.

Í kjölfar framangreindrar tilkynningar ræddu starfsmenn barnaverndarnefndarinnar við stúlkurnar í nokkur skipti, utan þeirrar yngstu, og greindu þær frá miklu andlegu og grófu líkamlegu ofbeldi af hálfu föður. Af þessum sökum var þann 19. ágúst 2020 tekin sú ákvörðun að leggja fram kæru til lögreglu á hendur föður þar sem óskað var eftir lögreglurannsókn á meintu líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn stúlkunum. Meðfylgjandi kærunni var greinargerð frá starfsmönnum barnaverndarnefndar, dags. 19. ágúst 2020, þar sem atvik málsins voru reifuð.

Þann 20. ágúst 2020 fóru starfsmenn barnaverndarnefndarinnar með stúlkurnar í skoðun á Barnaspítala Hringsins í því skyni að kanna líkamlegt ástand þeirra. Við skoðun á barnaspítalanum sáust engir áverkar á yngri systrunum þremur en elsta stúlkan var með marblett á framhandlegg sem læknir taldi um vikugamlan. Stúlkan tjáði lækninum að hugsanlegt væri að þessir áverkar hafi komið þegar faðir hennar var að berja hana og sýndi lækninum hvernig hún ber handleggina fyrir höfuð sitt til að verjast höggum frá föður.

Þennan sama dag samþykkti kærandi vistun dætra sinna utan heimilis til 20. september 2020. Stúlkurnar fóru í tímabundna vistun til fjölskyldu sem býr í J. Eftir að stúlkurnar komu inn á heimilið tóku vistforeldrar eftir því að yngsta stúlkan kvartaði yfir óþægindum í tönnum. Í framhaldinu fóru vistforeldrar með stúlkuna til tannlæknis og kom í ljós að tannhirða barnsins var lítil sem engin, sbr. bréf K tannlæknis, dags. 9. september 2020.

Af hálfu barnaverndarnefndarinnar hafi í framhaldinu verið óskað eftir upplýsingum frá skóla þriggja elstu stúlknanna. Umsagnir frá L, dags. 14. september 2020, hafi borist barnaverndarnefndinni og hafi þær allar verið á þann veg að áhyggjur hafi komið fram um að stúlkurnar væru ekki að fá gott utanumhald og ekki fá þann stuðning á heimili sem þær ættu að fá.

Eldri stúlkurnar þrjár fóru í skýrslutöku í Barnahúsi þann 3. september 2020 og greindu þær allar frá miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu föður. Í skýrslu elstu stúlkunnar kom meðal annars fram að faðir notaði belti til að lemja þær systur og stundum inniskó og að hann beitti yngstu stúlkuna einnig ofbeldi. Aðspurð hve oft þetta gerðist svaraði stúlkan því þannig að þetta væri næstum alltaf og að ofbeldið gagnvart henni sjálfri hafi byrjað þegar hún var 3-4 ára. Framburður næstelstu systurinnar í Barnahúsi hafi verið á sama veg, þ.e. að faðir beitti allar systurnar ofbeldi. Síðast þegar þetta hafi gerst hafi faðir lamið hana fast í andlitið með inniskó en hann noti líka stundum belti. Þetta þurfi allar systurnar að þola nema sú yngsta, en faðir noti ekki belti þegar hann beiti hana ofbeldi heldur aðeins inniskó. Næstyngsta systirin greindi frá með svipuðum hætti í Barnahúsi, þ.e. að faðir beitti þrjár elstu systurnar ofbeldi en kannaðist hins vegar ekki við að hann hafi gert slíkt gagnvart þeirri yngstu.

Þennan sama dag, 3. september 2020, hittu stúlkurnar kæranda undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndarinnar. Sú umgengni gekk ekki vel þar sem kærandi hafi verið mjög ásakandi í garð stúlknanna, reynt að koma að samviskubiti hjá þeim og gengið hart að stúlkunum um það hver þeirra hefði sagt frá því sem hefði verið að gerast á heimilinu. Umgengni við kæranda átti sér aftur stað þann 17. september 2020 og gekk sú umgengni ekki vel og hafði kærandi í frammi neikvæðar athugasemdir í garð stúlknanna.

Þann 20. september 2020 rann vistunartími út og þar sem foreldrar voru ekki reiðubúnir að samþykkja áframhaldandi vistun var neyðarráðstöfun á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga beitt. Þann 21. september 2020 ræddi talsmaður við þrjár elstu stúlkurnar á heimili vistforeldra þeirra. Í greinargerð talsmannsins kom fram að stúlkurnar hafi allar sagt að þær vildu fara aftur á heimili foreldra sinna. Að sögn talsmanns höfðu stúlkurnar litla þolinmæði til að tala við hana og vildu ekki tjá sig mikið um sína hagi.

Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar, dags. 28. september 2020, hafi verið tekin sú ákvörðun að vista stúlkurnar utan heimilis foreldra í tvo mánuði samkvæmt b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Í úrskurðarorði komi fram að barnaverndarnefnd muni óska eftir framlengingu á vistun í tólf mánuði samkvæmt 1. mgr. 28. gr. bvl.

Þann 16. október 2020 lagði barnaverndarnefnd fram kröfu til Héraðsdóms B um vistun stúlknanna utan heimilis í 12 mánuði frá 28. september 2020 að telja á grundvelli 28. gr. bvl.

Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi tók dómari viðtal við eldri stúlkurnar þrjár. Viðstaddur þessi viðtöl, sem fram fóru þann 4. desember 2020, var M sálfræðingur. Í viðtali við E kom afdráttarlaust fram að faðir legði hendur á allar systurnar og kærandi líka. Sama kom fram hjá F sem bætti því við að hún vildi ekki fara til föður síns aftur þar sem hann meiddi hana. Enn fremur greindi E frá því að kærandi skrökvaði að þeim, að D og F væru hræddar við kæranda og að hún hafi bannað D að segja frá nokkru er varði fjölskylduna. Þá kvaðst hún hafa þurft að bera ein ábyrgð á systrum sínum og hafi nánast þurft að ganga þeim í móðurstað. Hún hafi til að mynda þurft að taka til skólanesti fyrir systur sínar á morgnana og borið ábyrgð á að sækja yngstu systur sína á leikskóla. Þessi frásögn stúlkunnar sé staðfest af starfsmanni leikskóla og skóla eldri stúlknanna.

Við aðalmeðferð málsins gaf kærandi skýrslu og kvað rétt að faðir beitti dæturnar ofbeldi og hún hafi orðið vitni að ofbeldinu. Kærandi kannaðist hins vegar ekki við að faðir notaði sylgju af belti sínu þegar hann lemdi dætur sínar en kannaðist við að hann hafi notað belti og inniskó. Kærandi taldi að þetta væru eðlilegar uppeldisaðferðir í I. Kærandi kvaðst hafa reynt að stöðva barsmíðarnar en faðirinn væri mjög stjórnsamur. Kærandi neitaði því að hún sjálf beitti dætur sínar ofbeldi. Kærandi greindi einnig frá því að hún hafi hótað dætrum sínum því að flytja til útlanda og skilja þær eftir, en sagði að þetta hafi verið sagt í gríni. Faðir neitaði fyrir dómi að hann hefði beitt dætur sínar ofbeldi. Þá fullyrti faðir að E væri að ljúga upp á hann sakir og neitaði því að D og F hafi borið á hann sömu sakir.

Með úrskurði Héraðsdóms B 29. desember 2020 hafi verið ákveðið að stúlkurnar fjórar skyldu vistaðar utan heimilis í níu mánuði frá 28. september 2020 að telja. Með úrskurði Landsréttar 12. febrúar 2021 í máli nr. 13/2021 var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

Frá því að áðurnefndur úrskurður barnaverndarnefndarinnar, dags. 28. september 2020, hafi verið kveðinn upp átti sér stað markviss vinna varðandi framhald málsins. Þannig hafi verið sótt um meðferð fyrir þrjár elstu stúlkurnar í Barnahúsi til að vinna úr þeim áföllum sem þær hafa þurft að þola. Þá hafa verið gerðar meðferðaráætlanir vegna allra stúlknanna, dags. 8. janúar 2021. Markmið meðferðaráætlananna er að vernda systurnar fyrir ofbeldi og vinna með kæranda og styrkja hana í að fá kjark til að yfirgefa föður þar sem hún óttist hann ekki síður en börnin. Markmiði meðferðaráætlana telst náð þegar kærandi sé orðin nógu sterk til að geta búið börnum sínum öruggar og uppbyggilegar heimilisaðstæður þar sem faðir býr ekki, auk þess sem kærandi sýni fram á að hún axli ábyrgð á stúlkunum og veiti þeim viðeigandi uppeldi. Þá hafi verið undirritaðir umgengnissamningar vegna allra stúlknanna, dags. 1. febrúar 2021.

Nokkrar tilkynningar bárust barnaverndarnefndinni á árinu 2021 og tengdust sumar þeirra áhyggjum af líðan elstu stúlkunnar, E. Einnig bárust tilkynningar þar sem fram kom að faðir hafi haft í hótunum við stúlkurnar, einkum E. Þannig hafi faðir meðal annars hótað því. að drepa stúlkuna ef hún breytti ekki frásögn sinni og sagt að hún myndi aldrei líta glaðan dag eftir 29. júní 2021.

Í apríl 2021 hafi stúlkurnar greint frá því að kærandi hafi einnig beitt þær líkamlegu ofbeldi. Stúlkurnar greindu frá því að kærandi rifi í hár þeirra, lemdi þær með herðatré, skóm og skafti af moppu, auk þess sem hún talaði niðrandi til þeirra. Einnig kom fram grunur um að faðir eða báðir foreldrarnir hafi beitt stúlkurnar kynferðislegu ofbeldi.

Kærandi mætti á fund starfsmanns barnaverndarnefndarinnar þann 4. apríl 2021 og samþykkti á þeim fundi að undirgangast forsjárhæfnimat, auk þess sem hún óskaði eftir uppeldislegri ráðgjöf. N sálfræðingur hafi verið fenginn til að framkvæma forsjárhæfnimat á kæranda í apríl 2021. Í forsjárhæfnimati O, dags. 26. maí 2021, koma meðal annars fram áhyggjur af því að kærandi afneiti afleiðingum ofbeldis föður á stúlkurnar og sjálfa sig. Þá telji matsmaður að kærandi hafi lítið innsæi í tilfinningalegar þarfir dætra sinna og að geðtengsl séu veik. Niðurstaða matsmanns hafi verið sú að kærandi væri ekki hæf til að fara með forsjá dætra sinna og að hún gæti ekki tryggt öryggi þeirra og velferð.

Þann 10. maí 2021 hafi verið tekin skýrsla af elstu stúlkunni fyrir dómi en af miðjusystrunum tveimur þann 19. sama mánaðar. Í viðtölum, sem tekin voru í Barnahúsi, greina þær frá alvarlegu ofbeldi sem þær urðu fyrir af hendi foreldra sinna. Elsta stúlkan, E, greindi til að mynda frá því að faðir hafi notað það sem hendi væri næst við ofbeldið og að kærandi notaði stundum herðatré og drægi þrjár elstu systurnar á hárinu eftir gólfinu. Einnig kom fram að kærandi beiti allar systurnar ofbeldi af einhverju tagi og hafi meðal annars notað moppu og herðatré þegar hún gekk í skrokk á E. Þá taldi stúlkan að kærandi væri ennþá í sambandi með föður og upplýsti að sá síðarnefndi væri reglulega að senda henni hótanir. Næstelsta stúlkan, Malak, greindi einnig frá ofbeldi foreldra í hennar garð og í garð systranna fjögurra. Í framburði hennar kemur fram að kærandi noti hendi, innskó eða herðatré við ofbeldið sem sé algengt. Þá togi kærandi í hárið á henni og báðir foreldrar hafi rassskellt hana með belti eða inniskóm. Faðir noti hins vegar hendi, herðatré eða belti við ofbeldið. Næstyngsta stúlkan, F, greinir sömuleiðis frá ofbeldi af hálfu foreldra sinna. Kærandi noti stundum herðatré við ofbeldið og faðir einnig en hann noti stundum inniskó eða belti, auk þess sem hann hræki stundum á dætur sínar.

Þann 14. júní 2021 hafi verið tekin lögregluskýrsla af föður, meðal annars vegna gruns um kynferðisbrot. Sem fyrr neitaði faðir öllum sakargiftum og sagði dætur sínar og kæranda ljúga. Þennan sama dag hafi verið tekin lögregluskýrsla af kæranda. Í skýrslutökunni greindi kærandi meðal annars frá því að faðir væri að skemmta sér við að pína hana og dæturnar. Faðir hafi lamið stúlkurnar en þegar hún hafi reynt að stoppa hann hafi faðir ýtt henni og skyrpt framan í hana. Við ofbeldið hafi hann notað allt sem var fyrir framan hann, til dæmis belti, inniskó og herðatré. Þá hafi hann beitt hana sjálfa ofbeldi en ekki hafi verið regla á því hversu oft það gerðist, en það hafi verið oft og hann beitt stundum priki en oftar plastslöngu úr þvottavél. Í skýrslutökunni viðurkenndi kærandi að hafa slegið dætur sínar í handleggi eða rass með flötum lófa nema þá yngstu, en kvað dætur sínar ljúga um annars konar ofbeldi. Kærandi hafnaði einnig öllum ásökunum um kynferðislegt ofbeldi.

Málið var tekið fyrir á úrskurðarfundi Barnaverndarnefndar B þann 28. júní 2021. Á þeim fundi hafi verið ákveðið að fresta ákvarðanatöku í málinu til 12. júlí 2021 þar sem nefndarmenn töldu þörf á að skoða nýleg gögn sem varða málið. Óskað hafi verið eftir samþykki foreldra fyrir áframhaldandi vistun til 12. júlí 2021 og fékkst slíkt samþykki frá báðum foreldrum en þar sem faðir dró samþykki sitt til baka reyndist nauðsynlegt að neyðarvista börnin til 12. júlí 2021 á grundvelli 31. gr. bvl.

Málið hafi verið tekið fyrir að nýju á úrskurðarfundi barnaverndarnefndar þann 12. júlí 2021. Á þeim fundi hafi verið kveðinn upp úrskurður þar sem ákveðið var að stúlkurnar skyldu vistaðar utan heimilis í tvo mánuði frá og með 12. júlí 2021. Enn fremur hafi verið ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis í 6 mánuði, sbr. 28. gr. bvl.

Þann 8. september 2021 gaf Lögreglustjórinn á O út ákæru á hendur kæranda þar sem henni var gefið að sök stórfelld brot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot gegn dætrum sínum á tímabilinu maí 2018 til 19. ágúst 2020, sbr. bréf embættisins, dags. 9. desember 2021.

Þann 4. október 2021 gerðu málsaðilar dómsátt, sbr. mál nr. U-1635/2021. Í dómsáttinni fólst að kærandi samþykkti vistun dætra sinna utan heimilis í fjóra mánuði frá 12. september 2021 að telja, samkvæmt 28. gr. bvl.

Þann 8. október 2021 kvað barnaverndarnefndin upp úrskurð þess efnis að engin umgengni færi fram á milli kæranda og dætra hennar allt til 28. desember 2021. Kærandi kærði þann úrskurð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 2. nóvember 2021. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 22. febrúar 2022 í máli nr. 579/2021 staðfesti nefndin úrskurð barnaverndarnefndarinnar frá 8. október 2021.

Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar, dags. 6. desember 2021, var ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá dætra sinna. Með dómi Héraðsdóms B 7. janúar 2022 í máli nr. S-1845/2021 var kærandi dæmd til sex mánaða skilorðsbundinnar refsingar og til greiðslu miskabóta til dætra sinna, að þeirri yngstu frátalinni. Þótti dóminum sannað í málinu að kærandi hafi á „tilteknu tímabili margsinnis misþyrmt dætrum sínum þremur líkamlega og andlega og stofnað velferð þeirra í hættu með ofbeldi, yfirgangi og ósiðlegu athæfi." Með dómi Landsréttar 11. nóvember 2022 í máli nr. 119/2022 staðfesti rétturinn fangelsisrefsingu kæranda.

Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar, dags. 1. apríl 2022, hafi verið ákveðið að umgengni kæranda við dætur sínar, E, D, F og D, yrði einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanna barnaverndar og að túlkur væri viðstaddur. Einnig að fenginn yrði utanaðkomandi fagaðili í það minnsta í þrjú skipti til að meta hvernig móðir nýtti sér þau úrræði sem henni hafa verið veitt. Sá úrskurður hafi verið staðfestur af úrskurðarnefnd velferðarmála í máli nr. 248/2022.

Með dómi Héraðsdóms B 12. maí 2022 í máli nr. E-48/2022 hafi verið fallist á kröfu barnaverndarnefndarinnar um að kærandi og barnsfaðir hennar yrðu svipt forsjá dætra sinna fjögurra. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með dómi 25. nóvember 2022 í máli nr. 325/2022. Kærandi hafi óskaði eftir leyfi til að áfrýja síðastnefndum dómi til Hæstaréttar Íslands en þeirri beiðni var hafnað með ákvörðun Hæstaréttar 9. febrúar 2023.

Dætrum kæranda hafi verið skipaður talsmaður og liggja fyrir í málinu skýrslur talsmanna, dags. 2., 6., 8. og 13. desember 2022. Tvær þessara talsmannsskýrslna séu fylgiskjöl með kæru en barnaverndarnefndin leggur fram þær tvær talsmannsskýrslur sem ekki fylgdu kærunni. Elsta stúlkan, E hafi lýst því við talsmann sinn að hún vildi ekki hitta kæranda og eina ástæða þess að hún hitti móður sína væri til að geta hitt yngri systur sínar. Af skýrslu talsmanns D má ráða að hún vilji umgengni við móður vikulega í 4-5 klst. í senn á heimili hennar. F lýsti því við talsmann sinn að hún vildi hafa umgengni við móður þrjár klukkustundir í viku á heimili móður. Í talsmannsskýrslu yngstu stúlkunnar, D, kemur fram að hún vilji ekki umgengni við kæranda þar sem móðir væri alltaf að meiða hana og elta.

Um málavexti vísast að öðru leyti til málavaxtalýsingar í úrskurðum barnaverndarnefndarinnar, dags. 19. desember 2022, og framlagðra gagna með þessari greinargerð. Úrskurðarnefnd velferðarmála sé með önnur gögn málsins sem fylgdu með greinargerðum barnaverndarnefndarinnar í málum nr. 579/2021 og nr. 248/2022. Barnaverndarnefndin telur ástæðulaust að endursenda þau gögn til úrskurðarnefndarinnar, nema nefndin óski þess sérstaklega.

Af hálfu barnaverndarnefndarinnar sé þess krafist að úrskurður barnaverndarnefndarinnar frá 19. desember 2022 verði staðfestur. Barnaverndarnefndin byggir á því að hinn kærði úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og byggi á málefnalegum sjónarmiðum. Í því sambandi sé rétt að nefna að með dómi Landsréttar í máli nr. 325/2022 hafi verið tekin afstaða til málsástæðna kæranda varðandi málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar og þeim öllum hafnað, þar með talið varðandi brot á rannsóknarskyldu, að ekki hafi verið gætt að meðalhófi og svo framvegis.

Staðreyndin sé sú að dætur kæranda hafa greint frá mjög alvarlegu andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu kæranda sem staðið hafi yfir um árabil. Kærandi hefur nú verið sakfelld fyrir þessi brot gagnvart eldri stúlkunum þremur og dæmd til refsingar og greiðslu miskabóta.

Eins og áður hefur verið rakið hófust afskipti af börnunum á árinu 2020 og hafa þær verið vistaðar utan heimilis frá ágústmánuði það ár. Í umsögn fósturforeldra F, sem móttekin var hjá barnaverndarnefndinni 30. september 2021, komi meðal annars fram að F sýni engar sjáanlegar tilfinningar fyrir umgengni við kæranda. Hún virðist hvorki spennt né ánægð, en komi stundum þung til baka og vilji mikið af knúsum og faðmi. Hún tali aldrei af fyrra bragði um umgengni og komi aldrei brosandi til baka. Þá komi fram að barnið hafi sagt að kærandi hafi lamið sig með skúringaskafti á meðan hún bjó undir sama þaki og hún. Í umsögn fósturforeldra D komi fram að þeim finnist heimsóknir til kæranda ekki til góðs. Barnið sé vægast sagt stressað fyrir umgengni og vilji ekki ræða hvernig hafi gengið heldur læsi sig inn í herbergi. Í umsögn fósturmóður E og G komi meðal annars fram að sú síðarnefnda sýni annars konar hegðun eftir heimsóknir til kæranda, meðal annars í leikskólanum. E sé mjög kvíðin og stressuð fyrir heimsóknir til kæranda og aðalástæða þess að hún fari sé til að passa upp á yngri systur sína. Eftir heimsóknir sé E í miklu ójafnvægi.

Í hinum kærðu úrskurðum komi fram að málastjóri hafi rætt við fósturforeldra E og D og fram hafi komið að þeim finnist að umgengni stúlknanna við kæranda ætti að vera sem minnst. Kærandi stilli stúlkunum upp hverri gegn annarri, hún geri miklar kröfur til þeirra og vilji stjórna þeim. Fósturforeldrar G kváðust í samtali við málastjóra styðja óskir hennar um umgengni við kæranda. Fósturforeldrar F tjáðu málastjóra að þau væru sátt við að umgengni væri 2-3 sinnum á ári.

Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar 8. október 2021 hafi verið ákveðið að engin umgengni yrði tímabundið á milli kæranda og dætra hennar. Þessi ákvörðun byggði meðal annars á því að umgengni fram að því hefði ekki gengið vel, afstöðu dætra kæranda til umgengni og að beðið væri dóms í áðurnefndu sakamáli. Að mati barnaverndarnefndarinnar hafi því ekki verið réttlætanlegt að umgengni færi fram frá útgáfu ákæru og á meðan beðið væri dóms í málinu þar sem sakargiftir væru mjög alvarlegar.

Kærandi hafi nú með dómi Landsréttar 25. nóvember 2022 í máli nr. 325/2022 verið svipt forsjá dætra sinna. Markmið varanlegs fósturs sé að börnin aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldum sínum. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barna kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð verulega. Í þessu máli eiga þessi sjónarmið enn frekar við en endranær í ljósi atvika málsins.

Með hliðsjón af öllu framanröktu sé það mat barnaverndarnefndarinnar að rýmri umgengni en ákveðin sé í hinum kærðu úrskurðum sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum stúlknanna og auk þess ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þeirra í fóstur, sbr. 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Markmið umgengni sé ekki það að viðhalda tengslum við kæranda heldur að dætur hennar þekki uppruna sinn.

Í ljósi aðstæðna telji barnaverndarnefndin nauðsynlegt að umgengnin verði undir eftirliti starfsmanna barnaverndar, enda hafi kærandi verið dæmd fyrir ofbeldi gagnvart þremur elstu dætrum sínum. Þá telji barnaverndarnefndin nauðsynlegt að takmarka símhringingar kæranda og skeytasendingar á samfélagsmiðlum. Kærandi hafi hringt í dætur sínar og sent þeim skilaboð á öllum tímum sólarhrings og mörgum sinnum í röð ef þær svöruðu ekki. Við þetta geta stúlkurnar ekki búið og að mati barnaverndarnefndarinnar sé nauðsynlegt að setja skýran ramma í þessu efni til að verja stúlkurnar gegn áreiti kæranda.

Rök barnaverndarnefndarinnar fyrir því að umgengni kæranda við G og F verði rýmri en umgengni hennar við E og D sé sú að tvær fyrrnefndu stúlkurnar hafi lýst yfir vilja sínum til að hitta kæranda. Með hliðsjón af framangreindum markmiðum um ráðstöfun stúlknanna í varanlegt fóstur væri það hins vegar andstætt hagsmunum miðjubarnanna að eiga umgengni við kæranda vikulega líkt og þær hafa tjáð sig um. Markmiðið sé sem fyrr segir það að þær þekki uppruna sinn en ekki að viðhalda tengslum.

Líkt og fram komi í greinargerð starfsmanns barnaverndarnefndarinnar, dags. 22. nóvember 2022, sem lögð hafi verið fyrir úrskurðarfund sé hugsunin sú að stúlkurnar fari tvær saman í umgengni, tvær elstu fari saman og hinar tvær yngri fari saman. Þetta fyrirkomulag sé í samræmi við óskir kæranda.

Barnaverndarnefndin telur að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem sé börnunum fyrir bestu, sbr. 4. gr. laga nr. 80/2002. Barnaverndarnefndin byggir á því að það þjóni best hagsmunum stúlkunnar D að umgengni kæranda við dóttur sína verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefnd B telur mikilvægt að systurnar verði sameinaðar í umgengni, tvær og tvær saman, og njóti stuðnings og styrks hver af annarri. Þetta sé sérstaklega mikilvægt að mati barnaverndarnefndarinnar þar sem umgengni á fyrri stigum hafi ekki alltaf gengið sem skyldi. Þetta sé sérstaklega þýðingarmikið varðandi yngstu stúlkna, þ.e. að hún njóti samvista og stuðnings eldri systur sinnar í umgengni við kæranda, enda hafi hún myndað grunntengsl við aðra en kæranda.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í hinum kærða úrskurði kemur fram afstaða fósturforeldra til umgengni. Þar segir að fósturforeldrar E og D hafi í samtali við málastjóra sagt að þeim finnist að umgengni stúlknanna við kæranda ætti að vera sem minnst. Fósturmóðir segir að E sé mjög tætt eftir umgengni við kæranda og að hún sé mjög upptekin af því að passa systur sína. Fósturmóðir segir líka að kærandi passi D í umgengni og að það sé fullt starf að passa stúlkuna. Hún kvað líka að D sækti bara í að fara í umgengni til að fá nammi og gjafir. D tali ekki H og því geti þær mæðgur ekki talað saman. Fósturmóðir sagði jafnframt að kærandi etji stúlkunum saman gegn hver annarri, að hún geri miklar kröfur til þeirra og stjórnist mjög í stúlkunum.

Úrskurðarnefndin aflaði afstöðu fósturforeldra til umgengni stúlkunnar við kæranda. Í afstöðu fósturforeldra, dags. 10. maí 2023, kemur fram að fósturforeldrar séu þeirrar skoðunar að umgengni við móður skuli vera sem minnst. Fósturforeldrar segja að stúlkan sé mjög ör og uppátækjasöm eftir umgengni við móður en eftir síðustu umgengni hafi hún til að mynda brotið rúðu í leikskólanum. Þeim finnst umgengni ekki hafa góð áhrif á stúlkuna.

V. Afstaða stúlkunnar

Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla talsmanns stúlkunnar, dags. 13. desember 2022. Fram kemur í skýrslu talsmanns að stúlkunni finnst gott að búa þar sem hún býr núna og vilji ekki búa hjá móður sinni. Þá kemur fram í skýrslunni varðandi afstöðu stúlkunnar til umgengni að hún vilji ekki hitta móður sína en vilji hitta systur sínar. Stúlkan tók fram að móðir meiði hana og elti.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir uppfærðri afstöðu stúlkunnar til umgengni við kæranda sem barst með tölvupósti 22. maí 2023. Í skýrslu talsmanns, dags. 17. maí 2023, kemur fram að stúlkan vilji eiga umgengni við móður. Um hversu oft hún vilji hitta hana kom fram að hún vildi hitta hana alltaf og taka fötin sín með sér. Aðspurð hvað alltaf væri oft sagði hún á hverjum degi. Stúlkan kvaðst vilja að umgengni færi fram á heimili móður. Þá kvaðst stúlkan bara vilja hitta móður ef G væri með henni í umgengni.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul. Hún er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum.

Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 19. desember 2022 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði tvisvar á ári, í þrjár klukkustundir í senn, heima hjá kæranda og undir eftirliti. Umgengni færi fram fyrstu vikuna í júní og desember. Móðir hefði heimild til að hringja í stúlkuna daginn eftir afmælið hennar. Að öðru leyti væri henni óheimilt að hafa samband við stúlkuna. Móðir mætti gefa afmælis- og jólagjafir og skyldi hún afhenta þær Barnavernd B sem sæi um að koma þeim til stúlkunnar.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að umgengni verði aukin töluvert og fari fram hið minnsta einu sinni í mánuði og án eftirlits. Þá verði kæranda veitt heimild til að taka á móti skilaboðum og símtölum frá dóttur sinni og svara þeim.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði. Verður því að meta kröfu kæranda sem beiðni um að hinum kærða úrskurði verði hrundið og vísað til meðferðar barnaverndarnefndar að nýju. Í þessu felst meðal annars að úrskurðarnefndin fjallar ekki um nýja kröfu kæranda um umgengni þess efnis að hún geti tekið við skilaboðum og símtölum frá dóttur sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við dóttur sína á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndarinnar, sem lögð var fyrir úrskurðarfund barnaverndarnefndarinnar, kemur fram það mat þeirra að teknu tilliti til þess að stúlkan er núna í varanlegu fóstri hjá fjölskyldu sem er að móta sitt eigið fjölskyldulíf að huga verði að því að umgengni sé ekki íþyngjandi fyrir fósturfjölskylduna.

Í gögnum málsins kemur þar fram afstaða stúlkunnar til umgengni við kæranda. Afstaða stúlkunnar til umgengni hefur tekið breytingum og vill hún nú eiga ríkulega umgengni við móður sína. Úrskurðarnefndin telur með hliðsjón af aldri stúlkunnar að hún hafi ekki fyllilega þroska til að meta hvernig umgengni þjóni best hagsmunum hennar. Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar og telur að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem hún er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að tryggja hagsmuni stúlkunnar og öryggi.

Kærandi krefst þess að umgengni fari fram án eftirlits. Í ljósi málavaxta telur úrskurðarnefndin nauðsynlegt að umgengni fari fram undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um umgengni án eftirlits.

Með hliðsjón af atvikum máls og afstöðu stúlkunnar til umgengni verður að mati úrskurðarnefndarinnar talið að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar D frá 19. desember 2022 varðandi umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum