Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd kosningamála

Úrskurður nr. 1/2024 - Kæra vegna gildis framboðs til forsetakjörs

Úrskurðarnefnd kosningamála

 

Ár 2024, 1. maí, kom úrskurðarnefnd kosningamála saman til að úrskurða um kæru Viktors Traustasonar á gildi framboðs hans til forsetakjörs hinn 1. júní 2024 og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

nr. 1/2024

Mál þetta úrskurða Berglind Svavarsdóttir, Anna Tryggvadóttir og Unnar Steinn Bjarndal.

 

I.

Með tölvupósti, dags. 29. apríl 2024, barst kæra frá Viktori Traustasyni kt. 100489-2609 þar sem þess er krafist að úrskurður landskjörstjórnar, dags. þann sama dag, verði ógiltur og framboð hans til embættis forseta Íslands verði metið gilt. 

Kæruheimild er í 5. tl. 2. mgr. 22. gr. kosningalaga, nr. 112/2021, og barst kæran fyrir lok kærufrests samkvæmt 2. mgr. 50. gr. s.l.

 

II.

Kærandi skilaði tilkynningu til landskjörstjórnar um framboð sitt til kjörs forseta Íslands fyrir lok framboðsfrests kl. 12.00 hinn 26. apríl 2024. Tilkynningin var undirrituð af kæranda og henni fylgdi undirskriftalisti meðmælenda á 62 blaðsíðum til stuðnings framboðinu. Á tilkynningarblaðinu kom fram að meðmælum hafi jafnframt verið safnað rafrænt.

 

Með úrskurði uppkveðnum  kl. 11.00 hinn 29. apríl 2024 var það niðurstaða landskjörstjórnar að framboð kæranda væri ekki gilt. Fram kemur í úrskurðinum að þau meðmæli sem gefin voru á undirskriftarlista og skilað inn á pappír uppfylltu ekki skilyrði kosningalaga um tilgreiningu lögheimilis, sbr. d-lið 1. mgr. og 2. mgr. 39. gr. kosningalaga. Þá tilgreindu sum meðmæli ekki kennitölur viðkomandi meðmælanda eins og áskilið er í tilvitnuðum lagaákvæðum. Þar fyrir utan hafi verulega skort á tilskilinn lágmarksfjölda meðmælenda í Sunnlendingafjórðungi og Norðlendingafjórðungi.

Kæra barst úrskurðarnefnd kosningamála kl. 18.21 þann 29. apríl 2024. Gögn málsins bárust nefndinni frá landskjörstjórn í kjölfar móttöku kærunnar, þar á meðal frumrit meðmælalista með framboði kæranda. Samkvæmt beiðni kæranda var honum veittur frestur til að skila nefndinni greinargerð til hádegis 30. apríl s.á. Umsögn landskjörstjórnar um greinargerð kæranda barst úrskurðarnefnd kosningamála síðar þann sama dag.

 

III.

Kærandi byggir á því að lagaheimild hafi skort til að ógilda framboð hans til embættis forseta Íslands. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, skuli um annað en kjörgengi forseta ákveða með lögum um framboð og kjör forseta. Engin slík lög gildi eftir brottfall laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Kærandi telur að kosningalög hafi ekki gildi heldur hafi borið að setja sérstök lög um framboð og kjör forseta, þar sem kveðið sé á um tvenn lög í stjórnarskrá og mikill eðlismunur sé á kjöri forseta annars vegar og til Alþingis og sveitarstjórna hins vegar. Fram komi í 50. gr. kosningalaga að um söfnun, form og meðferð meðmæla í forsetakosningum gildi sömu reglur og við alþingis- og sveitastjórnarkosningar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna. Í síðarnefnda ákvæðinu sé vísað til heimildar ráðherra til að setja nánari reglur um framboð til forsetakjörs. Kærandi tekur fram að það sé grundvallarregla í réttarríki að réttur samkvæmt stjórnarskrá verði ekki skertur nema með settum lögum frá Alþingi.

Kærandi byggir jafnframt á því að brotið sé gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. hennar. Framboðsfrestur hafi runnið út 26. apríl 2024. Meðframbjóðendum kæranda hafi verið tilkynnt um athugasemdir við meðmælalista sína og þeim gefið svigrúm til úrbóta. Kærandi kveðst engar athugasemdir hafa fengið við meðmælalista sína eða sama svigrúm til úrbóta heldur hafi verið kveðinn upp úrskurður um gildi framboðs hans. Sé um skýrt brot á jafnræði aðila að ræða þar sem yfirferð meðmælalista með framboðum sættu engum tímaramma og var frambjóðendum þannig mismunað.

 

IV.

Í umsögn, dags. 30. apríl 2024, bendir landskjörstjórn á að 2. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar vísi til þeirra laga sem á hverjum tíma gilda og fjalla um framboð og kjör forseta Íslands. Í 1. mgr. 2. gr. kosningalaga segi með skýrum hætti að lögin gildi um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna og um framboð og kjör forseta Íslands. Ótvírætt sé að mati landskjörstjórnar að ákvæði kosningalaga gildi um forsetakjör, þar á meðal um þau atriði sem skylt er að tilgreina í stuðningsyfirlýsingum meðmælenda með framboði til forseta Íslands.

Í umsögn landskjörstjórnar kemur fram að meðframbjóðendur kæranda fengu frest til að bæta úr minni háttar ágöllum á meðmælum í samræmi við venjuhelgaða framkvæmd þar um. Að mati landskjörstjórnar verði þeim tilvikum ekki jafnað við tilvik kæranda þar sem ágallar voru metnir meiri háttar.

 

V.

Í 5. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um kjör forseta Íslands. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að forsetaefni skuli hafa meðmæli minnst 1500 kosningabærra manna og mest 3000. Að öðru leyti skuli ákveða með lögum um framboð og kjör forseta, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Fjallað er um framboð og kjör forseta í kosningalögum nr. 112/2021. Vegna athugasemda í kæru er rétt að fram komi að í 5. gr. stjórnarskrárinnar felst ekki áskilnaður um tiltekið lagaheiti en ótvírætt er að gildissvið kosningalaga nr. 112/2021 nær til framboðs og kjörs forseta, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.

Fjallað er um framboð til forsetakjörs í VIII. kafla kosningalaga. Þar í 1. mgr. 50. gr. kemur fram að um söfnun, form og meðferð meðmæla gildi sömu reglur og við alþingis- og sveitarstjórnarkosningar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna.

Þótt 1. mgr. 50. gr. kosningalaga vísi til 2. mgr. 41. gr. laganna verður að líta svo á að allar viðeigandi reglur kosningalaga um söfnun, form og meðferð meðmæla við alþingis- og sveitarstjórnarkosningar eigi með sama hætti við um forsetakjör. Í d-lið 1. mgr. 39. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. kosningalaga er gerð krafa um að meðmælendur lista í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum tilgreini nafn, lögheimili og kennitölu. Þá segir í 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um söfnun meðmæla og skil framboða og framboðslista fyrir kosningar, nr. 254/2024, sem gildir meðal annars við forsetakjör sbr. 2. gr. hennar, að þegar meðmælandi skráir meðmæli sín með tilteknu framboði skuli hann tilgreina nafn sitt, kennitölu og lögheimili.

Sú regla að meðmælendur framboða gefi upp heimilisfang hefur gilt í kosningum til Alþingis frá árinu 2000 og kosningum til sveitarstjórna frá árinu 2002 og hefur það að markmiði að meðmælendur tilgreini sig. Er um að ræða kröfu sem á að tryggja að unnt sé að staðfesta fjölda þeirra sem áskilið er í stjórnarskrá að mæli með forsetaefni.

Í máli þessu liggur fyrir að 69 einstaklingar mæltu með kæranda rafrænt og er um að ræða gild meðmæli sem skiptast í landsfjórðunga með eftirfarandi hætti; 59 í Sunnlendingafjórðungi, einn í Vestfirðingafjórðungi, einn í Norðlendingafjórðungi og átta í Austfirðingafjórðungi. Önnur meðmæli sem kærandi lagði fram til stuðnings framboði sínu til forseta tilgreina ekki lögheimili meðmælenda, eins og áskilið er í kosningalögum. Teljast þau því ekki gild meðmæli með framboði kæranda.

Í kærunni kemur jafnframt fram að kærandi sé ósáttur við að hafa ekki verið veittur frestur til að gera úrbætur á meðmælendalistum sínum. Meðframbjóðendum kæranda hafi verið gefið svigrúm til slíkra úrbóta og telur kærandi að landskjörstjórn hafi með þessu brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands.

Fyrir liggur að fjórum frambjóðendum var, laugardaginn 27. apríl sl., veittur tæplega sólarhrings langur frestur til að bæta úr ágöllum er vörðuðu fjölda meðmælenda með framboði þeirra. Í umsögn landskjörstjórnar kemur fram að um langt skeið hafi verið venjuhelguð framkvæmd við yfirferð framboða við allar almennar kosningar að veita framboðum eða framboðslistum skamman frest til að bæta úr minni háttar ágöllum. Sú hugsun liggi þar að baki að gefa frambjóðendum, sem hafi mátt ætla að þeir hafi náð nægilegum fjölda meðmælenda, sem reynist svo ekki vera vegna ástæðna sem þeim gátu ekki verið ljósar, kost á að bæta úr. Í tilviki umræddra frambjóðenda hafi verið um að ræða minni háttar ágalla og skorti á bilinu sex til 31 meðmælanda með framboðum þeirra á landinu öllu. Þar sem mikið vantaði upp á fjölda meðmæla hjá kæranda taldi landskjörstjórn að um væri að ræða meiri háttar ágalla á framboði hans og að kærandi hafi ekki mátt ætla að hann hefði náð tilskildum fjölda meðmælenda.

Úrskurðarnefnd kosningamála tekur undir með landskjörstjórn að meiri háttar ágalli er á framboði kæranda þar sem eingöngu 69 gild meðmæli hafa borist með framboði hans. En eins og að framan greinir um gildissvið 1. mgr. 50. gr. kosningalaga gilda sömu reglur um söfnun, form og meðferð meðmæla við forsetakjör og gilda við alþingis- og sveitarstjórnarkosningar, sbr. jafnframt ákvæði reglugerðar um söfnun meðmæla og skil framboða og framboðslista fyrir kosningar, nr. 254/2024, sem sett er með stoð í 2. mgr. 41. gr. kosningalaga. Í 13. gr. reglugerðarinnar er fjallað um viðbrögð við galla á meðmælasöfnun. Þar kemur m.a. fram að verði landskjörstjórn vör við galla á meðmælasöfnun, s.s. að tilskildum fjölda meðmæla sé ekki náð, skuli umboðsmanni framboðs gefinn kostur á að bæta úr og veittur frestur í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa. Þótt ákvæði kosningalaga séu ekki fyllilega skýr um það hvort og þá að hvaða leyti 44. gr. laganna, sem fjallar um galla á framboðslistum, geti gilt um forsetakjör telur nefndin að túlka verði vafa um meðferð meðmæla að þessu leyti kæranda í hag. Er það niðurstaða nefndarinnar að landskjörstjórn, þegar hún varð vör við galla á meðmælasöfnun kæranda, hafi borið að veita honum sama tækifæri og öðrum til að bæta úr gallanum.

Það er jafnframt niðurstaða úrskurðarnefndar kosningamála að ekki sé hægt að slá því föstu að þessi annmarki á meðferð málsins hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu landskjörstjórnar um að framboð kæranda til forsetakjörs sé ekki gilt.

Úrskurður landskjörstjórnar um gildi framboðs Viktors Traustasonar er því felldur úr gildi. Lagt er fyrir landskjörstjórn að taka mál hans til nýrrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð:

Úrskurður landskjörstjórnar, dags. 29. apríl 2024, um gildi framboðs Viktors Traustasonar til forsetakjörs hinn 1. júní 2024, er felldur úr gildi.

Reykjavík, 1. maí 2024.

 

Berglind Svavarsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir                                                                            Unnar Steinn Bjarndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum