Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 16. desember 2014 var tekið fyrir mál nr. 19/2014:


Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 10. október 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 18. ágúst 2014, um að taka ekki tillit til sjúkradagpeninga vegna veikinda barns við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi hennar.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. júlí 2014, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barns hennar sem fæddist þann Y. september 2014. Tilkynning barst frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs ásamt frekari gögnum, þar á meðal staðfesting frá sjúkrasjóði VR um að hún hafi fengið greidda sjúkradagpeninga vegna veikinda barns frá 1. júlí 2013 til 15. janúar 2014. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2014, var kæranda tilkynnt að ekki væri unnt að taka tillit til greiðslu sjúkradagpeninga vegna veikinda barns við útreikning á fæðingarorlofi hennar. Kærandi var afgreidd í fæðingarorlof í samræmi við það, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 11. september 2014. Þar eru tekjur kæranda í mánuðunum mars 2013 til febrúar 2014 lagðar til grundvallar útreikningnum og er ekki tekið tillit til umræddra greiðslna úr sjúkrasjóði VR í þeim.

Kærandi kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að taka ekki tillit til sjúkradagpeninga til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 10. október 2014. Með bréfi, dags. 16. október 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 20. október 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. október 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast dóttur í janúar 2012 sem hafi fæðst með fæðingargalla. Dóttir hennar hafi þurft að fara í margar aðgerðir og rannsóknir bæði hérlendis og erlendis og sé með alvarlega skertan þroska, bæði andlega og líkamlega. Hún þurfi mikla sjúkraþjálfun, þroskaþjálfun og talþjálfun. Vegna þessa hafi kærandi neyðst til að taka sér hlé frá vinnu vegna óvinnufærni. Kærandi hafi þjáðst af áfallastreitu, óöryggi, svefntruflunum, kvíða og óútskýrðri vanlíðan. Kærandi hafi átt rétt á greiðslum frá sjúkrasjóði VR og uppfyllt bæði skilyrði þess að fá greidda sjúkradagpeninga vegna veikinda barns og persónulegra veikinda þar sem vottorð hafi legið fyrir vegna hvorutveggja. Greiðslur til kæranda frá sjúkrasjóði VR hafi verið skráðar vegna veikinda barns og því hafi hún ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Kærandi hefði getað skilað inn vottorði vegna persónulegra veikinda og þá hefði verið tekið tillit til þeirra við útreikning á greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi telur að hún hafi orðið fyrir mismunun þar sem ekki hafi verið tekið tillit til greiðslna frá sjúkrasjóðinum vegna veikinda barns heldur þurfi að vera um að ræða persónuleg veikindi. Í tilviki kæranda hafi þó einnig verið um að ræða persónuleg veikindi og liggi fyrir vottorð þess efnis. Kærandi óski því eftir að tekið verði tillit til sjúkradagpeninga við útreikning á fæðingarorlofi hennar.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.) þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt sé að kærandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. þar sem hún hafi starfað á innlendum vinnumarkaði allt ávinnslutímabilið, þ.e. frá Y. mars 2014 til Y. september 2014, og af þeirri ástæðu eigi hún tilkall til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði. Í máli þessu reyni hins vegar á hvort telja skuli með greiðslur úr sjúkrasjóði VR vegna veikinda barns kæranda við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar skv. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna, sbr. 2. mgr. 7. gr.,  í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a ffl.  

Við mat á því hvaða greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl., verði því að líta til orðalags c-liðar 2. mgr. 13. gr .a ffl. en þar komi fram að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði sé sá tími sem foreldri fái greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, sé á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið sótt um þá til Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fái greiðslur frá sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Samkvæmt orðanna hljóðan verði ákvæði c-liðar 2. mgr. 13. gr. a ffl. vart skilið á annan veg en þann að einungis geti verið um að ræða greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem hafi komið til vegna þess að foreldri hafi látið af launuðum störfum af eigin heilsufarsástæðum. Þannig verði ekki séð að greiðslur vegna annarra tilvika en heilsufarsástæðna foreldris sjálfs geti komið til greina, s.s. hafi foreldrið þurft að láta af launuðum störfum vegna veikinda barns eða maka.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. september 2014 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið mars 2013 til febrúar 2014, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Fyrir liggi að hluta tímabilsins eða frá 1. júlí 2013 til 15. janúar 2014 hafi kærandi þegið greiðslur úr sjúkrasjóði VR vegna veikinda barns sem bæri að undanskilja við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda, sbr. c-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. Kærandi hafi þegið laun frá vinnuveitanda sínum allt viðmiðunartímabilið sem hafi verið tekin með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Í samræmi við framangreint hafi kærandi verið afgreidd með 241.508 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 11. september 2014. Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlunin beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að taka ekki tillit til sjúkradagpeninga vegna veikinda barns við útreikning á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 2. mgr. 7. gr., felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði meðal annars í sér að starfa sem starfsmaður, þ.e. að vinna launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá telst enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði meðal annars orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldrið látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum. Barn kæranda fæddist þann Y. september 2014. Líkt og fram kemur í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er óumdeilt að kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. þar sem hún var á innlendum vinnumarkaði frá Y. mars 2014 til Y. september 2014.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðarsjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e- liði 2. mgr. 13. gr. a ffl. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a., án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Fæðingarorlofssjóður hefur vísað til þess að við útreikning á mánaðarlegri greiðslu til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði beri að undanskilja greiðslur sem hún fékk frá sjúkrasjóði VR vegna veikinda barns. Greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags séu einungis teknar með í útreikninginn hafi foreldri látið af launuðum störfum af eigin heilsufarsástæðum, sbr. c-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á þá afstöðu Fæðingarorlofssjóðs.

Í athugasemdum greinargerðar við 8. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 74/2008, sem breytti ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl., kemur fram að áfram væri miðað við að hefði foreldri ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu skyldi miða við meðalheildarlaun þess fyrir það tímabil sem foreldri hefði verið á innlendum vinnumarkaði. Þar á meðal teldust einnig þær aðstæður sem hefðu verið taldar til þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt a-d-liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, en með frumvarpinu væri jafnframt lagt til að fært yrði í lög að þær aðstæður teldust til þátttöku á vinnumarkaði, sbr. a-d-liði 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Í athugasemdunum sagði einnig að gert væri ráð fyrir að áfram yrði miðað við heildarlaun foreldra en þar á meðal yrðu jafnframt taldar með greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns auk hvers konar launa og annarra þóknana  samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þetta væru greiðslur sem kæmu til þegar aðstæður þær sem taldar væru upp í a-d-liðum 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins ættu við um foreldra og teldust svara til þátttöku á vinnumarkaði og þar með til ávinnslu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna. Yrði því að teljast eðlilegt að þær yrðu hluti af heildarlaunum foreldra sem lögð væru til grundvallar við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þá sagði í athugasemdunum að ekki væri átt við styrki sem foreldri kynni að hafa fengið úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga á tímabilinu heldur eingöngu þær greiðslur sem ætlað væri að koma í stað launa.

Af texta 2. mgr. 13. gr. ffl. og tilvitnuðum lögskýringargögnum verður að mati úrskurðarnefndarinnar ekki séð að greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga séu einskorðaðar við að foreldri hafi látið af launuðum störfum af eigin heilsufarsástæðum. Þá er til þess að líta að sú tilvísun til 2. mgr. 13. gr. a sem er að finna í 2. mgr. 13. gr. laganna ber alls ekki skýrlega með sér að þær greiðslur sem taldar eru upp í 2. mgr. 13. gr. skipti því aðeins máli að þær komi einnig fram í 2 mgr. 13. gr. a.

Að þessu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Fæðingarorlofssjóði hafi ekki verið heimilt að undanskilja greiðslur sem kærandi fékk úr sjúkrasjóði VR við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og fallist á þá kröfu hennar að tekið skuli tillit til sjúkradagpeninga vegna veikinda barns við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi hennar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Við útreikning á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði til A ber að taka tillit til sjúkradagpeninga sem hún fékk greidda vegna veikinda barns.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira