Hoppa yfir valmynd

Nr. 512/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 512/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100024

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. október 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela og Kólumbíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2022, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ráða má að til vara krefjist kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun eru kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 24. nóvember 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 24. maí 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 20. september 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 9. október 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 19. október 2022.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu vegna almenns ástands í heimaríkjum sínum, Venesúela og Kólumbíu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er vísað til gagna málsins varðandi málavexti og aðstæður kæranda, þá sérstaklega viðtals við kæranda hjá Útlendingastofnun. Fram kemur í greinargerð að eldri systir hennar hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi og yngri systir hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Viðtal hafi verið tekið við kæranda á grundvelli þess að hún væri barn og því ekki kafað djúpt í aðstæður hennar. Kærandi hafi þó farið í viðtal þegar hún hafði náð 18 ára aldri og því hefði hún átt að fara í viðtal sem fullorðin. Í greinargerð kæranda kemur fram að móðir hennar sé látin. Eldri systir kæranda hafi farið með forsjá hennar frá því að hún hafi verið fjarlægð af heimili föður síns vegna ofbeldis. Hún hafi enn forsjá yfir yngri systur kæranda sem hafi verið veitt mannúðarleyfi hér á landi. Í greinargerð kemur fram að í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að faðir og bróðir kæranda búi í Kólumbíu, hún hafi búið hjá bróður sínum í einhvern tíma og sé í sambandi við föður sinn. Stofnunin álykti að hún hafi stuðningsnet í heimaríki en það sé rangt, enda komi fram í samantekt að hún vilji ekki vera í sambandi við föður sinn. Hún hafi ekki fjölskyldu eða stuðningsnet og systir hennar hafi gengið henni í móðurstað og hún og yngri systir hennar séu búsettar hér á landi og séu fjölskyldan hennar.

Kærandi vísar til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar varðandi aðstæður í Venesúela og Kólumbíu. Jafnframt vísar kærandi til umfjöllunar Útlendingastofnunar um aðstæður í Kólumbíu í ákvörðun stofnunarinnar í máli nr. 2022-01702 frá 13. júlí 2022 og úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 371/2022 í máli sama aðila frá 16. september 2022.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé með ríkisborgararétt í Venesúela og Kólumbíu og telur hún að ákvæðið taki einnig til þeirra sem séu að flýja Kólumbíu vegna þeirrar óværðar og óöryggis sem sé til staðar þar, enda sé ástandið lítið skárra en í Venesúela.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins gefi til kynna að það taki ekki til barna yfir 18 ára aldri þá sé ljóst að slíkt sé tímaskekkja, enda séu börn mun lengur börn í dag en áður hafi verið. Börn yfir 18 ára búi almennt enn í foreldrahúsum og treysti á framfærslu foreldra sinna mun lengur en áður hafi tíðkast. Einnig sé það tilgangur ákvæðisins að sameina fjölskyldur og það gangi í berhögg við þann tilgang að aðskilja kæranda frá fjölskyldu sinni eingöngu vegna aldurs hennar.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd þegar hún var 17 ára en farið í viðtal sem barn, þegar hún hafi verið orðin 18 ára. Útlendingastofnun hefði átt að taka hefðbundið viðtal við kæranda og kafa dýpra í aðstæður hennar og ástæður flótta. Það hafi ekki verið gert og því hafi stofnunin brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga.

Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks leyfis þegar útlendingur hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Í greinargerð kæranda kemur fram að ástandið í Kólumbíu sé þess eðlis að ekki sé forsvaranlegt að senda hana þangað aftur. Ástandið þar sé síst skárra en í Venesúela þar sem glæpahópar vaði uppi og stjórni stórum landsvæðum. Vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 371/2022 frá 16. september 2022 máli sínu til stuðnings. Stóra systir kæranda hafi farið með forsjá hennar áður en hún varð lögráða, hún hafi misst móður sína og flust til föður síns þar sem hún hafi verið beitt ofbeldi af hálfu eiginkonu föður síns. Hún hafi ekki fengið að ganga í leikskóla eða skóla og hafi loks verið fjarlægð af heimilinu af systur sinni. Kærandi eigi ekki stuðningsnet í Kólumbíu og hvorki fjölskyldu né vini. Kærandi geti ekki búið með föður sínum í Kólumbíu þar sem hún sé hrædd um að verða fyrir ofbeldi. Kærandi óttist að þurfa að vernda sig gegn ofbeldi stjórnvalda og almennra borgara ein síns liðs, auk þess að hafa áhyggjur af því að hafa í sig og á. Þetta sé skólabókardæmi þess þegar beita beri hinu matskennda ákvæði 74. gr. laga um útlendinga enda sé kærandi ung stúlka, sem hafi átt mjög erfitt líf og upplifað hluti sem ekkert barn eigi að upplifa, sem sé einangruð frá fjölskyldu sinni vegna lagatæknilegra atriða. Kærandi sé nýorðin 18 ára og treysti á systur sína að öllu leyti. Hún búi hjá henni og hafi gert um langa hríð. Hún sé ennþá barn þó hún sé það ekki í skilningi laganna. Fjölskylda hennar sé hér á landi og ómannúðlegt væri að senda hana til baka án hennar stuðnings og baklands.

Kærandi telur að með endursendingu hennar til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem séu nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er fjallað um frásögn kæranda og aðstæður í heimaríkjum hennar í Kólumbíu og Venesúela. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 24. nóvember 2021 og var 17 ára við komuna til landsins. Hún fór í viðtal hjá Útlendingastofnun 24. maí 2022 þegar hún var orðin 18 ára gömul. Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við að kærandi hafi ekki farið í viðtal sem fullorðinn einstaklingur í ljósi þess að ákvörðun var tekin á þeim grundvelli að hún hafi náð 18 ára aldri. Í greinargerð eru gerðar sérstakar athugasemdir við að ekki hafi verið fjallað með ítarlegri hætti um málsástæður hennar og hún spurð nánar út í ýmis atriði. Kærandi hefur lýst erfiðum félagslegum aðstæðum í heimaríkjum sínum. Hún hefur greint frá því að hún hafi misst móður sína og flust ung að aldri til Kólumbíu. Hún hafi búið með föður sínum um stutt skeið en frá unga aldri hafi eldri systir hennar farið með forsjá hennar og yngri systur hennar.

Í 28. gr. laga um útlendinga er kveðið á um hvernig viðtali skuli háttað við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að viðtali skuli hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geta haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í slíku viðtali skuli Útlendingastofnun gæta að því hvort taka þurfi sérstakt tillit til umsækjanda vegna persónulegra aðstæðna hans. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun 24. maí 2022 þá nýlega orðin 18 ára. Var viðtalið sem tekið var við hana svokallað barnaviðtal. Slík viðtöl eru ekki ítarleg en eiga að miða að aldri og þroska barns hverju sinni. Í viðtali við kæranda má sjá að hún er aðeins spurð fárra og einfaldra spurninga um hvar hún hafi búið í heimaríki sínu, hvort hún hafi gengið í skóla og hvernig aðstæður hennar hafi verið í Venesúela. Þá var hún spurð um fjölskylduaðstæður sínar og hvort hún hafi getað leitað til læknis Í Kólumbíu. Ekki er að sjá að kærandi hafi með ítarlegum hætti verið spurð út í nokkur framangreindra atriða, sérstaklega út í ástæður flótta síns frá Kólumbíu eða afstöðu sína við því að snúa til baka. Að mati kærunefndar var fullt tilefni til að spyrja kæranda nánar út í atvik sem hún hefur lýst einkum í ljósi þess að hún hafði sætt ofbeldi á heimili föður síns sem barn og verið í forsjá systur sinnar, sem veitt hefur verið vernd hér á landi, frá sex ára aldri. Það er mat kærunefndar að þær upplýsingar sem lágu fyrir eftir viðtal kæranda hjá Útlendingastofnun hafi ekki verið nægar til þess að unnt hafi verið að leggja með fullnægjandi hætti mat á aðstæður hennar í heimaríki og hvort hún gæti talist flóttamaður eða hvort að henni myndu bíða erfiðar félagslegar aðstæður við endurkomu til heimaríkis. Að mati kærunefndar var fullt tilefni til að fá nánari upplýsingar um stöðu hennar í heimaríki s.s. með ítarlegra viðtali. Hafi Útlendingastofnun því brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar ber framangreint með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum hennar. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn stofnunarinnar þar sem aðstæður hennar voru ekki skoðaðar með hliðsjón af hennar persónulegu aðstæðum í Kólumbíu. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda er, með vísan til framangreinds, að mati kærunefndar enn fremur ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærunefnd telur framangreinda annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á efnislega niðurstöðu máls kæranda. Verður því ekki komist hjá því að fella ákvörðunina úr gildi.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum