Hoppa yfir valmynd

Nr. 1/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 10. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 1/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100054

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. október 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari Írans (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 1. nóvember 2015. Með ákvörðun dags. 3. mars 2016 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Noregs á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 27. apríl 2016, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Kærandi dvaldi á ókunnum stað eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp. Kærandi gaf sig fram hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum þann 19. júní 2017 og sótti aftur um alþjóðlega vernd hér á landi. Þann 21. ágúst 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Beiðni kæranda um endurupptöku var hafnað þann 10. október 2017 þar sem of langt var um liðið síðan hinn upphaflegi úrskurður féll, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt gögnum málsins féll ábyrgð Noregs á umsókn kæranda niður þar sem hann hafði ekki verið fluttur þangað innan þeirra tímamarka sem fjallað er um í 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Mál kæranda var af þeim sökum tekið til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun og kom kærandi i kjölfarið í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 23. júlí 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 5. október 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 26. október 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 17. nóvember 2018 ásamt fylgigögnum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 6. desember 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna, en kærandi hafi starfað fyrir stjórnarandstöðuflokkinn PJAK (e. Party of Free Life of Kurdistan).

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum rakin. Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í […] héraði sem liggi við landamæri Írans og Íraks. Þá sé kærandi múslimi og tilheyri þjóðarbroti Kúrda. Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi verið virkur meðlimur PJAK, stjórnarandstöðuflokks í Íran, frá 16 ára aldri jafnframt sem kærandi hafi barist fyrir réttindum Kúrda í Íran. Stjórnmálaflokkurinn PJAK (e. Party of Free Life Kurdistan) sé bannaður í Íran og meðlimir hans ofsóttir. Kærandi hafi lagt fram gögn til staðfestingar á því að hann hafi verið meðlimur flokksins. Þátttaka kæranda í flokknum í heimaríki hafi aðallega falið í sér að færa flokksmönnum mat, jafnframt sem kærandi hafi senst með bréf fyrir þá sem og leiðbeint þeim um heimahérað kæranda.

Kærandi kveður ofsóknir hafi hafist á hendur honum þegar einn meðlimur flokksins, […], hafi gefið upp nafn kæranda þegar hann hafi verið pyndaður í haldi íranskra stjórnvalda. Í kjölfarið hafi íranskir lögreglumenn og leynilögreglumenn komið heim til kæranda í leit að honum. Kærandi hafi ekki verið heima og hafi móðir kæranda hvatt hann til að halda sér fjarri. Eftir þetta hafi lögreglan ítrekað komið heim til kæranda í leit að honum. Kærandi greindi frá því að írönsk stjórnvöld séu enn að hringja og koma heim til hans en yfirvarp þeirra sé að kærandi hafi ekki sinnt herskyldu í Íran. Kærandi sé fullviss um að raunveruleg ástæða þess að yfirvöld leiti hans sé þátttaka hans í PJAK. Þá sé kæranda ómögulegt sem Kúrda og meðlimi í PJAK að snúa aftur til síns heima. Kærandi heldur því fram í greinargerð að við endurkomu til heimaríkis muni stjórnvöld handataka hann, fangelsa, pynda og myrða.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi dvalið á Íslandi frá árinu 2015. Kærandi kveður það hafa verið mistök þegar hann sagði lögreglustjóranum á Suðurnesjum að hann hafi yfirgefið landið. Kærandi hafi einungis sagst hafa farið erlendis þar sem hann hafi haldið að það myndi auka líkurnar á að fá alþjóðlega vernd á Íslandi. Frásögn sinni til stuðnings hefur kærandi lagt fram ljósmyndir af veru sinni á Íslandi.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki kæranda. Þá er einnig fjallað um stöðu Kúrda í Íran, m.a. gagnvart írönskum stjórnvöldum. Einnig er fjallað um stjórnmálaumhverfið í Íran. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telji styðja mál sitt.

Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til stjórnmálaskoðana hans. Kærandi hafi starfað fyrir stjórnarandstöðuflokkinn PJAK í heimaríki jafnframt sem hann hafi tekið virkan þátt í stjórnmálum í Noregi og gagnrýnt írönsk stjórnvöld. Kúrdar sem taki þátt í pólitík séu meðal þeirra sem séu sérstakt skotmark íranskra stjórnvalda. Kærandi mótmælir því sem fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar um að aðeins þeir sem hafi verið formlegir flokksmeðlimir, tekið þátt í vopnuðum átökum við írönsk yfirvöld eða hafi gagnrýnt yfirvöld opinberlega, eigi í hættu refsiaðgerðir af hálfu íranskra yfirvalda. Kærandi kveður það ekki skipta máli hvort einstaklingur sé hátt- eða lágsettur innan stjórnarandstöðuflokksins, einstaklingar sem starfi fyrir stjórnarandstöðuflokkana í Íran eigi ávallt í hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram í greinargerð að þrátt fyrir að tíu ár séu liðin frá því að hann hafi yfirgefið heimaríki þá séu yfirvöld enn að leita hans. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða handtekinn, beittur ofbeldi og pyndaður af hálfu íranskra stjórnvalda verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis, en einstaklingurinn sem hafi nafngreint kæranda hafi verið pyndaður einungis 17 ára gamall og dæmdur til dauða fyrir samskonar tengsl og kærandi hafi haft við PJAK. Í greinargerð heldur kærandi því fram að fjölmörg dæmi séu um að einstaklingar í svipaðri stöðu og kærandi hafi sætt illri meðferð, pyndingum og dauðarefsingu í heimaríki kæranda.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennum aðstæðum í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi hafi verið […] ára gamall þegar hann hafi flúið heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þá hafi kærandi verið einsamall á flótta í um tíu ár, en stjórnmálaumhverfið í heimaríki kæranda hafi ekkert breyst frá því hann flúði þaðan. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Að lokum heldur kærandi því fram í greinargerð að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé mikið gert úr því að tíu ár séu liðin frá því að kærandi hafi flúið Íran. Þá telur kærandi að synjun hans í Noregi hafi haft þau áhrif á rannsókn málsins hér á landi að fyrir fram hafi verið líklegra en ekki að kærandi myndi einnig fá synjun hér á landi. Þessi atriði bendi til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi verið ákveðin áður en formleg vinnsla á málinu hafi hafist.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og að leysa yrði úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Með tilliti til tungumála- og staðarháttarprófs sem kærandi þreytti þann 1. ágúst 2018 verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Írans. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé íranskur ríkisborgari. Að öðru leyti er óljóst hver kærandi sé.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Íran m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

 • Iran 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
 • DFAT Country Information Report Iran (Australia: Department of Foreign Affairs and Trade, 7. júní 2018);
 • Iran: COI Compilation (ACCORD, 31. júlí 2018);
 • Iran 2017/2018 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
 • Query response Iran: Increased Kurdish military activity in Iran (Landinfo, 13. febrúar 2018);
 • The World Factbook. Middle East: Iran (Central Intelligence Agency, 3. júlí 2018);
 • Iran: PJAK – Parti for et fritt liv i Kurdistan (LandInfo, 6. júní 2013);
 • Iran: UN experts urge respect for protesters‘ rights (United Nations Human Rights Office of the High Commissioner, 5. janúar 2018);
 • Iran. Issues concerning persons of ethnic minorities, Kurds and Ahwazi Arabs (Udlændingestyrelsen, 23. febrúar 2018);
 • Freedom in the World 2018 – Iran (Freedom House, 28. maí 2018);
 • Iran: Politics, Human Rights, and U.S. Policy (United States Congressional Research, 8. janúar 2018);
 • Iran 2016 International religious freedom report (U.S. Department of State, 27. nóvember 2017);
 • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Iran 2015-2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
 • Country Information and Guidance - Iran: Kurds and Kurdish political groups (Version 2.0) (UK Home Office, 29. júlí 2016);
 • The Kurds: History – Religion – Language – Politics (Austria: Federal Ministry of the Interior, 1. nóvember 2015);
 • Iran: Treatment by Iranian authorities of failed refugee claimants and family members of persons who have left Iran and claimed refugee status (2011-February 2015) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 10. mars 2015);
 • Iranian Kurds; On Conditions for Iranian Kurdish Parties in Iran and KRI, Activities in the Kurdish Area of Iran, Conditions in Border Area and Situation of Returnees from KRI to Iran; 30 May to 9 June 2013 (Udlændingestyrelsen, 30. september 2013).

Íslamska lýðveldið Íran sem er með u.þ.b. 80 milljónir íbúa var sett á fót árið 1979 í kjölfar byltingar gegn þáríkjandi einveldisstjórn. Ríkið er klerkaveldi sem er stjórnarform sem byggist á íslömskum trúarbrögðum og æðsti valdhafi fer með vald Guðs. Frá árinu 1980 hefur æðsti leiðtogi sjíta klerkastéttarinnar verið Ayatollah Ali Khameini. Þann 24. október 1945 gerðist Íran aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1968. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1975. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1994.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í Íran séu margir þjóðernishópar sem séu þó ekki viðurkenndir sem slíkir í írönskum lögum. Margir minnihlutahópanna hafi aðlagast vel og séu hluti af írönsku samfélagi. Kúrdar séu einn af stærstu þjóðernishópunum í Íran og telji u.þ.b. 7 % þjóðarinnar. Þá séu flestir þeirra einnig súnnítar. Kúrdar verði fyrir mismunun vegna þjóðernis, trúar og tungumáls í Íran. Í ofangreindri skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins frá apríl 2017 kemur fram að Kúrdar telji sig verða fyrir mismunun á vinnumarkaði og séu sífellt að berjast fyrir því að tungumál þeirra fái stærri sess í Íran. Leyniþjónustan og öryggissveitir ríkisins saki aðgerðarsinna úr minnihlutahópum oft um að styðja aðskilnað sem sé ógn við ríkið og landsvæði þess. Þá hafi nokkrir Kúrdar verið líflátnir fyrir brot gegn þjóðaröryggi og séu fjöldi kúrdískra samtaka bönnuð í Íran.

Í skýrslunum kemur jafnframt fram að stærstu stjórnmálahreyfingar Kúrda séu kúrdíski demókrataflokkurinn (PDKI), kúrdíski frelsisflokkurinn (PJAK) og flokkur íranska Kúrdistan (Komala) en þær geti ekki starfað í ríkinu vegna framangreinds banns stjórnvalda. Nærri ómögulegt sé fyrir kúrdískar stjórnmálahreyfingar að taka þátt í stjórnmálum í Íran þar sem flestir kúrdísku flokkanna séu taldir vera aðskilnaðar- eða hryðjuverkasamtök og þ.a.l. bannaðir af írönskum yfirvöldum. Það eitt að vera grunaður um að vera meðlimur þessara flokka geti leitt til langra fangelsisdóma. Margir Kúrdar séu þolendur pólitískra ofsókna og þurfi að sæta ítrekuðum ásökunum um hryðjuverk, þá sérstaklega ætlaðir stuðningsmenn PJAK, og fái síðan oft óhóflegar refsingar.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins starfi stjórnmálaflokkurinn PJAK einungis í norðaustanverðu Íran á landssvæði sem oft nefnist svæði Kúrda í Íran. Flestir meðlimir flokksins séu Kúrdar frá Íran en einnig séu dæmi um meðlimi sem séu Kúrdar frá nágrannaríkjum. Samkvæmt skýrslu dönsku útlendingastofnunar þurfi einstaklingar að hafa náð 18 ára aldri og að vera heilsuhraustir til þess að gerast meðlimir PJAK. Þá kemur einnig fram að flokkurinn gefi ekki út flokksskírteini, en að einstaklingar sem sæki um alþjóðlega vernd geti óskað eftir meðmælabréfi frá PJAK. Meðmælabréfið sé sent frá skrifstofu PJAK í Svíþjóð beint til stjórnvaldsins í því ríki þar sem flokksmeðlimur sé að sækja um alþjóðlega vernd.

Samkvæmt skýrslu Freedom House frá maí 2018 standi íranskir ríkisborgarar frammi fyrir hömlum á opinni og frjálsri umræðu þar sem skilgreiningar laga um takmarkanir á tjáningarfrelsinu séu óljósar, refsingar þungar og ríkið hafi eftirlit með rafrænum samskiptum auk annarra þátta. Þrátt fyrir áhættuna og framangreindar takmarkanir tjái margir íbúar sig á samfélagsmiðlum sem geti haft í för með sér að ríkið loki ákveðnum umræðuvettvangi. Samkvæmt skýrslu danskra útlendingayfirvalda geta pólitískar aðgerðir Kúrda í Evrópu, t.a.m. gagnrýni á takmarkanir á stjórnmálalegu frelsi í Íran á vefmiðlum eða öðrum vettvangi, haft afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi við endurkomu til Írans en að afleiðingarnar séu misalvarlegar eftir eðli og efni aðgerðanna. Í stjórnarskrá Írans kemur fram að það megi halda almenn mótmæli ef þau ógni ekki íslömskum grunngildum. Samkvæmt gögnum sé raunveruleikinn þó sá að mótmæli sem ekki eru samþykkt fyrir fram af ríkinu hafi á undanförnum árum verið leyst upp með valdi af öryggissveitum ríkisins sem handtaki mótmælendur og setji þá í varðhald. Sem dæmi hafi stór mótmæli átt sér stað síðla desembermánaðar árið 2017 þar sem þegnar landsins hafi krafist frelsis og fullnægjandi lífskjara og hafi fjöldi fólks verið sett í varðhald, tugir mótmælenda látið lífið og hafi yfirvöld takmarkað aðgang að samfélagsmiðlum sem notaðir hafi verið til þess að dreifa upplýsingum um mótmælin. Hins vegar hafi átt sér stað skipulögð samkoma til stuðnings ríkisstjórninni þann 30. desember sama ár og hafi ríkisfjölmiðlar verið með beina útsendingu frá þeirri samkomu.

Í skýrslu frá innflytjenda- og flóttamannanefnd Kanada frá 2015 kemur fram að samkvæmt ríkissaksóknara Írans (e. Irans Prosecutor General) sé öllum írönskum ríkisborgurunum heimilt að snúa aftur til Íran. Ef einstaklingur hafi framið glæp áður en hann hafi yfirgefið landið þá muni hann vera handtekinn og ákærður við komuna til landsins. Í skýrslunni kemur fram að aðstoðarmaður utanríkisráðherra Írans (e. Deputy Foreign Minister of Iran) hefði greint frá því að írönsk stjórnvöld haldi lista yfir einstaklinga sem eigi að handtaka við komu til landsins. Svo lengi sem einstaklingur hefði ekki verið ákærður fyrir glæp í Íran væri honum þó heimilt að ferðast til og frá landinu. Í skýrslunni er haft eftir forstöðumanni vegabréfadeildar og vegabréfsáritana í Íran (e. Head of the Passport and Visa Department of Iran) að stjórnarskrá landsins heimili Írönum að setjast að hvar sem þeir vilji. Þá gerist Írani ekki brotlegur við lög ef hann sæki um alþjóðlega vernd í öðru ríki. Í skýrslunni sem og í skýrslu dönsku útlendingastofnun kemur fram að einstaklingar sem hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum séu ávallt yfirheyrðir við endurkomu til landsins. Þeir séu settir í varðhald þar til írönsk stjórnvöld hafi gengið úr skugga um að þeir hafi ekki gerst sekir um háttsemi sem er refsiverð samkvæmt írönskum lögum. Síðar sé þeim sleppt. Ef í ljós komi að einstaklingur hafi verið virkur í andstöðu við stjórnvöld í Íran sé einstaklingurinn ákærður. Þá kemur fram í skýrslu dönsku útlendingastofnun að þeir sem hafi verið virkir eða tekið þátt í stjórnarandstöðinni eigi á hættu að verða fyrir illri meðferð af hálfu yfirvalda við endursendingu til Írans. Þar kemur jafnframt fram að ekki skiptir máli fyrir síðastnefnda atriðið hversu langur tími sé liðinn frá því að einstaklingur hafi tekið þátt í slíkri andstöðu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda er byggð á því að hann verði fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna en kærandi hafi aðstoðað stjórnarandstöðuflokka í heimaríki.

Í viðtali hjá kærunefnd og í greinargerð sem kærandi lagði fram við meðferð málsins kom fram að þegar kærandi hafi verið um 16 ára gamall hafi hann ásamt vini sínum aðstoðað við að koma bréfum, mat og öðrum nauðsynjavörum til meðlima stjórnarandstöðuflokka í Íran, þá aðallega meðlima PJAK sem berjist fyrir réttindum Kúrda. Meðlimir stjórnarandstöðuflokkanna hafi verið í felum í fjalllendi í norðvesturhluta Írans við landamæri Íraks, en heimabær kæranda, […], sé á þessu svæði. Þá hafi vinur kæranda verið handtekinn af írönskum stjórnvöldum og kveður kærandi hann hafa gefið upp nafn kæranda sem og að upplýsingar um kæranda hafi fundist í síma vinarins. Í kjölfarið, n.t.t. sumarið 2008, hafi írönsk stjórnvöld leitað kæranda. Kærandi kveðst ekki hafa átt annarra kosta völ en að yfirgefa heimaríki og hafi kærandi flúið til Noregs. Við endurkomu til heimaríkis kveðst kærandi óttast að verða handtekinn, beittur ofbeldi og pyndaður af hálfu íranskra stjórnvalda, en vinur kæranda hafi verið pyndaður einungis 17 ára gamall og dæmdur til dauða fyrir samskonar tengsl og kærandi hafi haft við PJAK. Þá ítrekaði kærandi í viðtali við kærunefnd að fjölmörg dæmi séu um að einstaklingar í svipaðri stöðu og kærandi hafi sætt illri meðferð, pyndingum og dauðarefsingu í heimaríki kæranda.

Framangreind gögn um aðstæður í heimaríki kæranda bera með sér að stjórnarandstöðuflokkar Kúrda, þ. á m. PJAK, séu skilgreindir sem aðskilnaðar- eða hryðjuverkasamtök og þ.a.l. bannaðir af írönskum yfirvöldum. Þá geti það eitt að vera grunaður um að vera meðlimur þessara flokka leitt til langra fangelsisdóma. Líkt og komið hefur fram séu margir Kúrdar þolendur pólitískra ofsókna og þurfi þeir að sæta ítrekuðum ásökunum um hryðjuverk, þá sérstaklega ætlaðir stuðningsmenn PJAK. Í gögnum kemur fram að einstaklingar sem sótt hafi um alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum séu ávallt yfirheyrðir við endurkomu til Íran. Þeir séu settir í varðhald á meðan írönsk stjórnvöld gangi úr skugga um að þeir séu hvorki meðlimir í stjórnarandstöðuflokkum né hafi tekið þátt í athöfnum á vegum stjórnarandstöðuflokka. Ef í ljós kemur að einstaklingur hafi verið með einhverjum hætti virkur í stjórnarandstöðunni þá sé sá hinn sami ákærður. Þá bera gögn með sér að stuðningsmenn PJAK og annarra stjórnarandstöðuflokka í Íran séu dæmdir til óhóflega refsinga.

Kærandi hefur lýst ástæðum flótta í viðtölum hjá stjórnvöldum, bæði Útlendingastofnun og hjá kærunefnd útlendingamála. Frásögn kæranda hjá kærunefnd var stöðug og í samræmi við það sem fram kom í greinargerð og þess sem kom fram í viðtali hjá Útlendingastofnun. Nokkurs misræmis gætir þó í frásögn kæranda hér á landi og frásögn hans hjá norskum stjórnvöldum, en kærandi fór í viðtal hjá norskum stjórnvöldum þann 24. október 2008. Með tilliti til ungs aldurs kæranda þegar hann fyrst kom til Noregs sem og þess að um tíu ár eru liðin frá því að viðtalið átti sér stað er það mat kærunefndar að skýringar kæranda á umræddu misræmi séu trúverðugar. Þá er frásögnin samrýmanleg þeim gögnum sem kærunefndin hefur farið yfir og varða aðstæður í heimaríki kæranda, svo sem að þeir sem aðstoði meðlimi stjórnarandstöðuflokkana eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Íran. Þá telur kærunefnd að skýrslur um aðstæður í Íran renni ekki nægjanlega styrkum stoðum undir ályktanir um að írönsk stjórnvöld geri greinamunur á því hvort einstaklingur hafi verið virkur í stjórnarandstöðu fyrir mörgum árum eða nýlega. Að mati kærunefndar verður því ekki lagt til grundvallar við úrlausn máls kæranda að sá tími sem er liðinn frá því að hann fór frá heimaríki hafi dregið úr hættu á að hann verði fyrir ofsóknum af hálfu íranskra yfirvalda vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana og -þátttöku.

Kærunefnd telur, með hliðsjón af framburði kæranda sem fær stuðning í gögnum málsins, að kærandi hafi á rökstuddan hátt leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana í heimaríki sínu, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um slíkan innri flutning, Guidelines on International Protection: “Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (UNHCR, 23. júlí 2003) er almennt ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur flytji sig um set innan síns heimaríkis til að draga úr hættu á ofsóknum þegar aðilinn sem valdur er að ofsóknum er á vegum stjórnvalda. Í athugasemdum við 4. mgr. 37. gr. frumvarps til laga um útlendinga koma fram sambærileg sjónarmið. Kærunefnd telur því að flutningur innan Írans sé ekki raunhæf lausn á máli kæranda þar sem það séu aðgerðir og afstaða stjórnvalda sem valdi því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður hér á landi og hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                Erna Kristín Blöndal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum