Mál nr. 418/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 418/2024
Fimmtudaginn 14. nóvember 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 9. september 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. ágúst 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. mars 2023 og var umsóknin samþykkt 13. mars 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. ágúst 2024, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um nauðsynlegar upplýsingar sem hefðu áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 23.013 kr., að meðtöldu 15% álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. september 2024. Með bréfi, dags. 11. september 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 14. október 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er greint frá því að kærandi hafi verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald 26. júlí 2024 með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. X, í kjölfar húsleitar í geymslu að C 25. júlí 2024. Kærandi hafi þar verið grunaður um aðild að fíkniefnalagabroti. Kærandi hafi kært úrskurð héraðsdóms til Landsréttar sem hafi fellt úrskurðinn úr gildi 29. júlí 2024. Í úrskurði Landsréttar nr. X komi fram að rannsókn málsins sé skammt á veg komin, ekki verði ráðið af gögnum málsins að kannað hafi verið hvort fleiri einstaklingar hefðu lykil að geymslunni líkt og kæranda og skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi væru ekki uppfyllt í málinu. Þannig hafi Landsréttur fellt úr gildi úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald kæranda og hann hafi verið laus ferða sinna. Kærandi hafi setið í gæsluvarðhaldi að ósekju í þrjá daga.
Vegna þessa hafi Vinnumálastofnun tekið þá ákvörðun, dags. 30. ágúst 2024, að fella niður atvinnuleysisbætur til handa kæranda í tvo mánuði. Í ákvörðuninni komi fram að samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun hafi kærandi afplánað refsingar þann 26. júlí 2024 og vísað sé til 53. gr. laga nr. 54/2006 til stuðnings ákvörðun um niðurfellingu atvinnuleysisbóta kæranda. Þá sé vísað til 1. mgr. 59. gr. sömu laga í ákvörðuninni þar sem að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna. Kærandi sé ósammála því sem fram komi í ákvörðun Vinnumálastofnunar og geti ekki látið una við ákvörðunina þar sem hann telji hana ekki rétta. Kærandi telji sig því knúinn til að kæra ákvörðunina í því skyni að fá hana fellda úr gildi.
Kærandi byggi á því að skilyrði 53. gr. laga nr. 54/2006 fyrir niðurfellingu atvinnuleysisbóta honum til handa í tvo mánuði sé ekki uppfyllt í málinu og Vinnumálastofnun hafi þannig verið óheimilt að fella bæturnar niður. Ekki sé rétt að kærandi hafi afplánað refsingu í fangelsi dagana 26.-29. júlí 2024 líkt og fram komi í hinni kærðu ákvörðun. Það rétta sé að kærandi hafi setið í gæsluvarðhaldi þessa daga samkvæmt úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, sem síðar hafi verið felldur úr gildi með úrskurði Landsréttar þann 29. júlí 2024 og þá hafi hann verið laus úr haldi.
Í 53. gr. laga nr. 54/2006 komi fram að það sama eigi við um þann sem hafi verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara, þ.e. hefur til að mynda verið úrskurðaður í gæsluvarðhald líkt og eigi við um kæranda. Aftur á móti hafi úrskurður héraðsdóms verið felldur úr gildi með úrskurði Landsréttar aðeins þremur dögum síðar og kærandi hafi þá verið laus úr haldi, enda ekki nægar sannanir eða röksemdir fyrir því að úrskurða hann í gæsluvarðhald líkt og héraðsdómur hafi gert. Þannig hafi kærandi setið í gæsluvarðhaldi í þrjá daga að ósekju en hafi ekki verið að afplána neina refsingu í fangelsi líkt og haldið sé fram í ákvörðun Vinnumálastofnunar.
Hvað varði vísan Vinnumálastofnunar til 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 bendi kærandi á að hann hafi setið í gæsluvarðhaldi og hafi því ekki haft greiðan aðgang að því að koma upplýsingum til stofnunarinnar um stöðu mála. Um hafi verið að ræða afar stutt varðhald og forgangsatriði hjá kæranda að fá úrskurði um gæsluna hnekkt þar sem hann hafi verið látinn sæta gæsluvarðhaldinu að ósekju. Þessi stutti tími, eða þrír dagar, hafi einfaldlega farið í það að vinna að því að fá úrskurði héraðsdóms hnekkt og kærandi ekki beint í þeirri aðstöðu að geta með góðu móti haft samband við Vinnumálastofnun með þessar upplýsingar. Kærandi hafi því engan vegin vísvitandi haldið þessum upplýsingum frá stofnuninni og ekki talið þörf á að upplýsa um þetta þegar hann hafi losnað þremur dögum síðar í kjölfar úrskurðar Landsréttar, enda hafi hann setið saklaus í gæsluvarðahaldi að ósekju sem úrskurður Landsréttar staðfesti. Þannig hafi Vinnumálastofnun ekki verið heimilt að fella niður bætur kæranda á þeim grundvelli að hann hafi ekki veitt umræddar upplýsingar.
Þrátt fyrir allt framangreint hafi Vinnumálastofnun komist að þeirri ákvörðun að fella niður atvinnuleysisbætur til handa kæranda í tvo mánuði. Kærandi telji augljósa ágalla hafa verið á málsmeðferð Vinnumálastofnunar við töku ákvörðunar í máli hans þar sem ljóst sé af öllum fyrirliggjandi gögnum að hann uppfyllti skilyrði til atvinnuleysisbóta á tímabilinu 26.-29. júlí 2024, með vísan til þess sem fram hafi komið. Vinnumálastofnun hafi ekki rannsakað mál kæranda nægilega vel í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en mál teljist nægjanlega upplýst þegar upplýsinga hafi verið aflað sem séu nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í máli. Gerðar séu strangari kröfur til stjórnvalds að ganga úr skugga um að upplýsingar sem búi að baki ákvörðun séu sannar og réttar þegar stjórnvaldsákvörðun sé íþyngjandi, líkt og hér sé um að ræða.
Kærandi telji ljóst með vísan til alls framangreinds að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin án þess að allra nauðsynlegra gagna og upplýsinga hafi verið aflað og ákvörðunin því ekki verið efnislega rétt. Kærandi telji að af meðfylgjandi gögnum megi sjá að hann hafi uppfyllt skilyrði til atvinnuleysisbóta umrætt tímabil og Vinnumálastofnun þannig ekki verið heimilt að fella bæturnar niður í tvo mánuði. Af þeim sökum fari kærandi fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála felli ákvörðun Vinnumálastofnunar úr gildi.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 3. mars 2023. Með erindi, dags. 13. mars 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Við reglulega samkeyrslu við Fangelsismálastofnun hafi komið í ljós að kærandi hafi setið í gæsluvarðhaldi dagana 26. júlí 2024 til 29 júlí 2024. Þann 16. ágúst 2024 hafi kæranda verið sent erindi þar sem óskað hafi verið eftir skriflegum skýringum kæranda á því hvers vegna stofnuninni hefði ekki verið tilkynnt um „afplánun“ og jafnframt óskað eftir vottorði frá Fangelsismálastofnun um tímabilið sem afplánun hafi staðið yfir. Kæranda hafi verið leiðbeint um sjö daga frest til skila á umbeðnum gögnum.
Með erindi, dags. 30. ágúst 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar í tvo mánuði sökum þess að hann hafi ekki upplýst stofnunina um nauðsynlegar upplýsingar sem hefðu áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Framangreind ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 9. september 2024. Með kæru hafi fylgt úrskurður Landsréttar frá 29. júlí 2024 í máli X. Þar komi fram að úrskurður héraðsdóms frá 26. júlí 2024 um gæsluvarðhald kæranda sé felldur úr gildi.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Eitt af almennum skilyrðum greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. Í 14. gr. laganna sé kveðið á um hvað felist í virkri atvinnuleit en samkvæmt [h. lið] 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun ákveði. Ákvæði 13. gr. sé svohljóðandi:
„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“
Í 53. gr. laganna sé fjallað um frelsissviptingu og segi í henni:
„Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á þeim tíma er hann tekur út refsingu sína í fangelsi. Hið sama á við um þann sem hefur verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara eða tekur út refsingu sína í samfélagsþjónustu.“
Fyrir liggur að kærandi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 26. til 29. júlí 2024. Því sé haldið fram í kæru að kærandi hafi uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli þess að Landsréttur hafi fellt úr gildi úrskurð héraðsdóms frá 26. júlí um gæsluvarðhaldsvist kæranda. Þessu hafni Vinnumálastofnun á grundvelli þess sem fram komi í 2. málslið 1. mgr. 53. gr. laganna og vísi til þess að kærandi hafi sannarlega verið sviptur frelsi með úrskurði dómara umrætt tímabil.
Þá sé því haldið fram að Vinnumálastofnun hafi ekki rannsakað mál kæranda nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Sérstaklega sé vikið að því að stofnuninni beri að sannreyna upplýsingar sem liggi fyrir áður en ákvörðun sé tekin í máli einstaklinga. Vinnumálastofnun bendi á að í athugasemdum með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 54/2006 sé eftirfarandi klausu að finna í athugasemdum með 53. gr. frumvarpsins:
„Enn fremur er lagt til að sama gildi um þá sem sviptir eru frelsi sínu með úrskurði dómara, til dæmis úrskurði um gæsluvarðhald meðan á rannsókn máls stendur yfir. Verður ekki talið að einstaklingar séu í virkri atvinnuleit á sama tíma.“
Ljóst sé að Vinnumálastofnun hafi sannreynt með öllum mögulegum leiðum réttmæti upplýsinga um gæsluvarðhald kæranda og byggt ákvörðun sína á staðreyndum í málinu sem verði ekki hraktar. Vinnumálastofnun sé ekki dómsvald í málinu sjálfu og ekki hlutverk stofnunarinnar að kveða úr um réttmæti frelsissviptinga eða úrskurða dómstóla og þá síst í því að skera úr um sekt eða sakleysi einstaklinga sem sæti rannsókn löggæsluyfirvalda.
Ákvörðun um viðurlög kæranda byggi á því að kærandi hafi ekki upplýst stofnunina um breytingar á högum sínum en kærandi teljist vart uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. 14. gr. ef hann upplýsi stofnunina ekki um að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi í þrjá sólarhringa.
Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.
Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða. Þar segi orðrétt:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Kærandi hafi ekki veitt skriflegar skýringar eða lýst afstöðu sinni eins og óskað hafi verið eftir með erindi stofnunarinnar, dags. 16. ágúst 2024. Í kæru sé því haldið fram að hann uppfylli skilyrði um greiðslur atvinnuleysibóta þar sem hann hafi verið í gæsluvarðhaldi að „ósekju“ þann tíma sem um ræði. Eins og áður segi sé það ekki hlutverk stofnunarinnar að kveða úr um sekt manna í sakamálum, þá enn síður að rannsaka þau. Kærandi hafi sætt gæsluvarðhaldi í þrjá sólarhringa og hafi ekki sinnt erindi stofnunarinnar um skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki upplýst um þær breytingar á högum sínum.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sat í gæsluvarðhaldi dagana 26. til 29. júlí 2024 sem Vinnumálastofnun fékk upplýsingar um frá Fangelsismálastofnun 16. ágúst 2024. Úrskurðarnefndin telur ljóst að þar sé um að ræða upplýsingar sem hafa áhrif á rétt kæranda til atvinnuleysisbóta, enda eitt af skilyrðum fyrir því að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Í því felst meðal annars að hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa til boða, sbr. d. og h. liði 1. mgr. 14. gr. Úrskurðarnefndin getur fallist á að kærandi hafi ekki verið í góðri stöðu til að tilkynna Vinnumálastofnun þegar í stað um gæsluvarðhaldsvistina en að mati nefndarinnar bar kæranda að upplýsa stofnunina um það strax að henni lokinni.
Í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti stofnuninni ekki að hann hefði setið í gæsluvarðhaldi. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um beitingu viðurlaga við slíku broti.
Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur vegna þeirra daga sem kærandi sætti gæsluvarðhaldi. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi sætti gæsluvarðhaldi dagana 26. til 29. júlí 2024 var hann ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laganna. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki sjálfur Vinnumálastofnun um gæsluvarðhaldsvistina og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem stofnunin lagði á endurgreiðslukröfuna.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. ágúst 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir