Hoppa yfir valmynd

Endurupptökubeiðni - Tímabundin svipting rekstrarleyfis – Rekstrarleyfi í flokki III

Beiðni um endurupptöku máls

Með bréfi dags. 15. júlí 2019 barst ráðuneytinu endurupptökubeiðni frá [X], lögmanni, fyrir hönd [Z ehf.] (hér eftir kærandi). Beiðnin snýr að ákvörðun ráðuneytisins dags. 12. júlí 2019, þar sem staðfest var ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) dags. 13. maí 2019, um að svipta kæranda tímabundið leyfi til reksturs veitingastaðar í fl. III að [Þ]. 

 

Heimild til endurupptöku máls er að finna í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Kröfur

Aðili krefst aðallega endurskoðunar á ákvörðun ráðuneytisins dags. 12. júlí 2019 en til vara að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað að lágmarki um þrjá mánuði, talið frá næstu mánaðamótum eftir að úrskurður í málinu liggur fyrir.

 

Málsatvik

Mál þetta má rekja til ákvörðunar sýslumanns dags. 13. maí 2019 um tímabundna sviptingu rekstrarleyfis kæranda til 12 vikna.

 

Með bréfi dags, 16. maí 2019 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna umræddrar ákvörðunar. Þá fór kærandi þess á leit við ráðuneytið að réttaráhrifum yrði frestað þar til endanleg niðurstaða ráðuneytisins lægi fyrir.

 

Með bréfi dags. 17. maí 2019 féllst ráðuneytið á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar hjá ráðuneytinu.

 

Með ákvörðun dags. 12. júlí 2019 í máli nr. [Æ] staðfesti ráðuneytið ákvörðun sýslumanns um tímabundna sviptingu rekstrarleyfis.

 

Með bréfi dags. 15. júlí 2019 fór kærandi fram á endurupptöku máls. Til vara fór kærandi fram á frekari frestun réttaráhrifa.

 

Um málsatvik vísast að öðru leyti til fyrri úrskurðar ráðuneytisins dags. 12. júlí 2019.

 

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að efnislega röng niðurstaða hafi fengist í málinu auk þess sem formgallar séu á eldri ákvörðun ráðuneytisins.

 

Kærandi telur að rökstuðningi í málinu sé ábótavant. Þá telur kærandi að umrædd brot hans á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem fyrri ákvörðun byggir á, séu ósönnuð. Þá telur kærandi að vafasamt sé að skapa það fordæmi að eitt mögulegt brot starfsmanns geti valdið leyfissviptingu og gjaldþroti án allra fyrirvara eða möguleika á úrbótum.

 

Kærandi byggir einnig á málsástæðum og málsatvikum sem áður hafa fram komið og ráðuneytið hefur nú þegar tekið afstöðu til. Þykir ekki tilefni til að rekja þau sjónarmið að nýju en vísast til fyrri ákvörðunar ráðuneytisins dags. 12. júlí 2019.

 

Forsendur og niðurstaða

Sem fyrr greinir svipti sýslumaður kæranda rekstrarleyfi til 12 vikna þann 13. maí 2019. Umrædd ákvörðun byggir á því að kærandi hafi gerst brotlegur við 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 um bann við nektarsýningum. Þá grundvallast ákvörðunin einnig á því að kærandi hafi ítrekað brotið gegn skilmálum og skilyrðum rekstrarleyfis um leyfilegan afgreiðslutíma.

 

Það er mat ráðuneytisins að skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 um tímabundna sviptingu rekstrarleyfis hafi verið uppfyllt í umræddu máli.

 

Ráðuneytið hafnar fullyrðingum kæranda um að ákvörðun ráðuneytisins hafi ekki uppfyllt áskilnað stjórnsýslulaga til rökstuðnings. Ráðuneytið hafnar sjónarmiðum kæranda um að fyrri ákvörðun hafi verið haldin formgöllum. Ráðuneytið hefur lagt sjálfstætt mat á fyrirliggjandi gögn og athugasemdir kæranda og telur fyrri ákvörðun efnislega rétta.

 

Það er mat ráðuneytisins að skilyrði til endurupptöku máls skv. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, séu ekki uppfyllt.

 

Með vísan til þess sem að framan greinir telur ráðuneytið ekki tilefni til að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar lengur en nú þegar hefur verið gert.

 

 

Úrskurðarorð

Beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar dags. 12. júlí 2019, þar sem ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu dags. 16. maí 2019 um að svipta kæranda rekstrarleyfi til 12 vikna var staðfest, er hafnað. Þá hafnar ráðuneytið beiðni kæranda um frekari frestun réttaráhrifa.

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira