Hoppa yfir valmynd

Nr. 284/2021 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 284/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21040042

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. apríl 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Malasíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2021, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar með íslenskum ríkisborgara hinn 13. júlí 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 16. apríl 2021 og greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 20. apríl 2021 ásamt fylgigögnum.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til ákvæðis 70. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins hefðu kærandi og maki ekki verið í sambúð lengur en eitt ár og þá ætti undanþáguheimild 2. mgr. 70. gr. ekki við í málinu. Synjaði stofnunin því umsókn kæranda um dvalarleyfi.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi geti ekki framvísað gögnum um sambúð við maka þar sem hún hafi starfað í Sádi-Arabíu þar sem afar strangar reglur gildi um sambúð ógiftra aðila. Maki kæranda hafi á þeim tíma verið reglulega í borginni Jeddah vegna vinnu og hafi því verið hentugt fyrir þau að vera saman þar í landi. Vegna Covid-19 faraldursins hafi þau hins vegar ákveðið að setjast að saman hér á landi en maki kæranda starfi nú hér á landi og kærandi sé í íslenskunámi. Sé kærandi menntaður hjúkrunarfræðingur og stefni að því að búa með maka sínum og starfa hér á landi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt ákvæðinu teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn eigi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Skal sambúðin hafa varað lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Þá þarf hjúskapur eða sambúð viðkomandi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur. Loks er heimilt að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.

Í dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 13. júlí 2020, kemur fram að hún og maki hafi kynnst í október 2018 á Balí, Indónesíu. Eftir að kærandi hafi horfið aftur til starfa sinna í Sádi-Arabíu sem hjúkrunarfræðingur hafi þau haldið sambandi en maki hafi á þeim tíma starfað fyrir […] og vegna vinnu sinnar oft verið í Sádi-Arabíu. Hafi þau hafið formlegt ástarsamband í maí 2019 eftir að hafa hist í borginni Jeddah og haldið áfram að hittast þegar maki kæranda hafi verið staddur þar í landi. Hafi þau hins vegar ekki getað búið saman löglega þar sem ólöglegt sé í Sádi-Arabíu fyrir ógift pör að búa saman. Eftir að maki hafi misst vinnuna hjá […] hafi þau ferðast til að hitta hvort annað í fjölda skipta, kærandi hafi heimsótt maka til Íslands í desember 2019 og þau varið áramótunum saman á Spáni. Þá hafi maki heimsótt kæranda til Malasíu í janúar 2020 og hafi þau ferðast saman til Singapore í febrúar sama ár. Er vísað til þess að þau geti ekki framvísað skjölum sem sýni fram á sambúð þeirra þar sem slíkt sé flókið. Þá hafi Covid-19 faraldurinn orðið til þess að þau hafi ekki getað heimsótt hvort annað og hafi þau verið í fjarbúð. Af gögnum málsins, þ. á m. þeim málsástæðum sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins hjá kærunefnd, er ljóst að kærandi og maki hafa ekki verið í sambúð lengur en í eitt ár og uppfyllir kærandi því ekki tímaskilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 70. gr. kemur fram að heimilt sé að beita ákvæðum 1. mgr. þótt sambúð hafi varað skemur en eitt ár ef sérstakar ástæður mæla með því. Í athugasemdum við 2. mgr. 70. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðið geti átt við í þeim tilvikum þegar aðilar eiga barn saman eða eiga von á barni saman og ætla sér að búa saman hér á landi. Þá sé heimilt að víkja frá skilyrðum um tímalengd skráðrar sambúðar og skráningar erlendis ef heildstætt mat á aðstæðum aðila leiðir í ljós að ósanngjarnt eða ómögulegt sé að krefjast þess að sambúð hafi verið skráð í tilskilin tíma, t.d. vegna löggjafar eða aðstæðna í heimaríki eða sérstakra aðstæðna ábyrgðaraðila og maka hans og hægt er að sýna fram á sambúð með öðrum hætti.

Líkt og áður greinir bera fyrirliggjandi gögn málsins með sér að kærandi og maki séu búin að eiga í nánum samskiptum frá árinu 2018, hafi dvalið saman erlendis á tilgreindum tímabilum og hafi verið í fjarbúð. Þá telur kærunefnd ekki tilefni til að draga í efa staðhæfingar kæranda um erfiðleika við skráningu sambúðar ógiftra aðila í Sádi-Arabíu og því geti hún ekki framvísað slíkum gögnum. Er það mat kærunefndar, eftir skoðun á gögnum málsins og þeim málsástæðum sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins, og eins og stendur hér sérstaklega á, að aðstæður kæranda og maka séu þess eðlis að skilyrðum 2. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé fullnægt í málinu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi uppfylli grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 55. gr. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira