Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 48/2023. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 20. mars 2024
í máli nr. 48/2023:
Ferill verkfræðistofa ehf.
gegn
Vestmannaeyjabæ og
Eflu hf.

Lykilorð
Útboðsgögn. Bindandi samningur. Fyrirvari. Frávikstilboð. Byggt á getu annarra.

Útdráttur
F kærði útboð V sem miðaðist við að koma á samningi um hönnun og ráðgjöf við uppbyggingu á Hamarsskóla í Vestmannaeyjum en V hafði metið tilboð F ógilt og óaðgengilegt við meðferð útboðsins. Í úrskurði kærunefndar útboðsmála kom fram að þar sem bindandi samningur hefði komist á í málinu milli V og E væri ekki unnt að fallast á kröfu F um að ákvörðun V yrði felld úr gildi. Þá var rakið í úrskurðinum að tilboð F hefði verið gert á grundvelli tiltekinna forsendna en bjóðendum væri almennt óheimilt að setja einhliða fyrirvara eða skilyrði í tilboð sín enda fæli slíkt í sér hættu á mismunum bjóðenda. Í úrskurðinum var lagt til grundvallar að þeir fyrirvarar sem komu fram í tilboði kæranda hefðu falið í sér frávik frá útboðsgögnum og að samþykki á þeim hefði verið til þess fallið að raska jafnræði bjóðenda í útboðinu í andstöðu við 1. mgr. 15. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þá taldi nefndin að tilboð kæranda hefði ekki verið í samræmi við útboðsgögn hvað varðaði fyrirætlanir hans um að byggja á getu annarra aðila. Að þessu og öðru því virtu sem kom fram í úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ákvörðun V hefði ekki falið í sér brot á lögum nr. 120/2016. Var kröfu F um viðurkenningu á bótaskyldu V gagnvart honum því hafnað en málskostnaður felldur niður.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 26. nóvember 2023 kærði Ferill verkfræðistofa ehf. (hér eftir „kærandi“) útboð Vestmannaeyjabæjar (hér eftir „varnaraðili“) nr. 20234 auðkennt „Engineering services for Vestmannaeyjar municipality“.

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að meta tilboð kæranda ógilt og vísa því frá í innkaupaferlinu. Þá krefst kærandi þess að nefndin veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum auk málskostnaðar.

Kæran var kynnt varnaraðila og Eflu hf. og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Varnaraðili sendi upplýsingar á nefndina með tveimur tölvupóstum 27. nóvember 2023. Með greinargerð 7. desember 2023 krefst varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda verði vísað frá eða hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð. Efla hf. lagði fram greinargerð 8. desember 2023 og mótmælti kröfum kæranda.

Með ákvörðun 20. desember 2023 hafnaði kærunefnd útboðsmála stöðvunarkröfu kæranda.

Kærandi lagði fram lokaathugasemdir sínar 17. janúar 2024.

Kærunefnd útboðsmála beindi fyrirspurn til varnaraðila 11. mars 2024 og óskaði meðal annars eftir að varnaraðili afhenti nefndinni afrit af öllum fylgiskjölum sem kærandi hefði lagt fram með tilboði sínu. Varnaraðili svaraði erindinu samdægurs og afhenti umbeðin gögn.

I

Varnaraðili auglýsti hið kærða útboð 1. október 2023 og var það auglýst bæði innanlands og á Evrópska efnahagssvæðinu. Í grein 1.1 kom fram að varnaraðili óskaði eftir tilboðum í hönnun og ráðgjöf við uppbyggingu á Hamarsskóla í Vestmannaeyjum. Um væri að ræða 2.155 fermetra stækkun á núverandi skólabyggingu. Markmið útboðsins væri að velja fimm lykilaðila sem kæmu til með að vera hluti af hönnunarteymi sem yrði falið að taka að sér og bera ábyrgð á fullnaðarhönnun stækkunarinnar. Lykilaðilarnir voru burðarþolshönnuður, hönnuður á sviði raflagna og lýsingar, hönnuður á sviði lagna- og loftræstikerfa, hljóðvistarhönnuður og brunahönnuður.

Í grein 3.1 kom fram að fleiri fyrirtækjum væri heimilt að standa að tilboði sameiginlega enda teldust þau þá bera sameiginlega ábyrgð á efndum samnings. Ef bjóðandi samanstæði af fleiri en einu fyrirtæki skyldi eitt fyrirtæki koma fram fyrir hönd hinna við framkvæmd samningsins og standa kaupanda öll skil. Í greininni var óskað eftir að bjóðendur svöruðu því hvort að fleiri fyrirtæki stæðu á bakvið tilboðið og legðu fram ítarlegar upplýsingar um fyrirtækin ef sú væri raunin.

Í grein 3.3 í útboðsgögnum var mælt fyrir um heimild bjóðanda til að byggja á getu annarra aðila. Í greininni kom fram að ef bjóðandi byggði tilboð sitt á menntun, starfsreynslu eða faglegri getu annars aðila væri sett það skilyrði að sá aðili annaðist framkvæmd verksins eða þjónustu í samræmi við gerðar kröfur og að aðilar skyldu bera sameiginlega ábyrgð á efndum samningsins. Þá sagði að ef bjóðandi byggði á fjárhagslegri eða efnahagslegri getu annars aðila væri gert það skilyrði að aðilar bæru sameiginlega ábyrgð á efndum samningsins. Jafnframt áttu bjóðendur að skila inn gögnum fyrir þann aðila sem sönnuðu að útilokunarástæður ættu ekki við um hann og leggja fram skuldbindandi yfirlýsingu frá viðkomandi aðila þess efnis að bjóðandi uppfyllti tilteknar hæfiskröfur með því að byggja á getu hans og að aðilar bæru sameiginlega ábyrgð á efndum samningsins. Í stafliðum a. og b. í grein 3.3 var síðan óskað eftir upplýsingum frá bjóðendum um hvort þeir byggðu tilboðið á getu annars aðila og hvaða hæfiskrafa væri uppfyllt með slíkri getu.

Í grein 3.4 kom fram að hefði bjóðandi í hyggju að láta þriðja aðila framkvæma hluta samnings í undirverktöku þá skyldi hann veita upplýsingar um slíkt í tilboði sínu. Skyldi bjóðandi veita upplýsingar um þá undirverktaka sem hann hygðist semja við og hvaða hluta samnings hann hygðist láta þá framkvæma.

Í grein 6.1 var gerð grein fyrir valforsendum útboðsins og kom þar fram að 75 stig yrðu gefin fyrir verð og 25 stig fyrir reynslu lykilaðila við hönnun sambærilegra verkefna. Þá kom meðal annars fram í grein 7.1, sem bar yfirskriftina „Heildartilboðsverð“, að tilboðsverð bjóðenda skyldi ná yfir allan kostnað og alla vinnu hönnuða án nokkurrar takmörkunar, sama hvaða nafni það nefndist, vegna verkefnisins eins og því væri lýst samkvæmt skilmálum útboðsins.

Í greinum 6.2 og 7.2 kom fram að frávikstilboð væru óheimil. Þá var tiltekið í grein 8.4.2 að hönnuðir skyldu vera viðstaddir þegar áfangaúttektir færu fram.

Tilboð í útboðinu voru opnuð 31. október 2023 og bárust tilboð frá sjö bjóðendum, þar á meðal kæranda sem átti lægsta tilboðið. Með tölvupósti 6. nóvember 2023 tilkynnti varnaraðili kæranda að tilboð hans hefði verið metið ógilt og óaðgengilegt og tilboðinu væri því vísað frá í innkaupaferlinu. Í tölvupóstinum var nánar rakið að yfirlýsing kæranda um forsendur tilboðs leiddi til þess að um væri að ræða frávikstilboð. Þá rakti varnaraðili að kærandi gæti ekki af nánar tilgreindum ástæðum uppfyllt hæfiskröfu útboðsins með því að tilgreina hönnuði undirverktaka sem lykilaðila. Kærandi mótmælti ákvörðuninni 8. nóvember 2023 og barst frekari rökstuðningur frá varnaraðila 10. sama mánaðar.

Varnaraðili tilkynnti bjóðendum að tilboð Eflu hf. hefði verið valið í útboðinu með tölvupósti 11. nóvember 2023. Þar kom einnig fram að lögbundinn biðtími samningsgerðar eftir 1. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup myndi hefjast 12. nóvember 2023 og ljúka 21. sama mánaðar. Varnaraðili sendi bjóðendum annan tölvupóst 22. nóvember 2022 og tilkynnti að tilboð Eflu hf. hefði verið endanlega samþykkt og því væri kominn á bindandi samningur milli aðila.

II

Kærandi segir að tilboð hans hafi verið metið ógilt af tveimur ástæðum. Annars vegar hafi tilboðið verið metið sem frávikstilboð vegna forsendna sem því fylgdu. Hins vegar hafi kærandi svarað spurningum 3.1 og 3.3 með „nei“ en í þessum spurningum hafi verið spurt hvort tilboðið væri byggt á getu annarra og hvort kærandi hefði í hyggju að láta þriðja aðila framkvæma hluta samnings í verktöku.

Hvað varðar fyrra atriðið rekur kærandi að í tilboði hans hafi komið fram að gert væri ráð fyrir einni ferð til Vestmannaeyja til að skoða aðstæður. Ekki væri gert ráð fyrir öðrum ferðum og ekki gert ráð fyrir að hönnuðir mættu í áfangaúttektir. Að meta tilboðið sem frávikstilboð á grundvelli þessara forsendna standist ekki skoðun. Í útboðsgögnum hafi ekki verið að finna neitt um ferðir til Vestmannaeyja. Það hafi því eingöngu verið til skýringa og í þágu nákvæmni að kærandi hafi tiltekið téða forsendu og sé engan veginn unnt að líta á þetta sem frávikstilboð.

Hvað varðar seinna atriðið þá hafi í spurningu í lið 3.3.a verið spurt hvort að tilboðið hafi verið byggt á getu annarra aðila og í tilboði kæranda hafi spurningunni verið svarað neitandi. Í sama spurningarlið c. hafi verið spurt „Ef spurningu (a) var svarað játandi skal bjóðandi leggja fram skuldbindandi yfirlýsingu viðkomandi aðila hér“. Í tilboði kæranda hafi þessu verið svarað með orðinu „Viðhengi“. Viðhengið sé samstarfsyfirlýsing dagsett 27. október 2023 en um sé að ræða yfirlýsingu um að aðilar að henni muni uppfylla öll þau skilyrði sem gerð séu í tilboðsgögnum fyrir hönnun á viðbyggingu Hamarsskóla. Spurningarlið d. hafi verið svarað eins. Þegar svör við þessum spurningum séu lesin megi vera ljóst að svarið „nei“ í a-liðnum hafi verið misritun enda hafi tilboðið verið byggt á getu þeirra sem undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna. Þetta hafi umsjónaraðila útboðsins og varnaraðila átt að vera algerlega ljóst og hið sama eigi við um svör kæranda við lið 3.1.a í útboðsgögnum sem skýrist á sama hátt af nánari svörum og samstarfsyfirlýsingunni.

Í lokaathugasemdum sínum bendir kærandi meðal annars á að í 2. gr. eldri laga um opinber innkaup nr. 94/2001 hafi frávikstilboð verið skilgreint sem tilboð sem leysti þarfir kaupandans á annan hátt en gert væri ráð fyrir í tæknilegri lýsingu útboðsgagna og uppfyllti jafnframt lágmarkskröfur þeirra. Hafi jafnan verið miðað við þessa skilgreiningu enda sé engin orðskýring í núgildandi lögum. Í útboðsgögnum hafi enginn skilmáli verið um ferðir til Vestmannaeyja, hvað þá heldur fjölda slíkra ferða. Athugasemd í tilboði kæranda hvað varði ferðir til Vestmannaeyja hafi því eingöngu verið til skýringa og hafi tilboðið því ekki falið í sér nein frávik frá tæknilegri lýsingu útboðsins og hafi verið í samræmi við það hvað þetta varði. Tilboðið hafi því ekki verið frávikstilboð. Loks tiltekur kærandi að ef umsjónaraðili útboðsins hafi verið í vafa varðandi hvort að tilboð kæranda hafi verið byggt á getu þriðja aðila hafi honum verið í lófa lagið að hafa samband við kæranda og fá það staðfest, sem hann hafi kosið að gera ekki. Þar sem um augljósa misritun hafi verið að ræða telji kærandi að ekki hafi verið næg ástæða til að ógilda tilboðið af þeim sökum, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

III

Varnaraðili byggir á að þeir fyrirvarar sem fylgdu tilboði kæranda hafi falið í sér frávik frá útboðsgögnum. Fyrirvarar kæranda hafi verið skýrir og afdráttarlausir og ekki sé hægt að túlka þá sem einhvers konar áréttingu á tilboði kæranda vegna ætlaðs óskýrleika í útboðsgögnum. Samkvæmt greinum 6.2 og 7.2 í útboðslýsingu hafi ekki verið heimilt að gera frávikstilboð og hafi tilboð kæranda verið í ósamræmi við skýr ákvæði útboðsgagna sem tilboð og tilboðsverð annarra bjóðenda tóku mið af. Varnaraðila hafi verið óheimilt að fallast á þessa fyrirvara í ljósi jafnræðis á milli bjóðenda og hafi ákvarðanataka varnaraðila verið í samræmi við fjölda úrskurðar kærunefndar útboðsmála, sbr. m.a. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 18/2022 og 12/2023. Þá hafi kærandi ekki lagt fram fyrirspurn á tilboðstíma til þess að óska eftir skýringum á útboðsgögnum og/eða breytingum á skilmálum.

Framangreindu til viðbótar hafi kærandi ekki uppfyllt hæfiskröfur útboðsins enda hafi hann tiltekið í tilboði sínu að hann stæði einn að tilboðinu og að hann byggði ekki á getu annarra aðila. Kærandi hafi á hinn bóginn tiltekið í tilboði sínu að hann hygðist láta þriðja aðila framkvæma hluta samnings í undirverktöku og hafi lagt fram yfirlýsingu með svari við tiltekinni spurningu í útboðslýsingu. Í yfirlýsingunni hafi ekki komið fram að umrædd fyrirtæki stæðu sameiginlega á bakvið umrætt tilboð og hafi yfirlýsingin ekki verið í samræmi við grein 3.1 í útboðslýsingu. Varnaraðili hafi því ekki geta komist að annarri niðurstöðu en að umrædd fyrirtæki myndu koma að verkinu sem undirverktakar og hafi kærandi því ekki uppfyllt hæfiskröfu útboðsins á grundvelli tæknilegrar og faglegrar getu þessa aðila. Sé niðurstaða varnaraðila jafnframt í samræmi við meginreglu útboðsréttar um að bjóðendur beri ábyrgð á tilboðum sínum og að þeim sé skilað í samræmi við kröfur útboðsgagna, eftir atvikum eins og þau hafa verið nánar skýrð við meðferð útboðsins, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 15/2022 og til hliðsjónar a-lið 1. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016. Loks rökstyður varnaraðili að hafna skuli öllum kröfum kæranda og að honum skuli gert að greiða málskostnað í ríkissjóð.

Efla hf. telur að varnaraðili hafi haft réttmætar ástæður til að vísa tilboði kæranda frá innkaupaferlinu. Bjóðendur beri sjálfir ábyrgð á tilboðum sem þeir leggi fram og að þau séu til samræmis við þau lög og þá skilmála sem gilda hverju sinni en ráða megi að svo hafi ekki verið raunin hvað varðar tilboð kæranda.

IV

Kæra málsins varðar útboð varnaraðila sem miðaði að því að koma á samningi um hönnun og ráðgjöf í tengslum við stækkun á Hamarsskóla í Vestmannaeyjum. Í málinu liggur fyrir að komist hefur á bindandi samningur milli varnaraðila og Eflu hf. Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup verður bindandi samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að meta tilboðs hans ógilt og vísa því frá í innkaupaferlinu.

Samkvæmt framangreindu koma eingöngu til skoðunar kröfur kæranda um að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og um málskostnað. Í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016 kemur fram að kaupandi sé skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þurfi einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess skerts við brotið.

Það er meginregla útboðsréttar að bjóðendur bera ábyrgð á tilboðum sínum og að þeim sé skilað í samræmi við kröfur útboðsgagna, eftir atvikum eins og þeim hefur verið breytt eða þau nánar skýrð við meðferð útboðsins, sbr. úrskurði kærunefndar útboðsmála í málum nr. 15/2022 og 12/2023.

Með tilboði kæranda fylgdi ódagsett skjal þar sem fram kom að tilboðið væri gert á grundvelli tiltekinna forsendna. Kom þar meðal annars fram að kærandi gerði ráð fyrir einni ferð til Vestmannaeyja á hönnunartímanum til að skoða aðstæður og ekki væri gert ráð fyrir öðrum ferðum til Vestmannaeyja á hönnunar- og framkvæmdartímanum. Þá var tiltekið að ekki væri gert ráð fyrir að hönnuðir mættu í áfangaúttektir eins og tiltekið væri í grein 8.4.2 enda væri reynslan sú að hönnuðir væru nánast aldrei boðaðir í áfangaúttektir verka.

Kærunefnd útboðsmála hefur talið að bjóðendum sé heimilt að árétta forsendur tilboða sinna sem leiða af útboðsgögnum og þeim almennu reglum sem eiga við um samninginn, án þess að það leiði til ógildingar þeirra. Slík heimild getur á hinn bóginn ekki náð til þess að bjóðandi áskilji sér í reynd einhliða rétt til þess að gera síðar breytingar á samningi vegna aðstæðna sem tilboð bjóðenda áttu þó að taka mið af, sbr. m.a. úrskurð kærunefndar útboðsmála í máli nr. 18/2022. Bjóðendum er því almennt óheimilt að setja einhliða fyrirvara og skilyrði í tilboð sín enda felur slíkt í sér hættu á mismunun bjóðenda.

Að mati kærunefndar útboðsmála voru framangreindir fyrirvarar kæranda ekki árétting heldur frávik frá útboðsgögnum. Bjóðendum í hinu kærða útboði var þannig ætlað að meta umfang verkefnisins og gera fast verðtilboð sem næði yfir allan kostnað og gjöld vegna þjónustunnar og var verð ein af valforsendum útboðsins. Fyrirvarar kæranda voru til þess fallnir að hafa áhrif á boðið verð enda gaf framsetning þeirra til kynna að kærandi áskildi sér rétt til að krefjast hærra verðs ef breytingar yrðu á þeim forsendum sem lýst var í skjalinu. Þá var fyrirvari kæranda hvað varðaði áfangaúttektir í ósamræmi við fyrirmæli greinar 8.4.2 í útboðsgögnum sem tiltók að hönnuðir skyldu vera viðstaddir slíkar úttektir. Að mati nefndarinnar hefði ákvörðun um val á tilboði kæranda og þar með samþykki á umræddum fyrirvörum raskað jafnræði bjóðenda í útboðinu í andstöðu við 1. mgr. 15. gr. laga nr. 120/2016. Þá ber einnig til þess að líta að óheimilt var að leggja fram frávikstilboð í útboðinu, sbr. einnig o-lið 1. mgr. 47. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga nr. 120/2016.

Auk framangreinds verður að telja að tilboð kæranda hafi ekki verið í samræmi við útboðsgögn hvað varðar fyrirætlanir hans um að byggja á getu annarra aðila. Eins og áður hefur verið rakið var áskilið samkvæmt útboðsgögnum að bjóðendur upplýstu um hvort að fleiri fyrirtæki stæðu sameiginlega að tilboði í útboðinu og hvort þeir byggðu á getu annarra aðila. Hvað varðar síðara atriði áttu bjóðendur, ef þeir byggðu á getu annarra aðila, að leggja fram skuldbindandi yfirlýsingu frá viðkomandi aðila þess efnis að bjóðandi uppfyllti tiltekna hæfiskröfur með því að byggja á getu hans og að aðilar bæru sameiginlega ábyrgð á efndum samnings. Jafnframt bar bjóðendum að leggja fram gögn sem sönnuðu að útilokunarástæður ættu ekki við um viðkomandi aðila.

Á meðal tilboðsgagna kæranda var samstarfsyfirlýsing hans og tveggja nánar tilgreindra fyrirtækja en yfirlýsing var lögð fram í tengslum við grein 3.4 í útboðsgögnum sem bar yfirskriftina „Undirverktaka“. Kom þar meðal annars fram að kærandi og fyrirtækin myndu starfa saman sem ráðgjafahópur við verkefnið. Kærandi myndi bera fjárhagslega ábyrgð á verkefninu í samræmi við kröfur í útboðsgögnum en aðrir aðilar í hópnum myndu starfa sem undirverktakar. Þá verður ráðið af tilboðsgögnunum að kærandi hafi tilgreint tvo starfsmenn umræddra fyrirtækja sem lykilaðila við framkvæmd verkefnisins.

Hvorki verður ráðið af framangreindri yfirlýsingu né tilboðsgögnum kæranda að öðru leyti að umrædd fyrirtæki hafi staðið að tilboðinu með honum. Einnig gætti nokkurs ósamræmis í tilboðinu um hvort að kærandi hygðist byggja á tæknilegri og faglegri getu þessara aðila. Þá liggur fyrir að kærandi lagði ekki fram þær upplýsingar sem áskildar voru samkvæmt grein 3.3 í útboðsgögnum. Í fyrrgreindri samstarfsyfirlýsingu kom þannig hvorki fram að fyrirtækin og kærandi bæru sameiginlega ábyrgð á efndum samningsins né hvaða hæfiskröfum þeim væri ætlað að fullnægja. Loks voru engin gögn meðfylgjandi tilboði kæranda sem sönnuðu að útilokunarástæður ættu ekki við um fyrirtækin.

Að öllu framangreindu gættu verður að telja að varnaraðila hafi verið óheimilt að taka tilboði kæranda í útboðinu. Verður því að leggja til grundvallar að ákvörðun varnaraðila, um að meta tilboð kæranda ógilt og óaðgengilegt, hafi ekki falið í sér brot gegn lögum nr. 120/2016. Samkvæmt þessu verður að hafna öllum eftirstandandi kröfum kæranda.

Varnaraðili hefur uppi kröfu um að kæranda verði gert að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð. Í 2. málsl. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 er mælt fyrir um að ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa geti kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð. Þrátt fyrir að öllum kröfum kæranda hafi verið hafnað eru ekki efni til þess að líta svo á að kæra hans hafi verið bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Þykir því rétt að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Ferils verkfræðistofu ehf., er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.


Reykjavík, 20. mars 2024.


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður FinnbogadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum