Hoppa yfir valmynd

Nr. 293/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 293/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23030047 og KNU23030048

 

Beiðni [...], [...] og barns þeirra um endurupptöku

 

 1. Málsatvik

  Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 521/2022, dags. 15. desember 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2022, um að taka ekki umsóknir, [...], fd. [...], ríkisborgara Líbíu (hér eftir M) og [...], fd. [...], ríkisborgara Líbíu (hér eftir K) og barns þeirra [...], fd. [...], ríkisborgara Líbíu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum 16. desember 2022. Hinn 23. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar nr. 33/2023, dags. 12. janúar 2023, var beiðni þeirra um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærendur lögðu fram beiðni um endurupptöku 13. mars 2023.

  Beiðni kærenda um endurupptöku byggir á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

   

 2. Málsástæður og rök kærenda

  Í beiðni kærenda um endurupptöku kemur fram að ein helsta málsástæða þeirra fyrir því að taka skyldi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi væru tengsl milli M og nafngreinds bróður hans. Kærendur hafi óskað eftir því að beðið yrði með ákvörðun í málinu á meðan Útlendingastofnun tæki ákvörðun í máli bróður M. Hinn 10. mars 2023 hafi Útlendingastofnun veitt bróður M réttarstöðu flóttamanns í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og sé hann því kominn með dvalarleyfi hér á landi. Af úrskurðarframkvæmd kærunefndar hafi verið lagt til grundvallar að málsástæða um sérstök tengsl við tiltekinn eða tiltekna einstaklinga geti byggst á tengslum við handhafa alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Að framangreindu virtu telja kærendur að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin og krefjast þau þess að mál þeirra verði endurupptekið með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

 3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kærenda 15. desember 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna kærenda og barns þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærendur hefðu slík tengsl við landið að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Á fyrri stigum málsmeðferðar sinnar byggðu kærendur m.a. á því að M ætti nafngreindan bróður sem væri umsækjandi um alþjóðlega vernd en mál hans sætti á þeim tíma efnismeðferð hjá Útlendingastofnun. Í endurupptökubeiðni kærenda er byggt á því að umræddur bróðir M hafi nú hlotið réttarstöðu flóttamanns hér á landi og því hafi kærendur sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurði kærunefndar frá 15. desember 2022 kom m.a. fram að horfa yrði til þess við túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga varðandi sérstök tengsl að ákvæðið næði til atvika þar sem það yrði talið ósanngjarnt gagnvart umsækjanda að endursenda hann til annars ríkis. Eins og á háttaði í þessu máli taldi kærunefnd það ekki vera ósanngjarnt gagnvart kærendum eða bróður M að endursenda kærendur til Spánar, enda gætu kærendur ræktað tengsl sín við bróður M áfram þrátt fyrir það.

Kærunefnd telur að sú staðreynd að bróðir M hafi nú hlotið réttarstöðu flóttamanns hér á landi breyti ekki fyrra mati nefndarinnar. Þegar málið er metið heildstætt er það niðurstaða nefndarinnar að leggja verði til grundvallar ættartengsl M við bróður sinn. Á hinn bóginn hafa þau gögn sem kærendur hafa lagt fram ekki sýnt fram á að þar séu um að ræða ríkari tengsl en gerast almennt á milli fullorðinna systkina. Eins og á stendur í þessu máli varðar það tengsl milli ættingja sem ekki eru nánustu aðstandendur, sbr. 16. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, og eru fullorðnir einstaklingar sem eru ekki hvor öðrum háðir. Verður jafnframt að horfa til þess að túlka verður ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga varðandi sérstök tengsl þannig að það nái til atvika þar sem það yrði talið ósanngjarnt gagnvart kærendum að endursenda þau til annars ríkis. Eins og á háttar í þessu máli verður ekki séð að það sé ósanngjarnt gagnvart M eða bróður hans að endursenda kærendur til Spánar. Af heildarmati á aðstæðum kærenda og fyrirliggjandi gagna málsins er það því niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 15. desember 2022 var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kærenda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The appellants‘ request to re-examine the cases is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum