Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál 3/2017. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 30. janúar 2017 kærði Vision-Box – Soluçoês de Visão Por Computador S.A. útboð Ríkiskaupa og Isavia ohf. (hér eftir sameiginlega nefndir „varnaraðilar“) nr. 20293 auðkennt „ABC Automatic Border Control“. Skilja verður kæru svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun varnaraðila frá 20. janúar 2017 um að ganga til samninga við Secunet Security Network AG verði felld úr gildi.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 25. apríl 2017

í máli nr. 3/2017:

Vision-Box – Soluçoês de Visão Por Computador S.A.

gegn

Ríkiskaupum,

Isavia ohf. og

Secunet Security Network AG

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 30. janúar 2017 kærði Vision-Box – Soluçoês de Visão Por Computador S.A. útboð Ríkiskaupa og Isavia ohf. (hér eftir sameiginlega nefndir „varnaraðilar“) nr. 20293 auðkennt „ABC Automatic Border Control“. Skilja verður kæru svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun varnaraðila frá 20. janúar 2017 um að ganga til samninga við Secunet Security Network AG verði felld úr gildi.

          Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kæru í máli þessu. Í sameiginlegri greinargerð þeirra 10. febrúar 2017 er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði vísað frá eða hafnað. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi kæranda. Í greinargerð Secunet Security Network AG frá 9. febrúar 2017 var þess krafist að kröfum kæranda yrði vísað frá eða þeim hafnað. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.  

          Með ákvörðun 15. febrúar 2017 aflétti kærunefnd útboðsmála sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar sem komist hafði á með kæru í máli þessu.

I

Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði sem varðar innkaup á 12 sjálfvirkum landamærahliðum með tveimur eftirlitsstöðvum og þriggja ára þjónustusamningi með framlengingarmöguleikum. Var útboðið auglýst á EES-svæðinu í nóvember 2016. Útboðsgögn gerðu ráð fyrir því að lægsta verð skyldi ráða vali á tilboðum. Fimm tilboð bárust í útboðinu og var tilboð Secunet Security Network AG lægst að fjárhæð, en það nam um 42% af kostnaðaráætlun varnaraðila. Tilboð kæranda var næstlægst, en fjárhæð þess nam um 65% af kostnaðaráætlun. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðilar hafi haldið skýringarfundi með kæranda og Secunet Security Network AG 17. janúar 2017. Í kjölfar þeirra funda eða 20. sama mánaðar var ákveðið að ganga til samninga við síðarnefnda félagið. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort varnaraðilar hafi gengið frá formlegum samningi við Secunet Security Network AG á grundvelli hins kærða útboðs.

II

Kærandi byggir á því að tilboð Secunet Security Network AG sé óeðlilega lágt þar sem það sé lægra en nemur raunkostnaði lægstbjóðanda og því hafi varnaraðilum borið að hafna því og ganga til samninga við kæranda. Þannig hafi kærandi boðið því sem næst sömu vöru án þjónustusamnings í öðru útboði í Tékklandi á mun hærra verði en í hinu kærða útboði. Þá hafi annar bjóðandi í hinu kærða útboði boðið hlið sem samanstóð af sams konar hlutum frá þriðja aðila og vörur lægstbjóðanda í hinu kærða útboði, en tilboð þess aðila hafi verið mun hærra en tilboð kæranda. Tilboð lægstbjóðanda hafi verið óvenju lágt í samanburði við önnur tilboð í hinu kærða útboði og í samanburði við önnur tilboð í sambærilegum útboðum í Evrópu og annars staðar í heiminum á síðustu 48 mánuðum. Séu líkur á vanefndum af hálfu lægstbjóðanda og brjóti tilboð hans gegn samkeppnisreglum.

III

Varnaraðilar byggja á því að kæra í máli þessu uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til kæru samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Engar sannanir eða upplýsingar séu lagðar fram um að verðlagning lægstbjóðanda sé ólögmæt og þá séu engar kröfur gerðar sem kærunefnd útboðsmála geti úrskurðað um.

Tekið er fram að það sé ekki brot á lögum um opinber innkaup að leggja fram lág tilboð. Lítill munur hafi verið á tilboðum kæranda og lægstbjóðanda en bæði hafi verið töluvert undir kostnaðaráætlun og talsvert lægri en önnur tilboð sem hafi borist. Vegna þessa hafi varnaraðilar ákveðið að kanna þessi tilboð með vísan til 81. gr. laga um opinber innkaup með því að fara á staði þar sem lausnir þeirra væru í notkun og halda skýringarfundi með þessum bjóðendum. Hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að tilboð beggja bjóðenda uppfylltu allar kröfur tæknilýsingar og fram komu fullnægjandi skýringar á verði þeirra. Því hafi verið ákveðið að velja tilboð lægstbjóðanda og sú ákvörðun ekki brotið gegn 81. gr. laga um opinber innkaup.

Þá er byggt á því að kæra í máli þessu sé bersýnilega tilefnislaus og höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi hinna kærðu innkaupa. Því geri varnaraðilar kröfu um málskostnað úr hendi kæranda.

IV

Lægstbjóðandi Secunet Security Network AG byggir á því að kæra í máli þessu uppfylli ekki skilyrði 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup þar sem þar komi ekki fram neinar kröfur. Því beri að vísa kæru frá kærunefnd útboðsmála. Þá hafi varnaraðilar óskað eftir skýringum á verði í tilboði lægstbjóðanda á fundi 17. janúar 2017 og þeirri málsmeðferð sem mælt sé fyrir um í 81. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup verið fylgt. Jafnframt er byggt á því að verðtilboð lægstbjóðanda hafi ekki verið óeðlilega lágt eða undir kostnaði heldur hafi það byggt á efnahagslegum forsendum.

V

Í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er mælt fyrir um þær upplýsingar sem skulu koma fram í kæru til kærunefndar útboðsmála. Þar skal meðal annars tilgreina þær kröfur sem kærandi gerir og skulu þær lúta að þeim úrræðum sem nefndin hefur samkvæmt lögunum. Af kæru verður ráðið að hún beinist að þeirri ákvörðun varnaraðila 20. janúar 2017 að ganga til samninga við Secunet Security Network AG og verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að hann krefjist þess að sú ákvörðun verði felld úr gildi. Það er því nægjanlega skýrt hvers er krafist af hálfu kæranda og ekki tilefni til að fallast á kröfu varnaraðila og Secunet Security Network AG um frávísun málsins á þessum grunni.

          Í 1. mgr. 81. gr. laga um opinber innkaup kemur fram að ef tilboð virðist óeðlilega lágt miðað við verk, vöru eða þjónustu skuli kaupandi óska eftir því að bjóðandi skýri verð eða kostnað sem fram kemur í tilboði. Geti skýringarnar lotið að þeim atriðum sem nánar eru tilgreind í a- til f-lið 1. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að kaupandi skuli meta upplýsingarnar sem lagðar séu fram með viðræðum við bjóðanda og aðeins megi hafna tilboði á þessum grunni ef sönnunargögnin sem lögð eru fram skýra ekki með viðunandi hætti hið lága verð eða kostnað sem lagður er til, að teknu tilliti til þeirra atriða sem um geti í 1. mgr.

          Samkvæmt greinargerð varnaraðila var ákveðið að óska skýringa á tilboðum kæranda og lægstbjóðanda með vísan til 81. gr. laga um opinber innkaup. Á fundi 17. janúar 2017 með lægstbjóðanda var óskað skýringa á fjárhæð tilboðs hans og færði hann þá meðal annars fram skýringar sem lutu að hugbúnaði vegna þeirra kerfa sem hér um ræðir auk þjónustu við þau. Með hliðsjón af þessari könnun varnaraðila á verði lægstbjóðanda og skýringum sem fram komu verður ekki talið að óheimilt hafi verið að ganga til samninga við hann. Verður því ekki talið að ákvörðun varnaraðila frá 20. janúar 2017 hafi brotið í bága við lög um opinber innkaup. Verður því að hafna kröfum kæranda í máli þessu.

          Ekki eru efni til þess að fallast á það með varnaraðilum að kæranda verði gert að greiða málskostnað í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 111. gr. laga um opinber innkaup.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Vision-Box – Soluçoês de Visão Por Computador S.A., vegna útboðs Ríkiskaupa og Isavia ohf. nr. 20293 auðkennt „ABC Automatic Border Control“, er hafnað. 

            Málskostnaður fellur niður.

                  Reykjavík, 25. apríl 2017

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson

                                                                                    Sandra Baldvinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira