Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 206/2022- Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 206/2022

Fimmtudaginn 30. júní 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar frá 15. nóvember 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 13. apríl 2022 og vísaði til þess að hann hefði átt samtal við starfsmann Reykjavíkurborgar í síma vegna skattskuldar en velferðarsviðið hefði gefið rangt upp til skatts árin 2016 og 2017. Starfsmaðurinn hefði tjáð kæranda að hún gæti ekki hjálpað honum að komast að því hvað hefði gerst. Hann hafi þá óskað eftir skriflegu svari og starfsmaðurinn hafi tjáð kæranda að hún þyrfti að ráðfæra sig við lögfræðing til að skrifa bréfið. Símtalið hafi verið tekið upp og því sé til afrit af því. Kærandi óski eftir því að fá skriflegt afrit af símtalinu og til vara að fá skriflegt svar.

Með erindi til Reykjavíkurborgar, dags. 20. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir gögnum vegna kærunnar. Umbeðin gögn bárust 27. apríl 2022 en um var að ræða dagála vegna símtala við kæranda 22. og 27. október 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. maí 2022, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um framkomin gögn Reykjavíkurborgar. Svar barst frá kæranda samdægurs þar sem fram kemur að ekki sé um að ræða útskrift af samtalinu heldur umritun á tölvupóstsamskiptum. Kærandi þurfi að fá samtalið útskrifað, orð fyrir orð. Með erindi til Reykjavíkurborgar, dags. 7. júní 2022, var óskað eftir upplýsingum um hvort upptaka af símtalinu væri til og hver væri afstaða Reykjavíkurborgar til beiðni kæranda ef upptakan væri til. Svar barst frá Reykjavíkurborg 8. júní 2022 þar sem fram kom að upptökur af símtölum væru einungis geymdar í 90 daga og því væri upptaka af umræddu símtali ekki lengur til.

II.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að beiðni kæranda, dags. 11. nóvember 2021, um skriflegt afrit af símtali sem hann átti við starfsmann Reykjavíkurborgar 27. október 2021. Í svari til kæranda 15. nóvember 2021 kemur fram að deildarstjóri þjónustumiðstöðvar ætli að hafa samband við hann vegna beiðninnar. Kærandi ítrekaði þá beiðni sína þann sama dag og sagðist ekki vilja annað símtal. Ekki liggja fyrir frekari gögn um framhald málsins. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 13. apríl 2022 og undir rekstri málsins óskaði nefndin eftir upplýsingum um hvort upptaka af símtalinu væri til og hver væri afstaða Reykjavíkurborgar til beiðni kæranda ef upptakan væri til. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru upptökur af símtölum einungis geymdar í 90 daga og því er upptaka af umræddu símtali ekki lengur til. Reykjavíkurborg lagði hins vera fram dagál vegna símtalsins sem var sendur kæranda undir rekstri málsins.

Um upplýsingarétt aðila máls er fjallað í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varði. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga skal ákvörðun stjórnvalds um að synja málsaðila um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti tilkynnt aðila og hún rökstudd í samræmi við V. kafla laganna. Kæra má synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 2. mgr. 19. gr.

Af gögnum málsins er ljóst að þegar kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefndinni lá hvorki fyrir synjun um aðgang að gögnum né hafði aðgangur verið takmarkaður að einhverju leyti, enda hafði Reykjavíkurborg þá ekki brugðist við beiðni kæranda um skriflegt afrit af símtalinu. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við að erindi kæranda frá 15. nóvember 2021 hafi ekki verið svarað en samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins á hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald almennt rétt á að fá skriflegt svar, enda uppfylli erindið skilyrði um að ráðið verði af efni þess að vænst sé svars og erindið sé á verksviði stjórnvaldsins.

Þar sem ekki liggur fyrir synjun eða takmörkun á aðgangi að gögnum er það mat úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira