Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 31/2023. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 22. september 2023
í máli nr. 31/2023:
Íslenskir aðalverktakar hf.
gegn
Framkvæmdasýslunni- Ríkiseignum
mennta- og barnamálaráðuneytinu,
Reykjavíkurborg,
Ríkiskaupum og
Fortis ehf.

Lykilorð
Forval. Tæknilegt hæfi.

Útdráttur
Í hf. kærði ákvörðun FR o.fl. um að velja F ehf. til þátttöku í lokuðu alútboði um byggingu nýrrar verknámsaðstöðu við Fjölbrautarskólann í Breiðholti og byggði á því að F ehf. uppfyllti ekki hæfiskröfur forvalsgagna, m.a. um reynslu af sambærilegum verkefnum á síðastliðnum fimm árum í grein 4.1.1 M1a í forvalsgögnum. Í málinu byggðu FR o.fl. og F ehf. á því að F ehf. uppfylli umrætt skilyrði annars vegar vegna reynslu V ehf., samstarfsaðila F ehf., af sambærilegum verkum og hins vegar með því að byggja á hæfni og reynslu eigenda, stjórnenda og lykilstarfsmanna F ehf. sem áunnist hefði í öðru fyrirtæki. Í úrskurðinum lagði kærunefndin til grundvallar að fyrrgreint skilyrði hefði lotið að reynslu umsækjanda af sambærilegum verkum af tiltekinni stærðargráðu í aðalverktöku. Þar sem ekki yrði ráðið að V ehf. byggi yfir slíkri reynslu, auk þess sem að V ehf. hefði ekki átt að vera ábyrgt fyrir verkframkvæmdinni, var ekki talið að F ehf. gæti byggt á reynslu V ehf. í þessu tilliti. Þá taldi kærunefndin ljóst að skilyrðið hefði lotið að umsækjandanum sjálfum, þ.e. fyrirtækinu sem sótti um þátttöku og e.a. samstarfsaðilum þess, og yrði ekki túlkað með þeim hætti að reynsla einstakra starfsmanna af sambærilegum verkum dugði til. Að þessu virtu, og þar sem fyrir lá að F ehf. hefði ekki á síðastliðnum fimm árum lokið við sambærilegt verkefni í aðalverktöku, taldi nefndin að F ehf. uppfyllti ekki kröfur forvalsgagna. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 27. júní 2023 kæra Íslenskir aðalverktakar hf. forval Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 21888 vegna lokaðs alútboðs um byggingu nýrrar verknámsaðstöðu við Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Kærandi krefst þess að ákvörðun varnaraðila um að velja varnaraðila Fortis ehf. (hér eftir Fortis ehf.) til þátttöku í útboðinu verði felld úr gildi og að varnaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað.

Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og var greinargerðum skilað 3. júlí og 18. ágúst 2023. Fortis ehf. skilaði greinargerðum 3. júlí og 16. ágúst 2023. Endanlegar kröfur varnaraðila og Fortis ehf. eru þær að öllum kröfum kæranda verða hafnað. Ríkiskaup gera ekki sérstakar kröfur en taka undir málatilbúnað varnaraðila.

Í kæru var þess krafist að innkaupaferli varnaraðila vegna hins kærða útboðs yrði stöðvað um stundarsakir, sbr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. júlí 2023 var fallist á þá kröfu kæranda.

I

Í apríl 2023 óskuðu Ríkiskaup, fyrir hönd varnaraðila, eftir „umsóknum byggingaraðila (aðalverktökum) um þátttökurétt í lokuðu alútboði um fullnaðarhönnun og byggingu nýrrar verknámsaðstöðu við hlið núverandi verknámsaðstöðu Fjölbrautarskólans í Breiðholti (FB) ásamt endurbótum á núverandi verknámsaðstöðu skólans á lóðinni Hraunberg 8 í Reykjavík“. Í 4. kafla í forvalsgögnum voru settar fram ófrávíkjanlegar lágmarkskröfur til þeirra sem fengju að bjóða í verkið. Í grein 4.1.1 M1 var kveðið á um að tæknileg og fagleg geta umsækjanda skyldi vera það trygg að umsækjandi gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart verkkaupa. Fyrirtæki væri heimilt að byggja á fjárhagslegri, tæknilegri og faglegri getu annarra aðila óháð lagalegum tengslum við þá, sbr. 76. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Um almenna reynslu og tæknilega getu umsækjanda kom fram undir liðnum M1a að „Umsækjandi/Aðalverktaki“ skyldi á síðastliðnum fimm árum hafa lokið við að minnsta kosti eitt sambærilegt verk. Með sambærilegu verki væri átt við verkefni svipaðs eðlis í flokki I, t.d. hótel, verslunarhúsnæði, íþrótta- og menningarmannvirki, skóla eða sambærilegt. Samningsupphæð tilnefnds verkefnis í framkvæmd skyldi hafa verið að lágmarki 900 milljónir króna. Að því er varðar fjárhagslegt hæfi sagði í grein 4.1.2 M2 að fjárhagsstaða umsækjanda skyldi vera það trygg að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Uppfyllti umsækjandi ekki kröfur um fjárhagslegt hæfi yrði honum vísað frá. Undir liðnum M2a kom fram að meðaltalsársvelta síðustu þriggja ára skyldi vera meiri eða jafn mikil og 800 milljónir króna án virðisaukaskatts. Samkvæmt grein 6.4 yrði umsækjendum með fimm hæstu einkunnir samkvæmt stigagjöf boðið að taka þátt í fyrirhuguðu útboði að því tilskildu að þeir uppfylltu allar hæfiskröfur og stig þeirra væru fleiri en 160 af 200 mögulegum.

Fjórar umsóknir bárust um þátttöku í hinu fyrirhugaða útboði. Með bréfi Ríkiskaupa 12. júní 2023 var tilkynnt um að þrjú fyrirtæki væru valin til þátttöku, þ.e. kærandi, Fortis ehf. og Eykt ehf.

II

Kærandi byggir á því að Fortis ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur forvalsgagna um fjárhagslegt og tæknilegt hæfi og hafi varnaraðilum því borið að vísa umsókn Fortis ehf. frá samkvæmt skilmálum forvalsins og 78. og 35. gr. laga nr. 120/2016. Kærandi bendir á að samkvæmt ársreikningum Fortis ehf. fyrir árin 2021 og 2022 nemi heildartekjur þess síðastliðin þrjú ár frá rúmri milljón króna til tæplega 500 milljóna króna. Hvað tæknilegt og fjárhagslegt hæfi varðar vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 20/2022 þar sem Fortis ehf. hafi ekki verið talið geta uppfyllt sambærilegar kröfur og settar séu fram í forvalsgögnum.

Kærandi telur ljóst af forvalsgögnum, þ.e. greinum 1.1.5, 1.1.6., 4.1.1, 5 og 5.1.3, að krafa hafi verið um það að eitt verktakafyrirtæki yrði ábyrgðaraðili umsóknar í forvalinu og að gerður yrði samningur við það fyrirtæki um efndir og ábyrgð á framkvæmd verksins að loknu alútboði. Í forvalsgögnum hafi verð gerð sú krafa að umræddur verktaki uppfyllti tilteknar tæknilegar hæfiskröfur, m.a. að hafa lokið við verk þar sem samningsupphæð verkefnis í framkvæmd hafi verið að lágmarki 900 milljónir króna. Í þeirri kröfu felist að verktaki hafi haft með höndum verktöku og skilað af sér verki af þessu eðli. Gögn sem lögð hafi verið fram með umsókn Fortis ehf. staðfesti að félagið hafi ekki lokið við slíkt verkefni. Ljóst sé að Fortis ehf. sem umsækjandi, ábyrgðaraðili umsóknar og sá alverktaki sem gera eigi samning við uppfylli ekki þær tæknilegu hæfiskröfur sem gerðar hafi verið í forvalsgögnum varnaraðila.

Kærandi bendir á að í gögnum sem Fortis ehf. hafi skilað með umsókn sinni um getu VSÓ ráðgjafar ehf. séu tilgreind verkefni þar sem VSÓ ráðgjafar ehf. hafi haft með höndum hönnunar- og verkefnastjórn. Slík verkefnastjórn geti ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu í forvalsgögnum um að aðalverktaki hafi lokið við verk af tiltekinni stærðargráðu. Að auki liggi fyrir að VSÓ ráðgjöf ehf. hafi einungis tekið að sér verkfræðilega hönnun og ráðgjöf fyrir Fortis ehf. í fyrirhuguðu verkefni.

Loks byggir kærandi á því að samstarfsyfirlýsing VSÓ ráðgjafar ehf. um að byggja megi á fjárhagslega getu þessi sé ekki bindandi gagnavart verkkaupa og ekki fullnægjandi til þess að Fortis ehf. geti talist uppfylla kröfur greinar 4.1.2 í forvalsgögnum um fjárhagslegt hæfi þar sem ekki sé hægt að líta svo á að bjóðandi hafi tryggt sér tilgreinda aðstoð með sannanlegum hætti.

III

Varnaraðilar byggja á því að Fortis ehf. hafi afhent yfirlýsingu um samstarf við VSÓ Ráðgjöf ehf. þar sem fram komi að það ábyrgðist verkefnið að því er lýtur að faglegri og tæknilegri getu auk fjárhagslegs hæfis ef til samnings kæmi. Þá hafi aðrir nánar tilgreindir samstarfsamningar fylgt umsókn Fortis ehf. hvað tæknilega getu varðar. Að mati varnaraðila hafi Fortis ehf. uppfyllt kröfur forvalsgagna og því hafi umsókn fyrirtækisins verið tekin til frekara mats og hafi hlotið 175,6 stig af 200 mögulegum. Varnaraðilar vísa til þess að samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 120/2016 sé fyrirtæki heimilt eftir því sem við á og vegna tiltekins samnings að byggja á fjárhagslegri, tæknilegri og faglegri getu annarra aðila óháð lagalegum tengslum við þá. Þetta hafi auk þess verið áréttað í greinum 1.1.5 og 4.1.1 M1 í forvalsgögnum.

Varnaraðilar byggja annars vegar á því að Fortis ehf. hafi uppfyllt kröfu greinar 4.1.1. M1a í forvalsgögnum með tæknilegri getu VSÓ ráðgjafar ehf. Í því sambandi benda varnaraðilar á að í grein 4.1.1.M1a hefði með réttu átt af hafa sama orðalag og í orðskýringum eða „umsækjandi/þáttakandi“ í stað „umsækjandi/aðalverktaki“. Af forvalsgögnum sé ljóst að með umsækjanda sé átt við alla þá aðila sem gert hafi með sér samstarfssamkomulag, eins og Fortis hafi gert við VSÓ ráðgjöf ehf., VA arkitekta ehf., Lotu ehf. og Trivium ehf. Túlka skuli vafa um inntak skilyrða um tæknilega og faglega getu að meginstefnu bjóðendum í hag. Af orðalagi forvalsgagnanna hafi ábyrgðaraðilar þátttökutilkynningar mátt gera ráð fyrir að við mat á hæfi þeirra yrði einnig horft til getu samstarfsaðila þeirra.

Varnaraðilar benda á að verið sé að leita að aðilum sem geti tekið að sér að „hanna“ og „byggja“ nýja verknámsaðstöðu. Þó notað hafi verið hugtakið aðalverktaki þegar krafa 4.1.1. M1a hafi verið skilgreind sé ljóst af lestri forvalsgagna að um sé að ræða alverktaka. Aðalverktaki feli öðrum verktökum, einum eða fleiri, að framkvæma hluta verks sem að hann hefur tekið að sér. Slíkt sé ekki tilfellið enda sé ljóst að Fortis ehf. byggi getu sína á hæfi annarra. Alverktaki aftur á móti taki að sér að hanna og framkvæma verk samkvæmt alútboði. Slík skilgreining sé í samræmi við lýsingar á verkinu í forvalsgögnum. Í þessu sambandi benda varnaraðilar á að á kynningarfundi vegna fyrirhugaðs útboðs hafi verið fjallað um alútboð og skýrt hvað fælist í alverktöku. Þá hafi í skipuriti verkefnis verið notast við hugtakið alverktaki. Af þessu sé ljóst að átt hafi við alverktöku en ekki aðalverktöku.

Varnaraðilar byggja hins vegar á því að Fortis ehf. hafi uppfyllt kröfu 4.1.1. M1a með því að byggja á reynslu lykilstarfsmanna sinna af verkum sem uppfylla lágmarkskröfur forvalsgagna. Í því sambandi benda varnaraðilar á að Sindri Már, annar eigandi Fortis ehf. hafi verið verkefnastjóri við verkið Álalæk 17, á vegum ÞG verks ehf., auk þess að sinna hlutverki byggingastjóra og haft yfirumsjón með heildarframkvæmdinni. Hinn eigandi Fortis ehf., Brynjar Örn, hafi verið verkefnastjóri við sama verk. Þessir starfsmenn séu eigendur Fortis ehf. og því ljóst að nægileg skuldbinding sé til staðar af þeirra hálfu. Þá halda varnaraðilar því fram að í tilvikum þar sem útboðskröfur séu ekki bundnar við fyrirtæki teljist starfsmenn þess geta uppfyllt lágmarkskröfur. Megin tilgangur laga um opinber innkaup sé að gefa smærri og minni aðilum tækifæri til að taka þátt í útboðum á vegum hins opinbera og því markmiði séu settar miklar skorður sé aðilum meinað að byggja reynslu á verkum sem unnin hafi verið hjá öðrum vinnuveitendum. Slíkar takmarkanir kunni að vera nauðsynlegar við tiltekin verk en væri óþarflega íþyngjandi við umrædda verkframkvæmd enda sé verið að leita að alverktaka.

Varnaraðili Fortis ehf. bendir á hann hafi verið ábyrgðaraðili umsóknar, svo sem áskilið hafi verið í forvalsgögnum og 2. mgr. 67. gr. laga nr. 120/2016, en fleiri aðilar hafi staðið sameiginlega að baki þátttökubeiðninni. Með umsókninni hafi verið lagðar fram yfirlýsingar þeirra aðila. Því beri ekki einungis að líta til Fortis ehf. við mat á því hvort að umsóknin uppfylli lágmarkskröfur forvalsgagna. Fortis ehf. telur að skilja verði grein 4.1.1 M1a þannig að umsækjandi eða aðalverktaki skuli hafa þá reynslu sem krafist sé. Telur Fortis ehf. að VSÓ ráðgjöf ehf. sé umsækjandi í þessum skilningi og reynsla þess fyrirtækis af sambærilegu verki sé nægjanleg til að uppfylla skilyrðið. Í öllu falli séu útboðsgögnin ekki nægjanlega skýr um að það sé einungis sá aðili sem hafi komið að sambærilegu verkefni sem aðalverktaki sem geti uppfyllt kröfurnar. Túlka skuli allan hugsanlegan vafa í þessum efnum Fortis ehf. í hag, sbr. úrskurð kærunefndar útboðsmála í máli nr. 33/2021. Fortis ehf. mótmælir þeirri túlkun kærunefndarinnar í ákvörðun 24. júlí 2023 um að yfirlýsing VSÓ ráðgjafar ehf. um samstarf feli eingöngu í sér skuldbindingu til verkfræðilegrar hönnunar og ráðgjafar af verkinu. Skilningur beggja fyrirtækja sé að Fortis ehf. byggi á getu VSÓ ráðgjafar ehf. af því umfangi sem þörf krefur svo Fortis ehf. geti uppfyllt skuldbindingar sínar gagnavart verkkaupa ef til samnings kæmi og þá til uppfyllinga kröfum í grein 4.1.1 M1, 4.1.2 M2, 4.1.3 M3, 4.1.5 og 4.1.6, allt eftir þörfum. Í innsendum gögnum megi auk þess ráða að aðkoma VSÓ ráðgjafar ehf. sé ekki einvörðungu bundin við verkfræðilega hönnun og ráðgjöf.

Einnig byggir Fortis ehf. á því að fyrirtækið sjálft uppfylli skilyrði um reynslu af sambærilegum verkefnum og byggi það á hæfni og reynslu eigenda þess, stjórnenda og lykilstarfsmanna sem áunnist hafi í öðru fyrirtæki og liggur fyrir í gögnum með tilboði fyrirtækisins.

IV

Mál þetta lýtur að ákvörðun varnaraðila um að velja Fortis ehf. til þátttöku í lokuðu alútboði um fullnaðarhönnun og byggingu nýrrar verknámsaðstöðu við hlið núverandi verknámsaðstöðu Fjölbrautarskólans í Breiðholti ásamt endurbótum á núverandi verknámsaðstöðu skólans. Snýr ágreiningur í máli þessu annars vegar að því hvort að Fortis ehf. hafi uppfyllt skilmála forvalsins um fjárhagsstöðu umsækjanda í grein 4.1.2 M2 og hins vegar um almenna reynslu og hæfni umsækjanda í grein 4.1.1 M1.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er fyrirtæki heimilt eftir því sem við á og vegna tiltekins samnings að byggja á fjárhagslegri, tæknilegri og faglegri getu annarra aðila óháð lagalegum tengslum við þá. Byggi fyrirtæki á menntun, starfsreynslu eða faglegri getu annars aðila er skilyrði að sá aðili annist framkvæmd verks eða þjónustu í samræmi við þær kröfur sem gerðar hafa verið. Jafnframt skal fyrirtæki sanna að það hafi tryggt sér tilgreinda aðstoð, t.d. með því að leggja fram skuldbindandi yfirlýsingu aðila um að hann muni annast verkið eða þjónustuna. Í grein 1.1.5 og grein 4.1.1 M1 í forvalsgögnum var vísað til fyrrgreinds ákvæðis og mælt fyrir um að bjóðendum væri heimilt að byggja á fjárhagslegri, tæknilegri og faglegri getu annarra aðila óháð lagalegum tengslum við þá. Tilboði Fortis ehf. fylgdi meðal annars yfirlýsing VSÓ ráðgjafar ehf. um að félagið yrði samstarfsaðili Fortis ehf. vegna verkefnisins og skuldbyndi sig til verksins af því umfangi sem þörf krefði svo Fortis ehf. gæti uppfyllt skuldbindingar sínar gagnvart verkkaupa ef til samnings kæmi að því er lyti að annars vegar verkfræðilegri hönnun og ráðgjöf í samræmi við útfyllt eyðublöð forvalsumsóknar og hins vegar fjárhagsstöðu umsækjanda. Af þessu og öðrum gögnum með tilboði kæranda, þ. á m. þátttökutilkynningu sem lögð var fram með tilboði Fortis ehf., verður ráðið að aðkoma VSÓ ráðgjafar ehf. að verkinu hafi átt að felast í verkfræðilegri hönnun og ráðgjöf, BIM stjórnun og gæðastjórnun. Tilboði Fortis ehf. fylgdu svo ýmsar upplýsingar er vörðuðu fjárhagsstöðu þess og VSÓ ráðgjafar ehf. Þá fylgdu tilboðinu upplýsingar um einstök verk beggja félaga á síðastliðnum fimm árum. Upplýsingar um verk Fortis ehf. vörðuðu reynslu af aðalverktöku en í tilviki VSÓ ráðgjafar ehf. reynslu þess af ýmiss konar verkefnis- og hönnunarstjórn og verkfræðihönnun.

Í grein 4.1.1 M1a í forvalsgögnum setti varnaraðili það skilyrði fyrir þátttöku í umræddu útboði að „Umsækjandi/Aðalverktaki” hefði á síðastliðnum fimm árum lokið a.m.k. einu sambærilegu verki, en með því var átt við að hann hefði lokið við verkefni svipaðs eðlis og að upphæð verksamnings væri að lágmarki 900 milljónir króna. Varnaraðilar og Fortis ehf. byggja á því að Fortis ehf. uppfylli framangreint skilyrði, annars vegar vegna reynslu VSÓ ráðgjafar ehf. af sambærilegum verkum og hins vegar með því að byggja á hæfni og reynslu eigenda, stjórnenda og lykilstarfsmanna Fortis ehf. sem áunnist hafi í öðru fyrirtæki. Hvað hið fyrra varðar hefur einkum verið á því byggt að skýra beri skilyrðið þannig að fullnægjandi sé að reynsla umsækjanda, þ.e. þeirra aðila sem gert hafi með sér samstarfssamkomulag, af sambærilegu verki sé nægjanleg til að uppfylla skilyrðið en eigi ekki að takmarka við reynslu af aðalverktöku. Þá beri að túlka óskýrleika í útboðsgögnum bjóðanda í hag.

Að mati kærunefndar verður fyrrgreint skilyrði í grein 4.1.1 M1a, að virtum forvalsgögnum í heild, túlkað á þann veg að gerð hafi verið krafa um reynslu umsækjanda af sambærilegum verkum af tiltekinni stærðargráðu í aðalverktöku. Af gögnum með umsókn Fortis ehf. verður ráðið að VSÓ ráðgjöf ehf. búi ekki að þeirri reynslu sem krafist er auk þess sem félagið hafi ekki átt að vera ábyrgt fyrir verkframkvæmdinni.

Upplýsingar í gögnum sem fylgdu tilboði Fortis ehf. um fyrri reynslu þess af verkefnum af því umfangi sem krafist var í grein 4.1.1 M1a í forvalsgögnum lutu í engu tilviki að verkefni þar sem félagið hafði sjálft haft með höndum aðalverktöku heldur var byggt á „hæfi og reynslu eigenda, stjórnenda og lykilstarfsmanna sem áunnist hefur í öðru fyrirtæki“. Um heimild til þess að leggja slíka hæfni og reynslu að jöfnu við hæfni og reynslu bjóðanda sjálfs var vísað til 76. gr. laga nr. 120/2016. Að mati kærunefndar er ljóst að skilyrðið um reynslu í 4.1.1 M1a, sbr. enn fremur grein 5.1.3 í forvalsgögnum, laut að umsækjandanum sjálfum, þ.e. fyrirtækinu sem sótti um þátttöku og e.a. samstarfsaðilum þess, og verður ekki túlkað með þeim hætti að reynsla einstakra starfsmanna af sambærilegum verkum dugi til. Má enda berlega ráða af forvalsgögnum að sérstakar kröfur voru gerðar um hæfni og reynslu lykilstarfsmanna í verkinu annars vegar, sbr. m.a. greinar 4.1.1 M1b til M1d, grein 4.1.5 og greinar 5.1.4 til 5.1.19, og fyrirtækisins hins vegar. Í grein 4.1.5, um lykilstarfsmenn umsækjenda, var tekið fram að við mat á hæfni og reynslu lykilstarfsmanna væri heimilt að leggja að jöfnu reynslu sem viðkomandi hefði áunnið sér hjá öðru fyrirtæki en umsækjanda. Í engu var hins vegar vikið að heimild til að leggja reynslu lykilstarfsmanna að jöfnu við almenna reynslu og hæfni umsækjanda. Þá verður slík heimild ekki leidd af 76. gr. laga nr. 120/2016.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að Fortis ehf. uppfylli kröfur um almenna reynslu og hæfi aðalverktaka í grein 4.1.1 M1a í forvalsgögnum. Verður því að fallast á kröfu kæranda í máli þessu og fella úr gildi þá ákvörðun varnaraðila að velja Fortis ehf. til þátttöku í útboðinu. Eftir þessum málsúrslitum verður einnig að fallast á kröfu kæranda um að varnaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað í samræmi við það sem nánar greinir í úrskurðarorði og er þar tekið tillit til virðisaukaskatts.

Úrskurðarorð

Ákvörðun varnaraðila, Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar, um að velja varnaraðila Fortis ehf. til þátttöku í lokuðu alútboði um byggingu nýrrar verknámsaðstöðu við Fjölbrautarskólann í Breiðholti er felld úr gildi.

Varnaraðilar Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, mennta- og barnamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg greiði kæranda óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað.


Reykjavík, 22. september 2023


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður FinnbogadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum