Hoppa yfir valmynd

Úrskurður í máli nr. IRN22010908

Ár 2022, þann 20. júlí, er í innviðaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRN22010908

 

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.          Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru móttekinni þann 19. október 2021 kærði X, kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 28. september 2021 um að gera kæranda að sitja sérstakt námskeið hjá Samgöngustofu til þess að hljóta ökuréttindi sín aftur. Krefst kærandi þess að ákvörðun SGS verði breytt og kæranda ekki gert að sitja umrætt námskeið.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjónsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012 og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

 

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins undirgekkst kærandi sektargerð hjá lögreglu í janúar 2020. Var málinu lokið með sáttargerð með greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar í 18 mánuði. Þegar kærandi hugðist endurheimta ökuréttindin í júlí 2021 gat hann ekki undirgengist ökupróf þar sem hann þyrfti fyrst að ljúka sérstöku námskeiði hjá SGS, en umrætt skilyrði tók gildi þann 1. janúar 2020 með gildistöku umferðarlaga nr. 77/2019. Í kjölfarið reyndi kærandi að fá framangreindri ákvörðun breytt hjá SGS, lögreglu og sýslumanni, en samkvæmt kæranda vísaði hver á annan vegna málsins. Í framhaldinu ritaði kærandi SGS bréf þann 16. september 2021. Svar SGS barst kæranda þann 28. september 2021 þar sem fram kom að fara þyrfti eftir gildandi lögum á hverjum tíma til að geta fengið ökuréttindin aftur. Því þyrfti kærandi að undirgangast umrætt námskeið til að uppfylla skilyrði 6. mgr. 63. gr. laganna. 

Með stjórnsýslukæru móttekinni 19. október 2021 kærði kærandi ákvörðun Samgöngustofu til ráðuneytisins.

Umsögn Samgöngustofu barst ráðuneytinu þann 26. nóvember 2021.

Kærandi kom að frekari röksemdum með bréfi dags. 8. desember 2021.

 

III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að í 2. ml. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar segi að viðurlög við refsiverðri háttsemi megi ekki vera þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað. Í eldri umferðarlögum hafi komið fram í 2. mgr. 53. gr. að sá sem misst hefur ökuréttindin um lengri tíma en eitt ár öðlist þau að nýju standist hann ökupróf. Þann 1. janúar 2020 hafi ný umferðarlög tekið gildi. Í 6. mgr. 63. gr. komi fram að hafi ökumaður verið sviptur ökuréttindum í annað sinn vegna aksturs undir áhrifum áfengis öðlist hann ekki ökuréttindi að nýju nema hann hafi sótt sérstakt námskeið á vegum SGS og staðist ökupróf að nýju. Með nýju umferðarlögunum sé búið að bæta við því skilyrði að ökumenn verði að undirgangast sérstakt námskeið hjá SGS.

Kærandi vísar til þess að brot hans hafi verið framið í ágúst 2018 í gildistíð eldri umferðarlaga. Því eigi hann að geta endurnýjað ökuréttindi sín í samræmi við þau lög sem í gildi voru þegar háttsemin átti sér stað, en ekki samkvæmt síðar tilkomnum lögum. Fellst kærandi ekki á túlkun SGS og bendir á að sviptingin sjálf séu viðurlög. Geti sviptingin varað um ókomna tíð ef ekki er fyllt út ný umsókn um ökuréttindi. Því verði ekki annað séð en að umsóknin og það ferli sem fara þarf í gegnum þegar sótt er um ökuskírteini á ný sé hluti af þeim viðurlögum sem felast í sviptingunni sjálfri. Þá eigi kærandi ekki að þurfa að líða fyrir að lögreglan hafi tekið sér rúmlega ár í að útbúa sektargerðina sem kærandi gekkst við.

Í athugasemdum kæranda frá 8. desember 2021 bendir hann á að ákvæði 6. mgr. 63. gr. umferðarlaga eigi aðeins við um ákveðinn hóp. Sé því ekki hægt að sjá annað en að námskeiðið hjá SGS sé hluti af viðurlögum þeirra aðila sem misst hafi ökuréttindin vegna þeirra atriða sem fram koma í ákvæðinu. Svipting ökuréttinda sé hluti af viðurlögum við brotum gegn umferðarlögum. Haldist það í hendur við að svipta ökumanninn ákveðnu frelsi sem felist í því að hafa ökuskírteini. Ítrekar kærandi að við endurnýjun réttindanna beri að fara eftir eldri lögum þar sem annars sé um að ræða afturvirkni laga. Þegar lög séu með íþyngjandi hætti beri ekki að beita þeim afturvirkt.

 

IV.       Ákvörðun og umsögn Samgöngustofu

Í ákvörðun Samgöngustofu kemur fram ekki sé hægt að jafna umsókn um ný ökuréttindi við viðurlögin sem sviptingin felur í sér. Brotið sem um ræðir hafi átt sér stað í gildistíð eldri laga og fari um refsingu samkvæmt þeim lögum sem þá giltu. Í 6. mgr. 63. gr. núgildandi umferðarlaga sé hins vegar fjallað um hvaða skilyrði sá sem hefur verið sviptur þurfi að uppfylla til að öðlast ökuréttindi að nýju. Óski einstaklingur eftir að fá ökuréttindi á ný beri að fara eftir gildandi lögum á þeim tíma sem slík umsókn berst. Sé það mat SGS að sú framkvæmd sem að framan er lýst, og felur í sér að ákvæði gildandi umferðarlaga sé beitt fyrir þann sem sækir um ökuskírteini, sé lögmæt. Beri kæranda þannig að fylgja ákvæðum núgildandi umferðarlaga sem gerðar eru til þeirra sem sækja um ökuskírteini að nýju að lokinni sviptingu, sbr. 6. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

 

Í umsögn SGS vísar stofnunin til hinnar kærðu ákvörðunar og áréttar að ekki sé hægt að líta á skilyrði til þess að fá ökuskírteini á ný eftir sviptingu sem viðurlög við refsiverðri háttsemi. sambærilegt ákvæði á við 6. mgr. 63. gr. núgildandi umferðarlaga hafi ekki verið í eldri umferðarlögum. Engar vísbendingar sé að finna í lögskýringargögnum við 6. mgr. 63. gr. umferðarlaga sem bendi til þess að krafa um námskeið eigi ekki við einstakling sem hefur verið sviptur ökuréttindum í tíð eldri lag, óski hann eftir ökuréttindum á ný. Bendir SGS á að það sé almenn meginregla að einstaklingum sem sækja um réttindi beri að fara eftir gildandi lögum og reglum á hverjum tíma, nema annað sé sérstaklega tekið fram í viðkomandi ákvæðum sem um réttindin gilda. Kærandi hafi sótt um ökuréttindi í gildistíð núgildandi umferðarlaga og því beri að fara eftir þeim. Telur SGS að önnur niðurstaða sé andstæð almennum meginreglum laga.

 

V. Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun SGS þess efnis að gera kæranda að undirgangast sérstakt námskeið áður en hann getur öðlast ökuréttindi á ný, en kærandi var sviptur ökurétti í 18 mánuði að undirgenginni sektargerð í janúar 2018. Þegar kærandi óskaði eftir að fá ökuréttindi á ný höfðu ný umferðarlög nr. 77/2019 tekið gildi, þ.á.m. ákvæði 6. mgr. 63. gr. þeirra. Í ákvæðinu kemur fram að þeir sem hafa verið sviptir ökuréttindum í annað sinn vegna akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna öðlist ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema þeir hafi sótt sérstakt námskeið á vegum SGS og staðist ökupróf að nýju. Hið sama gildir um þá sem hafa fengið ákveðinn fjölda punkta samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota eða verið sviptir ökuréttindum í lengri tíma en 12 mánuði. Skilyrðið um að gera viðkomandi eintaklingum að sitja sérstakt námskeið kom nýtt inn í núgildandi umferðarlög við gildistöku þeirra þann 1. janúar 2020, en sambærilegt ákvæði var ekki að finna í eldri umferðarlögum. Telur kærandi að beita beri eldri umferðarlögum við afgreiðslu á umsókn kæranda um að öðlast ökurétt að nýju og honum verði þannig ekki gert að sitja umrætt námskeið. Hafa sjónarmið kæranda sem og SGS verið rakin hér að framan.

Ráðuneytið lítur svo á að það sé ekki hlutverk SGS að kveða á um skilyrði til þess að geta öðlast ökurétt að nýju gagnvart þeim sem hafa verið sviptir ökuréttindum og óska eftir að öðlast þau á ný, enda er það hvorki hlutverk SGS að gefa út ökuskírteini né kveða á um endurveitingu ökuréttar, heldur sýslumanns eða eftir atvikum lögreglustjóra. Umrætt skilyrði um að viðkomandi sé gert að sitja sérstakt námskeið hjá SGS er aðeins liður í meðferð umsóknar um að öðlast ökuréttindi að nýju, en felur ekki í sér sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun í málinu sem kæranleg er til ráðuneytisins. Feli hin meinta ákvörðun SGS frá 28. september 2021 þannig aðeins í sér afstöðu SGS til ágreiningsefnisins, en ekki eiginlega stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Því ekki um kæranlega ákvörðun að ræða, enda verða aðeins stjórnvaldsákvarðanir kærðar til ráðuneytisins á grundvelli kæruheimildar stjórnsýslulaga. Er því óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá ráðuneytinu.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu telur ráðuneytið rétt að taka eftirfarandi fram á grundvelli hins almenna stjórnunar- og eftirlitshlutverks ráðuneytisins.

Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins liggur fyrir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur breytt lagalegri túlkun sinni á því hvort einstaklingar sem sviptir voru ökuskírteini í gildistíð eldri umferðarlaga þurfi að undirgangast námskeið hjá SGS samkvæmt 6. mgr. 63. gr. umferðarlaga.  Er nú þeim sem hafa verið sviptir í gildistíð eldri laga og áður var farið með umsóknir eftir 6. mgr. 63. gr. umferðarlaga, ekki gert að sækja sérstakt námskeið líkt og áður var krafist. Þá liggur einnig fyrir afstaða SGS þar sem fram kemur að stofnunin telji að slík afgreiðsla sé réttari niðurstaða.

Að framangreindu virtu telur ráðuneytið rétt að taka fram að það telur sig sammála þeirri afgreiðslu sem þarna er vísað til og telur hana í betra samræmi við lagaskilareglur en eldri framkvæmd. Tekur ráðuneytið þannig undir hin breyttu sjónarmið sem felast í því að beita ekki 6. mgr. 63. gr. núgildandi umferðarlaga gagnvart þeim voru sviptir í gildistíð eldri umferðarlaga, og hefðu að öðrum kosti þurft að undirgangast hið sérstaka námskeið á vegum SGS.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu og er beðist velvirðingar á því.

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Kæru þessari er vísað frá ráðuneytinu.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira