Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 115/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 115/2020

Miðvikudaginn 8. júlí 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 2. mars 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. febrúar 2020 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 29. janúar 2020. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 10. febrúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. a-lið 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um rétt til lífeyris á grundvelli búsetu hér á landi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. mars 2020. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. mars 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kæru kæranda að hún óski eftir því að umsókn hennar um greiðslur endurhæfingarlífeyris verði samþykkt.

Í kæru kemur fram að nú sé kærandi búin að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar í annað sinn. Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri á ný og lagt fram öll gögn samviskusamlega en hafi fengið synjun vegna búsetuskilyrða.

Kærandi hafi nú verið búsett á Íslandi í X mánuði, sé nánast launalaus og eigi ekki rétt á neinu neins staðar. Kærandi sé í stífri endurhæfingu og samkvæmt síðasta úrskurði hafi Tryggingastofnun vísað henni á endurhæfingu þar sem ekki sé farið eftir búsetu eða öðrum félagslegum aðstæðum. Málsnúmer það, sem Tryggingastofnun hafi í bréfi sínu vísað til, varði aðila sem hafi fengið synjun á örorku og þeim verið bent á að sækja um endurhæfingarlífeyri.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærðar séu synjanir á umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri, dags. 21. febrúar 2019 og 10. febrúar 2020, þar sem hún uppfylli ekki skilyrði laga um búsetu.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Greinin sé svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysis-tryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar um endurhæfingarlífeyri. Í 4. og 5. mgr. sé fjallað um upphæð og skerðingu lífeyrisins en í a-lið 1. mgr. sé tekið sérstaklega fram að rétt til lífeyris eigi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert er þeir hafi tekið hér búsetu.

Endurhæfingarlífeyrir sé eingöngu greiddur einstaklingum með lögheimili hér á landi í skilningi lögheimilislaga. Upplýsingar um lögheimilisskráningu sæki Tryggingastofnun til Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt upplýsingum þaðan hafi kærandi verið með lögheimili í B frá […] til X 2018.

Tryggingastofnun hafi borist umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri þann 29. janúar 2020, læknisvottorð, dags. 30. desember 2019, sem hafi borist 29. janúar 2020 og endurhæfingaráætlun frá hjúkrunar- og fjölskyldufræðingi, dags. 30. desember 2019, sem hafi borist 29. janúar 2020. Í læknisvottorðinu komi fram að kærandi eigi langa sögu um þunglyndi og kvíða og sé með dreifða verki um allan líkamann. Einnig komi fram að kærandi hafi síðast verið í vinnu í B þar sem hún hafi búið en vegna veikinda verið sjúkraskrifuð síðan í X 2018.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi kærandi flutt til Íslands […] 2018. Í fyrirliggjandi læknisvottorði komi fram að starfshæfni kæranda hafi verið skert við flutning aftur til landsins og kærandi hafi verið óvinnufær. Umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris hafi tvívegis verið synjað, annars vegar með mati 21. febrúar 2019 og svo aftur 10. febrúar 2020 þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt það skilyrði laga um að hafa verið búsett á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Ekki hafi að öðru leyti verið tekin afstaða til innihalds endurhæfingaráætlunar.

Tryggingastofnun sé bundin af þeim upplýsingum sem komi fram í Þjóðskrá um búsetu og lögheimili kæranda. Stofnunin vilji þó taka fram að verði breyting á endurhæfingu umsækjanda eða aðstæðum sé hægt að leggja inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesta virka þátttöku í endurhæfingu.

Tryggingastofnun telji ljóst að synjun stofnunarinnar á endurhæfingarlífeyri til kæranda þar sem ekki sé uppfyllt skilyrði laga um búsetu, hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, lög um félagslega aðstoð og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Má meðal annars í því samhengi benda á nýlegt mál úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 68/2019 og eldri mál sömu nefndar nr. 354/2015, 124/2010, 407/2012 og 282/2014. Í öllum þessum málum hafi atvik verið nokkuð sambærileg og í þessu máli. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. febrúar 2019, um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri. Ágreiningur málsins snýst um það hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris vegna búsetu hennar í B.

Í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er kveðið á um endurhæfingarlífeyri en þar segir í 3. mgr. að um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. nefndrar 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, séu á aldrinum 18 til 67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert þegar þeir tóku hér búsetu.

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 29. janúar 2020. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að ekki væru uppfyllt skilyrði 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. a-lið 1.mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar um búsetu hér á landi. Ljóst er að framangreint búsetuskilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar gildir einnig um endurhæfingarlífeyri þar sem vísað er beint til ákvæðisins í 7. gr. laga um félagslega aðstoð sem kveður á um endurhæfingarlífeyri. Samkvæmt upplýsingum úr breytingaskrá Þjóðskrár Íslands var kærandi skráð með lögheimili í B á tímabilinu […] til […] 2018. Samkvæmt framangreindu var skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi ekki uppfyllt þegar umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri barst Tryggingastofnun ríkisins þann 29. janúar 2020. Í læknisvottorði C, dags. 30. desember 2019, sem var útbúið vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri, kemur fram að kærandi hefur verið óvinnufær frá 1. janúar 2018. Því er ljóst að starfsorka kæranda var ekki óskert í skilningi a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar þegar hún flutti aftur til Íslands í X 2018.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, um búsetutíma á Íslandi séu ekki uppfyllt í máli þessu. Engar heimildir eru til að víkja frá framangreindu skilyrði í tilviki kæranda. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                            Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira