Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2021-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 1/2021

Miðvikudaginn 28. apríl 2021

A

gegn

Fjölskyldunefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. janúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fjölskyldunefndar B frá 15. desember 2020, sem barst kæranda með bréfi Fjölskyldusviðs B, dags. 18. desember 2020, um að synja kæranda um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli er varðar son kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði Fjölskyldunefnd B að afhenda kæranda gögn vegna barnaverndarmáls sonar hans. Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að á 448. fundi Fjölskyldunefndar B, dags. 15. desember 2020, hafi eftirfarandi bókun verið gerð í fundargerð undir 3. dagskrárlið, Barnavernd. Beiðni um aðgang að gögnum:

„Fjölskyldunefnd hafnar beiðni um aðgang að gögnum og vísar til rökstuðnings við fyrri niðurstöðu frá 447. fundi vegna afgreiðslu málsins“.

Í bréfi Fjölskyldusviðs B, frá 23. nóvember 2020, kemur fram að Fjölskyldunefnd B hafi tekið beiðni kæranda til umfjöllunar á fundi sínum, dags. 17. nóvember 2020, þar sem eftirfarandi bókun var gerð:

„Beiðni um aðgang að gögnum er hafnað með vísan til 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þar sem fram kemur að: Barnaverndarnefnd getur með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin kannaði sérstaklega gögn málsins og telur að um sé að ræða mjög viðkvæmar persónulegar upplýsingar sem geti tvímælalaust skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra og aðra ef veittur verður umbeðinn aðgangur að þeim. Til viðbótar byggir fjölskyldunefnd á því að sá aðili sem óskað hefur eftir gögnum hafi ekki rökstutt það nægilega að hann eigi rétt á að fá aðgang að gögnunum og hvert sé markmið hans með að óska eftir aðgangi að þessu viðkvæmu persónulegu gögnum“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. janúar 2021. Með bréfi, dags. 5. janúar 2021, til Fjölskyldusviðs B var óskað eftir greinargerð ásamt gögnum málsins. Greinargerð lögmanns Fjölskyldusviðs B barst með bréfi, dags. 8. febrúar 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. febrúar 2021, var hún send kæranda til kynningar og honum veittur frestur til að gera athugasemdir. Kærandi sendi úrskurðarnefndinni viðbótargögn 23. febrúar 2021 og voru þau send Fjölskyldusviði B til kynningar með bréfi, dags. 9. mars 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki .

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi í þrígang óskað eftir gögnum eða aðgangi að gögnum er varða son hans en því hafi ætíð verið hafnað á þeim forsendum að gögnin séu of viðkvæm og geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra og aðra.

Kærandi telur mikilvægt að fá aðgang að gögnunum og greinir frá því að eftir fæðingu sonar síns hafi hann verið boðaður á fund Fjölskyldusviðs B og honum tjáð um alvarlega tilkynningu frá C um vanrækslu móður gagnvart drengnum. Málið hafi farið í könnun sem stóð yfir í fjóra til sex mánuði og lauk með lokun máls. Kærandi hafi óskað eftir gögnum um niðurstöðu könnunarinnar en engar upplýsingar fengið. Hann telur sig eiga rétt á þeim upplýsingum svo og öllum gögnum sem varða málið, enda hafi hann sameiginlega forsjá yfir drengnum með móður. Beiðni kæranda um afhendingu gagna hafi verið hafnað svo og beiðni hans um að fá að sjá gögnin á þeim forsendum að rökstuðningur fyrir beiðninni væri ófullnægjandi. Eftir ítarlegan rökstuðning kæranda hafi beiðninni verið hafnað í þriðja sinn með því að vísa í fyrri rökstuðning.

Kærandi kveðst ítrekað hafa þurft að verjast röngum sakargiftum og ásökunum frá móður barnsins, meðal annars um neyslu, ofbeldi og vanhæfni, bæði á meðan könnun stóð yfir svo og hjá sýslumanni. Kærandi kveðst hafa átt í góðri samvinnu við barnavernd, verið opinskár og heiðarlegur um fortíð sína. Barnavernd hafi ekki getað staðfest þessar ásakanir barnsmóður eða tekið þær trúanlegar. Á grundvelli ásakana barnsmóður á hendur kæranda hafi barnsmóðir tekið þá einhliða ákvörðun að heimila honum og syni þeirra að hittast sem minnst og alltaf undir eftirliti þriðja aðila, sem barnsmóðir ákveði (ekki opinberir/óháðir aðilar), sem skaði tengsl feðganna. Samkvæmt samtali kæranda við fulltrúa barnaverndar hafi komið fram að barnsmóðir fegrar sig og hafi sagt rangt til um edrútíma. Barnsmóðir haldi áfram með ásakanir og allar aðgerðir hennar beri þess merki að hún muni höfða forsjármál til þess að taka forræðið af kæranda. Þess vegna sé mikilvægt að allar upplýsingar liggi fyrir.

 

III.  Sjónarmið Fjölskyldusviðs B

Í greinargerð barnaverndar kemur fram að þess sé krafist að kröfu kæranda um afhendingu gagna verði hafnað.

Fram kemur að aðdragandi málsins sé sá að kærði hafði um nokkurra mánaða tímabil haft málefni nýfædds sonar kæranda og barnsmóður hans til skoðunar. Niðurstaða þeirrar könnunar hafi verið sú að ekki hafi verið talin ástæða til frekari afskipta af málefnum barnsins.

Kæranda hafi verið tilkynnt um að könnun vegna sonar hans væri lokið og að könnun hafi ekki gefið neitt tilefni til frekari aðgerða. Í kjölfar tilkynningarinnar hafi kærandi óskað munnlega eftir þeim gögnum sem aflað hafi verið við könnunina og vörðuðu barnsmóður hans.

Með bréfi kærða, dags. 25. september 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að beiðni hans um afhendingu gagna hafi verið hafnað. Í bréfinu sé vísað til þess að um væri að ræða viðkvæmar persónulegar upplýsingar um barnsmóður kæranda sem aflað hafi verið frá fagaðilum. Þá hafi einnig komið fram að tilgangur kæranda með beiðninni væri að afla gagna til þess að leggja fram í umgengis- og forsjármáli. Með vísan til 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) hafnaði kærði að afhenda kæranda gögn um barnsmóður hans þar sem afhendingin var talin vinna gegn hagsmunum barnsins við vinnslu umgengis- og forsjármáls hjá sýslumanni.

Í kjölfar bréfs kærða ítrekaði kærandi upplýsingabeiðni sína. Með bréfi kærða, dags. 23. nóvember 2020, var kæranda tilkynnt um það að Fjölskyldunefnd B hefði tekið beiðni hans til umfjöllunar á fundi sínum þann 17. nóvember 2020 þar sem beiðninni hafi verið hafnað og vísað til sérstakrar bókunar sem gerð var á fundinum.

Enn ítrekaði kærandi beiðni sína um upplýsingar og sendi lögmaður kæranda bréf til kærða þann 9. desember 2020 þar sem leitast var við að rökstyðja upplýsingabeiðni kæranda. Í bréfinu komi meðal annars fram að kærandi óski eftir að fá upplýsingar um hvað hafi verið skoðað við könnun kærða, hvað hafi komið í ljós við könnunina og hvort um vanrækslu hafi verið að ræða. Um tilgang upplýsingabeiðninnar komi meðal annars fram að með gögnunum sé unnt að fá „rétta mynd“ af umgengis- og forsjármáli kæranda og barnsmóður hans. 

Í kjölfar bréfs kæranda tók Fjölskyldunefnd B málið aftur til umfjöllunar á fundi sínum. Með bréfi Fjölskyldusviðs B, dags. 18. desember 2020, ítrekaði kærði fyrri afstöðu sína, sbr. bréf kærða frá 23. nóvember 2020. Í bréfinu var vísað í bókun frá fundi fjölskyldunefndar sem haldinn var 15. desember 2020. Í bókuninni kemur fram að fjölskyldunefnd hafni beiðni um aðgang að gögnum og vísi í fyrri rökstuðning við meðferð málsins.

Kærði hafi því fram til þessa talið rétt að hafna beiðnum kæranda um afhendingu gagna.

Kæranda var tilkynnt um að kærði hafi kannað málefni sonar hans og að sú könnun hafi ekki gefið neitt tilefni til frekari aðgerða. Þær upplýsingar, sem kærandi leitist nú eftir að fá afhentar, innihalda að mati kærða afar viðkvæmar persónulegar upplýsingar um barnsmóður kæranda en snúa ekki að syni kæranda. Upplýsinganna hafi verið aflað frá fagaðilum undir könnun barnaverndarmálsins og nái þær nokkuð langt aftur í tímann. Kærði sé þeirrar skoðunar að umbeðnar upplýsingar um barnsmóður kæranda séu þess eðlis að kærða sé raunar beinlínis óheimilt að afhenda gögnin.

Með vísan til eðlis upplýsinganna telur kærði að skilyrði 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í þessu máli. Nánar tiltekið telur kærði gögnin geta „skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra“.

Í þessu sambandi bendir kærði einnig á það að tilgangur 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/2002 um skyldu til afhendingar gagna sé sá að aðgangur málsaðila að málsgögnum sé nauðsynlegur svo að viðkomandi aðili geti beitt andmælarétti sínum í viðkomandi máli. Í því máli, sem hér er til umfjöllunar, sé staðan hins vegar sú að því máli þar sem upplýsinganna var aflað er þegar lokið og það án frekari aðgerða. Verði því ekki séð að kæranda séu gögnin nauðsynleg, enda barnaverndarmálinu lokið án aðgerða. Í því sambandi sé það tekið fram að umrætt barnaverndarmál varði ekki það forsjármál sem foreldrar barnsins standa nú í fyrir sýslumanni.

Í öllu falli bendir kærði á að samkvæmt 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé heimilt þegar sérstaklega stendur á að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum. Kærði sé þeirrar skoðunar að í þessu máli hafi kærandi ekki ríkari hagsmuni af því að fá umbeðin gögn um barnsmóður sína með því að viðkvæmar persónulegar upplýsingar um barnsmóður hans verði afhentar kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að gögnum barnaverndarmáls.

Beiðni kæranda var synjað með bréfi Fjölskyldusvið B, dags. 18. desember 2020, með vísan til bókunar Fjölskyldunefndar B þann 15. desember 2020.

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. bvl. getur barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum barnaverndarmáls ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra.

Í máli þessu liggur fyrir að Fjölskyldunefnd B fjallaði um beiðni kæranda á fundi nefndarinnar þann 15. desember 2020 og tók ákvörðun í málinu með bókun.

Að áliti úrskurðarnefndar velferðarmála hefur Fjölskyldunefnd B ekki kveðið upp rökstuddan úrskurð um þá kröfu kæranda sem til úrlausnar er í málinu eins og áskilið er í skýru ákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl. Samkvæmt þessu var hin kærða ákvörðun ekki tekin með þeim hætti sem bvl. gera áskilnað um.

Að þessu gættu er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til löglegrar málsmeðferðar og úrskurðar Fjölskyldunefndar B.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fjölskyldunefnd B frá 15. desember 2020, um að synja kröfu kæranda, A, um afhendingu gagna í barnaverndarmáli er varðar son hans, er felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar málsmeðferðar og ákvörðunar að nýju.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira