Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 273/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 273/2021

Mánudaginn 13. september 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 3. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 25. maí 2021 vegna umgengni hennar við C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

C er rúmlega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá föður síns. Barnaverndarnefnd B hefur gert þá kröfu fyrir Héraðsdómi B að faðir stúlkunnar verði sviptur forsjá hennar, sbr. bókun, dags. 1. september 2020. Móðir stúlkunnar var svipt forsjá hennar í Héraðsdómi B þann 25. nóvember 2020 og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu þann 30. apríl 2021. Það er ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá foreldra sinna. Kærandi er föðuramma stúlkunnar.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 18. maí 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 11. maí 2021. Að mati starfsmanna eru það hagsmunir stúlkunnar að kærandi sé viðstödd umgengni föður við stúlkuna og að umgengnin fari fram á heimili föður og kæranda án eftirlitsaðila Barnaverndar B, en faðir stúlkunnar og kærandi búa á sama heimili. Þá er það mat starfsmanna að það sé stúlkunni, föður og kæranda til hagsbóta að umgengni fari fram í umhverfi sem stúlkan þekkir sig í. Kærandi var ekki samþykk mati starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar þann 10. júní 2021. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að A, hafi umgengni við C einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn á sama tíma og umgengni við föður. Umgengni fari fram á heimili föður og föðurömmu eða öðrum fyrirfram ákveðnum stað sem aðilar koma sér saman um.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. júní 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 4. júní 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 28. júní 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar var hún send kæranda til kynningar þann sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og henni verði veitt umgengni við barnabarn sitt í samræmi við kröfur hennar fyrir nefndinni. Kærandi krefst þess að eiga sérstaka umgengni við stúlkuna.

Fram kemur í kæru að kæranda sé aftur synjað um sérstaka umgengni við ömmubarn sitt. Hún hafi áður kært sama mál til úrskurðarnefndar velferðarmála og í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 608/2020 hafi hinni kærðu ákvörðun verið vísað til meðferðar barnaverndarnefndar að nýju. Ástæða heimvísunar hafi verið sú að úrskurðarnefndin hefði talið verulegan ágalla á málsmeðferðinni þar sem ekki var metin sérstaklega umgengni kæranda við barnabarn sitt óháð búsetu föður stúlkunnar, en hann búi um þessar mundir hjá kæranda, þar sem ólíkt hagsmunamat skuli fara fram hvað varði hagsmuni barnsins annars vegar og nákominna hins vegar. Um þremur mánuðum síðar hafi Barnaverndarnefnd B boðað kæranda á fund þar sem hún hafi talað máli sínu sem amma stúlkunnar. Þar á undan hafi barnavernd verið búin að fara yfir málið aftur og komist að sömu niðurstöðu. Kærandi hafi síðan kært það til barnaverndarnefndar. Aftur hafi verið úrskurðað að kærandi skyldi hafa umgengni við stúlkuna á sama tíma og faðir hennar.

Kærandi gerir eftirfarandi athugasemdir við úrskurð barnaverndarnefndar. Í fyrsta lagi hafi kærandi og faðir stúlkunnar aldrei heyrt að samskipti föður og stúlkunnar yrðu að vera undir eftirliti, enda hafi hann verið búinn að vera töluvert einn með hana, bæði á [D] vistheimili barna, og heima hjá kæranda eftir að þau hafi komið aftur til hennar en hún hafi verið erlendis hjá dóttur sinni. Enginn fagaðili hafi talað um nauðsyn þess að hafa eftirlitsaðila eða hafi rætt við kæranda um að taka það að sér. Kærandi telji þetta vera eftiráskýringu til að skýla sér að baki niðurstöðu sem áður hafi verið felld úr gildi af úrskurðarnefnd velferðarmála. Að mati kæranda sé gefið í skyn að ef hún fengi sér umgengni yrði faðir stúlkunnar að hafa starfsmann yfir sér og stúlkunni þegar þeirra umgengni stæði yfir. Að mati kæranda sé þetta dulin hótun og að barnaverndarnefnd hagræði öllu í sína þágu. Þetta sé hreinlega ósatt og hvergi sé skráð að hann hafi eða þurfi að vera undir eftirliti með stúlkuna. Það hafi aldrei verið talað um að þau þyrftu að hittast undir eftirliti ef kærandi væri ekki á staðnum og aldrei verið minnst á það við hana að hún væri eftirlitsmaður. Hún hafi hreinlega verið á staðnum því að hana langi til að hitta barnabarn sitt.

Á fundinum með barnavernd hafi hún tekið skýrt fram að hún væri ekki að sækja um meiri umgengni við stúlkuna en faðir stúlkunnar og hafi hún einnig sagt að hann væri að sækja um meiri umgengni. Í bréfinu hafi barnaverndarnefnd samt sem áður sagt að nefndin teldi það ekki hagsmuni stúlkunnar að eiga tíðari umgengni við kæranda en föður.

Þá vilji kærandi gera eftirfarandi athugasemdir við skýrslu barnaverndarnefndar. Í henni sé tekið fram að fósturforeldra gruni að faðir stúlkunnar og kærandi hafi átt erfitt með að bregðast þörfum stúlkunnar þegar hún sé í umgengni og að þeir hafi upplifað ákveðið ráðaleysi kæranda gagnvart umönnun stúlkunnar þegar þeir komi að sækja hana. Að mati kæranda sé þetta ekki rétt og hennar upplifun sé sú að það sé hagur fósturforeldranna að gera slíkar athugasemdir þar sem kærandi sé að sækja um að gerast fósturforeldri stúlkunnar ef það færi svo að faðir stúlkunnar yrði endanlega sviptur forsjá. Í sömu skýrslu sé talað um alvarlega vanrækslu sem hafi ekki verið gert áður. Kærandi gerir athugasemd við það að enginn rökstuðningur fylgi þeirri staðhæfingu. Þá sé einnig greint frá því að stúlkan hafi verið ónóg sjálfri sér eftir umgengni og verið háð því að vera með fósturforeldrum dagana á eftir. Hún hafi átt í erfiðleikum með að kveðja þegar hún sé að fara í leikskólann. Kærandi vilji benda á að dómkvaddur matsmaður skrifi eftir viðtal við leikskólastjóra á leikskóla stúlkunnar að engar sýnilegar breytingar séu á stúlkunni í kringum umgengni, enda viti leikskólinn ekkert um það mál eða hvenær umgengni fari fram. Enn fremur sé í skýrslunni talað um að stúlkan hafi tekið miklum framförum eftir að hún hafi komið til fósturforeldranna. Að mati kæranda sé það látið líta svo út að það hafi hjálpað stúlkunni þroskalega séð að fara frá þeim og til fósturforeldra. Kærandi vilji taka fram að börn þroskist mjög hratt á þessu aldursskeiði.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C kemur fram að um sé að ræða rúmlega X ára gamla stúlku, C, sem nú lúti forsjá föður, E. Barnaverndarnefnd B hafi gert þá kröfu fyrir dómi að E verði sviptur forsjá dóttur sinnar, sbr. bókun nefndarinnar, dags. 6. október 2020. Það sé því ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður. Móðir stúlkunnar hafi að kröfu Barnaverndarnefndar B verið svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms B þann 25. nóvember 2020 og hafi Landsréttur staðfest þá niðurstöðu með dómi þann 30. apríl 2021.

Afskipti á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafi verið í máli stúlkunnar frá fæðingu hennar. Stúlkan hafi verið í umsjá beggja foreldra sinna þar til hún hafi orðið X mánaða en þá hafi móðir hennar flutt með hana á heimili móðurömmu. Faðir hafi átt reglulega umgengni við stúlkuna eftir að foreldrar hafi skilið og hafi umgengni farið fram á heimili kæranda. Þegar stúlkan hafi orðið sex mánaða hafi hún verið vistuð á D, vistheimili barna, með samþykki foreldra. Stúlkan hafi dvalið á D þar til í lok janúar 2020 og hafi þá flutt til föður á heimilis hans og kæranda. Stúlkan hafi farið úr umsjá föður þann 13. júlí 2020 vegna alvarlegrar vanrækslu, á grundvelli úrskurðar barnaverndarnefndar B, sem kveðinn hafi verið upp 6. júlí 2020. Frá því að stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis hafi kærandi átt reglulega umgengni við stúlkuna og hafi sú umgengni verið samhliða umgengni föður.

Þann 10. nóvember 2020 hafi Barnaverndarnefnd B úrskurðað í máli kæranda vegna umgengni hennar en úrskurðarnefnd velferðarmála hafi fellt þann úrskurð úr gildi með úrskurði, dags. 18. mars 2021. Úrskurður barnaverndarnefndar frá 10. nóvember 2020 hafi kveðið á um að kærandi skyldi hafa umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í þrjá tíma í senn á meðan forsjársviptingarmál yrði rekið fyrir dómstólum. Ekki hafi náðst samkomulag um umgengni kæranda við stúlkuna og hafi því að nýju verið fjallað um umgengni stúlkunnar við kæranda á fundi nefndarinnar þann 18. maí 2021 og hafi úrskurður nefndarinnar legið fyrir þann 25. maí 2021.

Í greinargerð starfsmanna, dags. 11. maí 2021, sem hafi verið lögð fyrir barnaverndarnefnd þann 18. maí 2021, komi fram það mat að það séu hagsmunir stúlkunnar að kærandi sé viðstödd umgengni föður við stúlkuna og að umgengnin fari fram á heimili föður og kæranda án eftirlitsaðila Barnaverndar B. Það sé mat starfsmanna barnaverndar að það sé stúlkunni, föður hennar og kæranda til hagsbóta að umgengni fari fram í umhverfi sem stúlkan þekki sig í og að umgengnin eigi sér stað án utanaðkomandi eftirlitsaðila.

Það sé óumdeilt að kærandi sé nákomin stúlkunni í skilningi barnaverndarlaga. Þá séu það hagsmunir stúlkunnar, að mati starfsmanna barnaverndar, að eiga umgengni við kæranda og njóta samvista með henni. Það sé þó ekki talið að það séu hagsmunir stúlkunnar að eiga tíðari umgengni við kæranda en föður. Kærandi hafi óskað eftir að eiga umgengni við stúlkuna tvisvar til fjórum sinnum í mánuði en hafi ekkert rætt um tímalengd í hvert sinn.  Faðir eigi umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn á heimili kæranda og föður en með þátttöku kæranda í umgengni föður við stúlkuna sé unnt að haga umgengni með þeim hætti að óháður eftirlitsaðili komi ekki að umgengninni og að umgengnin fari fram í aðstæðum sem stúlkan þekki sig í. Með því sé verið að stuðla að því að jafnvægi ríki í lífi stúlkunnar en hún hafi búið við óstöðugleika og rót í lífi sínu. Í forsjárhæfnismati, dags. 20. ágúst 2020, komi fram að kærandi sé föður mikill stuðningur í umgengni hans við stúlkuna, líkt og fram komi í mati fagaðila sem metið hafi forsjárhæfni föður. Faðir og kærandi hafi átt reglulega umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði, í þrjár klukkustundir í hvert sinn frá því í september 2020. Faðir og kærandi eigi nú reglulega umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði, í fjórar klukkustundir í hvert sinn, sbr. úrskurð barnaverndarnefndar þann 25. mars 2021 vegna föður, og úrskurð barnaverndarnefndar þann 25. maí 2021 vegna kæranda. Fósturforeldrar hafi verið viðstaddir upphaf og lok umgengni en annars sé umgengnin án eftirlitsaðila. Með þessu fyrirkomulagi hafi kærandi átt jafna umgengni við stúlkuna og faðir, þrátt fyrir að réttur hennar til umgengni sé ekki jafn ríkur og réttur föður en kærandi hafi um leið gegnt eftirlitshlutverki í umgengni.

Fram hafi komið hjá fósturforeldrum að vel hafi gengið að skilja hana eftir í umgengni og á sama hátt eigi hún auðvelt með að kveðja föður sinn og kæranda að lokinni umgengni. Eftir umgengni hafi hún viljað fara beint heim að leggja sig lengur en venjulega og næturnar eftir umgengni hafi hún átt erfitt með svefn, verið andvaka og almennt hvílst mjög illa.

Kærandi hafi mætt á fund nefndarinnar þann 18. maí 2021 og gert grein fyrir því að hún væri sterkur aðili fyrir stúlkuna til að alast upp með, bæði með tilliti til þess að stúlkan muni þekkja fjölskyldu sína og sögu. Nefndi kærandi að ömmur spiluðu stórt hlutverk í lífi barna og að sá styrkur sem barn fengi frá ömmu sinni væri gefandi og mikilvægur. Kærandi nefndi að hún væri ekki að fara fram á meiri umgengni en faðir hefði.

Í hinum kærða úrskurði nefndarinnar frá 25. maí 2021 taki Barnaverndarnefnd Bundir það mat starfsmanna að það séu hagsmunir stúlkunnar að kærandi sé viðstödd umgengni föður við stúlkuna og að umgengin fari fram á heimili kæranda og föður án eftirlitsaðila Barnaverndar B.

Ekki sé stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður og á heimili kæranda, heldur sé stefnt að því að hún alist upp í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum. Í ljósi þess sé mikilvægt að lögð sé áhersla á að stúlkan upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Þegar nauðsynlegt sé að vista svo ungt barn utan heimilis, án þess að vitað sé hvað framtíðin beri með sér, sé mikilvægt að vistunin raski sem minnst ró og öryggi barnsins. Mikil umgengni við kynforeldra og aðra nákomna á óvissutímum geti haft í för með sér hættu á að barnið upplifi kvíða og spennu. Ungur aldur stúlkunnar hafi í för með sér að hún ráði illa við breytingar og geti ekki tjáð sig sjálf um eigin hag.

Umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til umgengni og umfang hans geti verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum hennar þar sem meðal annars beri að taka tillit til þeirra markmiða sem stefnt sé að með fósturráðstöfuninni og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara.  Fari hagsmunir stúlkunnar og kæranda ekki saman verði hagsmunir kæranda að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að með úrskurði nefndarinnar þann 25. maí 2021 sé fyrst og fremst horft til hagsmuna stúlkunnar.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni telpunnar að leiðarljósi geri Barnaverndarnefnd B þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barns

Vegna ungs aldurs var ekki rætt við stúlkuna um afstöðu hennar til umgengni við kæranda.

V.  Niðurstaða

Stúlkan C er X árs gömul stúlka sem lýtur forsjá föður síns. Barnaverndarnefnd B hefur gert þá kröfu fyrir dómi að faðir verði sviptur forsjá dóttur sinnar og því sé ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður. Kærandi er föðuramma stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 10. júní 2021 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði einu sinni í mánuði, fjórar klukkustundir í senn, á sama tíma og faðir stúlkunnar eigiumgengni við hana. Umgengnin fari fram á heimili föður og kæranda eða öðrum fyrir fram ákveðnum stað sem aðilar koma sér saman um. Kærandi gerir kröfu um að henni verði úrskurðuð sérstök umgengni við stúlkuna í samræmi við kröfur hennar þar um.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að ekki sé stefnt að því að stúlkan fari í umsjá föður að nýju þar sem krafa hafi verið gerð um forsjársviptingu og sé það mál nú til meðferðar fyrir dómi. Í málinu liggi fyrir þrjú forsjárhæfnismöt þar sem faðir sé ekki metinn með nægjanlega hæfni til að fara með forsjá dóttur sinnar. Stúlkan hafi verið í umsjá fósturforeldra sinna í rúma tíu mánuði, sæki leikskóla í hverfi þeirra og hafi aðlagast vel heimili fósturforeldra. Stúlkan hafi búið við mikinn óstöðugleika allt þar til hún hafi farið í fóstur. Hún hafi tekið miklum framförum í fóstri og sýni ekki lengur sömu hegðun og hún hafi gert í umsjá föður sem fagaðilar hafi haft áhyggjur af að bentu til þroskafrávika. Að mati barnaverndarnefndar verði fyrst og fremst að horfa til hagsmuna stúlkunnar og þeirra lögvörðu hagsmuna hennar að búa við stöðugleika og ró þar sem hennar þarfir séu í forgrunni. Barnaverndarnefnd telur það ekki þjóna hagsmunum stúlkunnar að eiga tíðari umgengni við kæranda en föður.

Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 11. maí 2021, kemur fram það mat að það séu hagsmunir stúlkunnar að kærandi sé viðstödd umgengni föður við stúlkuna og að umgengnin fari fram á heimili föður og kæranda án eftirlitsaðila barnaverndar. Telja starfsmenn að með því móti sé unnt að halda umgengni áfram á heimili föður og kæranda. Barnaverndarnefnd B tekur undir mat starfsmanna barnaverndar í úrskurði sínum.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Barnaverndarnefnd getur á sama hátt ákveðið að aðrir sem telja sig nákomna barninu njóti ekki umgengnisréttar ef hún telur að skilyrðum 2. mgr. sé ekki fullnægt.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafn ríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Varðandi kröfu kæranda til sérstakrar umgengni við stúlkuna, verður að líta til þess hverjir séu hagsmunir stúlkunnar og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hennar að njóta frekari umgengni við kæranda en nú er. Í hinni kærðu ákvörðun er umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin einu sinni í mánuði, í fjórar klukkustundir í senn, með föður. Þannig var umgengni kæranda við stúlkuna ákveðin á sama tíma og föður og var í því sambandi meðal annars vísað til þess að með þátttöku kæranda í umgengni föður við stúlkuna væri unnt að haga umgengni með þeim hætti að óháður eftirlitsaðili kæmi ekki að umgengninni og að umgengni færi fram í aðstæðum sem stúlkan þekkti sig í. Þannig væri stuðlað að því að jafnvægi ríkti í lífi stúlkunnar. Þá var tekið fram að kærandi væri föður mikill stuðningur í umgengni hans við stúlkuna. Líkt og fram hefur komið er litið svo á að meta skuli hagsmuni til umgengni við kynforeldra og aðra nákomna með ólíkum hætti, þ.e. réttur annarra nákominna er ekki jafnríkur og kynforeldra. Með hinum kærða úrskurði var umgengni kæranda við stúlkuna tengd við umgengni föður þar sem kærandi er settur í hlutverk það hlutverk að aðstoða föður í umgengni við dóttur sína. Úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemd við sameiginlega umgengni og að kærandi sinni þessu hlutverki í umgenginni, enda sé talið að það sé barninu fyrir bestu. Kærandi hefur hins vegar óskað eftir því að eiga sérstaka umgengni við barnið þannig að hún og stúlkan eigi saman gæðastundir.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er það verulegur ágalli á málsmeðferð barnaverndarnefndar að ekki skuli hafa verið lagt mat á það sérstaklega, með hliðsjón af kröfum kæranda, hvort það væri barninu til hagsbóta að hafa sérstaka umgengni við kæranda, óháð því hvort kærandi væri viðstödd umgengni föður við barn sitt. Í því sambandi er meðal annars mikilvægt að hafa í huga að ólíkt hagsmunamat skal fara fram hvað varðar hagsmuni barnsins af umgengni við kynforeldri annars vegar og aðra nákomna hins vegar. Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur það fyrir Barnaverndarnefnd B að taka efnislega afstöðu til kröfu kæranda um umgengni við barnið utan þess tíma þegar faðir (og kærandi á/eiga sameiginlega) umgengni við barnið, í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í 2. mgr. 74. gr. bvl.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar barnaverndarnefndar að nýju.

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. júní 2021 varðandi umgengni C, við A, er felldur úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndarnefndar B.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira