Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 27/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 28. nóvember 2019
í máli nr. 27/2019:
Puhastusekspert
gegn
Sveitarfélaginu Árborg

Með kæru 28. október 2019 kærði Puhastusekspert útboð sveitarfélagsins Árborgar er nefnist „Ræsting og hreingerning stofnana Árborgar“. Kærandi krefst þess að hið kærða útboð verði ógilt og að sveitarfélaginu Árborg (hér eftir vísað til sem varnaraðila) verði gert að auglýsa það að á nýjan leik. Þá er gerð krafa um að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar. Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfunni verði hafnað.

Í ágúst 2018 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð. Kærandi telur að innkaupin séu yfir viðmiðunarfjárhæðum 3. gr. reglugerðar nr. 178/2018 um auglýsingu innkaupa á útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sbr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Varnaraðila hafi því borið að auglýsa útboðið á Evrópska efnahagssvæðinu en það hafi ekki verið gert. Kærandi hafi símleiðis óskað eftir upplýsingum frá umsjónarmanni útboðsins um það hvort útboðið hefði verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu en fengið óljós svör. Verði að miða við að umrætt útboð hafi ekki verið auglýst lögum samkvæmt og hafi varnaraðili því brotið gegn skýrri lagaskyldu sinni. Af hálfu varnaraðila er byggt á því útboðið hafi verið auglýst í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, enda hafi þjónustan verið umfram innlendar viðmiðunarfjárhæðir. Þá hefur hann lagt fram umrædda auglýsingu og frekari gögn þessu til staðfestingar. Kærandi telur að gögnin séu ófullnægjandi.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur einungis að því hvort sýnt hafi verið fram á að varnaraðili hafi auglýst útboðið á Evrópska efnahagssvæðinu. Varnaraðili hefur lagt fram afrit auglýsingar vegna útboðsins sem birtist 27. ágúst 2019 í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir á þessu stigi málsins telur nefndin að leggja verði til grundvallar að hið kærða útboð hafi verið auglýst á Evrópska efnhagssvæðinu, sbr. 4. mgr. 23. gr. laga um opinber innkaup og reglugerð nr. 178/2018. Að þessu virtu eru ekki fram komnar verulegar líkur á að brotið hafi verið gegn lögum eða reglum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar útboðsins. Verður því að hafna kröfu kæranda um að hið kærða útboð verði stöðvað þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Puhastusekspert, um að útboðsferli varnaraðila, sveitarfélagsins Árborgar, er nefnist „Ræsting og hreingerning stofnana Árborgar“ verði stöðvað.

Reykjavík, 28. nóvember 2019.

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Sandra BaldvinsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira