Hoppa yfir valmynd

Titill 09120125

Grein

Þann 16. janúar 2011 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Úrskurður:

 

Ráðuneytinu barst þann 1. febrúar 2010 stjórnsýslukæra frá Álfsfelli ehf. vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 22. desember 2009 um að eldi á allt að 900 tonnum á ári af þorski í Skutulsfirði við Ísafjarðarbæ skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Kæruheimild er í 14. gr. nefndra laga.

 

 

I.       Málavextir

 

Skipulagsstofnun barst þann 27. október 2009 tilkynning Náttúrustofu Vestfjarða, f.h. Álfsfells ehf., um eldi á allt að 900 tonnum á ári af þorski í Skutulsfirði í Ísafjarðarbæ samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og lið 1. g í 2. viðauka laganna. Kom þar fram að Álfsfell ehf. hafi verið með þorskeldi í Skutulsfirði frá árinu 2002 og starfsleyfi fyrir allt að 200 tonna ársframleiðslu. Samkvæmt gögnum málsins er fyrirhugað að kvíar fyrir eldisfisk verði 8 talsins í vestanverðum firðinum, um 800 m frá landi, ummál þeirra verði allt að 60 m, dýpt netpoka allt að 12 m og dýpi undir kvíum að meðaltali 22 m (12 m frá netpoka að botni). Þá verði innsta kvíin rétt rúman km frá Eyrinni og jafnlangt frá næstu skólplögn. Einnig kemur fram að milli Arnarness og Eyrar sé botndýpi mest um 30 m, en um 17 m við mynni Skutulsfjarðar.

 

Niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar var sú að fyrirhugað eldi á allt að 900 tonnum á ári af þorski í Skutulsfirði við Ísafjarðarbæ kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun stofnunarinnar segir að niðurstaðan byggi á vísbendingum um að núverandi eldisstarfsemi í Skutulsfirði hafi nú þegar haft neikvæð áhrif á botndýralíf og líkum á því að aukning á þorskeldi úr 200 tonnum í allt að 900 tonna ársframleiðslu muni auka umtalsvert álag á botndýralíf svæðisins frá því sem nú sé. Takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir um styrk hafstrauma á eldissvæðinu og í nágrenni þess og mögulega þynningu úrgangs frá fyrirhugaðri starfsemi. Þá liggi ekki fyrir mat á burðargetu svæðisins. Auk þess er í hinni kærðu ákvörðun vísað til þriggja atriða með vísan til 3. viðauka með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í fyrsta lagi er vísað til eðli framkvæmdar, einkum m.t.t. stærðar og umfangs, þar sem hún felur í sér rúmlega fjórföldun á eldi miðað við núverandi leyfi án þess að fyrir liggi mat á burðargetu svæðisins. Í því sambandi er einnig vísað til sammögnunaráhrifa með öðru þorskeldi í Skutulsfirði og óvissu um heildarúrgang og mengun frá þeirri starfsemi. Í öðru lagi er vísað til staðsetningar framkvæmdarinnar í ljósi þess að ekki liggi fyrir staðfesting á því að umrætt svæði sé síður viðkvæmur viðtaki skv. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og því sé óljóst hvort sjór við Ísafjörð geti borið að taka við skólpi og úrgangi frá fiskeldi. Í þriðja lagi er vísað til eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar m.t.t. umfangs og stærðar umhverfisáhrifa í ljósi þess að aukið eldi sé líklegt til að leiða til umtalsvert neikvæðra áhrifa á botndýralíf á tiltölulega stóru svæði í Skutulsfirði.

Af hálfu ráðuneytisins var aflað umsagna frá Náttúrustofu Vestfjarða, Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbæ, Hafrannsóknarstofnuninni og Skipulagsstofnun, með bréfum dags. 15. febrúar 2010. Bárust ráðuneytinu umsagnir með bréfum dags. 26. febrúar sl. frá Náttúrustofu Vestfjarða, 8. mars frá Umhverfisstofnun, 8. mars sl. frá Ísafjarðarbæ, 1. mars sl. frá Hafrannsóknarstofnuninni og 5. mars sl. frá Skipulagsstofnun. Kæranda voru sendar umræddar umsagnir til athugasemda með bréfi 10. mars sl. Ráðuneytinu bárust athugasemdir frá kæranda með bréfi dags. 6. apríl  sl. Með athugasemdum kæranda fylgdu niðurstöður nýrra rannsókna á hafstraumum og óskaði ráðuneytið því á ný umsagna frá Hafrannsóknarstofnuninni með bréfi dags. 10. ágúst sl. og síðar frá Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun með bréfum dags. 26. ágúst 2010. Barst ráðuneytinu umsögn frá Hafrannsóknarstofnuninni 23. ágúst sl., frá Skipulagsstofnun 6. september sl. og Umhverfisstofnun 20. september sl.

 

 Í umræddri kæru er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

 

 

II.    Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

 

 

1. Áhrif á botndýralíf og vistkerfi svæðisins og upplýsingar um lífríki.

 

Kærandi segir þorskeldi Álfsfells ehf. hafa staðið yfir áfallalaust í átta ár og telur hann góðar aðstæður vera til fiskeldis í Skutulsfirði. Segir hann Náttúrustofu Vestfjarða (innskot ráðuneytisins: hér eftir nefnd NV) hafa tekið að sér að gera allar nauðsynlegar rannsóknir til að meta hugsanlega hættu á umtalsverðum umhverfisáhrifum af umræddri framkvæmd sem og að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar. Telur kærandi Skipulagsstofnun hafa byggt niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar á umsögn Umhverfisstofnunar þar sem aðrar umsagnir hafi verið jákvæðar, að undanskilinni umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar sem hafi gert athugasemd við að mælitími á straumhraða við mat á meðalstraumhraða væri of stuttur. Telur kærandi að ekki liggi fyrir hvaða kröfur um rannsóknir og athuganir beri að uppfylla og segist ekki hafa forsendur til að meta líffræðilegt gildi þeirra fullyrðinga sem fram komi í umsögn Umhverfisstofnunar. Sé því eina leiðin að bera saman fyrri umsagnir stofnunarinnar um matsskyldu fiskeldis í sjókvíum.

 

Kærandi gerir athugasemdir við að Umhverfisstofnun geri kröfu um að kærandi láti gera rannsókn á hugsanlegum keðjuverkunum botnbreytinga á annað dýralíf í Skutulsfirði þrátt fyrir áætlanir kæranda um að koma í veg fyrir að botnbreytingar verði verulegar. Hafi stofnunin ekki gert slíka kröfu í umsögnum vegna sambærilegs fiskeldis. Er það mat kæranda að þar sem ekki séu til nákvæmar leiðbeiningar um það hvaða athugana og rannsókna sé krafist í umsögn Umhverfisstofnunar ætti jafnræði og sanngirni að vega þungt við ákvarðanatöku í málinu.

 

Með framlagðri kæru Álfsfells ehf. fylgdi greinargerð NV vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Segir þar að ekki verði greint af kynningarskýrslu og botndýraskýrslu vegna þorskeldis Álfsfells ehf. að þorskeldið hafi neikvæð áhrif á botndýralíf. Þar komi fram að lítið hafi verið af burstaormum af ætt Capetellidae, en þeir þoli vel mikla uppsöfnun næringarefna sem bendi til þess að álagið á botninn sé enn lítið. Þá sé fjölbreytnin svipuð og á svæði þar sem ekki sé eldi. Telur NV það óskiljanlega niðurstöðu að framkvæmdin hafi neikvæðari áhrif á botndýralíf í Skutulsfirði en t.d. 2000 tonna (innskot ráðuneytisins: hér eftir t) eldi í Álftafirði og Seyðisfirði, 1000 t laxeldi í Eyjafirði, 2000 t þorskeldi í botni Norðfjarðar, 3000 t eldi í Hvalfirði og 2000 t eldi á regnbogasilungi í Dýrafirði. Vísar NV í þessu sambandi til eftirfarandi í skýrslu Akvaplan niva um Álftafjörð, sem hún segir líkjast ástandinu í fiskeldi Álfsfells ehf., en fyrrgreint fiskeldi hafi ekki þurft að sæta umhverfismati: „Hið svarta lag í botnseti á St.3 við eldiskvíar bendir til lífræns álags, magn lífræns kolvetnis (TOC) er, hins vegar, ekki aukið á stöðinni. Það fannst sýnilegt lífrænt álag í botnseti innan innri þröskuldar í formi svertu neðar í botnseti (St. 1 og 2). Magn lífræns kolvetnis (TOC) í yfirborði er aukið á þessum stöðvum. TOC er tiltölulega lágt við kvíar utar ytri þröskuldar og utar í firðinum (St. 2). Það fundust ekki vísitegundir um lífræna mengun í botndýrasamfélagið við kvíar eða á St. 4.“

 

NV segir fiskeldi í Dýrafirði á svipuðu dýpi og í Skutulsfirði og að margt sé því líkt með því. Vísar NV til eftirfarandi í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar um fiskeldið í Dýrafirði: „Líkur séu á að fram komi staðbundin áhrif á botndýralíf undir kvíum við það að lífrænar leifar, einkum fóðurleifar, safnist fyrir en þau áhrif séu afturkræf. Með tilliti til staðsetningar, umfangs fyrirhugaðs eldis og fyrirliggjandi gagna verði að teljast litlar líkur á alvarlegum áhrifum á umhverfið.“ NV segist búast við því að áhrifin verði þau sömu í Skutulsfirði, en þar sé þó um að ræða 900 t en ekki 2000 t eins og í Dýrafirði. Þá sé hér einnig um að ræða áframeldi á þorski þar sem fiskur sé sjaldan langan tíma í einni kví. NV telur að fyrrgreint álit um að áhrifin af fiskeldinu í Dýrafirði séu afturkræf skipti miklu. Staðsetning fiskeldis Álfsfells ehf. sé góð þar sem það sé opið fyrir Ísafjarðardjúpinu og séu kvíarnar staðsettar grunnt og lífræn söfnun ætti því að vera mjög staðbundin. Segir NV að í grein eftir T. Kutti o.fl. (2006) komi fram að áhrif af fiskeldi sé á stærra svæði á miklu dýpi heldur en á grunnsævi. Gæti því verið betra að hafa eldið á grunnu hafsvæði en hugsanlega þurfi að hvíla svæði oftar þar sem dreifingin sé minni.

 

NV segir að Skipulagsstofnun virðist telja að fiskeldi Álfsfells ehf. hafi mun meiri umhverfisáhrif en annað fiskeldi sem sé 2000 til 6000 t og virðist ástæðan vera sú að fiskeldi Álfsfells ehf. sé nú þegar hafið. Segir NV að allt fiskeldi hafi áhrif á sitt nærumhverfi, en þau geti verið afturkræf, t.d. með tilliti til botndýralífs, séu þau innan ákveðinna marka. Mestu máli skipti að vakta svæðið með reglubundnum hætti og hvíla áður en áhrifin séu orðin óafturkræf. Kveðst NV telja að botndýralíf undir kvíum í Skutulsfirði sé enn fjölbreytt og að tækifæristegundir hafi ekki enn náð ríkjandi stöðu.

 

Hvað varðar söfnun úrgangs á sjávarbotni við kvíar segir NV að í sýnum hafi ekki fundist fóðurleifar en að örlítil lykt hafi fundist sem gæti bent til að um einhverja uppsöfnun væri að ræða, sem megi búast við af öllu sjókvíaeldi. Víða finnist svartleitur botn þó svo að ekkert eldi eða annar iðnaður sé til staðar. Úr greiningum hafi komið að lítið álag væri á svæðinu en með meiri framleiðslu þurfi að vakta svæðið, sem sé áformað.

 

NV telur umsögn Umhverfisstofnunar hvað varðar neikvæð áhrif á botndýralíf ekki vera rökstudda og segir að hún telji ólíklegt að hún sé sönn. Telur NV þá afstöðu undarlega að þar sem fiskeldi sé fyrir þar muni meiri framleiðsla hafa umtalsverð áhrif á umhverfið en ekki í eldi þar sem engin framleiðsla hafi verið og að engu máli skipti hversu stórt leyfi sé verið að sækja um. Bendir NV á að það eldi sem sé fyrir að undanskildu eldi Álfsfells ehf. sé 20 t áframeldi Glaðs ehf. sem hafi leyfi til allt að 200 t.

 

NV segir rannsóknir NV og erlendar rannsóknir sýni að áhrif á botndýralíf séu mest í kringum kvíarnar, sem fari þó einnig eftir magni og tíma. Sjókvíaeldi erlendis sé oftast af allt annarri stærðargráðu en hérlendis og sé eldi Álfsfells ehf. mun minna en það sem önnur fyrirtæki hafi sótt um hérlendis. Sýni  rannsóknir NV að það þurfi lítið álag til að breyta samsetningu tegunda/hópa í botnfánunni, sem þurfi samt ekki að vera neikvætt. Þegar botndýralífið sé orðið fábreytt og fáar tegundir orðnar ríkjandi, t.d. burstategund af ætt Capetellidae, megi segja að fiskeldið hafi haft neikvæð áhrif á botndýralífið. Gerist þetta hjá öllum fiskeldisfyrirtækjum. Mestu máli skipti að botndýralífið verði ekki að algjörum dauða. Eina fyrirbyggjandi leiðin sé vöktun og það að hvíla svæðin áður en allt sé orðið dautt undir kvíunum. Þessu hafi lítið verið fylgt eftir af fiskeldisfyrirtækjum. Samkvæmt norskum stöðlum sé nóg að leita að ákveðnum vísitegundum sem finnist í litlum mæli hér við land. 

 

Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt skýrslu NV um botndýrarannsóknir í Skutulsfirði hafi rannsóknir annars staðar frá leitt í ljós að botndýralíf breytist samfara aukinni uppsöfnun lífræns efnis á sjávarbotn. Eftir því sem lífrænt efni á botni aukist fækki tegundum sem séu viðkvæmar fyrir loftfirrtum skilyrðum við hafsbotn. Vissar tegundir botndýra séu hins vegar sérstaklega þolnar fyrir slíkum aðstæðum og geti fjölgað sér umtalsvert. Þær geti þá verið notaðar sem vísir á loftfirrðar aðstæður og ástand viðkomandi samfélags botndýra. Í skýrslu NV séu annars vegar tilgreindir burstaormar af ættum Capitellidae, Cirratulidae og Spionidae sem séu álitnir þolnir á loftfirrðar aðstæður, en burstaormar af tegundinni Owenia fusiformis séu hins vegar sérstaklega viðkvæmir fyrir aukningu í uppsöfnun næringarefna á hafsbotni. Hafi botnsýni verið tekin á þremur stöðum í Skutulsfirði, tveimur nálægt sjókvíum Álfsfells ehf. og á einum stað utarlega í Skutulsfirði og fjarri sjókvíum. Fram hafi komið að burstaormar sem séu taldir þolnir á loftfirrðar aðstæður hafi verið í talsverðum mæli við kvíarnar en ekki fundist á viðmiðunarstöð og ormurinn Owenia fusiformis, sem sé talinn viðkvæmur fyrir aðstæðum þar sem sjór sé ekki súrefnisríkur hafi verið algengur á viðmiðunarstöð en ekki fundist við kvíarnar. Segist Skipulagsstofnun telja að tilvist botndýra við kvíarnar, sem nota megi sem vísa á samfélag botndýra sem lifi við takmarkað súrefni, en fjarvera þeirra utar í firðinum, bendi til þess að þegar hafi komið fram áhrif á botndýralíf vegna uppsöfnunar úrgangs frá sjókvíaeldinu, þó fjölbreytileika þess hafi e.t.v. enn ekki hrakað. Skipulagsstofnun telur þetta vera í mótsögn við fullyrðingar í greinargerð NV um að niðurstöður botndýrarannsókna bendi til að álagið á botn við kvíarnar sé lítið og að tækifæristegundir hafi ekki náð ríkjandi stöðu. Bendir stofnunin á að einungis Capitellidae-ormar séu tilgreindir, sem hafi verið fáir, en að ormar af ætt Spionidae og ættkvísl Chaetozone hafi verið undanskildir, en þeir þoli líka takmarkað súrefni og hafi fundist í töluverðum mæli við kvíarnar.

 

Skipulagsstofnun segir að ekki hafi verið fullyrt í hinni kærðu ákvörðun að umrætt þorskeldi leiði til umtalsverðra neikvæðra áhrifa á botndýralíf. Þó hafi verið fjallað um að takmarkaðar upplýsingar um umhverfisþætti sem lagðar hafi verið fram gefi til kynna að núverandi eldi hafi þegar haft neikvæð áhrif á botndýralíf  þótt eldið sé enn lítið. Því hafi stofnunin talið líkur á að aukið eldi Álfsfells ehf. til viðbótar eldi Glaðs ehf. kynni að leiða til umtalsvert neikvæðra áhrifa á botndýralíf í firðinum.

 

Umhverfisstofnun segir í umsögn sinni að það mat stofnunarinnar að líkur væru á því að fyrirhugað fiskeldi gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hafi einkum byggt á því að rannsóknir og upplýsingar um áhrif framkvæmdarinnar skorti, óvissa ríkti um þolmörk svæðisins og kveðjuverkandi áhrif á lífríki þess og einnig að vísbendingar væru um uppsöfnun næringarefna við núverandi kvíar í Skutulsfirði.

 

Umhverfisstofnun segir að samkvæmt norska umhverfisráðuneytinu sé magn lífræns úrgangs frá 500 t fiskeldi sambærilegt við magn skólps sem komi frá þorpi með 5000 til 7000 manns. Afleiðingar lífrænnar mengunar frá fiskeldi hafi helst staðbundin áhrif en samlagningaráhrifa mengunarinnar geti orðið vart í fjörðum þar sem séu t.a.m. fleiri en eitt fiskeldi ásamt skólplögnum frá bæjarfélögum. Fram komi að skólplögn bæjarfélagsins liggi 1 km frá fiskeldissvæði Álfsfells ehf. og að auki sé annað fiskeldi í u.þ.b. 200 m fjarlægð frá fiskeldi Álfsfells ehf., þ.e. fiskeldi Glaðs ehf., sem sé með starfsleyfi fyrir 200 t.

 

Umhverfisstofnun kveðst taka undir það varðandi áhrif á botndýralíf að mestu máli skipti að botndýralífið verði ekki fyrir algjörum dauða. Kveðst stofnunin því ítreka mikilvægi þess að fyrir liggi upplýsingar um hvað svæðið þoli og hvernig raunverulegt ástand þess sé í dag. Athuganir NV sýni fram á að botndýralíf þoli aukið álag en ekki sé vitað hversu lengi og hversu mikið eins og fram komi í skýrslu NV.

 

Umhverfisstofnun kveðst telja mikilvægt að áður en ráðist sé í umtalsverða stækkun á framleiðslu á eldisfiski liggi fyrir upplýsingar um lífríki á viðkomandi svæði, t.d. um botnþörunga, krabbategundir, ígulker, krossfiska og sæsnigla og einnig um hvort svæðið sé uppeldis- og/eða hrygningarsvæði annarra fiskitegunda. Segir að í umsögn stofnunarinnar til Skipulagsstofnunar hafi komið fram að upplýsingar skorti um áhrif uppsöfnunar næringarefna á sjávarbotni á annað dýralíf og hvaða keðjuverkun breyting á botndýralífi gæti haft í för með sér í vistkerfi svæðisins.

 

Hvað varðar athugasemdir um að stofnunin hafi ekki gert kröfur um rannsóknir af þessu tagi í öðrum málum bendir stofnunin á að hún og aðrir umsagnaraðilar hafi margsinnis vikið að áhrifum fiskeldis á botndýralíf sem eðli málsins samkvæmt lúti að keðjuverkunum á lífríki. Hafi stofnunin t.d. í umsögn frá 8. maí 2006 vegna sjókvíaeldis AGVA ehf. í Hvalfirði og Stakksfirði talið nauðsynlegt að fyrir lægju upplýsingar um strauma og botndýralíf á fyrirhuguðum eldisstað til að hægt væri að meta umhverfisáhrif eldisins.

 

Hafrannsóknarstofnunin segir í umsögn sinni að vænta megi staðbundinna áhrifa á botndýralíf undir eldiskvíum Álfsfells ehf. við það að lífrænar leifar safnist fyrir á botni. Kunni eitthvað af leifunum að berast inn með ströndinni inn á pollinn og bætast við þann lífræna úrgang sem komi frá byggðinni. Það fóður sem notað sé við áframeldi á þorski sé mest loðna og síld en ekki tilbúnar fóðurpillur eins og í laxeldi. Talið sé að nýting fyrrnefnds fóðurs sé betra en laxafóðurs en engu að síður geti fóður fallið ónýtt til botns og rotnað. Megi því vænta staðbundinna áhrifa á botndýralíf undir fiskeldiskvíum. Í umsögn stofnunarinnar til ráðuneytisins í kjölfar nýrra straummælinga framkvæmdaraðila taldi stofnunin þó litlar líkur á umtalsverðum og óafturkræfum áhrifum af framkvæmdinni og því ekki þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum.

 

Ísafjarðarbær kveðst í umsögn sinni taka undir skýringar Álfsfells ehf. og NV og telur að fyrirhuguð framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 

 

2. Vöktun og hvíld svæða á sjávarbotni.

 

Kærandi gerir athugasemdir við þau atriði í hinni kærðu ákvörðun og umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar er lúta að því að ekki hafi verið gerð áætlun um að hvíla sjávarbotn. Hvergi sé að finna leiðbeiningar um það hvernig framkvæma eigi athuganir og útreikninga á því hversu lengi þurfi að hvíla svæði í kjölfar álagstíma. Telur kærandi að Umhverfisstofnun hafi ekki farið fram á slíkt af öðrum aðilum í sjókvíaeldi. Í framlagðri greinargerð NV, sem fylgdi kærunni, segir að reynslan sýni að botndýralíf svari á svipaðan hátt um allt land álagi frá fiskeldi en ekki sé þó vitað hve lengi þurfi að hvíla sjávarbotn undir kvíum, t.d. miðað við að fáeinar tegundir séu orðnar ríkjandi eða aðeins fáir einstaklingar af burstaormum eftir. Líklega sé þetta afar mismunandi eftir svæðum með tilliti til sjávarhita, dýptar, strauma og þess hversu kerfin séu opin. Telur NV að svæðið fyrir utan Eyrina á Ísafirði sé ágætis fiskeldissvæði, a.m.k. ekki verra en þau svæði sem þegar hafi fengið leyfi. Opið sé fyrir Ísafjarðardjúpinu og þar með straumpúlsum vegna vinda. Það að svæðið sé grunnt gæti þá hjálpað til við að botninn hreinsi sig betur vegna vindáhrifa. Segir NV að einhverjar áætlanir um hvíld svæða hafi verið gerðar erlendis en þá hafi verið um að ræða margra ára rannsóknir á áhrifum fiskeldis og hvíldartíma. Hérlendis þurfi að vakta og síðan hvíla svæðið út frá álaginu á viðkomandi svæði. Segir NV að Álfsfell ehf. hafi óskað eftir því við NV að tekin yrðu botnsýni á árinu 2010 en NV hafi einnig tekið botnsýni árið 2008. Sýni Álfsfell ehf. því fordæmi um vöktun sem fiskeldisfyrirtæki hvorki geri né séu skyldug til að gera, en starfsleyfi Umhverfisstofnunar kveði á um að slíkt sé gert á sex ára fresti.

 

Í greinargerð NV segir að pláss sé til að færa sumar kvíar Álfsfells ehf. utar og þá fyrir utan eldið hjá fiskeldi Glaðs ehf. en ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir því. Einnig sé hugsanlegt að hafaldan sé of sterk fyrir það svæði og sýni það hversu opið svæðið sé.

 

Skipulagsstofnun segir að í hinni kærðu ákvörðun sé bent á að ekki hafi verið gerð áætlun um að hvíla sjávarbotn undir kvíum reglubundið þrátt fyrir fyrirliggjandi vísbendingar um neikvæð áhrif á vistkerfi á sjávarbotni. Kveðst stofnunin taka undir það að fara þurfi fram vöktun og hvíld svæða m.t.t. álags á tilteknu svæði. Í tilfelli Álfsfells ehf. hafi eldi staðið yfir í nokkur ár og sýnatökur gefið vísbendingar um áhrif á vistkerfi sjávarbotnsins. Slíkar vísbendingar liggi eðli málsins samkvæmt ekki fyrir í þeim tilfellum þar sem eldi sé ekki hafið og skipti þá engu máli hvaða hugmyndir séu kynntar um hugsanlega stærð fyrirhugaðs eldis. Nefnir stofnunin að í tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu eldis í Álftafirði og Seyðisfirði hafi verið byggt á fyrirliggjandi gögnum ásamt spám og aðgerðum lýst til að takmarka áhrif eldisins svo sem með því að á tilteknum svæðum yrði eldi aðeins hluta úr ári og svæði hvíld eftir hverja eldislotu þannig að svæðin næðu að jafna sig eftir uppsöfnun úrgangs- og næringarefna.

 

Skipulagsstofnun kveðst sammála NV um að við þær aðstæður sem séu á eldisstað í Skutulsfirði, þar sem dýpi sé um 20 m, sé líklegt að lífrænn úrgangur safnist upp á þrengra svæði við kvíar en þar sem dýpra sé og því sé þörf á að færa til kvíar oftar en ella. Bent hafi verið á að rétt austan við eldissvæðið sé siglingaleið fiski- og flutningaskipa, innsta kvíin sé í um kílómetra fjarlægð frá skólplögn Ísafjarðarbæjar og norðan við það sé starfrækt þorskeldi annars fyrirtækis, en nákvæm staðsetning þess sé þó ekki ljós af gögnum Álfsfells ehf. Kveðst stofnunin telja þessa annmarka takmarka möguleika Álfsfells ehf. til að draga úr álagi á botndýralíf vegna starfsemi félagsins.  Segir stofnunin að ekki hafi verið sýnt fram á að gott svigrúm sé til þess að færa til sjókvíar Álfsfells ehf. og að félagið hafi ekki gert grein fyrir áætlun um hvernig eigi að hvíla sjávarbotn með því móti.

 

Umhverfisstofnun kveðst telja nauðsynlegt að framkvæmdaraðili leggi fram áætlun um hvíld svæða og á hvaða forsendum slík áætlun sé byggð. Bendir stofnunin á að ef engar skelja- eða burstaormstegundir séu orðnar eftir undir kvíum kunni að vera orðið of seint að hvíla viðkomandi svæði og sé þá e.t.v. hægt að tala um algeran dauða eins og NV vari við. Kveðst stofnunin taka undir það að vöktun umrædds svæðis sé nauðsynleg og telur að endurskoða megi skilyrði stofnunarinnar í starfsleyfum hvað þetta varði og gera þar strangari kröfur. Bendir stofnunin þó á að ef ekki liggi fyrir nægar grunnupplýsingar áður en regluleg vöktun sé hafin þá sé ekki hægt að leggja raunhæft mat á hvaða umhverfisáhrif megi rekja til framkvæmdarinnar.

 

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar segir að möguleikar á að færa eldiskvíar til að hvíla botnsvæði séu ekki miklir en þó að nokkru fyrir hendi, sem gefi framkvæmdaraðila möguleika á að draga úr væntanlegum áhrifum framkvæmdarinnar. Telur stofnunin þó í umsögn til ráðuneytisins í kjölfar nýrra straummælinga framkvæmdaraðila að ekki sé þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

 

Í athugasemdum kæranda segir að nægt rými sé til að stækka umrætt eldissvæði í Skutulsfirði og hvíla það svæði sem sé undir núverandi kvíaþyrpingu.

 

 

3. Upplýsingar um styrk hafstrauma og mögulega þynningu úrgangs frá starfseminni.

 

Í kæru segir að í umsögn Umhverfisstofnunar komi fram að straumur undir 5 cm/sek sé viðmið fyrir fiskeldi í sjó og því teljist Skutulsfjörður óheppilegur fyrir fiskeldi, en þar sé straumur 3 cm/sek. Í öðrum umsögnum stofnunarinnar vegna fiskeldis hafi hins vegar svipaður straumur eða minni verið talinn viðunandi. Þar sé jafnframt tekið fram að til viðbótar straumáhrifum komi vindaáhrif og öldurót. Hér sé þó oftast um að ræða fiskeldi inni í botni langra þröskuldsfjarða. Kveðst kærandi einnig telja einkennilegt að Umhverfisstofnun telji sérstaklega að hætta af rekís sé fyrir hendi í Skutulsfirði. Telur kærandi það vera spurningu hvort umhverfisáhrif af slíku yrðu að einhverju leyti neikvæð og bendir á að kvíarnar sé staðsettar framan við eyrina og vestan megin í firðinum en reynslan sýni að þar sé mjög lítil hætta á rekís.

 

NV segir í greinargerð sinni að punktmælingar hafi verið gerðar á straumi í Skutulsfirði og hafi straumurinn verið minni en búist hafi verið við, þ.e. að meðaltali 3 cm/sek. Hafi hann verið svipaður og í Álftafirði og Seyðisfirði, en fiskeldi þar hafi ekki farið í umhverfismat. Í Tálknafirði og á Patreksfirði hafi hann verið 2 til 3 cm/sek með straumpúlsa upp á 7 til 8 cm/sek. Sé straumurinn í Skutulsfirði eiginlega sá sami og í fjörðum inni í Ísafjarðardjúpi og á suðurfjörðum Vestfjarða. Innarlega í Arnarfirði hafi meðalstraumur á 60 m dýpi verið 3 til 3,6 cm/sek. Í efri lögum sjávar hafi straumar verið breytilegri og sterkari í Arnarfirði, aðallega vegna vindáhrifa. Þar sem fiskeldi Álfsfells ehf. sé á grunnu vatni megi vænta meiri straumpúlsa við botninn en á dýpri svæðum.

 

NV segir að með mælingum í 14 til 28 daga megi gera ráð fyrir því að meiri breytileiki mælist í straumhraða og megi þannig búast við að bæði sterkari straumpúlsar mælist og hærri meðalstraumhraði. Hafi NV mælt straum í janúar 2010 í átta daga og séu niðurstöðurnar svipaðar og í punktmælingunum, en meðalstraumurinn hafi þó mælst aðeins hærri eða 3,7 cm/sek og hafi einstök mæling mælst hæst 27 cm/sek.

 

NV telur að Skipulagsstofnun blandi saman áhrifum strauma á uppleyst næringarefni og lífrænar agnir sem haldist svífandi í grugglausn og þyngri lífrænum ögnum eins og skít og umframfóður sem falli til botns á litlu svæði undir kvíunum. Telur NV ljóst að fóðurleifar og saur muni falla nánast beint til botns hvort sem um sé að ræða 3 cm/sek meðalstraum eða 5 cm/sek, sem hafi t.d. sýnt sig í Mjóafirði og Berufirði á Austfjörðum. Muni það breyta samsetningu botndýralífs þrátt fyrir að eldi sé lítið eins og hafi sést með tilraunaeldi í litlum kvíum í Álftafirði.

 

NV segir Umhverfisstofnun vitna í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp um skilgreiningu á bestu fáanlegu tækni, sbr. gr. 3.3. Vitni stofnunin einnig í skilgreiningu á bestu fáanlegu tækni í skýrslu sem heiti á íslensku „Besta fáanlega tækni (BAT) í fiskeldi á Norðurlöndum“. Í skýrslunni sé mælt með að straumhraði sé a.m.k. 5 cm/sek til að tryggja fiskinum nægilegt súrefni og að úrgangur dreifist nægilega. Segi þá að ef þéttleiki fisksins sé lítill sé ekki nauðsynlegt að vatnsskipti séu eins mikil. NV segir að líklega séu flest öll fiskeldissvæði með lægri meðalstraum við botn en 5 cm/sek. Þá standi einnig í skýrslunni að tilgreind viðmið séu mismunandi eftir aðstæðum á hverjum stað og beri að líta á þau sem leiðbeinandi. Einnig sé fjárfestingarkostnaður mismunandi milli Norðurlanda og beri að líta á þau gildi sem leiðbeinandi. Segir NV að skýrslan á íslensku miðist við eldi á landi og sjókvíaeldi á laxfiskum, en hvergi sé minnst á þorskeldi eða áframeldi. Ætti áframeldi að hafa minnst áhrif á umhverfið þar sem þar sé verið að ala upp villtan fisk hluta af árinu.

 

Skipulagsstofnun kveðst taka undir það að ekki verði hjá því komist að úrgangur frá fiskeldi safnist fyrir á sjávarbotni undir eldiskvíum og áhrif þess á botndýralíf séu afturkræf ef aðstæður séu hentugar og svæði hvíld með því að færa til sjókvíar. Til þess að svo megi verða skipti þó miklu máli að súrefnisríkur sjór eigi greiða leið inn á þau svæði sem hvíla eigi og að gott svigrúm sé til þess að færa kvíar inn á ný svæði. Hafi Hafrannsóknarstofnunin talið straummælingagögn sem Álfsfell ehf. hafi lagt fram vera ófullnægjandi og bent á að straumur hafi verið mældur í 10 mínútur tvo daga í röð á stórstreymi og óljóst væri á hvaða dýpi mælingarnar hafi verið gerðar. Til að fá fullnægjandi gögn væri æskilegt að mæla straumhraða samfellt í a.m.k. tvær vikur á um 10 m dýpi til að átta sig á breytileika í straumhraða. Þær takmörkuðu upplýsingar sem Álfsfell ehf. hafi gefið stofnuninni um hafstrauma við eldissvæðin í Skutulsfirði hafi þó bent til þess að straumar þar séu í 90% tilfella á bilinu 0 til 5 cm/sek, sem Umhverfisstofnun hafi talið vera ófullnægjandi aðstæður til eldis.

 

Skipulagsstofnun bendir á að þegar upplýsingar skorti í tilkynningu ákvörðunar sé það hlutverk stofnunarinnar að leiðbeina framkvæmdaraðila um úrbætur. Það sé þó ekki í valdi stofnunarinnar hvernig tilteknum efnisatriðum sé svarað. Þá sé NV vel kunnugt í ljósi áralangrar reynslu að framkvæmdaraðili geti ákveðið að taka þann tíma sem hann telji sig þurfa til að svara umsögnum og afla frekari upplýsinga máli sínu til stuðnings. Bendir stofnunin þá á að NV hafi, sem ráðgjafi Álfsfells ehf., verið bent á annmarka straummælinga í Skutulsfirði.

 

Skipulagsstofnun bendir á að ákvörðun um matsskyldu verði að byggja á gögnum sem lögð séu fram hverju sinni og umsögnum, m.a. fagstofnana, en geti ekki byggst á væntanlegum niðurstöðum fyrirhugaðra athugana. Þegar um sé að ræða smáar framkvæmdir sem uppfylli viðmið 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, þá beri ekki að gera minni kröfur um grundvallarupplýsingar en ef um stærri framkvæmdir sé að ræða. Í hinni kærðu ákvörðun hafi verið bent á að gögn Álfsfells ehf. um mikilvæga þætti hafi ekki verið fullnægjandi til að meta mætti hugsanleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og því væri framkvæmdin ákvörðuð matsskyld til að óvissa um hugsanleg áhrif yrði lágmörkuð.

 

Umhverfisstofnun segir að straummælingar NV við fiskeldiskvíar í janúar 2010 hafi staðið yfir í tæpa níu daga en ekki tvær vikur samfellt eins og Hafrannsóknarstofnunin hafi lagt til og hafi stofnunin ekki talið straummælingarnar marktækar. Hafi flestar mælingar lent á bilinu 0 til 5 cm/sek og meðalstraumur mælst 3,7 cm/sek. Bendir stofnunin á að skv. aðferðum við staðarval fiskeldis sé miðað við að straumur sé a.m.k. 5 cm/sek og umræddar mælingar breyti því litlu frá fyrri umsögn stofnunarinnar.

 

Umhverfisstofnun segir, vegna athugasemda um að stofnunin hafi talið svipaðan straum og mælst hafi í Skutulsfirði og jafnvel minni viðunandi fyrir önnur fiskeldi, að aðstæður hvað varðar annað fiskeldi séu afar fjölbreyttar. Nauðsynlegt sé að meta aðstæður í hverju máli fyrir sig og taka mið af atriðum eins og staðsetningu, vitneskju um náttúrufar og fyrirliggjandi gögnum og mælingum. Við mat á hafstraumum beri sérstaklega að huga að samspili þeirra og fyrirliggjandi áhættuþátta framkvæmdarinnar fyrir umhverfið. Þótt stuðst sé við ákveðið lágmark til viðmiðunar sé ljóst að ekki sé unnt að notast við sama mælikvarða í öllum tilvikum við mat á hvort hafstraumar tryggi nægilega dreifingu úrgangsefna. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram það mat að þörf sé á nánari upplýsingum um straumhraða, ekki síst vegna vísbendinga um uppsöfnun næringarefna nærri kvíum.

 

Hafrannsóknarstofnunin kveðst hafa talið að mælingar á straumhraða vegna umræddrar framkvæmdar hafi verið ófullnægjandi. Hafi stofnunin lagt til að gerðar yrðu straummælingar í minnst tvær vikur sem ættu ekki að vera neinum vandkvæðum bundnar. Segir stofnunin að í gögnum sem hafi fylgt greinargerð NV komi fram að samfelldar straummælingar hafi verið gerðar á tímabilinu 12. til 21. janúar 2010 og að kynntar séu niðurstöður mælinga frá 12. til 20. janúar, eða átta daga. Séu um 75% mælinga á bilinu 0 til 5 cm/sek (meðalstraumhraði 3,7 cm/sek) en um 22% mælinga frá 6 til 10 cm/sek. Hafi mesti straumhraði mælst 27 cm/sek. Sé lýsingin á mælingunum mjög takmörkuð og sé t.d. ekki gerð grein fyrir neinni tímaröð af straumum. Telur stofnunin að framlögð gögn bendi til að straumarnir og þar af leiðandi sá lífræni úrgangur sem fiskeldinu muni fylgja, liggi inn fjörðinn í átt að bænum. Veki það spurningar um hvort lífrænn úrgangur frá fiskeldinu geti borist í einhverjum mæli inn á pollinn fyrir innan Eyrina og bæst við þann lífræna úrgang sem komi frá bæjarfélaginu, sem sé allstórt. Telur stofnunin að órökstuddar vangaveltur NV um að vænta megi að straumstefna sé meira í austurátt nær Eyrinni og jafnvel í NA-átt eigi ekki við, enda liggi engar mælingar að baki þeim. Verði slíkum spurningum eingöngu svarað með beinum mælingum. Segir stofnunin að mælitími straummælinga hafi verið of stuttur (of lítil gögn) til að hægt væri að átta sig á breytileika straumsins á eldisstaðnum og áréttar þá skoðun sína að samfelldar straummælingar séu gerðar að lágmarki í tvær vikur, þannig að þær nái yfir smástreymi og stórstreymi, til að hægt sé að meta aðstæður á eldisstað. Þá séu mælingar yfir lengra tímabil en tvær vikur og á fleiri mælistöðum alltaf æskilegar til að hægt sé að meta aðstæður með nokkru öryggi.

 

Í athugasemdum kæranda kveðst hann engar forsendur hafa til að meta þau atriði sem fram komi í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar en augljóst sé að ágreiningur fagaðila sé fyrir hendi og skorti staðfestar vinnureglur fyrir framkvæmdaraðila. Hafi Álfsfell ehf. þó orðið við þessari kröfu og lagt fram niðurstöður úr straummælingum í einn mánuð í meðfylgjandi gögnum, frá 1. febrúar til 2. mars 2010. Sýni niðurstöður að straumur sé góður og betri en víða á öðrum stöðum þar sem aðstæður séu taldar góðar eða viðunandi fyrir fiskeldi. Í athugasemdunum er þá ítrekað að í hinni kærðu ákvörðun séu margir þættir túlkaðir þrengri en áður og litið sé fram hjá því að framkvæmdaraðili ætli að koma í veg fyrir hugsanleg umhverfisáhrif. Kærandi bendir einnig á að Skutulsfjörður sé ekki þröskuldsfjörður. Segir þá í athugasemdum að ljóst sé að kröfur og leiðbeiningar til framkvæmdaraðila séu óstaðfestar og óljósar.

 

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar til ráðuneytisins vegna straummælinga NV í Skutulsfirði í febrúar og mars 2010 segir að vegna mælinganna liggi nú fyrir fullnægjandi gögn um straumhraða á svæðinu. Hafi meðalstraumhraðinn í febrúar (5,1 cm/sek) reynst nokkru meiri en í fyrri mælingu og hámarkshraðinn (37,7 cm/sek) reynst talsvert hærri. Þann dag sem straumurinn hafi verið mestur hafi 62% mælinga reynst vera yfir 10 cm/sek sem bendi til að straumpúlsar geti komið til með að hreinsa undir kvíum. Er það mat stofnunarinnar að með tilliti til straumhraða, umfangs eldisins og staðsetningu séu litlar líkur á umtalsverðum og óafturkræfum áhrifum af 900 tonna þorskeldi á svæðinu og miðað við fyrirliggjandi gögn sé ekki þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins vegna áðurgreindra straumhraðamælinga segir að fram hafi komið að meðalstraumhraði umrætt tímabil hafi verið 5,1 cm/sek og mesti straumhraði 37,7 cm/sek, sem sé meiri straumur en fyrri mælingar hafi gefið til kynna. Bendi niðurstöður einnig til þess að straumpúlsar fari annað slagið um Skutulsfjörð og einn daginn hafi rúmlega 60% mælinga reynst vera yfir 10 cm/sek. Kveðst Skipulagsstofnun taka undir með Hafrannsóknarstofnuninni að straumur sé ásættanlegur með tilliti til þorskeldisins. Er það hins vegar mat stofnunarinnar að mælingarnar hnekki ekki þeirri niðurstöðu að stækkun á fiskeldi þess kunni að hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif þar sem ekki liggi fyrir hver verði sammögnunaráhrif með öðru þorskeldi í Skutulsfirði og ekki liggi fyrir staðfesting á því að Skutulsfjörður sé síður viðkvæmur viðtaki. Telur stofnunin því að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar vegna umræddra straummælinga segir að ekki komi fram í athugasemdum kæranda hvaða skilgreiningu verið sé að vísa í varðandi það að Skutulsfjörður sé ekki þröskuldsfjörður. Ekki sé þó hægt að einblína á hæð þröskuldsins eingöngu heldur verði að skoða sjávarstraumana í því samhengi. Gefi þröskuldur í firðinum vísbendingar um að hugsanlega geti verið lítil vatnsskipti á botninum, en ef straumar séu mjög sterkir séu áhrif þröskuldsins kannski lítil eða mjög staðbundin. Er það mat Umhverfisstofnunar að mikilvægt sé að gerðar hafi verið áframhaldandi straummælingar á svæðinu en telur þó að enn ríki mikil óvissa um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í ljósi þess að hvorki liggi fyrir skilgreining á viðtaka né frekari upplýsingar um burðarþol svæðisins. Telur stofnunin að skoða þurfi nánar þau sammögnunaráhrif sem aukning í fiskeldi hafi í för með sér samhliða annarri atvinnustarfsemi. Ítrekar stofnunin að upplýsingar um lífríki svæðisins sé ábótavant og þá sér í lagi hvort að svæðið sé hrygningar- eða uppeldisstöð annarra fisktegunda. Er það því enn mat stofnunarinnar að framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

 

 

4. Burðargeta, samlegðaráhrif með annarri starfsemi, þröskuldur í firðinum og skilgreining á svæðinu sem viðtaka.

 

Í kæru eru gerðar athugasemdir við að Umhverfisstofnun hafi ekki í fyrri umsögnum sínum fyrir sambærileg sjókvíaeldi gert kröfu um að útreikningar fari fram á burðargetu fjarða. Þá telur kærandi að Umhverfisstofnun hafi ekki krafist þess áður að framkvæmdaraðili leggi fram staðfestingu á því frá opinberum aðilum að viðkomandi fjörður sé síður viðkvæmur viðtaki. Bendir kærandi þá á að í umsögn stofnunarinnar vegna 3000 t laxeldis í Dýrafirði segi að Dýrafjörður sé síður viðkvæmur viðtaki, en segir að það sé þó ekki staðfest.

 

NV segir að svo virðist sem Skipulagsstofnun hafi í hinni kærðu ákvörðun misskilið útreikninga á burðargetu og geri ráð fyrir að verið sé að reikna út hvað fiskeldi megi vera stórt þannig að áhrif sjáist undir kvíunum. Rétt sé að fiskeldi hafi alltaf áhrif undir kvíum sé það inni í fjörðum og því á grunnu vatni.

 

NV segir að þegar rætt sé um sammögnunaráhrif frá öðru eldi í hinni kærðu ákvörðun sé átt við þorskeldi Glaðs ehf., sem sé með 20 t framleiðslu en hafi leyfi fyrir allt að 200 t. Framleiðslan í Skutulsfirði yrði því í mesta lagi 1100 t.

 

NV segir að svo virðist sem Skipulagsstofnun hafi ekki sett skilyrði í sambærilegum málum varðandi burðargetu fiskeldissvæða. Við slíkt mat hafi verið notað Lenka viðtakamat sem byggist á norskri reynslu og hafi ekki verið uppfært síðan 1989 svo vitað sé. Við mat á burðarþoli þurfi að skilgreina hvort svæðið sé opið strandsvæði eða inni í þröskuldsfirði og hafi venjan verið sú að hafa allan fjörðinn undir í reikningum hvort sem eldið sé í botni fjarðarins, miðju eða við minni hans. Sé fiskeldið í Álftafirði við mynni hans, 2,5 km frá Kambsnesi, og ætti því að hafa Ísafjarðardjúpið með í burðarþolsútreikningunum ásamt svæðinu inni í botni fjarðarins, en tæpir 8 km séu inn í botn. Sé fiskeldissvæði Álfsfells ehf. um margt líkt svæðinu í Álftafirði að öðru leyti en því að styttra er út að Arnarnesi (tæpir 2 km) auk þess sem eldið sé fyrir utan byggðina í Skutulsfirði öfugt við fiskeldið í Álftafirði.

 

NV telur að hægt sé að reikna burðarþol svæðisins með Lenka viðtakamati en spurningin sé hvaða forsendur menn gefi sér. Með því að taka hluta af Ísafjarðardjúpi inn í þá megi reikna með því að burðarþolið sé vel yfir 3000 t. Sé miðað við stærð fiskeldisins þá hafi það ekki meiri neikvæð áhrif en önnur eldi á Íslandi. Með vöktun á botndýralífi og hvíld á svæðinu áður en vísitegundir hverfi þá getið eldið verið í góðri sátt við umhverfi sitt. Með umhverfismati sé ekki hægt að nálgast betur þennan sannleika enda geti lítil fyrirtæki ekki staðið í slíku. Vísar NV til þess að í BAT skýrslunni segi að þau viðmið sem tilgreind séu í skýrslunni séu mismunandi eftir aðstæðum á hverjum stað og beri að líta á þau sem leiðbeinandi. Sé fjárfestingarkostnaður einnig mjög mismunandi milli Norðurlanda og beri einnig að líta á þau gildi sem leiðbeinandi.

 

NV kveðst hafa skilgreint fiskeldissvæðið í Skutulsfirði og nefnir í fyrsta lagi að þröskuldssvæði sé svæði þar sem dýpið fyrir innan sé 10 m dýpra en þröskuldurinn sjálfur. Segir NV Skutulsfjörð vera með þröskuld sem sé 14 til 17 m djúpur. Samkvæmt sjókorti sé dýpst 24 m og hafi Álfsfell ehf. siglt yfir svæðið á fóðurbáti og sé mesta dýpi á bilinu 25 til 26 m. Sé kvíaeldi á 20 til 25 m dýpi og sé þröskuldurinn fyrir framan það 17 m. Sé því ekki um þröskuld að ræða, hvorki út frá Lenka eða öðru mati. Segir NV að þegar Ísafjarðardjúp sé tekið með í reikninginn þá sé burðarþol svæðisins nokkur þúsund tonn og því sé 900 t framleiðsla frekar hógvær framleiðsla. Telur NV að líklega mætti framleiða um 2000 t (áframeldi) af þorski á fiskeldissvæði með því að rótera kvíum með reglulegu millibili og fylgjast með botndýralífi oftar en kveðið sé á um í starfsleyfum Umhverfisstofnunar.

 

NV telur það villandi ummæli að segja að skólp sé nærri eldisstað þar sem það sé einum km frá svæðinu. Bendir NV á að fiskeldi í botni Norðfjarðar, Patreksfjarðar og við Súðavík hafi ekki þurft að fara í umhverfismat þrátt fyrir að þau séu við eða fyrir innan byggð í fjörðum þar. Þá séu svæðin í Norðfirði og Álftafirði jafn nálægt eða nær skolplögnum. Sé svæði Álfsfells ehf. hins vegar fyrir utan byggðina og opið fyrir Ísafjarðardjúpinu. Ætti það að hafa ekki síðri og jafnvel betri vatnsskipti en nefnd svæði.

 

NV segir að í skýrslu Antons Helgasonar o.fl. frá árinu 2002 komi fram að næringarefni við útrás frá rækjuverksmiðju á Ísafirði hafi mælst hæst. Þegar komið hafi verið 50 og 100 m frá útrás hafi verið merkjanlegur munur og oft hafi þau verið undir greiningarmörkum rannsóknarstofa. Einnig hafi verið lítil sem engin uppsöfnun á seyru og hvergi fundist súrefnissnauður botn. Hafi mælingar á köfnunarefni, fosfati og lífrænu kolefni verið langt undir viðmiðunarmörkum á stað rétt fyrir innan fiskeldissvæðið.

 

NV telur að aðeins eitt sveitarfélag á landinu hafi skilgreint strandsvæði við sveitarfélagið sem síður viðkvæman viðtaka. Þrátt fyrir það þá túlki flest sveitarfélög að strandsjór þeirra sé þess eðlis. Hvorki Umhverfisstofnun né Skipulagsstofnun hafi mótmælt skilgreiningum á viðtakanum sem fiskeldisfyrirtæki hafi sett fram í sínum gögnum sem fylgi tilkynningu þeirra fyrir eldi stærra en 200 t.

 

NV vísar til 29. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp þar sem segi að síður viðkvæmur viðtaki séu ármynni og strandsjór þar sem endurnýjun vatns sé mikil og losun tiltekinnar mengunar sé ekki talin hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Einnig vísar NV til B liðar II. viðauka reglugerðarinnar varðandi skilgreiningu á síður viðkvæmum svæðum þar sem segi m.a. að sjór eða hafsvæði geti talist síður viðkvæmt svæði ef losun skólps hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið vegna formfræðilegra, vatnafræðilegra eða annarra sérstakra aðstæðna í vatninu.

 

Skipulagsstofnun kveðst telja að í greinargerð NV komi fram upplýsingar um skólpmengun í Skutulsfirði sem ekki hafi komið fram í tilkynningu framkvæmdarinnar. Óheppilegt sé að þar hafi ekki verið gert grein fyrir niðurstöðum rannsókna á skólpmengun í sjó við Ísafjörð sem birtar hafi verið árið 2002 og gefa til kynna að mengun af þessum uppruna sé ekki vandamál. Kveðst stofnunin myndu hafa tekið þessar upplýsingar til greina við ákvarðanatöku í málinu þrátt fyrir að ekki lægi fyrir staðfesting Umhverfisstofnunar um að Skutulsfjörður væri síður viðkvæmur viðtaki.

 

Skipulagsstofnun bendir á að Álfsfell ehf. hafi leyfi til allt að 200 t framleiðslu á þorski og til standi að auka hana í allt að 900 t sem sé rúmlega fjórföldun á umfangi. Ljóst sé að burðargeta hafsvæða þar sem sjókvíaeldi sé stundað felist í því hvaða möguleikar viðkomandi hafsvæði hafi til að brjóta niður lífræn efni og losna við aukið framboð næringarsalta vegna eldis af tiltekinni stærð, svo neikvæð áhrif þess takmarkist sem mest við eldissvæðið sjálft. Höfuðmáli skipti að hafa upplýsingar um hafstrauma og stærð þess hafsvæðis sem teljist vera viðtaki úrgangs frá fiskeldinu, svo meta megi burðargetu svæðisins. Hafi Hafrannsóknarstofnunin talið framlögð straummælingagögn Álfsfells ehf. vera ófullnægjandi og í hinni kærðu ákvörðun hafi Skipulagsstofnun talið takmarkaðar straummælingar þó gefa til kynna að straumhraði á eldisstað væri lítill og hafstraumar hafi því takmarkaða getu til að dreifa úrgangi frá eldinu. Hafi stofnunin því talið verulega óvissu ríkja um burðargetu svæðisins og bent á að auk úrgangs frá umræddu eldi þá falli í Skutulsfjörð úrgangur úr öðru þorskeldi og skólp renni í fjörðinn frá Ísafirði. Ítrekað sé að þegar um sé að ræða smáar framkvæmdir sé ekki eðlilegt sjónarmið að gera minni kröfur um grundvallarupplýsingar en ef um stærri framkvæmdir sé að ræða.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að í framlagðri kæru komi ekki fram nýjar upplýsingar sem hnekki niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar þegar litið sé til heildaráhrifa framkvæmdarinnar á umhverfið. Segist stofnunin þó ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til nýrra straummælinga.

 

Umhverfisstofnun segir í umsögn sinni varðandi burðargetu Skutulsfjarðar að stofnunin hafi einungis bent á í umsögn til Skipulagsstofnunar að það væri hagur framkvæmdaraðila að upplýsingar lægju fyrir um þolmörk umrædds svæðis og hvaða umhverfisáhrif aukið þorskeldi hefði í för með sér. Hitt sé þó annað mál að mikilvægt sé að burðargeta svæðisins liggi fyrir, en t.a.m. hafi fyrstu norsku fiskeldin verið staðsett í grunnum sjó þar sem fyrir hafi verið lítill straumhraði. Hafi það leitt til ósjálfbærra framleiðsluhátta og uppsöfnunar næringarefna og saurs frá fiskeldinu sem hafi haft mikil staðbundin áhrif þó að fiskeldin hafi ekki verið stór að umfangi. Segir stofnunin að við útreikninga á burðargetu sé hægt að notast við Lenka-viðtakamat sem rétt sé að hafi ekki verið uppfært síðan 1989 en norðmenn notist einnig við Molo-kerfi (Monitoring environment impacts caused by aquacultur farms and location) sem sé tiltölulega nýlegt og sýni að það sé stöðug þróun í fiskeldisiðnaðinum. Samtvinni kerfið grunnupplýsingar um strauma, dýpi, fjarlægðir á milli fiskelda og annarrar uppsprettu mengunar við módel sem reikni út burðarþol út frá magni fisks sem geti verið framleiddur á svæðinu. Í Noregi sé einnig notast við staðla sem nefnist „Environmental monitoring of marine fisk farm“ epa NS 9410, þar sem fram komi skýrar línur um hvernig og hversu oft sjávarbotn undir og í kringum fiskeldi skuli í framhaldinu vera vaktaður með tilliti til gefins burðarþols.

 

Umhverfisstofnun telur ekki rétt við mat á burðarþoli að líta til Ísafjarðardjúpsins í heild sinni eins og gert sé af hálfu NV. Ekki komi fram í mati NV hvaða forsendur eða útreikningar liggi að baki þeirra skilgreiningu. Þá segi NV að líklega mætti framleiða um 2000 t áframeldi af þorski á svæðinu með því að rótera kvíum með reglulegu millibili. Telur Umhverfisstofnun að eigi slíkt mat að vera raunhæft þyrftu kvíarnar að vera staðsettar þannig að ekkert hindraði vatnsskipti á sjávarbotni undir kvíunum og Ísafjarðardjúpsins, sem sé ekki raunin.

 

Umhverfisstofnun telur athugasemdir við skilning stofnunarinnar á burðargetu ekki útskýrðar af hálfu NV. Skilgreining á burðargetu (e.carrying capacity) í fiskeldi sé fjöldi eða magn fisks sem umrætt fiskeldissvæði geti borið án þess að umhverfisáhrif fari yfir viðmiðunarmörk. Sé farið yfir viðmiðunarmörk þá sé fiskeldið ekki sjálfbært og hafi svæðið þá ekki þol til að viðhalda náttúrulegum vistkerfum sínum. Vegna athugasemda í kæru um að stofnunin hafi ekki vegna annarra sambærilegra mála gert kröfu um að fyrir liggi mat á burðargetu fjarða vitnar stofnunin í umsögn sína vegna þorskeldis Salar Islandica í Fáskrúðsfirði, dags. 25. ágúst 2004, þar sem stofnunin hafi talið að áður en starfsleyfi yrði gefið út þyrfti að liggja fyrir mat á burðarþoli fjarðarins, t.d. samkvæmt Lenka-viðtakamati. Bendir stofnunin jafnframt á að í mörgum tilfellum hafi framkvæmdaraðilar verið búnir að láta gera athuganir á burðargetu svæða sem fylgt hafi innsendum gögnum og hafi stofnunin haft þau gögn til viðmiðunar í umsögnum sínum. Íslandsbanki hf. hafi t.a.m. verið búinn að láta reikna út vatnaskipti í Eyjafirði vegna sjókvíaeldis og einnig hafi legið fyrir Lenka-viðtakamat þar sem fram hafi komið nettó burðarþol svæðisins.

 

Umhverfisstofnun kveðst ítreka vegna ummæla kæranda um að umrætt svæði sé síður viðkvæmur viðtaki, að ekki liggi fyrir staðfesting á því skv. 3. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Bendir stofnunin jafnframt á að þótt slík flokkun geti haft þýðingu varðandi mat á hentugleika svæðisins fyrir fiskeldi þá nái umrædd reglugerð ekki til úrgangs frá fiskeldi og sé réttast að horfa til flokkunar svæða skv. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

Vegna athugasemda um að Umhverfisstofnun hafi ekki í öðrum umsögnum varðandi fiskeldi gert sambærilegar athugasemdir kveðst stofnunin benda á umsögn sína frá 8. maí 2006 vegna þorskeldis Agva í Stakkafirði og í Hvalfirði þar sem hún telji að ekki skuli styðjast við ákvæði reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp við mat á fiskeldi. Þá bendi stofnunin á í umsögn frá 8. desember 2006 vegna sjókvíaeldis Íslandslax hf. á laxi við Eyjafjörð að skilgreining á síður viðkvæmum viðtaka eigi fyrst og fremst við um losun skólps, að undangengnu mati, og sé til ákvörðunar á því hvort notast eigi við 1. eða 2. þrepa hreinsun skólps.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar og Hafrannsóknarstofnunarinnar í tilefni af nýlegum straummælingum kæranda kemur fram það mat að hafstraumur sé ásættanlegur með tilliti til þorskeldisins og telur Hafrannsóknarstofnunin að með tilliti til straumhraða, umfangs eldisins og staðsetningu að litlar líkur séu á umtalsverðum og óafturkræfum áhrifum. Skipulagsstofnun vísar hins vegar til sammögnunaráhrifa af starfsemi Álfsfells ehf. með öðru þorskeldi í Skutulsfirði og óvissu um heildarúrgang og mengun frá starfseminni. Bendir stofnunin einnig á að eldið verði í nágrenni þéttbýlis Ísafjarðarbæjar og að jafnframt hafi fram komið að ekki liggi fyrir staðfesting á því að Skutulsfjörður sé síður viðkvæmur viðtaki skv. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og því sé ekki ljóst hvort sjór í Skutulsfirði geti tekið við skólpi og úrgangi frá yfir 900 t fiskeldi. Er það því enn mat stofnunarinnar að umrædd stækkun á fiskeldi kunni að hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif og að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar vegna straummælinga kæranda bendir stofnunin á vegna athugasemda kæranda um að Skutulsfjörður sé ekki þröskuldsfjörður að samkvæmt korti í kynningarskýrslu vegna þorskeldis Álfsfells ehf. þá sé dýpið við mynni Skutulsfjarðar 14 til 17 m en dýpki svo innan fjarðar niður í 24 m. Í greinargerð segi að mesta botndýpi á milli Arnarness og Eyrar sé um 30 m. Þarna sé um að ræða allt að 16 m mismun. Þetta sé merki um þröskuldsfjörð. Segir stofnunin að við mat á umhverfisáhrifum sem hafi verið unnið fyrir Reyðarlax í Reyðarfirði 2002 sé þröskuldssvæði skilgreint sem svæði þar sem dýpið innan þröskuldsins sé a.m.k. 10 m dýpra en þröskuldurinn sjálfur.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar vegna straummælinga kæranda segir að enn ríki mikil óvissa um  umhverfisáhrif framkvæmdarinnar þar sem hvorki liggi fyrir skilgreining á viðtaka né frekari upplýsingar um burðarþol svæðisins. Segir stofnunin að Skutulsfjörður taki við skólpi bæði frá Ísafjarðarbæ og Hnífsdal, ásamt frárennsli frá þeirri atvinnustarfsemi sem þar fari fram og bendir á að skoða þurfi nánar þau sammögnunaráhrif sem aukning í fiskeldi hafi í för með sér samhliða annarri atvinnustarfsemi. Ítrekar stofnunin að upplýsingar um lífríki svæðisins sé ábótavant og þá sér í lagi hvort að svæðið sé hrygningar- eða uppeldisstöð annarra fisktegunda. Er það því enn mat stofnunarinnar að framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

 

 

5. Samanburður við aðrar framkvæmdir og jafnræðissjónarmið.

 

Í greinargerð sinni gerir NV samanburð á annars vegar hinni kærðu ákvörðun og umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar vegna málsins og hins vegar öðrum sambærilegum framkvæmdum vegna sjókvíaeldis. Segir NV að HG í Álftafirði og Seyðisfirði, Dýrfiskur í Dýrafirði og Þóroddur í Tálkna- og Patreksfirði séu öll með stærra starfsleyfi en Álfsfell ehf. og að þau fiskeldi hafi ekki þurft að sæta umhverfismati. Tilgreinir NV að í Álftafirði sé eldið við Súðavík, í Patreksfirði sé það innan við byggðina og í botni fjarðarins og sé síldarvinnslan með starfsleyfi fyrir eldi í botni Norðfjarðar þar sem sé byggð með um 2000 manns og mikil fiskvinnsla. Þessi fiskeldi hafi þó ekki þurft að fara í umhverfismat. Fiskeldi Álfsfells ehf. sé hins vegar við mynni Skutulsfjarðar utan við byggðina, 1 km utan við Eyrina. Telur NV að mikið ósamræmi sé milli hinnar kærðu ákvörðunar og annarra ákvarðana er varði önnur fiskeldisfyrirtæki. Í greinargerð NV er meðfylgjandi tafla 1 og kemur fram að hún innihaldi yfirlit yfir ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu á sjókvíaeldi frá árunum 2001 til 2009. Telur NV að ekkert tillit hafi verið tekið til þess að Álfsfell ehf. ætli að taka aftur botnsýni tveimur árum eftir fyrri rannsókn. Þá sé ekkert tillit tekið til þess að straumur verði mældur í 14 daga og hafi verið hægt að gera það í umsagnarferlinu. Bendir NV á það að 6000 t laxeldi Samherja hf. í Reyðarfirði hafi þurft að fara í umhverfismat og hafi að því loknu fengið leyfi fyrir fiskeldinu. Kveðst NV einnig vilja minna á að allt sjókvíaeldi hafi áhrif á sitt nærumhverfi en áhrifin séu mismunandi eftir botnlögum, straumum, sjávarhita, álagi o.fl.

 

Skipulagsstofnun telur það eðlilegt að kröfur um upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdar hafi aukist frá fyrstu tilkynningum árið 2000. Mundi það standa í vegi fyrir framförum í bættri meðferð auðlinda/vernd náttúruverðmæta ef ekki væri byggt á reynslu og spurt nýrra spurninga eða óskað ítarlegri gagna í ljósi áunninnar reynslu. Telur hún þá að upplýsingar um grunnþætti framkvæmdarinnar sé aðalatriðið, ekki stærð fiskeldisins. Þá segir hún að upplýsingar um þekkt áhrif fiskeldis á botndýralíf fáist ekki nema þar hafi farið fram fiskeldi og áhrif eldisins verið vöktuð. Bendir stofnunin á að það eldi sem tilgreint sé í töflu 1 í greinargerð NV hafi í fæstum tilfellum verið byggt á vöktun eldis sem fyrir hafi verið, en eingöngu hafi það átt við hjá Agva við Eyjafjörð árið 2000, Álftafjörð/Seyðisfjörð árið 2006, Patreksfjörð/Tálknafjörð árið 2009 og Álfsfell ehf. árið 2009. Segir stofnunin þá að umrædd tafla hafi ekki að geyma heildaryfirlit yfir allar ákvarðanir stofnunarinnar.

 

Umhverfisstofnun bendir á að tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum sé að afla upplýsinga um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og hvaða mótvægisaðgerðir þurfi til að draga úr hinum neikvæðu áhrifum. Segir stofnunin að skoða verði hverja framkvæmd fyrir sig, þ.e. aðstæður á eldisstað, fyrirliggjandi gögn/vöntun á gögnum og einnig hafa í huga að vísindaleg vitneskja eflist með árunum. Margt bendi til að einhver uppsöfnun næringarefna sé við núverandi kvíar í Skutulsfirði og þá sér í lagi næst kvíunum. Segir stofnunin að stærð framkvæmdar ráði ekki alltaf úrslitum um það hvort hún skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Kveðst stofnunin þá hafa gert ýmsar athugasemdir við framkvæmdir þar sem NV geti um í lista í greinargerð sinni. Hafi stofnunin t.d. talið að þorskeldi AGVA í Stakksfirði og í Hvalfirði kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í Hvalfirði en þar hafi ekki legið fyrir fullnægjandi upplýsingar um umhverfisaðstæður svæðisins. Segir stofnunin að í umsögn hennar dags. 7. apríl 2006 um stækkun þorskeldis HG í Álftafirði og Seyðisfirði segi að gögn lýsi vel þeim aðstæðum sem séu á eldisstað og þeim umhverfisáhrifum sem búast megi við frá fyrirhuguðu þorskeldi. Hafi norska ráðgjafarfyrirtækið Akvaplan-niva gert rannsóknir að beiðni HG í báðum fjörðum m.t.t. fiskeldis þar sem m.a. hafi komið fram að fylgjast ætti með botnseti þar sem kannað yrði TOC (Total Organic Carbon), botndýr og súrefnisgildi undir kvíaþyrpingunum. Einnig hafi átt að vakta djúpsvæði fjarðarins til að athuga lágmarksgildi í súrefni. Þá hafi verið tilgreindar aðgerðir sem fyrirhugað hafi verið að beita til að takmarka áhrif vegna þorskeldis á svæðinu. Hafi Umhverfisstofnun því talið að með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum og fyrirhuguðum aðgerðum til að takmarka áhrif þorskeldisins væru ekki líkur á því að framkvæmdin myndi hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

 

Umhverfisstofnun bendir á að fjöldi rannsókna sýni fram á að til þess að hægt sé að tryggja sjálfbæran fiskeldisiðnað þá þurfi að vanda til verka þegar ráðist er í slíkar framkvæmdir. Mikilvægt sé að fyrir liggi gögn, t.a.m. um lífríki fjarðarins, þolmörk svæðisins, botnset, sjávarhita, straumhraða og fleiri þætti, s.s. súrefnismagn, til að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um það hvar bestu staðsetningarnar fyrir sjókvíar sé að finna og hægt sé að setja fram viðunandi vöktunaráætlanir.

 

Kærandi gerir athugasemdir við að Umhverfisstofnun nefni einungis þrjár af þeim framkvæmdum sem tilgreindar séu á lista yfir framkvæmdir sem komi fram í framlagðri kæru, en nefni ekki nýjustu leyfi vegna framkvæmda í aðlægum fjörðum, þ.e. í Patreksfirði, Tálknafirði og Dýrafirði. 

 

Umhverfisstofnun kveðst hafa veitt umsögn vegna fyrirhugaðrar stækkunar fiskeldis í Patreksfirði og í Tálknafirði þann 24. nóvember 2009 þar sem hún hafi talið að stækkunin kynni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þá hafi stofnunin þann 8. maí 2009 veitt umsögn vegna fyrirhugaðs laxeldis í Dýrafirði og hafi þá talið að í greinargerð með tilkynningu framkvæmdaraðila hafi komið fram fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að ekki væru líkur á að framkvæmdin myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Ítrekar stofnunin þá að skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig og bendir á að vísindaleg vitneskja hafi eflst með árunum.

 

 

III. Forsendur ráðuneytisins

 

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar.  Eru veruleg umhverfisáhrif í lögunum skilgreind sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.  Í 2. viðauka laganna eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum, sbr. 3. viðauka laganna.  Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar er tilgreind í g. lið 1. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, en þar er m.a. tilkynningarskylt þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar. Samkvæmt k. lið 3. gr. laganna er umhverfi skilgreint sem samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.

 

 

1. Áhrif á botndýralíf og vistkerfi svæðisins og upplýsingar um lífríki.

 

Eins og fram hefur komið telur kærandi það ekki rétt að þorskeldi Álfsfells ehf. hafi haft neikvæð áhrif á botndýralíf undir kvíum í Skutulsfirði. Þá gerir hann athugasemdir við kröfu Umhverfisstofnunar um rannsóknir á hugsanlegum keðjuverkunum botnbreytinga á annað dýralíf í Skutulsfirði þar sem áætlanir hafi verið gerðar um að koma í veg fyrir að botnbreytingar verði verulegar. Telur hann að slíkar kröfur hafi ekki verið gerðar áður og að Umhverfisstofnun veiti ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvaða rannsókna sé krafist.

 

Kærandi bendir á að í skýrslum Álfsfells ehf. komi fram að lítið hafi verið af burstaormum af ætt Capetellidae, sem þoli vel mikla uppsöfnun næringarefna. Telur kærandi botndýralíf enn vera fjölbreytt og svipað og á svæði þar sem ekki sé fiskeldi og að tækifæristegundir hafi ekki enn náð ríkjandi stöðu. Segir kærandi það óskiljanlegt að framkvæmdin verði talin hafa neikvæðari áhrif á botndýralíf en annað fiskeldi með 1000 til 3000 t ársframleiðslu. Segir kærandi að samkvæmt skýrslu Akvaplan niva um Álftafjörð líkist ástandið þar ástandinu í fiskeldi Álfsfells ehf., en fyrrgreint fiskeldi hafi ekki þurft að sæta umhverfismati. Vísar kærandi einnig til umsagnar Hafrannsóknarstofnunarinnar vegna fiskeldis í Dýrafirði, sem sé á svipuðu dýpi og fiskeldi Álfsfells ehf., þar sem fram komi að líkur séu á að fram komi staðbundin áhrif á botndýralíf undir kvíum við það að lífrænar leifar safnist fyrir, en þau áhrif séu afturkræf. Telur kærandi að allt fiskeldi hafi áhrif á sitt nærumhverfi en áhrifin geti verið afturkræf séu þau innan ákveðinna marka. Mestu máli skipti að vakta svæðið með reglubundnum hætti og hvíla áður en áhrifin séu orðin óafturkræf og botndýralíf hafi orðið fyrir algjörum dauða. Segir hann að rannsóknir sýni að það þurfi lítið álag til að breyta samsetningu tegunda/hópa í botnfánunni, sem þurfi þó ekki að vera neikvætt. Telur hann að um neikvæð áhrif sé að ræða á botndýralíf þegar það sé orðið fábreytt og fáar tegundir orðnar ríkjandi, t.d. burstategund af ætt Capetellidae.

 

Kærandi segir að í sýnum úr sjávarbotni við kvíar hafi ekki fundist fóðurleifar þó að örlítil lykt hafi fundist sem gæti bent til einhverrar uppsöfnunar sem ætíð megi þó búast við. Þá finnist víða svartleitur botn þar sem ekkert eldi eða iðnaður sé fyrir hendi. Telur kærandi lítið álag vera á umræddu svæði en segir að með meiri framleiðslu sé áformað að vakta svæðið.

 

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar það mat að vísbendingar séu um uppsöfnun næringarefna við núverandi kvíar í Skutulsfirði. Telur stofnunin því mikilvægt að áður en ráðist sé í umtalsverða stækkun á umræddu þorskeldi þá liggi fyrir upplýsingar um lífríki á svæðinu og þá einnig hvort svæðið sé uppeldis- og/eða hrygningarsvæði annarra fiskitegunda. Er það mat stofnunarinnar að upplýsingar skorti um áhrif uppsöfnunar næringarefna á sjávarbotni á annað dýralíf og hvaða keðjuverkun breyting á botndýralífi gæti haft í för með sér fyrir vistkerfi svæðisins. Bendir stofnunin á að hún og aðrir umsagnaraðilar hafi í sambærilegum málum oft vikið að áhrifum fiskeldis á botndýralíf sem lúti að keðjuverkunum á lífríki og nefnir sem dæmi umsögn Umhverfisstofnunar frá árinu 2006 vegna sjókvíaeldis AGVA ehf. í Hvalfirði og Stakksfirði, þar sem nauðsynlegt hafi verið talið að fyrir lægju upplýsingar um strauma og botndýralíf á fyrirhuguðum eldisstað til að unnt væri að meta umhverfisáhrif eldisins. Hefur stofnunin þá bent á að samkvæmt upplýsingum frá norska umhverfisráðuneytinu sé magn lífræns úrgangs frá 500 t fiskeldi sambærilegt við magn skólps sem komi frá þorpi með 5000 til 7000 manns. Tekur stofnunin þá undir með kæranda að mestu máli skipti að botndýralíf verði ekki fyrir algjörum dauða.

 

Skipulagsstofnun telur skýrslu um botndýrarannsóknir í Skutulsfirði benda til þess að þegar hafi komið fram áhrif á botndýralíf vegna uppsöfnunar úrgangs frá sjókvíaeldinu þó fjölbreytileika þeirra hafi e.t.v. ekki hrakað. Bendir stofnunin á að samkvæmt skýrslunni þá sýni rannsóknir að botndýralíf breytist samfara aukinni uppsöfnun lífræns efnis á sjávarbotni og eftir því sem lífrænt efni aukist fækki tegundum sem séu viðkvæmar fyrir loftfirrtum skilyrðum. Bendir stofnunin á að í skýrslunni séu annars vegar tilgreindir burstaormar sem séu álitnir þolnir á loftfirrðar aðstæður og hins vegar burstaormar sem séu viðkvæmir fyrir aukningu á uppsöfnun næringarefna. Í skýrslunni hafi komið fram að burstaormar sem séu taldir þolnir á loftfirrðar aðstæður hafi verið í talsverðum mæli við kvíarnar en ekki fundist á viðmiðunarstöð og ormur sem talinn sé viðkvæmur fyrir aðstæðum þar sem sjór sé ekki súrefnisríkur hafi verið algengur á viðmiðunarstöð en ekki fundist við kvíar. Telur stofnunin í ljósi þessa ekki standast að álagið á sjávarbotn sé lítið og að tækifæristegundir hafi ekki náð ríkjandi stöðu.

 

Við mat á tilkynningarskyldri framkvæmd skal samkvæmt 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum m.a. líta til eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar, m.a. með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa og stærðar og fjölbreytileika áhrifa, sbr. i. og ii. liðir 3. tölul.

 

Ráðuneytið telur þau gögn sem liggja fyrir í málinu benda til þess að núverandi eldisstarfsemi kæranda í Skutulsfirði hafi nú þegar haft neikvæð áhrif á botndýralíf og tekur því undir það sem fram hefur komið í umsögnum Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar. Eins og Skipulagsstofnun hefur bent á kemur fram í skýrslu NV um botndýrarannsóknir í Skutulsfirði að rannsóknir hafi sýnt að við uppsöfnun lífræns efnis verði breyting á smádýralífi þannig að í byrjun fjölgi tegundum en þegar mikið sé orðið af uppsöfnun lífræns efnis fækki tegundum en einstaklingum fjölgi í tækifærissinnuðum tegundum sem séu þolnari. Bendir Skipulagsstofnun ennfremur á eins og komið hefur fram að samkvæmt skýrslu NV hafi burstaormar sem séu taldir þolnir á loftfirrðar aðstæður verið í talsverðum mæli við sjókvíar en ekki fundist á viðmiðunarstöð og að ormur sem talinn sé viðkvæmur fyrir loftfirrðum aðstæðum hafi verið algengur á viðmiðunarstöð en ekki fundist við kvíar.

 

Ráðuneytið tekur þá undir það sem fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að mikilvægt sé að fyrir liggi upplýsingar um lífríki á umræddu svæði þegar ráðist er í stækkun á umræddu þorskeldi. Er það einnig mat stofnunarinnar að upplýsingar skorti um áhrif uppsöfnunar næringarefna á sjávarbotni á annað dýralíf og hvaða kveðjuverkun breyting á botndýralífi gæti haft í för með sér fyrir vistkerfi svæðisins. Í þessu sambandi bendir ráðuneytið á að Skipulagsstofnun getur farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn fari umrædd framkvæmd í ferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Um málsmeðferð matsskyldra framkvæmda fer skv. IV. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum og í 8. gr. laganna og 13. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 er fjallað um tillögu að matsáætlun sem afhenda skal Skipulagsstofnun. Skal í tillögunni m.a. koma fram eftir umfangi og eðli framkvæmdar og eftir því sem við á lýsing á því hvernig fyrirhugað er að standa að mati á umhverfisáhrifum, svo sem um gagnaöflun, rannsóknarsvæði, tímasetningu athugana, tíðni mælinga, úrvinnslu gagna, aðferðir við mat og framsetningu niðurstaðna. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna getur Skipulagsstofnun fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda. Fallist stofnunin ekki á tillöguna skal hún rökstyðja ákvörðun sína, gera grein fyrir því sem hún telur ábótavant og leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu tillögunnar. Ef sérstakar ástæður mæla með getur Skipulagsstofnun á síðari stigum farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn, enda rökstyðji stofnunin beiðnina sérstaklega, sbr. 4. mgr. 8. gr. laganna.

 

Í samræmi við framangreint er það mat ráðuneytisins að gögn málsins bendi til þess að núverandi eldisstarfsemi kæranda í Skutulsfirði hafi nú þegar haft neikvæð áhrif á botndýralíf og að fyrirhuguð framkvæmd kunni þar af leiðandi að hafa frekari neikvæð áhrif. Telur ráðuneytið ennfremur að meta þurfi þessi áhrif með öðrum áhrifaþáttum framkvæmdarinnar við mat á því hvort framkvæmdin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif á botndýralíf og vistkerfi á umræddu svæði. Þá telur ráðuneytið að gögn um mikilvæga þætti séu ekki fullnægjandi til að unnt sé að meta hugsanleg umhverfisáhrif, þ.e. um lífríki svæðisins og um áhrif uppsöfnunar næringarefna á sjávarbotni á annað dýralíf og hvaða keðjuverkun breyting á botndýralífi gæti haft í för með sér fyrir vistkerfi svæðisins, en eins og fram hefur komið getur Skipulagsstofnun farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn vegna framkvæmdarinnar sæti framkvæmdin mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum.  

 

 

2. Vöktun og hvíld svæða á sjávarbotni.

 

Kærandi segir Umhverfisstofnun ekki hafa í sambærilegum málum vegna sjókvíaeldis gert athugasemdir við að ekki hafi verið gerð áætlun um að hvíla sjávarbotn og að ekki sé að finna leiðbeiningar um hvernig eigi að framkvæma slíkar athuganir og útreikninga og hversu lengi þurfi að hvíla svæði í kjölfar álagstíma.

 

Í niðurstöðum hinnar kærðu ákvörðunar er bent á að ekki hafi verið gerð áætlun um að hvíla sjávarbotn undir kvíum reglubundið frá því að áframeldi Álfsfells ehf. hafi hafist árið 2002 þrátt fyrir vísbendingar um neikvæð áhrif á vistkerfi. Er þar einnig tekið fram að úrgangur hafi safnast fyrir á sjávarbotni og að botnset sé þar sem sé svartleitt og lyktandi og botndýr sem þolin séu á lágan súrefnisstyrk sjávar séu algengari við kvíar en á viðmiðunarsvæði utar í Skutulsfirði. Í umsögn Skipulagsstofnunar til ráðuneytisins er tekið undir það að fara þurfi fram vöktun og hvíld svæða með tilliti til álags á tilteknu svæði. Telur stofnunin að stærð fyrirhugaðs eldis skipti ekki máli í þessu sambandi. Bendir stofnunin á að í tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu fiskeldis í Álftafirði og Seyðisfirði hafi verið byggt á fyrirliggjandi gögnum ásamt spám og aðgerðum lýst til að takmarka áhrif eldisins. Hafi þar verið áformað að á tilteknum svæðum yrði eldi aðeins hluta úr ári og svæði hvíld eftir hverja eldislotu. Er það mat stofnunarinnar að við þær aðstæður sem séu á eldisstað í Skutulsfirði, þar sem dýpi sé um 20 m, sé líklegt að uppsöfnun lífræns úrgangs safnist upp á þrengra svæði við kvíar en ella og því sé þörf á að færa til kvíar oftar. Rétt austan við eldissvæðið sé siglingaleið fiski- og flutningaskipa, innsta kvíin sé í um kílómetra fjarlægð frá skólplögn Ísafjarðarbæjar og norðan við það sé starfrækt þorskeldi annars fyrirtækis, en nákvæm staðsetning þess sé þó ekki ljós. Telur stofnunin þessi atriði takmarka möguleika til að draga úr álagi á botndýralíf og að ekki hafi verið sýnt fram á að gott svigrúm sé til þess að færa til sjókvíar.

 

Umhverfisstofnun telur nauðsynlegt að leggja fram áætlun um hvíld svæða þar sem fram komi á hvaða forsendum slík áætlun sé byggð. Telur stofnunin að ef engar skelja- eða burstaormstegundir eru orðnar eftir undir kvíum kunni að vera orðið of seint að hvíla svæðin og þá sé e.t.v. um algeran dauða að ræða.

 

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar kemur fram að möguleikar á að færa eldiskvíar til að hvíla botnsvæði séu ekki miklir en þó að nokkru fyrir hendi.

 

Samkvæmt j.-lið 1. mgr. 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum eru mótvægisaðgerðir skilgreindar sem „aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif“. Að mati ráðuneytisins snýr umfjöllun um áætlanir um vöktun og hvíld svæða að ákveðnum mótvægisaðgerðum framkvæmdaraðila í því skyni að draga úr mögulegum neikvæðum umhverfisáhrifum umræddrar framkvæmdar, en eins og fram hefur komið liggur slík áætlun ekki fyrir af hálfu framkvæmdaraðila í máli þessu. Ráðuneytið bendir á að á þessu stigi málsins er ekki heimild í lögum til að skylda framkvæmdaraðila til að ráðast í mótvægisaðgerðir vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Telur ráðuneytið því að meta beri hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum út frá forsendum hinnar tilkynntu framkvæmdar, sem gerir ekki ráð fyrir áætlun um vöktun og hvíld svæða. Ráðuneytið bendir þó á að eins og fram hefur komið eru vísbendingar nú þegar til staðar um neikvæð áhrif á botndýralíf viðkomandi svæðis og tekur ráðuneytið því undir með kæranda og Umhverfisstofnun að miklu máli skipti að botndýralíf verði ekki fyrir „algjörum dauða“ og væru því áætlanir um vöktun og hvíld svæða undir sjókvíum til þess fallnar að koma í veg fyrir slíkt.

 

Eins og áður segir þá er fjallað um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda í IV. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt 9. gr. laganna skal framkvæmdaraðili afhenda Skipulagsstofnun frummatsskýrslu þar sem m.a. skal lýsa þeim þáttum fyrirhugaðrar framkvæmdar sem líklegast er talið að geti valdið áhrifum á umhverfið, þar á meðal fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum. Í 11. gr. laganna, sem fjallar um álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, segir m.a. í 2. mgr. að telji stofnunin að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir en fram komi í matsskýrslu skuli stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim. Telur ráðuneytið því ljóst að falli umrædd framkvæmd undir matsskylda framkvæmd samkvæmt umræddum lögum þá getur Skipulagsstofnun samkvæmt 2. mgr. 11. gr. umræddra laga tilgreint frekari skilyrði og mótvægisaðgerðir telji hún þörf á. Þá ber leyfisveitanda við útgáfu leyfis til framkvæmdar að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar og birta ákvörðun sína um útgáfu leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis, sbr. 2. mgr. 13. gr. laganna.

 

Í samræmi við það sem fram hefur komið telur ráðuneytið umfjöllun Skipulagsstofnunar um vöktun og hvíld svæða í hinni kærðu ákvörðun ekki fela í sér kröfu um að framkvæmdaraðili leggi fram slíka áætlun heldur ábendingar um mikilvægi slíkra áætlana fyrir framkvæmdina í ljósi mögulegra neikvæðra umhverfisáhrifa hennar. Myndi fyrirhuguð framkvæmd lúta mati á umhverfisáhrifum gæti stofnunin þegar hún gæfi út álit um mat á umhverfisáhrifum tilgreint slíkar mótvægisaðgerðir teldi hún þær ekki hafa komið nægjanlega fram í matsskýrslu, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Byggir stofnunin þá niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að hluta á því að takmarkaðir möguleikar séu í reynd á því að framkvæma slíkar mótvægisaðgerðir, þ.e. á því að færa til sjókvíar og þar með möguleikar á því að draga úr álagi á botndýralíf. Tekur ráðuneytið undir það mat Skipulagsstofnunar, m.a. með vísan til umsagnar Hafrannsóknarstofnunarinnar, en eins og áður segir þá eru veruleg umhverfisáhrif í lögum um mat á umhverfisáhrifum skilgreind sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

 

 

3. Upplýsingar um styrk hafstrauma, mögulega þynningu úrgangs frá starfseminni o.fl.

 

Í framlagðri kæru er gagnrýnt að Umhverfisstofnun tilgreini sérstaklega að hætta af rekís sé fyrir hendi í Skutulsfirði. Ráðuneytið telur hins vegar ljóst að niðurstöður hinnar kærðu ákvörðunar byggja ekki á umræddu atriði. Þá telur ráðuneytið að ekkert í fyrirliggjandi gögnum kalli á nánari skoðun á hættu vegna rekíss. Verður því ekki fjallað nánar um þetta atriði í úrskurði þessum.

 

Í kæru eru gerðar athugasemdir við kröfur er lúta að mælingum hafstrauma. Ljóst er að hin kærða ákvörðun byggir m.a. á því að takmarkaðar mælingar gefi til kynna að straumhraði á eldisstað sé lítill og að hafstraumar hafi takmarkaða getu til að dreifa úrgangi frá eldinu. Segir þar einnig að ekki liggi fyrir upplýsingar um hversu vinddrifnir straumpúlsar í Skutulsfirði kunni að vera eða hvort þeir séu taldir nægjanlegir til að þynna út og dreifa úrgangi frá þorskeldinu á fullnægjandi hátt. Við meðferð máls þessa í ráðuneytinu hefur kærandi hins vegar framkvæmt frekari mælingar á straumhraða að tilmælum Hafrannsóknarstofnunarinnar. Var það mat þeirrar stofnunar að mælitími vegna fyrri mælinga hafi verið of stuttur til að hægt væri að átta sig á breytileika straumsins á eldisstað og taldi hún að samfelldar straummælingar yrðu að vera í lágmarki í tvær vikur til að hægt væri að meta aðstæður með nokkru öryggi og til að mælingar næðu yfir bæði smástreymi og stórstreymi. Lét framkvæmdaraðili því mæla straummælingar frá 1. febrúar til 2. mars 2010. Segir kærandi að niðurstöður sýni að straumur sé góður og betri en víða á öðrum stöðum þar sem aðstæður séu taldar góðar eða viðunandi fyrir fiskeldi.

 

Umhverfisstofnun bendir á að aðstæður í mismunandi fiskeldi séu afar fjölbreyttar og að taka þurfi m.a. mið af staðsetningu, vitneskju um náttúrufar og fyrirliggjandi gögnum og mælingum. Segir hún að við mat á hafstraumum beri sérstaklega að huga að samspili þeirra og fyrirliggjandi áhættuþátta framkvæmdarinnar fyrir umhverfið og þótt stuðst sé við ákveðið lágmark til viðmiðunar sé ekki unnt að notast við sama mælikvarða í öllum tilvikum við mat á hvort hafstraumar tryggi nægilega dreifingu úrgangsefna. Það er mat Umhverfisstofnunar að Skutulsfjörður sé þröskuldsfjörður og segir í umsögn stofnunarinnar að þröskuldurinn gefi vísbendingar um að hugsanlega geti verið lítil vatnsskipti á botninum. Segir einnig að ef straumar séu mjög sterkir þá séu áhrif þröskuldsins kannski lítil eða mjög staðbundin. Ekki sé þó hægt að einblína á hæð þröskuldsins eingöngu heldur verði að skoða sjávarstraumana í því samhengi. Er það mat Umhverfisstofnunar að mikilvægt sé að gerðar hafi verið áframhaldandi straummælingar á svæðinu en telur þó að enn ríki mikil óvissa um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og að hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

 

Hafrannsóknarstofnunin telur nýjar straummælingar kæranda fela í sér fullnægjandi gögn um straumhraða. Segir stofnunin m.a. að þann dag sem straumurinn hafi verið mestur hafi 62% mælinga reynst vera yfir 10 cm/sek sem bendi til að straumpúlsar geti komið til með að hreinsa undir kvíum. Telur stofnunin að með tilliti til straumhraða, umfangs eldisins og staðsetningu þá séu litlar líkur á umtalsverðum og óafturkræfum áhrifum af framkvæmdinni og að því sé ekki þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum.

 

Skipulagsstofnun tekur undir með Hafrannsóknarstofnuninni og telur nýjar straummælingar sýna að straumur sé ásættanlegur með tilliti til þorskeldisins. Telur stofnunin þó að mælingarnar hnekki ekki þeirri niðurstöðu að umrædd stækkun kunni að hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif þar sem ekki liggi fyrir hver verði sammögnunaráhrif með öðru þorskeldi í Skutulsfirði og ekki liggi fyrir staðfesting á því að Skutulsfjörður sé síður viðkvæmur viðtaki. Telur stofnunin því að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Ráðuneytið telur ljóst, sérstaklega með vísan til framangreindra umsagna Skipulagsstofnunar og Hafrannsóknarstofnunarinnar að fyrirliggjandi straummælingar framkvæmdaraðila séu fullnægjandi. Telur ráðuneytið einnig ljóst að þegar niðurstöður mælinga á hafstraumum séu metnar þá þurfi að huga sérstaklega að samspili þeirra og fyrirliggjandi áhættuþátta framkvæmdarinnar fyrir umhverfið. Tekur ráðuneytið því undir með Umhverfisstofnun um að ekki sé unnt að notast við sama mælikvarða í öllum tilvikum við mat á hvort hafstraumar tryggi nægilega dreifingu úrgangsefna heldur þurfi að taka mið af öllum þáttum hverju sinni, m.a. staðsetningu, samlegðaráhrifum fiskeldis á svæðinu og því hvaða áhrif umræddur þröskuldur í Skutulsfirði hefur, en um þessa þætti er nánar fjallað í 4. hluta kafla þessa.

 

 

4. Burðargeta, samlegðaráhrif með annarri starfsemi, þröskuldur í firðinum og  

    skilgreining á svæðinu sem viðtaka.

 

Kærandi gerir athugasemdir við kröfur um útreikninga á burðargetu fjarða og staðfestingu á því að Skutulsfjörður sé viðkvæmur viðtaki, sem hann telur að ekki hafi áður verið gerð krafa um í sambærilegum málum. Vegna athugasemda um samlegðaráhrif með öðru fiskeldi bendir kærandi á að samanlögð framleiðsla kæranda og Glaðs ehf. gæti orðið 1100 t. Segir kærandi þá að við mat á burðarþoli hafi verið venja að hafa allan fjörðinn undir í reikningum. Sé fiskeldið í Álftafirði við mynni fjarðarins, 2,5 km frá Kambsnesi, og því ætti að hafa Ísafjarðardjúpið með í burðarþolsútreikningum ásamt svæðinu inni í botni fjarðarins, en um 8 km séu inn í botn. Sé fiskeldissvæði Álfsfells ehf. um margt líkt svæðinu í Álftafirði að öðru leyti en því að styttra sé út að Arnarnesi (tæpir 2 km) auk þess sem eldið sé fyrir utan byggðina í Skutulsfirði öfugt við fiskeldið í Álftafirði. Telur kærandi að burðarþolið sé vel yfir 3000 t og að líklega mætti framleiða um 2000 t (áframeldi) af þorski á fiskeldissvæði með því að rótera kvíum með reglulegu millibili og fylgjast vel með botndýralífi.

 

Kærandi telur fiskeldissvæðið í Skutulsfirði ekki vera þröskuldssvæði þar sem þá þyrfti dýpið fyrir innan umrætt svæði að vera 10 m dýpra en þröskuldurinn sjálfur. Segir hann Skutulsfjörð þó vera með þröskuld sem sé 14 til 17 m djúpur. Segir kærandi að þar sem umrætt kvíaeldi sé á 20 til 25 m dýpi og þröskuldurinn fyrir framan það um 17 m sé ekki um þröskuld að ræða.

 

Kærandi segir skólp ekki vera nærri eldisstað þar sem það sé einn km frá svæðinu. Bendir hann á að fiskeldi í botni Norðfjarðar, Patreksfjarðar og við Súðavík séu við eða fyrir innan byggð í fjörðum þar og að svæðin í Norðfirði og Álftafirði séu jafn nálægt eða nær skolplögnum. Svæði Álfsfells ehf. sé hins vegar fyrir utan byggðina og opið fyrir Ísafjarðardjúpinu og ætti það ekki að hafa síðri og jafnvel betri kipti en nefnd svæði.

 

Skipulagsstofnun bendir á að umrædd framkvæmd feli í sér rúmlega fjórföldun á umfangi fiskeldisins. Segir stofnunin að burðargeta hafsvæða felist í því hvaða möguleikar þau hafi til að brjóta niður lífræn efni og losna við aukið framboð næringarsalta vegna eldis af tiltekinni stærð, svo neikvæð áhrif þess takmarkist sem mest við eldissvæðið sjálft. Höfuðmáli skipti að hafa upplýsingar um hafstrauma og stærð þess hafsvæðis sem teljist vera viðtaki úrgangs frá fiskeldinu, svo meta megi burðargetu svæðisins. Segir að stofnunin hafi bent á að auk úrgangs frá umræddu eldi þá falli í Skutulsfjörð úrgangur úr öðru þorskeldi og skólp renni í fjörðinn frá Ísafirði.

 

Eins og fram hefur komið er það mat Skipulagsstofnunar og Hafrannsóknarstofnunarinnar að samkvæmt nýlegum straummælingum kæranda sé hafstraumur ásættanlegur með tilliti til þorskeldisins. Skipulagsstofnun vísar hins vegar til sammögnunaráhrifa af starfsemi Álfsfells ehf. með öðru þorskeldi í Skutulsfirði og óvissu um heildarúrgang og mengun frá starfseminni. Bendir stofnunin á að eldið verði í nágrenni þéttbýlis Ísafjarðarbæjar og að jafnframt hafi fram komið að ekki liggi fyrir staðfesting á því að Skutulsfjörður sé síður viðkvæmur viðtaki skv. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og því sé ekki ljóst hvort sjór í Skutulsfirði geti tekið við skólpi og úrgangi frá yfir 900 t fiskeldi. Telur stofnunin því að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Umhverfisstofnun telur mikilvægt að burðargeta svæðisins liggi fyrir og nefnir að fyrstu norsku fiskeldin hafi verið staðsett í grunnum sjó þar sem fyrir hafi verið lítill straumhraði, en það hafi leitt til ósjálfbærra framleiðsluhátta og uppsöfnunar næringarefna og saurs frá fiskeldinu sem hafi haft mikil staðbundin áhrif þó að fiskeldin hafi ekki verið stór að umfangi. Umhverfisstofnun segir skilgreiningu á burðargetu í fiskeldi vera fjöldi eða magn fisks sem fiskeldissvæði geti borið án þess að umhverfisárhrif fari yfir viðmiðunarmörk. Sé farið yfir viðmiðunarmörkin þá sé fiskeldið ekki sjálfbært og hafi svæðið þá ekki þol til að viðhalda náttúrulegum vistkerfum sínum. Segist stofnunin hafa gert þá athugasemd í umsögn vegna þorskeldis Salar Islandica í Fáskrúðsfirði frá árinu 2004 að áður en starfsleyfi yrði gefið út þyrfti að liggja fyrir mat á burðarþoli fjarðarins. Nefnir hún einnig að framkvæmdaraðilar hafi í mörgum sambærilegum málum verið búnir að láta gera athuganir á burðargetu svæða, t.d. hafi Íslandsbanki hf. látið reikna út vatnaskipti í Eyjafirði vegna sjókvíaeldis og einnig hafi legið fyrir nettó burðarþol svæðisins. Umhverfisstofnun segir að við útreikninga á burðargetu sé hægt að notast við Lenka-viðtakamat og að norðmenn notist einnig við Molo-kerfi (Monitoring environment impacts caused by aquacultur farms and location). Samtvinni kerfið grunnupplýsingar um strauma, dýpi, fjarlægðir á milli fiskelda og annarrar uppsprettu mengunar við módel sem reikni út burðarþol út frá magni fisks sem geti verið framleiddur á svæðinu. Í Noregi sé einnig notast við staðla sem nefnist „Environmental monitoring of marine fisk farm“ epa NS 9410, þar sem fram komi hvernig og hversu oft sjávarbotn undir og í kringum fiskeldi skuli vera vaktaður með tilliti til burðarþols. Telur stofnunin það ekki rétt við mat á burðarþoli umrædds svæðis að líta til Ísafjarðardjúpsins í heild sinni og segir NV ekki tilgreina forsendur eða útreikninga að baki því mati að líklega megi framleiða um 2000 t af þorski á svæðinu. Telur Umhverfisstofnun að eigi slíkt mat að vera raunhæft þyrftu kvíarnar að vera staðsettar þannig að ekkert hindraði vatnsskipti á sjávarbotni undir kvíunum við Ísafjarðardjúpið, sem sé ekki raunin.

 

Umhverfisstofnun segir staðhæfingar kæranda á að Skutulsfjörður sé síður viðkvæmur viðtaki vera án staðfestingar Umhverfisstofnunar samkvæmt 3. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og bendir jafnframt á að reglugerðin nái ekki til úrgangs frá fiskeldi. Telur stofnunin réttast að horfa til flokkunar svæða skv. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Kveðst stofnunin einnig hafa bent á þennan annmarka í umsögn frá árinu 2006 vegna þorskeldis Agva í Stakkafirði og í Hvalfirði og í umsögn frá 2006 vegna sjókvíaeldis Íslandslax hf. á laxi við Eyjafjörð.

 

Það er mat Umhverfisstofnunar að Skutulsfjörður sé þröskuldsfjörður og bendir hún á að samkvæmt í kynningarskýrslu Álfsfells ehf. sé dýpið við mynni Skutulsfjarðar 14 til 17 m en dýpki svo innan fjarðar niður í 24 m. Segir hún að í  greinargerð komi fram að mesta botndýpi á milli Arnarness og Eyrar sé um 30 m og því sé þarna um að ræða allt að 16 m mismun sem sé merki um þröskuldsfjörð. Segir stofnunin að við mat á umhverfisáhrifum vegna Reyðarlax í Reyðarfirði árið 2002 hafi þröskuldssvæði verið skilgreint sem svæði þar sem dýpið innan þröskuldsins sé a.m.k. 10 m dýpra en þröskuldurinn sjálfur.

 

Umhverfisstofnun telur að þrátt fyrir nýlegar mælingar á hafstraumum ríki enn mikil óvissa um  umhverfisáhrif framkvæmdarinnar þar sem hvorki liggi fyrir skilgreining á viðtaka né frekari upplýsingar um burðarþol svæðisins. Bendir stofnunin á að Skutulsfjörður taki við skólpi bæði frá Ísafjarðarbæ og Hnífsdal, ásamt frárennsli frá þeirri atvinnustarfsemi sem þar fari fram og að skoða þurfi nánar þau sammögnunaráhrif sem aukning í fiskeldi hafi í för með sér samhliða annarri atvinnustarfsemi. Ítrekar stofnunin að upplýsingar um lífríki svæðisins sé ábótavant og þá sér í lagi hvort að svæðið sé hrygningar- eða uppeldisstöð annarra fisktegunda. Er það því enn mat stofnunarinnar að framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

 

Ráðuneytið telur að samkvæmt framangreindu sé burðargeta í fiskeldi sá fjöldi eða magn fisks sem fiskeldissvæði getur borið án þess að umhverfisáhrif fari yfir viðmiðunarmörk, sbr. umsögn Umhverfisstofnunar. Í því sambandi ber að hafa í huga að fiskeldi telst ekki sjálfbært sé farið yfir viðmiðunarmörkin og hefur svæði þá ekki þol til að viðhalda náttúrulegum vistkerfum sínum. Felst í burðargetunni þeir möguleikar sem hafsvæði hafa til að brjóta niður lífræn efni og losna við aukið framboð næringarsalta vegna eldis af tiltekinni stærð, svo neikvæð áhrif eldisins takmarkist sem mest við eldissvæðið sjálft, sbr. umsögn Skipulagsstofnunar. Við mat á tilkynningarskyldri framkvæmd skal samkvæmt 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum m.a. líta til staðsetningar hennar og athuga þarf hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, m.a. með tilliti til álagsþols náttúrunnar, sbr. iv. liður 2. tölul., og einnig til eðli framkvæmdarinnar, m.a. með tilliti til stærðar og umfangs framkvæmdar, sbr. i. liður 1. tölul. Ráðuneytið telur að við mat á þessu þurfi m.a. að líta til þess að þau gögn sem liggja fyrir í málinu benda til þess að núverandi eldisstarfsemi kæranda í Skutulsfirði hafi nú þegar haft neikvæð áhrif á botndýralíf, sbr. umfjöllun ráðuneytisins í 1. hluta kafla þessa, en umrædd framkvæmd felur í sér fjórföldun á því fiskeldi sem fyrir er. Tekur ráðuneytið því undir það að mikilvægt sé að fyrir liggi mat á burðargetu umrædds fiskeldissvæðis til að unnt sé að meta það hvort framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Er sú óvissa m.a. til staðar hvort að við hina auknu framleiðslu í fiskeldi verði farið yfir þau viðmiðunarmörk sem umrætt svæði þolir sem gæti leitt til þess að svæðið gæti ekki viðhaldið náttúrulegum vistkerfum sínum. Bendir ráðuneytið á í því sambandi að í umsögn Umhverfisstofnunar hefur verið bent á ýmsar leiðir til að reikna út burðarþol fiskeldissvæða, Lenka-viðtakamat, Molo-kerfi og staðla sem notaðir eru í Noregi, þ.e. „Environmental monitoring of marine fisk farm“ epa NS 9410. 

 

Framkvæmdaraðili í máli þessu hefur orðið við ábendingum Hafrannsóknarstofnunarinnar og framkvæmt frekar mælingar á hafstraumi, sem ætti m.a. að nýtast við mat á burðargetu umrædds svæðis. Þrátt fyrir það þá liggja ekki fyrir heildarútreikningar um burðargetu umrædds svæðis. Þá koma ekki fram upplýsingar í gögnum framkvæmdaraðila um sammögnunaráhrif með fiskeldi Glaðs ehf. á svæðinu, sem hefur leyfi til 200 t ársframleiðslu eða annarri atvinnustarfsemi, en eins og fram hefur komið þá tekur Skutulsfjörður við skólpi frá Ísafjarðarbæ og Hnífsdal, ásamt frárennsli frá þeirri atvinnustarfsemi sem þar fer fram. Ráðuneytið telur ljóst að mikilvægt er að sammögnunaráhrifin séu metin til að heildarumhverfisáhrif af framkvæmdinni séu ljós, en eins og segir í ii. lið 1. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum ber að athuga eðli framkvæmdar, m.a. með tilliti til sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum.

 

Ráðuneytið tekur undir með Umhverfisstofnun að reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp taki ekki til úrgangs á fiski heldur um söfnun, hreinsun og losun skólps frá þéttbýli og tiltekinni atvinnustarfsemi. Verður því ekki á því byggt að umrætt svæði sé síður viðkvæmt svæði í samræmi við skilgreiningu B-liðar II. viðauka reglugerðarinnar, en á slíkum svæðum hefur losun skólps ekki skaðleg áhrif á umhverfið vegna formfræðilegra, vatnafræðilegra eða annarra sérstakra aðstæðna í vatninu. Auk þess hefur Umhverfisstofnun ekki staðfest að svæðið sé síður viðkvæmt svæði í samræmi við 20. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, eins og bent hefur verið á. Ráðuneytið tekur þó fram að skilgreiningin gæti haft þýðingu varðandi hentugleika svæðisins fyrir fiskeldi. Ráðuneytið bendir hins vegar á að rannsóknir sem gerðar voru árið 2002 á skólpmengun í sjó við Ísafjörð gefa til kynna að mengun af þessum uppruna sé ekki vandamál, eins og segir í umsögn Skipulagsstofnunar. Hefur Skipulagsstofnun bent á að hún hefði tekið þær upplýsingar til greina við ákvarðanatöku í málinu þrátt fyrir að ekki lægi fyrir staðfesting Umhverfisstofnunar á því að Skutulsfjörður væri síður viðkvæmur viðtaki. Engu að síður hefur Skipulagsstofnun talið að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, m.a. í ljósi þess að ekki liggur fyrir staðfesting á Skutulsfirði sem viðtaka.

 

Reglugerð nr. 796/1999 gildir um varnir gegn mengun vatns, flokkun vatns, gæðamarkmið og umhverfismörk fyrir vatn, sbr. 2. gr. Einnig um losunarmörk vegna losunar ýmissa hættulegra og óæskilegra efna og efnasambanda í vatn. Í 1. mgr. 5. gr. segir að mengun vatns sé óheimil. Þá sé losun efna og úrgangs í vatn, þ.m.t. efni á listum I og II í viðauka með reglugerðinni, óheimil nema í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, viðaukum með henni og starfsleyfa. Samkvæmt 20. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er viðtaki skilgreindur sem svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir. Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar er fjallað um flokka vatns, þ.e. flokk A sem er ósnortið vatn, flokk B sem er lítið snortið vatn, flokk C sem er nokkuð snortið vatn, flokk D sem er verulega snortið vatn og flokk E sem er ófullnægjandi vatn. Það er mat ráðuneytisins að ef upplýsingar um hvaða flokki vatns umrætt svæði tilheyrir lægju fyrir þá fæli það í sér mikilvægar upplýsingar við mat á mögulegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Ráðuneytið telur því ljóst að hér er um ákveðinn óvissuþátt að ræða, sérstaklega með vísan til þess að Skutulsfjörður tekur við skólpi bæði frá Ísafjarðarbæ og Hnífsdal, ásamt frárennsli frá þeirri atvinnustarfsemi sem þar fer fram, eins og áður hefur komið fram. Ráðuneytið bendir þó á í þessu sambandi á að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar hvílir sú skylda á herðum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga að flokka vatn í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

 

Samkvæmt gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum Umhverfisstofnunar er ca. 14 til 17 m þröskuldur í Skutulsfirði. Hvort rétt sé að skilgreina fjörðinn sem þröskuldsfjörð eða ekki telur ráðuneytið ekki vera lykilatriði í máli þessu. Hins vegar telur ráðuneytið rétt að leggja til grundvallar það mat Umhverfisstofnunar að þröskuldurinn gefi vísbendingar um að hugsanlega geti verið lítil vatnsskipti á sjávarbotninum, en ef straumar séu mjög sterkir þó séu áhrif þröskuldsins kannski lítil eða mjög staðbundin. Er það mat ráðuneytisins að hér sé um ákveðinn óvissuþátt að ræða varðandi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

 

Í samræmi við framangreint er það mat ráðuneytisins að ýmsir óvissuþættir séu til staðar hvað varðar möguleg umhverfisáhrif fyrirhugaðrar stækkunar á þorskeldi. Eins og rakið hefur verið liggja ekki fyrir upplýsingar um burðargetu svæðisins, sammögnunaráhrif framkvæmdarinnar með starfsemi á svæðinu og skilgreining á umræddu svæði sem viðtaka. Telur ráðuneytið þá einnig rétt að taka mið af því sem segir í umsögn Umhverfisstofnunar um að þröskuldurinn í Skutulsfirði gefi vísbendingar um að hugsanlega geti verið lítil vatnsskipti á sjávarbotninum. Í þessu sambandi bendir ráðuneytið á, eins og fram hefur komið, að Skipulagsstofnun getur farið fram á við framkvæmdaraðila að hann leggi fram frekari gögn vegna framkvæmdarinnar sæti umrædd framkvæmd mati á umhverfisáhrifum, sbr. IV. kafli laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

 

5. Samanburður við aðrar framkvæmdir og jafnræðissjónarmið.

 

Kærandi telur að í hinni kærðu ákvörðun og umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar sé ekki gætt jafnræðis. Nefnir hann fiskeldi í Álftafirði og Seyðisfirði, Dýrafirði og Tálkna- og Patreksfirði, sem hann segir að séu með stærra starfsleyfi en Álfsfell ehf. og hafi þrátt fyrir það ekki farið í umhverfismat. Bendir kærandi þá m.a. á að allt sjókvíaeldi hafi áhrif á sitt nærumhverfi.

 

Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 37/1993 segir m.a. um 11. gr.: „Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að ekki er um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur sé á úrlausn mála byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum. “

 

Ráðuneytið bendir á það að umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar vegna máls þessa er samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum ekki bindandi og felur ekki í sér stjórnvaldsákvörðun. Kemur því ekki til skoðunar hér hvort á henni séu ógildingarannmarkar.

Ráðuneytið tekur það fram að það er ætíð mikilvægt að jafnræðis sé gætt í ákvörðunum stjórnvalds. Telur ráðuneytið þó ljóst, m.a. hvað mál þetta varðar, að meta þarf hverja framkvæmd fyrir sig, m.a. aðstæður á  fiskeldissvæðinu og fyrirliggjandi gögn eða skort á upplýsingum, en ljóst er að mál eru sjaldan að öllu leyti sambærileg. Tekur ráðuneytið fram að mestu máli skiptir við töku ákvörðunar að niðurstaðan sé vel ígrunduð og rökstudd og í samræmi við gildandi lög og reglur. Ráðuneytið tekur þá undir það sem fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar um að ekki sé óeðlilegt að kröfur um upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdar hafi aukist frá því að fyrstu tilkynningar til ákvörðunar um matsskyldu bárust og að það mundi standa í vegi fyrir framförum í bættri meðferð auðlinda og vernd náttúruverðmæta ef ekki væri byggt á reynslu og spurt nýrra spurninga eða óskað ítarlegri gagna í ljósi áunninnar reynslu. Þá tekur ráðuneytið einnig undir það með Skipulagsstofnun að stærð fiskeldis sé ekki aðalatriði þegar bornar séu saman framkvæmdir heldur upplýsingar um grunnþætti framkvæmdarinnar.

 

Ráðuneytið telur ekkert í framkominni kæru benda til þess að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin af hálfu Skipulagsstofnunar við töku hinnar kærðu ákvörðunar og vísar í því sambandi til þess sem fram hefur komið í forsendum ráðuneytisins í kafla þessum. Byggir ráðuneytið þá niðurstöðu sérstaklega á því að hin kærða ákvörðun byggist á umsögnum margra aðila og er ekkert sem bendir til þess að hún byggist á ólögmætum sjónarmiðum, þ.e. sé andstæð lögum eða reglum. Tekur ráðuneytið fram að þó svo að einhver mismunur sé á einstökum ákvörðunum stofnunarinnar vegna framkvæmda í tengslum við fiskeldi þá ber að líta til heildarþátta hverrar framkvæmdar fyrir sig og fyrirliggjandi rökstuðnings fyrir ákvörðun. Með vísan til þessa er það mat ráðuneytisins að Skipulagsstofnun hafi ekki við töku hinnar kærðu ákvörðunar brotið jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Eins og fram kemur í umfjöllun III. kafla er það mat ráðuneytisins að gögn málsins bendi til þess að núverandi eldisstarfsemi kæranda í Skutulsfirði hafi nú þegar haft neikvæð áhrif á botndýralíf og að fyrirhuguð framkvæmd kunni þar af leiðandi að hafa frekari neikvæð umhverfisáhrif. Þá telur ráðuneytið að gögn um mikilvæga þætti séu ekki fullnægjandi til að unnt sé að meta hugsanleg umhverfisáhrif, þ.e. um lífríki svæðisins og um áhrif uppsöfnunar næringarefna á sjávarbotni á annað dýralíf og hvaða keðjuverkun breyting á botndýralífi gæti haft í för með sér fyrir vistkerfi svæðisins. Telur ráðuneytið ljóst að upplýsingar um lífríki svæðisins séu grunnupplýsingar sem þurfi að vera til staðar til að unnt sé að meta áhrif uppsöfnunar næringarefna á dýralíf og að fara þurfi fram könnun á mögulegum áhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar á botndýralíf og vistkerfi svæðisins til að unnt sé að sýna fram á raunveruleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

 

Eins og fram hefur komið liggja ekki fyrir af hálfu framkvæmdaraðila áætlanir um vöktun og hvíld svæða, sem væru til þess fallnar að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum á botndýralíf. Í því sambandi tekur ráðuneytið undir það mat Skipulagsstofnunar og Hafrannsóknarstofnunarinnar að takmarkaðir möguleikar séu á því að færa til sjókvíar og þar með að ráðast í mótvægisaðgerðir sem myndu draga úr álagi á botndýralíf vegna uppsöfnunar næringarefna. Telur ráðuneytið þær takmarkanir leiða til þess að meiri líkur eru á neikvæðum umhverfisáhrifum á botndýralíf vegna framkvæmdarinnar.

 

Ráðuneytið telur ljóst af því sem greinir í forsendum III. kafla að frekari gögn en áður greinir um mikilvæga þætti skortir, m.a. útreikninga á burðargetu umrædds svæðis, en slíkir útreikningar eru afar mikilvægir í ljósi þess að fiskeldi telst ekki sjálfbært sé farið yfir útreiknuð viðmiðunarmörk, sem hefur þá þýðingu að svæðið hefur ekki þol til að viðhalda náttúrulegum vistkerfum sínum. Tengjast þessir útreikningar öðrum upplýsingum sem skortir af hálfu framkvæmdaraðila, þ.e. um lífríki svæðisins og áhrifum framkvæmdarinnar á dýralíf og vistkerfi. Er það því mat ráðuneytisins að mikil óvissa sé samfara því að slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um sammögnunaráhrif framkvæmdarinnar með öðru fiskeldi og annarri atvinnustarfsemi á svæðinu svo og skilgreining á svæðinu sem viðtaka í samræmi við reglugerð nr. 796/1999  um varnir gegn mengun vatns. Skipta þessar upplýsingar miklu máli fyrir þau heildaráhrif sem leiðir af framkvæmdinni, en skortur á þeim leiðir til frekari óvissu um möguleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Telur ráðuneytið einnig rétt að taka mið af því að í umsögn Umhverfisstofnunar segir að þröskuldur í Skutulsfirði gefi vísbendingar um að hugsanlega geti verið lítil vatnsskipti á sjávarbotninum, sem leiðir til frekari möguleika á neikvæðum áhrifum á botndýralíf.

 

Eins og fram kemur í III. kafla er það mat ráðuneytisins að fyrirliggjandi straummælingar framkvæmdaraðila séu fullnægjandi. Ráðuneytið telur hins vegar í ljósi þess að ýmsar upplýsingar skortir um framkvæmdina og þess að í málinu liggja fyrir gögn sem benda til þess að núverandi þorskeldi hafi nú þegar haft neikvæð áhrif á botndýralíf, að ekki sé unnt að álykta sem svo að hafstraumar tryggi nægjanlega dreifingu úrgangsefna vegna framkvæmdarinnar. 

 

Með vísan til alls þessa er það er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. desember 2009 um að eldi á allt að 900 tonnum á ári af þorski í Skutulsfirði við Ísafjarðarbæ skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Sérstaklega er vísað til þess að vísbendingar eru um að núverandi eldisstarfsemi Álfsfells ehf. í Skutulsfirði hafi nú þegar haft neikvæð áhrif á botndýralíf, grunnupplýsingar skortir, m.a. um lífríki svæðisins, áhrif á dýralíf og vistkerfi, burðarþol svæðisins, sammögnunaráhrif með annarri starfsemi og skilgreiningu á svæðinu sem viðtaka. Þá eru takmarkanir á möguleikum á að færa til sjókvíar og veitir tilvist þröskulds í Skutulsfirði vísbendingar um að hugsanlega geti verið lítil vatnsskipti á sjávarbotni. Í þessu sambandi vísar ráðuneytið sérstaklega til i. og ii. liða 1. tölul., iv. liðar 2. tölul. og i. og ii. liðir 3. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. desember 2009, um að fyrirhugað eldi á allt að 900 tonnum á ári af þorski í Skutulsfirði við Ísafjarðarbæ skuli háð mati á umhverfisáhrifum, er staðfest. 

 
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum