Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 3/2004: Dómur frá 19. maí 2004

Ár 2004, miðvikudaginn 19. maí, var í Félagsdómi í málinu nr.  3/2004.

Alþýðusamband Íslands f.h.

Starfsgreinasambandsins vegna

Verkalýðsfélagsins Hlífar

(Herdís Hallmarsdóttir hdl.)

gegn

Bátagerðinni Samtaki ehf.

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur 

d ó m u r

 

Mál þetta var dómtekið 21. apríl sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Valgeir Pálsson.

  

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Starfsgreinasambandsins, kt. 601000-3340, Sætúni 1, Reykjavík, vegna Verkalýðsfélagsins Hlífar, kt. 620169-3319, Reykjavíkurvegi 64, Hafnarfirði.

 

Stefndi er Bátagerðin Samtak ehf., kt. 550385-0749, Viðarási 87, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

Að dæmt verði að stefndi hafi brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 með uppsögn trúnaðarmanns stefnanda, Jóns Garðars Jónssonar, úr starfi.

Að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar samkvæmt 65. gr. laga nr. 80/1938.

Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda 

Fyrir Félagsdómi gerir stefndi eftirfarandi kröfur verði máli þessu ekki vísað frá dómi ex officio:

Að kröfum stefnanda um að dæmt verði að stefndi hafi brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 verði hafnað.

Að kröfum stefnanda um að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar skv. 65. gr. laga nr. 80/1938 verði hafnað.

Að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.

 

Málavextir

Samkvæmt lögum Verkalýðsfélagsins Hlífar nær starfssvæði félagsins yfir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Stefndi, Bátagerðin Samtak ehf., rekur starfsemi í Hafnarfirði þar sem starfa félagsmenn stefnanda en fyrirtækið á hvorki aðild að vinnuveitendafélagi né Samtökum atvinnulífsins samkvæmt upplýsingum samtakanna.  Árla hinn 21. janúar sl. tilkynnti stefnandi, Verkalýðsfélagið Hlíf, stefnda um kjör trúnaðarmanns félagsins en félagsmenn stefnanda sem starfa hjá stefnda höfðu kosið Jón Garðar Jónsson úr sínum hópi til að gegna þessu embætti.  Þann sama dag, 21. janúar um hádegisbil, fékk Jón Garðar í hendur uppsagnarbréf, þar sem honum var sagt upp störfum hjá stefnda með viku fyrirvara og heimilað að láta strax af störfum.

Í kjölfar uppsagnarbréfsins vék trúnaðarmaðurinn af vinnustaðnum og kynnti stefnanda málavöxtu.  Stefnandi ritaði stefnda bréf, dags. 22. janúar 2004, og mótmælti framgangi hans jafnframt því sem krafist var að uppsögnin væri dregin til baka.  Féllst stefndi ekki á þá kröfu stefnanda.

Stefnandi heldur því fram að Jón Garðar hafi, með uppsögninni, verið látinn gjalda þess að hafa fallist á að taka að sér starf trúnaðarmanns á vinnustaðnum.

Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að Jóni Garðari hafi verið sagt upp vegna vanrækslu í starfi og vegna samstarfsörðugleika við þá sem með honum hafi starfað.  Stefndi heldur því fram að Jón Garðar hafi verið áhugalaus í starfi og komið hafi fyrir að hann hafi verið alvarlega kærulaus í starfi sínu.  Hann hafi verið áminntur nokkrum sinnum af þeim sökum.  Í janúarmánuði hafi keyrt um þverbak og í tvígang hafi orðið slík vanræksla af hans hálfu að forsvarsmenn stefnda hafi orðið að grípa til þess ráðs að segja honum upp störfum.  Stefndi kveður Jón Garðar hafa fengið áminningu í starfi hinn 7. janúar sl. og hafi hann þá rokið brott af vinnustað, skilið eftir hálfstorknandi trefjaplast og verðmæti í algeru uppnámi.  Tekist hafi að koma í veg fyrir stórtjón með því að kveðja til þrjá starfsmenn til þess að reyna að forða því að bátur ónýttist af þessum sökum.  Stefndi kveður Jón ekki hafa tekið áminningum og umkvörtunum og hinn 16. janúar hafi endurtekning orðið á atferli hans.  Hann hafi horfið af vinnustað þann dag án þess að ljúka störfum og án þess að hafa uppi skýringar.  Stefndi kveður Jón hafa verið áminntan og telur að hann hafi haft ástæðu til þess að ætla að honum yrði sagt upp störfum vegna vanhæfni og ósamlyndis við aðra á vinnustað.  Enda hafi verið tekin ákvörðun um það hinn 16. janúar að segja Jóni Garðari upp störfum og því verið fylgt eftir með bréflegri uppsögn hinn 20. janúar sl. 

Stefndi telur ljóst, að umræddur starfsmaður Jón Garðar, hafi haft samband við starfsmann Hlífar í Hafnarfirði og kvatt hann til liðs við sig, því að svo sé látið heita að haldinn hafi verið fundur starfsmanna, þar sem því sé haldið fram, að Jón Garðar hafi verið kjörinn trúnaðarmaður á vinnustað.  Stefndi hafi engar upplýsingar haft um slíkan fund, enda hvorki látinn um það vita né verið boðaður.  Kolbeini, starfsmanni Stéttarfélagsins Hlífar, hafi hins vegar verið tilkynnt, hinn 20. janúar, að búið væri að segja Jóni Garðari upp störfum.

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að Jón Garðar hafi verið áminntur að viðlögðum starfsmissi vegna slælegra vinnubragða.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Í 11. gr. laga nr. 80/1938 er kveðið á um sérstaka vernd trúnaðarmanna stéttarfélaga  Er þar kveðið á um að óheimilt sé að segja trúnaðarmönnum upp vegna trúnaðarmannsstarfa þeirra eða láta þá á nokkurn hátt gjalda þeirra starfa fyrir stéttarfélag sitt.  Jafnframt er kveðið á um það sérstaklega að þurfi atvinnurekandi að fækka starfsmönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.

Stefnandi telur að stefndi hafi ótvírætt brotið gegn þeirri afdráttarlausu vernd sem 1. málsliður 11. gr. laga nr. 80/1938 veitir trúnaðarmanni hans þegar Jón Garðar Jónsson var, samdægurs, látinn gjalda þess að hafa fallist á að taka að sér starf trúnaðarmanns.

Stefnandi hafi ekki haft á að skipa trúnaðarmanni í starfi hjá stefnda um árabil og hafi því verið brýnt að vinna bug á því ástandi en ótvírætt sé að starfsmenn muni hika við að taka slíkan starfa að sér hjá atvinnurekanda sem skirrist ekki við að segja trúnaðarmanni umsvifalaust upp störfum, þvert gegn öllum lögum og reglum.  Tilætlan löggjafans um trúnaðarmenn stéttarfélaga væri að engu höfð ef stefnda héldist uppi sá framgangsmáti sem hann hafi brúkað í máli þessu.

Stefndi hafi ekki fært nein málefnaleg rök fyrir ákvörðun sinni um að knýja á um starfslok Jóns Garðars.  Engin rök sem réttlætt hafi að honum væri sagt upp störfum.

Þær staðhæfingar um vanhæfni í starfi, sem eftir á hafi verið færðar fram munnlega af hálfu stefnda, þegar gerðum stefnda hafi verið mótmælt og vakin athygli á því að brotið væri gegn vinnulöggjöfinni, séu ekki heldur fullnægjandi til að rýmt sé út þeirri sérstöku réttarvernd sem 11. gr. laga nr. 80/1938 kveður á um til handa trúnaðarmönnum.  Þótt þau sjónarmið hefðu legið til grundvallar ákvörðun stefnanda hefði það engu breytt þar sem þau hafi verið færð fram eftir á til réttlætingar.  Við þær aðstæður, sem sé mótmælt, bæri honum að veita trúnaðarmanninum áminningu að viðlögðum starfsmissi ef út af brygði við framkvæmd starfans og síðan hefði honum borið að veita trúnaðarmanninum eðlilegt svigrúm til að bæta sig í starfi.  Áminning og svigrúm til að bæta úr ágöllum við framkvæmd starfa sé einmitt ein birtingarmynd hinnar sérstöku verndar trúnaðarmanna sem 11. gr. laga nr. 80/1938 fjalli um.  Trúnaðarmaður stefnanda njóti þeirrar verndar frá og með þeirri stundu að tilkynnt er um skipan hans.  Meintar ráðagerðir stefnda um uppsögn breyti engu.  Þar sem hann hafi ekki verið búinn að segja Jóni Garðari upp þá geti hann ekki gert það nú án ástæðu.

Að mati stefnanda leiki ekki vafi á því að stefndi hafi brotið með ólögmætum hætti gegn 11. gr. laga nr. 80/1938.  Viðurlög við brotum á lögunum séu sekt samkvæmt 65. gr. laga nr. 80/1938 og sé þess krafist að stefnda verði dæmd sekt fyrir hið ólögmæta brot enda brot stefnda næsta ótvírætt og viðurhlutamikið.

Varðandi lagarök byggir stefnandi á meginreglum vinnuréttar um réttarvernd trúnaðarmanna sem og lögum nr. 80/1938, sérstaklega 11. gr. og 65. gr. sem og 1. tl. 44. gr.  Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafist er álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti, stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn fyrir því að fá álag, er honum nemur, dæmt úr hendi gagnaðila.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt að uppsögn Jóns Garðars Jónssonar hafi eingöngu verið byggð á vanrækslu hans í starfi og samstarfserfiðleikum við þá sem með honum hafi starfað.  Stefnda hafi verið nauðugur einn kostur að segja honum upp störfum vegna vanrækslu og brota í starfi. 

Er uppsögn fór fram hafi stefnda verið algerlega ókunnugt um að Jón Garðar Jónsson hafi verið útnefndur trúnaðarmaður af hálfu einhverra starfsmanna í fyrirtækinu eða fulltrúa stéttarfélagsins.

Stefndi telur að eigi hafi verið farið að lögum nr. 80/1938, en í 9. gr. segi svo:

"Á hverri vinnustöð þar sem a.m.k. 5 menn vinna hefur stjórn stéttarfélags þess sem á staðnum er í viðkomandi starfsgrein rétt til að tilnefna 2 menn til trúnaðarstarfa úr hópi þeirra sem á staðnum vinna.  Skal atvinnurekandi samþykkja annan þeirra sem trúnaðarmann stéttarfélagsins á vinnustöðinni."

Atvinnurekanda, þ.e. stefnda í máli þessu, hafi ekki gefist kostur á að hafa neitt um það að segja hver til trúnaðarmannsstarfa skyldi valinn.  Með sama hætti hafi stefnda ekki verið tilkynnt um neinn fund á vinnustað af þeim sökum.  Því sé haldið fram að haldinn hafi verið vinnustaðafundur þar sem kjörinn hafi verið trúnaðarmaður.  Engu fundarboði hafi verið til að dreifa á vinnustað og enginn fyrirvari fyrir hinum svokallaða fundi starfsmanna.  Fyrir liggi að aðeins hluti starfsmanna hafi fengið upplýsingar eða boðun á umræddan fund og hafi því aðeins hluta starfsmanna gefist kostur á að fjalla um val trúnaðarmanns.

Flestallir starfsmenn Samtaks ehf. séu af erlendu bergi brotnir og tali ekki íslensku.  Af hálfu stefnda sé því haldið fram að Jón Garðar Jónsson hafi reynt að misnota aðstöðu sína með því að telja mönnum trú um að rétt væri að velja hann sem trúnaðarmann í fyrirtækinu.  Verði að skoða það í ljósi þess að hann hafi fengið áminningar í starfi og verið hótað uppsögn, áður en umræddur fundur hafi verið haldinn.  Verði að telja að hann hafi hagnýtt sér aðstöðu sína með óeðlilegum hætti og a.m.k. freistað þess að skapa sér sérstöðu innan fyrirtækisins, þar sem hann hafi verið sýnu lakastur starfsmaðurinn og sá sem minnsta starfsreynslu hafði.

Þegar litið sé til framlagðs skattkorts Jóns Garðars Jónssonar sé einsýnt að umræddur starfsmaður hafi að mestu leyti síðustu tvö ár þegið tekjur frá Úthlutunarnefnd atvinnubóta fyrir Vesturland og ekki verið í starfi.

Af hálfu stefnda er vakin athygli á því að tilgangur 11. gr. laga nr. 80/1938 sé sá að koma í veg fyrir að trúnaðarmaður gjaldi þess að hann gegni starfi trúnaðarmanns.  Í þessu tilviki sé ljóst að vinnuveitanda hafi verið algerlega ókunnugt um að hann hafi komið því svo fyrir að láta velja sig sem trúnaðarmann og sé uppsögnin ekki í neinum tengslum við hugsanlega starfsskyldu eða trúnaðarstörf hans í þágu stéttarfélags síns eða annarra á vinnustað.  Uppsögnin hafi alfarið byggst á vanrækslu starfsmannsins í starfi.

Stefndi telur ekki unnt að beita 11. gr. laganna og skýra svo rúmt að trúnaðarmaður á vinnustað geti yfirleitt verið friðhelgur og þurfi ekki einu sinni að sinna starfsskyldum sínum gagnvart vinnuveitanda.  Skýra beri slíkt ákvæði þröngt og samkvæmt orðanna hljóðan þannig að það eigi einungis við störf viðkomandi sem trúnaðarmanns.  Grein þessi geti ekki átt við eða verið rökstuðningur fyrir kröfugerð stefnanda og ljóst verði að telja að mál þetta falli ekki undir Félagsdóm eins og það liggi fyrir og beri að vísa málinu frá ex officio .

Af hálfu stefnanda sé gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar, sem sé rökstudd með ákvæði 65. gr. l. nr. 80/1938.  Í máli þessu horfi engan veginn svo við að stefndi hafi brotið á rétti stefnanda samkvæmt kjarasamningi.  Ákvæðum 65. gr. verði því ekki beitt í þágu stefnanda í máli þessu. 

Af hálfu stefnda er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins, en vísað er til ákvæða einkamálalaga nr. 91/1991 einkum 130. gr. 1. gr.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, er meðal verkefna Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á lögum þessum. Dómkrafa stefnanda lýtur að því að dæmt verði að stefndi hafi brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 með uppsögn trúnaðarmanns stefnanda, Jóns Garðars Jónssonar, úr starfi. Athugasemd stefnda í greinargerð um frávísun málsins án kröfu, þar sem það falli ekki undir valdsvið dómsins, á því ekki við rök að styðjast.

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1938 er mælt svo fyrir að á hverri vinnustöð, þar sem a.m.k. 5 menn vinna, hafi stjórn stéttarfélags þess sem á staðnum er í viðkomandi starfsgrein rétt til að tilnefna 2 menn til trúnaðarmannsstarfa, úr hópi þeirra sem á staðnum vinna. Skal atvinnurekandi samþykkja annan þeirra sem trúnaðarmann stéttarfélagsins á vinnustöðinni. 

Í grein 13.1.1. í gildandi kjarasamningi  stefnanda, Verkalýðsfélagsins Hlífar, við Samtök atvinnulífsins er ákvæði um kosningu trúnaðarmanna.  Þar segir að verkamönnum sé heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem starfa 5 til 50 verkamenn og tvo trúnaðarmenn séu verkamenn fleiri en 50.  Að kosningu lokinni tilnefnir viðkomandi stéttarfélag trúnaðarmennina.  Verði kosningu ekki við komið skulu trúnaðarmenn tilnefndir af viðkomandi stéttarfélagi.  Í grein 13.1.2. er mælt svo fyrir að trúnaðarmenn verði eigi kosnir eða tilnefndir til lengri tíma en tveggja ára í senn.

Samkvæmt 1. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938 er atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Í 2. málslið lagagreinarinnar er tekið fram að þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.

Í málinu liggur fyrir að félagsmenn stefnanda sem starfa hjá stefnda höfðu kosið Jón Garðar Jónsson úr sínum hópi til að gegna embætti trúnaðarmanns til næstu tveggja ára á fundi 20. janúar 2004. Viðstaddur fundinn var formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, Kolbeinn Gunnarsson.  Af hálfu stefnda hafa verið gerðar athugasemdir við lögmæti kjörs trúnaðarmannsins. Ekki verður annað séð en kjör trúnaðarmannsins hafi farið fram í samræmi við fyrrgreint kjarasamningsákvæði um val á trúnaðarmönnum sem stefndi er bundinn af.

Ágreiningslaust er að Kolbeinn Gunnarsson mætti á starfsstöð stefnda kl. 9:30 hinn 21. janúar 2004 og afhenti Hauki Sveinbjarnarsyni, stjórnarmanni og framkvæmdastjóra stefnda, tilkynningu um kjör Jóns Garðars Jónssonar sem trúnaðarmanns.

Stjórnarformaður stefnda, Snorri Hauksson, greindi frá því fyrir dómi að snemma að morgni 21. janúar 2004 hefði uppsagnarbréf  Jóns Garðars Jónssonar verið lagt í rekka við stimpilklukku á vinnustað.  Jón Garðar bar fyrir dómi að hann hefði fyrst fengið uppsagnarbréfið í hendur á hádegi þess dags, er hann stimplaði sig úr vinnu vegna hádegishlés. Uppsögn bindur viðtakanda frá þeim tíma sem hún er komin til hans og hann á þess kost að kynna sér efni hennar.  Gegn andmælum Jóns Garðars Jónssonar hefur stefndi ekki sannað að hann hafi sagt Jóni Garðari upp starfi áður en tilkynnt var um kjör hans sem trúnaðarmanns. Í uppsagnarbréfi eru ástæður uppsagnar ekki tilgreindar. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að ástæður uppsagnar hafi verið aðrar en kjör Jóns Garðars sem trúnaðarmanns, svo sem vanræksla í starfi eða samstarfserfiðleikar.

Samkvæmt framansögðu verður að telja að með uppsögninni hafi Jón Garðar Jónsson verið látinn gjalda þess að hann var kjörinn trúnaðarmaður.  Verður því að telja að með uppsögninni hafi stefndi, Bátagerðin Samtak ehf., brotið gegn 1. málslið 11. gr. laga nr. 80/1938 og uppsögnin því verið ólögmæt. Ber því að dæma stefnda til greiðslu sektar í ríkissjóð samkvæmt 70. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 65. gr. sömu laga.  Telst sekt hæfilega ákveðin 200.000 krónur.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Dómsorð

Stefndi, Bátagerðin Samtak ehf., braut gegn 1. málslið 11. gr. laga nr. 80/1938 með uppsögn Jóns Garðars Jónssonar, trúnaðarmanns Verkalýðsfélagsins Hlífar.

Stefndi, Bátagerðin Samtak ehf., greiði 200.000 króna sekt í ríkissjóð.

Stefndi greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambandsins vegna Verkalýðsfélagsins Hlífar 200.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson.Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum