Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 344/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 344/2021

Miðvikudaginn 10. nóvember 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 5. júlí 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 26. mars 2021 um að synja umsókn kæranda um styrk til kaupa á blóðsykursmæli.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sendi inn umsókn, dags, 23. mars 2021, til Sjúkratrygginga Íslands um styrk til kaupa á blóðsykursmæli. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 26. mars 2021, var umsókn kæranda synjað og þær skýringar veittar að stofnunin tæki ekki þátt í endurgreiðslu á Veri blóðsykursmæli. Með beiðni, dags. 27. mars 2021, óskaði kærandi eftir rökstuðningi ákvörðunarinnar sem barst með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. apríl 2021. Kærandi óskaði eftir frekari rökstuðningi með beiðni, dags. 7. apríl 2021, sem barst með tölvubréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 8. apríl 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. júlí 2021. Með bréfi, dags. 8. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. ágúst 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. ágúst 2021. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 20. ágúst 2021, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 25. ágúst 2021. Viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi þann 8. september 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. september 2021. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi þann 24. september 2021 og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi þann 28. september 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi kæranda verið synjað um greiðsluþátttöku vegna kaupa á nema til blóðsykursmælinga, en kærandi sé með sykursýki 1. Kærandi hafði áður fengið upplýsingar um það hjá Sjúkratryggingum Íslands að blóðsykursmælirinn fengist greiddur. Sá blóðsykursmælir sem um ræði sé af gerðinni Freestyle Libre frá Abbott. Blóðsykursneminn hafi verið keyptur hjá C og hafi kassi utan um pakkningarnar verið merktur Veri. Á kvittun segi Veri blóðsykursmælir en mælirinn sé í raun frá Abbott eins og sjá megi á mynd af pakkningunum sem meðfylgjandi hafi verið kæru. Kærandi hafi fyrir kaupin fengið um það upplýsingar símleiðis og í tölvupósti að hún ætti að senda kvittun til að fá endurgreiðslu. Enginn fyrirvari hafi verið gerður varðandi það hvort pakkningar væru frá Veri og að þá væri engin greiðsluþátttaka.

Vitað sé og staðfest hafi verið af Sjúkratryggingum Íslands að ef slíkir blóðsykursmælar séu keyptir erlendis sé full endurgreiðsla/greiðsluþátttaka. Í rökstuðningi fyrir synjun um greiðsluþátttöku segi að blóðsykursmælirinn teljist ekki lækningatæki. Í því sambandi beri að hafa í huga annars vegar að áður hafi verið upplýst um það símleiðis af Sjúkratryggingum Íslands að endurgreiðsla fengist og hins vegar að um sé að ræða nema frá framleiðandanum Abbott sem þegar séu endurgreiddir fyrir sjúklinga með sykursýki 1. Fyrir liggi að kærandi sé með sykursýki 1 sem veiti rétt á greiðsluþátttöku vegna blóðsykursmæla. Hún hafi fengið upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands um að endurgreitt yrði. Neminn, sem hún hafi keypt og notað, sé frá Abbott og sé lækningatæki. Með vísan til jafnræðisskyldu stjórnvalds og réttmætra væntinga kæranda í ljósi upplýsinga sem gefnar hafi verið af hálfu Sjúkratrygginga Íslands, geri kærandi kröfu um endurgreiðslu í samræmi við kröfu þar að lútandi til Sjúkratrygginga Íslands. Með því að synja kæranda um endurgreiðslu sé brotið á jafnræði hennar, enda liggi fyrir að endurgreiðsla fáist vegna sama blóðsykursmælis ef hann sé keyptur erlendis frá.

Því sé gerð krafa um að synjun Sjúkratrygginga Íslands um greiðsluþátttöku vegna kaupa kæranda á blóðsykursnemanum verði felld úr gildi og lagt fyrir Sjúkratryggingar Íslands að taka nýja ákvörðun sem staðfesti greiðsluþátttöku.

Í athugasemdum kæranda, dags. 20. ágúst 2021, segir að deilt sé um rétt kæranda til endurgreiðslu vegna kaupa á blóðsykursmæli. Eftir að Sjúkratryggingar Íslands hafi símleiðis gefið þær upplýsingar að greiðsluþátttaka vegna Freestyle Libre blóðsykursnema væri samþykkt, hafi kærandi fengið synjun þegar umsókn hafi formlega verið send inn. Þar sem ekki hafi verið hægt að kaupa Freestyle Libre blóðsykursnema hér á landi, hafi kærandi keypt slíkan blóðsykursnema hjá D. Utan um hefðbundnar pakkningar hafi pakkning verið merkt Veri, en blóðsykursneminn hafi eftir sem áður verið sá sami frá Freestyle Libre.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 5. ágúst 2021, komi skýrlega fram að einstaklingar hafi fengið endurgreiðslu vegna kaupa á umræddum búnaði. Þannig séu fordæmi fyrir endurgreiðslu vegna umrædds búnaðar, rétt eins og staðfest hafi verið símleiðis við kæranda. Reglugerð nr. 1155/2013, með síðari breytingum, það er reglugerðin sem hafi verið í gildi þegar umræddur búnaður hafi verið keyptur og óskað hafi verið endurgreiðslu vegna, setji ekki fram skilyrði fyrir endurgreiðslu á búnaði til blóðsykursmælinga að umræddur búnaður falli undir skilgreiningu lækningatækja. Þvert á móti sé ekkert slíkt skilyrði að finna í reglugerðinni. Fyrir einstakling sem sé með sykursýki 1, sem sé ólæknandi eins og kunnugt sé, sé fráleitt að vísa til ákvæðis í reglugerðinni sem vísi til þess að hjálpartæki sem eingöngu séu til nota í frístundum eða til afþreyingar, þar á meðal útivistar og íþrótta, falli ekki undir hjálpartæki þar sem endurgreiðsla eigi við. Einstaklingar með sykursýki 1 þurfi á hverjum degi og oft á dag að mæla blóðsykurinn. Nemar til blóðsykursmælinga séu til þess ætlaðir að ekki þurfi að mæla jafn oft hvern dag með hefðbundnum blóðsykursmælum. Umræddur nemi, sem kærandi hafi keypt eftir að hafa fengið ráðgjöf símleiðis og í tölvupósti frá starfsfólki Sjúkratrygginga Íslands, sé hjálpartæki sem notað sé vegna ólæknandi sjúkdóms en ekki til nota í frístundum eða til afþreyingar.

Kærandi árétti að hún eigi fullan rétt á endurgreiðslu vegna blóðsykursnemans, ákvæði reglugerðar þar að lútandi séu skýr, framkvæmd sé hjá Sjúkratryggingum Íslands um endurgreiðslu vegna kaupa á Freestyle Libre nemum og hún hafi fengið upplýsingar um það frá Sjúkratryggingum Íslands að endurgreiðsla fengist. Hafi hún því mátt treysta því að þær upplýsingar stæðust. Engu máli skipti í þessu sambandi þótt aðrar pakkningar hafi verið utan um blóðsykursnema sem óumdeilt sé að hafi verið Freestyle Libre nemi.

Kærandi áréttar kröfur sínar um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á kröfu hennar um endurgreiðslu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 24. september 2021, áréttar kærandi fyrri athugasemdir sínar.

Í greinargerð Sjúkratrygginga, dags. 8. september 2021, kemur fram að Sjúkratryggingar taki þátt í að greiða kostnað vegna Freestyle Libre til einstaklinga „sem hafa slíkan búnað með öllu sem honum tilheyrir.“ Í því sambandi sé vísað til þess að búnaður samanstandi af bæði nema og hugbúnaði. Þá segi í greinargerðinni að Veri búnaður sé „ekki til notkunar í læknisfræðilegum tilgangi án viðkomandi hugbúnaðar.“

Staðreynd málsins sé hins vegar sú að Freestyle Libre neminn, sem kærandi hafi keypt, hafi virkað fullkomlega með hugbúnaði til mælinga á blóðsykri og hafi niðurstöður þeirra mælinga eðli málsins samkvæmt verið notaðar til að ákvarða insúlíngjöf sem sé lífsnauðsynleg fyrir þá einstaklinga sem séu með sykursýki 1. Ekki hafi verið í þágildandi reglugerð nr. 1155/2013 áskilnaður um að styrkir vegna hjálpartækja gætu eingöngu náð til skilgreindra lækningatækja; aðeins sé vísað til hjálpartækja sem teljist nauðsynleg og hentug til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Óumdeilt sé að blóðsykursneminn, sem kærandi hafi keypt falli undir þá skilgreiningu, og jafnt og allra þeirra sem séu með sykursýki 1 sé þeim nauðsynlegt að mæla blóðsykur reglulega til að ákvarða lyfjagjöf.

Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands um að umræddur blóðsykursnemi geti ekki fallið undir hjálpartæki í skilningi reglugerðar nr. 1155/2013 sé hafnað sem röngu. Engin lagaheimild sé til að hafna endurgreiðslu á þeim grundvelli.

Kærandi árétti að hún eigi fullan rétt á endurgreiðslu vegna blóðsykursnemans, ákvæði reglugerðar þar að lútandi séu skýr, framkvæmd sé hjá Sjúkratryggingum Íslands um endurgreiðslu vegna kaupa á Freestyle Libre nemum og hún hafi fengið upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands um að endurgreiðsla fengist. Hún hafi mátt treysta því að þær upplýsingar stæðust. Engu máli skipti í þessu sambandi þó að aðrar pakkningar hafi verið utan um blóðsykursnema sem óumdeilt sé að hafi verið Freestyle Libre nemi. Þá skuli áréttað að hugbúnaður hafi virkað með nemanum.

Kærandi árétti kröfur sínar um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á kröfur hennar um endurgreiðslu.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að kærandi sé með samþykkt fyrir blóðstrimlum, efni til blóðsykursmælinga. Í stöku tilfellum hafi einstaklingar óskað eftir að fá að kaupa Freestyle Libre blóðsykursnema út á þessa heimild og fá þá endurgreiðslu fyrir þeim búnaði sem nemi kostnaði við blóðsykursstrimla á sama tímabili. Freestyle Libre sé tækni frá Abbott Diabetes Care sem hafi komið á markað í Bretlandi síðari hluta árs 2014. Freestyle Libre blóðsykursmælirinn samanstandi af aflesara og nema, auk þess sem hægt sé að hlaða niður smáforriti í síma þannig að hann virki sem aflesari og haldi utan um sögu einstaklingsins. Umræddur búnaður sé enn ekki kominn á markað hér á landi en nokkrir einstaklingar hafi keypt búnaðinn erlendis frá.

Í hinu kærða tilviki hafi verið óskað eftir endurgreiðslu á kostnaði vegna kaupa á Veri búnaði sem seldur sé hér á landi, meðal annars hjá D og F. Veri búnaður sé seldur sem lífsstílsvara með það að markmiði að fólk „læri betur inn á líkama sinn“. Neminn byggi á sambærilegri tækni og Freestyle Libre en íhlutir og smáforrit sé annað.

Greiðsluþátttöku í umræddum búnaði, Veri, hafi verið synjað á þeim grundvelli að ekki sé um samþykkt lækningatæki að ræða sem skuli notað til meðferðar á sykursýki.

Þágildandi reglugerð nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja, með síðari breytingum, nú reglugerð nr. 760/2021, sé sett samkvæmt ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, en þar segi að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem séu til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setji.

Framangreind reglugerð kveði endanlega á um hvaða hjálpartæki falli undir styrkveitingu, greiðsluhluta Sjúkratrygginga Íslands og magn hjálpartækja til sérhvers sjúkratryggðs einstaklings þegar það eigi við. Umsókn skuli meta eftir færni og sjúkdómi hvers og eins umsækjanda og kveði reglugerðin á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi í hverju tilfelli. Í reglugerðinni komi fram að einkum sé um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Samkvæmt reglugerðinni sé styrkur veittur til að bæta möguleika viðkomandi einstaklings til að sjá um daglegar athafnir, styrkur sé hins vegar ekki greiddur ef hjálpartæki sé eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar, þar á meðal útivistar og íþrótta. Þegar um ný hjálpartæki sé að ræða þar sem lítil eða engin þekking eða reynsla liggi fyrir geti Sjúkratryggingar Íslands áskilið staðfestingar um gagnreynda meðferð og reynslu tækis.

Sem fyrr segi hafi greiðsluþátttöku á umræddum búnaði, Veri, verið synjað á þeim grundvelli að ekki sé um samþykkt lækningatæki að ræða sem sé forsenda greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í sykursýkisbúnaði. Aðeins megi setja lækningatæki á markað eða taka það í notkun ef það sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

Lyfjastofnun hafi eftirlit með lækningatækjum, öryggi þeirra og réttri notkun samkvæmt þágildandi lögum nr. 16/2001 um lækningartæki. Þær upplýsingar hafi fengist frá E, sérfræðingi hjá Lyfjastofnun, að umræddur búnaður sé ekki á skrá í gagnagrunni Evrópusambandsins um lækningatæki, EUDAMED2.

Í notendaskilmálum Veri búnaðarins sé tiltekið að ekki sé um læknisfræðilegan búnað að ræða og að ráðgjöf þeirra taki mið af því.

Í kæru komi fram að í símtali hafi viðkomandi fengið upplýsingar um að heimilt væri að senda Sjúkratryggingum Íslands kvittun fyrir kaupum á Freestyle Libre blóðsykursnemum og fengi þá viðkomandi endurgreiðslu á útlögðum kostnaði ef viðkomandi ætti rétt á endurgreiðslu. Þegar Sjúkratryggingum Íslands hafi borist kvittun hafi komið í ljós að ekki hafi verið um að ræða Freestyle Libre heldur Veri, sem líkt og að ofan greini, sé ekki samþykkt sem lækningatæki. Greiðsluþátttöku hafi því verið hafnað af hálfu Sjúkratrygginga Íslands.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 8. september 2021, kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í að greiða kostnað vegna Freestyle Libre til einstaklinga sem hafi slíkan búnað með öllu sem honum tilheyri. Þá sé um að ræða fullt Freestyle Libre kerfi frá Abbott sem samanstandi bæði af nema og hugbúnaði til að lesa upplýsingar af nemanum og túlka þær fyrir einstaklinginn. 

Veri búnaðurinn, sem hér um ræði, sé aftur á móti frá fyrirtæki sem heiti Human Engineering Health OY. Þó að þessi vara noti Freestyle Libre nema, sé slíkur nemi ekki til notkunar í læknisfræðilegum tilgangi án meðfylgjandi hugbúnaðar. Smáforritið sem Veri byggi á sé að finna í vefverslun Appstore fyrir snjallsíma af gerðinni iPhone. Í öryggisupplýsingum fyrir smáforritið komi fram að þau gögn sem birt séu, séu til upplýsinga eingöngu og megi ekki nota í læknisfræðilegum tilgangi. Skýrt komi fram að smáforritið, Veri, sé ekki í eigu eða á nokkurn hátt tengt framleiðanda glúkósa sírita. Sykursýki 1 sé alvarlegur sjúkdómur og það skapi hættu ef upplýsingar um blóðsykur skili röngum eða ónákvæmum upplýsingum.

Samkvæmt þessu sé ljóst að þó að neminn sjálfur sé af gerðinni Freestyle Libre, sé Veri kerfið á engan hátt þróað sem læknisfræðilegur búnaður til að byggja á ákvarðanir sykursjúks einstaklings um lyfjanotkun, enda mæli framleiðandinn gegn slíkri notkun.

Kærandi hafi fengið upplýsingar um að Freestyle Libre búnaður sé niðurgreiddur af Sjúkratryggingum Íslands sem sé rétt. Eins og fram komi í gögnum málsins noti fyrirtækið Human Engineering Health OY Freestyle Libre nema sem hluta af sínu Veri kerfi.  Neminn sem slíkur sé gagnslaus án meðfylgjandi hugbúnaðar.

Að lokum skuli áréttað að umræddum búnaði hafi ekki verið synjað á grundvelli 1. mgr. 3. gr. reglugerðar sem fjalli um hjálpartæki til notkunar í frístundum eða afþreyingu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 26. mars 2021 um að synja umsókn kæranda um styrk vegna kaupa á blóðsykursmæli.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal meðal annars kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar hefur hjálpartæki verið skilgreint þannig að um sé að ræða tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig segir að hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Í þágildandi reglugerð nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í framangreindu ákvæði. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar greiða Sjúkratryggingar Íslands styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar.

Sjúkratryggingar Íslands hafa heimild samkvæmt 4. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar til að áskilja staðfestingar um gagnreynda meðferð eða reynslu tækis þegar um ný hjálpartæki sé að ræða þar sem lítil eða engin þekking eða reynsla liggi fyrir.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar eru styrkir eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum hennar. Í fylgiskjali með reglugerð nr. 1155/2013 er listi yfir hjálpartæki sem Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að greiða. Fjallað er um búnað (tæki og efni) til mælinga (efnamælinga) í flokki 0424 í fylgiskjali reglugerðarinnar. Mælar til blóðsykursmælinga koma fram í lið 04.24.90. Þar kemur fram að greiðsluþátttaka sé 50%, að hámarki 11.600 krónur.

Kærandi sótti um styrk til kaupa á Freestyle Libre blóðsykursmæli með Veri kerfi frá fyrirtækinu Human Engineering Health OY. Kæranda var synjað um greiðsluþátttöku á þeim grundvelli að ekki væri um samþykkt lækningatæki að ræða sem skuli notað til meðferðar við sykursýki. Sjúkratryggingar taka þátt í að greiða kostnað vegna Freestyle Libre blóðsykursmælis frá Abbot með því skilyrði að kerfið sem blóðsykursmælirinn styðjist við sé einnig frá Abbot. Fyrir liggur að blóðsykursmælir sá sem kærandi sótti um styrk vegna er ekki með kerfi frá Abbot heldur notar fyrirtækið Human Engineering Health OY Freestyle Libre blóðsykursmæli frá fyrirtækinu Abbot með Veri kerfi sínu. Á heimasíðu Veri kemur fram að það sé hannað fyrir einstaklinga sem vilji bæta heilsu sína með því að skilja hvernig líkami þeirra bregðist við þeim mat sem þeir innbyrði. Þá er sérstaklega tekið fram að Veri skuli ekki nota í læknisfræðilegum tilgangi, meðal annars til að meðhöndla sjúkdóma tengda blóðsykri. Enn fremur er tekið fram að frábendingar fyrir notkun Veri séu þær að einstaklingar með sykursýki 1 eða 2 noti kerfið. Ljóst er því að Veri kerfið er ekki ætlað til notkunar af þeim sem eru meðal annars með sykursýki 1. Af framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tilefni til að gera athugasemdir við synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um styrk til kaupa á blóðsykursmæli. Enn fremur telur úrskurðarnefndin málefnalegt að Sjúkratryggingar Íslands setji það sem skilyrði fyrir greiðslu kostnaðar vegna blóðsykursmælis að það kerfi sem notað sé með mælinum sé ætlað til meðferðar á sykursýki.

Kærandi byggir á því að brotið sé á jafnræði hennar með því að synja henni um greiðsluþátttöku, enda liggi fyrir að endurgreiðsla vegna sama blóðsykursmælis fáist ef hann sé keyptur erlendis frá. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Úrskurðarnefnd telur ljóst að umræddur Freestyle Libre blóðsykursmælir, notaður með Veri hugbúnaði, sé ekki ætlaður til notkunar við sykursýki af þeirri gerð sem kærandi glímir við. Greiðsluþátttaka eigi við um alla í sömu stöðu og því er ekki fallist á að um brot á jafnræðisreglu sé að ræða.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um greiðsluþátttöku til kaupa á Freestyle Libre blóðsykursmæli með Veri hugbúnaði er staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 26. maí 2021 um að synja umsókn A, um greiðsluþátttöku vegna blóðsykursmælis, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira