Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 32/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 12. desember 2019
í máli nr. 32/2019:
Reykjafell hf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Smith & Norland hf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 27. nóvember 2019 kærir Reykjafell hf. samningsgerð Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) við Smith & Norland hf. um vélbúnað og hugbúnað auk þjónustusamnings vegna uppfærslu á miðlægri stýringu umferðarljósa í Reykjavík og útboð varnaraðila nr. 14356 auðkennt „Rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli varnaraðila þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þá er þess jafnframt krafist að kærunefnd útboðsmála „lýsi óvirkan, með eða án annarra viðurlaga, samning milli varnaraðila og Smith & Norland/Siemens um vélbúnað og hugbúnað auk þjónustusamnings vegna uppfærslu á miðlægri stýringu umferðarljósa í Reykjavík“. Jafnframt er þess krafist að hið kærða útboð verði fellt úr gildi og að lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða að nýju út innkaup á stýribúnaði umferðarljósa. Þess er einnig krafist að að „[h]ið nýja útboð lúti að stýribúnaði í heild sinni og verði án skilyrða sem lúta að tækni og búnaði frá einum framleiðanda (t.d. Sitraffic Scala, Sitraffic Office, Sitraffic STREAM og MOTION frá Siemens) og annarra skilyrða sem leiða til þess að einungis eitt fyrirtæki geti í raun boðið í alla hluta útboðsins.“ Kærandi krefst þess til vara að hið kærða útboð verði fellt úr gildi og að lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða út að nýju innkaup á stýribúnaði umferðarljósa og til þrautavara að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Samkvæmt gögnum málsins gerði varnaraðili á árinu 2019 samning við Smith & Norland hf. um kaup á vélbúnaði og hugbúnaði auk þjónustusamnings vegna uppfærslu á miðlægri stýringu umferðarljósa í Reykjavík. Hinn 14. október október 2019 auglýsti varnaraðili rammasamningsútboð á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem óskað var eftir fyrirtækjum til þátttöku í rammasamningi um stýribúnað umferðarljósa. Útboðinu var skipt í tiltekna hluta og var bjóðendum heimilt að bjóða í einn eða fleiri hluta. Semja skyldi við einn eða fleiri bjóðendur sem byðu lægsta heildarverð. Skyldi tilboðum skilað eigi síðar en 11. nóvember 2019. Í útboðinu bárust þrjú tilboð, þ.á m. frá kæranda og Smith & Norland hf. Áður en kom að vali tilboðs var útboðið kært til kærunefndar útboðsmála. Með tölvupósti varnaraðila til bjóðenda 6. desember 2019 var upplýst að öllum tilboðum hefði verið hafnað þar sem komið hefði í ljós að ekki hefði verið gætt að ákvæðum laga nr. 120/2016 um opinber innkaup við ákvörðun tilboðsfresta. Tilboðsfresturinn hafi miðast við birtingu auglýsingar útboðsins á vef Reykjavíkurborgar og á utbodsvefur.is þann 11. október 2019 en hefði átt að miðast við birtingu auglýsingar í stjórnartíðindum Evrópusambandsins 15. október 2019. Því hefði opnun tilboða átt að fara fram 15. nóvember 2019 en ekki 11. nóvember 2019.

Kærandi byggir að meginstefnu til á því að varnaraðili hafi ákveðið fyrir fram að kaupa vörur af Smith & Norland ehf. Þannig hafi varnaraðili keypt lítinn hluta af búnaði við stýringu umferðarljósa beint af Smith & Norland hf. áður en stofnað hafi verið til hins kærða útboðs. Þá hafi útboðsgögn og valforsendur verið sniðnar að þeim vörum sem Smith & Norland hf. bauð. Jafnframt hafi frestir ekki verið í samræmi við lög, tilboðsfjárhæðir ekki verið lesnar upp á opnunarfundi auk þess sem ýmis önnur atriði við framkvæmd útboðsins hafi ekki samrýmst lögum. Varnaraðili byggir í þessum hluta málsins á því að þar sem öllum tilboðum hafi verið hafnað og útboðið fellt niður hafi kærandi ekki hagsmuni af stöðvun hins kærða útboðs.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Tilgangur þessa ákvæðis er fyrst og fremst að koma í veg fyrir gerð samnings þegar ákvörðun kaupanda um val tilboðs er ólögmæt. Í máli þessu liggur fyrir að öllum tilboðum hefur verið hafnað og hið kærða útboð fellt niður. Ekki stendur því til að gera samning á grundvelli hins kærða innkaupaferlis. Við þessar aðstæður getur ekki komið til stöðvunar innkaupaferlis á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Eru því ekki skilyrði til að verða við kröfu kæranda um að stöðva hið kærða innkaupaferli varnaraðila og verður kröfunni því hafnað.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Reykjafells ehf., um að útboð varnaraðila, Reykjavíkurborgar, nr. 14356 auðkennt „Rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa“, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

Reykjavík, 12. desember 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Sandra Baldvinsdóttir

Auður FinnbogadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira