Hoppa yfir valmynd

Nr. 428/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 20. október 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 428/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22090070

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 27. september 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Sílé (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. september 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd ásamt móður sinni og voru mál þeirra unnin samhliða. Fjallað er um umsókn hennar í úrskurði kærunefndar nr. 427/2022.

Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi að honum verði veitt alþjóðleg vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en til vara á grundvelli 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Til þrautavara er þess krafist að að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar í máli móður kæranda verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 14. mars 2022 ásamt móður sinni [...], fd. [...], ríkisborgara Venesúela (hér eftir K). Vegna ungs aldurs kæranda var framburður móður hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun lagður til grundvallar í máli hans hvað málsatvik varðar. Með ákvörðun, dags. 27. júní 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 12. júlí 2022. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 339/2022, dags. 7. september 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál hans til meðferðar á ný. Útlendingastofnun ákvað 12. september 2022 að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skuli synjað um réttarstöðu flóttamanns og viðbótarvernd á Íslandi. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 27. september 2022. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 11. október 2022, ásamt fylgigögnum.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann og móðir hans geti ekki snúið aftur til Venesúela og aukinheldur ekki til Síle vegna útlendingaandúðar og mismununar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli 3. mgr. 95. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og K kemur fram að K hafi flúið frá heimaríki til Síle vegna ofbeldis af hálfu yfirvalda. Fjölskyldan hafi búið í íbúðablokk í Síle en nágrannar þeirra hafi verið ógæfufólk sem hafi neytt eiturlyfja. K hafi orðið fyrir árás af þeirra hendi og í kjölfarið hafi fjölskyldan fengið ítrekaðar líflátshótanir. Foreldrar kæranda hafi ekki séð sér annað fært en að flýja burt af ótta við mennina. Þá hafi lögreglan hvatt foreldra kæranda til að flytja annað þar sem um afar hættulega menn væri að ræða. Fjölskyldan hafi því flutt í aðra borg í kjölfarið en fengið óvænt símtal þar sem þeim hafi verið hótað. K hafi þá haft samband við lögregluna sem hafi ráðlagt þeim að flytja úr landi. Jafnframt hafi K orðið fyrir útlendingahatri í Síle en fordómar í garð fólks frá Venesúela hafi hlotið mikinn hljómgrunn í fjölmiðlum í Síle. Þá hafi K hafi upplifað mismunun af hálfu heilbrigðisstarfsfólks þar í landi.

Kærandi byggir á því að við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga í málum sem varði börn skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Þá skuli Útlendingastofnun líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggi þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Kærandi vísar til þeirrar einstaklingsbundnu hættu sem hann standi frammi fyrir vegna hættulegs fólks í Síle sem hafi orðið til þess að foreldrar hans flúðu í annan landshluta innan Síle og síðar meir flúið til Íslands. Þá hafi kærandi fjallað um þá hættu sem fólk frá Venesúela mæti í Síle og þeirri auknu hættu á barnaránum sem hann sé í sérstakri hættu á að verða fyrir. K hafi lýst því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hafa vaknað um miðja nótt við ókunnugan mann í íbúð þeirra haldandi á kæranda, sem beri með sér að raunveruleg hætta sé til staðar á að honum verði rænt. Því uppfylli kærandi öll skilyrði þess að teljast flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum alþjóðlega vernd hér á landi. Vegna núverandi ástands fólks frá Venesúela í Síle sé endursending kæranda þangað bersýnilega ekki það sem honum sé fyrir bestu. Sé ekki fallist á kröfu kæranda á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga beri að veita honum stöðu flóttamanns á grundvelli 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi vísar til þess að hann sé í mikilli hættu á að verða fyrir barðinu á barnaræningjum og útlendingahatri.

Þá krefst kærandi þess til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður sínar. Þá byggir kærandi á því að hann eigi til þess réttmætar væntingar að hljóta dvalarleyfi hér á landi. Á sama tíma og talsmanni hafi verið birt neikvæð niðurstaða í máli kæranda hafi móðir kæranda fengið boðun frá Útlendingastofnun um að hún ætti að mæta og láta taka myndir af sér og fylla út eyðublöð til að geta hlotið dvalarleyfi. Síðar hafi hún fengið þær upplýsingar að um mistök hafi verið að ræða. Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun beri ábyrgð á því að hafa skapað réttmætar væntingar hjá þeim og leiðréttingin sé íþyngjandi og fjarri því að vera bersýnileg.

Kærandi vísar til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli K sé samhljóða fyrri ákvörðun í málinu. Engin frekari rannsókn hafi farið fram né hafi K verið gefið færi á að skila inn frekari gögnum eða Útlendingastofnun kallað sérstaklega eftir þeim. Þá hafi K ekki verið gerð grein fyrir því að til stæði að taka nýja ákvörðun í máli hennar innan við viku síðar og engar leiðbeiningar veittar eða sjálfstæð rannsókn farið fram af hálfu Útlendingastofnunar til að upplýsa um heilsufar hennar samkvæmt þeim gögnum sem stofnuninni mátti vera kunnugt um að fyrir lægju. Umfjöllun um heilsufar hafi verið óbreytt frá fyrri ákvörðun og því byggir kærandi á því að ekki sé hægt að una slíkum vinnubrögðum. Útlendingastofnun hafi því brotið gegn 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því beri að ógilda hinar kærðu ákvarðanir og taka þær til nýrrar meðferðar, að öðrum kosti væri K svipt rétti sínum til að fá heildstæða skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Þá telur kærandi að skortur á allri umfjöllun um framlögð gögn séu til marks um að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað þær upplýsingar og gögn sem lögð hafi verið fram málsástæðum K til stuðnings og beri ákvörðun í máli hennar þess merki að um staðlaðan rökstuðning sé að ræða, án nokkurrar heimfærslu til einstaklingsbundinna aðstæðna. Þá hafi verið brotið gegn skyldu stjórnvaldsins til að rökstyðja ákvörðun, sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Enga umfjöllun sé að finna um atvik og aðstæður að baki flótta K sem byggt hafi verið á í greinargerð og hún hafi lýst í viðtali hjá Útlendingastofnun. Jafnframt telur kærandi að vegna skorts á rannsókn af hálfu Útlendingastofnunar á aðstæðum og heilsufari K hafi það áhrif á matið í máli kæranda.

Samkvæmt framangreindu sé óhjákvæmilegt að ógilda hinar kærðu ákvarðanir og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og K til meðferðar á ný. Þá fer kærandi fram á frestun á framkvæmd sbr. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga en til vara byggir kærandi á 2. mgr. 104. gr. sömu laga þar sem kærandi og móðir hans geti ekki dvalið á Íslandi án hins.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í nánari rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi framvísað sílesku vegabréfi með gildistíma frá 4. ágúst 2021 til 3. ágúst 2031. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé síleskur ríkisborgari.

Réttarstaða kæranda sem barns

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að kærandi er í fylgd með móður sinni og haldast úrskurðir þeirra því í hendur. Umsókn móður kæranda er eðlisólík máli kæranda en móðir kæranda er ríkisborgari Venesúela og handhafi ótímabundins dvalarleyfi í Síle. Móðir kæranda lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 14. mars 2022 og var það niðurstaða Útlendingastofnunar að synja henni um efnismeðferð á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar útlendingamála og frá þeim tíma hafa mál mæðginanna verið unnin í sameiningu. Kærunefnd telur að þrátt fyrir að fjallað sé um kærumál mæðginanna í tveimur úrskurðum og afgreidd á ólíkan hátt hafi meginreglan um einingu fjölskyldunnar verið höfð að leiðarljósi. Úrskurðir í málum kæranda og móður hans eru kveðnir upp sama dag og málin unnin samhliða. Vísar kærunefnd til úrskurðar móður kæranda nr. 427/2022 til frekari upplýsinga um umsókn hennar um alþjóðlega vernd hér á landi.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Síle m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

 • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Chile (United States Department of State, 12. apríl 2022);
 • Amnesty International Report 2021/22: The State of the World‘s Human Rights (Amnesty International, 29. mars 2022);
 • Chile 2020 Crime & Safety Report (OSAC, 3. október 2020);
 • Fact Sheet: Chile (UNHCR, mars 2021);
 • Fact Sheet: Chile (UNHCR, ágúst 2019);
 • Freedom in the World 2022 – Chile (Freedom House, 24. febrúar 2022);
 • Health in the Americas+. Summary: Regional Outlook and Country Profiles (Pan American Health Organization, uppfært 12. desember 2017);
 • Profile of the Health Service System: Chile (World Health Organization, ódagsett);
 • Socioeconomic Intergration of Venezuelan Migrants and Refugees (IOM, júlí 2021);
 • The World Factbook – Chile (CIA, 22. september 2022);
 • Upplýsingar af vefsíðu Mannréttindastofnunar Síle (www.indh.cl, sótt 6. Síle 2022);
 • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 20. október 2022);
 • Upplýsingasíða Sóttvarnarstofnunar Evrópu (https://www.ecdc.europa.eu/en/cases-2019-ncov-eueea, sótt 20. október 2022)
 • Vefsíða menntamálaráðuneytis Síle (https://www.mineduc.cl/, sótt 20. október 2022) og
 • World Report 2022 (Human Rights Watch, 16. desember 2021).

Síle er stjórnarskrárbundið og fjölflokka lýðræðisríki með rúmlega 18 milljónir íbúa. Síle gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1945. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1972. Í Síle var einræði í valdatíð Augusto Pinochet til ársins 1990 og síðan hafa stjórnvöld verið kosin með lýðræðislegum kosningum. Frá þeim tíma hefur Síle notið hagvaxtar og fátækt lækkað umtalsvert. Stjórnvöld hafa sett á fót áætlanir til að efla aðgengi að menntun og heilbrigðiskerfi. Árið 2010 varð Síle fyrsta landið í Suður-Ameríku til að ganga í Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Á undanförnum árum hafa lífsskilyrði og menntun íbúa Síle verið best í Suður-Ameríku. Í skýrslu Freedom House frá árinu 2022 kemur fram að dómstólar landsins séu almennt séð frjálsir og lausir við pólitísk afskipti. Forseti landsins sé kjörinn til fjögurra ára í senn og hann megi ekki sitja lengur en í eitt kjörtímabil samfellt. Á lista Freedom House fyrir árið 2022 sem raðar ríkum eftir því hversu frjáls þau séu er Síle með 94 stig af 100 mögulegum.

Samkvæmt framangreindum skýrslum World Health Organization og Pan American Health Organization er öllum tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu í stjórnarskrá Síle óháð því hvort viðkomandi sé með ríkisborgararétt. Heilbrigðiskerfi Síle samanstandi af opinberu og einkareknu kerfi. Ríkisborgarar Síle og þeir sem hafi heimild til löglegrar dvalar þar í landi hafi aðgang að endurgjaldslausri og niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu í gegnum ríkisrekið sjúkratryggingakerfi. Þá kemur fram í framangreindri skýrslu International Organization for Migration (IOM) að allir innflytjendur og flóttamenn hafi aðgang að heilbrigðiskerfi Síle þótt þau geti mætt ákveðnum hindrunum við að nýta sér þá þjónustu.

Á vefsíðu menntamálaráðuneytis Síle kemur fram að skólaskylda hefjist við 6 ára aldur. Þá sé menntun að mestu ókeypis til 18 ára aldurs. Jafnframt geti foreldrar sótt um pláss á leikskóla fyrir börn sín. Þá kemur fram í skýrslu IOM að stjórnvöld í Síle hafi unnið að því að greiða fyrir aðgang barna innflytjenda og flóttafólks að menntun. Þá hafi börn Venesúelabúa í Síle almennt haft aðgang að menntun þar í landi.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2022 kemur m.a. fram að öryggislögreglan (s. Carabineros) ásamt rannsóknarlögreglunni beri ábyrgð á löggæslu, m.a. landamæraeftirliti og almannaöryggi. Þá hafi innanríkis- og almannaöryggisráðuneytið yfirumsjón með báðum stofnunum. Þó kemur fram í skýrslunni að löggæsluyfirvöld séu treg til að nota úrræði í lögum sem banni mismunun, þ.m.t. að gefa út ákærur vegna hatursglæpa. Samkvæmt skýrslu OSAC er öryggislögreglan ein fagmannlegasta og best þjálfaða lögreglusveit Rómönsku Ameríku ásamt því að vera sú sveit þar sem minnst sé af spillingu innanborðs. Þá kemur fram í skýrslu Freedom House frá árinu 2022 að friðsælum mótmælum hafi fjölgað í Síle árið 2019 þegar almenningur hafi mótmælt stjórnvöldum og samfélagslegum ójöfnuði. Enn eigi sér stað mótmæli en bæði borgaralegt ofbeldi og kúgun lögreglu hafi minnkað verulega frá árinu 2019.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann geti ekki snúið aftur til Síle vegna útlendingaandúðar og mismununar. Þá eigi kærandi á hættu að verða barnaræningjum að bráð.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu síleskra yfirvalda eða annarra aðila í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat kærunefndar að þeir ríkisborgarar Síle sem telja að á réttindum sínum sé brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík. Að mati kærunefndar hefur ekki verið sýnt fram á að aðstæður kæranda séu með þeim hætti að stjórnvöld í heimaríki hans skorti vilja eða getu til að veita honum viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til þess að kærandi sé barn að aldri og telur kærunefnd að öryggi hans, velferð og félagslegum þroska sé ekki hætta búin með endursendingu til heimaríkis.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Af gögnum um heimaríki kæranda sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins verður ekki annað séð en að kærandi hafi aðgang að menntakerfi landsins. Í gögnum um heimaríki kæranda kemur fram, líkt og að ofan er rakið, að allir ríkisborgarar og þeir sem hafi heimild til löglegrar dvalar hafi aðgang að endurgjaldslausri og niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Vísar kærunefnd jafnframt til úrskurðar nr. 427/2022 um kæru móður kæranda til frekari upplýsinga um aðstæður í heimaríki kæranda varðandi Covid-19 faraldurinn.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar og reglur stjórnsýsluréttar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. við umfjöllun um heilsufar K og rökstuðning stofnunarinnar.

Í greinargerð vísar kærandi til þess að umfjöllun um heilsufar K hafi verið óbreytt frá fyrri ákvörðun og því hafi Útlendingastofnun brotið gegn 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Því beri að ógilda hinar kærðu ákvarðanir og taka þær til nýrrar meðferðar. Þá hafi verið brotið gegn skyldu stjórnvaldsins til að rökstyðja ákvörðun, sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd fjallar um þessa málsástæðu í úrskurði móður kæranda nr. 427/2022. Með vísan til umfjöllunar í fyrrnefndum úrskurði fellst kærunefnd ekki á þrautaþrautavarakröfu kæranda um að ógilda hina kærðu ákvörðun og senda hana til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Þá byggir kærandi á því að honum skuli veitt dvalarleyfi hér á landi þar sem hann eigi til þess réttmætar væntingar. Kærunefnd tekur fram að umræddri málsástæðu var hafnað í úrskurði móður nr. 427/2022 og vísast til umfjöllunar í þeim úrskurði.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera frekari athugasemd við hana. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 14. mars 2022 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag ásamt móður sinni. Eins og að framan greinir hefur umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu í meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Samkvæmt gögnum málsins er ekkert sem bendir til annars en að kærandi sé við góða heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                       Gunnar Páll Baldvinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum