Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1185/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024

Hinn 30. apríl 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1185/2024 í máli ÚNU 24010019.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 18. janúar 2024, kærði A synjun Lögreglunnar á Vestmannaeyjum (hér eftir einnig Lögreglan) á beiðni hans um gögn. Kærandi óskaði hinn 4. janúar 2024 eftir aðgangi að lögregluskýrslum vegna tjóns á vatnsleiðslu fyrr um veturinn. Í svari Lögreglunnar, dags. 9. janúar 2024, kom fram að gögnin yrðu ekki afhent því þau vörðuðu rannsókn sakamáls og féllu þannig utan gild­is­sviðs upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í kæru til nefndarinnar kemur fram að í málinu hafi orðið milljarða króna tjón og að samfélagslegir hagsmunir standi til þess að gögnin verði afhent.
 
Kæran var kynnt Lögreglunni í Vestmannaeyjum með erindi, dags. 29. janúar 2024, og stofnuninni veitt­ur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
 
Umsögn Lögreglunnar barst úrskurðarnefndinni hinn 13. febrúar 2024. Í henni kemur fram að Lög­regl­an hafi nú til rannsóknar mál sem varðar tjón á vatnsleiðslu til Vestmannaeyja, og umbeðin gögn séu hluti af því máli. Umsögninni fylgdi nokkurt magn gagna sem að mati Lögreglunnar sýndu glögg­lega að málið væri til rannsóknar.
 
Umsögn Lögreglunnar í Vestmannaeyjum var kynnt kæranda með erindi, dags. 22. febrúar 2024, og hon­­um veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bár­ust 7. mars 2024. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórn­­sýslu­­laga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

Í máli þessu hefur kæranda verið synjað um aðgang að lögregluskýrslum á þeim grundvelli að þær varði rann­sókn sakamáls og falli þannig utan gildissviðs upplýsingalaga. Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er mælt fyrir um að lögin gildi ekki um rannsókn saka­máls eða saksókn. Í athuga­semd­um við 4. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er til­greint að um aðgang að gögnum í slíkum mál­um fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála.
 
Lögreglan í Vestmannaeyjum kveður umbeðin gögn í málinu tilheyra sakamáli sem nú sé til rannsókn­ar. Málið varðar skemmdir sem urðu á neysluvatnslögn þegar togveiðiskip missti niður akkeri sem fest­ist í vatnslögninni. Úrskurðarnefndin telur að lögregluskýrslur vegna málsins teljist varða rannsókn saka­­máls í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd um upp­­lýsingamál.
 

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 18. janúar 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 
 

Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta