Hoppa yfir valmynd

Nr. 473/2017 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 473/2017

Fimmtudaginn 14. júní 2018

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. desember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 5. júlí 2017, um útreikning á greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann og ákvörðun frá 20. september 2017 um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi leigði íbúðarhúsnæði á vegum Byggingarfélags námsmanna frá 1. júní 2011 og sótti um að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur en var synjað á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 728/2015, þar sem fyrirkomulag Reykjavíkurborgar vegna greiðslna sérstakra húsaleigubóta var dæmt ólögmætt, óskaði kærandi eftir að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann fyrir tímabilið 1. júní 2011 til 31. maí 2016. Reykjavíkurborg samþykkti að greiða kæranda sérstakar húsaleigubætur að fjárhæð 926.631 kr. fyrir tímabilið 12. febrúar 2013 til 31. maí 2016 en synjaði um greiðslu fyrir tímabilið 1. júní 2011 til 11. febrúar 2013 þar sem eldri umsókn, dags. 8. júní 2010, var fallin úr gildi. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum 5. júlí 2017 og staðfesti útreikning á greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Með tölvupósti 19. júlí 2017 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 18. ágúst 2017. Með tölvupósti 25. ágúst 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi velferðarráðs, dags. 20. september 2017, var kæranda tilkynnt að þeirri beiðni hefði verið synjað þar sem skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga væru ekki uppfyllt. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. desember 2017. Með bréfi, dags. 8. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 19. janúar 2018, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. janúar 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. febrúar 2018 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 27. febrúar 2018 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. febrúar 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun velferðarráðs frá  5. júlí 2017 um staðfestingu útreiknings á fjárhæð greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann verði ógilt og réttur hans til greiðslu sérstakra húsaleigubóta vegna tímabilsins 1. júní 2011 til 12. febrúar 2013 verði staðfestur. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun velferðarráðs um synjun á endurupptöku ákvörðunar frá 5. júlí 2017 verði ógilt og að Reykjavíkurborg verði gert að endurupptaka ákvörðunina.

Kærandi vísar til þess að rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið sendur með bréfi, dags. 18. ágúst 2017 og því megi að öllu óbreyttu gera ráð fyrir því að þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Kærandi bendir á að hann hafi óskað eftir endurupptöku málsins og því hafi kærufrestuð rofnað, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tilkynning velferðarráðs um synjun á beiðni kæranda um endurupptöku hafi verið send á heimilisfang þar sem hann hafi ekki verið búsettur um hríð og því megi gera ráð fyrir að hin bréflega tilkynning hafi ekki borist kæranda fyrr en nokkru eftir 20. september 2017. Að mati kæranda verði því ekki fullyrt um það hvenær kærufresturinn hafi haldið áfram að líða. Auk þess hafi kærandi hlotið ráðgjöf um réttarstöðu sína hjá embætti umboðsmanns borgarbúa, þar á meðal um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar, en vegna anna hjá því embætti hafi meðferð málsins dregist nokkuð. Með hliðsjón af framangreindu telji kærandi ríka ástæðu til þess að vikið verði frá hinum lögmælta kærufresti að því er varði ákvörðun velferðarráðs frá 5. júlí 2017, enda afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Að öðrum kosti telji kærandi til staðar veigamiklar ástæður, meðal annars í tengslum við fjárhag hans, sem mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Í tengslum við ákvæði 2. tölul. sé enda gert ráð fyrir því að litið sé til hagsmuna málsaðila við mat á því hvort veigamiklar ástæður séu til staðar til þess að víkja frá kærufresti. Hvað varði ákvörðun velferðarráðs frá 20. september 2017 um synjun á endurupptöku ákvörðunarinnar frá 5. júlí sé ljóst að sá frestur sé ekki liðinn við framlagningu kærunnar.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt né að gætt hafi verið að andmælarétti hans, sbr. 13. gr. laganna. Ákvörðun velferðarráðs frá 5. júlí 2017 sé því ólögmæt. Kærandi bendir á að forsendur niðurstöðu héraðsdóms, í máli Hæstaréttar nr. 728/2015, hafi verið þær að við meðferð umsókna um sérstakar húsaleigubætur hefði Reykjavíkurborg ekki gætt að meginreglunni um skyldubundið mat. Þannig hefði Reykjavíkurborg lagt til grundvallar að leigjendur sem ekki leigðu húsnæði á almennum markaði eða hjá Félagsbústöðum hf. ættu þegar af þeirri ástæðu ekki rétt á greiðslu bótanna. Fyrir vikið hefði Reykjavíkurborg ekki gert ráð fyrir sérstöku mati á aðstæðum hvers umsækjanda fyrir sig og þannig með ólögmætum hætti takmarkað óhóflega hið skyldubundna mat hans sem stjórnvalds og að fyrra bragði útilokað tiltekna umsækjendur án frekari skoðunar. Niðurstaða héraðsdóms hafi verið staðfest í Hæstarétti með vísan til forsendna hennar að viðbættum þeim athugasemdum sem varði ólögmæta mismunun.

Kærandi tekur fram að frá 1. júní 2011 hafi hann ítrekað sóst eftir því að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur. Þeim umsóknum hafi ávallt verið hafnað með vísan til búsetu hans án þess að þær hafi verið teknar til frekari málsmeðferðar. Kærandi vísar til þess að allar slíkar umsóknir hans hafi verið afgreiddar munnlega í samskiptum við starfsfólk þeirra þjónustumiðstöðva sem hann hafi leitað til og að engin skráning á þeim hafi farið fram. Í hinni kærðu ákvörðun sé hins vegar byggt á því að kærandi hafi ekki haldið við umsókn sinni frá 8. júní 2010. Þar með væri skilyrðum þess að kærandi ætti rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. júní 2011 til 12. febrúar 2013 ekki fullnægt. Kærandi telur að huga verði að því að reglur um sérstakar húsaleigubætur hafi verið samtvinnaðar reglum um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis á vegum Reykjavíkurborgar. Kærandi hafi verið í samskiptum við ráðgjafa sinn á þjónustumiðstöð sem hafi tilnefnt hann í íbúðir á vegum Félagsbústaða hf. Ráðgjafinn hafi ekki í öllum tilvikum skráð samskiptin við kæranda eða atriði varðandi málefni hans hjá þjónustumiðstöðinni í skráningarkerfi þjónustumiðstöðvarinnar. Þetta hafi einnig komið fram í samskiptum hans við núverandi ráðgjafa. Kærandi telji ljóst að allan vafa um málsatvik, sem rekja megi til skorts á skráningu vegna umsókna og fyrirspurna hans, verði að túlka honum í hag. Hin kærða ákvörðun beri þvert á móti með sér að horft hafi verið til formlegrar skráningar í tengslum við umsóknir kæranda og dagsetningar þeirra og hvernig þeim hafi verið haldið við. Kærandi telur, með hliðsjón af málsatvikum og niðurstöðu héraðsdóms í tenglsum við framanrakta málsmeðferð Reykjavíkurborgar vegna greiðslu á sérstökum húsaleigubótum, að rík ástæða hafi verið fyrir velferðarráð að gæta sérstaklega að rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og veita honum færi á að koma til leiðar andmælum sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Fyrir liggi að kærandi hafi verið í samskiptum við Reykjavíkurborg vegna málsins og vísað sé til þess að honum hafi, í tengslum við umsóknir hans um sérstakar húsaleigubætur, ávallt verið vísað frá þjónustumiðstöð á grundvelli sömu ástæðna og þeirra sem staðfestar hafi verið með dómi Hæstaréttar að væru ólögmætar. Þannig hafi velferðarráði borið að kanna með ítarlegum hætti og í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga hvort að frásögn kæranda ætti við rök að styðjast. Ljóst sé að skyldur velferðarráðs hafi verið ríkar þar sem um íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða.

Kærandi byggir varakröfu sína á því sem að framan er rakið í tengslum við aðalkröfuna, einkum á því er varðar rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi vísar til þess að ákvörðun velferðarráðs um synjun á endurupptöku málsins beri það ekki með sér að horft hafi verið til þeirra athugasemda og upplýsinga sem kærandi hafi fært fram vegna málsins, þ.e. að hann hafi sannanlega haldið umsóknum sínum við og ítrekað sóst eftir greiðslu á sérstökum húsaleigubótum. Honum hafi á hinn bóginn jafnan verið synjað á grundvelli ástæðna sem síðar hafi verið slegið föstu fyrir dómi að væru ólögmætar. Að mati kæranda sé ljóst að þær upplýsingar, sem ekki hafi verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti við töku hinnar upphaflegu ákvörðunar, hafi verulega þýðingu fyrir úrlausn ákvörðunar um rétt kæranda til greiðslna sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann líkt og 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga geri ráð fyrir. Kærandi telji að ákvörðun velferðarráðs um að hafna beiðni hans um endurupptöku beri það ekki með sér að horft hafi verið til þess sem hann hafi haldið fram, þ.e. að hann hafi sannanlega viðhaldið umsóknum sínum og ítrekað sóst eftir sérstökum húsaleigubótum.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar mótmælir hann kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun málsins frá úrskurðarnefndinni, enda sé hún órökstudd með öllu. Þannig hafi Reykjavíkurborg annars vegar látið hjá líða að gera grein fyrir því hvenær kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar hafi í raun og veru runnið út, enda óljóst hvenær kæranda hafi raunverulega borist tilkynning um synjun á endurupptöku ákvörðunarinnar. Í því samhengi vísar kærandi til þess að starfsfólki þjónustumiðstöðvar hafi verið fullkunnugt um að hann væri ekki búsettur að B. Hins vegar vísar kærandi til þess að fullyrðingar Reykjavíkurborgar um að 1. og 2. tölul. 2[8]. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við séu órökstuddar að öllu leyti. Í því samhengi ítrekar kærandi að hin kærða ákvörðun snúi að greiðslu á háum fjárhæðum sem skipti hann miklu máli. Að öðru leyti vísar kærandi til sjálfstæðrar rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar að því er varðar úrlausn málsins.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Vísað er til þess að frestur kæranda til að kæra ákvörðun velferðarráðs frá 5. júlí 2017 sé liðinn og að vísa skuli kærunni frá, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Það sé mat velferðarráðs að 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við í máli kæranda. Þrátt fyrir rof á fyrningu vegna tímabilsins 25. ágúst til 20. september 2017 sé fresturinn liðinn.

Reykjavíkurborg tekur fram að kærandi hafi sótt um sérstakar húsaleigubætur og félagslegt leiguhúsnæði sex sinnum frá árinu 2003 og umsókn hans frá 12. febrúar 2013 sé enn í gildi. Samþykkt hafi verið að greiða kæranda sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann að fjárhæð 926.631 kr. fyrir tímabilið 12. febrúar 2013 til 31. maí 2016 en ekki fyrir tímabilið 1. júní 2011 til 11. febrúar 2013 þar sem eldri umsókn, dags. 8. júní 2010, hafi verið fallin úr gildi. Það hafi því engin umsókn verið í gildi frá 1. júní 2011 til 11. febrúar 2013 og skilyrði reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur því ekki uppfyllt. Með hliðsjón af framangreindu hafi það verið mat velferðarráðs að staðfesta bæri útreikning starfsmanns þjónustumiðstöðvar á sérstökum húsaleigubótum aftur í tímann að fjárhæð 926.631 kr. Þá verði einnig að telja ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi ekki brotið gegn ákvæðum reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu, stjórnsýslulögum eða öðrum lögum. Með vísan til alls framangreinds beri að staðfesta ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar í máli kæranda.

Kærandi vísar til þess að í 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur séu sett fram tiltekin skilyrði sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í b-lið 4. gr. reglnanna komi fram að umsækjandi þurfi að eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um og að minnsta kosti síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn hafi borist. Í c-lið 4. gr. reglnanna sé kveðið á um tekju- og eignamörk og miðað sé við meðaltal tekna síðustu þrjú árin. Reykjavíkurborg bendir á að synjunin hafi ekki verið byggð á d-lið 4. gr. reglnanna og því sé sá liður ekki til umfjöllunar í máli kæranda.

Samkvæmt upplýsingum sem hafi legið fyrir við meðferð máls kæranda hjá velferðarráði hafi kærandi lengst af búið í C og flutt til Reykjavíkur í X 2014. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 4. gr. framangreindra reglna. Þá hafi tekjur kæranda að meðaltali síðastliðin þrjú ár verið 5% yfir tekjumörkum vegna umsóknar 2016 og 12% yfir tekjumörkum vegna umsóknar frá 2015. Ljóst sé að kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 4. gr. reglnanna. Í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé kveðið á um undanþágu frá skilyrðum b- og c-liðar 4. gr. reglnanna en kærandi hafi ekki óskað eftir slíkri undanþágu vegna umsókna árin 2015 og 2016.

Með hliðsjón af framangreindu hafi það verið mat velferðarráðs að hafna bæri kröfu kæranda um sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann þar sem skilyrði b- og c-liðar 4. gr. reglnanna hafi ekki verið uppfyllt á því tímabili sem krafa kæranda tæki til. Þá verði einnig að telja ljóst að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn ákvæðum laga nr. 40/1991 né reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar kemur fram að kæranda hafi verið kynnt synjun velferðarráðs á endurupptöku fyrri ákvörðunar með bréfi, dags. 20. september 2017. Þann 29. september 2017 hafi kærandi haft samband símleiðis vegna bréfsins og ráðgjafi þjónustumiðstöðvar hafi leiðbeint honum um rétt til að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar velferðarmála. Reykjavíkurborg hafni því öllum staðhæfingum kæranda þess efnis að óljóst sé hvenær kæranda hafi raunverulega borist tilkynning um synjun á endurupptöku ákvörðunar. Því sé ljóst að kærufrestur vegna ákvörðunar velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 5. júlí 2017, sé liðinn og rof á frestinum breyti engu þar um. Ítrekað er að það sé mat velferðarráðs að 1. og 2. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við í máli kæranda og því skuli vísa kærunni frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Ekki sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr þar sem kærandi hafi haft nægan tíma til þess að bregðast við og kæra ákvörðun velferðarráðs. Ekki sé hægt að bera fyrir sig þá staðreynd að kærandi hafi haft málið til meðferðar hjá umboðsmanni borgarbúa, enda ekkert sem komi í veg fyrir það að skjóta málinu til úrskurðarnefndar samhliða því að málið sé til meðferðar þar. Reykjavíkurborg telur að kærandi geti ekki borið fyrir sig ráðgjöf umboðsmanns borgarbúa um réttarstöðu sína, þar á meðal í tengslum við kærurétt til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi hafi þá þegar fengið upplýsingar um heimild til að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndarinnar að minnsta kosti þrisvar sinnum, þ.e. í bréfum, dags. 5. júlí 2017, 18. ágúst 2017 og 20. september 2017. Þá hafi kærandi einnig fengið umræddar upplýsingar í samtali við ráðgjafa á þjónustumiðstöð. Því sé ekki afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Velferðarráð telji skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki heldur uppfyllt, enda ljóst að kærandi hafi verið upplýstur um þriggja mánaða kærufrest og ef kærandi teldi hagsmuni sína svo mikilvæga og veigamikla að þeir uppfylltu fyrrnefnt ákvæði hefði kærandi átt að kæra ákvörðun velferðarráðs strax til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Reykjavíkurborg bendir á að við meðferð málsins hafi það verið sérstaklega rannsakað hvort kærandi hefði endurnýjað umsókn sína, sbr. 12. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur, en engin slík gögn eða staðfesting á því sé að finna í málaskrá þjónustumiðstöðvarinnar. Sönnunarbyrði hvað það varði hvíli því á kæranda. Þá sé rétt að taka fram að Reykjavíkurborg hafi talið rétt að hafna beiðni um endurupptöku ákvörðunar frá 5. júlí 2017 þar sem sú ákvörðun hafi hvorki verið byggð á ófullnægjandi né röngum upplýsingum um málsatvik eða atvikum sem höfðu breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til alls framangreinds telji velferðarráð Reykjavíkurborgar að frestur samkvæmt 63. gr. laga nr. 40/1991 sé liðinn og því beri að vísa kæru vegna ákvörðunar frá 5. júlí 2017 frá úrskurðarnefndinni. Þá verði einnig að telja ljóst með hliðsjón af öllu framansögðu að hvorki ákvörðun frá 5. júlí 2017 né 20. september 2017 hafi brotið gegn ákvæðum reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur, lögum nr. 40/1991, stjórnsýslulögum eða öðrum lögum. Því beri að vísa frá kæru vegna ákvörðunar frá 5. júlí 2017 og staðfesta ákvörðun frá 20. september 2017.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurbogar, dags. 5. júlí 2017, um útreikning á greiðslu sérstakra húsaleigubóta kæranda aftur í tímann og ákvörðun frá 20. september 2017 um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

Fyrst verður vikið að ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 5. júlí 2017. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að þegar aðili fer fram á rökstuðning samkvæmt 21. gr. laganna hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 5. júlí 2017, og umbeðinn rökstuðningur tilkynntur honum með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 18. ágúst 2017. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. desember 2017. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins 25. ágúst 2017. Í 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þegar aðili óski eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofni kærufresturinn. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný haldi kærufresturinn áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila, þ.e. það sem eftir er af honum. Kæranda var tilkynnt um synjun á beiðni hans um endurupptöku með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 20. september 2017. Samkvæmt framangreindri 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga barst kæran ekki innan tilskilins frests.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að tilkynning velferðarráðs um synjun á beiðni hans um endurupptöku hafi verið send á heimilisfang þar sem hann hafi ekki verið búsettur um hríð og því megi gera ráð fyrir að hin bréflega tilkynning hafi ekki borist kæranda fyrr en nokkru eftir 20. september 2017. Að mati kæranda verði því ekki fullyrt um það hvenær kærufresturinn hafi haldið áfram að líða. Auk þess hafi kærandi hlotið ráðgjöf um réttarstöðu sína hjá embætti umboðsmanns borgarbúa, þar á meðal um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar, en vegna anna hjá því embætti hafi meðferð málsins dregist nokkuð. Kærandi telji ríka ástæðu til þess að vikið verði frá hinum lögmælta kærufresti, enda afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Að öðrum kosti telji kærandi til staðar veigamiklar ástæður, meðal annars í tengslum við fjárhag hans, sem mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að kærandi hafi haft samband símleiðis þann 29. september 2017 vegna bréfsins frá 20. september. Ráðgjafi kæranda á þjónustumiðstöð hafi haft samband við hann og meðal annars leiðbeint honum um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála.  

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru þær ástæður sem kærandi hefur lagt fram vegna kærufrestsins ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Með hliðsjón af framangreindu er þeim hluta kærunnar er lýtur að ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 5. júlí 2017, vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verður þá vikið að ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 20. september 2017, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 728/2015, þar sem fyrirkomulag Reykjavíkurborgar vegna greiðslna sérstakra húsaleigubóta gagnvart leigjanda hjá Brynju, hússjóði Örykjabandalagsins var dæmt ólögmætt, óskaði kærandi eftir að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann fyrir tímabilið 1. júní 2011 til 31. maí 2016. Reykjavíkurborg samþykkti að greiða kæranda sérstakar húsaleigubætur fyrir tímabilið 12. febrúar 2013 til 31. maí 2016 en synjaði um greiðslu fyrir tímabilið 1. júní 2011 til 11. febrúar 2013 með vísan til þess að engin umsókn hafi verið í gildi á því tímabili.

Þann 3. maí 2018 samþykkti borgarráð tillögu borgarstjóra, dags. 2. maí 2018, um að fela velferðarsviði Reykjavíkurborgar að afgreiða kröfur um greiðslu sérstakra húsaleigubóta frá leigjendum Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, án tillits til þess hvort umsókn hafi legið fyrir um þær eða ekki. Úrskurðarnefndin telur ljóst að mál kæranda sé að mörgu leyti sambærilegt því sem vísað er til í samþykkt borgarráðs, jafnvel þótt leigusali hafi verið annar. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku, nánar tiltekið um að atvik hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin, sé uppfyllt. Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar, dags. 5. júlí 2017, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 20. september 2017, um synjun á beiðni hans um endurupptöku máls er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira