Hoppa yfir valmynd

Nr. 547/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 547/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100003, KNU21100004 og KNU21100005

 

Beiðni […], […] og […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Þann 26. ágúst 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 20. apríl 2021, um að taka umsóknir einstaklinga er kveðast heita […], […] og […], vera fædd […] og vera ríkisborgarar Bangladess (hér eftir nefnd kærendur), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 30. ágúst 2021 og þann 6. september barst kærunefnd beiðni um frestun réttaráhrifa í málum kærenda. Synjaði kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa með úrskurði nefndarinnar þann 22. september 2021. Þann 4. október 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku. Upplýsingar um málsmeðferð í málum kærenda bárust kærunefnd þann 5. október 2021 frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og þann 6. október 2021 frá Útlendingastofnun.

Af endurupptökubeiðni kærenda má ráða að beiðni þeirra um endurupptöku sé byggð á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kærenda

Í beiðni kærenda um endurupptöku kemur fram að þau hafi komið fyrst hingað til lands þann 3. október 2020. Séu því liðnir meira en 12 mánuðir síðan umsóknir þeirra voru lagðar fram. Kærendur byggja beiðni um endurupptöku á því að þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að þau lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og að tafir á afgreiðslu mála þeirra séu ekki á þeirra ábyrgð, skuli taka umsókn þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 3. október 2020 og hafa þau ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsóknir kærenda bárust fyrst íslenskum stjórnvöldum og því kemur til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknum kærenda séu á þeirra eigin ábyrgð, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 4. október 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsókna kærenda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kærenda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari frá stoðdeild, dags. 5. október 2021, kemur fram að deildinni hafi borist verkbeiðni í máli kærenda þann 23. september 2021. Þann sama dag hafi verið haft samband við kærendur og þau upplýst um að starfsmenn stoðdeildar myndu koma til þeirra til þess að ræða við þau. Nánar tiltekið þá ræddi starfsmaður stoðdeildar við […] fyrir hönd kærenda. Aðspurður kvaðst […] skilja ensku mjög vel og að kærendur myndu ekki þurfa á túlki að halda daginn eftir þegar starfsmenn stoðdeildar kæmu til að hitta þau. Þann 24. september 2021 fóru starfsmenn stoðdeildar til kærenda og birtu fyrir þeim Tilkynningu um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Ungverjalands. Tilkynningarnar voru lesnar upp fyrir kærendum en þau hafi einnig verið í símasambandi við lögmann sinn hér á landi. Í umræddum tilkynningum kemur m.a. fram að frestur kærenda til sjálfviljugrar heimfarar hafi runnið út og að stoðdeild ríkislögreglustjóra beri ábyrgð á flutningi kærenda til Ungverjalands. Þá voru kærendur beðin um að svara því hvort þau hygðust ætla sýna samstarfsvilja í tengslum við flutning þeirra úr landi. Kærendur svöruðu því öll með neikvæðum hætti með því að merkja við viðeigandi svarreit í tilkynningunum. Í kjölfarið voru kærendur upplýst um að Ungverjaland gerði þá kröfu um að bólusetningarvottorði sé framvísað svo að unnt sé að veita þeim viðtöku. Kærendur kváðust ekki ætla að framvísa bólusetningarvottorði í tengslum við framkvæmd á fyrirhuguðum flutningi og merktu við viðeigandi svarreit á tilkynningunum því til skjalfestingar. Þá var kærendum gerð grein fyrir því að ef þau neiti að framvísa bólusetningarvottorðum þá geti komið til þess að lögregla og stjórnvöld líti þannig á málsatvik að tafir á framkvæmd og öðrum framgangi málanna séu á ábyrgð kærenda. Tilkynningarnar voru allar undirritaðar af kærendum en með henni staðfestu kærendur að þau hefðu skilið leiðbeiningar og fyrirmæli lögreglu þar um.

Í svari frá Útlendingastofnun, dags. 6. október 2021, kemur m.a. fram að stofnunin líti ekki svo á að kærendur hafi tafið mál sín í tengslum við málsmeðferð þeirra hjá Útlendingastofnun. Í upplýsingum sem Útlendingastofnun hafi fengið frá stoðdeild ríkislögreglustjóra komi hins vegar fram að kærendur hafi neitað að sýna samstarfsvilja í tengslum við framkvæmd flutnings og að ferðast af sjálfsdáðum án fylgdar stoðdeildar til viðtökuríkis. Kærendur hafi að auki neitað að framvísa Covid-19 bólusetningarvottorði vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Kærendum hafi verið gerð grein fyrir skyldum þeirra gagnvart íslenskum stjórnvöldum og þeim veittar leiðbeiningar um framkvæmd ákvarðana stjórnvalda í málum þeirra. Sé það því mat Útlendingastofnunar að rekja megi tafir á flutningi kærenda til viðtökuríkis til athafna eða athafnaleysis kærenda sem þau beri sjálf ábyrgð á. Vegna áskilnaðar stjórnvalda í Ungverjalandi um framvísun á Covid-19 bólusetningarvottorði hafi ekki verið hægt að flytja kærendur áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn og því geti tafir kærenda ekki talist óverulegar. Telji stofnunin að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga fyrir því að umsóknir kærenda verði teknar til efnismeðferðar ekki vera uppfyllt.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 6. október 2021, voru kærendur upplýstir um afstöðu Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra og þeim gefinn frestur til að koma á framfæri andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kærenda bárust kærunefnd þann 11. október 2021. Í svari kærenda kemur m.a. fram að þau mótmæli því harðlega að hafa tafið mál sín. Kærendur hafi rætt í skamman tíma við lögmann sinn en að umrædd skjöl sem kærendur hafi skrifað undir hafi ekki verið borin undir lögmann þeirra og að kærendur hafi ekki gert sér grein fyrir þýðingu skjalanna en efni þeirra hafi verið villandi að ákveðnu leyti til. Enn fremur telji kærendur ekki hægt að jafna því saman að vera ósamstarfsfús við það að tefja mál sitt í skilningi 2. máls. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá bendi ekkert til þess að kærendur hafi tafið mál sitt en kærendur hafi t.a.m. ekki falið sig eða reynt að koma sér undan stjórnvöldum. Kærendur vísa til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU21070020 frá 26. ágúst 2021 þar sem kærunefnd hafi komist að því að yfirlýsing þess efnis að vilja ekki undirgangast Covid-19 sýnatöku eða snúa aftur til viðkomandi móttökuríkis, geti ekki ein og sér talist vera töf á afgreiðslu máls.

Líkt og að framan greinir sóttu kærendur um alþjóðlega vernd hér á landi þann 3. október 2020. Þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra barst verkbeiðni í máli kærenda þann 23. september 2021 var því fullnægjandi tími til þess að framkvæma flutning á kærendum til viðtökuríkis áður en 12 mánaða fresturinn sem áskilinn er í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga rann út. Starfsmenn stoðdeildar hittu kærendur þann 24. september 2021 til þess að fara yfir næstu skref með þeim og athuga afstöðu þeirra til fyrirhugaðs flutnings. Á umræddum fundi lýstu kærendur afstöðu sinni um að ætla ekki að framvísa Covid-19 bólusetningarvottorðum í tengslum við fyrirhugaðan flutning þeirra sem væri nauðsynlegt svo að framkvæmd flutnings þeirra væri möguleg. Að mati kærunefndar er því ljóst að það sem komið hafi í veg fyrir framkvæmd á flutningi kærenda til viðtökuríkis innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, hafi verið skortur á samstarfsvilja þeirra og afstaða um að framvísa ekki Covid-19 bólusetningarvottorðum sem hafi verið skilyrði fyrir viðtöku ungverskra stjórnvalda á kærendum. Þannig komu kærendur í veg fyrir flutning þeirra úr landi.

Vegna tilvísunar kærenda til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU21070020 frá 26. ágúst 2021 tekur kærunefnd fram að málsatvik eru ósambærileg og því ekkert sem bendi til þess að umræddur úrskurður ætti að leiða til sömu niðurstöðu kærunefndar í fyrirliggjandi málum. Í umræddum úrskurði bar kærandi fyrir sig að hafa misst föður sinn og að þurfa að fara í aðgerð hér á landi en síðar kom í ljós að aðgerðin hafði ekki verið samþykkt af félagsþjónustu. Fór því töluverður tími eða tæplega tveir mánuðir frá því að stoðdeild barst verkbeiðni í máli kæranda og þar til stoðdeild spurði kæranda út í afstöðu hans til Covid-19 sýnatöku. Líkt og kemur fram í umræddum úrskurði var kærandi spurður út í afstöðu sína til Covid-19 sýnatöku þann 28. apríl 2021 en 12 mánaða frestur í máli hans rann út þann 22. júní 2021. Með vísan til framangreinds taldi kærunefnd framkvæmd stoðdeildar hafa verið ómarkvissa.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að kærendur hafi tafið afgreiðslu umsókna þeirra og það hafi verið á þeirra ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kærenda á þann hátt að þau eigi rétt á endurupptöku á málum þeirra, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á málum þeirra er þar með hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kærenda er hafnað.

The appellants’ request is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira