Hoppa yfir valmynd

Nr. 246/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 246/2019 – Beiðni um frestun réttaráhrifa

Fimmtudaginn 15. ágúst 2019

A

gegn

Byggðasamlagi Vestfjarða

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. júní 2019, kærði B réttindagæslumaður fatlaðs fólks, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Byggðasamlags Vestfjarða um breytingu á skammtímavistun kæranda. Í kærunni kemur jafnframt fram beiðni um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan úrskurðarnefnd velferðarmála tekur afstöðu til kærunnar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 14. júní 2019. Kærð er ákvörðun Byggðasamlags Vestfjarða um breytingu á skammtímavistun kæranda með þeim hætti sem hún hafði áður verið. Með bréfi, dags. 21. júní 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu Byggðasamlagsins til beiðni um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Byggðasamlagsins barst með bréfi, dags. 28. júní 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. júlí 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 7. ágúst 2019, og voru þær sendar Byggðasamlaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. ágúst 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Í úrskurði þessum er einungis tekin afstaða til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða fæst í málið og að hann fái áfram þá þjónustu sem hann hafi haft síðastliðin X ár í skammtímavistun á meðan það er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Kærandi telur að málsmeðferð kærða hafi verið í andstöðu við fjölmargar greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ekkert samráð hafi verið haft við foreldra hans við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

III.  Sjónarmið Byggðasamlags Vestfjarða

Í greinargerð Byggðasamlags Vestfjarða er meðal annars greint frá aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar. Byggðasamlagið telji að ekki séu forsendur til þess að úrskurðarnefndin fallist á kröfu kæranda í málinu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Túlka beri undantekningarheimild 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um frestun réttaráhrifa þröngt. Með vísan til manneklu skammtímavistunarinnar sé ákveðinn ómöguleiki fyrir hendi til að halda áfram þjónustu við kæranda í skammtímavistun í óbreyttri mynd þar sem ekki hafi tekist að manna vaktir til að sinna þar umönnun kæranda. Þá megi einnig telja að hættuástand kunni að skapast fyrir kæranda sökum þess að starfsfólk skammtímavistunarinnar telji sig hvorki í stakk búið eða fært um að sinna þjónustu við hann né standi geta þeirra til að uppfylla þær stuðningsþarfir og það öryggi sem hann þarfnist og eigi rétt til.

Byggðasamlagið tekur fram að unnið sé fullum höndum að því að framtíðarlausn varðandi þjónustu við kæranda verði fundin hið fyrsta. Kærandi njóti nú einhverrar þjónustu á heimili sínu af hálfu tveggja starfsmanna Ísafjarðarbæjar auk tveggja annarra frá Bolungarvíkurkaupstað, sem hafi verið ráðnir til verksins, starfsmanna sem hafi áður unnið með kæranda á heimili hans og eigi því að þekkja vel hans umönnunarþarfir. Þar sem foreldrar kæranda hafi kosið að tímabundin þjónusta við kæranda verði veitt á heimili þeirra hafi áhersla verið lögð á að manna næturvaktir. 

IV.  Niðurstaða

Samkvæmt 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 frestar stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Æðra stjórnvaldi er þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Regla þessi er áréttuð í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála en þar segir að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar nema á annan veg sé mælt í lögum sem kæranleg ákvörðun byggist á. Úrskurðarnefndinni sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæli með því. Samkvæmt framangreindu er heimild til frestunar réttaráhrifa undantekning frá meginreglu sem aðeins er ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til að fresta framkvæmd. Undantekningar frá meginreglum eru almennt túlkaðar þröngt.

Í athugasemdum við 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga í frumvarpi til stjórnsýslulaga kemur fram að ákvæðið hafi mesta þýðingu varðandi ákvarðanir sem fela í sér breytta réttarstöðu fyrir aðila, svo sem boð eða bann. Það hafi hins vegar sjaldnast nokkra þýðingu þegar um er að ræða neikvæðar stjórnsýsluákvarðanir þar sem synjanir hafa í för með sér óbreytt ástand fyrir aðila. Í athugasemdum við ákvæðið kemur einnig fram að ávallt verði að vega og meta hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar í hverju tilviki fyrir sig. Við slíkt mat beri að líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins. Líta beri til þess hversu langt er um liðið frá því að hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum, en einnig verður að horfa til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt.

Almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar eru mikilvægir almannahagsmunir, til dæmis þar sem ákvörðun hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mælir hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls er aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum til dæmis tjóni. Þetta sjónarmið vegur sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir til þess við mat á frestun réttaráhrifa hvaða áhrif og afleiðingar það muni hafa á hagsmuni aðila verði réttaráhrifum framangreindrar ákvörðunar Byggðasamlags Vestfjarða ekki frestað. Meðal þeirra sjónarmiða, sem litið er til við heildstætt mat á málinu, er hvort ákvörðun varði fleiri en einn aðila og hvort hún sé íþyngjandi í garð kæranda. Þá er litið til þess hvort það muni valda aðilum óafturkræfu tjóni eða tjóni sem erfitt yrði að bæta ef réttaráhrifum kærðar ákvörðunar yrði ekki frestað. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að hin kærða ákvörðun hefur í för með sér verulegar breytingar í garð kæranda. Byggðasamlagið hefur vísað til þess að vegna manneklu skammtímavistunarinnar hafi verið ákveðinn ómöguleiki fyrir hendi til að halda áfram þjónustu við kæranda í skammtímavistun í þeirri mynd sem hún var áður en hin kærða ákvörðun var tekin þar sem ekki hafi tekist að manna vaktir til að sinna þar umönnun kæranda. Einnig kunni að skapast hættuástand fyrir kæranda sökum þess að starfsfólk skammtímavistunarinnar telji sig hvorki í stakk búið eða fært um að sinna þjónustu við hann né standi geta þeirra til að uppfylla þær stuðningsþarfir og það öryggi sem hann þarfnist og eigi rétt til.

Úrskurðarnefndin bendir á að breytingar hafa þegar verið gerðar á þjónustunni og ekki er auðsýnt að um óafturkræft tjón sé að ræða. Vegna þessa er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki séu forsendur til þess að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, enda myndi það ekki breyta þeirri stöðu sem leiddi til hinnar kærðu ákvörðunar. Beiðni kæranda er því synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Byggðasamlags Vestfjarða um breytingu á skammtímavistun kæranda er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira