Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 28/2017. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 6. desember 2017 kærir Íslenska Olíufélagið ehf. útboð Kópavogsbæjar auðkennt „Kópavogur – Knattspyrnuhúsið Kórinn. Nýtt gervigrasyfirborð.“ Kærandi krefst þess efnislega að ákvörðun varnaraðila um val á bjóðanda í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og það verði auglýst að nýju. Jafnframt er krafist skaðabóta, málskostnaðar og endurgreiðslu kærugjalds. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerð varnaraðila um hið útboðna verk um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 21. desember 2017

í máli nr. 28/2017:

Íslenska Olíufélagið ehf.

gegn

Kópavogsbæ

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 6. desember 2017 kærir Íslenska Olíufélagið ehf. útboð Kópavogsbæjar auðkennt „Kópavogur – Knattspyrnuhúsið Kórinn. Nýtt gervigrasyfirborð.“ Kærandi krefst þess efnislega að ákvörðun varnaraðila um val á bjóðanda í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og það verði auglýst að nýju. Jafnframt er krafist skaðabóta, málskostnaðar og endurgreiðslu kærugjalds. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerð varnaraðila um hið útboðna verk um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í september 2017 stóð kærandi fyrir hinu kærða útboði sem fólst í útvegun og fullnaðarfrágangi gervigrass á núverandi knattspyrnuvelli í Kórnum í Kópavogi, upptöku núverandi gervigrass, innfyllingu og grasmottu og útvegun á tveimur aðalmörkum auk sex hornfána og fullnaðarfrágangi þess búnaðar. Kom fram að hið nýja gervigras skyldi vera af bestu fáanlegu gæðum og uppfylla FIFA Quality Pro staðal Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Með tilkynningu til allra bjóðenda hinn 18. október 2017 voru bjóðendur upplýstir um að heimilt væri að leggja fram tilboð vegna gervigrasefnis með staðfestingu á að viðkomandi efni væri í prófunum hjá viðurkenndum óháðum vottunaraðila, en þá skyldu bjóðendur sem kæmu til greina leggja fram staðfestingu á niðurstöðum um að prófanir á viðkomandi efni stæðust gerðar kröfur útboðsgagna. Af gögnum málsins verður ráðið að samtals hafi borist 14 tilboð frá fimm bjóðendum og hafi kærandi verið lægstbjóðandi. Hins vegar hafi tilboð hans ekki komið til greina þar sem niðurstöður prófana sem fylgdu tilboðinu hafi ekki átt við boðið efni. Þá hafi  átta tilboð verið frávikstilboð sem hafi verið með uppbyggingu eða samsetningu heildarkerfis sem ekki hafi verið óskað eftir í útboðsgögnum og því hafi þau ekki verið skoðuð frekar. Hafi í kjölfarið verið ákveðið að ganga til samninga við Metatron ehf. sem hafi átt lægsta tilboð þeirra bjóðenda sem skiluðu tilboðum í samræmi við óskir varnaraðila. Var kæranda tilkynnt 17. nóvember 2017 að tilboð hans hefði ekki verið valið í útboðinu. Samkvæmt upplýsingum varnaraðila var gerður samningur við Metatron ehf. um verkið 18. desember sl.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að engin tilboð í útboðinu, þ.á m. tilboð Metatron ehf. hafi getað uppfyllt kröfur útboðsgagna þar sem vísað var til FIFA Quality Pro staðalsins. Í raun hafi varnaraðili óskað eftir ófáanlegri vöru. Þá hafi ekki verið gert ráð fyrir því í útboðsgögnum að óskað hefði verið eftir gervigrasi með sandi. Jafnframt hafi frávikstilboð ekki verið skoðuð þrátt fyrir að boðið hafi verið upp á möguleika að skila frávikstilboðum. Þá hafi varnaraðili og Metatron ehf. ekki framvísað upplýsingum um aðra velli sem hafi verið lagðir með sama efni og boðið var síðastliðna 12 mánuði, eins og gerð hafi verið krafa um í útboðsgögnum. Auk þess hafi tilboðum verið hafnað á grundvelli sjónarmiða sem ekki hafi verið tilgreind í útboðsgögnum.

 Niðurstaða

Eins og mál þetta liggur fyrir nú verður að miða við að um hið kærða útboð hafi gilt ákvæði laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Í 114. gr. laganna kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í máli þessu liggur fyrir að samningur hefur þegar verið gerður á milli varnaraðila og lægstbjóðanda, Metatron ehf. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna þeirri kröfu kæranda um að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir samkvæmt  110. gr. laganna.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Íslenska Olíufélagsins ehf., um að innkaupaferli varnaraðila, Kópavogsbæjar, auðkennt „Kópavogur – Knattspyrnuhúsið Kórinn. Nýtt gervigrasyfirborð“ verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

                        Reykjavík, 21.  desember 2017

                                                                                   Skúli Magnússon       

                                                                                   Ásgerður Ragnarsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira