Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 452/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 452/2019

Fimmtudaginn 19. mars 2019

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. október 2019, kærði B f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar vegna úthlutunar félagslegrar leiguíbúðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 26. september 2019, var kæranda úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði að C. Að sögn Reykjavíkurborgar kom upp leki í íbúðinni áður en húsaleigusamningur var undirritaður og því varð töf á afhendingu íbúðarinnar. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. október 2019. Fram kemur í kæru að lögð sé fram kvörtun annars vegar vegna munnlegrar neitunar á afhendingu íbúðar sem búið væri að úthluta og hins vegar vegna vanrækslu, aðgerðar-, sinnu- og úrræðaleysis í málinu.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. nóvember 2019, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt málsgögnum. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 29. nóvember 2019 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. desember 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. desember 2019 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. desember 2019. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 15. janúar 2020 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2020. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 30. janúar 2020 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. febrúar 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að lögð sé fram kvörtun annars vegar vegna munnlegrar neitunar á afhendingu íbúðar sem búið hafi verið að úthluta og hins vegar vegna vanrækslu,  aðgerðar-, sinnu- og úrræðaleysis í málinu. Í niðurlagi kæru kemur fram að kærandi krefjist skriflegs og raunhæfs svars frá þjónustumiðstöð Breiðholts varðandi stöðu málsins. Einnig krefjist kærandi raunhæfs bráðabirgðaúrræðis á meðan viðgerð á úthlutaðri íbúð standi yfir og að úthlutunin haldist eða að velferðarsvið útvegi honum aðra íbúð án tafar miðað við það tjón sem vanræksla, aðgerðar-, sinnu- og úrræðaleysi sviðsins hafi valdið honum.

Í athugasemdum kæranda frá 16. desember 2019, vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar, kemur fram að úthlutun íbúðarinnar sé nú komin í gegn og hann sé fluttur inn. Hins vegar sé í greinargerðinni að finna villandi upplýsingar um afgreiðslu málsins og tiltekur kærandi hverjar þær séu. Kærandi kveðst fara þess á leit að úrskurður í málinu byggi á því að afgreiðsla málsins áður en það hafi verið kært hafi brotið í bága við lagaskyldu er varði breytingu/afgreiðslu á stjórnvaldsákvörðun. Að svar lögfræðings velferðarsviðs til úrskurðarnefndarinnar styðji afgreiðsluna sem hafi brotið í bága við lagaskyldu er varði breytingu/afgreiðslu á stjórnvaldsákvörðun og að gefnar hafi verið rangar upplýsingar í svarbréfi vegna málsins til nefndarinnar um framvindu þess.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar sem barst 29. nóvember 2019 kemur fram að kæranda hafi verið úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði, íbúð að C. Áður en húsaleigusamningur hafi verið undirritaður hafi komið í ljós leki í íbúðinni sem nauðsynlegt væri að gera við áður en nýr leigjandi gæti hafið þar búsetu. Þar sem það hafi verið óljóst hversu langan tíma viðgerðin tæki hafi verið leitað leiða til að kanna hvort annað húsnæði gæti hentað kæranda. Það hafi ekki borið árangur og því hafi kærandi dvalið á gistiheimili sem þjónustumiðstöð Breiðholts hafi greitt fyrir. Íbúðin hafi verið lagfærð og því ekkert lengur til fyrirstöðu að skrifað sé undir húsaleigusamning. Af hálfu Reykjavíkurborgar sé því litið svo á að framangreind ákvörðun um úthlutun almenns félagslegs leiguhúsnæðis sem áfangahúsnæði, sem tilkynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 26. september 2019, sé komin til framkvæmda.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar er ítrekað að ákvörðun um úthlutun húsnæðisins sé komin til framkvæmda. Það hafi sannarlega verið leki í umræddri íbúð sem hafi verið nauðsynlegt að gera við áður en nýr leigjandi gæti hafið þar búsetu. Þrátt fyrir skráningu ráðgjafa í dagál frá 28. október 2019, sem vísað sé til í athugasemdum kæranda, hafi úthlutun íbúðarinnar ekki verið dregin til baka, enda hefði slík ákvörðun verið tilkynnt kæranda skriflega. Þar sem óvissa hafi verið um hvenær/hvort kærandi gæti hafið búsetu í húsnæðinu hafi verið til skoðunar hvort nauðsynlegt væri að endurupptaka umrædda úthlutun. Slíkt hafi þó ekki verið gert, enda sé kærandi nú fluttur inn í íbúðina að C.

IV. Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Reykjavíkurborgar vegna úthlutunar félagslegrar leiguíbúðar. Fram kemur í kæru að lögð sé fram kvörtun annars vegar vegna munnlegrar neitunar á afhendingu íbúðar sem búið væri að úthluta og hins vegar vegna vanrækslu, aðgerðar-, sinnu- og úrræðaleysis í málinu. Þá krefjist kærandi skriflegs og raunhæfs svars frá þjónustumiðstöð Breiðholts varðandi stöðu málsins og raunhæfs bráðabirgðaúrræðis á meðan viðgerð á úthlutaðri íbúð standi yfir.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. mgr. 64. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að úrskurðarnefndin fjalli meðal annars um málsmeðferð samkvæmt XVI. kafla laganna og hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar. Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar eða ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 40/1991. Undantekning frá þeirri meginreglu er að finna í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem mælt er fyrir um að heimilt sé að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Úrskurðarnefndin telur að framkomin kæra hafi verið lögð fram á grundvelli framangreinds ákvæðis, enda ljóst að Reykjavíkurborg hafði þá þegar tekið stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda með ákvörðun um úthlutun tiltekinnar íbúðar. Óumdeilt er að töf varð á afhendingu íbúðarinnar og virðist uppi ágreiningur um ástæðu tafarinnar og viðbrögð Reykjavíkurborgar vegna þessa. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni fékk kærandi íbúðina afhenta og er nú fluttur inn. Reykjavíkurborg hefur upplýst að kærandi hafi dvalið á gistiheimili á meðan á viðgerð stóð sem þjónustumiðstöð Breiðholts hafi greitt fyrir. Í ljósi þessa er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira