Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 36/2011

Fimmtudaginn 24. maí 2012

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. desember 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. sama dag. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 11. nóvember 2011, um að synja kæranda um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum.

Með bréfi, dags. 8. desember 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 12. desember 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. desember 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún sé ósátt við synjun Fæðingarorlofssjóðs vegna áhættumats í starfsumhverfi þungaðra kvenna. Kærandi bendir á að hún sé sjálfstætt starfandi sem kvikmyndagerðarmaður og hafi bæði skilað læknisvottorði og skrifað greinargerð til að útskýra mál sitt og ástæðu þess að ekki hafi verið hægt fyrir kæranda að vinna lengur í starfsumhverfi sínu þar sem hún sé barnshafandi.

Kærandi bendir á að sú ástæða sem Fæðingarorlofssjóður hafi gefið fyrir synjun á lengingu á greiðslum úr sjóðnum sé sú að kærandi væri sjálfstætt starfandi einstaklingur með eigið fyrirtæki. Því væri þessari beiðni kæranda um lengingu fæðingarorlofs hafnað. Kærandi bendir á að hún vinni sem verktaki og reki eigið fyrirtæki, í kringum sjálfa sig eingöngu, þar sem kærandi vinni fyrir marga mismunandi aðila. Það sé venjan að verktakar stofni fyrirtæki í kringum þess háttar rekstur og geri kærandi það eins og aðrir verktakar í hinum margvíslegu atvinnugeirum. Kærandi bendir á að verktaki sem vinni sem smiður sé með fyrirtæki í kringum sinn rekstur þar sem hann þurfi gjarnan að flakka á milli vinnuveitanda og fara úr einu verkefni í annað. Hið sama geri hárgreiðslukonur sem þurfi að leigja sæti á hárgreiðslustofum fyrir sína starfsemi. Það að verktaki reki fyrirtæki þurfi ekki að þýða það sama og að hann hafi mikil umsvif eða mikið fjármagn. Kærandi reki lítið fyrirtæki sem geti aðeins greitt kæranda lág laun og óskar kærandi þess að tillit verði tekið til þeirra aðstæðna eins og nú standi hjá henni.

Kærandi bendir á að samkvæmt lögum eigi konur sem starfa í vinnuumhverfi sem geti verið hættulegt fyrir heilsu þeirra og hættulegt börnum þeirra rétt á að fá fyrirfram fæðingarorlof hvort sem þær vinna sem smiðir eða bankastjórar. Kærandi sé starfandi kvikmyndagerðarmaður og sé með eigin rekstur eins og margir aðrir kvikmyndagerðarmenn. Kærandi greiði sér laun sem launþegi í sínu eigin fyrirtæki og borgi tryggingagjald af þeim eins og flest annað vinnandi fólk hér á landi. Vinnuumhverfi kæranda og vaktir geri það að verkum að kæranda sé ekki fært að stunda kvikmyndagerð þar sem það geti verið hættulegt fyrir heilsu kæranda og gæti sett kæranda og ófætt barnið í hættu, til dæmis þar sem kærandi gæti verið send upp á jökul í þyrlutökur eða upp á fjall í jeppatökur. Kærandi telur því að þessi úrskurður komin inn á mæðravernd, vinnuvernd og jafnrétti sjálfstætt starfandi kvenna sem eru þungaðar.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi með bréfi til kæranda, dags. 16. desember 2011, synjað kæranda um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum.

Með umsókn, dags. 28. október 2011, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 28. desember 2011.

Auk umsóknar hafi kæranda borist vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 5. október 2011, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 19. október 2011, launaseðlar frá B ehf. fyrir ágúst–september 2011, læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs, dags. 19. október 2011, og beiðni um öryggislengingu á fæðingarorlofi, dags. 7. nóvember 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra, svo sem fyrirtækjaskrá.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 11. nóvember 2011, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum hefði verið synjað þar sem lengingin ætti ekki við um sjálfstætt starfandi einstaklinga í skilningi laganna.

Fæðingarorlofssjóður telur að rétt þyki samhengisins vegna að rekja tilurð 11. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga nr. 95/2000 (ffl.) sem og að skýra ákvæðið.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í 1. mgr. 11. gr. ffl. komi fram að ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hafi nýlega alið barn eða konu sem sé með barn á brjósti sé í hættu samkvæmt sérstöku mati skuli vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Ef því verði ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skuli vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt sé til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Jafnframt segi í ákvæðinu að um framkvæmd þess skuli farið eftir nánari reglum sem ráðherra setur.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að framangreindar reglur hafi verið settar með stoð í 11. gr. ffl., 73. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og með hliðsjón af tilskipun nr. 92/85/EBE í viðbæti við XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem reglugerð nr. 931/2000, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem séu þungaðar, hafi nýlega alið barn eða hafi barn á brjósti.

Fæðingarorlofssjóður vísar í 1. mgr. 11. gr. ffl. í athugasemdum við frumvarp það er hafi orðið að ffl., en með ákvæðinu hafi verið lögfest ákveðin réttindi samkvæmt tilskipun nr. 92/85/EBE:

 „Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði ákveðin réttindi samkvæmt tilskipun nr. 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti. Þessar reglur koma nú fram í reglugerð nr. 679/1998, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Sú reglugerð er sett með stoð í 73. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og með hliðsjón af framangreindri tilskipun. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla á efni tilskipunarinnar standi áfram í framangreindri reglugerð. Er þar meðal annars kveðið á um sérstakt mat á eðli hugsanlegrar hættu fyrir starfsmenn og um aðgerðir í kjölfar þess. Er með þessu átt við störf sem á grundvelli matsins eru talin leiða til þess að öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem nýlega hefur alið barn eða hefur barn á brjósti er í hættu. Í reglugerðinni er fjallað nánar um hvernig standa skuli að ákvörðun um hvort nægilegt sé að breyta vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma eða hvort frekari aðgerða þurfi við. Er meðal annars kveðið á um heimild vinnuveitanda til að leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um breytta vinnutilhögun starfsmanns eða leyfi. Þá er Tryggingastofnun ríkisins og/eða hlutaðeigandi starfsmanni heimilt að óska eftir því við Vinnueftirlit ríkisins að það endurskoði ákvörðun vinnuveitanda.“

Fæðingarorlofssjóður vísar í 2. mgr. 11. gr. ffl. þar sem komi fram að þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu, sbr. 1. mgr., skuli ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Um 2. mgr. 11. gr. ffl. segi svo í athugasemdum með lagafrumvarpinu:

„Í 2. mgr. er kveðið á um að þær breytingar á vinnuskilyrðum konu, sbr. 1. mgr., sem teljast nauðsynlegar skuli ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Ákvæðið er efnislega samhljóða niðurlagi 6. gr. gildandi laga um fæðingarorlof. Það ákvæði tekur þó aðeins til þungaðra kvenna en hér er lagt til í samræmi við ákvæði tilskipunar nr. 92/85/EBE að sömu réttindi gildi fyrir konur sem hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.“

Fæðingarorlofssjóður vísar í 3. mgr. 11. gr. ffl. þar sem segir að ef veita þurfi þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt ákvæðinu eigi hún rétt á greiðslum, sbr. 13. gr. Um 3. mgr. 11. gr. ffl. segir svo í athugasemdum með lagafrumvarpinu:

„Í 3. mgr. er lagt til að þunguð kona eigi rétt á greiðslum líkt og hún væri í fæðingarorlofi þyki nauðsynlegt að veita henni leyfi frá störfum svo sem mælt fyrir um í 1. mgr. Hér er um að ræða verulega réttarbót frá þeim reglum sem nú gilda um greiðslur til þungaðra kvenna sem verða að fara í leyfi frá störfum verði ekki komið við breytingum á starfsháttum eða tilfærslum í starfi. Samkvæmt þeim reglum sem nú gilda, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 679/1998, getur barnshafandi kona sem verður að fara í leyfi af öryggisástæðum sótt um greiðslur skv. 15. og gr. 16. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Samkvæmt þeim ákvæðum á barnshafandi kona rétt á fæðingarstyrk og fæðingardagpeningum í hámark 60 daga ef henni er nauðsynlegt að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingar tíma barns. Til viðbótar er heimilt samkvæmt þessum reglum að hefja greiðslu fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.

Heimildin til greiðslu skv. 3. mgr. er takmörkuð við þungaðar konur. Ástæðan er sú að kona sem hefur nýlega alið barn eða er með barn á brjósti á sjálfstæðan rétt samkvæmt frumvarpi þessu til þriggja mánaða fæðingarorlofs með greiðslum auk sameiginlegs réttar til þriggja mánaða til viðbótar með föður barnsins og nýtur þá greiðslna skv. 13. gr. Þó er vakin athygli á að jafnan er heimilt að veita konu sem er með barn á brjósti leyfi frá störfum, skv. 1. mgr., í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði verði ekki við komið að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Vari leyfið lengur en sá tími sem konan á rétt til og ætlar að taka í fæðingarorlof gerir frumvarpið ekki ráð fyrir sérstökum greiðslum á þeim grundvelli.“

Fæðingarorlofssjóður telur af framangreindum ákvæðum 11. gr. ffl. og athugasemdum með lagafrumvarpinu að vart verði annað ráðið en átt sé við starfsmenn en ekki sjálfstætt starfandi.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í 8. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé fjallað um rétt þungaðra kvenna til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Þar sé meðal annars fjallað um hvað umsækjandi þurfi að leggja fram vegna leyfisins.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að ráðherra geti gefið út sérstaka reglugerð vegna öryggis- og heilbrigðis á vinnustöðum, sbr. reglugerð nr. 931/2000. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé að finna skilgreiningar á hugtökunum „þunguð kona“, „kona sem hefur nýlega alið barn“ og „kona sem hefur barn á brjósti“. Í ákvæðinu segir orðrétt:

„Þegar hugtökin „þunguð kona“, „kona sem hefur nýlega alið barn“ og „kona sem hefur barn á brjósti“ eru notuð í reglugerð þessari er átt við starfsmenn sem hafa greint vinnuveitanda sínum frá því ásigkomulagi sínu.“

Fæðingarorlofssjóður telur að í tilskipun ráðsins nr. 92/85/EBE frá 19. október 1992, um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem séu þungaðir, hafi nýlega alið börn eða hafi börn á brjósti (tíunda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), sem ákvæði 11. gr. ffl. sé byggt á, komi bersýnilega fram að tilskipunin eigi við um starfsmenn en ekki sjálfstætt starfandi. Megi sjá fjölmörg merki þess í almennum athugasemdum Ráðs Evrópubandalaganna í inngangi að tilskipuninni. Í tilskipuninni sjálfri séu einnig fjölmörg ákvæði sem styðji það að tilgangurinn með henni hafi verið sá að tryggja rétt starfsmanna í aðildarríkjunum en ekki sjálfstætt starfandi. Segir meðal annars í 1. tölul. 1. gr.

„Markmið með þessari tilskipun, sem er tíunda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE, er að gera ráðstafanir til að bæta á vinnustöðum öryggi og heilbrigði starfsmanna sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti.“

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í 2. gr. tilskipunarinnar sé að finna skilgreiningar þar sem vart verði annað séð en verið sé að fjalla um starfsmenn sem hafi vinnuveitendur og geti þ.a.l. ekki átt við um sjálfstætt starfandi. Í ákvæðinu segir meðal annars:

 „Í tilskipun þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a. þungaður starfsmaður: þungaður starfsmaður sem greinir vinnuveitanda sínum frá ásigkomulagi sínu í samræmi við innlenda löggjöf og/eða venjur;

b. starfsmaður sem hefur nýlega alið barn: starfsmaður sem hefur nýlega alið barn í skilningi innlendrar löggjafar og/eða venja og greinir vinnuveitanda sínum frá ásigkomulagi sínu í samræmi við þessa löggjöf og/eða venjur;

c. starfsmaður sem hefur barn á brjósti: starfsmaður sem hefur barn á brjósti í skilningi innlendrar löggjafar og/eða venja og greinir vinnuveitanda sínum frá ásigkomulagi sínu í samræmi við þessa löggjöf og/eða venjur.“

Fæðingarorlofssjóður telur að af öllu framangreindu leiði að tilgangurinn með tilskipun 92/85/EBE hafi verið að tryggja öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn en ekki sjálfstætt starfandi. Hafi sá réttur verið lögfestur með 11. gr. ffl. svo og í reglugerð nr. 1218/2008 og í sérstakri reglugerð nr. 931/2000, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem séu þungaðar, hafi nýlega alið barn eða hafi barn á brjósti. Hafi það jafnframt verið staðfest í úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 43/2007.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að samkvæmt fyrirtækjaskrá RSK sé kærandi stjórnarmaður og framkvæmdastjóri B ehf. Í kæru komi jafnframt fram að kærandi sé sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður og að hún reki eigið fyrirtæki í kringum sig sjálfa eingöngu. Jafnframt komi fram að hún greiði sér laun sem launþegi í sínu eigin fyrirtæki og borgi tryggingagjald af þeim.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í 7. gr. ffl. séu skilgreiningar á starfsmönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum. Þannig komi fram í 2. mgr. 7. gr. að starfsmaður í lögunum sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þó eigi hugtakið starfsmaður í VII. kafla við um alla sem vinni launuð störf í annarra þjónustu.

Fæðingarorlofssjóður vísar í 3. mgr. 7. gr. ffl. þar sem er að finna skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingi. Þar segi að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé sá sem starfi við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Fæðingarorlofssjóður telur samkvæmt framangreindri skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstakling, aðstæðum hjá kæranda, sbr. fyrirtækjaskrá RSK og því sem komi fram í kæru um að hún reki eigið fyrirtæki í kringum sig sjálfa eingöngu og að hún greiði sér laun sem launþegi í sínu eigin fyrirtæki og borgi tryggingagjald af þeim, og úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 40/2009 sé ljóst að kærandi teljist vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi ffl. Þegar af þeirri ástæðu geti kærandi ekki átt rétt á lengingu fæðingarorlofs vegna öryggis- og heilbrigðis á vinnustöðum.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 11. nóvember 2011, beri með sér rétta ákvörðun.

 

IV.

Niðurstaða.

Kæra varðar ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli 11. gr. ffl. vegna starfa hennar sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún sé ósátt við synjun Fæðingarorlofssjóðs vegna áhættumats í starfsumhverfi þungaðra kvenna. Kærandi bendir á að hún sé sjálfstætt starfandi sem kvikmyndagerðarmaður og hafi bæði skilað læknisvottorði og greinargerð til útskýringar máli sínu. Kærandi bendir á að hún sé verktaki með fyrirtæki í kringum sig eina. Ekki sé um mikil umsvif að ræða í fyrirtækinu og hún þurfi sjálf að flakka milli verkefna.

Í 1. mgr. 11. gr. ffl. segir að ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti sé í hættu samkvæmt sérstöku mati skuli vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Verði því ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skuli vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Jafnframt segir í 1. mgr. 11. gr. að um framkvæmd ákvæðisins skuli fara eftir nánari reglum sem félagsmálaráðherra setji. Slíkar reglur hafa verið settar með stoð í 11. gr. ffl., 73. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og með hliðsjón af tilskipun nr. 92/85/EBE í viðbæti við XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Reglurnar koma fram í reglugerð nr. 931/2000 um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða haft barn á brjósti. Um gildissvið reglugerðarinnar og markmið segir í 1. gr. hennar að hún taki til kvenna sem eru starfsmenn og eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti og er markmið hennar að bæta öryggi og heilbrigði þeirra á vinnustöðum en ákvæði sama efnis var áður í eldri reglugerð nr. 679/1998 um sama efni. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. ffl. á þunguð kona rétt á greiðslum ef veita þarf henni leyfi frá störfum samkvæmt ákvæðinu, sbr. einnig 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 931/2000.

Í athugasemdum með 11. gr. ffl. segir meðal annars: „Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði ákveðin réttindi samkvæmt tilskipun nr. 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Þessar reglur koma nú fram í reglugerð nr. 679/1998, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.“ Í athugasemdunum er gert ráð fyrir að nánari útfærsla á efni tilskipunarinnar standi áfram í reglugerðinni nr. 679/1998.

Í 2. gr. tilskipunar 92/85/EBE er hugtakið „þungaður starfsmaður“ í tilskipuninni skýrt sem þungaður starfsmaður sem greinir vinnuveitanda sínum frá ásigkomulagi sínu í samræmi við innlenda löggjöf og/eða venjur. Samkvæmt því tekur tilskipunin til launþega en ekki sjálfstætt starfandi einstaklinga og leggur skyldur á vinnuveitendur þeirra. Í 2. mgr. 7. gr. ffl. segir: „Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þó á hugtakið starfsmaður í VII. kafla við um alla sem vinna launuð störf í annarra þjónustu.“

Þegar litið er til gildissviðs reglugerðar 92/85/EBE, innleiðingar reglugerðarinnar í íslenskan rétt, orðalags ákvæðis 11. gr. ffl. og skilgreiningu orðsins starfsmaður í 2. mgr. 7. gr. laganna telur úrskurðarnefndin að sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi ekki rétt til lengingar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli 11. gr. ffl. Tilgangur 11. gr. ffl. samkvæmt athugasemdum í greinargerð er að lögfesta ákveðin réttindi samkvæmt tilskipun nr. 92/85/EBE. Að mati nefndarinnar er ákvæði 11. gr. og gildissvið þess í samræmi við þá tilskipun og sama gildir um þær reglugerðir sem settar hafa verið vegna innleiðingar þeirrar tilskipunar.

Með hliðsjón af framanrituðu er hin kærða ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira