Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2018, um að svipta skip leyfi til grásleppuveiða í eina viku kærð

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi:

 

Úrskurð

I.    Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru X, f.h., Y., dags. 31. október 2019, þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2018, um að svipta skipið Z, um leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá og með útgáfu næsta leyfis, sbr. 1. og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands vegna brots á 8. gr. reglugerðar nr. 270/2018, um hrognkelsaveiðar árið 2018. Kæruheimild er í 6. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og er kærufrestur einn mánuður.

 

II.  Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. október 2018, um að svipta skipið Z, um leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá og með útgáfa næsta leyfis, sbr. 1. og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands verði felld úr gildi.

 

III. Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins kemur fram að skipið Zhafi verið á grásleppuveiðum á grásleppuvertíðinni 2018. Samkvæmt skýrslu veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 16. ágúst 2018, hafi skoðun á afladagbók skipsins leitt í ljós að í veiðiferðum skipsins, dags. 6. júní 2018, 12. júní 2018, 17. júní 2018, 24. júní 2018 og 29. júní 2018 hafi verið dregin grásleppunet sem lágu lengur en fjóra sólahringa í sjó. Með ákvörðun, dags. 2. október 2018, svipti Fiskistofa Z um leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá og með útgáfu næsta gráleppuveiðileyfis, vegna brots á 8. gr. reglugerðar nr. 270/2018, um hrognkelsaveiðar 2018.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2018, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af ákvörðun Fiskistofu sem og öðrum gögnum er stofnunin taldi skipta máli. Umsögn Fiskistofu ásamt umbeðnum gögnum barst ráðuneytinu, dags. 18. janúar 2019. Með bréfi, dags. 1. mars 2019, var kæranda boðið að koma fram með athugasemdir við umsögn Fiskistofu. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 12. mars 2019. Ekki þótti tilefni til að senda athugasemdir kæranda til Fiskistofu og er málið tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

IV. Málsástæður kæranda

Kærandi telur ákvörðun Fiskistofu um sviptingu grásleppuveiðileyfis í eina viku vera of þunga fyrir brot sem Fiskistofa telur minniháttar. Fram kemur að kærandi hafi ekki alltaf getað vitjað netanna innan fjögurra sólahringa vegna veikinda, veðurs og bilunar í vélarbúnaði bátsins. Þar sem kærandi sé einn á stóru svæði og ekki annan bát að fá sé erfitt að leysa úr þannig aðstæðum. Kærandi segist þurfa að vitja um öll netin í einu og sé því háður veðri vegna þeirra aðstæðna. Ástæðan sé sú að keyra þurfi allan afla í Búðardal. Á vertíðinni hafi verið lítil veiði eins og sjá megi á aflatölum. Þeir sem stundi grásleppuveiðar viti að grásleppan drepst ekki í netunum þó ekki sé vitjað innan fjögurra sólahringa. Kærandi vísar til þess að ekki sé hægt að fara á sjó á biluðum bát eða í tvísýnu veðri. Sem ábyrgur sjómaður sé kærandi hugsi yfir því að Fiskistofa taki ekki tillit til slíkra þátta þar sem mikið sé lagt upp úr öryggi sjómanna.

Kærandi vísar til þess að á vertíðinni 2017 hafi veiðieftirlitsmaður Fiskistofu komið um borð í bátinn meðal annars til að mæla teinalengd á trossum. Mælingin hafi farið þannig fram að trossan hafi verið dregin úr sjó í eina hrúgu á dekk bátsins þar sem hún hafi legið í þara og ýmsu rusli. Komið hafi í ljós að teinarnir voru tveim til fimm metrum of langir. Kærandi segist draga áreiðanleika mælinganna í efa. Einnig segir kærandi að rangt hafi verið að kærandi hafi haft fjögur net í sjó. Kærandi hafi einungis haft tvö löng net. Á vertíðinni 2017 hafi net kæranda verið 160 metrar sem sé innan leyfilegra marka.

V.  Sjónarmið Fiskistofu

Kærandi Fiskistofa telur kæranda styðja kæruna þeim rökum að vegna aðstæðna sem hafi skapast hjá útgerðinni á gráleppuvertíð 2018 hafi verið ómögulegt að vitja um net Z eins og mælt sé fyrir um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Fiskistofa geti ekki fallist á að þau atriði sem kærandi tilgreinir í andmælum séu til þess fallin að leysa hann undan þeim skyldum. Í 8. gr. reglugerðar nr. 270/2018, um hrognkelsaveiðar 2018, sé sú skylda lögð á þá sem hafi leyfi til grásleppuveiða að þeir dragi net skipanna með reglubundnum hætti og hagi veiðum þannig að net liggi aldrei lengur en fjórar nætur í sjó. Frá þessi megi víkja að tveimur skilyrðum uppfylltum og þurfi þeim báðum að vera fullnægt. Veður þurfi að hamla veiðum þannig að ekki sé hægt að draga net úr sjó og tilkynna þurfi Fiskistofu að ekki hafi verið hægt vitja netanna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Fiskistofu að veður hafi hamlað því að kærandi gæti vitjað netanna. Þá vísar Fiskistofa til þess að ekki sé heimilt að láta net liggja lengur í sjó vegna veikinda eða bilunar skips.

Fiskistofa segist leggja þann skilning í málatilbúnað kæranda að kærandi telji svipting veiðileyfis vegna minniháttar brots fari gegn á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þessu hafnar Fiskistofa, í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, segi að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem stefnt sé að verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakir en nauðsynlegt sé. Fiskistofa telur hina kærða ákvörðun í samræmi við ákvæðið. Meðalhófsreglan verði ekki skilin þannig að hún skyldi eða heimili Fiskistofu að ákveða vægari viðurlög en löggjafinn hefur ákveðið. Í 4. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997 segi að við fyrsta minniháttar brot gegn lögunum og reglum settum samkvæmt þeim skuli Fiskistofa veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Í 5. mgr. 21. gr. segi að áminningar skuli hafa ítrekunaráhrif í tvö ár. Með skriflegri áminningu sé hlutaðeigandi veitt tækifæri til að breyta háttsemi sinni án þess að koma þurfi til sviptingar. Heimild til að veita skriflega áminningu sé bundin við fyrsta brot hlutaðeigandi. Fiskistofa hafi veitt kæranda skriflega áminningu, dags. 5. október 2017, áminningu skv. 4. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, vegna brots gegn ákvæðum þá gildandi reglugerðar um hrognkelsaveiðar. Kærandi hafi brotið gegn reglum um hrognkelsaveiðar á veiðitímabilinu 2018. Vegna ítrekunaráhrifa frá fyrri áminningu hafi skip kæranda verið svipt leyfi til grásleppuveiða í eina viku á skv. 1.gr. sbr. 3. gr. 21. gr. laga nr. 79/1997 og hafi það verið vægustu viðurlög sem lög heimiluðu.

VI. Rökstuðningur

 

a)   Kærufrestur.

Sú ákvörðun sem er til umfjöllunar í máli þessu er dagsett 2. október 2018. Kærufrestur er einn mánuður, skv. 6. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Kæra barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 31. október 2018, og kæra telst því komin innan tilskilins frests. Z var svipt leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá og með 4. júní 2019 til og með 10. júní 2019. Þrátt fyrir að veiðileyfissviptingin er liðin þá á kærandi lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð í málinu þar sem ítrekunaráhrifa gætir í tvö ár. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

 

b)   Reglur um vitjun neta.

Óumdeilt er að í veiðiferðum Z, dags. 6. júní 2018, 12. júní 2018, 17. júní 2018, 24. júní 2018 og 29. júní 2018 voru dregin grásleppunet sem lágu lengur en fjórar sólahringa í sjó og er það brot gegn 8. gr. reglugerðar nr. 270/2018, um hrognkelsaveiðar 2018. Kærandi ber fyrir sig að hafa ekki komist að vitja netanna vegna veðurs, bilana bátsins og veikinda. Kærandi viðurkennir einnig að fyrir tossaskap hafi kærandi ekki tilkynnt Fiskistofu um að tafir yrðu á því að netin yrðu dregin úr sjó. Fiskistofa hafnar því að framangreindar málsástæðum kæranda þar sem skýrt komi fram í 8. gr. reglugerðarinnar við hvaða aðstæður heimilt sé að vitja neta síðar en kveðið er á um í ákvæðinu og við hvaða skilyrði og þeim hafi ekki verið fullnægt í máli þessu.

 

Í 8. gr. reglugerðar nr. 270/2018, um hrognkelsaveiðar 2018 kemur fram að grásleppunet skulu dregin eigi síðar en 4 sólarhringum eftir að þau eru lögð í sjó. Frá þessu megi aðeins víkja ef veður hamli sjósókn með þeim hætti að ekki reynist unnt að vitja neta enda hafi skipstjóri sent Fiskistofu tilkynningu þar að lútandi. Í ákvæðinu er alveg skýrt við hvaða aðstæður er heimilt að draga net úr sjó síðar en fjórum sólahringum. Ekkert tillit er tekið til þess hvort bátur bilar né hvort veikindi hamli því að hægt sé að sækja sjó. Þá er einnig ljóst að kærandi tilkynnti ekki til Fiskistofu að veður hefði hamlaði sjósókn í eitthvert skiptanna. Af því leiðir að kærandi gerðist brotlegur við 8. gr. reglugerðarinnar með því að hafa ekki vitjað netanna í fimm skipti innan fjögurra sólahringa.

c)   Svipting á leyfi til grásleppuveiða í eina viku.

Í stjórnsýslukæru kemur fram að kærandi telji ákvörðun Fiskistofu um sviptingu grásleppuveiðileyfis í eina viku vera of þunga fyrir brot sem Fiskistofa telur minniháttar. Fiskistofa vísar til þess að vegna ítrekunaráhrifa fyrra brots kæranda hafi Fiskistofu ekki verið heimilt að veita skriflega áminningu, s. og 4. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Ráðuneytið tekur undir með Fiskistofu að þar sem ítrekunaráhrifa gætti í máli kæranda hafi Fiskistofa ekki verið heimilt að veita skriflega áminningu þrátt fyrir að stofnunin teldi brot kæranda minniháttar. Í 3. mgr. 21. gr. kemur fram að við fyrsta brot er varðar svipting veiðileyfis skuli leyfissviptingin ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Fiskistofa svipti skipið Z um leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá útgáfu næsta leyfis og beitti þannig vægustu viðurlögum sem 3. mgr. 21. gr. mælir fyrir um.

Með vísan til alls framanritaðs staðfestir ráðuneytið ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2018, um að svipta skipið Z leyfi til grásleppuveiða í eina viku

 

VII. Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 2. október 2018, um að svipta skipið Z leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá og með 4. júní 2019 til og með 10. júní 2019.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira