Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 349/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 349/2017

Miðvikudaginn 10. janúar 2018

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson lögfræðingur.

Með kæru, 25. september 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 30. júní 2017 á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning, dags. 9. mars 2016, frá kæranda um að hann hefði orðið fyrir slysi við vinnu X 2014. Í tilkynningunni var slysinu lýst þannig að kærandi hafi verið að aka [...] þegar hann hafi keyrt ofan í holu og fengið við það mikinn hnykk á líkamann, einkum mjóbak. Stofnunin hafnaði bótaskyldu með bréfi, dags. 30. júní 2017. Í bréfinu segir að ekki hafi verið sýnt fram á með ótvíræðum hætti að einkenni frá baki megi rekja til slyssins X 2014. Þar af leiðandi séu orsakatengsl á milli slyssins og heilsutjóns óljós og því ekki skilyrði til að víkja frá tilkynningarfresti 6. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2017. Með bréfi, dags. 2. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargögn bárust frá lögmanni kæranda með tölvupósti, dags. 13. desember 2017, og voru þau send Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé eftir að synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga verði endurskoðuð.

Í kæru segir að í höfnunarbréfi Sjúkratrygginga Íslands komi meðal annars fram að slys kæranda hafi verið tilkynnt eftir að ársfrestur 6. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga hafi verið liðinn. Það sé mat stofnunarinnar að orsakatengsl á milli slyss Harðar og heilsutjóns hans séu óljós. Af þeirri ástæðu séu ekki uppfyllt skilyrði til að víkja frá fyrrnefndum tilkynningarfresti. Umsókn kæranda hafi því verið hafnað.

Á framangreinda afstöðu geti kærandi ekki fallist og sé honum nauðugur einn sá kostur að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að við úrlausn málsins hafi verið litið til þágildandi ákvæða IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sem hafi verið í gildi á þeim tíma sem slysið hafi átt sér stað. Í þágildandi 28. gr. laganna komi fram að þegar slys beri að höndum sem ætla megi að sé bótaskylt skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði tafarlaust senda tilkynningu um slysið á því formi sem Sjúkratryggingar Íslands skipi fyrir um. Ef sá sem hafi átt að tilkynna slys hafi vanrækt það skuli það eigi vera því til fyrirstöðu að sá sem hafi orðið fyrir slysi eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta ef það sé gert áður en ár sé liðið frá því að slysið hafi borið að höndum. Heimilt sé þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slys hafi borið að höndum ef atvik séu svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði er máli skipti. Sett sé það skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að sýnt sé fram á orsakasamband á milli slyssins og heilsutjóns hins slasaða.

Samkvæmt tilkynningu hafi slysið orðið þann X 2014 en það hafi ekki verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands fyrr en X 2016 og hafi eins árs tilkynningarfrestur 28. gr. laga um almannatryggingar því verið liðinn. Aðeins verði vikið frá tilkynningarfresti laganna ef sýnt sé fram á orsakasamband á milli slyssins og heilsutjóns hins slasaða. Í hinni kærðu ákvörðun hafi komið fram að skilyrði þágildandi 28. gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt þar sem ekki hafi verið sýnt fram á með ótvíræðum hætti að einkenni kæranda mætti rekja til slyssins X 2014. Þar af leiðandi hafi orsakatengsl á milli slyssins og heilsutjónsins verið óljós og hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að ekki væri skilyrði til að víkja frá tilkynningarfresti þágildandi 28. gr. laganna.

Samkvæmt umsókn hafi kærandi verið að [...] við vinnu sína X 2014. Við akstur [...] hafi hann keyrt í holu og fengið við það mikinn hnykk á líkamann, einkum mjóbak. Hann hafi verið óvinnufær vegna þess í eina viku. Tilkynningin hafi verið undirrituð af umsækjanda en atvinnurekandi hafi ekki svarað beiðni lögmanns kæranda um undirskrift á umsókn, þ.e. staðfestingu á því sem komi fram í umsókninni.

Í læknisvottorði, dags. 3. janúar 2017, komi fram að kærandi hafi leitað til heimilislæknis daginn eftir slysið. Þar komi fram að hann hafi nokkrum dögum áður lent í slysi [...] er hann hafi keyrt ofan í djúpa holu og fengið mikið högg og slink upp í bakið. Eftir þetta hafi hann haft raunverulega versnandi bakverk, þ.e. vinstra megin í mjóbaki og honum hafi fundist verkinn leiða niður í vinstri fót, en hann hafi ekki verið með dofa eða máttleysi. Við skoðun hafi ekki verið þreifieymsli yfir hryggjartindum en hann hafi verið aumur á vöðvafestum mjaðmagrindar vinstra megin. Hann hafi ekki verið með taugaeinkenni en með verk vinstra megin í bakinu er hann hafi bograð fram. Læknir hafi talið að um vöðvatognun væri að ræða og hafi kærandi fengið ráðleggingar um notkun verkjalyfja sem hann hafi fengið uppáskrifað hjá læknum deginum áður. Þann X 2014 hafi komið fram að verkir hafi verið minni og kærandi hafi farið aftur að vinna og fengið lyfseðil fyrir verkjalyfjum.

Kærandi hafi verið í samskiptum við heimilislækni vegna annarra vandamála X 2014 og X 2014. Þá hafi hann lent í slysi X 2015, ca. 4 mánuðum eftir slysið X 2014. Slysið hafi orðið með þeim hætti að [...] og slegist utan í kæranda. Hann hafi fengið högg á búkinn og slink og hafi lýst verkjum í baki og öxlum eftir þetta slys. Við skoðun hafi meðal annars komið fram að hann hafi verið með vægan stirðleika við hreyfingar í lendhrygg og verið talinn hafa tognað. Þann X 2015 hafi kærandi orðið fyrir líkamsárás og leitað í kjölfarið á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans vegna einkenna í vinstra hné og stórutá. Þann X 2015 hafi kærandi hlotið ristaráverka eftir að hafa misst þungt [...] á ristina.

Kærandi hafi næst leitað til heimilislæknis vegna einkenna í mjóbaki X 2015. Hann hafi þá sagt verkinn hafa komið fjórum dögum áður. Þann X 2015 hafi kærandi leitað aftur á heilsugæsluna vegna mjóbaksverkja sem hann hafi sagt hafa versnað verulega undanfarnar vikur. Við skoðun hafi verið lýst skertri hreyfigetu um lendhrygg og mjaðmir beggja vegna. Þann X 2015 hafi verið gerð segulómrannsókn af lendhrygg sem hafi sýnt slitbreytingar á neðstu liðbilum og breiðbasa diskafturbungun með bungandi dropa til vinstri sem hafi virst ýta við taugarót (vinstra megin). Kærandi hafi í framhaldinu verið til meðferðar hjá C heila- og taugaskurðlækni vegna bungandi disks í bakinu auk þess sem hann hafi verið til meðferðar hjá D bæklunarskurðlækni. Þá hafi kærandi lagst inn á E og verið verkjastilltur á Landspítala-háskólasjúkrahúsi en ekki hafi verið þörf á að víkja nánar að þeirri meðferð í hinni kærði ákvörðun.

Varðandi heilsufar fyrir slysið X 2014 komi fram að kærandi hafi í gegnum tíðina ítrekað lent í hnjaski og smáslysum. Fyrst hafi verið getið um slys eða áverka 2001 og síðan um slys [...] í X og X 2006. Kærandi hafi leitað til heimilislæknis í X 2007 og þá verið með talsverða verki í baki sem hann hafi talið vera eftir slysið í X 2006. Í sjúkraskrárgögnum málsins komi fram að eftir þessa komu hafi kærandi verið í vandræðum með viðvarandi verki í baki. Hann hafi á ný reynt við [...] um X 2012 en hafi illa þolað við og verið óvinnufær að nýju í framhaldinu um X 2012.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki verið ráðið af gögnum málsins við hvaða afleiðingar kærandi búi í dag sem rekja megi til slyssins X 2014. Með hliðsjón af heilsufarssögu kæranda hafi að mati stofnunarinnar verið ómögulegt að tengja núverandi einkenni við hið tilkynnta slys. Kærandi hafi verið með langa sögu um viðvarandi verki í baki sem hafi meðal annars leitt til óvinnufærni. Þá hafi hann lent í öðru slysi fjórum mánuðum eftir hið tilkynnta slys þar sem hann hafi fengið áverka á lendhrygg.

Þá hafi að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki verið séð að hið tilkynnta slys hafi valdið versnun á fyrri bakeinkennum kæranda þar sem um hafi verið að ræða lágorkuáverka eftir að hafa keyrt [...] yfir holu sem hafi valdið vöðvatognun. Miðað við lýsingar í sjúkraskrárgögnum og vottorði heimilislæknis, dags. 3. janúar 2017, hafi orðið að ætla, að mati stofnunarinnar, að kærandi hafi jafnað sig af umræddum áverka fljótlega eftir slysið en fyrri bakvandamál hafi síðan tekið sig upp á árinu 2015.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki verið sýnt fram á með ótvíræðum hætti að einkenni frá baki megi rekja til X 2014. Þar af leiðandi hafi orsakatengsl á milli slyssins og heilsutjóns kæranda verið óljós og því hafi ekki verið talið að skilyrði fyrir að víkja frá tilkynningarfresti þágildandi 28. gr. laga um almannatryggingar væru uppfyllt. Í ljósi framangreinds hafi ekki verið talið heimilt að verða við umsókn kæranda um greiðslur bóta úr slysatryggingum almannatrygginga og hafi málið ekki verið skoðað frekar efnislega.

Í ljósi fyrri sögu kæranda um bakverki til margra ára sé að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki unnt að staðreyna orsakatengsl á milli núverandi einkenna kæranda og slyssins X 2014. Að því sé einnig að gæta að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi keyrt [...] yfir holu sem hafi valdið vöðvatognun og því sé um að ræða lágorkuáverka sem ætla megi af lýsingum í sjúkraskrárgögnum og vottorði heimilislæknis að kærandi hafi jafnað sig af fljótlega eftir slysið. Þetta auki enn frekar á hið óljósa orsakasamband.

Skilyrði þágildandi laga um almannatryggingar nr. 100/2007 til þess að heimilt sé að greiða bætur þótt ár sé liðið frá því að slys hafi borið að höndum þegar það sé tilkynnt, séu samkvæmt framansögðu ekki uppfyllt að mati Sjúkratrygginga Íslands. Því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Í ljósi framangreinds sé það mat stofnunarinnar að ekki sé þörf á að bíða eftir matsgerð þeirri sem lögmaður kærandi vísi til í kæru heldur sé málið nú tækt til úrskurðar.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga vegna slyss sem kærandi varð fyrir X 2014.

Við úrlausn málsins ber að leggja til grundvallar gildandi rétt á þeim tíma sem slysið átti sér stað. Í X 2014 voru ákvæði um slysatryggingar í IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. nú lög nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 27. gr. laganna taka slysatryggingar til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 29. eða 30. gr. Í 2. málsl. sömu greinar segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.

Í þágildandi 1. mgr. 28. gr. laganna segir að þegar slys beri að höndum, sem ætla megi að sé bótaskylt samkvæmt lögunum, skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði, sé ekki um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið í því formi sem sjúkratryggingastofnunin skipi fyrir um til lögreglustjóra eða umboðsmanns hans. Þá segir í 2. mgr. 28. gr. að ef vanrækt sé að tilkynna um slys sé hægt að gera kröfu til bóta ef það sé gert áður en ár sé liðið frá því að slysið hafi borið að höndum. Heimilt sé þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slysið hafi borið að höndum ef atvik séu svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði sem máli skipti. Einnig segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

Með stoð í þágildandi 2. mgr. 28. gr. laganna, sbr. nú 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/2015, hefur verið sett reglugerð nr. 356/2005 um tilkynningarfrest slysa. Ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests er að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hann leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar slasaða. Jafnframt er skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns slasaða.“

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning um slys kæranda 10. mars 2016 og var þá liðið meira en ár frá því það átti sér stað. Frestur til að tilkynna slysið var þá liðinn samkvæmt þágildandi 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga um almannatryggingar. Stofnunin synjaði bótaskyldu í málinu á þeirri forsendu að skilyrði undantekningarákvæðis 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna væru ekki uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum, að greiða bætur þótt liðið sé meira en ár frá slysi. Undantekningarákvæðið ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Skilyrði þess að vikið sé frá ársfrestinum er að ljóst sé að orsakasamband sé á milli slyss og þess áverka sem sótt er um bætur fyrir, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægileg. Fyrir liggur læknisvottorð F, dags. 3. janúar 2017, sem ritað var að beiðni lögmanns kæranda. Í vottorðinu koma fram upplýsingar um afleiðingar slyssins, einkenni og umkvörtunarefni, hvaða meðferð kærandi hafi hlotið, óvinnufærni og framtíðarhorfur. Í vottorðinu kemur fram varðandi stoðkerfisvandamál að kærandi hafi ítrekað lent í hnjaski og smáslysum í gegnum tíðina. Varðandi slysið X 2014 segir meðal annars í vottorðinu:

„Fyrsta koma hér á heilsugæsluna eftir slysið þann X 2014. Hann leitar hingað á síðdegisvaktina og segir frá því að hann hafi nokkrum dögum áður verið að keyra [...] í vinnunni þegar [...] lenti ofan í djúpa holu og hann fékk mikið högg og slynk upp í bakið. Hafi haft raunverulega versnandi bakverk eftir þetta, það er vinstra megin í mjóbaki og honum finnst hann leiða niður í vinstri fót einnig án þess þó að um sé að ræða dofa eða máttleysi. Finnst best að liggja á hægri hliðinni en er slæmur verkur þegar hann reynir að hreyfa sig. Við skoðun þá lýsir læknir að A haltri inn vegna verkjanna í bakinu, hann sé ekki með þreifieymsli yfir hryggjartindum en hann sé aumur á vöðvafestum mjaðmagrindar vinstra megin. Það eru ekki taugaeinkenni til staðar við skoðun en verkur vinstra megin í bakinu þegar hann bograr fram. Læknir álítur að um vöðvatognun sé að ræða og hann fær ráðleggingar um að nota verkjalyf sem hann hafði fengið uppáskrifað deginum áður hjá undirrituðum.

Er svo í sambandi einnig nokkrum dögum seinna eða X 2014 og er þá skárri og verkirnir minni og hann farinn að vinna aftur en hann fær lyfseðil fyrir verkjalyfjum þó.

Hann er síðan einnig í samskiptum hérna X 2014 og X 2014 út af öðrum vandamálum en þann X 2015 er hann í sambandi hérna eftir annars konar slys sem varð á sama vinnustað eða G. Það var þannig að [...] slóst utan í hann þegar að verið var að [...]. [...] og það kom átak, hann segist hafa fundið í raun lítið í byrjun en svo verri í bakinu og öxlunum eftir þetta. Strengir út í herðar einnig. Læknir lýsir ekki áverkamerkjum á bol en þreifiaumur á axlarvöðvum og milli herðablaða. Hálsliðir óaumir og hálshreyfingar óheftar. Hreyfigeta í lendhrygg sýnir vægan stirðleika. Fær ráðleggingar varðandi þetta. Einnig ráðlagt að nota verkjalyf eftir þörfum.“

Í kjölfarið eru svo rakin nánar samskipti kæranda við heilsugæsluna vegna bakverkja. Þá segir í samantekt læknisvottorðsins:

„A sem er X ára og lenti í slysi í vinnunni X 2014 og hefur verið slæmur af bakverk upp úr þess eins og lýst er hér að framan. Varðandi önnur slys og stoðkerfiseinkenni þá hef ég rakið í stórum dráttum sem fyrir ber í sjúkraskrá varðandi það og er af ýmsu að taka.

Þannig ekki auðvelt að gera sér upp ákveðna skoðun hverjar eru beinar afleiðingar þessa slyss X 2014 í heildarmynd og verkjaástandi A. Hann hefur þó ótvírætt verið mjög verkjaður í bakinu nú síðastliðin 2½ ár og ítrekað þurft að leita til læknis og bráðamóttöku til verkjastillingar og eins hefur hann ítrekað verið í langvinnum meðferðum, meðal annars á vegum H á E sem og sjúkraþjálfun og annarrar stoðkerfismeðferðar.“

Í matsgerð I læknis, dags. 7. desember 2017, segir meðal annars um mat á orsakasamhengi á milli þeirra einkenna sem tjónþoli hefur í dag og vinnuslyssins X 2014:

„Hann lenti í vinnuslysi þann X 2014 og fékk strax einkenni frá mjóbakinu og niður í vinstri fót, einkenni skánuðu til að byrja með og hann fór aftur til vinnu en einkennin versnuðu 8 mánuðum eftir slysið og leiddi þá niður í báða fætur og frekari versnun varð eftir það, nú var leiðniverkur meiri hægra megin, segulómun sýndi lítið brjósklos vinstra megin neðst í mjóbaki, taugaskurðlæknir taldi ekki að skurðaðgerð myndi hjálpa, endurtekin segulómun meira en ári eftir slysið sýndi að brjósklosið hafði rýrnað, hann fékk óvinnufærnivottorð vegna bakverkja 14 mánuðum eftir slysið og hefur ekki unnið eftir það. Einkenni sem hann hefur frá mjóbaki nú voru strax tengd við vinnuslysið og hefur svo verið allan tímann. Matsmaður telur að um orsakasamhengi sé að ræða á milli núverandi einkenna frá mjóbaki og niður í ganglimi og vinnuslyssins X 2014 en hann hafði talsverða fyrri sögu frá mjóbaki og telur matsmaður að hluta mjóbakseinkenna sé að rekja til fyrra slyss.“

Í sjúkraskrársögu kæranda hjá Heilsugæslunni J, dags. 21. desember 2016, má sjá greininguna „Bakverkur, M54“ í samskiptaseðli við heilsugæsluna frá X 2014. Sömu greiningu má sjá í samskiptaseðli við heilsugæsluna frá X 2014 auk þess sem þar segir: „Afleitur af verk í bakinu“. Þá segir í læknisvottorði K, dags. 3. júlí 2008, vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri:

„A er með langa og tiltölulega fjölskrúðuga sjúkrasögu um bakverki. Verður fyrir óhappi [...], sennilega í X 2005. Í nótu heilsugæslulæknis frá X 2006 kemur fram að hann hafi rifbrotnað [...] 4 vikum áður. Aftur óhapp [...] í X 2007. Í nótu Hg.læknis X 2007 kemur fram að hann hafi fengið hnykk á bak við vinnu [...] 3 sólarhringum áður. Ekki neurologia en margir aumir triggerpunktar í mjó- og brjóstbaki. […]

Vegna krónískra, þrálátra verkja í baki leitar hann til L bæklunarlæknis. Gerðar ítarlegar rannsóknir. TS lumbalhrygg frá X 2007 sýnir á liðbili LV-S1 væga diskprotrusjon en engin ákveðin merki um áhrif á durasekk eða rætur. Rtg. frá sama tíma af bróst og lendhrygg ásamt pelvis sýndi eðlilega beingerð.

[…]

A lendir svo í umferðaróhappi á mótum M og N þ.X 2007. Var ökumaður bifreiðar. Fór á slysadeild. Ítarlegar rannsóknir sýndu ekki brot. Eftir slys verkir frá hálsi og niður allt bak. Verstur í mjóbaki. Fór í sjúkraþjálfun í framhaldi.“

Að framangreindu virtu er ljóst að fyrir slysið X 2014 hafði kærandi átt lengi við vandamál í baki að stríða. Innan við viku eftir slysið hafði honum batnað að því marki að hann var aftur orðinn vinnufær. Þá liggur einnig fyrir að kærandi lenti aftur í slysi við vinnu fjórum mánuðum eftir hið umrædda slys. Með vísan til þess sem rakið hefur verið telur úrskurðarnefnd ekki ljóst að áverki sá, sem kærandi hlaut í umræddu slysi, hafi verið orsök þeirra einkenna sem rakin eru í læknisvottorði F frá 3. janúar 2017. Að mati úrskurðarnefndar bera gögn málsins með sér að bakverkir hafi tekið sig upp hjá kæranda af öðrum ástæðum en umræddu slysi. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir orsakasamband á milli slyss kæranda og þeirra einkenna sem hann býr við í dag, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005, er að mati nefndarinnar ekki heimilt að beita undantekningarreglu þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga um almannatryggingar til að falla frá meginreglu 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna um að tilkynna skuli tafarlaust um slys og í síðasta lagi innan árs frá slysi.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur vegna slyss A, sem hann varð fyrir X 2014, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum