Hoppa yfir valmynd

Nr. 370/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 370/2018

Fimmtudaginn 21. mars 2019

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 15. október 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar frá 28. september 2018 um að synja henni um að vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ en var synjað um að vera á biðlista á þeirri forsendu að lágmarks stigafjölda væri ekki náð, sbr. 5. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 15. október 2018. Með bréfi, dags. 16. október 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. nóvember 2018. Með tölvupósti 15. nóvember 2018 var Hafnarfjarðarbæ veittur frestur til að skila greinargerð. Með bréfi, dags. 10. desember 2018, barst greinargerð Hafnarfjarðarbæjar þar sem fram kom að hin kærða ákvörðun hafi verið afturkölluð og kæranda heimilað að vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2018, var óskað eftir afstöðu kæranda vegna greinargerðar Hafnarfjarðarbæjar. Sú beiðni var ítrekuð með tölvupóstum 4. og 7. janúar 2019. Athugasemdir bárust ekki. Í símtali við starfsmann úrskurðarnefndarinnar 17. janúar 2019 upplýsti kærandi að hún kysi að halda málinu áfram og bárust athugasemdir frá henni með tölvupósti 14. febrúar 2019. Þar vísar kærandi til þess að það sé ekki lausn á hennar máli að vera á biðlista með fjóra punkta, þeir sem væru með sex punkta hefðu forgang og því alls óvíst hvenær eða hvort hún fengi úthlutað húsnæði. Athugasemdir kæranda voru sendar Hafnarfjarðarbæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2019. Athugasemdir og frekari gögn bárust frá sveitarfélaginu 1. mars 2019 þar sem meðal annars er ítrekað að hin kærða ákvörðun hafi verið afturkölluð og kæranda heimilað að vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, þrátt fyrir að ná ekki tilskildum fjölda stiga. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. mars 2019, voru athugasemdir Hafnarfjarðarbæjar sendar kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar frá 28. september 2018 um að synja kæranda um að vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði.

Í 1. mgr. 5. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að við mat á umsóknum sé farið eftir ákveðnu matskerfi og hverjum umsækjanda um leiguíbúð reiknuð stig á tíu stiga kvarða. Umsækjandi með sex stig eða fleiri sé skráður á biðlista en umsækjandi með færri stig uppfylli ekki skilyrði til að vera á biðlista. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglnanna skal hafa tekjur umsækjanda, húsnæðisaðstæður og félagslegar aðstæður til viðmiðunar við forgangsröðun. Í 6. gr. reglnanna kemur fram að starfsmenn fjölskylduþjónustunnar meti umsóknir á afgreiðslufundi í húsnæðisteymi og taki ákvörðun um úthlutun í umboði fjölskylduráðs. Úthlutun skuli taka mið af því húsnæði sem í boði sé, þörfum umsækjenda og stigagjöf. 

Samkvæmt gögnum málsins voru aðstæður kæranda metnar til fimm stiga og því var henni synjað um að vera á biðlista. Sú ákvörðun var tekin á fundi Fjölskylduráðs Hafnarfjarðar 28. september 2018. Úrskurðarnefndin fær ekki séð af gögnum málsins að það mat sé annmörkum háð. Líkt og fram kemur í bréfi Hafnarfjarðarbæjar, dags. 10. desember 2018, var mál kæranda tekið fyrir á ný eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni og ákvörðun frá 28. september 2018 afturkölluð. Í 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er stjórnvaldi veitt heimild til að afturkalla ákvörðun að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila. Að mati úrskurðarnefndarinnar var það skilyrði uppfyllt í máli kæranda, enda um ívilnandi ákvörðun að ræða í ljósi reglna sveitarfélagsins sem gera kröfu um sex stig til að vera á biðlista. Í ljósi þessa er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira