Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 23/2022

Úrskurður 23/2022

 

Miðvikudaginn 2. nóvember 2022 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 17. maí 2022, kærði [...] (hér eftir kærandi) ákvörðun embættis landlæknis, dags. 22. febrúar 2022, um að veita honum áminningu á grundvelli 14. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

 

Kærandi krefst þess að heilbrigðisráðherra felli úr gildi áminningu embættis landlæknis.

 

Málið er kært á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og barst kæra innan kærufrests.

I. Málavextir og meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Áminning kæranda á sér aðdraganda í tveimur málum sem voru til meðferðar hjá embætti landlæknis vegna starfa hans. Er annars vegar um að ræða álit embættisins vegna kvörtunar [...] (hér eftir A) yfir meintri vanrækslu, mistökum og ótilhlýðilegri framkomu kæranda. Komst embættið að þeirri niðurstöðu að framkoma kæranda í garð A hefði verið ótilhlýðileg í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Hins vegar er áminningin byggð á niðurstöðu rannsóknar embættisins á óvæntu atviki skv. 10. gr. laga um landlækni og lýðheilsu að því er varðar tiltekinn sjúkling (hér eftir B). Kærandi hafi verið ábyrgur læknir B, sem hafi glímt við alvarleg andleg veikindi, en B hafi svipt sig lífi skömmu eftir að kærandi hafi útskrifað hann af X. Taldi embættið að kærandi hefði vanrækt að greina B á fullnægjandi og faglegan hátt, hefja rétta meðferð og tryggja eftirfylgd við útskrift. Var það mat embættis landlæknis, í ljósi framangreindra mála, að kærandi hefði m.a. vanrækt starfsskyldur sínar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Var honum því veitt áminning á grundvelli ákvæðisins.

 

Við meðferð málsins óskaði ráðuneytið eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna sem barst þann 13. júní 2022. Þann 27. júlí sl. lýsti kærandi því yfir að hann hygðist ekki gera athugasemdir við umsögn embættis landlæknis. Var málið þá tekið til úrskurðar.  

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru er vísað til þess að A hafi kvartað til embættis landlæknis vegna kæranda en með áliti, dags. 25. janúar 2019, hafi embættið komist að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki verið gerð við veitingu heilbrigðisþjónustu í máli hennar. Embættið hafi hins vegar talið að kærandi hefði sýnt af sér ótilhlýðilega framkomu í garð hennar, en í álitinu kom ekki fram að það kynni að hafa í för með sér eftirlitsúrræði gagnvart kæranda, líkt og venjan sé. Þrátt fyrir það hafi embættið stofnað eftirlitsmál gegn kæranda og tilkynnt honum um meðferð málsins með bréfi, dags. 25. nóvember 2021. Í bréfinu hafi embættið vísað til máls A en einnig niðurstöðu í máli B.

 

Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að atvik í máli A séu ekki grundvöllur áminningar. Embætti landlæknis hafi talið að kærandi hefði ekki gert mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu heldur sýnt af sér ótilhlýðilega framkomu. Þá beri álitið með sér að um endanlega afgreiðslu sé að ræða. Telur kærandi að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir því að endurupptaka kvörtunarmál með þeim hætti sem embættið hafi gert og hnýta það saman við meðferð annars máls sem sé óskylt og af ólíkum toga spunnið en það mál sem kvartað var yfir. Í öðru lagi byggir kærandi á því að við meðferð kvörtunarmáls A hafi verið litið framhjá vitnisburði tiltekins starfsmanns, sem hafi talið samskipti kæranda og A í engu ámælisverð. Þá hafi kærandi ekki fengið að bregðast við niðurstöðu embættisins um að hann hafi sýnt af sér óviðurkvæmilega framkomu og viðhorf í andmælum við meðferð kvörtunar A hjá embættinu. Í þriðja lagi vísar kærandi til máls B, en samkvæmt niðurstöðu innri endurskoðunar X hafi meginorsök andlátsins verið rakin til samspils ólíkra þátta, mannlegra og kerfisbundinna. Kveður kærandi að í niðurstöðu embættisins í máli B hafi verið litið framhjá atriðum sem vörðuðu kerfisbundna þætti, svo sem skorti á teymisvinnu og plássleysi á [...], og kærandi einn gerður persónulega ábyrgur fyrir andláti B. Af hálfu kæranda er byggt á því að niðurstaðan sé ósanngjörn gagnvart honum og að litið hafi verið framhjá öðrum þáttum sem urðu til þess að B var útskrifaður af sjúkrahúsinu.

 

Í fjórða lagi tekur kærandi fram að hann hafi enga aðkomu haft að innri endurskoðun X varðandi mál B fyrr en rótargreining lá fyrir í áminningarferli embættisins. Kærandi hafi aldrei verið upplýstur um hvernig andlát B hafi borið að eða aðdraganda þess að öðru leyti en að það hafi gerst skömmu eftir útskrift. Í fimmta lagi byggir kærandi á því að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir áminningu vegna A og að það mál eigi ekki erindi í málsmeðferð embættisins gagnvart honum vegna máls B. Bætist við að sá tími sem liðið hafi frá málsatvikum sé í andstöðu við ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Vísar kærandi til þess að samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu skuli veita áminningu án ástæðulauss dráttar, en tæp [...] ár séu liðin frá máli A og [...] ár frá máli B.

 

III. Athugasemdir landlæknis.

Í umsögn embættis landlæknis kemur fram að kærandi hafi ítrekað brotið gegn starfsskyldum sínum í málum A og B. Brot kæranda hafi verið litin alvarlegum augum, ekki síður í ljósi þess að embættinu höfðu áður borist kvartanir og alvarlegar athugasemdir vegna ótilhlýðilegrar framkomu kæranda í garð sjúklinga. Kveður embættið að dregist hafi að stofna eftirlitsmál gegn kæranda eftir útgáfu álits í máli A í ljósi þess að embættið hafði þá til rannsóknar óvænt atvik í máli B, sem hafi jafnframt beinst að kæranda. Um mjög alvarlegt atvik hafi verið að ræða sem sé meginástæðan fyrir því að kæranda hafi verið veitt áminning. Þá vísar embætti landlæknis til anna í tengslum við Covid-19 faraldurinn sem ástæðu fyrir því að stofnun eftirlitsmáls hafi tafist. Byggir embættið á því að eftirlitsmál sé sjálfstætt mál sem varði eingöngu viðkomandi heilbrigðisstarfsmann en ekki sé hægt að líta svo á að stofnun slíks máls feli í sér endurupptöku á kvörtunarmáli. Kemur fram í umsögninni að óvirðing og ótilhlýðileg framkoma kæranda við sjúklinga sem og ófagleg vinnubrögð séu tilefni flestra mála sem hafi borist embættinu vegna hans og þegar málin safnist saman sé um að ræða brot á einni af mikilvægustu starfsskyldum lækna, þ.e. að koma fram við sjúklinga af virðingu.

 

Hvað varðar athugasemdir kæranda um að hann hafi ekki fengið að tjá sig um um mat embættis landlæknis á framkomu hans við meðferð máls A byggir embættið á því að það beri ekki niðurstöður álita undir málsaðila áður en það er gefið út, enda hafi málsaðilar notið andmælaréttar við meðferð kvörtunarinnar. Þá fær embættið ekki séð hvernig vitneskja kæranda um það, hvernig B hafi tekið eigið líf eða hvað hafi gerst í aðdraganda þess, breyti neinu um þá staðreynd hvernig kærandi hafi útskrifað B. Hvað málshraða varðar kemur fram það mat embættisins að alvarleiki máls B sé slíkur að óforsvaranlegt sé að tafir á því að hefja mál eigi að hafa áhrif á ákvörðun landlæknis. Um alvarlega veikan sjúkling hafi verið að ræða sem kærandi hafi útskrifað án nokkurra úrræða. Að mati embættis landlæknis hafi kærandi ekki veitt B meðferð í samræmi við faglegar kröfur sem gera megi til ábyrgs læknis sem sé brot á 1. mgr. 13. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012.

 

IV. Niðurstaða.

Mál þetta varðar kæru á ákvörðun embættis landlæknis um að veita kæranda áminningu, sbr. 14. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

 

Lagagrundvöllur

Meðal hlutverka embættis landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, sbr. e-lið 1. mgr. 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, en fjallað er um eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum í III. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. hefur landlæknir eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á. Í 1. mgr. 14. gr. laganna er kveðið á um að verði landlæknir var við að heilbrigðisstarfsmaður vanræki starfsskyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við ákvæði í heilbrigðislöggjöf landsins og skuli hann þá beina tilmælum til hans um úrbætur og áminna hann eftir atvikum. Verði heilbrigðisstarfsmaður ekki við tilmælum landlæknis, sem veitt eru án áminningar, skuli landlæknir áminna hann. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga við veitingu áminningar, sem skal vera skrifleg og rökstudd og ætíð veitt vegna tilgreinds atviks eða tilgreindra atvika. Ákvörðun um veitingu áminningar sætir kæru til ráðherra, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

 

Í athugasemdum við ákvæði 14. gr. í frumvarpi til laga um landlækni og lýðheilsu segir að í ákvæðinu sé kveðið á um heimild og eftir atvikum skyldu landlæknis til að áminna heilbrigðisstarfsmenn. Samkvæmt ákvæðinu beri landlækni, verði hann var við að heilbrigðisstarfsmaður vanræki skyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við fyrirmæli laga eða stjórnvaldsfyrirmæli, t.d. fagleg fyrirmæli landlæknis, að beina tilmælum til hans um úrbætur og áminna hann eftir atvikum. Hafi landlæknir einungis beint tilmælum til heilbrigðisstarfsmanns skv. 1. málsl. og heilbrigðisstarfsmaður verður ekki við þeim sé landlækni skylt að áminna viðkomandi heilbrigðisstarfsmann. Í athugasemdunum er vísað til læknalaga nr. 53/1988 og skyldu landlæknis til að áminna heilbrigðisstarfsmanns samkvæmt 1. mgr. 28. gr. þeirra laga. Fram kemur að ákvæði frumvarpsins sé frábrugðið því ákvæði að því leyti að það geri ráð fyrir því að landlæknir geti, áður en til áminningar kemur og þegar það á við, beint tilmælum til viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns og þannig gefið honum kost á að bæta ráð sitt. Segir að framangreint ákvæði læknalaga hafi í reynd verið framkvæmt með þessum hætti en réttara þyki að þetta komi skýrt fram í lagatextanum.

 

Grundvöllur áminningar

Meðal gagna málsins er álit embættis landlæknis í máli A, dags. 25. janúar 2019, og niðurstaða embættisins vegna rannsóknar á máli B, dags. 26. ágúst 2020. Í áliti embættisins í máli A kemur fram að kvartað hafi verið undan meintum mistökum við lyfjagjöf og hins vegar því að kærandi hafi komið fram við A af vanvirðingu og verið einkar ófaglegur í viðtölum. Eins og áður segir taldi embætti landlæknis ekki að mistök hefðu átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu í málinu. Hvað varðar ótilhlýðilega framkomu kvartaði A undan því að kærandi hefði talað niður til hennar og sýnt henni og sjúkdómi hennar óvirðingu. Kærandi hefði gert lítið úr sjálfsvígstilraunum hennar og [...] sem geðsjúkdómi. Þá hefði kærandi gert lítið úr þeim meðferðum sem X byði upp á fyrir fólk með [...]. Hafi þetta valdið A miklu óöryggi og hún ekki upplifað sig velkomna á [...] á X. Viðmót kæranda hafi sett A í uppnám og aukið á kvíða og þunglyndi, en hún hafi verið einkar berskjölduð á þessum tímapunkti eftir sjálfsvígstilraun. Andmæli bárust frá kæranda við meðferð málsins en í þeim kom fram að kærandi teldi sig ekki hafa sýnt A óvirðingu.

 

Embætti landlæknis aflaði umsagnar óháðs sérfræðings við meðferð málsins, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Vísaði sérfræðingurinn til upplifunar A af samskiptum sínum við kæranda, en samkvæmt lýsingu á þeim samskiptum verði ekki annað ályktað en að framkoma kæranda gagnvart henni hafi verið ótilhlýðileg. Lækni bæri að leggja mat á sjálfsvígshættu en ekki gildishlaðið mat á réttmæti eða gildi sjálfsvígstilraunar sjúklings, né réttmæti þess að telja [...] til geðraskana. Hvað þá beri lækni að bera slíkt upp við sjúklinginn sjálfan. Þá hafi ummæli kæranda um mistök lækna sem hafi ávísað lyfjum til A verið ótilhlýðileg, en þau hafi grafið undan meðferðarsambandi sjúklings við þá aðila sem komu að meðferð hennar. Í athugasemdum kæranda við umsögnina kvað hann A fara frjálslega með staðreyndir og að hjá sjúklingum líkt og henni væri mikil dramatík og öfgar í öllum lýsingum. Í niðurstöðu embættis landlæknis vísaði embættið m.a. til ákvæða laga um réttindi sjúklinga og laga um heilbrigðisstarfsmenn að heilbrigðisstarfsmenn skyldu sína sjúklingi virðingu. Var það mat embættisins að kærandi hefði ekki virt þá lagaskyldu eða siðareglur lækna um þetta efni. Þá styddi sá tónn og það viðhorf sem kæmi fram í athugasemdum kæranda við málstað kvartanda og gerði hann trúverðugan, en að mati embættisins hefði kærandi jafnframt sýnt A og óháðum sérfræðingi lítilsvirðingu í athugasemdum sínum. Taldi embættið að taka yrði kvörtun A í þessu sambandi til greina og líta svo á að kærandi hefði sýnt af sér ótilhlýðilega framkomu gagnvart A.

 

Í niðurstöðu embættis landlæknis vegna tilkynningar um óvænt atvik í máli B kemur fram að hann hafi svipt sig lífi nokkrum mínútum eftir að hafa verið útskrifaður af X. Ljóst sé að B hafi verið með sögu um alvarlegt þunglyndi, kvíða, geðrofseinkenni og neysluvanda auk þess sem hann hafði áður reynt að taka eigið líf. Haustið [...] hafi mátt merkja versnandi andlegt ástand B og hafi hann, á tímabilinu 9. október til 12. nóvember [...], verið lagður í þrígang inn á X vegna geðlægðar og sjálfsvígshugsana. Kemur fram að í eitt af þessum þremur skiptum hafi hann áður reynt að fyrirfara sér. Segir í niðurstöðu embættisins að skráning í umræddum legum hafi verið rýr og að ekki sé að finna skýr merki um að innlagnir hafi verið nýttar til greiningar, mats og meðferðar B. Hann hafi verið útskrifaður eftir stuttar innlagnir án sértækrar meðferðar við þunglyndi með vísan til þess að um neysluvanda hafi verið að ræða. Þrátt fyrir það hafi ekki verið haft samband við [...] eða hann lagður þar inn. Þá sé ekki að sjá að samráð hafi verið haft við geðlækni B á [...] eða hann lagður þar inn. Fram kemur að ábyrgur geðlæknir við útskrift hafi í öllum þremur legum verið sá sami (þ.e. kærandi). Í niðurstöðunni er vísað til rótargreiningarskýrslu X um að ekki sé ljóst á hverju álit ábyrgs læknis á því að B hafi verið í virkri neyslu byggði á, en B hafi ekki verið lyfjasækinn í hegðun, fráhvarfseinkenni hafi ekki verið til staðar og þá hafi lyfjapróf endurtekið verið neikvæð. Þá sé í gögnum málsins ekki að finna blóðprufur sem bent geti til þess að B hafi átt við langvinnan áfengisvanda að stríða á því tímabili sem um ræðir.

 

Samkvæmt rótargreiningarskýrslu X hafi meginorsök atviksins annars vegar verið kerfisbundnir þættir og hins vegar mannlegir þættir, en tekið hafi verið fram að brestir í faglegum vinnubrögðum hafi vegið þungt. Í skýrslu X komi fram að þunglyndiseinkenni og sjálfsvígshætta hafi verið vanmetin af meðferðaraðilum í legu og sjúklingur talinn með virkan fíknivanda sem virðist hafa verið ofmetinn. Meðferð með þunglyndislyfjum og/eða samtölum hafi ekki verið hafin. Þá hafi verklagi við sjálfsvígsgát á geðsviði hvorki verið fylgt í legu né við útskrift sjúklings. Teymisvinna hafi ekki verið virk eða virt auk þess sem skráningu í sjúkraskrá hafi verið ábótavant, t.d. með mati á sjálfsvígshættu og stigi gátar. Rörsýni hafi gætt á neysluvanda sjúklings og þrýstingur á að losa pláss á X gæti hafa haft áhrif á faglegt mat við útskrift sjúklings. Þá hafi útskriftaráætlun verið ófullnægjandi.

 

Að mati embættis landlæknis var ekki unnið markvisst að greiningu og mati á einkennum B í umræddum legum á X. Verklagi við sjálfsvígshættu/gát hafi ekki verið fylgt og B útskrifaður án þess að fyrir lægi fullnægjandi mat á sjálfsvígshættu. Þá hafi ekki legið fyrir áætlun um eftirfylgd. Ljóst þyki að sá geðlæknir sem ábyrgur hafi verið fyrir veitingu heilbrigðisþjónustu til B hafi ekki tekið tillit til bakgrunns hans eða brugðist fullnægjandi við versnandi ástandi hans sem rekja hafi mátt til þess að hann hætti í lyfjameðferð við þunglyndi nokkrum mánuðum áður. Geðlæknirinn hafi einblínt á neysluvanda B án þess að forsendur slíkrar ályktunar hafi verið kannaðar eða staðfestar. Var það mat embættisins að ákvörðun kæranda um útskrift B hafi verið ótímabær og öryggi hans ekki tryggt. Hefði hið minnsta átt að fá ráðgjöf frá sérfræðiteymi [...] og/eða tryggja eftirfylgd á Vogi. Eðlilegt hefði verið að X hefði haft beint samband við Vog og tryggt að sjúklingur skilaði sér þangað. Í öllu falli hefði átt að tryggja að sjúklingur yrði ekki útskrifaður fyrr en ljóst væri að hann gæti farið á Vog. Að mati embættisins vanrækti kærandi að greina B á fullnægjandi og faglegan hátt, hefja rétta meðferð og tryggja eftirfylgd við útskrift sem mögulega hefði getað komið í veg fyrir ótímabært dauðsfall. Kemur fram í niðurstöðunni að embætti landlæknis telji tilefni til að beita eftirlitsúrræðum samkvæmt III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu og yrði kæranda gerð grein fyrir því.

 

Með bréfi, dags. 25. nóvember 2021, tilkynnti embætti landlæknis kæranda um eftirlitsmál og fyrirhugaða áminningu. Í bréfinu vísaði embætti landlæknis til mála A og B og að mati embættisins hefði kærandi ítrekað brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu sem og ákvæðum laga um réttindi sjúklinga. Kærandi kom athugasemdum á framfæri með bréfi, dags. 10. janúar 2022, þar sem hann gerði m.a. athugasemdir við málshraða embættis landlæknis. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 22. febrúar 2022, var kærandi áminntur. Var það mat embættisins að í málum A og B hefði kærandi ekki sýnt af sér þá faglegu hæfni sem gert sé ráð fyrir að læknar búi yfir. Sú meðferð sem kærandi hefði veitt B hefði ekki verið í samræmi við faglegar kröfur sem fæli í sér brot gegn 1. mgr. 13. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, þar sem kveðið er á um að heilbrigðisstarfsmaður skuli sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma. Vísaði embættið einnig til 3. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, en samkvæmt ákvæðinu eigi sjúklingur rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma sé völ á að veita. Eigi sjúklingur jafnframt rétt á þjónustu sem miðist við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ sé á. Taldi embættið að framkoma kæranda við A og B hefði falið í sér brot gegn 1. mgr. 17. gr. laga um réttindi sjúklinga, en í ákvæðinu sé mælt fyrir um að heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem starfs síns vegna hafa samskipti við sjúkling skuli koma fram við hann af virðingu. Að mati embættisins hefði kærandi hefði vanrækt starfsskyldur sínar og brotið í bága við framangreind ákvæði. Var honum því veitt áminning á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Atvik í áliti embættis landlæknis vegna kvörtunar A og í rannsókn embættisins vegna B hafa þegar verið rakin og vísast til þeirrar umfjöllunar. Í kæru gerir kærandi athugasemd við að ekki hafi verið litið til vitnisburðar heilbrigðisstarfsmanns í máli A, sem hafi ekki talið kærandi hafa sýnt A óvirðingu. Ráðuneytið bendir á að í áliti embættis landlæknis er vitnisburðurinn rakinn og ljóst að hann lá til grundvallar við mat embættisins á því hvort kærandi hefði sýnt A ótilhlýðilega framkomu. Var það hins vegar niðurstaða embættisins að líta á frásögn A af samskiptum sínum við kæranda trúverðuga, líkt og rakið hefur verið, en það mat byggði á öllum gögnum málsins. Að mati ráðuneytisins verður þannig ekki fallist á með kæranda að litið hafi verið framhjá fyrrgreindum vitnisburði í áliti embættis landlæknis í máli A.

 

Kærandi gerir einnig athugasemd við að mál A hafi verið lagt til grundvallar í ákvörðun um að veita honum áminningu, enda hafi ekkert komið fram í áliti embættis landlæknis í málinu um að embættið hygðist beita eftirlitsúrræðum gegn honum vegna málsins. Hvað þetta atriði varðar bendir ráðuneytið á að álit embættis landlæknis á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu lýtur að eftirliti með heilbrigðisþjónustu á grundvelli II. kafla laganna. Ber embættinu að rannsaka meinta vanrækslu og mistökum við veitingu heilbrigðisþjónustu, sem og hvort framkoma heilbrigðisstarfsmanns hafi verið ótilhlýðileg. Er sú niðurstaða dregin saman í óbindandi áliti sem felur ekki í sér töku stjórnvaldsákvörðunar. Á hinn bóginn getur niðurstaða álits embættis landlæknis leitt til stofnunar eftirlitsmáls á grundvelli III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu, sem fjallar um eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum. Felur eftirlitsmál í sér mat embættisins á því hvort grípa skuli til viðurlaga gegn þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem álit varðaði, svo sem með því að veita viðkomandi áminningu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Eftirlitsmál á grundvelli III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu er þannig sjálfstætt stjórnsýslumál óháð kvörtunarmáli á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

 

Þótt embætti landlæknis hafi ekki tekið með beinum hætti fram í áliti sínu í máli A að embættið kynni eða hygðist fylgja því eftir með eftirlitsmáli á grundvelli III. kafla laga um heilbrigðisstarfsmenn verður ekki talið að embættinu hafi verið óheimilt að leggja málið til grundvallar við ákvörðun um að veita kæranda áminningu. Lítur ráðuneytið í þessu sambandi til þess að atvik kunna að vera með þeim hætti að tiltekinn heilbrigðisstarfsmaður eigi aðild að nokkrum málum á ákveðnu tímabili, t.a.m. á grundvelli 10. og 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, líkt og í máli kæranda. Þannig kann tilefni til að veita heilbrigðisstarfsmanni áminningu að verða síðar vegna uppsafnaðra mála þar sem komist er að niðurstöðu um að heilbrigðisstarfsmaður hafi með einhverjum hætti vanrækt eða brotið gegn starfsskyldum sínum. Við þær aðstæður sé embætti landlæknis heimilt að leggja niðurstöður málanna til grundvallar ákvörðun um að veita viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni áminningu. Embættið verði hins vegar að hafa hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, og líta m.a. til aldurs þeirra mála sem um ræðir. Í úrskurði ráðuneytisins nr. 9/2022 kom fram hjá ráðuneytinu að sjónarmið um lengd frá broti gætu komið til athugunar við ákvörðun um að veita heilbrigðisstarfsmanni áminningu í ljósi 12. gr. stjórnsýslulaga.

 

Í 2. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er kveðið á um að áminning skuli veitt án ástæðulauss dráttar. Álit embættis landlækni í máli A lá fyrir þann 25. janúar 2019, en atvik málsins áttu sér stað í janúar [...]. Við útgáfu álitsins hafði embættinu borist tilkynning um óvænt atvik í máli B með tilkynningu þann 13. nóvember [...]. Eins og áður greinir komst embætti landlæknis að niðurstöðu í máli B þann 26. ágúst 2020. Var kæranda tilkynnt um stofnun eftirlitsmáls og fyrirhugaða áminningu með bréfi, dags. 25. nóvember 2021. Ljóst er að við tilkynningu um fyrirhugaða áminningu höfðu liðið hátt í [...] ár frá þeirri háttsemi sem fjallað var um í máli A, en rúmt ár frá því að niðurstaða rannsóknar á óvæntu atviku í máli B lá fyrir. Þótt nokkur tími hafi liðið frá því að niðurstaða í því máli lá fyrir og þar til kæranda var tilkynnt um fyrirhugaða áminningu er það mat ráðuneytisins að ekki verði talið að sá tími leiði til þess að embætti landlæknis hafi borið að beita vægara viðurlagaúrræðis gagnvart honum á grundvelli meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

 

Kemur þá til skoðunar hvort embætti landlæknis hafi verið rétt að veita kæranda áminningu vegna mála A og B, en af gögnum málanna þykir ljóst að mál B vegi mun þyngra í ákvörðun embættisins. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er heimilt að áminna heilbrigðisstarfsmann sem vanrækir starfsskyldur sínar eða brýtur í bága við heilbrigðislöggjöf landsins. Að því er mál A varðar komst embættið að þeirri niðurstöðu að framkoma kæranda í garð A hefði verið ótilhlýðileg. Þegar atvik þess máls eru virt, sbr. fyrri umfjöllun, telur ráðuneytið að leggja megi til grundvallar að framkoma kæranda í garð A hafi verið ótilhlýðileg í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, enda hafi hann ekki komið fram við sjúkling af virðingu og tillitssemi. Vísar ráðuneytið í þessu sambandi 1. mgr. 17. gr. laga um réttindi sjúklinga og 1. mgr. 13. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Í máli B komst embættið að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði vanrækt að greina B á fullnægjandi og faglegan hátt, hefja rétta meðferð og tryggja eftirfylgd við útskrift sem mögulega hefði getað komið í veg fyrir ótímabært dauðsfall.

 

Er það mat ráðuneytisins, með vísan til alls þess sem rakið hefur verið um atvik þess máls að kærandi hafi vanrækt starfsskyldur sínar sem ábyrgur læknir B og brotið í bága við 3. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um réttindi sjúklinga. Tekur ráðuneytið undir með embætti landlæknis að alvarleikastig málsins sé mikið í ljósi þess að um var að ræða alvarlega veikan sjúkling sem hafði áður gert tilraun til sjálfsvígs. Vegna þess, sem fram kemur í kæru um að kærandi telji sig hafa verið gerðan persónulega ábyrgan fyrir andláti B, tekur ráðuneytið fram að rannsókn á málinu hjá embætti landlæknis tók aðeins til þeirrar heilbrigðisþjónustu sem kærandi veitti B og hvort hann hefði vanrækt starfsskyldur sínar við veitingu heilbrigðisþjónustu miðað við þær kröfur sem gera mátti til hans á þeim tíma sem hún var veitt.

 

Að framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að skilyrði áminningar á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu séu uppfyllt. Þá hafi ekkert komið fram við meðferð málsins hjá ráðuneytinu sem gefi tilefni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

Með vísan til framangreinds verður ákvörðun embættis landlæknis, dags. 17. maí 2022, um að veita kæranda áminningu, því staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 17. maí 2022, um að veita kæranda áminningu er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira