Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 206/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 206/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU22120078, KNU22120079, KNU22120080 og KNU22120081

 

Kæra [...], [...], [...] og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 23. desember 2022 kærðu [...], fd. [...] (hér eftir M), [...], fd. [...] (hér eftir K), [...], fd. [...], (hér eftir A) og [...], fd. [...] (hér eftir B), öll ríkisborgarar Venesúela og Líbanon, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2022, um að synja þeim um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærendur, sem eru hjón og tvær uppkomnar dætur þeirra, lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi 11. mars 2022. Kærendur komu í viðtöl hjá Útlendingastofnun, m.a. 2. og 3. maí 2022, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 24. júní og 12. júlí 2022, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru þær ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 12. ágúst 2022. Með úrskurði kærunefndar nr. 390/2022, dags. 27. september 2022, felldi kærunefnd ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda úr gildi og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál þeirra til nýrrar meðferðar. Með ákvörðunum, dags. 8. desember 2022, synjaði Útlendingastofnun kærendum að nýju um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ákvarðanirnar kærðar til kærunefndar útlendingamála 23. desember 2022. Greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd 13. janúar 2023.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í Venesúela og Líbanon vegna almenns ástands í báðum ríkjum. Þá byggi A og B umsóknir sínar einnig á því að þær tilheyri tilteknum þjóðfélagshópum í Líbanon og M á því að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu [...] í Líbanon.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í málum kærenda var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkja ekki í vegi.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda vísa þau til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, dags. 5. júlí 2022, og til fyrri greinargerðar til kærunefndar, dags. 26. ágúst 2022, en þar sé að finna ítarlegri upplýsingar um ástæður flótta kærenda frá heimaríkjum. Þegar litið sé til raka Útlendingastofnunar er varði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga í samhengi við 38. gr. laganna sé erfitt að sjá hvernig stofnunin geti komist að þessari niðurstöðu. Nú hafi M skilað inn skjali er varði áreiti og handtöku hans af hálfu [...] en í skjalinu sé staðfest að hann hafi verið handtekinn og honum haldið í gæsluvarðhaldi í tvo daga á meðan á yfirheyrslum hafi staðið. Í skjalinu sé það m.a. staðfest að M hafi verið yfirheyrður af [...] Líbanon. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins sé farið yfir tilraunir líbanskra stjórnvalda til að ná stjórn á því hvernig lögregla komi fram við fanga og þeim sem séu í haldi vegna gruns um afbrot af einhverju tagi. Rétt sé að taka fram að talið sé að bæði líbanska lögreglan og leyniþjónustan beiti fanga og einstaklinga í varðhaldi pyndingum, ómannúðlegri og niðrandi meðferð án nokkurra afskipta annarra yfirvalda í landinu. Fæstir þori að kæra eða kvarta eftir slíka meðferð vegna hræðslu við að verða misþyrmt. Með tilliti til framangreinds sé ljóst að ofsóknir og ofbeldi sem M hafi orðið fyrir falli undir skilgreiningar a-, c- og d-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, d- og e-liðar 3. mgr. 38. gr. sömu laga og a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Andlegt álag sem fylgi því að fjölskyldufaðirinn sæti ofbeldi af þessu tagi hafi haft sömu áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi. Þá ítreka kærendur kröfu sína um að þeim verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggi fyrir um heimaríki kærenda telji þau að aðstæður þeirra þar séu þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með tilliti til þess að stjórnvöld í Líbanon beiti bæði lögreglu og hryðjuverkahópum fyrir sig til að kúga borgara landsins til hlýðni, neiti óbreyttum borgurum um aðgang að mat, drykkjarvatni og heilbrigðis- og félagsþjónustu og tryggi ekki aðgang barna að menntakerfinu, telji kærendur ljóst að þau uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Verði kærendur ekki talin uppfylla skilyrði 1. mgr. 37. gr. er ítrekuð varakrafa kærenda um að þeim verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærendur telji að þegar málið sé virt í heild uppfylli fjölskyldan þau skilyrði að þeim verði veitt dvalarleyfi, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af umfjöllun um heilbrigðiskerfið í Líbanon sé ljóst að Útlendingastofnun hafi ekki tekið nægjanlega mikið tillit til frásagnar og vitnisburðar kærenda í niðurstöðu sinni. Kærendur taki skýrt fram að þó svo að viðeigandi aðstoð sem þau þarfnist standi til boða sé þeim ekki veittur aðgangur að henni þar sem þau taki ekki pólitíska afstöðu. Amnesty International taki fram í skýrslu sinni árið 2022 að í Líbanon sé verulega erfitt að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu og að lyf séu af skornum skammti. Sú staðreynd hafi valdið því að innflytjendur og þeir sem ekki hafi ákveðnar eða réttar pólitískar skoðanir komist síður að en aðrir og fái jafnvel ekki þá aðstoð sem þeir þarfnist. Þó nokkur fjöldi fólks með langvarandi sjúkdóma hafi látist vegna þessa. Í skýrslunni komi fram að um 33% heimila í landinu hafi ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu. Rafiq Hariri spítalinn, sem sé flaggskipið í heilbrigðisþjónustu Líbanon, hafi aðgang að rafmagni einungis í tvo tíma á dag. Þetta lýsi alvarleika ástands í heilbrigðisþjónustu landsins. Heimildir hermi að eldri borgarar í Líbanon séu í erfiðri stöðu vegna þess að félagslegt kerfi í landinu veiti þeim ekki nauðsynlegan stuðning og þess vegna skorti þá fjármuni til að geta keypt mat, fatnað og nauðsynleg lyf ásamt því að geta ekki borgað húsaleigu þegar það eigi við.

Í framhaldi af handtöku M í Líbanon hafi kærendur flúið til Venesúela. Þegar ástandið þar hafi orðið óbærilegt hafi þau snúið aftur til Líbanon í þeirri von að ástandið þar hefði skánað. Sú hafi ekki verið raunin þar sem þau hafi verið undir stöðugu eftirliti og áreiti í Líbanon sem hafi orðið til þess að þau hafi óttast um líf sitt og almenna velferð. Þá beri að nefna að löggjöf um réttindi kvenna sé meingölluð í Líbanon, t.d. fari konur ekki með jafnt forræði yfir börnum sínum og karlar, nauðganir innan hjónabanda séu ekki ólöglegar og konum sé oft gert að snúa aftur til eiginmanna sinna þó svo að þeir hafi verið sakfelldir fyrir að beita þær ofbeldi. Oft taki lögregla og trúarleiðtogar ákvarðanir í málum af þessum toga og konum sé þá gert að snúa aftur í aðstæður þar sem þær séu ekki öruggar.

Af alþjóðlegum skýrslum og frásögnum kærenda megi ráða að ástandið í Líbanon sé á flestum sviðum óásættanlegt þegar komi að því að tryggja velferð og öryggi kærenda. Ljóst sé að þær ofsóknir, niðrandi meðferð og mismunun sem kærendur hafi orðið fyrir uppfylli skilyrði 37. og 38. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að dómsmál gegn M hafi verið fellt niður verði hann enn fyrir áreiti og sé eltur. Einnig sé ljóst að mismunun gagnvart fjölskyldunni hvað varðar aðgang að læknisaðstoð og lyfjum falli undir 74. gr. sömu laga.

Kærendur vísa til þess að í fyrri úrskurði sínum hafi kærunefnd m.a. gert athugasemdir þess efnis að heimildir sem Útlendingastofnun hafi vísað til hafi verið úreltar og gamlar og þess vegna hafi þær heimildir ekki lýst raunverulegu ástandi heilbrigðiskerfisins í Líbanon. Kærunefnd hafi talið mikilvægt að stofnunin kynnti sér nýlegar heimildir um ástandið í Líbanon sem gefi betri mynd af því hvernig aðgengi kærenda að heilbrigðisþjónustu og lyfjum sé háttað. Í endurtekinni málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki verið haft samband við kærendur og óskað eftir því að þau legðu fram frekari læknisfræðileg gögn, ekki hafi verið óskað eftir frekari greinargerðum og/eða öðrum upplýsingum. Samkvæmt heimildaskrá sem fram komi í hinum kærðu ákvörðunum hafi stofnunin einungis bætt við einni heimild um ástand heilbrigðiskerfisins í Líbanon. Sú skýrsla sé frá árinu 2021 og staðfesti að heilbrigðiskerfið í Líbanon sé að hruni komið.

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga sé ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr. laga um útlendinga, eða vegna svipaðra ástæðna og greinir í flóttamannahugtakinu sé í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar sé einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Kærendur telji með vísan til framangreinds að ákvæðið eigi við í máli þeirra. Telji þau að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir endursendingu þeirra til Líbanon.


 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað venesúelskum vegabréfum. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu sannað með fullnægjandi hætti hver þau væru.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 11. mars 2022, greindu kærendur frá því að vera einnig með ríkisborgararétt í Líbanon. Lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærendur væru líbanskir og venesúelskir ríkisborgarar. Kærunefnd telur ekki tilefni til að draga framangreint í efa og leggur til grundvallar við úrlausn málsins að kærendur séu með ríkisfang bæði í Venesúela og Líbanon.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar er fjallað um aðstæður kærenda M og K í Venesúela. Kærunefnd gerir ekki athugasemdir við umfjöllun stofnunarinnar eða niðurstöður stofnunarinnar um aðstæður kærenda þar í landi. Þar sem kærendur eru ríkisborgarar Líbanon og eins og aðstæðum er háttað í þessu máli, telur kærunefnd aðeins þörf á að fjalla um aðstæður kærenda í Líbanon, sbr. 2. mgr. A-liðar 1. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Líbanon m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices - Lebanon (U.S. Department of State, 30. mars 2021);

  • 2020 Report on International Religious Freedom: Lebanon (U.S. Department of State, 12. maí 2021);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices - Lebanon (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2020/21 – Lebanon (Amnesty International, 7. apríl 2021);
  • Country Cooperation Strategy for WHO and Lebanon (World Health Organization, 1. júní 2022);
  • Country Reports on Terrorism 2018 – Lebanon (U.S. Department of State, 24. júní 2019);

  • Delivering on the urgent need for a national social assistance system (UNICEF / International Labour Organization, maí 2021);
  • Divide and Conquer – The Growing Hezbollah Threat to the Druze (Middle East Institute, október 2019);
  • Foundations for Building Forward Better: An Education Reform Path for Lebanon (World Bank Group, 14. júní 2021);
  • Freedom in the World 2020 – Lebanon (Freedom House, 3. mars 2021);

  • Hizbollah‘s Syria Conundrum. Middle East Report N°175 (International Crisis Group, 14. mars 2017);
  • Lebanon: Druze (Minority Rights Group, uppfært í maí 2020);
  • Lebanon Reform, Recovery and Reconstruction Framework (The International Bank for Reconstruction and Development (IBRD), desember 2020);
  • Lebanese Hezbollah (Congressional Research Service, 11. janúar 2023);
  • Social Protection in Lebanon, Bridging the Immediate Response with Long-term Priorities (Unicef og ILO, 20. janúar, 2021);
  • Social Security Programs Throughout the World: Lebanon, 2018 (U.S. Social Security Administration, 2018);
  • Temanotat Libanon – Følgene af den økonomiske kollapsen og eksplosjonen i Beirut august 2020 (Landinfo, 3. febrúar 2021);
  • The Lebanese Healthcare Crisis: An Infinite Calamity (National Library of Medicine, maí 2022);
  • The World Factbook – Lebanon (Central Intelligence Agency, 23. september 2021);
  • Vefsíða Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar – Lebanon Outbreak and Crisis Response Appeal 2023 (http://www.emro.who.int/lbn/lebanon-news/outbreak-and-crisis-response-appeal-2023.html, skoðað 27. mars 2023 );
  • Vefsíða UN Women – Arab States (http://arabstates.unwomen.org/en/countries/lebanon, skoðað 27. mars 2023);
  • Vefsíða Council on Foreign Relations - What is Hezbollah? (https://www.cfr.org/backrounder/what-hezbollah, skoðað 27. mars 2023);
  • World Report 2021 – Lebanon (Human Rights Watch, 13. janúar 2021);
  • World Report 2022 – Lebanon (Human Rights Watch, 8. mars 2022) og
  • World Report 2023 – Lebanon (Human Rights Watch, 21. mars 2023).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Líbanon lýðræðisríki með tæplega sjö milljónir íbúa. Rúmlega helmingur íbúa landsins eru múslimar, þar af eru 28,5% súnní-múslimar og 28,3% sjía-múslimar, um 33.7% eru kristnir og þá séu drúsar 5,2%. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 3. nóvember 1972 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu 5. október 2000.

Í skýrslu mannréttindavaktarinnar (e. Human Rights Watch) fyrir árið 2020 og skýrslu Landinfo frá 2021 kemur fram að í október 2019 hafi fjöldi mótmæla hafist í Líbanon. Borgarar landsins hafi skipulagt sig í gegnum samfélagsmiðla og flykkst út á göturnar til að mótmæla spillingu stjórnvalda í kjölfar mikilla efnahagsþrenginga í ríkinu. Öryggissveitir hafi tekið á mótmælunum af mikill hörku og á tímum beitt mótmælendur óhóflegu ofbeldi án þess að gerendur hafi verið látnir svara til saka. Þá hafi Covid-19 faraldurinn aukið á efnahagsþrengingar landsins og gjaldmiðill landsins fallið um 80% í verðgildi. Covid-19 heimsfaraldurinn hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið og skert getu sjúkrahúsa til þess að sinna lífsnauðsynlegri þjónustu verulega. Þá hafi tímabundið rafmagnsleysi verið útbreitt og varað í allt að sólarhring yfir sumartímann árið 2020. Í ágúst 2020 hafi gríðarlega öflug sprenging á hafnarsvæði Beirút valdið dauða 200 einstaklinga, 6000 manns hafi slasast og gríðarlegt tjón hafi orðið á nærliggjandi byggingum, meðal annars skólum, heilbrigðisstofnunum og um 300 þúsund manns hafi misst heimili sín. Í kjölfar sprengingarinnar hafi almenningur í landinu flykkst út á göturnar í mótmælagöngur og krafist umbóta hjá stjórnvöldum. Ríkisstjórn landsins hafi sagt af sér í október, eða um tveim mánuðum eftir sprenginguna. Samkvæmt fréttamiðlum hafi ný ríkisstjórn ekki verið mynduð fyrr en um ári seinna í september 2021 og þá hafi Najib Mikati, ríkasti maður Líbanon, tekið við embætti forsætisráðherra, en hann hafi gegnt þeirri stöðu tvisvar áður. Samkvæmt skýrslu mannréttindavaktarinnar fyrir árið 2021 hafi ástandið í landinu versnað enn frekar. Meira en 80% íbúa landsins hafi ekki haft aðgang að grunnréttindum, s.s. menntun, húsnæði, rafmagni og heilbrigðisþjónustu. Í skýrslu mannréttindavaktarinnar fyrir árið 2022 kemur fram að stjórnvöld í Líbanon og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (e. International Monetary Fund) hafi náð samkomulagi um þriggja milljarða bandaríkjadala aðstoð um helstu umbætur í landinu sem pólitískur óstöðugleiki síðustu ára hafi hindrað. Í maí 2022 hafi þingkosningar farið fram í Líbanon. Þrettán nýir frambjóðendur hafi fengið sæti á þinginu en kosningarnar hafi þó ekki leitt til neinna þýðingamikilla breytinga á því pólitíska ástandi sem ríkt hafi í landinu. Áratuga spilling og óstjórn í raforkugeira landsins hafi leitt til þess að ríkið geti ekki útvegað meira en tvær til þrjár klukkustundir af rafmagni á dag. Gjaldmiðill landsins hafi fallið um 95% í verðgildi en afleiðingar þess séu m.a. hátt verðlag á mat- og nauðsynjavöru sem komi verst niður á viðkvæmustu hópum landsins. Stjórnvöld hafi verið í samningaviðræðum við Alþjóðabankann og stjórnvöld í Frakklandi um aðstoð við endurreisn landsins, auk þess sem alþjóðastofnanir, s.s. barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) hafa unnið að aðgerðum til þess að bæta félagslega aðstoð og uppbyggingu í landinu.

Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023 og skýrslu mannréttindavaktarinnar fyrir árið 2022 má ráða að nokkuð skorti á réttindavernd tiltekinna minnihlutahópa í Líbanon, þ. á m. fatlaðs fólks og hinsegin fólks, auk þess sem mismunun gagnvart konum sé viðvarandi í landinu. Þá kemur fram að ástandið í landinu hafi hvað mest áhrif á stöðu kvenna, barna, innflytjenda, flóttamanna og fatlaðra einstaklinga. Alvarlegustu mannréttindabrotin í Líbanon séu handahófskenndar og ólöglegar aftökur og ofbeldi og pyndingar af hálfu öryggissveita landsins. Þá sé spilling landlægt vandamál m.a. hjá stjórnmálamönnum og innan öryggissveita landsins. Ennfremur sé aðbúnaður í fangelsum og varðhaldi slæmur og takmarkanir á ferðafrelsi flóttamanna. Fram kemur að yfirvöld hafi virk úrræði til að rannsaka og refsa vegna misnotkunar á valdi. Öryggissveitir landsins, herinn og lögreglan hafi unnið að því í samstarfi við Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) að setja sér og endurskoða siðareglur sínar. Samkvæmt skýrslunni geti borgarar lagt fram kvartanir gegn lögreglunni og fengið upplýsingar um niðurstöður málsmeðferðar vegna þeirra. Ber skýrslan einnig með sér að þótt lög kveði á um að spilling innan hins opinbera sé refsiverð hafi lögunum ekki verið framfylgt með fullnægjandi hætti og að víðtæk spilling innan hins opinbera þrífist í skjóli refsileysis. Stjórnvöld hafi gert átak í því að rannsaka og saksækja spillingu opinberra starfsmanna eftir fjölda mótmæla í kjölfar öflugrar sprengingar í höfuðborg landsins hinn 4. ágúst 2020 en enn sé langt í land. Þá séu takmarkanir á borgaralegum réttindum, s.s. tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs vandamál.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023 kemur fram að líbönsk yfirvöld hafi stjórn yfir hersveitum og öryggissveitum landsins. Hins vegar séu palestínskar hersveitir, Hezbollah samtökin og aðrir hópar sem yfirvöld hafi ekki stjórn yfir starfandi í Líbanon. Í skýrslu International Crisis group kemur fram að Hezbollah samtökin séu hernaðar- og stjórnmálasamtök og hafi orðið til í kjölfar árásar Ísraels inn í Líbanon árið 1982. Meðlimir Hezbollah séu sjía-múslimar og njóti stuðnings fjölmargra sjía-múslima auk þess sem þeir njóti stuðnings frá hluta af kristnum íbúum landsins. Samtökin hafi töluverð ítök í Líbanon og taki virkan þátt í stjórnmálum landsins en samtökin hafi frá árinu 2005 t.a.m. átt nokkra fulltrúa á líbanska þinginu og eigi í nánu samstarfi við March 8 flokkabandalagið. Í kosningum árin 2018 og 2022 hafi samtökin haldið fylgi sínu og séu með 13 þingmenn af 128. Samkvæmt gögnunum stundi samtökin ólöglegar handtökur og varðhald og hafi auk þess lýst yfir ábyrgð á mörgum umfangsmiklum hryðjuverkaárásum. Yfirvöld í Líbanon hafi ekki ráðist í neinar aðgerðir á síðustu árum til þess að takmarka eða útrýma starfsemi Hezbollah í landinu. Varnir landsins gegn öfgahópum hafi þó verið efldar á síðustu árum s.s. með auknu eftirliti á landamærum og flugvöllum. Þá hafi líbönsk yfirvöld lagt aukna áherslu á að draga úr peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þ. á m. af hálfu Hezbollah. Samkvæmt upplýsingum af vefsíðu bandarísku samtakanna um alþjóðasamskipti er Ísrael helsti andstæðingur Hezbollah samtakanna. Sérfræðingar hafi haldið því fram að hópurinn sækist ekki eftir beinu stríði við Ísrael eða önnur lönd heldur einblíni frekar á leynilegar aðgerðir og hryðjuverkaárásir. Þá hafi sérfræðingar haldið því fram að samtökin séu að missa ítökin í Líbanon en þingkosningarnar árið 2022 hafi gefið til kynna að margir íbúar landsins séu óánægðir með samtökin og að meira en helmingur þjóðarinnar séu á móti því að samtökin fari með völd í landinu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi í heiminum frá árinu 2021 kemur fram að stjórnarskrá Líbanons kveði á um „algert samviskufrelsi“ einstaklingsins og tryggi öllum trúarhópum frelsi til að iðka sína trú að því tilskildu að það hafi ekki áhrif á allsherjarreglu. Þá kveði stjórnarskráin á um jafnfrétti allra borgara landsins án mismununar. Í Líbanon séu 18 trúarhópar viðurkenndir opinberlega af stjórnvöldum. Þar séu fimm múslímahópar, þar á meðal drúsar, 12 kristin trúfélög og Gyðingar. Samkvæmt skýrslunni kveður stjórnarskráin á um að réttlátt og sanngjarnt jafnvægi skuli vera í skiptingu ríkisstjórnar og embætta meðal helstu trúarhópa. Fram kemur í skýrslu Middle East Institute frá árinu 2019 að stjórnmálaafl drúsa hafi veruleg völd í landinu og að í fjöllunum austan Beirút starfi fjöldi stjórnmálasamtaka drúsa og viðhaldi pólitískum styrk og herafla.

Á vefsíðu UN Women kemur fram að líbanskar konur hafi öðlast kosningarétt árið 1952 og hafi síðan þá náðst mikill árangur í að efla stöðu kvenna í landinu. Fullgilding á sáttmála um afnám hvers kyns mismununar gegn konum árið 1997 hafi aukið vitundarvakningu um réttindi kvenna í líbönsku samfélagi til muna. Í dag sé grunnskólanám stúlkna og drengja jafnt og um 83% líbanskra kvenna séu læsar. Hins vegar kemur fram að þrátt fyrir framangreind réttindi séu ýmsar lagalegar og félagslegar hindranir sem komi í veg fyrir að líbanskar konur geti notið réttinda sinna til fulls og þá sé atvinnuþátttaka kvenna 15 ára og eldri um 29% samanborið við 72% karla. Þá hafi yfirstandandi efnahagsástand í landinu áhrif á jafnréttisbaráttu líbanskra kvenna, tíðni ofbeldis maka sé um 25% og aðeins 4,6% þingmanna séu konur. UN Women hafi verið með viðveru í landinu frá árinu 2017 og starfi nú m.a. að því að bæta efnahagslega stöðu kvenna í landinu og auka pólitíska þátttöku þeirra. Með því stefnir UN Women á að virkja konur að fullu í pólitískri þátttöku og veita þeim mannsæmandi atvinnutækifæri og afkomuöryggi.

Í skýrslu National Library of Medicine í Bandaríkjunum frá því í maí 2022 og í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. World Health Organization) frá því í júní 2022 er fjallað um heilbrigðiskerfið í Líbanon. Þar kemur fram að í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins, sprengingarinnar í Beirút í ágúst 2020 og vegna efnahagsástandsins í landinu hafi heilbrigðiskerfið átt undir högg að sækja. Þá kemur fram að allt að 15 þúsund heilbrigðisstarfsmenn hafi flutt til annarra landa og samkvæmt gögnum frá háskólasjúkrahúsinu í Beirút hafi um 40% heilbrigðisstarfsfólks hætt á sjúkrahúsinu vegna betri atvinnutækifæra í öðrum löndum. Eftir að heilbrigðisráðherra hafi tekið ákvörðun um að hætta niðurgreiðslu á lyfjum um allt land hafi lyfjaverð í landinu allt að fjórfaldast. Íbúar landsins hafi því í mörgum tilvikum nálgast lyf og aðrar nauðsynjavörur í löndunum í kring. Til viðbótar við skort á nauðsynlegum búnaði hafi skortur á rafmagni og eldsneyti mikil áhrif á heilbrigðisþjónustu í landinu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi árið 2019 gert samstarfsáætlun fyrir stofnunina og líbönsk yfirvöld sem feli m.a. í sér stuðning við heilbrigðiskerfi landsins í gegnum það óstöðuga tímabil sem nú gangi yfir, uppbyggingu og frekari þróunarstörf.


 

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu Líbanon vegna almenns ástands þar í landi. Þá byggja A og B umsóknir sínar einnig á því að þær tilheyri tilteknum þjóðfélagshópum í Líbanon sem [...] og sem konur. M byggir á því að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu [...] í Líbanon. Í viðtölum M og K kváðust þau jafnframt vera [...].

Mat á trúverðugleika frásagnar kærenda er byggt á endurritum af viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kærenda.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við úrlausn málanna hafi verið á því byggt að kærendur væru með tvöfalt ríkisfang og þeim stæði almennt til boða viðeigandi vernd og aðstoð yfirvalda í heimaríki, telji þau sig þurfa á henni að halda. Þá var á því byggt að A og B væru [...].

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 2. maí 2022, greindi M frá því að vera fæddur og uppalinn í [...] í Líbanon. Í framhaldsviðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 24. júní 2022, greindi M frá því að hafa unnið í Ísrael á árunum [...] til [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 2. maí 2022, greindi K frá því að vera fædd í Venesúela en hafi flutt til [...] í Líbanon [...] ára gömul og alist þar upp. M og K greindu frá því að hafa flutt til Venesúela árið 2000 og búið þar í landi til ársins 2017 þegar þau hafi flutt að nýju til Líbanon. M hafi heimsótt Líbanon árin 2010 og 2013. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dags. 3. maí 2022, greindu A og B frá því að þær hafi fæðst í Líbanon en alist upp í Venesúela. Þær hafi svo flutt með fjölskyldunni til Líbanon árið 2017. Kærendur greindu frá því að hafa búið í Líbanon frá árinu 2017 til ársins 2022 en þá hafi þau flúið landið í gegnum Beirút.

Í framangreindu viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 2. maí 2022, greindi M frá því að óttast [...]. Heimabær kærenda sé staðsettur á landamærum Líbanon og Ísrael og [...] beini árásum sínum að Ísrael og öfugt og því sé ekki öruggt að búa þar. M hafi unnið í Ísrael í [...] ár eða frá árinu [...]. Í framhaldsviðtali, dags. 24. júní 2022, greindi M frá því að hafa unnið í Ísrael á árunum [...] til [...]. [...] líti á M sem svikara vegna starfa hans í Ísrael og M geti ekki leitað verndar yfirvalda í Líbanon gegn [...] vegna stöðu þeirra í ríkinu. Kærendur hafi flutt til Venesúela árið 2000. Þegar M hafi ferðast til Líbanon árið 2010 hafi hann verið handtekinn á flugvellinum við komuna til landsins. M hafi verið sendur á milli staða í alls konar rannsóknir og honum gert að sök að starfa fyrir ísraelska herinn. Málið hafi að endingu verið fellt niður og M sleppt úr haldi. M kvað þó að nafn hans hafi verið skráð á öllum flugvöllum og höfnum þannig hann hafi ekki getað yfirgefið landið. M hafi því þurft að greiða 800 dollara til að komast frá landinu. M hafi ferðast á ný til Líbanon árið 2013. Honum hafi ekki liðið vel og fundist eins og verið væri að njósna um sig og því snúið fljótt aftur til Venesúela.

Í framangreindum landaupplýsingum kemur fram að [...] séu með töluverð ítök í Líbanon. Ísraelar séu helstu andstæðingar samtakanna og samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023 beiti [...] og palestínskar hersveitir hótunum, áreiti og stundum ofbeldi gegn andstæðingum sínum. Vopnaðir liðsmenn samtakanna hafi stjórnað aðgangi að ákveðnum hverfum og svæðum þar sem þeir starfi utan yfirráðasvæðis stjórnvalda. Þá hafi samtökin starfrækt búðir eða fangageymslur þar sem þau hafi haldið einstaklingum ólöglega í óákveðinn tíma. M greindi frá því að hafa verið handtekinn við komuna til landsins árið 2010 og verið í haldi í rúmlega tvo sólarhringa vegna ásakana um þátttöku í ísraelska hernum. Kærandi lagði fram skjal sem hann segir vera staðfestingu á því að hann hafi verið í haldi vegna rannsókna árið 2010, hann hafi verið spurður margra spurninga en mál gegn honum hafi svo verið fellt niður. Kærunefnd telur ekki ástæðu, með vísan til heimilda um [...] og heimaríki kæranda, til að draga í efa að M kunni að hafa sætt handtöku, yfirheyrslu og rannsóknum af hálfu [...] á árinu 2010. Hins vegar er til þess að líta að M hefur sjálfur greint frá því að hafa verið látinn laus þegar þeir aðilar sem hafi haldið honum hafi komist að því að um mistök hafi verið að ræða og M hafi ekki verið talinn tengjast ísraelska hernum. M hafi þá getað yfirgefið landið árið 2010, ferðast aftur til Líbanon árið 2013 og til Venesúela á ný. Þá hafi kærendur ferðast aftur til Líbanon árið 2017 og sest þar að. Kærendur hafa búið í Líbanon síðan og M kvaðst hafa rekið þar verslun en hafi þurft að loka henni vegna Covid-19 faraldursins. Í viðtölum greindu kærendur aðeins frá almennum erfiðleikum við það að búa í Líbanon og að vegna þess að þau væru ekki flokksbundin ættu þau erfiðara með að fá vinnu og þjónustu. Í greinargerð kemur fram að kærendur hafi búið við stöðugt eftirlit og áreiti í Líbanon og ekki talið sig örugg. M hafi sætt rannsókn af hálfu líbönsku [...]. Er hér um misræmi að ræða á milli frásagnar kærenda í viðtölum og atvikalýsingu í greinargerð. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn um að M eða aðrir fjölskyldumeðlimir séu, eða hafi verið, undir sérstöku eftirliti [...] eða annarra yfirvalda í heimaríki og ekkert í gögnum málsins eða heimildum um heimaríki kærenda bendir til þess að M sé í þeirri stöðu að vera sérstakt skotmark samtakanna. Þvert á móti gat M ferðast til og frá landinu árið 2010 og árið 2013 og búið í landinu frá árinu 2017 til ársins 2022 ásamt fjölskyldu sinni. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að M hafi ekki leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að sæta ofsóknum af hálfu [...] í Líbanon vegna starfa sinna í Ísrael á árunum [...]. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærendur hafi sætt ofsóknum eða að hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu yfirvalda í Líbanon sem nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dags. 3. maí 2022, greindu A og B frá því að tilheyra minnihlutahópum í Líbanon á grundvelli trúar sinnar og kyns. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að lagt hafi verið til grundvallar að kærendur séu [...]. Líkt og áður hefur komið fram kveður stjórnarskrá Líbanons á um „algert samviskufrelsi“ einstaklingsins og tryggir öllum trúarhópum frelsi til að iðka trú sína að því tilskildu að það hafi ekki áhrif á allsherjarreglu. Þá kveður stjórnarskráin á um jafnrétti allra borgara landsins án mismununar. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Britannia eru um [...]% líbönsku þjóðarinnar [...] og hefur trúarhópurinn farið með umtalsverð pólitísk völd í landinu frá því það öðlaðist sjálfstæði. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kærenda verður ekki séð að þeir einstaklingar sem séu [...] verði fyrir aðkasti í Líbanon vegna trúar eða að kærendur eigi á hættu að sæta ofsóknum af þeim sökum.

Hvað varðar stöðu kvenna í heimaríki kærenda vísa skýrslur til þess að frá árinu 1952 hafi náðst mikill árangur í að efla stöðu þeirra í landinu. Í grein á vefsíðu Wilson Center frá því í júlí 2022 kemur fram að […] samtökin hafi t.a.m. opnari afstöðu til hlutverks kvenna í samfélaginu en mörg önnur íslömsk samtök. Konur gegni mikilvægum hlutverkum innan félagsmála-, fjölmiðla- og stjórnsýsludeilda samtakanna. Hins vegar kemur fram að þrátt fyrir framangreind réttindi og viðhorf séu ýmsar lagalegar og félagslegar hindranir sem komi í veg fyrir að líbanskar konur geti notið réttinda sinna til fulls. UN Women hafi verið með viðveru í landinu frá árinu 2017 og starfi nú m.a. að því að styrkja efnahagslega stöðu kvenna í landinu og pólitíska þátttöku þeirra. Með því stefnir UN Women á að virkja konur að fullu í pólitískri þátttöku og veita þeim mannsæmandi atvinnutækifæri og afkomuöryggi. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ekki ríki jafnræði milli karla og kvenna í Líbanon og barátta kvenna þar í landi eigi enn langt í land sem birtist m.a. í því að atvinnuþátttaka kvenna 15 ára og eldri sé aðeins um 29% samanborið við 72% karla. Það er þó mat kærunefndar að aðstæður kærenda vegna trúar þeirra eða aðstæður K, A og B vegna kyns þeirra séu ekki þess eðlis að þær eigi undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærendur greindu frá því að koma frá bænum [...] í norðurhluta Líbanon. Þar væri óöruggt að búa vegna nálægðar bæjarins við landamæri Ísrael. Samkvæmt landaupplýsingum m.a. korti og upplýsingum á vefsíðu ACLED (e. The Armed Conflict Location & Event Data Project) eru ekki ríkjandi átök eða óeirðir á því svæði sem kærendur kveðast koma frá eða í Líbanon almennt. Af gögnum er ljóst að Líbanon glímir við alvarlega mannúðarkrísu vegna mikilla efnahagsþrenginga og óstöðugleika í stjórnmálum. Því bíði líbönsku þjóðarinnar gríðarlegt verkefni við endurreisn landsins. Er það þó mat kærunefndar að þrátt fyrir að ástandið megi að einhverju leyti rekja til spillingar í stjórn landsins og aðgerða eða aðgerðarleysis stjórnvalda er ljóst að stjórnvöld eru í virku samstarfi við alþjóðasamfélagið til þess að reyna að auka stöðugleika og bæta efnahag landsins og hafa gripið til ýmissa aðgerða sem ætlað er að bæta stöðu almennings í landinu. Er það því mat kærunefndar að aðstæður í Líbanon nái ekki því marki að kærendur eigi á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði þeim gert að snúa til baka til Líbanon.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefnd að aðstæður þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærendur uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga kærendur ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærendur byggja á því að þau muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Í Líbanon sé ekki hægt að nálgast rafmagn, olíu eða vatn. Þá hafi A og B ekki tök á því að ganga í skóla eða fá atvinnu í landinu.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að öryggisástand í Líbanon sé nokkuð stöðugt og gögn benda til þess að stjórnvöld í landinu geti veitt borgurum sínum vernd. Þá horfir kærunefnd til þess að faðir M og systur hans búa í Líbanon og má ráða að samband þeirra sé gott. Þá kvaðst M hafa rekið verslun í heimaríki áður en Covid-19 faraldurinn reið yfir landið. Í viðtölum kváðust A og B vera með háskólamenntun en hafi gengið erfiðlega að fá vinnu í heimaríki bæði vegna þess að þær séu konur og að fjölskyldan hafi ekki tengsl við stjórnmálaflokka í heimaríki. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kærenda og aðstæður í Líbanon er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að almennar og félagslegar aðstæður sem bíða kærenda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Kærendur hafa greint frá slæmum efnahagslegum aðstæðum í heimaríki. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

M hefur greint frá því að glíma við hjartavandamál eftir Covid-19 sjúkdóminn. Hann hafi greinst í Líbanon og fengið lyf þar í landi, sbr. læknisvottorð, dags. 9. mars 2022, sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Þá hefur M lagt fram gögn frá Göngudeild sóttvarna, dags. 13. apríl 2022, þar sem fram kemur að kærandi taki inn lyf vegna brjóstverkja og öndunarerfiðleika í kjölfar veikinda af völdum Covid-19 veirunnar árið 2020. Í gögnum frá lækni á heilsugæslunni Firði, dags. 30. júní 2022, kemur fram að kærandi hafi verið með mæði og þrýsting í brjóstkassa við áreynslu og þegar hann lyfti hlutum. Það leiði út í handleggi eða upp í háls. Þá kemur fram að hjartahlustun hafi verið eðlileg. Hann hafi sjálfur miklar áhyggjur af þessu og því hafi læknir óskað eftir hjartaómskoðun. Í gögnum frá heimilislækni á heilsugæslunni Mjódd, dags. 11. ágúst 2022, kemur fram að M þurfi sérfræðilega kortlagningu á sínum hjartavanda svo hægt sé að hjálpa honum. M hefur ekki lagt fram frekari heilbrigðisgögn við meðferð málsins.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 3. maí 2022, greindi B frá því að vera með lungnaofnæmi. Hún hafi þó aldrei fengið meðferð við því og engin lyf við því séu í boði í Líbanon. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 19. apríl 2022, fór læknisskoðun fram í samræmi við ákvæði sóttvarnarlaga. B hefur engin frekari heilbrigðisgögn lagt fram við meðferð málsins þrátt fyrir að skorað hafi verið á hana að leggja fram frekari gögn. Liggja því ekki fyrir upplýsingar um að B þurfi á sérstakri læknisfræðilegri meðferð að halda eða lyfjum vegna heilsukvilla síns. Þá hafa K og A greint frá því að vera við góða heilsu.

Líkt og fram hefur komið hafa afleiðingar Covid-19 heimsfaraldursins og sprengingarinnar í Beirút árið 2020 haft slæm áhrif á heilbrigðiskerfið í Líbanon. Þá hefur efnahagsástandið í landinu farið versnandi og aðgengi að rafmagni og olíu er takmarkað. Samkvæmt framangreindum landaupplýsingum er aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu takmarkað og lyfjaverð hefur allt að fjórfaldast. Við meðferð málsins hefur M greint frá því að hafa fengið heilbrigðisþjónustu í Líbanon og hefur við meðferð málsins lagt fram gögn, dags. 9. mars 2022, sem benda til þess að hann hafi fengið uppáskrifuð lyf frá sérfræðilækni á [...] sjúkrahúsinu í Líbanon. Þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika í heimaríki kærenda og þeirrar stöðu sem uppi er í heilbrigðiskerfi landsins verður ekki annað séð en að M hafi getað leitað sér læknisfræðilegrar aðstoðar vegna veikinda sinna þar í landi og fengið hana. Með vísan til framangreinds og í ljósi þess sem fram kemur í framlögðum heilsufarsgögnum verður ekki talið að M og B þarfnist meðferðar sem sé svo sérhæfð að þau geti einungis hlotið hana hérlendis né að rof á henni yrði til tjóns fyrir þau verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Verður því ekki talið að kærendur hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og frásagnir þeirra eru virtar í heild, með hliðsjón af aðstæðum þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að þau hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kærenda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda þangað.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gera kærendur í greinargerð sinni athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um ástand heilbrigðiskerfisins í Líbanon. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við hana. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærendur komu hingað til lands 11. mars 2022 og lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærendur eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Athygli kærenda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur að hverfa af landi brott. Kærendum er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugum.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed. The appellants are requested to leave the country. The appellants have 30 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum