Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 47/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 47/2024

Fimmtudaginn 21. mars 2024

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. janúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 17. nóvember 2023, um að synja beiðni hennar um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á tímabilinu janúar til ágúst 2022. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. júní 2023, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2022 þar sem fram kom að hún hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur, að fjárhæð 227.852 kr., auk upplýsinga um með hvaða hætti hinar ofgreiddu bætur yrðu innheimtar. Kærandi óskaði eftir niðurfellingu skuldarinnar og með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 17. nóvember 2023, var þeirri beiðni synjað þar sem krafan væri nú þegar greidd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. janúar 2024. Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 2. febrúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. febrúar 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. febrúar 2023 sem voru kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. febrúar 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hún kæri ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja niðurfellingu ofgreiddra húsnæðisbóta. Stofnunin hafi synjað niðurfellingu á þeim grundvelli að krafan hefði þegar verið greidd. Vissulega sé það rétt en kærandi hafi greitt kröfuna eftir ítrekaðar tilraunir til þess að fá svör frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um hvort henni bæri að greiða kröfuna á meðan hún stæði í kæruferli hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Þrátt fyrir ítrekanir hafi engin svör borist en kærandi hafi greitt kröfuna því hún hafi ekki fengið svör um það hvort krafan hefði neikvæð áhrif á lánshæfismat hennar. Þá hafi stofnunin ekki hugmynd um hvaðan fjármunir þeir sem hafi verið notaðir til greiðslu kröfunnar hafi komið, hvort yfirdráttur hafi verið tekinn eða annað lán. Það gefi því með engu móti upplýsingar um stöðu kæranda að hún hafi greitt kröfuna. Kærandi hafi ekki getað látið kröfuna sitja í heimabankanum út í hið óendanlega á meðan Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi ekki svarað henni. Annars byggi krafa kæranda um niðurfellingu á öllum sömu rökum og fyrri kæra hennar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. mál nr. 364/2023. Í því máli sé einnig að finna öll skjöl málsins sem sýni einnig viðbragðsleysi stofnunarinnar við fyrirspurnum um hvort kæranda bæri að greiða kröfuna eða ekki.

Í athugasemdum vegna greinargerðar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi telji ekki að skilja megi ákvæði 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 á þann hátt að einungis megi falla frá innheimtu ógreiddra krafna, heldur þurfi að meta aðstæður hverju sinni. Kærandi hafi greitt kröfuna því hún hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá úr því skorið hvort henni bæri að greiða kröfuna eða ekki, eftir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi tekið þá ákvörðun að endurskoða ekki ákvörðun sína um innheimtu bótanna. Meðfylgjandi tölvupóstsamskipti sýni fram á ítrekaðar tilraunir til þess og á endanum hafi kærandi sagt, þar sem engin svör hafi verið að fá, að hún greiði kröfuna sérstaklega með þeim fyrirvara að telja sig ekki greiðsluskylda. Engin viðbrögð við því hafi komið frá stofnuninni. Þar sem engin svör hafi borist og krafan hafi verið komin langt fram yfir gjalddaga hafi kærandi neyðst til þess að finna leiðir til þess að greiða kröfuna þar sem hún hafi ekki viljað að hún hefði enn verri áhrif á lánshæfismat sitt. Það að krafan hafi verið greidd hafi nákvæmlega ekkert um það að segja hvernig fjárhagsaðstæður kæranda hafi verið, enda hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ekki hugmynd um það hvernig fjármunir hafi verið fengnir til þess að greiða kröfuna. Kærandi sé námsmaður í fullu námi og hafi verið á leigumarkaði í mjög erfiðum efnahagslegum aðstæðum. Það eitt og sér geri það að verkum að skilyrði reglugerðarinnar séu uppfyllt, sérstaklega með hliðsjón af tekjum og efnahagsástandi.

Þá vísi kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 545/2019 þar sem nefndin hafi staðfest niðurstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í því máli hafi kærandi unnið happdrættisvinning í október sem hafi breytt eignastöðu hans sem hafi haft áhrif á húsnæðisbætur. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi endurkrafið kæranda um bætur fyrir allt árið en svo fallið frá endurkröfunni til þess dags sem viðkomandi hafi unnið happdrættisvinninginn þar sem honum hafi verið ófært að vita fyrir þann tíma að hann myndi fara umfram eignamörk. Verði að telja að sambærileg sjónarmið eigi við hér, enda hafi það ekki verið fyrr en fyrst í september 2022 sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi gert viðvart að notast skuli við fasteignamat ársins 2023 fyrir almanaksárið 2022, þrátt fyrir að hafa alveg til þess tímapunkts gert ráð fyrir eignastöðunni í samræmi við fasteignamat ársins 2022, þó fasteignamat 2023 hafi verið birt í lok maí sama árs.

Staðan hafi því verið sú að frá og með janúar 2022 til og með maí 2022 hafi kæranda verið með öllu ófært að átta sig á því að eignastaðan færi umfram leyfilegt hámark, enda ekki búið að birta borgurum fasteignamatið fyrr en 31. maí 2022. Frá 31. maí 2022 til og með þess dags sem bótum hafi verið synjað hafi kæranda einnig verið ómögulegt að vita að miðað yrði við fasteignamat ársins 2023, enda sé kveðið skýrt á um það í lögum að það taki ekki gildi fyrr en 31. desember og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi sjálf miðað við fasteignamat ársins 2022 í þeim fjölmörgu endurútreikningum sem kæranda hafi verið sendir yfir sumarið 2022. Því verði að telja að sambærilegar aðstæður séu uppi og í framangreindum úrskurði og að stofnuninni beri því að viðhafa sambærilega meðferð og falla frá innheimtu.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 26. janúar 2022 vegna leigu á húsnæðinu B. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 8. febrúar 2022.

Þann 13. september 2022 hafi kæranda verið sent bréf þar sem afgreiðslu umsóknar hafi verið frestað þar sem eignir væru farnar að skerða bætur að fullu. Í kjölfar frestunarbréfs hafi kærandi haft samband við stofnunina og beðið um útskýringu á því hvers vegna væri byrjað að nota fasteignamat 2023 á þessum tímapunkti. Kærandi hafi fengið svar í tölvupósti þann 16. september 2022 en þar hafi einnig verið óskað eftir skuldastöðu og upplýsinga um leigutekjur. Engar frekari athugasemdir hafi borist í kjölfar svarsins. Umsókn um húsnæðisbætur hafi svo verið synjað þann 6. október 2022 þar sem tekjur og/eða eignir hafi verið farnar að skerða bætur að fullu.

Við lokauppgjör húsnæðisbóta vegna ársins 2022 hafi komið í ljós að kærandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur sem hafi numið 227.852 kr. Kærandi hafi sett sig í samband við stofnunina í kjölfar lokauppgjörs og óskað eftir frekari upplýsingum um útreikninginn. Kærandi hafi fengið svar í kjölfarið þar sem útskýrt hafi verið að eignarstaða samkvæmt skattframtali 2023 (vegna tekjuársins 2022) væri ástæðan fyrir skerðingu húsnæðisbóta það ár.

Þann 6. nóvember 2023 hafi kærandi óskað eftir niðurfellingu á kröfu. Niðurfellingarbeiðni kæranda hafi verið synjað þann 17. nóvember 2023.

Í máli þessu sé deilt um synjun á niðurfellingu kröfu vegna ofgreiddra húsnæðisbóta. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimild til að falla frá kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra húsnæðisbóta þrátt fyrir að endurreikningur leiði í ljós að húsnæðisbætur hafi verið ofgreiddar. Stofnuninni sé heimilt að falla frá kröfu að fullu eða að hluta og afskrifa hana ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem mæli með því. Í þessu sambandi sé einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda og til þess hvort hann hafi verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna.

Heimild til niðurfellingar nái ekki til þegar greiddra krafna þar sem heimildin eigi við um þær aðstæður þegar umsækjanda sé ekki kleift að greiða kröfu af annað hvort félagslegum eða fjárhagslegum aðstæðum. Þar sem krafan er niðurfellingarbeiðnin hafi náð til hafi þegar verið greidd hafi ekki verið hægt að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 17. nóvember 2023, um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta á árinu 2022.

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 364/2023 var ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna eignastöðu kæranda á árinu 2022 staðfest. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir niðurfellingu skuldarinnar á grundvelli 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Þrátt fyrir að endurreikningur húsnæðisbóta skv. 25. gr. laga um húsnæðisbætur leiði í ljós að húsnæðisbætur hafi verið ofgreiddar er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimilt að falla frá kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem ofgreidd var að fullu eða að hluta og afskrifa hana ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi sem mæla með því. Í því sambandi skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna. Hið sama gildir um dánarbú umsækjanda, eftir því sem við á.“

Fyrir liggur að kærandi hafði þegar greitt þá fjárhæð sem hún var krafin um endurgreiðslu á þegar hún óskaði eftir niðurfellingu hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Beiðni kæranda var synjað á þeirri forsendu að heimild til niðurfellingar nái ekki til þegar greiddra krafna þar sem heimildin eigi við um þær aðstæður þegar umsækjanda sé ekki kleift að greiða kröfu af annað hvort félagslegum eða fjárhagslegum aðstæðum. Stofnunin mat það svo að þar sem krafan hafi þegar verið greidd hafi ekki verið hægt að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar.

Samkvæmt 26. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er meginreglan sú að ofgreiddar húsnæðisbætur skuli endurgreiddar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Samkvæmt 6. mgr. 26. gr. laganna er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um innheimtu á ofgreiddum bótum, undanþágur frá innheimtu ofgreiddra bóta og afskriftir krafna. Í 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 er stofnuninni veitt heimild til að falla frá kröfu um endurgreiðslu vegna sérstakra aðstæðna. Þá eru þar tilgreind þau viðmið sem stofnuninni ber að líta til við mat á þeirri undanþágu. Samkvæmt orðanna hljóðan getur ákvæði reglugerðarinnar ekki komið til skoðunar þegar einstaklingar hafa þegar greitt þá fjárhæð sem ofgreidd var, enda þá ekki til staðar krafa til að falla frá í heild eða að hluta, heldur er verið að fara fram á endurgreiðslu frá stofnuninni á þegar greiddri lögmætri kröfu. Með vísan til þess er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu skuldar því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 17. nóvember 2023, um að synja beiðni A, um niðurfellingu skuldar vegna ofgreiddra húsnæðisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum