Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1205/2024. Úrskurður frá 25. júní 2024

Hinn 25. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1205/2024 í máli ÚNU 22100005.
 

Kæra og málsatvik

1.

Með erindi, dags. 6. október 2022, kærði […] lögmaður, f.h. […], ákvörð­un […] að synja kæranda um aðgang að gögnum um bótakröfu […] og bótagreiðslu sveitarfélagsins til […], og upplýsingum um ein­eltis­kvörtun.
 
Kærandi lagði fram beiðni um aðgang að gögnum 3. ágúst 2022. Eftir að hafa að ósk […] afmarkað beiðn­ina nánar hljóðaði hún á um eftirfarandi gögn og upplýsingar:
 

  1. Bótakrafa […], samskipti aðila frá þeim tíma vegna málsins, samkomulag […] og […] vegna málsins, og öll önnur gögn sem snerta samskipti […] og […] vegna bótauppgjörsins.
  2. Hver niðurstaða […] hafi verið vegna eineltiskvörtunarinnar og hvenær rann­sókn á mál­inu hafi lokið. Þá var óskað aðgangs að öllum gögnum sem vörðuðu loka­af­greiðslu […] á málinu.

 
Með ákvörðun […], dags. 9. september 2022, var kæranda synjað um aðgang að gögn­um sem féllu undir fyrri lið beiðninnar með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Sveitar­fél­agið varð að hluta við beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt síðari liðnum, en synjaði kær­anda um aðgang að öðru leyti með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.
 
[…]
 

2.

Í kæru kemur fram að […] og […] hafi mátt vera ljóst að samkomulag um greiðslu bóta úr sveit­arsjóði sveitarfélagsins væru upplýsingar sem vörðuðu almenning, enda um ráðstöfun al­manna­fjár að ræða. Ríkir hagsmunir standi til þess að upplýst sé um samkomulagið, sbr. mark­miðs­ákvæði upp­lýs­ingalaga í 1. gr. þeirra um að tryggja gegnsæi við meðferð opinberra hags­muna. […]
 
Kærandi telur að upplýsingar í þeim gögnum sem synjað hefur verið um aðgang að séu ekki þess efnis að þær varði einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga. […]
 
Varðandi síðari lið gagnabeiðninnar telur kærandi að út frá skýringum […] megi draga þá álykt­un að kæranda hafi verið synjað um aðgang að mörg hundruð blaðsíðum af gögnum. Kær­andi krefj­ist þess að gögnin verði afhent sér í heild.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt […] með erindi, dags. 7. október 2022, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafn­framt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kær­an lýtur að.
 
Umsögn […] barst úrskurðarnefndinni 20. október 2022. Í henni kemur fram að í þeim gögn­um sem heyri undir fyrri lið gagnabeiðni kæranda séu upplýsingar um fjárhagsmálefni ein­staklings sem teljist auk þess viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum. Þá sé að auki að miklu leyti um vinnu­gögn að ræða í skilningi upplýsingalaga. Umsögninni fylgdu þau gögn sem […] telur að kæran lúti að.
 
Umsögn […] var kynnt kæranda með erindi, dags. 20. október 2022, og honum veittur kost­ur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Í athugasemdum kæranda, dags. 1. nóvember 2022, kem­ur fram að […] hafi enn ekki skýrt út hvaða gögn samkvæmt síðari lið gagna­beiðn­innar hafi ekki verið afhent og hvernig takmörkunarákvæði 9. gr. upplýsingalaga eigi við um þau. Varð­andi fyrri lið beiðninnar sé hún sett fram með þeim hætti að gögn sem undir lið­inn heyra geti ekki talist vinnu­gögn í skilningi upplýsingalaga.
 
Með erindi, dags. 18. október 2023, sendi kærandi úrskurðarnefndinni úrskurð innviðaráðuneytis sem kveð­inn var upp tveimur dögum áður í kærumáli um aðgang að sömu gögnum og til meðferðar eru í þessu máli. Niðurstaða ráðuneytisins um fyrri lið gagnabeiðninnar var sú að ákvörðun […] lyti ekki eftir­liti ráðu­neytisins með stjórnsýslu sveitarfélaga, sbr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, held­ur væri um að ræða starfs­mannamál sveitarfélagsins. Þeim þætti kærunnar var því vís­að frá.
 
Varðandi síðari lið gagnabeiðn­innar var það niðurstaða ráðuneytisins að þegar erindi […], dags. 16. desember 2020, barst […] hefði hafist stjórnsýslumál sem lokið hefði með erindi sveit­ar­félags­ins til kæranda, dags. 28. janúar 2022. Kærandi hefði átt aðild að því stjórnsýslumáli og því færi um rétt til aðgangs að gögn­um málsins samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem […] hefði ekki af­greitt þann hluta beiðn­innar með fullnægjandi hætti var ákvörðun sveit­ar­fél­ags­ins felld úr gildi að því leyti.
 
Með erindi, dags. 17. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu þess einstaklings sem gögn­in varða til af­hend­ing­ar þeirra gagna sem deilt er um aðgang að. Með erindi, dags. 27. nóvem­ber 2023, var lagst gegn af­hendingunni.
 
Með erindi til kæranda, dags. 27. maí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari skýringum á af­mörk­un fyrri liðar gagnabeiðni hans. Í svari kæranda, dags. 30. maí 2024, […].
 

Niðurstaða

1.

Í málinu er deilt um ákvörðun […] að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem varða bóta­greiðslu til […] og afgreiðslu sveitarfélagsins á eineltiskvörtun […].
 
Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði kærandi sömu ákvörðun […] til innviðaráðuneytis. Í úrskurði ráðu­neyt­isins var niðurstaðan sú að gögn sem heyrðu undir síðari lið gagnabeiðni kæranda og vörð­uðu af­greiðslu […] á eineltis­kvört­un […] tilheyrðu stjórn­sýslu­máli sem hófst með erindi hennar 16. desember 2020 og lauk þegar kæranda var tilkynnt um lok málsins 28. jan­úar 2022. Kær­andi hefði átt aðild að málinu og því byggðist réttur hans til að­gangs að gögnum þess á 15. gr. stjórn­sýslulaga, nr. 37/1993.
 
Það liggur því fyrir að skorið hefur verið úr um að réttur kæranda til aðgangs að gögn­um sam­kvæmt síðari lið gagnabeiðni byggist ekki á ákvæðum upplýsingalaga heldur stjórn­sýslu­laga. Sá rétt­ur sem stjórn­sýslu­lög veita aðila máls til aðgangs að gögnum er ríkari en réttur sam­kvæmt ákvæð­um upp­lýs­ingalaga. Þá ligg­ur fyrir að innviðaráðuneyti er að lög­um hið rétta stjórn­vald til að skera úr um ágrein­ing sem lýtur að aðgangi kæranda að gögnum málsins, sbr. 1. mgr. 111. gr. sveit­ar­stjórn­ar­laga, nr. 138/2011, um heimild aðila máls til að kæra til ráðuneyt­is­ins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess samkvæmt 109. gr. laganna. Sam­kvæmt 2. mgr. 4. gr. upp­lýs­inga­laga gilda lög­in ekki um aðgang að upplýsingum sam­kvæmt stjórn­sýslu­lögum. Verð­ur þeim hluta kærunnar sem lýt­ur að síðari lið gagna­beiðni kæranda því vísað frá úr­skurðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál.
 

2.

Fyrri liður gagnabeiðni kæranda hljóðaði á um aðgang að bótakröfu […], samskiptum aðila frá þeim tíma vegna málsins, samkomulagi […] og […], og öllum öðrum gögnum sem snerta sam­skipti […] og […] vegna bótauppgjörs­ins.
 
[…] afhenti úrskurðarnefndinni 844 blaðsíður af gögnum sem sveitarfélagið telur að heyri undir þennan lið gagnabeiðninnar. Eftir að hafa grisjað gögnin þannig að hvert gagn komi aðeins einu sinni fyrir standa eftir 340 blaðsíður. Sá hluti gagn­anna, sem varðar bóta­kröfu […], sam­skipti aðila frá þeim tíma vegna málsins, sam­komu­lag […] og […] og önnur gögn sem snerta samskipti […] og […] vegna bóta­upp­gjörsins, er 124 blað­síður. Eftirfarandi umfjöllun miðar að því að fjalla um rétt kær­anda til aðgangs að þeim gögn­um.
 
[…]
 
Meðal framangreindra gagna eru hvorki gögn sem eru um kæranda, né er í gögnunum að finna upp­lýsingar sem telja má að varði kæranda sérstaklega umfram aðra með þeim hætti að upp­lýs­inga­réttur hans fari samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálf­an. Áréttað skal að þessi niðurstaða á við um þau gögn sem nefndin hefur afmarkað umfjöllun sína við, sbr. framangreint. Það er mat nefndarinnar að ekki verði séð að hagsmunir kær­anda af að fá aðgang að gögn­un­um séu að einhverju leyti ríkari eða annars eðlis en hags­munir al­mennings af að fá aðgang að þeim. Fer því um upplýsinga­rétt kæranda samkvæmt 5. gr. upp­lýs­inga­laga, nr. 140/2012, sem fjallar um rétt al­menn­ings til að­gangs að gögnum, með þeim tak­mörk­un­um sem mælt er fyrir um í 6.–10. gr. lag­anna.
 
Ákvörðun […] að synja kæranda um aðgang að framangreindum gögnum er fyrst og fremst byggð á 9. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá sam­þykki sem í hlut á. Í athugasemdum við 9. gr. sem fylgdu frumvarpi því sem varð að upplýs­inga­lögum, nr. 140/2012, segir:
 

Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörð­un tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta um­beð­in gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

 
Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki sjálfgefið að bótakrafa einstaklings sem beint er að stjórn­valdi og önnur gögn sem til verða við úrvinnslu þess máls sem kann að hefjast í kjölfarið séu gögn um einkamálefni viðkomandi einstaklings. Þegar krafa varðar bætur fyrir ætlað einelti má þó al­mennt ætla að gögn máls­ins varði einkamál­efni þess sem leggur fram kröfuna. Slíkar upplýsingar kunna jafnframt að telj­ast viðkvæmar fyrir þann einstakling sem í hlut á.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir framangreind gögn með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga. Nefnd­in telur hafið yfir vafa að þau hafi að geyma upplýsingar um einkamálefni […] sem sann­gjarnt sé og eðlilegt að fari leynt þar sem þær séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo við­kvæm­ar að þær eiga ekki erindi við almenning. Á það að mati nefndarinnar við um gögn­in í heild, þ.e. bóta­kröf­una sem og gögn sem urðu til í tengsl­um við meðferð og úr­vinnslu kröf­unnar. Við mat á því hvort engu að síður væri hægt að veita aðgang að hluta gagnanna telur nefndin það ekki vera mögu­legt þar sem til þess er að líta, sem áður segir, að málið í heild sinni er viðkvæmt og af­hending upp­lýsinga sem ein­ar og sér myndu ekki endilega teljast við­kvæmar gæti með óbeinum hætti varp­að ljósi á aðrar upp­lýsingar í málinu sem teljast viðkvæmar og til þess fallnar að skaða einka­hags­muni viðkomandi ein­staklings ef þær væru á vit­orði almennings.
 
Kærandi telur að almenningur hafi hagsmuni af því að fá aðgang að gögnunum þar sem í málinu hafi opinberum fjármunum verið ráðstafað til að greiða […] bætur. Líkt og áður hefur komið fram eru mál sem varða kröfur um bætur fyrir ætlað einelti almennt viðkvæm. Þá er vandséð að al­menn­ing­ur hafi almennt ríka hagsmuni af að fá aðgang að gögnum slíkra mála. Nefndin tekur fram að al­mennt er litið svo á að upp­lýsingar um ráðstöfun opin­berra fjármuna eigi erindi við al­menning í því skyni að styrkja að­hald að opinberum aðilum, sbr. til dæmis 1. gr. upp­lýsingalaga. Hins vegar ræð­ur það sjónarmið ekki fortakslaust úrslitum um hvort aðgangur að upplýsingum um ráð­stöfun opin­berra fjármuna verði veittur, heldur þarf að meta það heildstætt með hliðsjón af máls­atvikum, m.a. gagnvart þeim einka­hagsmunum sem um er að ræða hverju sinni. Með vísan til þess hve hags­munir almennings af að fá aðgang að gögnum þessa máls eru að mati nefndarinnar tak­mark­að­ir getur nefndin ekki fall­ist á að framan­greint sjónarmið breyti þeirri niðurstöðu að óheim­ilt sé að veita aðgang að þeim gögn­um sem um er deilt í málinu.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að tjáning einstaklings á opinberum vett­vangi um einka­málefni sín geti leitt til þess að aðili sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga hafi meira svig­rúm til að afhenda gögn sem innihalda upplýsingar um þau einkamálefni sem þann­ig hafa þegar verið gerð opinber. Nefndin telur hins vegar í þessu máli að það að […] hafi tjáð sig á opin­berum vettvangi […] eigi ekki að leiða til þess að réttur til aðgangs að umbeðnum gögn­um sé rík­ari en ella væri. […] Slík opinber tján­ing felur ekki í sér samþykki […] fyrir af­hendingu gagn­anna og vei­tir sveitarfélaginu sömu­leið­is ekki heimild til að afhenda þau.
 
Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þau gögn sem deilt er um að­gang að í málinu varði einkamálefni […] sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt. Verður ákvörðun […] því staðfest.
 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun […], dags. 9. september 2022, að synja […] um að­gang að bótakröfu […], samskiptum aðila frá þeim tíma vegna málsins, sam­komulagi […] og […] vegna málsins, og öllum öðrum gögnum sem snerta sam­skipti […] og […] vegna bótauppgjörsins.
 
Kæru […], dags. 6. október 2022, er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum