Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 241/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 241/2021

Fimmtudaginn 8. júlí 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. maí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2021, um að synja umsókn hennar um greiðslur í sóttkví á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 1. maí 2021, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2021, þar sem skilyrði 2. mgr. 6. gr. laganna væri ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. maí 2021. Með bréfi, dags. 17. maí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi 1. júní 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar um greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví hafi verið hafnað þar sem hún hafi fengið hærri laun í sóttkvíarmánuði (mars 2021) en í mánuðinum á undan (febrúar 2021), en þá hafi kærandi verið í fríi. Þar sem kærandi sé á tímakaupi hafi laun hennar í febrúar 2021 verið mjög lág. Í sóttkvíarmánuði hafi kærandi þurft að vinna aukalega til að geta greitt leigu, gera matarinnkaup og fleira og hafi kærandi því tekið margar aukavaktir. Að mati kæranda sé óviðeigandi að synja henni um greiðslur vegna launa í sóttkví. Meðfylgjandi séu launaseðlar síðustu sex mánaða og af þeim megi sjá að laun hennar séu talsvert hærri en í febrúar 2021. Kærandi hafi verið heilsuhraust heima í sóttkví í tvær vikur og hún hafi getað og viljað vera í vinnunni. Kærandi hafi greitt sína skatta reglulega og hafi ekki þegið neinar bætur frá ríkinu. Kærandi óski því eftir að ákvörðun í máli hennar verði endurskoðuð.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið skráð í sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á tímabilinu 2. til 15. mars 2021, þ.e. í 14 daga. Umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem skilyrði fyrir greiðslum hafi ekki verið uppfyllt. Samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem liggi til grundvallar umsókn kæranda séu laun hennar í sóttkvíarmánuði hærri en heildarlaun undanfarandi almanaksmánuð áður en kærandi hafi sætt sóttkví.

Lög nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafi launamönnum, sem sæta sóttkví, laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fái ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví.

Markmið laga nr. 24/2020 sé að styðja við atvinnurekendur sem greiði launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Mál þetta varði synjun stofnunarinnar á umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví þar sem skilyrði laga nr. 24/2020 hafi ekki verið uppfyllt, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020. Í 1. mgr. 6. gr. laganna segi að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði.

Synjun stofnunarinnar á greiðslum í sóttkví byggi á 2. mgr. 6. gr. laganna en þar segi að þegar launamaður sæki um greiðslu á grundvelli 2. mgr. 5. gr. skuli greiðsla taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum hafi verið gert að sæta sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geti þó aldrei verið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem honum hafi verið gert að sæta sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.

Umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem skilyrði fyrir greiðslum hafi ekki talist uppfyllt. Samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem hafi legið til grundvallar umsókn kæranda hafi laun í marsmánuði, er hún hafi sætt sóttkví, verið hærri en heildarlaun undanfarandi almanaksmánaðar áður en hún hafi sætt sóttkví.

Í kæru til úrskurðarnefndar komi fram að kærandi hafi verið í fríi og hafi ekki getað unnið og þar sem hún fái greitt fyrir þær klukkustundir sem hún vinni hafi laun hennar verið lág í mánuðinum á undan sóttkví, þ.e. febrúarmánuði. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins hafi laun kæranda fyrir febrúarmánuð verið alls 363.962 kr. Laun kæranda í sóttkvíarmánuði, þ.e. mars, hafi verið alls 411.957 kr.

Vegna skilyrða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 geti greiðslur til launþega aldrei orðið hærri en sem nemi mismun heildarlauna þann mánuð sem launþega hafi verið gert að vera í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. Ekki sé fyrir að fara neinum undanþágum eða frávikum frá umræddri reglu og telji stofnunin sér ekki unnt að víkja frá skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020. Það sé á þessum grundvelli sem stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að synja umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví.

Vinnumálastofnun telji óheimilt að standa að ákvörðun um greiðslur í sóttkví með öðrum hætti þegar litið sé til skýrs orðalags 6. gr. um annars vegar heildarlaun og hins vegar mismun heildarlauna í sóttkvíarmánuði og í undanfarandi mánuði.

Í ljósi fyrirliggjandi gagna sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði laga nr. 24/2020.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir þar sem heildarlaun hennar í sóttkvíarmánuði voru hærri en heildarlaun hennar í undanfarandi mánuði.

Í 1. gr. laga nr. 24/2020 er kveðið á um gildissvið laganna. Þar segir að lögin taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafi launamönnum, sem sæta sóttkví, laun á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2021. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fái ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna er um sóttkví að ræða þegar einstaklingi er gert að einangra sig eins og kostur er, einkum í heimahúsi, samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hafi mögulega smitast af sjúkdómi.

Í 2. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að markmið laganna sé að styðja við atvinnurekendur sem greiða launamönnum, sem sæta sóttkví, laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal greiðsla til launamanns taka mið af heildarlaunum hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví. Heildargreiðslur til launamanns geta þó aldrei verið hærri en sem nemur mismun heildarlauna þann mánuð sem honum var gert að vera í sóttkví eða hann annaðist barn í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar.

Kærandi byggir á því að óviðeigandi sé að bera laun hennar í sóttkvíarmánuði saman við undanfarandi mánuð þegar greiðslur vegna launa eru reiknaðar. Kærandi sé á tímakaupi og hafi verið í fríi í viðmiðunarmánuði og því hafi laun hennar verið hærri í þeim mánuði er henni var gert að sæta sóttkví. 

Sóttkví kæranda stóð yfir í 14 daga á tímabilinu 2. mars til og með 15. mars 2021. Laun kæranda fyrir febrúar 2021, sem var undanfarandi almanaksmánuður áður en henni var gert að sæta sóttkví, voru 363.962 kr. Laun kæranda fyrir mars 2021, þann mánuð er henni var gert að sæta sóttkví, voru 411.957 kr.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að laun kæranda þann mánuð er henni var gert að sæta sóttkví voru hærri en laun hennar í undanfarandi almanaksmánuði. Í ljósi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 telur úrskurðarnefnd að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda. Að framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2021, um að synja umsókn A, um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira