Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 537/2019 - Úrskurður

Málefni fatlaðra. Staðfest ákvörðun Kópavogsbæjar vegna umsóknar kæranda um stuðningsfjölskyldu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 537/2019

Fimmtudaginn 2. apríl 2020

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. desember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Kópavogsbæjar vegna umsóknar um stuðningsfjölskyldu fyrir son sinn.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði inn umsókn hjá Kópavogsbæ með ósk um stuðningsfjölskyldu fyrir son sinn sem væri búsettur hjá honum aðra hvora viku. Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi þjónustudeildar fatlaðra 27. ágúst 2019 þar sem ákveðið var að kanna afstöðu móður barnsins til umsóknarinnar með vísan til þess að lögheimili þess væri hjá henni. Kærandi mótmælti þeirri afgreiðslu með erindi 2. september 2019. Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi þjónustudeildar fatlaðra 5. nóvember 2019 þar sem samþykkt var að sonur kæranda fengi stuðningsfjölskyldu í tvo sólarhringa á mánuði til 31. desember 2020. Með tölvupósti starfsmanns þjónustu- og ráðgjafadeild fatlaðs fólks 13. desember 2019 var kæranda tilkynnt að samkvæmt svari frá lögfræðideild stjórnsýslusviðs hafi afgreiðsla málsins verið rétt og í raun hafi verið skylt að kanna afstöðu móður barnsins til umsóknarinnar. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 17. desember 2019 þar sem fram kemur að kæran snúi ekki að niðurstöðu umsóknarinnar heldur starfsháttum Kópavogsbæjar við afgreiðslu málsins sem sé enn ólokið, þrátt fyrir að ákvörðun hafi verið tekin. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. desember 2019, var óskað eftir greinargerð Kópavogsbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 15. janúar 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 4. febrúar 2020 og voru þær sendar Kópavogsbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. febrúar 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann og barnsmóðir hans séu með sameiginlega forsjá sonar þeirra og jafna umgengni en lögheimili barnsins sé hjá henni. Barnið sé með greiningu og þurfi á stuðningi að halda. Eðli máls samkvæmt þurfi það stuðning á báðum heimilum og báðir foreldrar þurfi á stuðningi að halda. Kópavogsbær vinni hins vegar út frá því að aðeins lögheimili eigi rétt á stuðningi og að barnið sé því [álitið] ófatlað hjá kæranda. Það sé mjög einkennileg túlkun á lögum og dragi úr réttindum barnsins. Kærandi hafi sótt um stuðningsfjölskyldu fyrir sig og barnið en ekki fyrir lögheimilisforeldrið. Umsóknin sé á grundvelli 15. gr. laga nr. 38/2018 þar sem fram komi að fjölskyldur fatlaðra barna eigi rétt á stuðningsfjölskyldu. Í stað þess að taka afstöðu út frá þörfum kæranda og barnsins hafi Kópavogsbær snúið sér beint til lögheimilisforeldris og leitað eftir afstöðu þess án þess að hafa samráð við sig. Þeim vinnubrögðum mótmæli kærandi.

Kærandi telur umsókn sína vera sitt einkamál og að í afgreiðslu Kópavogsbæjar felist óeðlilegt inngrip inn á hans heimili. Ef þörfin sé til staðar og réttindin skýr í lögum sé óþarfi að upplýsa lögheimilisforeldri um þá þjónustu sem kærandi óski eftir án samráðs við hann. Samkvæmt barnalögum beri báðir foreldrar sömu skyldur. Lögheimilisforeldri hafi engan rétt til að stjórna heimilislífi á heimili umgengnisforeldris. Stuðningsfjölskylda sé til að hjálpa barni og foreldrum á umgengnistíma og þar hafi lögheimili ekkert að segja. Það sé ekki meiriháttar ákvörðun heldur ákvörðun tekin á umgengnistíma.

Kærandi óski því eftir að fyrri ákvörðun og rökstuðningi með henni verði rift og að Kópavogsbær skoði umsókn hans með sjálfstæðum hætti. Kærandi mótmæli því einnig að Kópavogsbær hafi ekki enn tekið mótmæli hans til skoðunar. Í bréfi Kópavogsbæjar frá 28. ágúst komi fram að hann hafi fjórar vikur til að gera athugasemdir. Það hafi hann gert 2. september. Eins og sjá megi af fundargerðum velferðarráðs hafi mótmæli hans aldrei verið tekin til afgreiðslu. Ákvörðunin frá 6. nóvember 2019 sé ekki í beinu stjórnsýslulegu framhaldi af umsókn hans og málinu alls ekki lokið hjá Kópavogsbæ en vinnubrögð sveitarfélagsins séu ekki til fyrirmyndar.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Kópavogsbæjar kemur fram að svar sveitarfélagsins sé viðurkenning á því að málið hafi ekki fengið eðlilega afgreiðslu. Í svarinu komi fram að mótmæli hans hafi ekki verið tekin til afgreiðslu og að ekki hafi verið tekin afstaða til þeirra áður en Kópavogsbær hafi samþykkt ósk hans um stuðningsfjölskyldu. Kópavogsbær viðurkenni þar af leiðandi að hafa ekki lokið skyldum sínum eins og kveðið sé á um í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í 13. grein stjórnsýslulaga sé kveðið á um andmælarétt og að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því. Ljóst sé að andmæli kæranda hafi aldrei verið tekin fyrir á fundi og fresturinn sem honum hafi verið gefinn til andmæla hafi ekki verið virtur. Ákvörðunin sé þar af leiðandi gölluð. Einnig sé ljóst að Kópavogsbær hafi aldrei ætlað að taka andmæli kæranda efnislega fyrir á fundi. Það komi fram í gögnum Kópavogsbæjar þar sem strax sé haft samband við móður og frestur hans til andmæla ekki virtur. Ákvörðun Kópavogsbæjar ætti því að ógilda og láta sveitarfélagið taka málið aftur fyrir.

Kærandi bendir á að í umsókn hans komi fram að samskipti við móður séu mjög slæm. Móðir hafi ítrekað sagt ósatt í umsóknum og gert lítið úr hans hlut. Kópavogsbær, og einnig leikskóli barnsins, hafi haldið að kærandi tæki ekki þátt í uppeldi þess og að móðir stæði ein í öllu saman. Það sé langt frá því að vera sannleikurinn. Kærandi hafi ítrekað bent Kópavogsbæ á þetta, sbr. það sem fram komi í gögnum Kópavogsbæjar og greinargerð sem hann hafi sent sveitarfélaginu vegna þessa. Kópavogsbæ hefði því átt að vera ljóst að málið gæti skaðað samskipti foreldra. Samskipti foreldranna séu einnig mjög erfið þar sem móðirin sinni oft ekki barninu. Reynsla kæranda sé sú að ef móðir sé látin halda að hún sé miðpunktur alls stuðnings við barnið þá dragi hún úr framlagi sínu. Á hennar heimili fái barnið augljóslega ekki þann stuðning og örvun sem það þurfi. Það hlutverk lendi á kæranda og hans heimili óskipt nema að í stað þess að hafa fjórar vikur í mánuði þá fái hann aðeins tvær. Kópavogsbær hefði átt að taka mið af erfiðum samskiptum foreldra og taka andmæli hans til efnislegrar meðferðar. Það hafi ekki verið gert og því ætti að ógilda ákvörðun Kópavogsbæjar.

Kærandi tekur fram að ákvörðun um umsókn um stuðningsfjölskyldu snerti aðeins umsækjanda. Ef annað heimilið óski eftir þjónustu sem veitt sé á grundvelli 15. gr. laga nr. 38/2018 ætti afgreiðsla málsins að snúast fyrst og fremst um þarfir fjölskyldunnar og barns. Í lögunum sé hvergi kveðið á um neitunarvald lögheimilisforeldris, eins og Kópavogsbær haldi fram. Afgreiðsla umsóknar eigi að vera fagleg og standast skoðun. Í þessu máli þurfi að huga að því hvað myndi gerast ef lögheimilisforeldri myndi hafna umsókn hins foreldrisins um þjónustu. Það myndi augljóslega hafa neikvæð áhrif á barnið. Þar af leiðandi eigi þetta vald aldrei að vera í höndum hins foreldrisins. Kópavogsbær eigi fyrst og fremst að taka ákvörðun sem sé barni fyrir bestu, út frá þörfum þess og foreldris. Það eigi ekki að breyta þjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 í lögheimilis- og/eða umgengnismálum eins og Kópavogsbær geri í þessu máli. Það sé ófaglegt og því ætti að ógilda ákvörðun Kópavogsbæjar í málinu. Ákvörðun um umsókn um stuðningsfjölskyldu hafi að mati Kópavogsbæjar ekki verið meiriháttar ákvörðun þegar móðir hafi sótt um þjónustuna á sínum tíma. Á þeim tíma hafi foreldrarnir ekki þurft að ræða saman og leitast við að taka sameiginlega ákvörðun eins og kveðið sé á um í 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Álit Kópavogsbæjar á því hvað sé meiriháttar ákvörðun virðist fylgja hentisemi hverju sinni og hver umsækjandi sé en ekki lögunum. Það sýni ófagleg vinnubrögð og því ætti að ógilda ákvörðun Kópavogsbæjar í málinu. Kærandi voni að úrskurðarnefndin taki mið af því hversu alvarlegt málið sé, hversu mikilvægt sé að blanda ekki erfiðum samskiptum foreldra í þjónustu vegna barns, að nefndin geri kröfu um vandaða stjórnsýslu og ógildi þar af leiðandi ákvörðun Kópavogsbæjar.

III.  Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi hafi óskað eftir stuðningsfjölskyldu en hlutverk hennar sé að taka barn í umsjá í skamman tíma til að létta álagi af fjölskyldu þess. Með umsókn séu foreldrar að óska eftir því að annar aðili taki tímabundið við umsjá barns, oftast eina helgi í mánuði. Að mati velferðarsviðs sé um að ræða ákvörðun sem teljist meiriháttar og afgerandi fyrir daglegt líf barns og því mikilvægt að það foreldri sem hafi lögheimili barnsins sé kunnugt um og samþykkt slíkri ráðstöfun, sbr. 1. mgr. 28. gr. a. barnalaga. Þar segi að þegar foreldrar fari sameiginlega með forsjá skuli þeir taka sameiginlega allar meiriháttar ákvarðanir varðandi barnið. Lögheimilisforeldri hafi hins vegar heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, nái foreldrar ekki samkomulagi.

Tekið er fram að barn kæranda sé með lögheimili hjá móður sem búi í Kópavogi. Kærandi sé hins vegar ekki með lögheimili í Kópavogi og því hafi fyrsta álitaefni starfsmanna verið það hvort hann ætti rétt á að sækja um þjónustu frá sveitarfélaginu. Vegna þessa hafi afgreiðslu á erindi hans verið frestað á teymisfundi þann 20. ágúst 2019. Þar sem barn kæranda, sem eigi að njóta þjónustunnar, sé búsett í sveitarfélaginu hafi verið ákveðið að taka umsókn kæranda til meðferðar að því gefnu að lögheimilisforeldri væri ekki mótfallið umsókninni. Ákvörðun starfsmanna um að afla upplýsinga um afstöðu lögheimilisforeldris hafi verið send kæranda með bréfi, dags. 28. ágúst 2019. Kærandi hafi mótmælt bókun teymisfundar frá 28. ágúst 2019 sem hafi komið starfsmönnum á óvart þar sem hann hafi í fyrri samskiptum, sbr. tölvupóst frá 11. janúar 2018, lagt áherslu á að jafnræðis væri gætt við upplýsingagjöf til foreldra. Kópavogsbær fari fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Kópavogsbæ hafi borið að kanna afstöðu forsjáraðila og lögheimilisforeldris til umsóknar til að tryggja að ákvörðunin yrði bæði lögleg og rétt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í bókun teymisfundar frá 28. ágúst 2019 felist ekki stjórnvaldsákvörðun heldur sé um að ræða lið í meðferð málsins til að tryggja að það sé nægilega upplýst. Eftir að upplýsingarnar um afstöðu móður hafi legið fyrir hafi umsókn kæranda verið samþykkt.        

IV.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Kópavogsbæjar vegna umsóknar kæranda um stuðningsfjölskyldu fyrir son hans. Kærandi krefst ógildingar ákvörðunar sveitarfélagsins. Af kæru og öðrum gögnum má ráða að hann gerir ekki athugasemd við efnislega niðurstöðu sveitarfélagsins, enda var umsókn hans samþykkt, heldur við málsmeðferð sveitarfélagsins í aðdraganda að töku ákvörðunarinnar. Nánar tiltekið gerir kærandi athugasemd við að óskað hafi verið eftir afstöðu móður barnsins til umsóknarinnar með vísan til þess að lögheimili þess væri hjá henni og telur úrskurðarnefndin að ágreiningur málsins snúist um það. Af hálfu Kópavogsbæjar er farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða.

Samkvæmt 35. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá úrskurðar nefndin um hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og hvort ákvörðun hafi verið efnislega í samræmi við lögin og reglur sveitarfélaga, settum á grundvelli þeirra. Ljóst er að tekin var stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda á fundi þjónustudeildar fatlaðra 5. nóvember 2019 þar sem umsókn hans um stuðningsfjölskyldu var samþykkt. Ekki virðist vera ágreiningur um efnislega niðurstöðu málsins heldur málsmeðferð Kópavogsbæjar í tilefni umsóknarinnar. Með vísan til ákvæðis 35. gr. laga nr. 38/2018 verður kæran því tekin til meðferðar.

Í 15. gr. laga nr. 38/2018 kemur fram að fjölskyldur fatlaðra barna eigi rétt á stuðningsfjölskyldu eftir því sem þörf krefur. Dvöl fatlaðs barns hjá stuðningsfjölskyldu skuli bundin í samningi  og miðast við ákveðið tímabil. Í VII. kafla laga nr. 38/2018 er kveðið á um almennar reglur um málsmeðferð. Þar segir í 1. mgr. 30. gr. að farið skuli að almennum reglum stjórnsýsluréttar við alla málsmeðferð samkvæmt lögunum nema ríkari kröfur séu gerðar í þeim. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ákvörðun um þjónustu byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sækir og ákvörðun skal tekin í samráði við umsækjanda. Sveitarfélög skulu tryggja að verklag og leiðbeiningar til starfsfólks miði að því að tryggja jafnræði í þjónustunni og að þjónustan sem veitt er sé nægjanleg miðað við þarfir umsækjanda. Þá skal hún veitt á því formi sem hann óskar, sé þess kostur. Það stjórnvald sem tekur ákvörðun um þjónustu við fatlaðan einstakling skal tryggja að hún sé studd nægjanlegum gögnum áður en ákvörðunin er tekin, sbr. 33. gr. laganna. Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar.

Kópavogsbær hefur vísað til þess að ákvörðun um að veita stuðningsfjölskyldu sé meiriháttar og afgerandi fyrir daglegt líf barns og því mikilvæg að það foreldri sem hafi lögheimili barnsins sé kunnugt um og samþykkt slíkri ráðstöfun, sbr. 1. mgr. 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Sveitarfélaginu hafi því borið að kanna afstöðu forsjáraðila og lögheimilisforeldris til að tryggja löglega og rétta ákvörðun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæðið 1. mgr. 28. gr. a. barnalaga er svo hljóðandi:

„Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við að Kópavogsbær hafi metið það svo að ákvörðun um að veita stuðningsfjölskyldu sé meiriháttar og afgerandi fyrir daglegt líf barns. Að því virtu var það í samræmi við framangreint ákvæði barnalaga, 10. gr. stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti að kanna afstöðu lögheimilisforeldris barnsins til umsóknar kæranda um stuðningsfjölskyldu.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að málsmeðferð Kópavogsbæjar vegna umsóknar kæranda um stuðningsfjölskyldu hafi verið í samræmi við lög. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar á þeim grundvelli. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar vegna umsóknar A, um stuðningsfjölskyldu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira