Hoppa yfir valmynd

Brottvísun úr skóla

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið.

Menntamálaráðuneytinu barst hinn 11. október sl. erindi A og B (hér eftir nefnd kærendur) f.h. sonar þeirra, C, nemanda í níunda bekk X, þar sem kærðar eru eftirtaldar ákvarðanir skólastjórnenda X. Í fyrsta lagi er kærð sú ákvörðun skólastjóra X frá 5. október sl., að vísa C ótímabundið úr skóla. Í öðru lagi er kærð sú ákvörðun skólastjórnenda X að vísa C úr valfaginu stærðfræðigrunni hinn 25. september sl., sem staðfest var 29. s.m.

Kærendur gera þær kröfur að framangreindar ákvarðanir stjórnenda X verði felldar úr gildi.

Skólastjóri X krefst þess aðallega að kröfu kæranda verði vísað frá ráðuneytinu en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.

Málavextir.

Í máli þessu er deilt um hvort farið hafi verið að stjórnsýslulögum þegar skólastjóri X ákvað að vísa C tímabundið úr skólanum og þegar skólastjórnendur X ákváðu að vísa honum úr valáfanga í stærðfræði, en ákvarðanir þessar má rekja til hegðunar nemandans og viðbragða skólayfirvalda við henni. Í upphafi skal tekið fram að ágreiningur er hjá málsaðilum um suma málavexti og ber að skoða málavaxtalýsingu þessa í því ljósi.

Í gögnum málsins liggur fyrir að fjölmargar athugasemdir um hegðun nemandans hafa verið skráðar í upplýsingakerfi X, Mentor, frá upphafi skólaárs 2005-2006 og aftur á skólaárinu 2006-2007. Í einni færslu frá 11. september sl. var skráð að C hefði sýnt af sér óviðeigandi hegðun í valfagi, þ.e. í stærðfræðigrunni. Samkvæmt gögnum málsins ræddi aðstoðarskólastjóri við kærendur af þessu tilefni og gaf þeim kost á að tjá sig vegna málsins, auk þess sem tölvubréfasamskipti áttu sér stað milli viðkomandi kennara og kærenda. Fram kemur í gögnum málsins að aðstoðarskólastjóri hafi tekið fram af þessu tilefni að C fengi eitt tækifæri til að bæta hegðun sína, ellegar hefði hann fyrirgert rétti sínum til að stunda nám í valfaginu. Hinn 25. september sl., fengu kærendur tölvupóst frá aðstoðarskólastjóra þar sem greint var frá því að C hefði verið dónalegur við stærðfræðikennarann og því væri ekki lengur í boði fyrir hann að vera í stærðfræðigrunni. Jafnframt var upplýst að búið væri að breyta stundatöflu drengsins og setja valfagið hönnun og smíði inn í staðinn. Greint var frá því að nýja stundataflan væri fáanleg hjá ritara skólans. Kærendur andmæltu umræddri ákvörðun samdægurs, m.a. með þeim röksemdum að þeim hafi ekki verið veittur andmælaréttur áður en ákvörðunin var tekin auk þess sem þessi ráðstöfun skólans væri mjög óviðeigandi þar sem alkunna væri að fínhreyfingum C væri áfátt. Það að skikka hann í valfagið hönnun og smíði bæri því ekki vott um vönduð vinnubrögð né skilning á hans sértæku aðstæðum. Með tölvubréfi aðstoðarskólastjóra til kærenda, dags. 26. september sl., var greint frá því að farið hafi verið yfir málið í skólanum og ekki hafi verið talin ástæða til að breyta ákvörðun um brottvikningu brottvikningar C úr valfagi frá deginum á undan. Með bréfi skólastjóra til kærenda, dags. 29. september sl., gerði hann grein fyrir því að aðrar valgreinar en hönnun og smíði myndu leiða af sér verulegar breytingar á stundaskrá nemandans og/eða væru ekki í boði þar sem fullskipað væri í þær. Tekið var fram í bréfinu að X hefði boðið nemendum sem stunda afreksmannaþjálfun í íþróttum eða stunda tónlistarnám á framhaldsstigi mat á valgreinum og ef C iðki íþróttir eða tónlistarnám að þessu marki væri sjálfsagt að fjalla um slíkt í skólastjórn. Síðan var tekið fram í bréfinu: „....Að öðru leyti stendur ákvörðunin um að vísa C úr stærðfræði grunni (svo).....“ Að lokum var tekið fram í bréfinu að með símtali hinn 11. september sl., hafi aðstoðarskólastjóri gert grein fyrir því að C fengi eitt tækifæri til að bæta hegðun sína ellegar hefði hann fyrirgert rétti sínum til að stunda nám í greininni.

Í hádegishléi í X hinn 5. október sl., sprengdi C í félagi við annan dreng svokallað „víti“ í póstkassa inni í fordyri fjölbýlishússins að Ö. C viðurkenndi brot sitt fyrir skólastjóra og lögreglu, sem samkvæmt gögnum málsins tók skýrslu af honum að beiðni húsráðenda í Ö. Í framhaldi af þessu atviki utan skólalóðar tók skólastjóri ákvörðun um að vísa C úr skólanum um stundarsakir, sbr. bréf hans til kærenda, dags. s.d. Í bréfinu var m.a. tekið fram að nemandinn hafi brotið alvarlega gegn skólareglum og almennum umgengisvenjum með athæfi sínu, sbr. 41. gr. grunnskólalaga og hafi atvikið átt sér stað á skólatíma þegar áhersla væri lögð á að nemendur væru staddir á skólalóð eða matsal skólans. Í bréfinu vísar skólastjóri til atviks hinn 4. september sl., (á að vera 1. þ.m.) þegar hann heldur því fram að C hafi verið viðriðinn alvarlega árás á nemanda. Þegar það atvik hafi átt sér stað hafi kærendum verið gerð grein fyrir að atvikið væri það alvarlegt að áframhaldandi vera drengsins í skólanum væri undir því komin að hann hegðaði sér með viðeigandi hætti, sbr. undirritaða yfirlýsingu hans um það. Að lokum tilkynnti skólastjóri að þar sem C hefði aftur brotið af sér á alvarlegan hátt þætti ekki hjá því komist að vísa honum úr skólanum um stundarsakir.

Kærendur vísuðu ákvörðun skólastjóra samdægurs til skólanefndar Æ. Með öðru bréfi kærenda til skólanefndar, dags. 8. október sl., vísuðu þeir til fyrra bréfs, dags. 5. október sl., ásamt því að bæta við efni þess og rökstyðja hvers vegna þeir teldu ákvarðanir skólastjóra hvorki standast grunnskólalög né stjórnsýslulög. Skólanefndin tók ákvörðun skólastjóra fyrir á fundi hinn 9. október sl. og með bréfi nefndarinnar til kærenda, dags. 11. október sl., kemur orðrétt fram að:

„Að athuguðu máli lítur skólanefnd svo á að ekki séu efni til sérstakrar úttektar og rannsóknar af sinni hálfu á vinnubrögðum stjórnenda X. Varðandi málefni sonar þeirra C, sérstaklega í ljósi síðustu viðburða, felur skólanefnd fræðsluskrifstofu að hlutast til um að málið verði leyst í samvinnu við báða málsaðila og í samræmi við grunnskólalög, reglugerðir og skólareglur.“

Í ljósi framangreinds voru kærendur boðaðir til viðtals á fræðsluskrifstofu Æ um málefni sonar þeirra næsta dag. Með bréfi kærenda til ráðuneytisins sama dag, þ.e. hinn 11. október sl., kærðu þau, f. h. sonar þeirra, fyrrnefnda ákvörðun skólanefndar, þar sem m.a. kom fram að þeim þætti óeðlilegt að vera á þessu stigi boðuð á fund með fulltrúum fræðsluskrifstofunnar, þeim sömu og kærendur hefðu verið að enda við að kæra í málinu vegna afskipta þeirra af því. Af þeirri ástæðu hefðu þau ekki mætt á boðaðan fund skólanefndar. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. október 2006, var óskað eftir umsögn og afstöðu skólanefndar Æ til kærunnar. Þar sem gögn málsins þóttu ekki bera nægilega með sér alla málavexti var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um á hvaða grundvelli og með hvaða hætti skólanefnd hefði lagt mat á stjórnsýsluframkvæmd skólastjóra vegna hinnar kærðu ákvörðunar, hvernig mat hafi verið lagt á málsmeðferðina vegna hennar og hver hafi orðið niðurstaðan. Jafnframt var óskað eftir því að skólanefnd veitti umsögn um þau umkvörtunarefni sem fram komu í stjórnsýslukærunni til ráðuneytisins og varða kvartanir yfir starfsháttum og framgöngu stjórnenda X, framgöngu skólasálfræðings, starfsháttum skólaskrifstofu Æ og skólanefndar bæjarins í málinu. Að lokum var óskað upplýsinga um hvort C hefði verið tryggt annað kennsluúrræði í samræmi við 4. mgr. 41. gr. grunnskólalaga. Afstaða skólanefndar barst ráðuneytinu með bréfi hinn 13. nóvember sl. Þar kom fram að við ákvörðun á afgreiðslu stjórnsýslukæru kærenda hefði skólanefndin lagt til grundvallar skoðun og athugun á fyrirliggjandi gögnum um samskipti kærenda og skólastjóra X. Einnig hafi skólanefndin ráðfært sig við sérfræðinga fræðsluskrifstofu og leitað umsagnar bæjarlögmanns. Að þessu athuguðu hafi skólanefndin ekki séð annað en að brottvikningin og meðferð annarra atvika sem leiddu til hennar hafi verið í samræmi við grunnskólalög og reglugerð um aga í grunnskólum. Þá upplýsti skólanefndin að kærendum hafi verið boðið að C gæti hafið nám í Y að loknu viðtali við hann og kærendur hinn 8. nóvember sl. Af óviðráðanlegum ástæðum hafi ekki verið unnt að hafa það viðtal fyrr. Þá vildi skólanefndin upplýsa að á fundi með starfsmönnum skólaskrifstofu hinn 16. október sl. hafi kærendum verið boðið að fundið yrði kennsluúrræði fyrir C í einhverjum skóla í Æ. Því hafi kærendur hafnað og viljað bíða eftir úrskurði ráðuneytisins í málinu. Hinn 24. október sl. hafi kærendum verið boðið að C gæti byrjað í Z strax eftir vetrarfrí hinn 30. október sl. eða T, sem sé sérstakt skammtímaúrræði. Kærendur hafi hafnað því tilboði á sömu forsendum og áður og jafnframt hafi þeir óskað eftir því að hann gæti komist í Y. Hinn 31. október sl. hafi kærendum verið boðið, svo sem fyrr greinir, að C gæti hafið nám í Y hinn 8. nóvember sl. Fram kemur í gögnum málsins að kærendur þekktust boð um skólavist fyrir son þeirra í Y og hefur hann stundað nám þar frá 9. nóvember sl.

Með bréfi skólastjóra til kærenda, dags. 31. október sl., var kærendum gerð grein fyrir því að ákveðið hefði verið að taka til skoðunar hvort rétt væri að taka málið fyrir að nýju í samræmi við 6. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um afturköllun ákvörðunar o.fl. Fram kom í bréfinu að forsenda þessa væri einkum sú að ná sáttum við kærendur til lausnar í þeim vandamálum sem upp hefðu komið vegnar hegðunar C í skólanum, sem og vegna samskipta hans við kennara skólans. Voru kærendur boðaðir til fundar í skólanum 2. nóvember sl. Samkvæmt gögnum málsins var sáttafundur haldinn á fyrrnefndum tíma og hann sátu kærendur og skólastjórnendur ásamt D, sóknarpresti f.h. kærenda og E, f.v. skólameistara f.h. skólastjórnenda. Fundinum var framhaldið hinn 7. nóvember, en upp úr þeim fundi slitnaði þegar til stóð að undirrita sáttagjörð aðila.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 14. nóvember sl. var óskað eftir afstöðu kærenda til umsagnar skólanefndar og bárust viðbrögð kærenda hinn 20. nóvember sl., sbr. umfjöllun hér á eftir í kafla um málsástæður kærenda. Skólastjóri skilaði inn greinargerð í málinu hinn 1. desember sl., og bárust ráðuneytinu viðbrögð kærenda vegna hennar.

Málsástæður.

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kærenda.

Með bréfi kærenda til ráðuneytisins, dags. 11. október sl., halda kærendur því fram að ákvörðun aðstoðarskólastjóra X hinn 25. september sl., um að vísa C úr valfaginu stærðfræðigrunni, auk ákvörðunar skólastjóra frá 5. október sl., um að víkja C ótímabundið úr skólanum brjóti í bága við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga, auk þess sem brotið hafi verið gegn meðalhófi, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

Hvað varðar ákvörðun um brottvikningu C úr valfagi þá hafi sú ákvörðun verið tekin hinn 25. september sl., sbr. tölvubréf aðstoðarskólastjóra til kærenda s.d., þar sem tilkynnt var um skráningu C úr áfanganum og breytingu á stundatöflu hans, þar sem fagið hönnun og smíði hafði verið sett inn í staðinn. Kærendur halda því fram að með þessu hafi ekki verið gætt ákvæða stjórnsýslulaga þar sem kærendum hafi ekki verið veittur andmælaréttur og ákvörðunin hafi ekki verið studd neinum rökum. Þá hafi drengurinn verið settur í fagið hönnun og smíði án samráðs við kærendur auk þess sem virtar hafi verið að vettugi athugasemdir þeirra um að smíði væri ekki hentugur valkostur þar sem fínhreyfingum sonar þeirra væri ábótavant, sbr. álit sjúkraþjálfara í málinu. Kærendur halda því fram að fulltrúum skólans hafi verið kunnugt um vangetu drengsins til að stunda slíkar verkgreinar og því beri þessi ákvörðun keim af einelti. Kærendur halda því fram að það sé skylda skólans að leysa úr málinu í samráði við kærendur og á grunni virðingar við drenginn og að skólanum beri lagaskylda til þess að koma til móts við sértækar þarfir hans.

Kærendur byggja stjórnsýslukæru sína varðandi ótímabundna brottvikningu sonar þeirra úr X hinn 5. október sl. á því að við undirbúning þeirrar ákvörðunar hafi skólastjóri brotið málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hvað varðar andmælarétt og meðalhóf. Kærendur halda því jafnframt fram að skólastjóri fari með rangt mál þegar hann haldi því fram að eftir að atvikið hinn 5. október sl. hefði verið rannsakað til hlítar, bæði hjá vitnum sem og aðilum máls og aðilum gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum hafi verið tekin sú ákvörðun að vísa C úr X, tímabundið. Kærendur halda því fram að hvorki við þetta tækifæri eða á öðrum tíma hafi verið til skoðunar að víkja C tímabundið úr skóla, að frátöldum fyrrnefndum hugleiðingum um vikubrottvikningu vegna atviks hinn 1. september sl., og einnig sé því mótmælt af kærendum að þeim hafi verið gefinn kostur á andmælarétti. Þvert á móti halda kærendur því fram að skólastjóri hafi ekki rætt við þau um ótímabundinn brottrekstur C úr X fyrr en eftir að hann hafi tekið þá ákvörðun hinn 5. október sl. Hér sé því um að ræða brot á fyrrgreindri reglu stjórnsýslulaga um andmælarétt, sem kveði á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Kærendur halda því jafnframt fram að það séu hrein og klár ósannindi að skólastjóri hafi á fundi með þeim hinn 4. september sl., haft á orði, eins og hann haldi fram, að með aðild C að ákveðnu atviki á skólalóðinni hafi kærendum verið gerð grein fyrir því að atvikið væri það alvarlegt að áframhaldandi vera hans í skólanum væri undir því komin að hann hegðaði sér með viðeigandi hætti í skólanum. Hið rétta sé að í símtali við kærendur sama dag hafi skólastjóri hugleitt að vísa C úr skólanum í eina viku, en hafi ákveðið að hverfa frá þeim möguleika og þess í stað óskað eftir því að C skilaði greinargerð um atvikið næsta dag.

Málsástæður skólastjóra X.

Af hálfu skólastjóra hefur stjórnsýslukæru kærenda vegna ákvörðunar um brottvikningu sonar þeirra úr valfagi hinn 25. september sl., sbr. ákvörðun 29. september sl. verið hafnað. Þá hefur stjórnsýslukæru vegna ótímabundinnar brottvikningar sonar þeirra úr skólanum hinn 5. október sl. jafnframt verið hafnað og því haldið fram að málsmeðferð við töku þessara ákvarðana hafi verið í fullu samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Skólastjóri vísar til þess að hinn 11. september sl., hafi C verið gefið færi á að bæta ráð sitt í valfaginu stærðfræðigrunni og ella yrði honum vísað úr faginu. Hinn 25. september sl. hafi honum síðan aftur verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt ellegar yrði honum vísað úr faginu. Hafi C brugðist dónalega við þessu og í kjölfarið hafi verið gerð tilraun til að hafa samband við kærendur símleiðis en það hafi ekki tekist. C hafi verið vikið úr valfaginu umræddan dag og hafi kærendum verið tilkynnt um þá niðurstöðu og jafnframt gerð grein fyrir því að sú ákvörðun gæti orðið varanleg. Kærendur hafi andmælt umræddri ákvörðun hinn 25. september sl., en þrátt fyrir framkomin andmæli hafi skólastjóri tekið þá ákvörðun hinn 29. september sl. að víkja C alfarið úr umræddu valfagi. Með vísan til þess að aðilum málsins hafi verið gefinn kostur á að tjá sig og þess að áður hafi verið reynt að beita öðrum vægari úrræðum og viðurlögum verði ekki séð með hvaða hætti umrædd ákvörðun hafi falið í sér brot á ákvæðum stjórnsýslulaga.

Þá vísar skólastjóri til þess að langur aðdragandi hafi verið að töku ákvörðunar um tímabundna brottvikningu C í samræmi við 3. mgr. 8. gr. reglugerðar um skólareglur í grunnskóla nr. 270/2000, þar sem segir, að láti nemandi sér ekki segjast og ef ítrekuð brot hans á skólareglum eru alvarleg, eða hann stefnir eigin eða annarra lífi eða heilsu í hættu innan skólans, megi vísa nemanda um stundarsakir úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans. Skólastjóri heldur því fram að C hafi ítrekað gerst brotlegur við skólareglur og hafi í mörgum tilfellum verið um að ræða brot sem stefnt hafi lífi og heilsu annarra í hættu í skólanum sbr. aðild hans að líkamsárás á skólalóð hinn 1. september sl., sbr. einnig atvik hinn 15. maí sl. er skólastjóri gerði upptækan hníf í fórum hans og atvik hinn 25. janúar 2006, þar sem hann bar eld að hári samnemanda. Í fjölda tilfella hafi skólinn reynt að grípa til úrræða til þess að bæta hegðun drengsins og meðal annars boðið upp á sérfræðiaðstoð, en slíkt hafi hins vegar hlotið misjafnan hljómgrunn hjá kærendum. Fram kemur í máli skólastjóra að með því að sprengja sprengju á skólatíma í stigagangi í fordyri Ö hinn 5. október sl., hafi C gerst alvarlega brotlegur við ákvæði skólareglna og ákvæði grunnskólalaga. Af sprengingunni hafi orðið eignaspjöll auk þess sem veruleg hætta hafi stafað af atvikinu. Af hálfu skólastjóra er því haldið fram að í kjölfar þessa hafi C verið boðaður á fund kærða og honum gefinn kostur á að tjá sig vegna málsins og hafi honum verið tilkynnt að þetta brot gæti leitt til þess að honum yrði vikið úr skóla. C hafi tjáð sig vegna málsins og viðurkennt brot sitt greiðlega. Skólastjóri heldur því fram að í kjölfarið hafi verið haft samband við kærendur og óskað eftir því að þeir kæmu til fundar vegna málsins þar sem þeim yrði gefinn kostur á að tjá sig. Í símtali skólastjóra og kæranda B hafi verið gerð grein fyrir því að C hefði gerst alvarlega brotlegur við skólareglur og nú væri til skoðunar að víkja honum tímabundið úr skóla. Skólastjóri heldur því fram að kærandi B hafi neitað að tjá sig vegna málsins og koma til fundar vegna þess. Skólastjóri heldur því að lokum fram að vegna eðli þessa máls hvað varðar öryggi annarra nemenda og í ljósi þess að önnur viðurlög og úrræði höfðu verið til fullnustu reynd hafi verið tekin sú ákvörðun að beita því úrræði að vísa C úr skólanum tímabundið á grundvelli 3. mgr. 8. gr. reglugerðar um skólareglur í grunnskóla. Hafi sú ákvörðun verið tekin og tilkynnt aðilum hinn 5. október sl. í ljósi þess að málið var upplýst og aðilum hafi verið gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í SUA 1994, bls. 295, kemur fram að almennt falli kennsla ekki undir stjórnsýslulög nr. 37/1993, en hins vegar geti ákvarðanir um agaviðurlög og skyld úrræði fallið undir lögin. Telur umboðsmaður Alþingis með hliðsjón af ummælum í greinargerð með stjórnsýslulögunum, að líta verði svo á að hin vægari úrræði sem beitt sé til að halda uppi aga og almennum umgengisvenjum, teljist almennt ekki stjórnvaldsákvarðanir. Hins vegar kemur skýrt fram í álitinu, að ákvörðun um að víkja nemanda úr grunnskóla í fleiri en einn skóladag, teljist ákvörðun um réttindi og skyldur sem falli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og því beri að fara með slík mál í samræmi við ákvæði laganna. Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að sú ákvörðun skólastjóra X í Æ hinn 5. október sl., að víkja syni kærenda úr skólanum, hafi verið stjórnvaldsákvörðun og bar skólastjóra því að gæta ákvæða stjórnsýslulaga við undirbúning hennar. Rétt er að taka fram að hin kærða ákvörðun var orðuð svo að um tímabundna brottvikningu hafi verið að ræða. Málavextir bera hins vegar með sér að strax var hafist handa við að útvega annað kennsluúrræði fyrir C og hinn 9. nóvember sl. hóf hann nám að nýju í Y, en þá hafði endanlega slitnað upp úr sáttatilraunum í málinu, sbr. fund aðila hinn 7. nóvember sl. Er því á því byggt í máli þessu að umrædd ákvörðun hafi falið í sér varanlega brottvikningu C úr X. Tekið skal fram að hvort sem um tímabundna eða varanlega brottvikningu úr grunnskóla er að ræða, er ljóst að í báðum tilvikum er um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem er háð ákvæðum stjórnsýslulaga.

Ákvörðun um varanlega brottvísun nemanda úr tiltekinni námsgrein verður að sama skapi að teljast ákvörðun um réttindi viðkomandi nemanda og skyldur. Með hliðsjón af því verður einnig að telja að sú ákvörðun aðstoðarskólastjóra X hinn 25. september sl., sem staðfest var af skólastjóra hinn 29. september sl., að vísa syni kærenda úr valáfanganum stærðfræðigrunni hafi verið stjórnvaldsákvörðun og bar því einnig að gæta ákvæða stjórnsýslulaga við undirbúning hennar. Þar sem úrskurður skólanefndar Æ í máli þessu hinn 11. október sl., felur í sér afgreiðslu skólanefndar í kærumáli kærenda, telur ráðuneytið að erindi kærenda feli í sér stjórnsýslukæru í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 3. mgr. 41. gr. og 3. mgr. 6. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995, og er hún því réttilega kærð til ráðuneytisins.

Framangreindur úrskurður skólanefndar í máli þessu var liður í meðferð málsins skv. grunnskólalögum og stjórnsýslulögum. Samkvæmt gögnum málsins vísuðu kærendur málinu til skólanefndar með bréfum dags. 5. og 8. október sl., og tók skólanefndin hinar kærðu ákvarðanir í máli þessu til meðferðar á fundi daginn eftir, hinn 9. október sl. Tveimur dögum síðar sendi skólanefndin kærendum bréf, dags. 11. október, þar sem segir orðrétt:

„Að athuguðu máli lítur skólanefnd svo á að ekki séu efni til sérstakrar úttektar og rannsóknar af sinni hálfu á vinnubrögðum stjórnenda X. Varðandi málefni sonar þeirra C, sérstaklega í ljósi síðustu viðburða, felur skólanefnd fræðsluskrifstofu að hlutast til um að málið verði leyst í samvinnu við báða málsaðila og í samræmi við grunnskólalög, reglugerðir og skólareglur.“

Ekki er öðrum gögnum til að dreifa um málsmeðferð skólanefndar. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. stjórnsýslulaga skal við meðferð kærumála fylgja ákvæðum II.–VI. og VIII. kafla laganna eftir því sem við getur átt. Þá segir í 31. gr. stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða í kærumáli að úrskurðir æðra stjórnvalds skuli ávallt vera skriflegir og þar skuli m.a. koma fram á stuttan og glöggan hátt kröfur aðila, efni það sem til úrlausnar er, þar á meðal hin kærða ákvörðun, stutt yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni málsins, rökstuðningur fyrir niðurstöðu máls skv. 22. gr. laganna, og aðalniðurstöður skuli draga saman í lok úrskurðar í sérstakt úrskurðarorð. Af gögnum málsins um málsmeðferð skólanefndar og með hliðsjón af orðalagi ákvörðunar hennar í máli þessu, verður ekki séð að skólanefnd hafi fylgt framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga um form og efni úrskurðar við afgreiðslu sína hinn 11. október sl. Því hefði verið rétt að vísa ákvörðun skólanefndar í máli þessu frá ráðuneytinu og til nefndarinnar að nýju til frekari meðferðar í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og hagsmuna málsaðila af því að fá sem fyrst efnislega niðurstöðu um hinar kærðu ákvarðanir skólastjórnenda X, þykir hins vegar rétt að úrskurða um lögmæti hinna kærðu ákvarðana skólastjórnenda nú þegar, í stað þess að vísa málinu til skólanefndar til meðferðar að nýju.

Í máli þessu er í fyrsta lagi deilt um hvort farið hafi verið að stjórnsýslulögum er skólastjórnendur X vísuðu C úr valfaginu stærðfræðigrunni. Hafa ber í huga, að í máli þessu liggur fyrir að sonur kærenda er 14 ára gamall og því ólögráða. Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997, ráða foreldrar barns, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá og fer um hana samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og barnaverndarlaga nr. 80/2002. Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins og gegna öðrum foreldraskyldum sbr. 28. gr. barnalaga. Þar sem kærendur fara með forsjá sonar síns kom það í þeirra hlut að gæta persónulegra hagsmuna hans í máli þessu.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Með hliðsjón af þessari lagagrein, sbr. og framangreind ákvæði barnalaga, áttu kærendur rétt á því að koma að sjónarmiðum sínum og tala máli sínu, áður en ákvörðun var tekin um brottvikningu sonar þeirra úr valfagi. Svo sem fyrr greinir var hinn 11. september sl. skráð í Mentor að C hefði sýnt af sér óviðeigandi hegðun í valfaginu stærðfræðigrunni. Fram kemur í gögnum málsins að aðstoðarskólastjóri hafi tekið fram af þessu tilefni að C fengi eitt tækifæri til að bæta hegðun sína ellegar hefði hann fyrirgert rétti sínum til að stunda nám í valfaginu. Með tölvubréfi aðstoðarskólastjóra til kærenda um brottvikningu C úr valfaginu stærðfræðigrunni hinn 25. september sl., kom ekki fram að til athugunar væri að vísa honum úr faginu, né var kærendum gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun þess efnis. Fram kom að C hefði verið dónalegur við stærðfræðikennarann og því væri ekki lengur í boði fyrir hann að vera í stærfræðigrunni. Jafnframt var upplýst að búið væri að breyta stundatöflu drengsins og setja valfagið hönnun og smíði inn í staðinn og að nýja stundataflan væri fáanleg hjá ritara skólans. Samkvæmt þessu þykir ljóst að mati ráðuneytisins að búið var að taka hina kærðu ákvörðun, þegar kærendum var tilkynnt um hana. Rétt þykir að taka fram að við framkvæmd andmælaréttar skipti ekki máli, eins og á stóð í þessu máli, þótt kærendum hefði verið greint frá því hinn 11. september sl., að C fengi eitt tækifæri til að bæta hegðun sína vegna óviðeigandi hegðunar í umræddu valfagi, ellegar hefði hann fyrirgert rétti sínum til að stunda nám í faginu, þegar af þeirri ástæðu að andmælaréttur kærenda verður að miðast við þann atburð sem brottvikningin byggðist á. Í samskiptum skólastjórnenda við kærendur í tölvubréfum dags. 25. og 26. september sl. var að mati ráðuneytisins í báðum tilvikum um að ræða tilkynningu um þegar tekna ákvörðun. Þykir því ekki skipta máli þótt skólastjóri hafi með bréfi til kærenda hinn 29. september sl., staðfest þá ákvörðun sem þegar hafði verið tekin og tilkynnt kærendum, með þeim orðum að þrátt fyrir að hafa móttekið athugasemd kærenda vegna brottreksturs C úr valgreininni þá standi sú ákvörðun að vísa honum úr geininni. Hafa verður í huga að í grundvallarreglunni um andmælarétt felst meðal annars að málsaðili skal eiga kost á því að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um efni máls og framkomnar upplýsingar í því og eftir atvikum að koma að frekari upplýsingum um málsatvik, áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Með hliðsjón af framansögðu þykir í ljós leitt að kærendum hafi ekki verið veittur andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga vegna ákvörðunar um brottvikningu C úr valfaginu stærðfræðigrunnur og því er óhjákvæmilegt að ógilda þá ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að í máli þessu er um að ræða veruleg hegðunarvandamál C og margvíslegar umkvartanir X vegna framkomu hans í garð starfsfólks skólans og samnemenda frá upphafi skólaárs 2005 og til 5. október 2006, er honum var vísað úr skóla. Verður nú vikið að því hvort skólastjóri X hafi farið að stjórnsýslulögum þegar hann vísaði C úr skólanum hinn 5. október sl.

Með hliðsjón af fyrrgreindri 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og 28. gr. barnalaga, áttu kærendur rétt á því að koma að sjónarmiðum sínum og tala máli sínu, áður en ákvörðun var tekin um brottvikningu sonar þeirra úr X. Skólastjóri heldur því fram að hann hafi upplýst kæranda B um fyrirhugaða brottvikningu C úr skólanum í símtali hinn 5. október sl., eftir umrætt atvik, auk þess sem hann hafi boðað hana á sinn fund, en hún hafi neitað því. Gegn neitun kæranda B verður samkvæmt gögnum málsins ekki talið sannað að skólastjóri hafi greint frá fyrirhugaðri brottvikningu C í umræddu símtali, enda stendur þar orð gegn orði. Í bréfi skólastjóra til kærenda, dags. 5. október sl., kom ekki fram að til athugunar væri að vísa honum úr skólanum, né var kærendum gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun þess efnis. Fram kom lýsing á gjörðum C í tengslum við umrædda sprengju og tilvísun til 41. gr. grunnskólalaga um skyldu nemenda til að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks. Þá var vísað til atviks sem C hefði átt aðild að 4. september sl. (á að vera 1. þ.m.) og greint frá því að þegar atvikið átti sér stað hafi kærendum verið gerð grein fyrir því að það væri það alvarlegt að vera C í skólanum væri undir því komin að hann hegðaði sér með viðeigandi hætti í skólanum. Að lokum var greint frá því að nú þegar C hefði brotið aftur af sér á alvarlegan hátt verði ekki hjá því komist að vísa honum úr skólanum um stundarsakir og síðan sagði: „Þetta tilkynnist hér með.“ Samkvæmt þessu þykir ljóst að mati ráðuneytisins að búið var að taka hina kærðu ákvörðun, þegar kærendum var tilkynnt um hana. Af atvikum má jafnframt ráða að skólastjóri hafi talið sér fært að fara með málið sem framhald fyrri umkvartana vegna ætlaðra brota C á skólareglum, í stað þess að miða andmælarétt kærenda f.h. C við þann atburð sem brottvikningin byggðist á. Rétt þykir því að taka fram að við framkvæmd andmælaréttar skipti ekki máli, eins og á stóð í þessu máli, þótt kærendum hefði verið greint frá því hinn 4. september að það atvik sem þá var til umfjöllunar væri svo alvarlegt að vera C væri undir því komin að hann hegðaði sér með viðeigandi hætti.

Í rökstuðningi skólastjóra fyrir brottvísun C er til þess vísað að atvikið sem var grundvöllur þeirrar ákvörðunar og gerðist utan skólalóðar, hafi falið í sér brot á skólareglum, sbr. 41. gr. laga um grunnskóla. Um heimild grunnskóla til að setja skólareglur gildir reglugerð um skólareglur í grunnskóla, nr. 270/2000, sem menntamálaráðherra hefur sett á grundvelli 5. mgr. 41. gr. laga um grunnskóla. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að skólareglur skuli vera skýrar og afdráttarlausar og í samræmi við lög um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Af ákvæðum laga um grunnskóla verður ráðið að ákvæði laganna og reglur og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sett samkvæmt þeim gildi um atferli nemenda innan skóla, á skólalóð og öðrum mannvirkjum sem skóli hefur afnot af vegna kennslu nemenda eða í ferðum á vegum skóla. Ákvörðun skólastjóra um að vísa C úr skóla fól í sér viðurlög við atviki sem átti sér stað utan skólalóðar þar sem skólareglur ná ekki til. Þykir í því sambandi ekki skipta máli þótt umrætt atvik hafi átt sér stað á skólatíma. Hið ætlaða brot C í fordyri fjölbýlishúss að Ö gat varðað við 257. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og heyrir undir lögbær yfirvöld, þ.e. lögreglu og barnaverndaryfirvöld. Verður því talið að ákvörðun skólastjóra um brottvikningu C hafi ekki verið byggð á lögmætum grundvelli.

Með hliðsjón af öllu framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að óhjákvæmilegt sé að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun um brottvikningu C úr X, sem tilkynnt var kærendum með bréfi skólastjóra, dags. 5. október sl., annars vegar á þeim grunni að kærendum hafi ekki verið veittur andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðunin var tekin, og hins vegar á þeim grunni að ákvörðunin byggðist á atviki sem átti sér stað utan lögsögu skólans.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólastjóra X í Æ um tímabundna brottvikningu C úr X, sem tilkynnt var í bréfi til foreldra hans, dags. 5. október sl. er felld úr gildi.

Ákvörðun skólastjórnenda X um brottvikningu C úr valfaginu stærðfræðigrunnur, sem kynnt var foreldrum C með tölvubréfi, dags. 25. september sl., sbr. bréf dags. 29. september sl., er felld úr gildi.
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira