Hoppa yfir valmynd

Synjun á þátttöku í skólaferðalagi

Hinn 21. október 1997 var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

I. Kæruefni og kröfur.

Með bréfi dags. 17. nóvember 1995 kærðu A og B, hér eftir nefnd kærendur, ákvörðun Fræðslustjóra X í máli dóttur þeirra C varðandi þá ákvörðun skólastjóra grunnskólans í Y að meina henni að taka þátt í skólaferðalagi skólans 30. maí 1995.

Í bréfi kærenda er ekki nákvæmlega tilgreint hvað í úrskurði fræðslustjóra er kært en hins vegar kemur fram í kæru þeirra að kærendur telji það skyldu sína að láta málið fara áfram þannig að viðeigandi stjórnsýsluviðbrögð fáist og jafnframt er vísað til fyrra bréfs er kærendur höfðu sent menntamálaráðherra og dags. er 31. maí 1995. Í því bréfi segir, að umrædd ákvörðun skólastjóra grunnskólans sé kærð og þess krafist að ráðuneytið beiti stjórnsýsluviðurlögum eða grípi til annarra aðgerða af þessu tilefni.

Í niðurstöðu fræðslustjóra segir orðrétt sbr. bréf fræðslustjóra dags. 30. október 1995: "Niðurstaða fræðslustjóra er sú að ekki verði talið að skólastjórar hafi brotið gegn því sem telja má eðlilega efnislega afgreiðslu máls, miðað við forsendur, en framkvæmdin hafi hins vegar farið verulega úrskeiðis frá því sem rétt og eðlilegt er þar sem foreldrar fengu ekki tækifæri til þess að fylgjast með framvindu skólasóknar nemandans. Því krefst fræðslustjóri þess að skólinn og stjórnendur hans gæti þess í framtíðinni að slíkt endurtaki sig ekki".

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Með hliðsjón af þessu ákvæði stjórnsýslulaga er litið svo á að þegar kærendur fara fram á að stjórnsýsluviðurlögum verið beitt sé átt við að framangreind ákvörðun Fræðslustjóra X verði felld úr gildi eða henni breytt.

II. Málsatvik.

Með bréfi dags. 31. maí 1995 kærðu kærendur til menntamálaráðherra þá ákvörðun skólastjóra Grunnskólans í Y að meina dóttur þeirra C að fara í skólaferðarlag 10. bekkjar. Á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi menntamálaráðuneytið kæruna til Fræðslustjóra X með bréfi dags. 5. júlí 1995. Ákvörðun fræðslustjóra lá fyrir með bréfi dags. 30. október 1995 og sú ákvörðun var kærð til menntamálaráðherra með bréfi dags. 17. nóvember 1995. Menntamálaráðuneytið fór fram á umsögn fræðslustjóra um kæruna með bréfi dags. 8. desember 1995. Umsögn fræðslustjóra barst ráðuneytinu með bréfi dags. 28. desember 1995. Í umsögn sinni vísar fræðslutjóri til úrlausnar sinnar dags. 30. október 1995. Í umsögn fræðslustjóra kemur jafnframt fram að við meðferð málsins hafi verið reynt að leita svara við tveimur atriðum, hvort refsing eða viðurlög af því tagi, sem málið snýst um, séu réttmæt og líkleg til árangurs og hvort rétt og eðlilega hafi verið staðið að ákvörðun refsingar í umræddu tilfelli. Með bréfi fræðslustjóra fylgdu einnig öll bréf er fræðslustjóri hafði undir höndum og snertu málið. Þ.á m. var umsögn skólastjóra grunnskólans og umsjónarkennara. Kærendum var gefinn kostur á því að tjá sig um greinargerð eða umsögn fræðslustjóra með bréfi ráðuneytisins dags. 4. janúar 1996. Kærendur tjáðu sig um umsögnina með bréfi dags. 30. janúar 1996 og kemur þar m.a. fram að framkoma skólayfirvalda hafi ekki verið í samræmi við settar reglur og að C hafi fengið einkunina 6 fyrir mætingu á fyrri önn.

Aðdragandi máls þessa er sá að þann 30. maí 1995 var C ásamt þremur öðrum bekkjarfélögum meinað að taka þátt í útskriftarferðalagi. Í bréfi kærenda, dags. 31.05. 1995, kemur fram að aðspurður hafi skólastjóri skólans gefið þá skýringu að C hafi fallið á mætingu og að C hafi verið kynnt þessi ákvörðun daginn áður en að hún átti að fara í samræmt próf í ensku. Foreldrum hafi aldrei verið kynnt þessi ákvörðun en þegar þau fréttu af henni hefðu þau mótmælt málsmeðferðinni og krafist þess að ákvörðunin yrði dregin til baka.

Í bréfi kærenda, dags. 31. maí 1995, eru rök kærenda sett fram í sjö liðum.

Í fyrsta lagi að skólastjóri og kennarar hafi ekki ráðstöfunarrétt á sjóði nemenda, sem safnað hafi verið allt árið til þess að standa straum af útskriftarferðarlagi þeirra. Í öðru lagi að refsing hafi ekki verið í samræmi við meint brot nemandans og að það hafi verið siðlaust að útiloka nemendur frá útskriftarferð. Í þriðja lagi að refsing eftir að skólastarfi sé lokið geti aldrei orðið til þess að bæta mætingu viðkomandi nemanda. Í fjórða lagi hafi kærendum, foreldrum C, aldrei á skólaönninni verið látin vita af lélegri skólasókn C. Í fimmta lagi að það sé með öllu óviðunandi að nokkrir nemendur séu úthrópaðir félagslega af skólanum öðrum nemendum til varnaðar. Það sé óeðlilegt og fáheyrt að fórna einstaklingum með þeim hætti til þess að skólastarf geti orðið auðveldara. Í sjötta lagi að skólinn geti ekki tilkynnt nemanda um slíka ákvörðun daginn fyrir samræmt próf. Í sjöunda lagi að kærendur og dóttir þeirra kannist ekki við að skólasókn hafi verið eins léleg og skólinn telur. Ekki séu til nein gögn um meintar fjarvistir þar sem “kladdanum” hafi verið stolið frá skólanum.

Eftir að Fræðslustjóri X fékk málið til meðferðar óskaði hann eftir skriflegri umsögn skólastjóra og aðstoðarskólastjóra og einnig óskaði hann eftir skriflegri umsögn umsjónarkennara 9. og 10. bekkjar um framkvæmd reglna um skólasókn.

Í umsögn skólastjóra og aðstoðarskólastjóra til fræðslustjóra dags. 15. ágúst 1995 segir m.a., að kennurum þyki nauðsynlegt að hafa skýrar reglur um skólasókn. Markmið með viðurlögum sé ekki refsingin heldur að skapa festu í skólastarfi. Jafnframt kemur fram, að í foreldraviðtali fyrir áramót hafi föður umrædds nemanda verið gerð grein fyrir því að nemandinn hafi verið fallinn á mætingu og jafnframt hafi þar verið ákveðið að bæði skóli og heimili myndu leggja sig fram í því að gefa nemanda kost á að bæta mætingu sína. Í umsögn skólastjóra segir síðan orðrétt: “Skömmu fyrir verkfall kennara hvarf bekkjarskráin. Þegar farið var að skoða mætingu nemenda lágu fyrir skráningar kennara í sérgreinum og handbækur kennara og var stuðst við þau gögn en þess gætt að vafaatriði bitnuðu ekki á nemendum. Í ljós kom að mæting umrædds nemanda var mun lakari en bekkjarkennari hafði gert sér grein fyrir. Nemandinn var því um miðjan maí kallaður fyrir skólastjóra og bekkjarkennara og tilkynnt staða málsins en jafnframt ákveðið að ef nemandi stæði að fullu við að mæta til skólaloka yrði refsingu ekki beitt og máli þessu þar með lokið af okkar hálfu. Við þetta stóð nemandinn ekki og honum því fulljóst að þátttaka í skólaferðalagi kæmi ekki til greinar. Olli þetta sárum vonbrigðum enda höfum við legið undir harðri gagnrýni frá kennurum vegna "linkindar" okkar gagnvart umræddum nemenda.”

Í umsögn umsjónarkennara, dags. 14. ágúst 1995, kemur fram að haustið 1994 hafi kennarar við grunnskólann samþykkt reglur um skólasókn. Meðfylgjandi umsögn þeirra var afrit af umræddum reglum. Þar segir að hver nemandi byrji með 10 í upphafi annar. Í 3. gr. kemur fram að ef skólasókn sé komin niður fyrir 7,0 skuli umsjónarkennari ræða við viðkomandi nemanda og tilkynna það forráðamönnum. Í 5. gr. segir, að ef nemandi hafi fengið undir 4,0 í skólasókn missi hann rétt til þáttöku í náms-og skemmtiferðalögum. Í umsögn umsjónarkennara kemur jafnframt fram að þessar reglur hafi verið vel kynntar fyrir foreldrum á foreldrafundum haustið 1994 og að almenn ánægja hafi verið meðal foreldra með þessar reglur. Jafnframt að reglurnar hafi verið birtar í kennsluskrá.

III. Rökstuðningur.

Eins og áður hefur komið fram er það mat ráðuneytisins að kærendur séu með kæru sinni að fara fram á að ákvörðun fræðslustjóra, dags. 30. október 1995, verði felld niður eða henni breytt í samræmi við 26. gr. laga nr. 37/1993. Í 9. gr. þágildandi laga um grunnskóla nr. 49/1991 segir, að menntamálaráðherra fari með yfirstjórn þeirra mála er lögin taki til. Mál er varðar stjórnun grunnskóla heyra því ótvírætt undir menntamálaráðherra.

Fallist er á þann skilning fræðslustjóra að röksemdir kærenda snúa annars vegar að því hvort viðurlög eða refsing að því tagi sem mál þetta snýst um séu réttmæt og hinsvegar að því hvort rétt hafi verið staðið að beitingu viðurlaga í þessu tilfelli.

Í 21. gr. þágildandi grunnskólalaga nr. 49/1991 segir að skólastjóri sé forstöðumaður grunnskóla, stjórni og beri ábyrgð á starfi hans undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins. Í 53. gr. s.l. segir að börnum og unglingum sé skylt að sækja grunnskóla fái þau ekki hliðstæða kennslu annars staðar. Í 1. mgr. 57. gr. grunnskólalaga nr. 49/1991 segir m.a. að nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar og fara eftir skólareglum. Í 2. mgr. 57. gr. segir, að ef nemanda reynist verulega áfátt í hegðun beri kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemanda sjálfan og forráðamenn hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skuli kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans. Samkvæmt þessum ákvæðum er skólastjórnun í höndum skólastjóra og skólasókn ein meginskylda barna og unglinga og forsenda skólastarfs á skyldunámsstigi. Jafnframt er nemenda skylt að hlíta fyrirmælum skólastjórnenda og fara eftir skólareglum.

Umræddar reglur um skólasókn voru samþykktar af kennurum skólans með samþykki skólastjórnenda. Reglurnar foru birtar í kennsluskrá og voru kynntar fyrir foreldrum og forráðamönnum nemenda á foreldrafundum. Reglurnar eru hluti af skólareglum, sem nemendum ber samkvæmt lögum að hlíta. Ekki getur talist óeðlilegt að kennarar og skólastjórnendur setji skólareglur um ýmis atriði og þ.á. m. reglur um skólasókn, sem ekki aðeins hafa varnaðaráhrif heldur tryggja einnig jafnræði á milli nemenda þegar skólasókn er metin. Það er því ótvírætt að reglurnar um skólasókn eru lögmætar og eðlilegar og því er ekki talin ástæða til þess að fjalla frekar um þau efnisatriði í kæru kærenda sem snúa að eðli og inntaki þeirra reglna.

Hins vegar er einnig ágreiningur um beitingu reglnanna og þeirra viðurlaga sem reglurnar hafa að geyma. Það er forsenda árangursríks skólastarfs að foreldrar og skóli vinni saman. Víða má finna í grunnskólalögum lagaákvæði er byggja á þessu og í 2. mgr. 57. gr. laga nr. 49/1991 er þetta sérstaklega áréttað. Það hlítur einnig að teljast eðlilegt og sjálfsagt að umsjónarkennari hafi samband við foreldra þegar upp koma vandamál varðandi hegðun nemanda burt séð frá lagaskyldum kennara og skólastjórnenda.

Í umræddum skólareglum kemur fram að fari skólasókn nemenda niður fyrir 7,0 beri að ræða við nemanda og tilkynna það forráðamönnum. Í reglunum kemur jafnframt fram að hver nemandi byrji með einkunina 10,0 í upphafi hverrar annar. Samkvæmt þessu er ljóst að hver önn er metin sérstaklega. Samtal kennara og foreldris á fyrri önn uppfyllir því ekki skyldur viðkomandi kennara í þessu tilfelli. Samkvæmt upplýsingum og greinargerðum umsjónarkennara, er liggja fyrir í máli þessu, virðist þeirri reglu yfirleitt hafa verið fylgt að hafa samband við foreldra eða forráðamenn nemenda þegar upp komu vandamál varðandi skólasókn. Svo var þó ekki í þessu tilfelli Hvernig á því stóð er ekki ljóst, en það verður að teljast mjög óheppilegt og í engu samræmi við umræddar reglur um skólasókn og þær meginreglur sem áður hefur verið lýst um samstarf skóla og foreldra. Í 3. gr. reglna um skólasókn segir orðrétt: “Fari skólasókn niður fyrir einkunina 4,0 skal tafarlaust tilkynna það skólastjóra sem sér um málið í samvinnu við fræðsluyfirvöld”. Ekkert hefur komið fram í máli þessu um að skólastjóri hafi fengið málið í sínar hendur og tekið á því í samvinnu við fræðslustjóra. Verður það að teljast ámælisvert. Það hlítur einnig að orka tvímælis að nemenda skuli hafi verið tilkynnt um að viðurlögum ætti að beita daginn fyrir samræmt próf. Slík tilkynning orkar tvímælis burt séð frá því hvort nemanda hafi mátt vera ljóst að hann væri fallinn í mætingu eða ekki. Þrátt fyrir að ýmislegt við framkvæmd málsins hafi þannig beinlínis verið ámælisvert og brýnt að slík mistök endurtaki sig ekki verður ekki fallist á að skólastjórnendur hafi brotið gegn því sem telja má eðlilega afgreiðslu þessa máls. Þess vegna er fallist á mat Fræðslustjóra X.

IV. Úrskurðarorð.

Ákvörðun Fræðslustjóra X er staðfest.
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira