Hoppa yfir valmynd

Nr. 432/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. nóvember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 432/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100020

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 4. október 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Palestínu ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2022, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið 3. ágúst 2021. Samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar hefur kærandi aldrei haft dvalarleyfi eða annars konar rétt til dvalar hér á landi. Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun hafi kæranda verið sent bréf, dags. 2. júní 2022, þar sem fram hafi komið að umsókn hennar hafi ekki verið fyllt út með fullnægjandi hætti þar sem ekki hafi verið tekið fram sú tegund dvalarleyfis sem umsækjandi hugðist sækja um. Útlendingastofnun hafi borist greinargerð frá umboðsmanni kæranda 9. júní 2022 þar sem fram hafi komið að hann væri bróðir kæranda. Kvaðst umboðsmaður kæranda hafa misst föður sinn tveimur árum áður og í kjölfarið hafi hann farið að hafa áhyggjur af móður sinni, […] ára, og kæranda, […] ára, í Palestínu sem báðar þörfnuðust sérhæfðrar læknisþjónustu. Í maí 2021 hafi hluti húss þeirra í Palestínu eyðilagst í loftárás og hafi hann í kjölfarið tekið þá ákvörðun að sækja um dvalarleyfi hér á landi fyrir þær. Einnig hafi hann ákveðið að sækja um dvalarleyfi fyrir frænda sinn, […], sem myndi fylgja móður hans og kæranda hingað til lands. Umboðsmaður kæranda hafi greint frá því í öðru bréfi til Útlendingastofnunar að meginmarkmið umsóknar kæranda væri að bjarga henni og móður hennar frá þeim aðstæðum sem þær væru í á Gaza.

Við vinnslu umsóknar kæranda hjá Útlendingastofnun hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókninni væru ófullnægjandi. Kæranda hafi því verið sent tölvubréf, dags. 21. júní 2022, þar sem frekari gagna hafi verið óskað, þ. á m. greinargerð, gögnum um framfærslu og sjúkratryggingu. Viðbótargögn hafi borist 4. og 5. júlí 2022. Útlendingastofnun hafi sent kæranda annað tölvubréf 7. júlí 2022 þar sem enn á ný hafi verið óskað eftir framfærslugögnum og upplýsingum um hver myndi sjá um umönnun kæranda eftir að hún kæmi til Íslands. Ítrekunarbréf hafi verið sent 29. ágúst 2022 og hafi viðbótargögn borist 1. september 2022. Meðal fylgigagna hafi verið upplýsingar þess efnis að kærandi hafi aldrei starfað í heimaríki og að hún vonaði að Útlendingastofnun eða félagsmálayfirvöld hér á landi myndu aðstoða við framfærslu hennar þar sem hún væri óvinnufær.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2022, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hún hefði ekki svo sérstök tengsl við Ísland að það heimilaði beitingu 78. gr. laga um útlendinga. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina 3. október 2022 og var ákvörðunin kærð til kærunefndar 4. október 2022.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð eða rökstuðning til stuðnings kæru sinni.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hefur því ekki myndað tengsl við landið með lögmætri dvöl. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þetta getur t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnast umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búa hér á landi. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins.

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært við hvaða aðstæður getur komið til veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Kemur þar fram að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Tengsl kæranda við Ísland eru þau að bróðir hennar er búsettur hér á landi. Ljóst er af gögnum málsins að bróðir kæranda hefur sent kæranda og móður hennar peninga reglulega frá því í desember 2018, og nemi heildargreiðslur til þeirra um 2 milljónir króna. Þá kvaðst bróðir kæranda hafa annast systur sína þar til hann hafi flutt frá heimaríki sínu en þá hafi frændi hans tekið við umönnun kæranda. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kærandi er háð umönnun og er ófær um að vinna. Líkt og áður greinir kveður 20. gr. reglugerðar um útlendinga á um að útgáfa dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið þegar umsækjandi hafi ekki búið á íslandi sé heimil í þeim tilvikum er umsækjandi eigi uppkomið barn eða foreldri og hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í a.m.k. ár. Þrátt fyrir að ekki leiki vafi á, að mati kærunefndar, að bróðir kæranda hafi framfært og annast kæranda þá liggur fyrir að hann fellur ekki að skilgreiningu aðstandanda í skilningi 20. gr. reglugerðar um útlendinga. Jafnframt er skilyrði 1. mgr. 56. gr. sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðarinnar um að framfærsla umsækjanda sé trygg ekki fullnægt en af gögnum málsins má sjá að umboðsmaður kæranda óskar eftir því að kærandi muni fá húsnæði og framfærslu frá íslenskum stjórnvöldum þar sem hún hafi ekki fjárhagslega burði til eigin framfærslu. Samkvæmt 3. mgr. 56. gr. laga um útlendinga telst félagsleg framfærsla ekki trygg framfærsla og þá hafa ekki verið lögð fram önnur gögn sem sýna fram á sjálfstæða trygga framfærslu kæranda. Þá sýna gögnin að kærandi býr með fjölskyldu sinni í heimaríki og hefur m.a. frændi kæranda annast hana. Jafnframt hefur bróðir kæranda stutt hana og móður hennar fjárhagslega og hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hann geti gert það áfram. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi fædd og uppalin í Palestínu og má því ráða að tengsl hennar við heimaríki séu sterk.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Kærunefnd gerir athugasemd við málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar en umsókn kæranda var lögð fram 3. ágúst 2021. Útlendingastofnun sendi kæranda fyrst bréf með ósk um frekari gögn 2. júní 2022 eða u.þ.b. 10 mánuðum seinna. Að mati kærunefndar verður ekki séð að þessi töf á vinnslu umsóknarinnar hafi verið réttlætanleg og málsmeðferðartími stofnunarinnar því ámælisverður.

 


 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira