Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 48/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. desember 2023.
í máli nr. 48/2023:
Ferill verkfræðistofa ehf.
gegn
Vestmannaeyjabæ og
Eflu hf.

Lykilorð
Stöðvunarkröfu hafnað. Bindandi samningur.

Útdráttur
Kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar var hafnað þar sem kominn var á bindandi samningur, sbr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 26. nóvember 2023 kærði Ferill verkfræðistofa ehf. („hér eftir kærandi“) útboð Vestmannaeyjabæjar (hér eftir „varnaraðili“) nr. 20234 auðkennt „Engineering services for Vestmannaeyjar municipality“.

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að meta tilboð hans ógilt og vísa því frá í innkaupaferlinu. Þá krefst kærandi þess að nefndin veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum auk málskostnaðar. Loks krefst kærandi þess að innkaupaferlið og samningsgerð á grundvelli útboðsins verði stöðvað um stundarsakir.

Kæran var kynnt varnaraðila og Eflu hf. og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Með greinargerð 7. desember 2023 krefst varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda verði vísað frá eða hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð. Með greinargerð 8. desember 2023 krefst Efla hf. þess að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað.

Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til þeirrar kröfu kæranda að samningsgerð milli varnaraðila og Eflu hf. í kjölfar hins kærða útboðs verði stöðvuð um stundarsakir. Málið bíður að öðru leyti úrskurðar.

Varnaraðili tilkynnti bjóðendum að tilboð Eflu hf. hefði verið valið í útboðinu með tölvupósti 11. nóvember 2023. Þar kom einnig fram að lögbundinn biðtími samningsgerðar eftir 1. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup myndi hefjast 12. nóvember 2023 og ljúka 21. sama mánaðar. Varnaraðili sendi bjóðendum annan tölvupóst 22. nóvember 2022 og tilkynnti að tilboð Eflu hf. hefði verið endanlega samþykkt og því væri kominn á bindandi samningur milli aðila.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Svo sem fyrr greinir var ákvörðun um val tilboðs kynnt bjóðendum 11. nóvember 2023 og var tilboð Eflu hf. síðan endanlega samþykkt 22. sama mánaðar. Hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 og verður þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu kæranda um að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Ferils verkfræðistofu ehf., um stöðvun á samningsgerð milli varnaraðila, Vestmannaeyjabæjar, og Eflu hf. vegna útboðs nr. 20234, auðkennt „Engineering services for Vestmannaeyjar municipality“, er hafnað.


Reykjavík, 20. desember 2023.


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður FinnbogadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum