Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 539/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 539/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040065

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 18. apríl 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela (hér eftir kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd, aðallega á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, til vara að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laganna.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 1. apríl 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 17. nóvember 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. apríl 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til kærunefndar útlendingamála 18. apríl 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 2. maí 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofríkis glæpagengja, almenns ástands í landinu og kynhneigðar sinnar. Hann hafi verið beittur ofbeldi og verið rændur af ræningjum og óttist að lenda í því aftur. Þá hafi hann talið sig vera skotspón glæpagengja í heimaríki þar sem hann sé vel stæður fjárhagslega.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi telji Útlendingastofnun hvorki hafa gætt jafnræðis né meðalhófs við töku ákvörðunar í máli kæranda. Öllum þeim sem hafi komið frá Venesúela fyrir október – nóvembermánuð 2022 hafi verið veitt viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga án þess í sumum tilvikum að þurfa að skila greinargerð málatilbúnaði sínum til stuðnings. Kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 1. apríl 2022 og sé því um verulega gróft brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að ræða við meðferð málsins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Kærandi vísar til þess að hann tilheyri sérstaklega viðkæmum hópi þar sem hann sé [...] sem verði til þess að hann sé í mun hættulegri og viðkvæmari stöðu en aðrir ríkisborgarar Venesúela sem lagt hafi fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi og verið veitt viðbótarvernd.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi alist upp í Karakas og í Miranda. Móðir kæranda hafi þó þurft að flýja til Síle fyrir [...]. Kærandi hafi neyðst til að flýja frá Venesúela í [...], hann hafi dvalið í fjóra daga í Kólumbíu áður en hann hafi farið til Ekvador. Ástæða þess að kærandi hafi þurft að flýja sé sú að í Venesúela hafi hann verið rændur af mönnum á mótorhjólum, honum hafi verið hótað lífláti og byssu hafi verið beint að höfði hans í því skyni að hafa af honum peninga. Ræningjarnir hafi tekið af honum bæði síma og veski. Þeir hafi talið hann vera ríkan því hann hafi unnið á frægum veitingastað þar sem ríkt fólk, stjórnmálamenn og diplómatar hafi borðað. Hann hafi á þeim tíma verið með góðar tekjur, lifað góðu lífi og ferðast. Það ætti ekki við í dag vegna óðaverðbólgu í Venesúela, þar sé gengið alltaf að breytast og enginn stöðugleiki. Kærandi hafi jafnframt verið eltur af glæpagengi í tvær klukkustundir. Eftir það hafi móðir kæranda krafist þess að hann yfirgæfi landið svo hann yrði ekki drepinn. Þá hafi kærandi lent í atviki þar sem lögreglumenn hafi talið hann viðriðinn [...] á leið hans úr landi.

Kærandi geti ekki leitað til lögreglunnar í Venesúela eftir vernd eða aðstoð því lögreglan þar séu glæpamenn sem myndu frekar ræna fólk en að hjálpa því. Þá geti kærandi ekki búið annars staðar í landinu og óttist um líf sitt verði honum gert að snúa þangað aftur. Þar sé enga vernd að fá hvorki frá lögreglu né yfirvöldum. Líf kæranda sé í enn meiri hættu þar sem hann sé [...] en það sé ekki viðurkennt í heimaríki hans að fólk sé [...] og það eitt geti hæglega orðið til þess að hann verði tekinn af lífi. Móðir kæranda myndi aldrei leyfa honum að snúa aftur til Venesúela enda hafi hún nú flúið landið vegna slæms ástands þar.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að vera við góða líkamlega og andlega heilsu og enn betri andlega heilsu eftir að hafa komið hingað til lands. Hér upplifi hann öryggi og geti lifað opinskátt sem [...] einstaklingur og búi hér á landi með [...] sínum. Ástandið í heimaríki hans sé mjög slæmt bæði hvað varðar öryggi og efnahag.

Kærandi vísar til fjölda alþjóðlegra skýrslna og fjallar um almennt ástand í Venesúela. Kærandi vísar til þess að helstu vandamál er lúti að mannréttindum í Venesúela séu aftökur öryggissveita á óbreyttum borgurum sem séu framkvæmdar án dóms og laga, pyndingar sem öryggissveitir framkvæmi, lífshættuleg skilyrði í fangelsum sem og geðþóttahandtökur og varðhald sem fólk sé hneppt í þar í landi. Fjölmiðlamenn sem hafi gagnrýnt stjórnvöld hafi verið hnepptir í varðhald af yfirvöldum og komið hafi verið í veg fyrir öll friðsamleg mótmæli og félagafrelsi. Íbúar landsins hafi ekki getað notið kosningafrelsis þar sem miklar takmarkanir hafi verið settar á stjórnmálaþátttöku. Þingmenn hafi þurft að þola hótanir, áreiti og misnotkun hafi þeir sýnt einhvers konar mótspyrnu. Yfirvöld í landinu veiti almennum borgurum ekki vernd og bæði venesúelska lögreglan og öryggissveitir hafi gerst sekar um óhóflega valdbeitingu, pyntingar og aftökur án dóms og laga. Pólitískir andstæðingar hafi verið fangelsaðir og hættulegar aðstæður séu í fangelsum. Meðlimir öryggissveita séu í raun haldnir friðhelgi, þ.e. þeim sé ekki refsað, mikil spilling sé á öllum stjórnsýslustigum í landinu og yfirvöld hafi ekkert gert til að koma í veg fyrir það.

Aðalkrafa kæranda er sú að honum verði veitt alþjóðlega vernd sem flóttamaður hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu, viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun og gögnum málsins sé ljóst að kærandi sæti ofsóknum, ofbeldi og líflátshótunum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Hann geti ekki leitað aðstoðar hjá lögreglu eða yfirvöldum í heimaríki þar sem þau séu einnig spillt og neiti að grípa til aðgerða gegn glæpahópum. Lögreglan sé nátengd glæpahópum og starfi á þeirra vegum. Þá sé kærandi í hættu vegna kynhneigðar sinnar. Kærandi hafi því ástæðuríkan ótta við að verða tekinn af lífi verði hann sendur aftur til heimaríkis vegna slæms ástands í landinu, glæpagengja, spillingar og kynhneigðar sinnar.

Með vísan til trúverðugleika frásagnar kæranda, gagna málsins og fyrirliggjandi landaupplýsinga sé engum vafa undiropið að kærandi eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða hreinlega verða tekinn af lífi verði hann sendur aftur til heimaríkis. Ljóst sé því að kærandi eigi á hættu að sæta illri meðferð samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi vísar þá til þess að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, m.a. þegar litið sé til þess hve alvarlegar aðstæður séu í heimaríki hans. Þá vísar kærandi til þess að verði honum synjað um alþjóðlega vernd hér á landi og sendur aftur til heimaríkis teljist það brot á reglunni um bann við endursendingum (non-refoulement) þar sem hann muni án nokkurs vafa verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki sínu og hreinlega verða tekinn af lífi.

Kærandi gerir athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærandi mótmælir því sem þar komi fram um að hann óttist ekki tiltekna einstaklinga eða eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki eða annarra tiltekinna aðila þar í landi. Þá hafi stofnunin talið að ekki væri séð að kærandi væri í sérstakri hættu á að verða fyrir ofsóknum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki sínu af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila. Þá hafi verið gengið út frá því að honum stæði til boða vernd og aðstoð yfirvalda teldi hann ástæðu til slíks.

Kærandi mótmælir framangreindu með vísan til fyrri umfjöllunar. Kærandi hafi sannarlega upplifað áreiti og ofbeldi af hálfu glæpagengja og greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun. Þar sem kærandi sé [...] sé hann í sérstakri hættu á að verða fyrir ofsóknum, ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í heimaríki. Þá gerir kærandi athugasemd við þá fullyrðingu að honum standi til boða vernd og aðstoð yfirvalda í heimaríki. Hjónabönd [...] hafi ekki verið lögleidd í Venesúela líkt og í löndum í kring.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað venesúelsku vegabréfi. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé venesúelskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Venesúela, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Venezuela (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Venezuela (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
  • Amnesty International Report 2022/23: Venezuela (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Annual Report 2020 – Chapter IV.B: Venezuela (Inter-American Commission on Human Rights, 2021);
  • Annual Report 2022 – Chapter IV.B: Venezuela (Inter-American Commission on Human Rights, 2023);
  • Bolivarian Republic of Venezuela interim country strategic plan 2023-2025 (World Food Programme, 1. febrúar 2023);
  • Country of Origin Information Report. Venezuela Country Focus (European Asylum Support Office, ágúst 2020);
  • Detailed findings of the independent international fact-finding mission on the Bolivarian Republic of Venezuela (United Nations. Human Rights Council, 15. september 2020);
  • Election Observation Mission – Venezuela 2021 (European Union, 22. febrúar 2022);
  • Fostering Impunity: The Impact of the Failure of the Prosecutor of the International Court to Open an Investigation into the Possible Commission of Crimes against Humanity in Venezuela (Organization of American States, OAS, 2. desember 2020);
  • Freedom in the World 2022 – Venezuela (Freedom House, 28. febrúar 2022);
  • Freedom in the World 2023 – Venezuela (Freedom House, 10. mars 2023);
  • General Country of Origin Information Report. Venezuela 2020 (Netherlands. Ministry of Foreign Affairs, júní 2020);
  • Guidance Note on International Protection Considerations for Venezuelans – Update I (UNHCR, maí 2019);
  • Human Rights Violations in the Bolivarian Republic of Venezuela: A Downward Spiral with No End in Sight (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, júní 2018);
  • Humanitarian Access overview (ACAPS, desember 2022);
  • Humanitære forhold (Landinfo, 2. mars 2023);
  • Independence of the justice system and access to justice in the Bolivarian Republic of Venezuela, including for violations of economic and social rights, and the situation of human rights in the Arco Minero del Orinoco region (United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, 29. september 2020);
  • Informe Annual de Violencia 2022 (Observatorio Venezolano de Violencia, 29. desember 2022);
  • Latest Asylum Trends (European Union Agency for Asylum, 17. maí 2023);
  • Outcomes of the investigation into allegations of possible violations of the human rights to life, liberty, and physical and moral Integrity in the Bolivarian Republic of Venezuela (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, 17. september 2020);
  • Quarterly Report April – June 2023 – Venezuela (The UN Refugee Agency, 8. ágúst 2023);
  • Report of the General Secretariat of the Organization of American States and the Panel of Independent International Experts on the Possible Commission of Crimes Against Humanity in Venezuela. Second Edition (Organization of American States, OAS, mars 2021);
  • Report of the independent international fact-finding mission on the Bolivarian Republic of Venezuela (Human Rights Council, 18. september 2023);
  • Rise of the Criminal Hybrid State in Venezuela (InSight Crime, júlí 2023);
  • Situation of human rights in the Bolivarian Republic of Venezuela (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, 16. júní 2021);
  • Situation of human rights in the Bolivarian Republic of Venezuela (The United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, 4. júlí 2023);
  • Situation of Venezuelans who have returned and seek to return to their country in the context of COVID-19 (Organization of American States, OAS, september 2020);
  • UNHCR Venezuela Annual Report 2022 (The UN Refugee Agency, 8. ágúst 2023);
  • UNHCR Response – Venezuela, January – June 2023 (The UN Refugee Agency, 8. ágúst 2023);
  • Vefsíða Sameinuðu þjóðanna (http://news.un.org/en/story/2023/01/1132957 – sótt 20. júní 2023);
  • Venezuela: Availability of health care, including for persons with disabilities and older persons; treatment of persons with disabilities and older persons within the healthcare system (2021-January 2023) (Immigration and Refugee Board of Canada, 13. febrúar 2023);
  • Venezuela: Humanitarian Action, (OCHA, 30. nóvember 2022);
  • Venezuela: Humanitarian Response Plan 2022-2023 (OCHA, 7. september 2022);
  • Venezuela in 2022: Building solutions with communities affected by armed violence (International Committee of the Red Cross, 6. janúar 2023);
  • Venezuela Country Focus (European Asylum Support Office, EASO, ágúst 2020);
  • Venezuela Country Report 2022 (Bertelsmann Stiftung, 2022);
  • Venezuela’s Humanitarian Emergency (Human Rights Watch, 4. apríl 2019);
  • Venezuela: Joint Statement on Venezuela Negotiation in Mexico (The Diplomatic Service of the European Union, 26. nóvember 2022);
  • Venezuela: Los Colectivos (Landinfo, 1. október 2019);
  • Venezuela Organized Crime Observatory (InSightCrime, síðast uppfært 14. júní 2023);
  • Venezuela: Overview of U.S. Sanctions (Congressional Research Service, 30. nóvember 2022);
  • Venezuela: Overview of U.S Sanctions (Congressional Research Service, 8. ágúst 2023);
  • Venezuela: Political Crisis and U.S Policy (Congressional Research Service, 1. september 2023);
  • Venezuela: Progress Report March – April 2023 (OCHA, 31. maí 2023);
  • Venezuela: Sikkerhetssituasjonen for sivilbefolkningen (Landinfo, 14. apríl 2020);
  • Venezuela: Tidligere og nåværende protestaksjoner, og retursituasjonen for personer som deltok i de store demonstrasjonene i 2017-2019 (Landinfo, 30. maí 2023);
  • Venezuela: Ytringsfrihet og kritiske ytringer i sosiale medier (Landinfo, 28. júní 2023);
  • Venezuela situation (UNHCR, janúar 2023);
  • Venezuela Situation Fact Sheet (UNHCR, 8. mars 2023);
  • Venezuela: Treatment of citizens by the authorities based on whether or not they participate in anti-government protests, including whether some are more targeted than others and for what reasons; whether access to social security programs may be affected by political activities (2017-January 2021) (Immigration and Refugee Board of Canada, 3. febrúar 2021);
  • Venezuela: UN Experts warn of persisting attacks on civil society, media and trade union leaders (UNCHR, 22. mars 2023);
  • Venezuela: Utsatte grupper og reaksjoner fra myndighetene (Landinfo, 11. júní 2020);
  • Venezuela: Treatment of citizens by the authorities based on whether or not they participate in anti-government protests, including whether some are more targeted than others and for what reasons; whether access to social security programs may be affected by political activities (2017–January 2021) (Immigration and Refugee Board of Canada, 3. febrúar 2021);
  • The World Factbook – Venezuela (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 29. ágúst 2023);
  • What’s Ahead for Venezuela’s Crisis (World Politics Review, 20. apríl 2023);
  • World Report 2022 – Venezuela (Human Rights Watch, 15. janúar 2022) og
  • World Report 2023 – Venezuela (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Venesúela er stjórnarskrárbundið lýðveldi með rúmlega 30 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllast um 96% íbúa kristna trú, þar af meirihlutinn rómversk-kaþólska trú. Hinn 15. nóvember 1945 gerðist Venesúela aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1978. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1991.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslum bandarísku utanríkisþjónustunnar frá 2022 og 2023, bandarísku leyniþjónustunnar frá 2023 og Human Rights Watch frá 2023, kemur fram að Venesúela sé fjölflokka lýðræðisríki að nafninu til. Nicolás Maduro, forseti landsins frá árinu 2013, hafi hins vegar styrkt völd sín jafnt og þétt og um leið veikt löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald landsins. Stjórnarkreppa hafi ríkt í Venesúela frá árinu 2019. Forsetatíð Nicolás Maduro hafi lokið 10. janúar 2019, en hann hafi neitað að afsala sér völdum og haldið því fram að hann hafi unnið sigur í forsetakosningum árið áður. Niðurstöður kosninganna, sem hafi sætt mikilli gagnrýni og hvorki talist óháðar né sanngjarnar, hafi verið ógiltar af venesúelska þinginu. Hinn 23. janúar 2019 hafi stjórnarandstaðan lýst Juan Guaido, forseta venesúelska þingsins, forseta til bráðabirgða. Guaido hafi haft fullt stjórnskipulegt umboð frá þinginu og yfir 50 ríki hafi viðurkennt lögmæti hans sem bráðabirgðaforseta, þ. á m. Bandaríkin og flest ríki innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir það hafi Maduro farið með stjórn allra ríkisstofnana landsins auk þess sem hann hafi notið stuðnings öryggissveita. Guaido hafi því ekki getað beitt valdheimildum sínum og aðeins haft yfirráð yfir nokkrum sendiráðum og eignum Venesúela erlendis. Samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins frá árinu 2022 hefur stjórnarandstaðan sniðgengið þrennar kosningar í landinu frá árinu 2015 vegna skorts á lýðræðislegum skilyrðum en hafi árið 2021 verið boðið að sitja í kjörstjórn sveitastjórnarkosninga og hafi sendinefnd á vegum Evrópusambandsins verið boðið að fara með kosningaeftirlit þeirra. Stjórnarandstaðan hafi tekið þátt í kosningunum en framkvæmd þeirra hafi hins vegar verið ábótavant. Í nóvember 2022 hafi samningaviðræður milli stjórnarandstöðunnar og ríkistjórnar Maduro hafist að nýju en þær hafi legið niðri síðan í október 2021. Samningsaðilar hafi komist að samkomulagi um að bæta mannúðarástand í landinu með stofnun sjóðs á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sótt gæti fjármagn í frystar eignir Venesúela erlendis. Í desember 2022 í kjölfar viðræðnanna hafi stjórnaraðstaðan dregið stuðning sinn við Guaido til baka og leyst upp bráðabirgðastjórn hans í landinu þar sem honum hafi mistekist að ná þeim yfirráðum sem stefnt hafi verið að. Markmið stjórnarandstöðunnar sé enn að koma Maduro frá völdum en hún telji Guaido ekki réttan fulltrúa sinn. Vonir standi til þess að þær viðræður sem hafi hafist í nóvember 2022 leiði til frjálsra lýðræðislegra kosninga árið 2024. Stjórnarandstaðan stefni að því að velja sinn fulltrúa í kosningunum haustið 2023.

Í skýrslu EASO frá 2020 kemur fram að fljótlega eftir að Maduro hafi orðið forseti árið 2013 hafi olíuverð farið hríðlækkandi. Olía hafi lengi verið helsta tekjulind Venesúela og hafi um helmingur af árlegum tekjum ríkissjóðs komið til vegna olíuvinnslu. Lækkun olíuverðs hafi, ásamt efnahagsstefnu stjórnvalda og íþyngjandi regluverki er snúi að atvinnulífinu, átt þátt í niðursveiflu hagkerfisins í Venesúela. Óðaverðbólga og kreppa hafi dregið verulega úr kaupmætti almennings í landinu og orsakað skort á matvælum, lyfjum og öðrum nauðsynjavörum. Þrátt fyrir að lágmarkslaun hafi verið hækkuð hafi meginþorri almennings ekki getað keypt nauðsynjavörur eða framfleytt sér án fjárhagsaðstoðar. Þá kemur fram að öll aðstoð sé veitt í gegnum föðurlandskerfið og föðurlandskortið (s. sistema Patria, Carnet de la Patria) en kortið sé forsenda þess að geta fengið opinbera aðstoð, m.a. matvælaaðstoð í formi svokallaðra CLAP matarpakka (s. Comité Local de Abastecimiento y Producción). Kerfið hafi verið notað til að fylgjast með íbúum og upp hafi komið tilvik þar sem einstaklingum hafi verið neitað um aðstoð vegna þess að þeir hafi verið taldir á móti ríkisstjórn landsins. Þannig hafi föðurlandskortið verið verkfæri til samfélagsstjórnunar í gegnum matvæla- og fjárhagsaðstoð. Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2023 kemur fram að flestir íbúar Venesúela séu í þörf fyrir aðstoð vegna skorts á mat, vatni, heilbrigðisþjónustu og hreinlæti. Rúmlega sjö milljónir venesúelskra ríkisborgara hafi lagt á flótta eða séu á vergangi vegna ástandsins í landinu og venesúelska flóttamannakrísan sé talin eitt alvarlegasta vandamál nútímans og fólksflutningarnir þeir fjölmennustu í nútímasögu Suður-Ameríku.

Í skýrslu Landinfo frá mars 2023 kemur fram að árið 2021 hafi aukning orðið í olíuframleiðslu í landinu, en Maduro hafi slakað á þeim ströngu reglum sem gilt höfðu um gjaldeyrismál og gefið leyfi fyrir auknum viðskiptum í erlendri mynt. Í kjölfar þess hafi hagkerfið farið að vaxa að nýju eftir að hafa verið í frjálsu falli síðustu ár og talið sé að hagkerfið hafi styrkst um 15% árið 2022. Fátæktin sé þó enn mikil, sérstaklega hjá þeim sem ekki hafi aðgang að erlendum gjaldeyri. Þá kemur fram að efnahagsástand í landinu hafi farið batnandi síðan árið 2019 þrátt fyrir að enn sé langt í land. Í kjölfar afléttinga ýmissa innflutningshafta og lækkunar verðbólgu hafi framboð af matvælum og lyfjum aukist. Samt sem áður hafi fæstir efni á að nálgast slíkt sökum lágra launa og hækkandi matvöruverðs. Flestir sem yfirgefi landið geri það af efnahagslegum ástæðum. Ástandið í Karakas sé mun betra en á öðrum svæðum þar sem rafmagnsleysi hafi áhrif á aðgengi fólks að bæði rafmagni og rennandi vatni. Samkvæmt skýrslunni hafi um 50% heimila í Venesúela verið undir fátæktarmörkum árið 2022 samanborið við 65% árið 2021 og 87% árið 2017.

Í skýrslu Freedom House frá 2021 kemur fram að strangar hömlur hafi verið settar á grundvallarréttindi venesúelskra ríkisborgara, þ. á m. á tjáningar-, samkomu- og félagafrelsi. Stjórnarandstæðingar, blaðamenn, aðgerðarsinnar, mótmælendur og einstaklingar sem taldir séu andsnúnir ríkistjórninni hafi verið skotmörk yfirvalda og hafi m.a. þurft að sæta handahófskenndum rannsóknum og handtökum. Í skýrslu Freedom House frá 2023 kemur fram að yfirvöld í landinu hafi takmarkað borgaraleg réttindi og sótt til saka pólitíska andstæðinga sína án réttlátrar málsmeðferðar. Þrátt fyrir að efnahagur landsins hafi náð vexti á ný eftir margra ára samdrátt sé enn mannúðarkrísa í landinu sem drifin sé af pólitísku ójafnvægi. Í skýrslu Human Right Watch frá 2023 kemur fram að ríkisstjórn landsins hafi fangelsað pólitíska andstæðinga sína. Að minnsta kosti 114 pólitískir fangar hafi dvalið í meira en þrjú ár í gæsluvarðhaldi sem samræmist ekki hegningarlögum landsins. Öryggissveitir og vopnaðir hópar sem styðji ríkisstjórnina hafi ítrekað ráðist á mótmælendur með ofbeldisfullum árásum, barsmíðum og skotárásum. Dómskerfi landsins hafi hætt að starfa sem óháð ríkisvald árið 2004 og hafi dómsmálayfirvöld verið samsek venesúelskum yfirvöldum í misnotkun á kerfinu, t.a.m. með því að gefa út afturvirkar heimildir til handtöku og fyrirskipa gæsluvarðhöld á grundvelli ónægra sönnunargagna. Í samantekt rannsóknarnefndar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 22. mars 2023 kemur m.a. fram að yfirvöld handtaki enn pólitíska andstæðinga sína, hindri mótmæli verkalýðsfélaga og loki fjölmiðlum. Varðhald og pyndingar af hálfu stjórnvalda hindri tjáningarfrelsi og réttinn til mótmæla. Handahófskennd gæsluvarðhöld af pólitískum ástæðum séu enn áhyggjuefni og séu að minnsta kosti 282 einstaklingar enn í haldi, þ. á m. óbreyttir borgarar og hermenn.

Í skýrslu EASO frá 2020 kemur fram að morðtíðni í Venesúela sé ein sú hæsta í Mið- og Suður-Ameríku. Frá 2018 til 2019 hafi morðum fækkað en það sé ekki til marks um að ofbeldi í landinu hafi farið minnkandi. Vopnahópum hafi tekist að viðhalda yfirráðasvæðum sínum og komið á fót eiginlegum smáríkjum (e. micro-states) innan Venesúela sem hafi gert það að verkum að dregið hafi úr átökum milli stríðandi fylkinga. Þá megi rekja fækkun morða til aukinnar fátæktar og flutnings fólks úr landi. Mannránum hafi einnig fækkað og megi rekja það til erfiðleika við greiðslu lausnargjalda vegna óðaverðbólgu. Á sama tíma hafi tíðni annarra glæpa aukist, s.s. fjárkúgun, fíkniefnasala og heimilisofbeldi. Venezuelan Observatory of Violence gefur árlega út skýrslu um glæpatíðni í landinu. Í skýrslu þeirra frá desember 2020 kemur fram að morðtíðni í landinu það ár hafi verið um 45,6 morð á hverja hundrað þúsund íbúa. Þá hafi orðið aukning í morðum af hálfu yfirvalda en árið 2020 hafi verið fyrsta árið, frá árinu 2016, þar sem skráð morð af hálfu lögreglu hafi verið fleiri en af hálfu annarra gerenda. Í skýrslu þeirra frá desember 2021 kemur fram að morðtíðni það ár hafi verið 40,9 morð á hverja hundrað þúsund íbúa og a.m.k. 6,3 morð hafi verið framin á hverjum degi af hálfu yfirvalda. Aukning hafi orðið á morðum sem skráð séu óupplýst og því óvíst um gerendur og þá hafi orðið aukning í óútskýrðum mannshvörfum, eða um 4,4 mannshvörf á dag árið 2021. Í skýrslu þeirra frá desember 2022 kemur fram að morðtíðni fari lækkandi en tíðni síðasta árs hafi verið um 40,4 morð á hverja hundrað þúsund íbúa.

Samkvæmt framangreindum skýrslum, m.a. skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar (CIA) frá árinu 2023 og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2022, heyra lögreglu- og öryggismál landsins m.a. undir alríkislögregluna, herlögregluna, svæðisbundin lögregluembætti og lögregluembætti sveitarfélaga. Um 45 þúsund lögreglumenn starfi hjá alríkislögreglunni en yfirvöld hafi gefið það út að stefnt sé að því að fjölga þeim í 100 þúsund árið 2024. Í fyrrnefndri skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar kemur fram að stjórn yfirvalda yfir öryggissveitum landsins hafi minnkað undanfarin ár. Hin ólögmæta og sífellt óvinsælli ríkisstjórn Maduro hafi treyst á hersveitir-, leyniþjónustu og vopnahópa (Colectívos) til þess að veikja stöðu stjórnarandstæðinga og draga úr vilja almennings til mótmæla. Í skýrslu Landinfo frá 2019 kemur fram að Colectívos sé sameiginlegt heiti yfir vopnahópa sem starfi í Venesúela og styðji ríkisstjórnina. Colectívos, sem samanstandi af allt að 100 mismunandi vopnahópum, séu með viðveru um land allt. Óljóst sé að hve miklu leyti vopnahópunum sé stjórnað af yfirvöldum en Colectívos hafi verið þátttakendur í aðgerðum yfirvalda gegn mótmælendum og stjórnarandstæðingum ríkisstjórnar Maduro. Í niðurstöðuskýrslu óháðrar nefndar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (e. Detailed findings of the independent international fact-finding mission on the Bolivarian Republic of Venezuela) frá 2020 er fjallað um ítarlega rannsókn á aðgerðum yfirvalda í Venesúela frá árinu 2014. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að yfirvöld í Venesúela og vopnahópar á þeirra vegum hafi framið svívirðilega glæpi, þ. á m. kerfisbundnar pyndingar og aftökur án dóms og laga, sem geti fallið undir skilgreiningu á glæpum gegn mannkyni (e. crimes against humanity). Meirihluti glæpanna hafi verið hluti af kerfisbundnu ofbeldi gegn almenningi í samræmi við eða til að framfylgja stefnu stjórnvalda, m.a. í því skyni að þagga niður, letja eða brjóta á bak aftur andstöðu tiltekinna einstaklinga við ríkisstjórn Maduro og að berjast gegn glæpum. Þá hafi háttsettir embættismenn og herforingjar haft vitneskju um glæpina og ekki gripið til aðgerða til að sporna gegn þeim. Samtök Ameríkuríkja (e. Organization of American States, OAS) hafa í skýrslum sínum frá 2020 og 2021 komist að sömu niðurstöðu. Í skýrslunum kemur m.a. fram að umfang og alvarleiki glæpa gegn mannkyni í Venesúela hafi aukist frá því að fyrri skýrsla samtakanna hafi verið gefin út árið 2018. Skráð tilvik aftaka án dóms og laga séu yfir 18 þúsund og fjöldi einstaklinga hafi þurft að sæta handahófskenndum handtökum og varðhöldum. Þvinguð mannshvörf hafi verið tíð og yfirvöld hafi beitt ýmsum aðferðum við pyndingar, s.s. kynferðislegu ofbeldi. Samkvæmt skýrslu Human Rights Watch frá 2023 gaf saksóknari alþjóðlega sakamáladómstólsins (International Criminal Court (ICC)) út yfirlýsingu í nóvember 2021 um þá ákvörðun sína að hefja rannsókn á ætluðum glæpum gegn mannkyni sem framdir hafi verið í Venesúela. Í mars 2022 hafi saksóknarinn fengið heimild til að opna skrifstofu sína í Karakas og samkvæmt skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá júní 2022 hefur dregið verulega úr dauðsföllum í aðgerðum öryggissveita þó nefndin telji að slíkar aðgerðir hafi haldið áfram.

Samkvæmt skýrslum mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, innflytjenda- og flóttamannanefndar Kanada og Landinfo frá 2023 eru bæði opinberar og einkareknar heilbrigðisstofnanir í Venesúela en aðeins 3% íbúa Venesúela hafi tök á að nýta sér þjónustu einkarekinna heilbrigðisstofnana. Yfir 200 opinber sjúkrahús og fjöldi heilsugæslustöðva séu í landinu en þar hafi skort allar helstu nauðsynjar til að sinna sjúklingum síðustu ár. Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslum Human Rights Watch frá 2022 og 2019 og EASO frá 2020, kemur fram að frá árinu 2012 hafi heilbrigðisþjónusta í landinu farið versnandi. Innviðir heilbrigðiskerfisins séu veikburða og skortur sé á heilbrigðisvörum og lyfjum. Árið 2022 hafi stjórnvöld áfram stutt við aðgengi að heilbrigðisþjónustu og lyfjum á fátækustu svæðum landsins en aðbúnaði sé ábótavant og skortur sé á heilbrigðisstarfsfólki sem hafi flúið land í miklum mæli. Fjölda sjúkrahúsa hafi verið lokað undanfarin ár og afkastageta þeirra sjúkrahúsa sem enn séu starfrækt hafi verið takmörkuð, t.a.m. hafi mörg þeirra ekki haft reglulegan aðgang að rafmagni og vatni. Umfang vandans liggi ekki fyrir vegna vanrækslu yfirvalda við birtingu heilbrigðisupplýsinga. Þó liggi fyrir að barnadauði og útbreiðsla sjúkdóma sem hefði mátt koma í veg fyrir með bólusetningum, s.s. barnaveiki, malaríu og mislinga, hafi aukist verulega á undanförnum árum. Heilbrigðiskerfið í Venesúela hafi verið illa undirbúið fyrir Covid-19 faraldurinn og hafi einstaklingar sem greinst hafi með sjúkdóminn ekki fengið viðeigandi meðferð. Þá hafi læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sætt hótunum og jafnvel handtökum af hálfu yfirvalda hafi þau tjáð skoðanir sínar opinberlega á stöðu heilbrigðiskerfisins og aðgerðarleysi stjórnvalda í þeim málum. Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2023 kemur fram að Venesúela standi enn frammi fyrir alvarlegri mannúðarkrísu þar sem milljónir hafi ekki aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og næringu. Í mars 2023 hafi rúmlega átta milljónir alvarlega veikra einstaklinga átt í erfiðleikum með að fá heilbrigðisþjónustu í Venesúela og meira en níu milljónir sem þurft hafi á lyfjum eða heilbrigðisþjónustu að halda hafi ekki haft efni á að nálgast slíkt. Aðgangur að drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu hafi dregist saman frá árinu 2021 til ársins 2022 sem m.a. hafi leitt til þess að rúmlega fjórar milljónir séu í mikilli þörf fyrir drykkjarvatn.

Í framangreindum skýrslum, m.a. skýrslu EASO, hollenska utanríkisráðuneytisins frá 2020 og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram að sambönd einstaklinga af sama kyni séu ekki refsiverð í Venesúela. Stjórnarskrá Venesúela leggi bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Þrátt fyrir það verði LGBTI+ einstaklingar fyrir mismunun, þ. á m. á atvinnu- og leigumarkaði sem og í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Þeir hópar sem verði aðallega fyrir ofbeldi og mismunun séu trans- og intersex einstaklingar. LGBTI+ einstaklingar verði ekki fyrir kerfisbundnu ofbeldi af hálfu yfirvalda en lögreglumenn hafi meinað þeim um aðgang að opinberum stöðum og notfært sér lagalegt tómarúm til að áreita og beita slíka einstaklinga ofbeldi. Í skýrslu kanadíska flóttamanna- og innflytjendaráðsins frá 2021 kemur fram að LGBTI+ einstaklingar geti lagt fram kvartanir vegna mismununar og brota gegn þeim en ekkert kerfi hafi verið til staðar til að taka við kvörtunum og leysa úr þeim með fullnægjandi hætti. Þá veigri einstaklingar sem verði fyrir ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar sér við því að leita sér aðstoðar vegna vantrausts í garð lögregluyfirvalda. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að í maí 2022 hafi verið sett á fót sérstök skrifstofa sem ætlað sé að rannsaka brot á réttindum LGBTI+ hópsins. Í fyrrnefndri skýrslu EASO kemur fram að hagsmunasamtök berjist fyrir réttindum LGBTI+ einstaklinga í Venesúela. Í skýrslu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 8. ágúst 2023 kemur fram að gefnar hafi verið út leiðbeiningar til að stuðla að því að LBGTI+ einstaklingar hljóti vernd og aðstoð í mannúðaraðgerðum. Leiðbeiningarnar feli í sér leiðsögn til mannúðarsamtaka, embættismanna, stofnana Sameinuðu þjóðanna og frjálsra félagasamtaka í landinu um hvernig veita eigi LBGTI+ einstaklingum viðeigandi þjónustu og stuðning án mismununar. Í ávarpi mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna, Volker Türk, til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, dags. 5. júlí 2023, kemur fram að í mars 2023 hafi hæstiréttur Venesúela ógilt ákvæði í lögum landsins um herrétt (e. The Code of military justice) sem lagði refsingu við samkynja samböndum innan hersins. Þá hvatti Türk stjórnvöld í Venesúela til þess að vinna áfram að því að bæta réttindi LGBTI+ hópsins í landinu.

Frá árinu 2021 hefur hagkerfi landsins farið að vaxa að nýju og í skýrslu mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá september 2023 kemur fram að hagvöxtur hafi aukist um 17,3% árið 2022. Þrátt fyrir hagvöxt hafi önnur atvik og aðstæður áfram haft neikvæð áhrif á nauðsynlega almannaþjónustu, s.s. samgöngur, menntun og heilbrigðisþjónustu. Í framangreindri skýrslu Human Right Watch frá árinu 2023 kemur fram að nýkjörinn forseti Kólumbíu hafi tilkynnt að hann hygðist opna landamærin að Venesúela að nýju og hafi skipað sendiherra sem tekið hafi við embætti í Karakas 29. ágúst 2022. Í apríl 2022 hafi argentínsk yfirvöld tilkynnt áform sín um að endurnýja stjórnmálasamband við Venesúela. Í mars og júní 2022 hafi Bandaríkin sent opinberar sendinefndir til Venesúela í fyrsta sinn í mörg ár til samræðna vegna áhuga stjórnar landsins á að opna fyrir olíuviðskipti við Venesúela að nýju. Í nóvember 2022 hafi orðið vendipunktur í stjórnarfari Venesúela þegar ríkisstjórn Maduro og stjórnarandstaðan hafi undirritað samkomulag um að auka mannúðaraðstoð í landinu. Samkomulagið kveði á um úthlutun þriggja milljarða Bandaríkjadala til velferðarmála, m.a. til að tryggja betri heilbrigðisþjónustu, fæðuöryggi og rafmagn í landinu, en fram að þessum tíma hafi Maduro, forseti landsins, verið tregur við að þiggja mannúðaraðstoð þrátt fyrir þrýsting frá Bandaríkjunum og öðrum löndum. Þá hafi samningsaðilar samþykkt að halda viðræðum áfram um hin ýmsu mannréttindamál og ákvarða nákvæma tímasetningu kosninga í landinu árið 2024. Bandaríkin hafi í nóvember 2022 dregið úr viðskiptaþvingunum í kjölfar samningaviðræðna ríkistjórnar landsins og stjórnarandstöðunnar og hafi heimilað bandarísku fyrirtæki að hefja að nýju vinnslu á olíu frá Venesúela og innflutning á henni til Bandaríkjanna. Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Kanada og Bretlands 26. nóvember 2022 hyggjast ríkin endurskoða viðskiptaþvinganir sínar verði sýnt fram á lýðræðislegar umbætur í Venesúela. Samkvæmt frétt á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna fór mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Volker Türk, í opinbera heimsókn til Venesúela í janúar 2023. Türk fundaði með Maduro forseta landsins sem lýsti opinberlega yfir vilja til að vinna að því að bæta réttarkerfi landsins. Türk hafi þá boðið fram stuðning og sérfræðiþekkingu til að fylgja því eftir. Türk hafi einnig hitt varaforseta landsins, háttsetta embættismenn, yfirmann dómstóla, stjórnarandstöðu og fleiri háttsetta aðila sem allir hafi viðurkennt þörfina á umbótum í landinu. Ítrekaði Türk þá tilmæli sín til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um að fresta eða aflétta ráðstöfunum sem grafi undan mannréttindum í landinu. Þá hafi Türk hvatt yfirvöld í Venesúela til að efla samstarf sitt við stofnanir Sameinuðu þjóðanna til að tryggja frjálsa, örugga og virðulega endurkomu þeirra sem kjósi að snúa aftur til heimaríkis. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2023 kemur fram að frá árinu 2019 hafi Sameinuðu þjóðirnar aukið viðveru sína og mannúðaraðstoð í landinu. Þá hafi aðgengi ýmissa hjálparsamtaka að landinu aukist en aðstoðin komi aðallega frá Sameinuðu þjóðunum, Rauða krossinum og öðrum alþjóðlegum félagasamtökum. Í ávarpi mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna, Volker Türk til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, dags. 5. júlí 2023, kemur fram að skráðum tilvikum drápa af hálfu öryggisstofnana, og tilkynningum um pyndingar og illa meðferð haldi áfram að fækka. Stjórnvöld hafi haldið áfram að saksækja og refsa embættismönnum sem gerst hafi sekir um pyndingar og illa meðferð. Þó þurfi stjórnvöld að halda áfram að bregðast við tilkynningum um slíka glæpi án undantekninga og af gagnsæi. Í skýrslu hinnar óháðu nefndar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mála í Venesúela, frá 18. september 2023, kemur fram að einhver árangur hafi náðst við að draga þá til ábyrgðar sem framið hafi þau brot sem nefndin hafi rannsakað. Þó telji nefndin ástæðu til að ætla að stjórnvöld hafi ekki gert nauðsynlegar breytingar á stofnunum og hafi jafnvel stuðlað að framgangi þeirra sem beri ábyrgð á ofbeldinu. Þá hafi árásum á borgaralegum og lýðræðislegum vettvangi fjölgað á ný. Sé það einkum vegna stefnu stjórnvalda er miði að því að þagga niður í stjórnarandstöðu og gagnrýni á forseta landsins og ríkisstjórn hans. Þrátt fyrir að nefndinni hafi borist færri tilkynningar um meint alvarleg mannréttindabrot síðasta ár en undanfarin ár, hafi hún skrásett fjölda slíkra brota gegn raunverulegum og ætluðum andstæðingum ríkisstjórnarinnar. Brotin hafi einkum beinst að ákveðnum meðlimum borgaralegs samfélags, þ. á m. verkalýðsleiðtogum, blaðamönnum og baráttufólki fyrir mannréttindum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofríkis glæpagengja, almenns ástands í landinu og kynhneigðar sinnar. Kærandi byggir jafnframt á því að hann hafi verið skotspónn glæpagengja sem hafi talið hann vel stæðan fjárhagslega.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu en heimildir bera með sér að einkum áberandi aðilar í stjórnarandstöðuflokkum, blaðamenn, aðgerðarsinnar, mótmælendur og einstaklingar sem taldir séu andsnúnir ríkistjórninni hafi verið skotmörk yfirvalda og hafi m.a. þurft að sæta handahófskenndum rannsóknum og handtökum.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera fæddur og uppalinn í Karakas og Miranda í Venesúela. Hann hafi flutt til Ekvador árið [...] og til Síle árið [...]. Kærandi hafi búið og starfað í Síle þangað til hann hafi flúið til Íslands árið 2022. Kærandi greindi frá því að hafa verið vel stæður í heimaríki, hann hafi byrjað að læra og vinna ungur og hafi því getað lifað vel og farið í frí erlendis. Hann greindi frá því að af þeirri ástæðu hafi fólk farið að fylgjast með honum. Hann hafi verið að vinna á flottum veitingastað þar sem frægir einstaklingar hafi borðað. Kærandi hafi verið rændur af tveimur mönnum á mótorhjóli, honum hafi verið hótað lífláti og mennirnir hafi beint byssu að höfði hans. Mennirnir hafi tekið síma hans og veski og lamið hann í höfuðið. Þá hafi kærandi einn daginn verið eltur í tvær klukkustundir af mönnum sem hafi haft í hyggju að ræna honum. Kærandi hafi sagt upp vinnu sinni, tekið út laun sín og ákveðið að fara úr landi. Kærandi hafi tekið leigubíl í utanríkisráðuneytið þar sem hann hafi ætlað að sækja ýmsa pappíra og skjöl til að hafa meðferðis þegar hann yfirgæfi landið. Lögreglan hafi stöðvað leigubílinn, fundið peningana og [...]. Leigubílstjórinn hafi þó verið fyrrum lögreglumaður og hafi hringt í háttsettan einstakling innan lögreglunnar. Í kjölfarið hafi lögreglumennirnir farið, kærandi komist í ráðuneytið og síðan yfirgefið landið. Aðspurður kvaðst kærandi ekki hafa orðið fyrir mismunun eða áreiti í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar, hann hafi verið svo ungur þegar hann hafi búið í Venesúela en hann hafi lent í slíku í Síle.

Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga frásögn kæranda í efa. Aftur á móti hefur kærandi ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir ofbeldi í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar eða annarra ástæðna sem taldar eru upp í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þau gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið bera með sér að [...] eigi á hættu að verða fyrir félagslegri mismunun í Venesúela en ekki sé um kerfisbundnar ofsóknir að ræða. Lög banni mismunun á þeim grundvelli auk þess sem starfandi séu í landinu ýmis frjáls félagasamtök sem berjist fyrir réttindum LGBTI+ einstaklinga. Þá benda nýlegar aðgerðir stjórnvalda og nýlegur dómur hæstaréttar landsins til þess að stjórnvöld vinni að því að bæta stöðu þessara einstaklinga í landinu. Verður ekki talið að sú mismunun eða áreiti sem LGBTI+ einstaklingar kunni að eiga á hættu nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna. Þótt fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í dómskerfinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér að yfirvöld í Venesúela geti almennt veitt vernd gegn ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Frásögn kæranda ber með sér að hann hafi ekki dvalið í heimaríki síðan árið 2017 og hafi því ekki reynslu af kerfinu þar í landi síðustu árin. Þrátt fyrir mögulega erfiðleika verður ekki talið að kæranda sé ómögulegt að leita aðstoðar lögreglu í landinu, m.a. sökum kynhneigðar sinnar.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga hefur kærunefnd talið rétt að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008, 110 mgr., og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997, 40. mgr.).

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið ómannlega meðferð vera m.a. þá sem beitt er að yfirlögðu ráði, í margar klukkustundir í senn og veldur annað hvort líkamlegu tjóni eða alvarlegum andlegum eða líkamlegum þjáningum, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kudła gegn Póllandi (nr. 30210/96) frá 26. október 2000, 92. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, 220. mgr. Þá hefur dómstóllinn talið meðferð vera vanvirðandi í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans þegar meðferðin niðurlægir eða lítillækkar einstakling, sýnir skort á virðingu fyrir eða gerir lítið úr mannlegri reisn hans, eða skapar ótta, angist eða vanmátt, sem er til þess fallið að brjóta niður líkamlegt eða andlegt mótstöðuafl viðkomandi, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pretty gegn Bretlandi (nr. 2346/02) frá 29. apríl 2002, 52. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Dómurinn hefur talið að þó að líta verði til þess hvort meðferðin sé af ásetningi sé það ekki að öllu leyti útilokað að hún teljist brot á 3. gr. þó svo hafi ekki verið, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi (nr. 28524/95) frá 19. apríl 2001, 74. mgr. Þá hefur dómurinn sagt að ef alvarleg mannúðarkrísa í landi stafi m.a. af aðgerðum eða aðgerðarleysi stjórnvalda sem og aðgerðum annarra aðila sem stjórnvöld bregðist ekki við geti slík staða leitt til þess að endursending til þess ríkis teljist vanvirðandi meðferð sem brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sufi og Elmi gegn Bretlandi (nr. 8319/07 og 11449/07) frá 28. nóvember 2011, 282. og 283. mgr. Sé þá rétt að horfa til nálgunar dómsins í M.S.S gegn Belgíu og Grikklandi frekar en í N. gegn Bretlandi (nr. 2656/05) frá 27. maí 2008. Þannig skuli horft til möguleika umsækjanda á því að fullnægja grunnþörfum sínum, líka á að hann verði fyrir illri meðferð og hvort aðstæður hans muni batna innan skynsamlegs tímaramma.

Á árunum 2018 til 2020 veitti Útlendingastofnun umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Venesúela viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til almennra aðstæðna í heimaríki óháð einstaklingsbundnum aðstæðum hvers umsækjanda. Í maí og júní árið 2021 bárust kærunefnd kærur í fjórum málum þar sem Útlendingastofnun hafði synjað venesúelskum ríkisborgurum um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar var m.a. vísað til samantektarskýrslu EASO, dags. 4. júní 2020, um framkvæmd annarra Evrópuríkja í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Venesúela (e. Policy and Practice toward Venezuelan applicants for international protection). Þá var vísað til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og úrskurðar kærunefndar útlendingamála í Noregi (n. Stornemnd), dags. 12. júní 2020, þar sem meirihluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að almennt öryggisástand í Venesúela væri ekki með þeim hætti að allir ríkisborgarar landsins ættu rétt á viðbótarvernd.

Með úrskurðum kærunefndar nr. 451/2021, 452/2021, 453/2021 og 454/2021, dags. 16. september 2021, voru framangreindar ákvarðanir Útlendingastofnunar felldar úr gildi. Í úrskurðum kærunefndar kom m.a. fram að samkvæmt heimildum hafi öryggisástand og almennar aðstæður í Venesúela ekki tekið framförum á undanförnum árum. Þvert á móti hefðu nýleg gögn, þ. á m. skýrsla OAS frá 2020, gefið til kynna að ástandið í landinu hefði farið versnandi og að umfang og alvarleiki glæpa gegn mannkyni hefði aukist. Var því ekki ráðið af upplýsingum um ástandið í Venesúela af hvaða ástæðum Útlendingastofnun hefði talið rétt að breyta fyrri framkvæmd sinni og synja kærendum um viðbótarvernd hér á landi.

Hinn 17. desember 2021 tilkynnti Útlendingastofnun um breytta stjórnsýsluframkvæmd við mat á þörf ríkisborgara Venesúela fyrir viðbótarvernd. Breytingin, sem tók gildi, 1. janúar 2022, fól það í sér að Útlendingastofnun lagði einstaklingsbundið mat á umsóknir ríkisborgara Venesúela um vernd hér á landi og hafði það í för með sér að einstaklingar fengu ekki skilyrðislaust viðbótarvernd á grundvelli almennra aðstæðna í heimaríki. Umsækjendur kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar sem byggðu á framangreindri framkvæmd til kærunefndar. Með úrskurði kærunefndar nr. 231/2022, dags. 18. júlí 2022, felldi nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn venesúelsks ríkisborgara um alþjóðlega vernd hér á landi, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, úr gildi og veitti kæranda þess máls viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ástandið í Venesúela hefði ekki breyst til batnaðar frá þeirri framkvæmd sem mörkuð hafði verið af Útlendingastofnun frá árinu 2018 . Var það niðurstaða nefndarinnar að þegar markvissar aðgerðir stjórnvalda til að bæla niður stjórnarandstöðu í landinu, alvarlegt efnahagsástand þar sem laun dygðu ekki til að uppfylla grunnþarfir almennings í landinu, skortur á hreinu drykkjarvatni, há glæpatíðni, skortur á lögregluvernd og algert hrun réttarkerfisins legðust saman gætu aðstæður einstaklinga við endursendingu til Venesúela náð því marki að rétt væri að veita þeim viðbótarvernd hér á landi. Hefði því ástandið í Venesúela ekki breyst til batnaðar síðan nefndin úrskurðaði í sambærilegum málum árið 2021 og því væru ekki forsendur til að komast að annarri niðurstöðu og þannig víkja frá þeirri framkvæmd. Mat nefndin það sem svo að aðstæður í Venesúela væru slíkar að raunhæf ástæða væri til þess að ætla að kærandi ætti á hættu að sæta þar meðferð sem næði því marki að teljast ómannúðleg eða vanvirðandi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Var það mat nefndarinnar byggt á alþjóðlegum skýrslum og heildstæðu mati á aðstæðum kæranda í Venesúela og því ástandi sem þá ríkti. Þá tók nefndin það fram í niðurstöðu sinni að ljóst væri að aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnvalda í Venesúela ykju enn fremur á alvarleika ástandsins þar í landi. Þá mætti ætla að vegna skoðana kæranda og andstöðu hans við stjórnvöld myndu stjórnvöld í Venesúela hvorki hafa vilja né getu til að veita honum þá aðstoð sem honum væri nauðsynleg til að vera öruggur og mæta grunnþörfum sínum.

Í nóvember 2022 ákvað Útlendingastofnun að stöðva tímabundið afgreiðslu mála er vörðuðu umsóknir einstaklinga frá Venesúela um alþjóðlega vernd hér á landi og beið stofnunin með að taka ákvarðanir í slíkum málum fram í mars 2023. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda, dags. 31. mars 2023, komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að gögn um Venesúela bæru ekki með sér að almennar aðstæður í landinu næðu því alvarleikastigi að þær einar og sér ættu að leiða til þess að allir sem staddir væru í Venesúela ættu á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð vegna aðstæðna sem stjórnvöld eingöngu eða að mestu leyti hafi valdið. Þá taldi Útlendingastofnun gögn benda til þess að efnahags- og mannúðarástand hefði stöðugt batnað í landinu frá árinu 2019. Var það mat Útlendingastofnunar að þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda til að bæla niður andstöðu í landinu næðu þær aðgerðir ekki því alvarleikastigi að þær teldust einar og sér leiða til þess að allir sem staddir væru í Venesúela ættu á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Gögnin bæru með sér að aðgerðir og athafnir venesúelskra stjórnvalda sem talist gætu ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð hafi beinst að tilteknum einstaklingum sem álitnir væru andstæðingar stjórnvalda. Þá hafi Útlendingastofnun horft til upplýsinga frá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þess efnis að dauðsföllum vegna öryggisaðgerða stjórnvalda og andlátum vegna ofbeldis hefði fækkað verulega, auk þess sem alþjóðlegar skýrslur bæru með sér að hætta á dauðsföllum í öryggisaðgerðum stjórnvalda væri bundin við tengsl eða ætluð tengsl við glæpastarfsemi og að þær öryggisaðgerðir ættu sér aðallega stað í jaðarsettum hverfum þar sem fátækt væri mikil. Þá hafi gögn bent til þess að þrátt fyrir að skort hafi á skilvirkni í réttarvörslukerfi landsins þá veitti lögregla í landinu almenningi aðstoð. Þá bæru gögnin einnig með sér að aðstæður hvers og eins í Venesúela væru breytilegar og bæru ekki með sér að allir íbúar landsins liðu alvarlegan skort sem væri ósamrýmanlegur mannlegri reisn. Það var því mat Útlendingastofnunar í ljósi þess að ástandið í Venesúela færi batnandi ásamt því að stjórnvöld hafi sýnt vilja og getu til að bæta aðstæður einstaklinga þar í landi að aðstæður nú væru ekki þær sömu og voru uppi þegar úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 231/2022 var kveðinn upp í júlí árið 2022. Því þyrfti að meta hverja og eina umsókn út frá einstaklingsbundnum aðstæðum og fyrirliggjandi heimildum.

Af stöðu og hlutverki kærunefndar útlendingamála gagnvart Útlendingastofnun leiðir að úrskurðir nefndarinnar eru bindandi sem fordæmi fyrir stofnunina. Á grundvelli jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga eiga aðilar mála hjá Útlendingastofnun jafnframt rétt á því að mál þeirra fái sambærilega úrlausn og meðferð og sambærileg mál sem hafa fengið úrlausn kærunefndar útlendingamála, þ.m.t. að matskenndum lagaheimildum sé beitt með sama hætti við úrlausn sambærilegra mála. Til þess er að líta að flóttamannaréttur er kvikt réttarsvið að því leyti að matið á því hvort einstaklingar geti átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna í heimaríki miðast ávallt við aðstæður í viðkomandi ríki á hverjum tíma og persónubundnum aðstæðum umsækjanda. Geta aðstæður í einstaka ríkjum breyst með skömmum fyrirvara og því mikilvægt að stjórnvöld sem taka ákvarðanir vegna umsókna um alþjóðlega vernd rannsaki vandlega aðstæður í heimaríki umsækjenda á þeim tíma sem ákvörðun er tekin. Hafa því fordæmi æðra setts stjórnvalds í slíkum málum, hvað aðstæður í viðkomandi ríki áhrærir, aðeins gildi svo fremi að aðstæðurnar hafi ekki breyst.

Í framangreindum gögnum kemur fram að yfirvöld í Venesúela og vopnahópar á þeirra vegum eru talin hafa, frá árinu 2014, framið glæpi sem geta fallið undir skilgreiningu á glæpum gegn mannkyni (e. crimes against humanity). Hafi meirihluti glæpanna verið hluti af kerfisbundnu ofbeldi gegn almenningi í samræmi við eða til að framfylgja stefnu stjórnvalda, m.a. í því skyni að þagga niður, letja eða brjóta á bak aftur andstöðu tiltekinna einstaklinga við ríkisstjórn Maduro og að berjast gegn glæpum. Að virtum gögnum um Venesúela, m.a. nýjum alþjóðlegum skýrslum, verður þó ekki ráðið að í landinu sé stríð eða útbreidd vopnuð átök. Öryggisástand er þó ótryggt og glæpa- og morðtíðni há. Aftur á móti hefur dregið úr átökum í landinu undanfarin ár og hafa þau að mestu verið staðbundin við svæði við landamæri Kólumbíu. Verður því, líkt og í úrskurði kærunefndar nr. 231/2022, ekki talið að aðstæður í landinu nái því marki að sérhver einstaklingur sem þangað fari eigi á hættu að láta lífið eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum.

Líkt og fram kemur í framangreindum landaupplýsingum hefur efnahagsástandið í Venesúela þokast í rétta átt að nýju frá árinu 2021 með afléttingum ýmissa viðskiptaþvingana, innflutningstakmarkana og verð- og gjaldeyrisstýringar. Alþjóðlegar skýrslur bera með sér að ákveðnar breytingar hafi orðið á stjórnarfari landsins síðasta árið. Með því samkomulagi sem ríkisstjórn Maduro og stjórnarandstaðan undirrituðu í nóvember 2022 virðist viðhorf samningsaðila hafa breyst og bendir það til þess að aðilar séu tilbúnir að vinna saman að bættum aðstæðum í landinu. Gefur það jafnframt tilefni til að ætla að aðstæður í landinu séu aðrar en þegar framangreindur úrskurður kærunefndar frá 18. júlí 2022 var kveðinn upp. Framangreindur samningur og samtal milli stjórnar og stjórnarandstöðu í landinu bera með sér að dregið hafi úr því pólitíska ójafnvægi sem áður ríkti þegar íbúar Venesúela og aðrar þjóðir skiptust í fylkingar með tveimur sitjandi forsetum landsins. Nú hafa stjórnvöld í Venesúela viðurkennt þörfina á mannúðaraðstoð og greint frá þeim vilja sínum að vinna að bættu réttarkerfi í landinu en ríkisstjórn Maduro hafði fram að því hafnað allri mannúðaraðstoð og lokað fyrir innflutning til landsins. Auk þess höfðu fjölmörg ríki heims sett á Venesúela viðskiptaþvinganir sem vonir standa til að létt verði á vinni stjórnvöld í Venesúela með alþjóðasamfélaginu að umbótum í landinu. Í niðurstöðu úrskurðar kærunefndar 18. júlí 2022 byggði nefndin m.a. á því að aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnvalda í Venesúela hafi aukið enn fremur á alvarleika ástandsins í landinu, sbr. einnig dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sufi og Elmi gegn Bretlandi (nr. 8319/07 og 11449/07) frá 28. nóvember 2011. Samkvæmt framangreindum skýrslum lítur út fyrir að forsetakosningar verði í landinu árið 2024, efnahagur landsins hefur þokast í rétta átt síðustu árin, olíuviðskipti hafa hafist að nýju og samningur verið gerður milli stjórnar og stjórnarandstöðu um aukna mannúðaraðstoð í landinu. Með hliðsjón af framangreindu og áður rakinnar dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu er það mat kærunefndar að þrátt fyrir alvarlega stöðu í heimaríki kæranda þá nái almennar aðstæður í Venesúela ekki því alvarleikastigi að hver sem þar sé staddur teljist eiga á hættu dauðarefsingu eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Er það því mat kærunefndar að frekari persónulegir þættir þurfi að vera til staðar svo umsækjandi um alþjóðlega vernd frá Venesúela teljist eiga á hættu meðferð í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur umsjón með framkvæmd flóttamannasamningsins frá árinu 1951. Samkvæmt 35. gr. samningsins hafa samningsríki skuldbundið sig til þess að eiga í samvinnu við Flóttamannastofnun m.a. til að auðvelda stofnuninni eftirlitshlutverk sitt. Á grundvelli ákvæðisins gefur stofnunin út leiðbeiningar til aðildarríkja og stöðuskýrslur um aðstæður í einstaka ríkjum sem m.a. eigi að auðvelda stofnuninni að sinna áðurnefndri eftirlitsskyldu sinni og aðstoða samningsríki við túlkun og beitingu samningsins.

Árið 2019 gaf Flóttamannastofnun út leiðbeiningar vegna umsókna venesúelskra ríkisborgara um alþjóðlega vernd. Í leiðbeiningunum kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að meirihluti venesúelskra ríkisborgara hafi ríka þörf fyrir vernd vegna ástandsins í Venesúela. Atburðir undanfarinna ára hafi raskað allsherjarreglu í landinu og sé líf borgara landsins, öryggi og frelsi því í hættu. Í ljósi ástandsins hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt aðildarríki til þess að beita ekki þvinguðum endursendingum gagnvart ríkisborgurum Venesúela. Hinn 19. apríl 2022 sendi kærunefnd fyrirspurn á Flóttamannastofnun og óskaði eftir upplýsingum um hvort framangreind afstaða þeirra hefði tekið breytingum. Í svari, dags. 22. apríl 2022, kom fram að engin breyting hefði orðið á afstöðu Flóttamannastofnunar til endursendinga til Venesúela. Leiðbeiningar stofnunarinnar frá árinu 2019 um að senda venesúelska ríkisborgara ekki aftur til Venesúela gegn þeirra vilja væru því enn í gildi. Kærunefnd sendi að nýju fyrirspurn til Flóttamannastofnunar, dags. 12. júlí 2023. Í svari Flóttamannastofnunar, dags. 26. júlí 2023, kom fram að stofnunin hafi ekki sett fram nýjar leiðbeiningar síðan árið 2019.

Leiðbeiningar Flóttamannastofnunar eru leiðbeinandi fyrir aðildarríkin en ekki bindandi að lögum og eru ekki fyrirvaralaust lagðar til grundvallar í hverju máli. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Flóttamannastofnunar ber að líta til leiðbeininganna og stöðuskýrslnanna svo fremi sem ekki liggi fyrir nýjar upplýsingar um aðstæður í viðkomandi ríki og ber því að leggja mat á gildi þeirra hverju sinni. Kærunefnd hefur í framkvæmd almennt litið til leiðbeininga Flóttamannastofnunar varðandi endursendingar til annarra ríkja, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, enda liggi ekki fyrir gögn og upplýsingar sem gefi til kynna að aðstæður í viðkomandi ríki hafi breyst til batnaðar frá því að viðkomandi leiðbeiningar Flóttamannastofnunar voru gefnar út. Samkvæmt því sem að framan er rakið liggja nú fyrir alþjóðlegar skýrslur sem benda til þess að ástandið í Venesúela hafi breyst til hins betra frá því framangreindar leiðbeiningar stofnunarinnar voru settar fram árið 2019. Verður því við úrlausn máls þessa höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar en jafnframt byggt á nýjustu heimildum um aðstæður í Venesúela.

Heimahérað kæranda, Miranda, er staðsett í útjaðri höfuðborgar landsins Karakas. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum, m.a. skýrslu Landinfo frá árinu 2023, eru almennar aðstæður í höfuðborginni mun betri en á strjálbýlli stöðum í landinu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023, kemur fram að ríkislögreglan sé aðallega við störf í höfuðborginni og nágrenni hennar og þá bera heimildir ekki með sér að vopnuð átök eða árásir á almenna borgara séu tíðar í heimahéraði kæranda. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að kærandi eigi á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum verði hann sendur aftur til heimaríkis. Með vísan til fyrri umfjöllunar er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að kærandi tilheyri minnihlutahópi í heimaríki sem [...] einstaklingur er ekkert í gögnum málsins eða framburði kæranda sem gefur tilefni til að ætla að sérstakar aðstæður hans leiði til þess að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu snúi hann til baka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður kæranda í Venesúela séu ekki með þeim hætti að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Uppfyllir kærandi þannig ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu og þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki sem ekki séu staðbundin, svo sem vegna langvarandi stríðsátaka. Þá kemur fram að erfiðar almennar aðstæður taki að jafnaði ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða náttúruhamfara, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Eigi það m.a. við þegar í heimaríki viðkomandi ríki óðaverðbólga, atvinnuleysi í ríkinu sé mikið eða lágmarkslaun dugi ekki fyrir framfærslu.

Af framangreindum gögnum að ráða hafa yfirvöld í Venesúela og vopnahópar á þeirra vegum síðustu ár framið glæpi sem fallið geta undir skilgreiningu á glæpum gegn mannkyni (e. crimes against humanity) og hafi meirihluti glæpanna verið hluti af kerfisbundnu ofbeldi gegn almenningi í þeim tilgangi að efla stjórn ríkisins. Almennir borgarar hafi hvorki getað treyst á vernd lögregluyfirvalda né opinbera aðstoð. Þá benda heimildir til þess að sú alvarlega staða sem ríkt hefur í landinu hvað varðar efnahag þess og aðgang almennings að fæðu, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu hafi fyrst og fremst stafað af aðgerðum og aðgerðarleysi stjórnvalda en ekki af utanaðkomandi þáttum líkt og þurrkum eða öðrum náttúruhamförum. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að þrátt fyrir það ótrygga ástand sem ríkt hefur í landinu síðustu ár hafi ástandið undanfarna mánuði breyst til batnaðar m.a. með breyttu viðhorfi stjórnvalda til mannúðaraðstoðar og vilja til að vinna að bættu réttarkerfi landsins. Þá er hvorki stríð í landinu né útbreidd vopnuð átök. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kæranda, aðstæður í heimaríki hans og framangreindrar afstöðu kærunefndar hvað varðar leiðbeiningar Flóttamannastofnunar frá árinu 2019, er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að almennar aðstæður sem bíði kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með síðari breytingum og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera við góða heilsu bæði líkamlega og andlega. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að kærandi þarfnist meðferðar sem sé svo sérhæfð að hann geti einungis hlotið hana hérlendis né að rof á henni yrði til tjóns fyrir kæranda verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Verður því ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Vegna stöðu kæranda sem [...] einstaklings bendir kærunefnd á að alþjóðlegar skýrslur um stöðu LBGTI+ einstaklinga í Venesúela bera með sér að þeir einstaklingar eigi á hættu að verða fyrir mismunun, þ. á m. á atvinnu- og leigumarkaði sem og í mennta- og heilbrigðiskerfinu. LGBTI+ einstaklingar verði þó ekki fyrir kerfisbundnu ofbeldi af hálfu yfirvalda en dæmi séu um að lögreglumenn hafi meinað þeim um aðgang að opinberum stöðum og notfært sér lagalegt tómarúm til að áreita og beita slíka einstaklinga ofbeldi. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram að í maí 2022 hafi verið sett á fót sérstök skrifstofa sem ætlað sé að rannsaka brot á réttindum LGBTI+ einstaklinga og þá kemur fram í skýrslu EASO að hagsmunasamtök berjist fyrir réttindum LGBTI+ einstaklinga í Venesúela. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir mismunun og áreiti vegna kynhneigðar sinnar í Venesúela og heimildir benda ekki til þess að LBGTI+ einstaklingar verði fyrir kerfisbundnu ofbeldi eða mismunun þar í landi.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa alist upp hjá móður sinni í heimaríki ásamt [...] systkinum sínum. Þau hafi búið í [...] í Miranda héraði rétt fyrir utan Karakas. Kærandi hafi [...] gamall hafið [...] nám og í framhaldinu unnið á flottum veitingastöðum í Karakas. Hann hafi haft það gott, lifað vel og farið í frí. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að móðir hans og tvær systur búi í Venesúela. Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur þó fram að móðir hans hafi fyrir [...] síðan flutt til Síle en frásögn hans ber ekki með sér að systur hans hafi flutt frá Venesúela og verður því lagt til grundvallar að kærandi eigi ættingja þar í landi. Kærandi hefur greint frá því að hafa bakland í heimaríki og af gögnum málsins verður talið að kærandi hafi verið með atvinnu og getað framfleytt sér þar í landi. Kærandi er ungur að árum og hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hann sé heilsuhraustur og vinnufær. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda við komu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar frásögn kæranda, upplýsingar um heimaríki hans og aðstæður hans þar eru virtar í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Brottvísun og endurkomubann  

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. 

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 1. apríl 2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa honum úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 3. febrúar 2023, var kæranda leiðbeint um að til skoðunar væri að brottvísa honum frá Íslandi og ákvarða endurkomubann hingað til lands. Var kæranda gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Í andmælum kæranda, dags. 7. febrúar 2023, kemur fram að kærandi hafi tengsl við landið en hann sé að vinna á [...] og sé í sambandi með [...]. Hann telji brottvísun og endurkomubann ósanngjarna ráðstöfun enda sé hann að byggja upp heimili hér á landi með nýju fjölskyldu sinni. Kærandi sé einnig að læra íslensku og ensku.

Þrátt fyrir að kærandi sé í sambandi með íslenskum ríkisborgara er það mat kærunefndar að brottvísun og endurkomubann kæranda feli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Við það mat hefur kærunefnd litið til þess að kærandi og [...] hans hafi þekkst í stuttan tíma en kærandi greindi frá því við komuna til landsins að hann þekkti engan hér á landi. Kæranda og [...] hans hafi þá mátt vera ljóst að ekki lægi fyrir niðurstaða í máli kæranda þess efnis að hann hefði heimild til dvalar hér á landi. Að mati kærunefndar benda gögn málsins því ekki til þess að kærandi hafi myndað fjölskyldutengsl hér á landi sem leiði til þess að skilyrði 3. mgr. 102. gr. séu uppfyllt. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn. Þá getur kærandi jafnframt á grundvelli áritunarfrelsis venesúelskra ríkisborgara ferðast hingað til lands og dvalið hér á landi í 90 daga á hverju 180 daga tímabili.

Í ákvörðunarorðum í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið auk þess sem tekið var fram að yfirgefi hann landið sjálfviljugur innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann sjálfviljugur frá Íslandi innan 15 daga.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                     Gunnar Páll Baldvinsson

 

 

 

Sandra Hlíf Ocares                                                                         Sindri M. Stephensen

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir                                                                 Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum