Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 13/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. apríl 2023
í máli nr. 13/2023:
Heflun ehf.
gegn
Rarik ohf.

Lykilorð
Stöðvun innkaupaferlis.

Útdráttur
Fallist var á kröfu kæranda um að stöðva innkaupaferli varnaraðila um stundarsakir, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni af kærunefnd útboðsmála 3. mars 2023 kærði Heflun ehf. (hér eftir „kærandi“) fyrirhuguð innkaup Rarik ohf. (hér eftir „varnaraðili“) samkvæmt verðfyrirspurnum nr. 23001 til 23022.

Kærandi krefst þess aðallega að „kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ólögmæta skilmála „verðfyrirspurnargagna“, sem útiloka hann frá því að bjóða í verkefni þótt hann hafi komist inn í „forvali““. Til vara krefst kærandi þess að varnaraðila verði gert að auglýsa útboðið jarðstrengjalagnir 2023 í samræmi við reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Loks krefst kærandi þess að innkaupaferlið verðið stöðvað um stundarsakir þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru.

Með greinargerð, sem barst kærunefnd útboðsmála 13. mars 2023, krefst varnaraðili þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að kröfu um stöðvun innkaupaferlis verði hafnað.

Kærandi sendi frekari athugasemdir á nefndina 22. mars 2023. Andsvör bárust frá varnaraðila 24. sama mánaðar.

Kærunefnd útboðsmála beindi fyrirspurn til varnaraðila 29. mars 2023 sem hann svaraði tveimur dögum síðar.

Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til kröfu kæranda um að innkaupaferlið verði stöðvað um stundarsakir en málið bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

I

Í desember 2022 auglýsti varnaraðili forval fyrir strenglagnir 2023. Í forvalsgögnum kom fram að varnaraðili auglýsti eftir verktökum í forval fyrir strenglagnir árið 2023. Gerð yrði verðkönnun vegna einstakra verkefna á hverju landsvæði og valið úr hópi samþykktra verktaka og þeim leyft að bjóða í einstök verkefni. Þá kom fram í grein 1.1 í forvalsgögnum að áætlað heildarmagn jarðstrengja væri um 300-400 km og áætlað væri að vinna verkefnin á tímabilinu apríl til október. Í kafla 2 var fjallað um tækjakost, mannafla og almennar kröfur. Í grein 2.1 kom meðal annars fram að verktaki skyldi leggja til allan tækjakost og búnað sem nauðsynlegur gæti talist til jarðvinnunnar, það er til plægingar, rippunar, skurðgraftar, sögunar, moksturs, borunar fyrir rör eða til að reka rör undir vegi. Sömuleiðis tæki til hleðslu, flutnings og afhleðslu strengja/búnaðar innan verksvæðis og til þjöppunar og frágangs á strengstæði að lokinni lögn. Þá kom fram í grein 2.1 að verktaki skyldi skila inn mannaflalista og lista yfir unnin plægingarverk síðustu tveggja ára.

Með tölvupósti 10. janúar 2023 tilkynnti varnaraðili um niðurstöðu forvalsins og kom þar í ljós að ellefu fyrirtæki hefðu verið samþykkt í forvalinu, þar með talið kærandi.

Um miðjan febrúar 2023 mun varnaraðili hafa sent út 22 verðfyrirspurnir vegna fyrirhugaðra jarðstrengjalagna. Var þar um að ræða fimm verk á Vesturlandi, fimm verk á Norðurlandi, ellefu á Suðurlandi og eitt verk á Austurlandi. Uppsetning og efni verðfyrirspurnargagnanna var að mestu leyti sambærilegt og var þar meðal annars að finna upplýsingar um verkin, hvaða kröfu væru gerðar til hæfi verktaka og verklýsingar. Í öllum tilvikum kom fram að varnaraðili væri verkkaupi og voru sömu tímasetningar varðandi fyrirspurnarfrest, svarfrest varnaraðila og skilafrest tilboða.

Tilboð í öll verkin munu hafa verið opnuð 16. mars 2023 og mun kærandi hafa boðið í 12 verk.

II

Kærandi byggir meðal annars á að hin kærðu innkaup falli undir reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu en bendir á að hvergi komi fram í gögnum málsins hver sé lagagrundvöllur útboðanna/verðfyrirspurnanna og forvalsins. Varnaraðili sé opinber aðili sem fari með starfsemi sem falli undir reglugerð nr. 340/2017. Nánast sé öruggt að verðmæti samninga vegna jarðstrengjalagna varnaraðila árið 2023 fari yfir viðmiðunarmörk um útboðsskyldu bæði innanlands og á Evrópska efnahagssvæðinu en samkvæmt 48. gr. reglugerðar nr. 340/2017 skuli innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 15. gr. fara fram á grundvelli almenns útboðs, lokaðs útboðs eða samningskaupa að undangenginni útboðsauglýsingu samkvæmt nánari reglum VII., VIII. og IX. kafla reglugerðarinnar. Þá sé til þess að líta að um árleg verkefni sé að ræða sem samanlagt á fjórum árum skipti hundruðum milljóna fyrir landið allt. Hér sé um að ræða kaup á jarðstrengjum annars vegar og vinnu við að leggja þá í jörð hins vegar en kæranda sé ekki kunnugt um hvort varnaraðili hafi haldið sérstakt útboð vegna innkaupa á jarðstrengjum.

Kærandi rekur fyrirmæli 21. gr. reglugerðar nr. 340/2017 og bendir á að undantekningarregla 2. mgr. ákvæðisins veiti ekki heimild til þess að skipta öllum verkum upp í minni samninga til að komast hjá ákvæðum reglugerðarinnar. Slík túlkun gangi gegn markmiðum reglugerðarinnar um að tryggja jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni með virki samkeppni og meginreglum opinberra innkaupa um að gæta skuli jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis og að óheimilt sé að takmarka samkeppni með óeðlilegum hætti. Það liggi fyrir hvert fyrirhugað verk sé til langs tíma, þ.e. vinna við að koma jarðstrengjum í jörð sem muni taka allt til ársins 2035 að ljúka. Óheimilt sé að skipta því upp í litla samninga til að komast hjá útboðsskyldu. Fullvíst sé að allir plægingarsamningar ársins 2023 fari yfir 808.914.000 kr. Ekki síst í ljósi þess að samkvæmt 18. gr. reglugerðar nr. 340/2017 skuli við útreikning á áætluðu virði verksamnings miða við kostnað við verkið auk áætlaðs heildarverðmætis vöru og þjónustu sem kaupandi láti fyrirtæki í té, að því tilskildu að það sé nauðsynlegt við framkvæmd verksins.

Kærandi heldur því fram að þau 22 verk sem varnaraðili hafi boðið út með verðfyrirspurnum sínum sé raunverulega eitt verk sem hafi verið skipt upp í 22 verkhluta. Um sé að ræða sama fyrirkomulag og hafi verið á verksamningum varnaraðila undanfarin ár og sé fyrirsjáanlegt verkefni til ársins 2035. Áætlað umfang jarðstrengjalagna sé 300-400 kílómetrar samkvæmt forvalsgögnum og samkvæmt magntölublöðum sé plægingarliður samtals um 256 kílómetrar. Varlega áætlað sé verðmæti plægingar 280 til 330 m.kr. og sé þá ekki horft til annarra liða í útboðinu, svo sem þverana og fleygana en kostnaður vegna þessara liða sé umtalsverður. Almenn reikniregla sé að jarðvegsvinnuhluti sé um 20-25% af kostnaði lagningar jarðstrengs en verðmæti strengja milli 75 til 80%. Verðmæti þeirra jarðstrengja sem plægja eigi á árinu 2023 sé því ekki undir 1,1 milljarði króna. Þá sé ótalinn annar kostnaður varnaraðila vegna verksins, svo sem eftirlit og tengingar sem framkvæmdar séu af honum. Heildarverðmæti verkefnisins sé því ekki undir 1,4 milljarði króna og þar með yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Þá bendir kærandi á að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 340/2017 skuli samningar sem falli undir reglugerðina og varði í senn tvær eða fleiri tegundir innkaupa gerðir í samræmi við ákvæði sem gildi um þá tegund innkaupa sem einkenni meginefni samnings. Þar sem jarðstrengirnir kosti mun meira en vinnan við að leggja þá í jörð kunni heildarframkvæmdin að teljast til vöruútboðs og ætti því að miða við 64.799.000 kr. sem séu viðmiðunarfjárhæðir um útboðsskyldu í vörusamningnum.

III

Varnaraðili byggir að meginstefnu til á því að fyrirhuguð innkaup séu undir viðmiðunarfjárhæðum reglugerðar nr. 340/2017 og innkaupin falli því utan valdsviðs kærunefndar útboðsmála, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Varnaraðili tekur fram að hann reki dreifikerfi í skilningi 1. tölul. 3. mgr. og IV. kafla raforkulaga nr. 65/2003 og að öll fyrirhuguð verk séu í dreifbýlishluta kerfisins. Rekstri dreifikerfisins sé skipt upp í fjögur aðskilin svæði, þ.e. Norðurland, Suðurland, Vesturland og Austurland. Innan hvers landsvæðis séu síðan einstök kerfi sem standi sjálfstætt og á milli þeirra sé einungis tenging í gegnum flutningskerfi sem rekið sé af Landsneti, sbr. 6. tölul. 3. gr. og III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Flutningskerfið tengi saman aðveitustöðvar um allt land. Þannig flytjist rafmagnið á milli landshluta og aðveitustöðvarnar séu afhendingarstaðir Landsnets til dreifiveitnanna, þar með talið varnaraðila. Varnaraðili fái afhent rafmagn frá Landsneti í 53 aðveitustöðvum sem dreifðar séu um landsvæðið sem hann þjóni. Í hverri aðveitustöð séu nokkrir sjálfstæðir útgangar þar sem rafmagninu sé dreift til mismunandi svæða í næsta nágrenni við aðveitustöðina og þannig dreift til bæja og sveita landsins, fyrst til spennistöðva sem breyti háspennu yfir í lágspennu og svo áfram að húsvegg notanda rafmagnsins.

Lengd háspennudreifikerfisins sé rúmlega 9.000 kílómetrar og lágspennukerfisins um 5.000 kílómetrar. Fjöldi aðveitustöðva sé 53 og spennistöðvar um 6.000. Eins og ráða megi af fyrirliggjandi gögnum þá standi kerfi á hverju svæði fyrir sig sjálfstætt og tengist dreifikerfið ekki á milli landsvæða. Þá sé sjaldgæft að dreifikerfið tengist á milli einstakra aðveitustöðva heldur standi hvert kerfi sjálfstætt með einni aðveitustöð. Dreifikerfið sé hannað þannig að hver útgangur frá aðveitustöð sé sjálfstæður og óháður öðrum útgöngum í stöðinni. Truflun sem verði á einum útgangi hafi sjálfan í för með sér stærri útleysingu. Þótt varnaraðili samræmi verklag og vinnubrögð þá sé starfseminni skipt upp á milli landsvæða og það séu svæðisskrifstofur í hverjum landshluta. Á hverju svæði sé fulltrúi ábyrgðarmanns sem sinni verkefnum á hverju svæði og jafnframt deildarstjóri sem beri ábyrgð á hönnun og undirbúningi verkframkvæmda sem tilheyra umræddu svæði.

Varnaraðili bendir á að hann hafi með höndum starfsemi sem falli undir reglugerð nr. 340/2017 og að með hinum kærðu innkaupum stefni hann að gerð verksamninga í skilningi reglugerðarinnar. Reglugerðin gildi um innkaup á vörum, þjónustu eða verki er varði starfsemi sem falli undir reglugerðina og þar sem áætlað verðmæti án virðisaukaskatts sé jafnt eða meira en þær viðmiðunarfjárhæðir sem séu tilgreindar í 15. gr. hennar, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 358/2022. Viðmiðunarfjárhæð reglugerðarinnar fyrir verksamninga nemi nú 808.914.000 kr.

Varnaraðili heldur því fram að öll verkin séu sjálfstæð og feli í sér sjálfstæðan verksamning í skilningi reglugerðar nr. 340/2017. Um sé að ræða verklag sem hafi verið viðhaft til langs tíma og án athugasemda. Því sé hafnað að með verksamningum um einstakar strenglagnir sé verið að skipta stærra verki í sjálfstæða samninga í skilningi 21. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Hver og ein strenglögn sé algjörlega sjálfstæð og óháð öðrum strenglögnum. Strenglagnirnar sem um ræðir séu skilgreindar sérstaklega í sérstökum skilmálum fyrir hverja verðfyrirspurn og þá skiptist strenglagnirnar á milli fjölda rekstrareininga sem séu aðskildar. Þannig sé hægt að taka ákvörðun um að hætta við eina strenglögn án þess að það hafi áhrif á aðrar. Forsenda þess að verkþáttur sé metinn sem hluti af stærri verksamningi sem myndi grundvöll útboðsskyldu sé að saman myndi verkþættirnir eina heild og séu þannig háðir hvorum öðrum í fjárhagslegum og tæknilegum skilningi. Hver og ein strenglögn fari fram án tillits til annarra framkvæmd og beri því að meta hverja strenglögn fyrir sig sem einn verksamning í skilningi reglugerðar nr. 340/2017, sbr. m.a. úrskurð kærunefndar útboðsmála í máli nr. 21/2019.

Varnaraðili rekur ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 340/2017 og þær skilgreiningar sem koma fram á hugtökunum verk og verksamningi í 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 2014/25/ESB og tekur fram að hver strenglögn feli í sér sjálfstætt verk sem þjóni fjárhagslegu og tæknilegu hlutverki að þessu leyti enda sé hver og ein strenglögn óháð öðrum. Útilokað sé að líta á ótengd kerfi á mismunandi svæðum sem hluta af sama verki og verksamningi. Auk þess verði að gera greinarmun á háspennuhluta og lágspennuhluta hvers kerfis. Málatilbúnaður kæranda leggi til grundvallar að allt raforkukerfið sé í raun eitt verk og byggi þannig á því að hvers konar strenglagnir teljist til eins og sama verksins og þar af leiðandi útboðsskyldar innan EES, til dæmis lagningar heimtauga á einstaka bæi í dreifbýli eftir óskum. Ef fallist yrði á slíka túlkun myndi það jafnframt ná til flutningskerfisins sem rekið sé af Landsneti enda yrði þá að líta á allt raforkukerfið sem eina heild þar sem flutningskerfið myndar tengingar á milli kerfa varnaraðila. Markmið reglugerðar nr. 340/2017 sé ekki að koma á svo víðtækri útboðsskyldu og myndi slíkt valda gríðarlegu óhagræði. Jafnvel þótt litið yrði á sameiginlega á innkaup á ákveðnum svæðum, þ.e. innan einstakra „eyja“ í dreifikerfinu eða ef innkaup innan eins landshluta myndu innkaupin ekki ná viðmiðunarfjárhæð til að teljast útboðsskyldur verksamningur.

Varnaraðili segir að ástæða þess að óskað sé tilboða í ólík verk ársins á sama tíma með skipulögðum hætti sé að mögulegur framkvæmdatími verkanna sé mjög stuttur vegna veðurfars hér á landi. Stuttur framkvæmdatími og fjöldi verka á mismunandi landsvæðum geri það jafnframt að verkum að ómögulegt hafi verið að sameina verkin í eitt þar sem engir verktakar sem staðist hafa forval geta tekið að sér svo mörg verk á svo stuttum tíma. Hvað þá þegar þau dreifast nánast um allt land. Þá mótmælir varnaraðili því að unnt sé að skilgreina verkin sem vörukaup enda felist framkvæmdin einungis í verklegum framkvæmd og allt efni sé útvegað af varnaraðila.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup gilda ákvæði XI. og XII. kafla laganna um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu en að öðru leyti gilda lögin ekki. Um slík innkaup gildir aftur á móti sérstök reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Reglugerðin fól í sér innleiðingu tilskipunar nr. 2014/25/ESB í íslenskan rétt, sbr. 107. gr. reglugerðarinnar.

Ágreiningur er á milli aðila um hvort að fyrirhuguð innkaup falli undir gildissvið reglugerðar nr. 340/2017 og þar með valdsvið kærunefndar útboðsmála, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Varnaraðili ber því þannig við í málinu að hin kærðu innkaup hafi ekki verið útboðsskyld þar sem áætluð fjárhæð þeirra hafi verið undir viðmiðunarfjárhæðum reglugerðar nr. 340/2017.

Fyrirhuguð innkaup varnaraðila fela í meginatriðum í sér að koma á samningum við verktaka um vinnu við gröft og plægingu jarðstrengja og er um að ræða 22 verk sem fara fram í mismunandi landshlutum. Að þessu gættu og að virtum fyrirliggjandi gögnum verður miðað við að með fyrirhuguðum innkaupum sé varnaraðili að stefna að gerð verksamninga í skilningi 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar gildir hún um innkaup á vöru, þjónustu eða verki er varðar starfsemi sem fellur undir II. kafla reglugerðarinnar og þar sem áætlað verðmæti innkaupa án virðisaukaskatts er jafnt eða meira en þær viðmiðunarfjárhæðir sem eru tilgreindar í bókstafsliðum ákvæðisins. Viðmiðunarfjárhæð reglugerðarinnar nemur nú 808.914.000 krónum án virðisaukaskatts þegar um er að ræða verksamninga, sbr. breytingar sem voru gerðar á ákvæðinu með reglugerð nr. 358/2022. Í 18. gr. reglugerðarinnar kemur fram að við útreikning á áætluðu virði verksamnings skuli miða við kostnað við verkið auk áætlaðs heildarverðmætis vöru og þjónustu sem kaupandi lætur fyrirtæki í té, að því tilskildu að það sé nauðsynlegt við framkvæmd verksins. Þá segir meðal annars í 48. gr. reglugerðarinnar að innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 15. gr. skuli fara fram á grundvelli almenns útboðs, lokaðs útboð eða samningskaupa að undangenginni útboðsauglýsingu samkvæmt nánari reglum VII., VIII. og IX. kafla reglugerðarinnar.

Varnaraðili hefur lagt fram sundurliðað skjal þar sem finna má upplýsingar um áætlaðan kostnað í tengslum við hvert og eitt verk. Er þar bæði gerð grein fyrir kostnaði vegna fyrirhugaðra verka og kostnaði vegna þess efnis sem varnaraðili mun láta væntanlegum viðsemjendum sínum í té. Stærsti hluti efniskostnaðar á rætur sínar að rekja til kostnaðar varnaraðila við öflunar á þeim jarðstrengjum sem til stendur að leggja í jörðu en að mati kærunefndar útboðsmála ber að taka tillit til þessa kostnaðar við mat á virði verksamninganna, sbr. fyrrgreind 18. gr. reglugerðar nr. 340/2017.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er áætlaður kostnaður vegna hvers og eins verks undir fyrrnefndri viðmiðunarfjárhæð og á hið sama við um áætlaðan heildarkostnað eftir einstökum landshlutum. Liggur þó fyrir að heildarkostnaður allra verkanna, að meðtöldum efniskostnaði, nær umræddri viðmiðunarfjárhæð. Þarf því að taka afstöðu til þess hvort líta beri á fyrirhuguð innkaup varnaraðila sem eitt verk sem hafi verið skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga í skilningi 1. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 340/2017.

Í 1. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 340/2017 segir að þegar innkaupum á fyrirhuguðu verki eða þjónustu er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga skuli miða við samanlagt virði allra samninganna. Sama eigi við þegar innkaupum á vöru af svipaðri tegund er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga. Sé samanlagt virði allra samninganna yfir viðmiðunarfjárhæðum skuli líta svo á að verðgildi hvers og eins samnings sé einnig yfir viðmiðunarfjárhæðum. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. er heimilt, þrátt fyrir að heildarvirði samninga samkvæmt 1. mgr. sé yfir viðmiðunarfjárhæðum, að gera einstaka samninga án útboðs fyrir allt að 20% af samanlagðri heildarfjárhæð allra samningshluta ef verðmæti viðkomandi samningshluta, án virðisaukaskatts er lægra en 150.299.000 krónur vegna verks.

Hugtakið verk er ekki sérstaklega skilgreint í reglugerð nr. 340/2017 en í 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2014/25/ESB kemur fram að verk sé heildarafrakstur af byggingarframkvæmdum eða mannvirkjagerð sem getur, sem slíkt, þjónað efnahagslegu eða tæknilegu hlutverki, sbr. einnig til hliðsjónar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 120/2016. Jarðstrengirnir sem til stendur að færa í jörðu og annar tilheyrandi búnaður munu verða hluti af því dreifikerfi sem varnaraðili rekur. Við mat á því hvort fyrirhuguð innkaup feli í sér eitt verk þarf því meðal annars að líta til þess hvort dreifikerfið sem varnaraðili rekur þjóni sama efnahagslega og tæknilega hlutverki, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-16/98, mgr. 36- 38.

Að mati kærunefndar útboðsmála virðist dreifikerfið sem varnaraðili rekur í grunninn þjóna sama efnahagslega og tæknilega hlutverki, það er að flytja raforku til notenda. Þá virðist mega leggja til grundvallar, með hliðsjón af málatilbúnaði varnaraðila, að kerfið sé samtengt fyrir tilstuðlan flutningskerfis sem rekið er af Landsneti. Þessi samtenging mælir með því að virði innkaupanna sé lagt saman en hefur þó ekki úrslitaáhrif í málinu enda verður að telja að réttlætanlegt geti verið við tilteknar aðstæður fyrir varnaraðila, meðal annars í ljósi stærðar og staðsetningu dreifikerfisins, að skipta framkvæmdum í tengslum við rekstur kerfisins í smærri einingar án þess að leggja beri saman virði þeirra samkvæmt 21. gr. reglugerðar nr. 340/2017.

Í þessu máli háttar á hinn bóginn svo til að varnaraðili, sem er í öllum tilvikum verkkaupi, ákvað að halda sameiginlegt forval vegna allra verkanna og samþykkti þar hóp verktaka sem fékk að bjóða í verkin. Þá liggur fyrir að varnaraðili óskaði á sama tíma eftir tilboðum í öll verkin á grundvelli sambærilegra gagna og mun framkvæmd verkanna fara fram á sama tímabili. Að þessu gættu virðist mega miða við að innkaup allra verkanna hafi fylgt sömu áætlun og að varnaraðili sjálfur hafi litið svo á að öll verkin væru nátengd bæði í tíma og efni. Mæla þessi atriði sterklega með því að líta beri á innkaupin sem eitt verk í skilningi 21. gr. reglugerðar nr. 340/2017, sbr. til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Evrópudómstólsins í máli nr. 16/98, mgr. 65.

Samkvæmt framangreindu þykir mega miða við, að svo stöddu, að líta beri á fyrirhuguð innkaup varnaraðila sem eitt verk sem hafi verið skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga með þeim afleiðingum að miða skuli við samanlagt virði þeirra allra, sbr. 1. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Í sama ákvæði kemur fram, eins og fyrr segir, að sé samanlagt virði allra samninganna yfir viðmiðunarfjárhæðum skuli líta svo á að verðgildi hvers og eins samnings sé einnig yfir viðmiðunarmörkum. Að þessu gættu og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum verður lagt til grundvallar að varnaraðila hafi borið að bjóða út innkaupin í samræmi við fyrirmæli reglugerðar nr. 340/2017 en af fyrirliggjandi gögnum og málatilbúnaði varnaraðila verður ráðið að það hafi ekki verið gert. Verður því að telja að verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum nr. 120/2016 og reglum settum samkvæmt þeim við hin kærðu innkaup og að þetta brot geti leitt til ógildingar á ákvörðunum eða öðrum athöfnum varnaraðila, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016. Verður því að fallast á stöðvunarkröfu kæranda.

Ákvörðunarorð:

Innkaupaferli varnaraðila, Rarik ohf., vegna kaupa á verkum við plægingu jarðstrengja samkvæmt verðfyrirspurnum með tilboðsnúmerum 23001 til 23022, er stöðvað um stundarsakir.


Reykjavík, 13. apríl 2023


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum