Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Landspítala

 

Ráðning í starf. Stjórnvald. Mismunun á grundvelli aldurs. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun L um að ráða konu sem er yngri en hún í starf verkefnastjóra. Að mati nefndarinnar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli aldurs við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að L hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

 

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 11. júlí 2022 er tekið fyrir mál nr. 20/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 20. desember 2021, kærði A ráðningu Landspítalans í starf verkefnastjóra umhverfis og umbóta. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði með því að ráða yngri umsækjanda en hana.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 6. janúar 2022. Greinar­gerð kærða ásamt fylgigögnum barst með bréfi, dags. 27. janúar 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. sama dag. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 1. febrúar 2022, sem voru sendar kærða til kynningar með bréfi, dags. 3. s.m. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 16. s.m., og voru sendar kæranda til kynningar sama dag. Kærandi sendi kærunefndinni bréf næsta dag með viðbótarathugasemdum og voru þær sendar kærða til kynningar 18. febrúar s.á.

  MÁLAVEXTIR

 4. Kærði auglýsti starf verkefnastjóra umhverfis og umbóta 29. október 2021. Í auglýsingu kom fram að um væri að ræða nýja stöðu sem heyrði undir rekstrarþjónustu en ætlunin væri að efla umhverfisvitund, bæta flokkun og minnka sóun í ferlum rekstrarþjónustu og þvert á Landspítala. Tekið var fram að verkefnastjórinn sinnti daglegum rekstri umhverfismála á spítalanum, m.a. úrgangsmálum, veitti fræðslu til starfsmanna, ynni að fyrirbyggjandi aðgerðum, ynni með ýmsum hagsmunaaðilum að umbótum og að hann að myndi vinna náið með umhverfisstjóra Landspítala. Þá var tekið fram að leitað væri eftir einstaklingi með brennandi áhuga á að vinna með stjórnendum, starfsmönnum og aðilum innan og utan spítalans að framþróun, þjónustu og umbótum á Landspítala. Í auglýsingunni voru helstu verkefni og ábyrgð tiltekin sem þátttaka í þróun umhverfismála sem stuðli að hringrásarhugsun innan spítalans og ábyrgri notkun auðlinda, að annast yfirlit með atvikaskráningu umhverfismála á einingunni og þátttaka í greiningu og úrvinnslu gagna, umsjón með grænu bókhaldi og umbótatækifærum, fylgja eftir verklagsreglu spítalans um flokkun, meðhöndlun og förgun úrgangs, að leiða innri og ytri úttektir ásamt vettvangsskoðunum á sviði umhverfismála, samstarf, ráðgjöf og fræðsla til starfsmanna á sviði umhverfismála, sérstaklega varðandi úrgangsmál, að vera tengiliður við þjónustuaðila úrgangsmála spítalans og að fylgja eftir yfirliti mánaðarlegra mælikvarða og bregðast við með stöðugar umbætur að leiðarljósi. Þá voru hæfniskröfur frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð, góð samskiptahæfni og hæfni til að miðla flóknum upplýsingum til ólíkra hópa og hagsmunaaðila innan og utan spítalans, greiningarhæfni, s.s. að rótargreina atvik og greina tækifæri til umbóta (þekking á straumlínustjórnun) og nákvæm vinnubrögð, s.s. við rýni gagna og framsetningu þeirra. Gerð var krafa um háskólamenntun sem nýttist í starfi, s.s. á sviði umhverfismála, og jákvæðni og hvetjandi viðhorf sem stuðlaði að jákvæðum starfsanda á vinnustaðnum, en reynsla á sviði umhverfismála sem og farsæl reynsla af umbótastarfi og/eða verkefnastjórnun var talin æskileg.
 5. Alls bárust 17 umsóknir um starfið og voru sex umsækjendur boðaðir til viðtals. Í framhaldinu bauð kærði tveimur umsækjendum, þ.á m. kæranda, til annars viðtals en að þeim loknum var ákveðið að bjóða hinum umsækjandanum starfið sem hún þáði.
 6. Kærandi óskaði 30. nóvember 2021 eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni og var hann veittur 9. desember 2021.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 7. Kærandi telur að henni hafi verið mismunað á grundvelli aldurs við ráðningu í starfið. Hafi ung kona með sambærilega menntun en mun minni reynslu en kærandi verið ráðin í það.
 8. Bendir kærandi á að sú sem var ráðin hafi verið með meistaragráðu í umhverfismálum eins og hún en báðar hafi þær grunnmenntun sem geti nýst vel í starfinu. Hins vegar telur kærandi að reynsla sín af umhverfismálum með áherslu á úrgangsmál sé langtum meiri en það hafi átt að vera meginverkefni starfsmannsins samkvæmt auglýsingu og viðtölum. Þá hafi kærandi meiri reynslu í verkefnastjórnun þar sem hún hafi sinnt umbótastarfi og verkefnastjórnun í stórum verkefnum í atvinnulífinu, auk þess að hafa hlotið styrk frá hringrásarhagkerfi til að vinna verkefni í úrgangsmálum en lögð hafi verið áhersla á þátttöku í þróun umhverfismála sem stuðlar að hringrásarhugsun í starfslýsingu.
 9. Bendir kærandi á að hún hafi mikla reynslu af því að stýra úrgangsmálum hjá fyrir­tækjum og sveitarfélögum. Telur kærandi að starfsfólk kærða sem kom að ráðningunni hafi vísvitandi breytt áherslum í starfinu til að geta ýtt kæranda út af borðinu þegar valið var á milli hennar og þeirrar sem var ráðin.
 10. Kærandi tekur fram að hún þekki vel þjónustuaðila í sorphirðu kærða þar sem kærandi var sölustjóri hjá því fyrirtæki í nokkur ár. Síðar hafi kærandi verið verkefnastjóri umhverfismála í sveitarfélagi þar sem verkefni tengd umhverfismálum voru fjölbreytt. Kærandi tekur fram að í störfum sínum hafi hún stýrt 12 manna deild sem sölustjóri, haldið fjölda kynninga um úrgangsmál, útbúið kynningarefni, aðstoðað fyrirtæki í úrgangsmálum, auk þess að taka saman og reikna út kolefnisspor vegna úrgangs fyrir stærstu fyrirtæki landsins. Kærandi hafi séð um að taka saman og skila gögnum um úrgangsmál til eftirlitsstofnana, s.s. Umhverfisstofnunar, og hafi haft umsjón með endurnýjun starfsleyfis á urðunar- og móttökustöðvum úrgangs og yfirfarið flokkun, endurvinnslu og kostnað hjá öllum stofnunum sveitarfélags. Síðast en ekki síst hafi kærandi hrint af stað ýmsum umbótaverkefnum í umhverfismálum, s.s. komið af stað söfnun á lífrænum úrgangi til moltugerðar í dreifbýli í sveitarfélagi, innleitt skilvirkari gjaldtöku í úrgangsmálum, bæði á móttökustöðvum og urðunarstöðum. Þá sé kærandi nú að vinna að tilraunaverkefni sem styrkt sé af hringrásarhagkerfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins en allt þetta og fleira hafi komið fram í kynningarbréfi.
 11. Tekur kærandi fram að hún hafi farið í viðtal hjá þremur starfsmönnum kærða á Teams sem hafi verið mjög áhugasamir um reynslu kæranda, bæði hvað varðaði úrgangsmálin og ráðgjöf og einnig hve vel kærandi þekkti alla kostnaðarliði er tengdust úrgangs­málum kærða. Fram hafi komið að verkefnið gæti verið erfitt en staðan væri ný og hlutverk verkefnastjóra væri að halda utan um og bæta úrgangsmálin en kærði væri á yfir 100 stöðum. Hún hafi svarað spurningum í viðtali og fundist sér hafa gengið vel í því. Þá hafi hún átt auðvelt með að leysa bæði verkefnin fyrir síðara viðtalið. Hins vegar hafi henni fundist andrúmsloftið vera talsvert annað í síðara viðtalinu þótt henni hafi einnig gengið vel í því. Þar hafi hún farið yfir úrlausn verkefnisins og svarað spurningum.
 12. Kærandi tekur fram að hún hafi fengið tölvupóst 30. nóvember 2021 þar sem tilkynnt var um ráðningu í starfið og hafi hún samstundis beðið um rökstuðning fyrir henni. Í kjölfarið hafi kærandi fengið símtal frá starfsmanni kærða, einum þeirra sem tóku viðtal við kæranda, þar sem fram komu ástæður fyrir valinu. Var einkum vísað til þess að sú sem hafi verið ráðin hafi verið að klára nám í verkefnastjórnun en lögð væri áhersla á mikilvægi þess að geta stýrt verkefnum og haldið utan um verkefni í starfinu. Þá kom fram að úrgangsmálin yrðu áfram í höndum umhverfisstjóra en nýi starfs­maðurinn myndi mögulega aðstoða hann við þau verkefni. Telur kærandi að með þessu hafi kærði breytt upphaflegum áherslum starfsins sem fram komu í fyrra viðtali og með því komist hjá því að ráða kæranda í starfið.
 13. Kærandi telur ljóst að með því að leggja minni áherslu á reynslu í úrgangsmálum og meiri áherslu á verkefnastjórnun hafi kærði talið að sú sem var ráðin í starfið hafi haft vinninginn. Það sé hins vegar skoðun kæranda að svo sé ekki. Færa megi rök fyrir því að menntun þeirra sé svipuð, auk þess sem gera megi ráð fyrir því að báðar séu með góð meðmæli og hafi gengið vel í viðtölum. Hins vegar standi þá eftir reynsla og þær hæfniskröfur sem lagðar voru til grundvallar í auglýsingu. Þar telur kærandi að sneitt hafi verið fram hjá sér vegna aldurs og reynt hafi verið að breyta áherslum starfsins til að réttlæta ráðningu þeirrar sem var ráðin. Kærandi kveðst hafa talið að miðað við þær áherslur sem lagt var af stað með í upphafi, þ.e. umsjón með úrgangsmálum á rúmlega 100 stöðum, hafi verið nauðsynlegt að slíkur starfsmaður hefði einhverja reynslu í málaflokknum. Í það minnsta hefði yfirgripsmikil reynsla átt að ráða úrslitum ef um tvo sambærilega einstaklinga var að ræða.
 14. Kærandi bendir á að af svörum annarra umsækjenda í viðtölum megi ráða að úrgangs­mál hafi verið áhersluatriði starfsins og reynsla þar yrði þeim til framdráttar. Þá hafi verkefnin sem leysa átti fyrir síðara viðtal verið tengd úrgangsmálum. Að auki bendir kærandi á að hún hafi síður en svo minni reynslu af verkefnastjórnun en sú sem ráðin var. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í kynningarbréf sitt þar sem fram komi þau verkefni sem kærandi hafi reynslu af og þau hafi verið rædd af miklum áhuga mats­manna í seinna viðtali þegar spurt var um reynslu kæranda af verkefna- og umbóta­stjórnun. Auk þess sé kærandi menntuð í vörustjórnun og hafi þessar upplýsingar komið fram í umsókn og viðtölum kæranda. Kærandi bendir á að sú sem var ráðin hafi verið í námi í verkefnastjórnun en hafi ekki lokið því.
 15. Kærandi tekur fram að í fyrra viðtalinu hafi starfsmenn kærða farið vel yfir áherslur starfsins og þar hafi megináherslan verið lögð á að bæta flokkun úrgangs og draga úr kostnaði vegna úrgangsmála. Þá væri mikilvægt að starfsmaður gæti miðlað af þekkingu sinni í úrgangsmálum og fengið ólíka hópa starfsmanna á mörgum starfsstöðvum til að vinna að þessu sameiginlega markmiði sem væri að minnka úrgang. Hafi það vakið athygli að kærandi hafi unnið sem yfirmaður hjá þjónustuaðila kærða í úrgangsmálum.
 16. Þá tekur kærandi fram að hún kannist ekki við það sem lýst er í matsblöðum eftir seinna viðtal. Sannarlega hafi kærandi aldrei ætlað að úthýsa öðrum verkefnum en úrgangsmálum né sölsa ein undir sig umhverfismálin líkt og þar komi fram. Telur kærandi að enginn geti haldið því fram að svo hafi verið nema sá hinn sami hafi hagsmuni af því að draga kæranda niður sem umsækjanda og gera lítið úr sér. Kærandi kveðst sannfærð um að umrædd fylgiskjöl hafi verið skrifuð að hluta eða öllu leyti eftir að kærunefnd kallaði eftir gögnum frá kærða. Þá er kærandi ósátt við einkunnagjöf í seinna viðtali fyrir svör eða úrvinnslu verkefna. Sú sem var ráðin hafi fengið talsvert hærri einkunn en kærandi, sem verði að teljast athyglisvert í ljósi þess að hún hafi aldrei starfað við úrgangsmál en kærandi hafi margoft upplifað og leyst úr aðstæðum sem lýst var í verkefninu en það hafi greinilega komið fram í viðtalinu.
 17. Að lokum bendir kærandi á að hún hafi lengri starfsreynslu á sviði umhverfismála en sú sem var ráðin, auk þess sem hún hafi starfað sem verkefnastjóri umhverfismála hjá Fjarðabyggð. Hafi kærandi því síður en svo verið minna hæf en sú sem var ráðin, hvort sem megináherslur starfsins hafi snúist um að bæta úrgangsmál og lækka kostnað vegna þeirra hjá kærða eða verkefnastjórn umhverfis og úrbóta eins og lögð var áhersla á í mati á umsækjendum um starfið.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 18. Kærði hafnar því alfarið að hafa breytt starfslýsingu eða áherslum í hinu auglýsta starfi á meðan á ráðningarferlinu stóð með þeim hætti sem kærandi heldur fram. Jafnframt hafnar kærði því að hafa mismunað umsækjendum vegna aldurs við ráðningu verkefna­stjóra umhverfis og umbóta. Kærði telur að í máli þessu hafi verið vandað til verka við undirbúning, auglýsingu og ráðningu í starfið. Hæfasti umsækjandinn hafi verið valinn og honum boðið starfið í samræmi við lögbundnar skyldur ríkisstofnana.
 19. Kærði tekur fram að sex umsækjendur af 17 hafi verið boðaðir til viðtals á grundvelli upplýsinga í umsóknargögnum. Tveir umsækjendur sem þóttu hæfastir hafi í framhaldinu verið boðaðir í annað viðtal þar sem m.a. voru lagðar fram verkefna­miðaðar spurningar út frá starfinu. Í viðtölunum hafi matsaðilar ritað minnispunkta og gefið umsækjendum stig í matsramma sem var fyrirfram skilgreindur og byggður á hæfniskröfum sem fram komu í auglýsingu. Matsaðilar voru deildarstjóri rekstrar­þjónustu kærða (yfirmaður verkefnastjórans), umhverfisstjóri og verkefnastjóri mann­auðsmála kærða. Að loknum viðtölum hafi það legið fyrir að matsaðilar hafi veitt þeirri sem var ráðin flest stig. Að teknu tilliti til þess og á grundvelli heildstæðs mats á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum hafi hún verið talin hæfasti umsækjandinn. Var þar litið til menntunar, reynslu og frammistöðu í viðtölum. Forstöðumaður aðfanga og umhverfis hafi í framhaldinu ákveðið, eftir að hafa kynnt sér málið, m.a. niðurstöður matsaðila, að bjóða henni starfið.
 20. Kærði tekur fram að hann hafi í engu hvikað frá áður ákveðinni starfslýsingu, hvort sem er varðandi ábyrgð, innihald eða áherslur á milli einstakra verkþátta. Þá eigi það ekki við nein rök að styðjast að upphaflega hafi meginþungi starfsins átt að liggja í úrgangsmálum en stjórnendur síðan ákveðið að breyta áherslum starfsins í verkefna­stjórnun. Vísar kærði í því sambandi til gagna málsins, m.a. til viðtala og athugasemda matsaðila. Þá hafnar kærði því alfarið að hafa endurgert gögn matsaðila og minnispunkta úr ráðningarviðtölum eftir að ákvörðun var tekin um ráðningu.
 21. Kærði bendir á þá staðreynd að heiti hins auglýsta starfs var „Verkefnastjóri“ eins og m.a. hafi komið fram í fyrirsögn auglýsingarinnar. Þegar af þeirri ástæðu megi vera ljóst að meginþungi starfsins liggi í verkefnastjórnun en ekki þeim verkþætti sem kærandi hafi haft mestan áhuga á.
 22. Kærði tekur fram að í viðtölum hafi m.a. verið spurt um reynslu af úrgangsmálum enda ljóst að nýr verkefnastjóri myndi taka þátt í þeim verkefnum. Það sé hins vegar röng ályktun kæranda að það hefði átt að vera svo til eina verkefni verkefnastjórans. Í auglýsingu og viðtölum hafi það komið skýrt fram að umbótahluti starfsins væri ekki síður mikilvægur, hann snerti vissulega á úrgangsmálum en einnig fleiri verkefnum í rekstrarþjónustu.
 23. Kærði bendir á að kærandi hafi frá upphafi verið ósammála stjórnendum um verkefni og áherslur í starfinu. Hafi hún talið og virðist telja enn að það ætti fyrst og fremst að snúast um úrgangsmálin og að ekki væri tími til að sinna öðru. Þegar af þessari ástæðu megi vera ljóst að málið byggi á forsendum sem fái ekki staðist. Það sé ekki starfsmanna eða umsækjenda að ákveða innihald starfa, það sé stofnunar/vinnuveitanda að ákveða starfslýsingar og áherslur í einstökum verkþáttum í störfum starfsmanna.
 24. Kærði tekur fram að við val á verkefni hafi verið ákveðið að hafa raunverulegt afmarkað verkefni sem væri einfalt að útskýra en úrgangsmál féllu undir það. Komið hefði til álita að stilla upp verkefni tengdu atvikaskráningu og vandamálum því tengdum en það hefði verið mun flóknara í framkvæmd og krafist lengri tíma. Hluti af verkefninu sem var lagt fyrir umsækjendur hafi verið að kanna hve vel undirbúinn og lausna­miðaður umsækjandinn var og hvernig framsetning á verkefninu var.
 25. Kærði bendir á að einstakar athugasemdir matsaðila endurspegli ekki endilega allt viðtalið enda um að ræða minnispunkta. Eins og ljóst megi vera hafi kærandi komið mjög vel til greina en í seinna viðtali skýrðist myndin betur; menntun, reynsla og viðmót þeirrar sem ráðin var hafði vinninginn og hafði ekkert með aldur að gera. Það hafi verið samdóma mat matsaðila að samanlagt nýttist þetta betur en það sem kærandi hafði fram að færa.
 26. Tekur kærði fram að menntun í verkfræði hafi í starfi þessu meira vægi en menntun í vörustjórnun. Þá var talið að M.Sc.-ritgerð í umhverfisverkfræði og frásögn af því verkefni hefði sýnt afstöðu og áhuga á málefni sem skipti máli í þeim áherslum sem hentaði í starfinu. Einnig telur kærði rétt að halda því til að haga að þó svo að sú sem ráðin var hafi ekki lokið MPM-námi, þá sé hún búin með megnið af náminu og hafi lýst áhuga á að taka lokaverkefnið tengt kærða. Kærði tekur fram að matsaðilar hafi talið það henni til tekna að hún hefði unnið fjölbreytt störf hjá tilteknu fyrirtæki tengt bæði umhverfi og umbótum, auk þess sem hún hefði reynslu í straumlínustjórnun. Enn fremur hefði hún reynslu í flóknu alþjóðlegu umhverfi sem svipi meira til Landspítala en minni íslensk fyrirtæki.
 27. Þegar litið sé til málsins í heild telur kærði að kærandi hafi ekki leitt líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli aldurs við ákvörðun um ráðningu í starf verkefnastjóra umhverfis og umbóta. Þannig hafi ekki verið brotið á réttindum kæranda samkvæmt lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

  NIÐURSTAÐA

 28. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með ráðningu í starf verkefnastjóra umhverfis og umbóta hjá kærða.
 29. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr., þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar.
 30. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
 31. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda um starf sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað, í þessu máli á grundvelli aldurs. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aldur hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í máli þessu. Hér ber einnig að hafa í huga að samkvæmt 12. gr. laga nr. 86/2018 telst mismunandi meðferð vegna aldurs ekki brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Er frávik frá banni við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs því heimilað að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
 32. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur. Takmarkast endurskoðun kærunefndar því af sambærilegum þáttum og þegar um kyn er að ræða, sbr. til hliðsjónar athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
 33. Í auglýsingunni um starfið kom fram að um væri að ræða starf verkefnastjóra sem sinnti daglegum rekstri varðandi umhverfismál á spítalanum, m.a. úrgangsmálum, fræðslu til starfsmanna, ynni að fyrirbyggjandi aðgerðum og með ýmsum hagsmuna­aðilum að umbótum en hann ynni náið með umhverfisstjóra spítalans. Helstu verkefni starfsins og ábyrgð væru þátttaka í þróun umhverfismála sem stuðlar að hringrásar­hugsun innan spítalans og ábyrgri notkun auðlinda, að annast yfirlit með atvika­skráningu umhverfismála og þátttaka í greiningu og úrvinnslu gagna, umsjón með grænu bókhaldi og umbótatækifærum, að fylgja eftir verklagsreglum spítalans um flokkun, meðhöndlun og förgun úrgangs, að leiða innri og ytri úttektir ásamt vettvangsskoðunum á sviði umhverfismála, samstarf, ráðgjöf og fræðsla til starfsmanna á sviði umhverfismála, sérstaklega varðandi úrgangsmál, að vera tengiliður við þjónustuaðila úrgangsmála spítalans og að fylgja eftir yfirliti mánaðarlegra mælikvarða og bregðast við með stöðugar umbætur að leiðarljósi. Þá voru hæfniskröfur skilgreindar sem frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð, góð samskiptahæfni, greiningarhæfni, nákvæm vinnubrögð, háskólamenntun sem nýtist í starfi, s.s. á sviði umhverfismála, og jákvæðni og hvetjandi viðhorf sem stuðli að jákvæðum starfsanda á vinnustaðnum, en reynsla á sviði umhverfismála og farsæl reynsla af umbótastarfi og/eða verkefnastjórnun var talin æskileg.
 34. Í málinu liggur fyrir að kæranda og þeirri sem var ráðin hafi báðum verið boðið í fyrra viðtal ásamt fjórum öðrum umsækjendum en einungis þeim tveimur í síðara viðtal. Fyrir síðara viðtal var lagt fyrir verkefni sem umsækjendurnir tveir voru beðnir um að leysa. Í kjölfar síðara viðtals var það niðurstaða kærða að sú sem var ráðin hafi að loknu heildarmati verið metin hæfust umsækjenda þar sem hún hafi best þótt uppfylla þau skilyrði sem gerð var krafa um í auglýsingunni. Hafi hún því verið talin standa framar kæranda bæði hvað varðaði menntun og reynslu, auk annarra þátta.
 35. Kærði hefur gert grein fyrir því að litið hafi bæði verið til menntunar umsækjenda og reynslu þeirra og hafi heildarmat á þessum þáttum ráðið niðurstöðu um val á hæfasta umsækjandanum. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum sé það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni stofnunar­innar að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar.
 36. Af kæru má ráða að kærandi telji að samanburður á menntun hennar og þeirrar sem var ráðin leiði líkur að því að henni hafi verið mismunað við ráðninguna þar sem menntun þeirra sé sambærileg. Fyrir liggur að báðir umsækjendurnir uppfylltu að mati kærða menntunarkröfur samkvæmt auglýsingu. Hins vegar taldi kærði að menntun í verkfræði hefði meira vægi í starfinu en menntun í vörustjórnun. Þá taldi hann að M.Sc.-ritgerð þeirrar sem fékk starfið í umhverfisverkfræði hefði sýnt afstöðu og áhuga á málefni sem skipti máli í þeim áherslum sem hentaði í starfinu. Að auki var litið til þess að hún væri að ljúka MPM-námi og að lokaverkefnið gæti tengst kærða. Að mati kærunefndar er þetta mat kærða málefnalegt og innan þess svigrúms sem kærði hafði við ráðninguna.
 37. Þá heldur kærandi því fram að hún hafi verið hæfari en sú sem fékk starfið hvað reynslu varðar. Af matsblaði má ráða að sú sem fékk starfið og kærandi hafi skorað nánast jafnhátt í sjö matsþáttum sem voru tilteknir sem reynsla, umbætur og greiningar, samskipti og jákvætt viðhorf, samskipti, frumkvæði og vinnubrögð, viðmót – áhugi á starfi, fagleg tenging við annað sérstakt tengt starfinu, heildarmat – frumkvæði og metnaður til að ná árangri. Var þeim tveimur því boðið í síðara viðtal. Hins vegar hafi í heildarmatinu að loknu síðara viðtali verið talið þeirri sem fékk starfið til tekna að hún hefði unnið fjölbreytt störf tengd umhverfi og umbótum, hún væri með umhverfisfræði og verkefnastjórnun auk straumlínustjórnunar. Var jafnframt sérstaklega litið til þess að hún hefði haft reynslu í krefjandi alþjóðlegu umhverfi sem svipaði meira til Landspítala en minni íslenskra fyrirtækja. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að mat kærða hafi að þessu leyti verið forsvaranlegt og málefnalegt.
 38. Með vísan til alls framangreinds verður að mati kærunefndar ekki betur séð en að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Telur kærunefnd að hæfnismatið, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli aldurs, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018, eða að gögn málsins að öðru leyti, þ.á m. frásögn kæranda af samskiptum sínum við starfsmann kærða, bendi til þess að meðferð málsins hafi farið gegn lögum nr. 86/2018.
 39. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli aldurs við ráðningu í starf verkefnastjóra. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Landspítalinn, braut ekki gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ráðningu í starf verkefnastjóra umhverfis og umbóta.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira