Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og barnamálaráðuneytisins

Synjun á skólavist í sjálfstætt reknum grunnskóla

Ár 2023, föstudagurinn 24. mars, var kveðinn upp í mennta- og barnamálaráðuneyti svofelldur

ÚRSKURÐUR

í stjórnsýslumáli nr. MRN22050230

I.

Kæra, kröfur og kæruheimild

Mennta- og barnamálaráðuneyti barst hinn 28. maí 2022, stjórnsýslukæra A (hér eftir nefnd „kærandi“), dags. 28. maí 2022, vegna ákvörðunar Waldorfskóla í Lækjarbotnum, sjálfstæðs rekins grunnskóla, dagsett 27. maí 2022, um synjun á umsóknum um skólavist þriggja barna kæranda vegna skólaársins 2022-2023.

Af kærunni verður ráðið að kærandi krefjist þess að ákvörðun Waldorfskóla í Lækjarbotnum verði felld úr gildi.

Ákvörðun Waldorfskóla í Lækjarbotnum er kærð á grundvelli 1. mgr. 47. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og barst kæra innan kærufrests.

II.

Málsatvik

Waldorfskóli í Lækjarbotnum er sjálfstætt rekinn grunnskóli sem starfar á grundvelli þjónustusamnings við Kópavogsbæ. Kærandi sótti um skólavist fyrir börn sín þrjú í Waldorfskóla í Lækjarbotnum vegna skólaársins 2022-2023 og var þeim umsóknum synjað með hinni kærðu ákvörðun.

Rétt er að fram komi að kærandi hafði áður sótt um skólavist fyrir börn sín í skólann vegna skólaársins 2021-2022 sem var synjað með ákvörðun skólans, dags. 10. desember 2021.

Kærandi starfaði áður á […], sem rekinn er í nánu samstarfi við Waldorfskóla í Lækjarbotnum, en lét þar af störfum árið [].

III.

Málsmeðferð

Stjórnsýslukæran barst mennta- og barnamálaráðuneyti þann 28. maí 2022. Samkvæmt beiðni ráðuneytisins bárust þann 13. júní 2022 frekari upplýsingar og gögn frá kæranda. Waldorfskóla í Lækjarbotnum og sveitarfélaginu Kópavogsbæ var gefinn kostur á að gera athugasemdir við stjórnsýslukæru kæranda og bárust þær mennta- og barnamálaráðuneyti þann 5. júlí 2022. Kæranda var gefinn kostur á að bregðast við athugasemdum Waldorfskóla í Lækjarbotnum og sveitarfélagsins Kópavogsbæjar og bárust þær athugasemdir mennta- og barnamálaráðuneyti þann 24. ágúst 2022. Athugasemdir kæranda voru sendar Waldorfskóla í Lækjarbotnum og bárust athugasemdir Waldorfskóla í Lækjarbotnum ráðuneytinu þann 14. september 2022. Athugasemdir Waldorfskóla í Lækjarbotnum voru sendar kæranda en ekki bárust frekari athugasemdir.

IV.

Málsástæður

Í ákvörðun Waldorfskóla í Lækjarbotnum, dags. 27. maí 2022, um synjun á umsóknum um skólavist, kemur fram að starfmannaráð meti málavexti þannig að []. Þar kemur jafnframt fram að sú niðurstaða sé byggð á þeim málavöxtum sem urðu á þeim tíma er [].

 

Í fyrri ákvörðun skólans, dags. 10. desember 2021, þar sem umsóknum kæranda um skólavist fyrir börn hans var synjað, kemur fram að synjun á umsókn um skólavist byggi á atvikaskráningu og úrvinnslu []. Þá byggir ákvörðun skólans á þeim sjónarmiðum að koma kæranda í skólastarfið myndi hafa áhrif á innra starf leikskólans og grunnskólans. Skólastjóri meti aðstæður þannig að ekki liggi fyrir það traust milli aðila sem þarf til, til þess að farsælt samstarf foreldra og umsjónarkennara geti þrifist. Það þjóni því ekki hagsmunum barnanna að stunda skóla í Lækjarbotnum, né starfsmanna eða foreldrum barnanna.

 

Í ákvörðunum skólans, dags. 10. desember 2021 og 27. maí 2022, var kæranda bent á að hægt væri að hafa samband við fræðslusvið Kópavogsbæjar ef kærandi væri ósátt við úrvinnslu eða niðurstöðu málsins. Kærandi leitaði til Kópavogsbæjar þann 25. janúar 2022. Í svari Kópavogsbæjar til kæranda, dags. 3. febrúar 2022, kemur fram að Waldorfskóli sé einkarekinn grunnskóli sem heyri ekki undir sveitarfélagið Kópavogsbæ. Sveitarfélagið hafi hvorki boðvald yfir skólanum né stjórn á innritun í skólann.  

 

V.

Rökstuðningur niðurstöðu

Waldorfskóli í Lækjarbotnum er sjálfstætt rekinn grunnskóli sem starfar samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008, sbr. X. kafla laganna. Mál þetta lýtur að synjun á umsóknum um innritun í skólann en slíkar ákvarðanir eru kæranlegar til mennta- og barnamálaráðuneytis, sbr. 47. gr. laga um grunnskóla.

Innritun í sjálfstætt rekinn grunnskóla er háð frjálsu vali foreldra, fyrir hönd barna sinna, nema annað leiði af þjónustusamningi, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga um grunnskóla. Sveitarfélag, þar sem skóli starfar, skal gera þjónustusamning um rekstur skólans við rekstraraðila, sbr. 1. mgr. 43. gr. a. laga um grunnskóla, og skal sá samningur að minnsta kosti fjalla um atriði sem talin eru upp í 4. mgr. 43. gr. a. sömu laga. Í 8. tölul. 4. mgr. 43. gr. a. kemur fram að í þjónustusamningi sveitarfélags og sjálfstætt rekinna grunnskóla skuli fjalla um innritun nemenda. Skólastjórar sjálfstætt rekinna grunnskóla annast innritun nemenda nema í þjónustusamningi sé ákveðið að sveitarfélagið annist innritun, sbr. 5. tölul. 43. gr. d. laga um grunnskóla. Þá kemur fram í 7. tölul. 43. gr. d. að stjórn lögaðila skuli setja almennar reglur um ákvarðanir skv. 5. tölul. og birta þær opinberlega á vefsíðu skólans. Í greinargerð með frumvarpi til breytinga á lögum um grunnskóla, sem varð að lögum nr. 76/2016, segir að í þessu felst að viðkomandi skóli hefur sjálfur ákveðið val um það við hvaða forsendur hann miðar við innritun nemenda, við ákvörðun um umsóknarfresti og því um líkt. Það verður hins vegar einnig að tryggja það, eftir atvikum í þjónustusamningi og svo í viðeigandi innritunarreglum, að fullnægt sé almennum reglum grunnskólalaga og aðalnámskrár, svo sem um jafnrétti til náms og skóla án aðgreiningar. 

Af framangreindu leiðir að þótt innritun í sjálfstætt rekinn grunnskóla sé háð frjálsu vali foreldra, fyrir hönd barna sinna, marka lög um grunnskóla ákveðinn ramma utan um innritun nemenda í slíka skóla. Með gerð þjónustusamninga tekur sveitarfélag, þar sem skólinn starfar, ábyrgð á því að tryggja að innritun nemenda í sjálfstætt rekinn grunnskóla sé í samræmi við almennar reglur skv. 7. tölul. 43. gr. d. laga um grunnskóla.

Í samræmi við framangreindar reglur er kveðið á um í þjónustusamningi skólans við Kópavogsbæ að Waldorfskóli í Lækjarbotnum annist innritun nemenda og að skólinn skuli setja sér innritunarreglur. Innritunarreglur Waldorfskóla í Lækjarbotnum, ódagsettar, eru aðgengilegar á vefsvæði skólans.

Í innritunarreglum Waldorfskóla í Lækjarbotnum segir að innritun sé háð eftirfarandi skilyrðum: að laus pláss séu í bekkjarárgangi barns, að innritunarnefnd metur álag í bekk viðunandi fyrir velferð barnsins og að skólinn geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart þörfum barnsins, og mætt námslegum og félagslegum þörfum barnsins út frá aðstæðum og möguleikum í skólanum. Inntökunefnd skólans metur umsóknina og leggur fyrir tillögur um innritun hjá starfsmannaráði til samþykkis. Tillögur inntökunefndar til starfsmannaráðs skulu taka mið af: fyrirliggjandi upplýsingum, s.s. umsögnum frá skólum, greiningargögnum og inntökuviðtali ef við á, félags- og námsstöðu og líðan í skóla og mat á þörf fyrir skólaþjónustu að fengnu samþykki foreldra. Starfsmannaráð tekur ákvörðun um samþykki eða synjun umsókna á grundvelli tillagna inntökunefndar enda hafi nefndin tekið mið af ofangreindum skilyrðum.

Í ljósi 8. tölul. 4. mgr. 43. gr. a. laga um grunnskóla og þeirrar skyldu sem lögð er á Waldorfskólann í Lækjarbotnum í þjónustusamningi skólans við Kópavog er það afstaða mennta- og barnamálaráðuneytis að skólanum beri að taka ákvarðanir um innritun í samræmi við eigin innritunarreglur. Í hinni kærðu ákvörðun er hvorki vísað til þeirra skilyrða sem koma fram í innritunarreglum skólans né þeirra upplýsinga sem þar er mælt fyrir um að ákvörðun um innritun sé byggð á. Í ljósi skyldu skólans til að fara eftir eigin innritunarreglum er það niðurstaða mennta- og barnamálaráðuneytis að ákvörðun Waldorfskóla í Lækjarbotnum, dags. 27. maí 2022, um synjun á umsókn um skólavist þriggja nemenda hafi ekki verið í samræmi við lög.

Eins og fjallað hefur verið um hér að framan leitaði kærandi til Kópavogsbæjar eftir að Waldorfsskólinn í Lækjarbotnum tók hina kærðu ákvörðun. Í svörum sveitarfélagsins til kæranda kemur fram sú afstaða að Kópavogsbæ skorti heimild til þess að bregðast við erindinu. Sömu sjónarmið koma fram í bréfi Kópavogsbæjar, dags. 5. júlí 2022, til mennta- og barnamálaráðuneytis vegna máls þessa. Af þessu tilefni bendir mennta- og barnamálaráðuneytið á að samkvæmt 1. mgr. 43. gr. a. laga um grunnskóla felur þjónustusamningur milli sveitarfélags og sjálfstætt rekins grunnskóla í sér skuldbindingu sveitarfélags til að hafa eftirlit með starfsemi skólans. Þá kemur m.a. fram í 5. gr. reglugerðar nr. 699/2012, um inntak þjónustusamninga sveitarfélaga við rekstraraðila, að fjalla skuli um í þjónustusamningi mat og eftirlit sveitarfélags með starfsemi skólans, upplýsingagjöf um skólahaldið og réttindi og skyldur samningsaðila til að tryggja lögbundna þjónustu við nemendur. Samkvæmt framansögðu hafa sveitarfélög lögbundna eftirlitsskyldu með sjálfstætt reknum grunnskólum sem þau hafa gert þjónustusamninga við og ber skylda til að tryggja að þjónustusamningar við skóla séu þannig úr garði gerðir að hægt sé að tryggja eftirfylgni með þeim þáttum sem eftirlit sveitarfélagsins nær til. Í ljósi atvika málsins er það mat mennta- og barnamálaráðuneytisins að Kópavogsbær hafi ekki uppfyllt eftirlitsskyldur sínar gagnvart Waldorfsskólanum í Lækjarbotnum vegna máls kæranda. Lagt er fyrir sveitarfélagið Kópavogsbæ að hafa ofangreind eftirlitshlutverk í huga vegna starfsemi sjálfstætt rekinna grunnskóla sem sveitarfélagið hefur gert þjónustusamninga við og erinda sem sveitarfélaginu kann að berast vegna þeirra. 

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Lagt er fyrir Waldorfskólann í Lækjarbotnum að taka umsóknir kæranda um skólavist fyrir börn hans til meðferðar að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Waldorfskóla í Lækjarbotnum um synjun á umsóknum um skólavist er felld úr gildi.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum